„Ertu pera?“ ..

Þessi pistill er „endurunninn“  frá 2011,  en þá var hann  birtur í Pressunni.  Kominn tími til að færa hann á heimaslóðir – og endurbirta – ekki síst vegna umræðunnar um klæðnað kvenna og kvenfrelsi.

Tannlæknastofan sem ég sæki er þeim kostum gædd að vera með þokkalega ný tímarit til skoðunar. Það er t.d. munurinn á henni og á heilsugæslustöðinni, þar sem liggja snjáðar Vikur, eflaust sýktar öllum mögulegum sjúkdómum, þar sem  á forsíðu trónir fólk sem er að lýsa yfir ævarandi ást, en er löngu skilið, kona sem missti 20 kíló, en er löngu búin að bæta þeim á sig aftur og þar fram eftir götum.
Nei, hjá tannlækninum eru timaritin “up to date” ..
Í einu þeirra rakst ég á leiðbeiningar hvernig á að klæða af sér vöxtinn sinn. Hvað er það?
Ég veit alveg að við samþykkjum þetta, en hvað er það í raun og veru?
Eigum við öll að vera piparkökukellingin í sama mótinu?
“Ef þú ert epli, þá áttu að nota svona kjól,” og ef þú ert pera klæðir þú þig í blablablabla…
Hvað er að því að vera pera? Eða með peruvöxt? Það er í raun alveg merkilegt hvernig við höfum sett upp staðalímyndir fyrir hvað er fallegt og hvað ekki. Að vera pera á að tákna að mjaðmirnar á þér eru breiðari en efri búkurinn og lærin kannski svolítið breið líka. Það skal tekið fram að ég er ekki sérfræðingur í þessum greiningum.
Hvenær byrjar þetta mat á líkamanum?  Ekki þegar barnið fæðist, það eitt er víst. Það sem leitað er eftir þá er hvort að barnið er heilbrigt, með allar tær og fingur, andar eðlilega og grætur – og svo er tékkað hvort að um stelpu eða strák sé að ræða.
Það ætti að vera nóg.
Hugsa sér ef barnið færi strax í útlitsmat, “æ, hvernig á ég að klæða það svo að bumban verði minna sýnileg” .. (fátt er nú sætara en bumban á barni reyndar)..
Epli, banani eða pera, eða hvernig sem þetta nú allt er metið er hluti af fjölbreytileikanum og honum ættum við að fagna, en ekki reyna að steypa alla í sama mótið.
Systurnar í ævintýrinu um Öskubusku pössuðu ekki í skóinn, og þurftu að sníða af sér tá og hæl til að verða eiginkona prinsins.  Það var þá væntanlega ekki mjög prinsessulegt eða æskilegt heldur að vera með stórar fætur? Það vissu þeir líka í Kína.
Lína Langsokkur gaf þessu aftur á móti langt nef og klæddist skóm með auka rými fyrir tærnar. Húrra fyrir Línu Langsokk!
Hvaða ástæðu höfum við fyrir því að þurfa að sníða af okkur tærnar, hælana,  perubotninn, eða eplamagann? ..
Bara spekúlasjón!

Til þín, sem finnst þú vera að missa af lestinni … (lífinu) ..

Stundum detta inn á Facebook pistlar sem ég hreinlega fæ þörf fyrir að þýða og deila. Þeir eru það mikilvægir.  Höfundur þessa heitir Jamie Varon,  og ég set hlekk á pistilinn á frummálinu í lok þessa.

Þessi pistill er mjög í anda þess sem stendur í Biblíunni – nánar til tekið í Prédikaranum – þar sem niðurstaðan er „Etið, drekkið og verið glöð“ ..  „Allt hefur sinn tíma undir sólinni“  „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum, – morgundagurinn hefur sínar áhyggjur“  .. og fleiri kaflar,  m.a. um áhyggjuleysi fuglanna og liljur vallarins sem vaxa ..  Þetta er svona í anda  „Don´t worry be happy“ ..  🙂

Pistillinn sem kemur hér á eftir er eins og áður sagði eftir Jamie Varon í minni þýðingu.  (Gerði mitt besta)

„Þú þarft ekki fleiri  hvatningafyrirlestra.  Þú þarft ekki innblástur til að gera eitthvað.  Þú þarft ekki að lesa fleiri lista og pósta um það að þú sért ekki að gera nógu mikið.

Við látum eins og að ef við lesum nógu mikið af greinum og gullkornum – þá allt í einu kvikni á litla rofanum í heilanum á okkur sem kemur okkur í gírinn.  En hér ætla ég að skrifa um sannleikann   sem eiginlega engin/n talar um – þegar að kemur að hvatningu eða árangri – og viljastyrk, markmiðum og framleiðni –  og allar þessar kveikjur (buzzwords) sem hafa orðið vinsælar:  Þú ert það sem þú ert – þangað til að þú ert það ekki.  Þú breytist þegar þú vilt breyta.  Þú framkvæmir hugmyndir þínar þegar rétti tíminn kemur.  Það er þannig sem það gerist.

 

Og það sem ég tel að við þurfum öll meira á að halda en nokkuð annað er leyfi til að vera hvar í fjandanum sem við erum þegar við erum þar. 

 

Þú ert ekki vélmenni.  Þú getur ekki búið þér til hvatningu þegar þú hefur hana ekki.  Stundum ertu að fara í gegnum eitthvað.  Stundum er lífið að gerast.  Lífið!
Manstu lífið?  Já, það kennir þér hluti og lætur þig stundum fara lengri leiðina til að læra stærstu lexíuna.

Þú færð ekki að stjórna öllu.  Þú getur vaknað klukkan fimm að morgni á hverjum morgni, þangað til þú ert þreytt/ur og brotin/n,  en ef að orðin eða listaverkið eða hugmyndirnar vilja ekki fæðast,  gerist það ekki.   Þú getur mætt hverjum degi uppfull/ur af góðum fyrirætlunum, en ef að tíminn er ekki réttur,  er það bara ekki rétti tíminn.  Þú þarft að gefa þér leyfi til að vera manneskja.

“If it’s not the time, it’s just not the fucking time. You need to give yourself permission to be a human being.”

Stundum er sagan ekki tilbúin til að vera sögð eða rituð,  vegna þess að þú hefur ekki enn hitt karakterinn sem verður þér innblástur.  Stundum þarftu tveggja ára lífsreynslu í viðbót áður en þú getur skapað  meistaraverkið þitt – eitthvað sem þú upplifir rauverulegt, satt og ferskt  fyrir annað fólk.

Stundum ertu ekkert tilbúin/n til að verða ástfangin/n – vegna þess að það sem þú verður að vita um sjálfa/n þig er einungis hægt að skynja  í gegnum einveru.  Stundum hefur þú ekki hitt næsta samverkamann.   Stundum er sorgin allsráðandi, vegna þess að einn dag mun hún verða ópusinn – sem þú byggir líf þitt á.

.Við vitum þetta öll.   Það er ekki alltaf hægt að stjórna reynslu sinni.   Samt látum við eins og við vitum ekki sannleikann.  Við hömumst við að stjórna og þvinga fram lífið okkar,  að gera sköpun að leik sem við leikum til sigurs,  til að stytta okkur leið – að árangri – vegna þess að aðrir segjast hafa náð honum, –  að ganga í gegnum tilfinningar og óvissu eins og það sé bein braut – en ekki  ferðalag án krókaleiða.

(Bæti hér inn í að það er eins og munurinn á að fara Hvalfjarðargöngin og aka Hvalfjörðinn – sumt er ekki hægt að sjá eða upplifa í göngunum – eins og ef við ökum lengri leiðina  innskot þýðanda).

Þú fattar ekki leikflétturnar  í lífi þínu.  Þú bara gerir það ekki.  Þú færð ekki að stjórna öllum niðurstöðum og viðfangsefnum – þannig að þú sleppir við alla óvissu og óáreiðanleika einhvers sem liggur fyrir ofan þinn skilning.

(Þú færð ekki alltaf að vita hvað er hinum megin við hornið).

Það er grunnur viðverunnar að koma fram eins og þú ert á þessari stundu og láta það vera nóg.

Samt sem áður hegðum við okkur ekki þannig.  Við fyllum hverja stund með aðferðafræðiverkfærum  – og lesum lista yfir 30 hluti sem eiga að keyra áfram okkar náttúruega mannlega eðli.   Við viljum oft gleyma að við erum eins og við erum þangað til að við erum það ekki.  Við erum þau sömu þangað til að við breytumst.

Við getum tekið það örlítið lengra,  með því að leggja fram okkar heilbrigðu siði eða vana – og að mæta í lífið okkar – svona svipað og skógurinn vex,  en það er ekki hægt að leika með tímann.

Tíminn er sá hlutur sem við gleymum oft að lýsa okkur vanmáttug gegn. 

Hlutir eru dimmir – þangað til þeir eru það ekki.  Langmest af óhamingju okkar á rætur að rekja til þess að líf okkar ætti að vera öðru vísi en það er.  Við höldum að við höfum stjórn – og sjálfshatrið og sjálfsfyrirlitningin kemur frá þessari hugmynd að við ætum að geta breytt aðstæðum okkar,  að við ættum að vera ríkari, flottari eða jafnvel hamingjusamari!

Þó að sjálfsábyrgð sé valdeflandi,  getur hún oft kallað fram þessa gremju og biturð – sem ekkert okkar þarf á að halda.  Við gerum okkar besta og – og gefum okkur svo leyfi til að láta það gerast sem gerist –  og ekki vera svona viðkvæm og háð útkomunni.   Tækifærin birtast ekki alltaf eins og við höldum að þau geri.

Þú þarft ekki meiri hvatningu eða innblástur til að skapa þér líf sem þú vilt.  Þú þarft minna af skömm – yfir hugmyndinni að þú sért ekki að gera þitt besta.  Þú þarft að hætta að hlusta á fólk sem eru í öðrum kringumstæðum og á öðrum stað í lífinu – og eru að segja þér að þú sért ekki að gera nóg – eða sért ekki nóg!

Þú þarft að leyfa tímanum að gera það sem hann þarf að gera.  Þú þarft að sjá lærdóm þar sem þú sérð hindranir.  Þú þarft að skilja að það sem er akkúrat  stundin núna  verður innblástur síðar.  Þú þarft að sjá að þar sem þú ert núna verður hluti sjálfsmyndar þinnar síðar.

 

“There’s a magic beyond us that works in ways we can’t understand. We can’t game it. We can’t 10-point list it. We can’t control it.”

 

Stundum erum við ekki tilbúin til að taka á móti því sem okkur langar í.   Stundum þurfum við að leyfa okkur að þroskast  á þann stað sem við getum leyft því sem á að koma birtast.

Við skulum bara segja að það sem þig langar í, langar þig nógu mikið í.  Svo mikið að þú ert að láta þér líða illa svo þú eignist það?  –  Hvað með að slaka aðeins á?  – Kannski er hvatningin þín ekki vandamálið,  heldur það að þú ert að ýta hnullungi upp fjallið – sem bara stækkar eftir því meira sem þú ýtir.

(Vandinn verður meiri eftir því sem þú rembist meira).

„Það er eitthvað miklu stærra og æðra – töfrar sem okkur er ekki ætlað að skilja.  Við getum ekki sett það upp sem leik.  Við getum ekki sett það upp í tíu  atriða lista. Okkur er ekki ætlað að stjórna því.

Við verðum bara að láta það vera – taka skref aftur á bak um stund,  hætta að brjóta okkur niður og leyfa tannhjólunum að snúast sjálfkrafa.    Einn daginn muntu skilja þessa stund – hún mun „meika sens“    Treystu því.

Gefðu þér leyfit til að treysta því.

Hér er hlekkur á pistilinn á frummálinu.  

Þú ert alltaf á réttum stað á réttum tíma ….

LetItBe_2013

Faðmlag eða kex?

Nýlega hefur komið fram, eða það hefur alla veganna vakið mína athygli nýlega,  að fíkn sé skortur á tengingu. –   Það er þá væntanlega tenging við aðra og einnig við okkur sjálf – eða við tilfinningar okkar.

Ég get gefið lítið dæmi um hvernig þessi aftenging virkar.

Lítil stelpa var að koma í pössun til ömmu.   Pabbi hennar var nýbúinn að sækja hana á leikskólann – og það var upphafið á „pabbaviku“  svo hún hafði ekki séð föður sinn í heila viku.   Pabbi þurfti að fara á fund, og þess vegna var sú stutta komin til ömmu, sem henni þótti svona dags daglega mjög gaman að koma til,  en í þetta skiptið grét hún þegar pabbi fór. –    Amma fór strax að hugsa hvernig hún ætti að róa barnið og ætlaði að fara að bjóða henni kex.

En var litla stelpan svöng? –    Var hún að gráta út af því, eða vegna þess að hana vantaði eitthvað sætt?    Nei,  hún var að gráta vegna þess að hana  langaði að vera með pabba sínum.  –   Amma tók hana því í fangið, hélt þéttingsfast utan um hana og sagði:  „Pabbi kemur bráðum aftur,  – á meðan ætlar amma að vera með þér og passa þig – þú mátt alveg gráta smá hjá ömmu“ ..

Hvað gerum við þegar við erum fullorðin? –   Þegar við söknum?   Þegar við erum leið?   Sækjum við kex,  eða leitum við í faðmlag?    Stundum er engin/n til að faðma,  – en við getum alla veganna staldrað við og spurt okkur,  „hvaða tilfinningu er ég að finna?“  er ég að finna hungur í mat,  áfengi,  – hungur í fjarveru frá tilfinningum mínum? ..

Er allt í lagi að gráta?

Það er þá gott að vera til staðar fyrir sjálfa/n sig, – og segja,   „ég skil þig – og ég er með þér“ … og vefja sig örmum í kærleika og með því að vera til staðar fyrir sitt innra barn, –  sína innri stelpu – eða innri strák.  (Æ við erum svo mikil krútt).

Sjálf hef ég þörf fyrir eitthvað æðra,  sem sumir kalla æðri mátt, – en aðrir Guð.   Eitthvað umfaðmandi afl,  en það fer hver sína leið og hver finnur sína þörf.   Það er þó mikilvægt að muna að Guð er ekki kex.  

 

p.s. auðvitað er sagan af litlu stelpunni og ömmunni úr mínum eigin reynslubanka.  🙂

image

 

Halldór Hartmannsson 1942 – 2016.

Mig langar að skrifa hér örfá orð um mætan mann,  sem ég kynntist þegar ég hóf störf á Sólheimum í nóvember 2014.  Mann sem nú er fallinn frá  en það er hann Halldór Hartmannsson,  sem ég þekkti í raun aldrei undir öðru nafni en Dóri,  og um leið kynntist ég Maríu Jacobs, eða Mæju konunni hans og núverandi vinkonu minni.  Mæja og Dóri voru alltaf nefnd í sömu andránni,  enda voru þau einstaklega samhent og samrýnd hjón sem áttu fallegt samband og einhvern tímann sagði hún Mæja mér að þau rifust aldrei – og það er nú meira en sagt er um marga!

Dóri, ásamt Mæju sinni,  var virkur í félagsstarfi, söngmaður mikill og naut sín bæði í Sólheimakórnum og í söng í messum.  Það sem var kannski mest áberandi var hvað hann var mikill „nagli“ þ.e.a.s. að eflaust hefur hann verið orðinn mjög veikur,  en tók t.d. þátt í uppfærslu Sólheimaleikhússins á Galdrakarlinum í OZ þar sem þau Mæja léku frænku og frænda Dórótheu og gerðu það eftirminnilega.

14107686_328117674190773_5455706663194168510_o

Eitt ferðalag sem við áttum saman, er mér minnistætt, það var  þegar við sóttum jarðarför til Reykjavíkur þar sem ég var bílstjóri á þeirra bíl.    Á heimleiðinni þurfti ég að taka með mér hundinn hennar dóttur minnar,  og þau sögðu það nú ekki vanda! – Hann sat mest allan tímann í fangi Mæju, í framsætinu,  en við og við hoppaði hann aftur í til Dóra sem hló við bægslaganginn – og það var ekki verið að pirra sig!   Það má eiginlega segja að elsku Dóri hafi brosað fram á síðasta dag,  jafnvel í gegnum sársauka og verki.
Þrátt fyrir að starfi mínu lyki á Sólheimum,  þá lauk ekki vináttunni.    Ég náði að heimsækja Dóra nokkrum sinnum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem hann lá við gott atlæti síðustu vikurnar í sínu lífi og þar sem hann  hældi starfsfólki,  og þrátt fyrir að vera orðinn eins veikur og raun bar vitni – þá var stutt í húmorinn og brosið.  En nú er komið að kveðjustund og hugur minn hjá Mæju minni sem hefur misst mikið, en hefur staðið sterk í mótlæti en hún hefur m.a. þakkað það því góða fólki sem á Sólheimum býr og starfar,  en hún má vita að hún á það margfalt skilið miðað við hvað hún hefur verið natin við allt og alla.   Alltaf tilbúin að veita hjálparhönd – eða prjóna eitthvað fallegt og gefa,  og þar stóð Dóri með henni.

14192126_10209323868467476_1526708873670473247_n

Elsku Mæja og fjölskylda Dóra,  ég votta ykkur innilega samúð og Guð styrki ykkur.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson)

Jóhanna Magnúsdóttir

„Gaslighting“ .. hefur þú lent í því? ..

Hefur þú heyrt af hugtaki sem kallað er  ‘gaslighting?“ – eða gasljósun.   Það er mjög mikilvægt að átta sig á þegar fólk beitir þessum aðferðum,  – til að geta brugðist við á heilbrigðan hátt og vera meðvituð þegar þessu er beitt.

„Nafnið  „Gaslighting“ er fengið úr leikritinu Gas Light, frá 1938, sem seinna voru gerðar kvikmyndir eftir. Leikritið fjallar um eiginmann sem reynir að gera konu sína vitfirrta með því t.d. að færa til hluti á heimilinu og halda því fram hana misminni eða hún taki feil þegar hún nefnir breytingarnar. Titillinn vísar til þess að eiginmaðurinn dimmir gasljósin á heimilinu smám saman og reynir að telja konu sinni trú um að slíkt sé alls ekki raunin heldur sé hún að ímynda sér þetta.“  (Harpa Hreinsdóttir)

Ég mun nota íslenska orðið gasljósun,  sá sem beitir gasljósun  um ofbeldismanninn, og að gaslýsa sem sögn.

Það eru miklir möguleikar á því að við höfum orðið fyrir þessu án þess að við höfum gert okkur grein fyrir því.

Þetta getur verið í alls konar samskiptum,  ekki bara samskiptum hjóna – heldur líka á vinnustað eða í samskiptum foreldris og barns.  Svo dæmi séu tekin.

Gasljósun –   er þegar einhver kemur illa fram,  gerir hluti sem valda uppnámi eða pirringi,  eða telur annari manneskju trú um að sá raunveruleiki sem blasir við henni sé falskur.

Markmið þess að nota  gasljósun  er að láta einhverjum líða eins og þeir séu að missa vitið,  verði svo „klikkaðir“  að þeir hætti að treysta á eigin skilningarvit og dómgreind- og mátt til að hugsa sjálfstætt.

Það er mikilvægt að vita hvenær verið er að beita okkur þessum áhrifum og einnig þegar verið er að gera það við aðra.  Hér eru fimm viðvörunarmerki að þú sért fórnarlamb.

Afsakanir.

Þegar persóna hefur verið beitt gasljósun nógu lengi og vel – fer hún í stöðugan afsökunargír, vegna þess að henni finnst eins og allt sem hún sé að gera sé vitlaust.

Það er vegna þess að sá sem beitir gasljósun  setur sökina alltaf á fórnarlamb sitt,  og viðurkennir aldrei að vandinn sé hans eigins.   Fórnarlömb gasljóslunar – fara oft að afsaka það sem þeir raunverulega gerðu aldrei – og eru ekki að gera.

.Baráttan við að taka ákvarðanir. 

Fórnarlömb gasljósunar –  eru svo  týnd í því sem er að gerast í lífi þeirra – svo þau eru oft of hrædd til að taka ákvarðanir.   Allt sem þau hafa valið hingað til,  hefur verið gert lítið úr eða ógilt af þeim sem beitti gasljósun  í lífi þeirra,   svo þau geta ekki geta tekið neina heilbrigða ákvörðun.

Það er það sem sá sem beitir gasljósun vill,  svo hann geti notfært sér þessa manneskju og tekið ákvarðanir fyrir hana.

Breyting á fórnarlambinu.

Þegar að manneskja lifir við gasljósun  í langan tíma,  komum við til með að sjá persónuleika hennar breytast, hegðun og siði.   Breytingarnar geta verið hægar,  en verða mjög augljósar þegar hún fer að skoða hvernig hún var áður, áður en þessi eitraði, stjórnsami kúgari kom inn í líf þeirra.

Stöðugt ráðvillt. 

Fórnarlömb gasljósunar   hafa upplifað það að  efast er um þeirra raunveruleika – og gert lítið úr honum,   svo þau eiga erfitt með að hafa trú á sjálfum sér.   Þau efast um hugsanir sínar,  svo að þeirra náttúrulega innsæi dugar ekki til að hafa áhrif á heilbrigðar ákvarðanatökur.   Sá sem beitir gaslýsingu notar þetta ástand fórnarlambsins sem aðferð til að stjórna því.   Fórnarlambið veit oft að það er eitthvað að en skilur ekki hvað það er.  (Og auðvitað búið að telja því trú að það sé eitthvað að því).

Þau draga sig í hlé. 

Þegar búið er að beita gasljósun nógu mikið og lengi,  fer fórnarlambið að draga sig í hlé frá umheiminum,  vegna þess einfaldlega að það upplifir sig svo einangrað frá eigin tilveru.  Það getur ekki átt eðlileg félagsleg samskipti – þar sem það upplifir sig öruggari  þegar það  er eitt en með nokkrum öðrum.

Það er nákvæmlega það sem ofbeldismaðurinn vill,  að einangra þessa manneskju svo hún leiti ekki í félagsskap út á við – hvað þá að leita hjálpar út á við.

(Það er auðvitað búið að telja henni trú a allir hinir séu vitleysingar!) ..

Þessi grein er þýðing á grein sem hægt er að lesa ef smellt er HÉR  en þar er hún á ensku.   Allt nema innskotið um Gaslighting sem ég sá á bloggi Hörpu Hreinsdóttur um siðblindu.  en að sjálfsögðu hlýtur sá sem notar þessa aðferð að vera siðblindur en ekki hvað?

Ef  þú upplifir að þú sért fórnarlamb „gasljósunar“ –  eða þekkir einhvern í þeirri stöðu,   hafðu endilega samband við sálfræðing,  eða annan  meðferðaraðila til að hjálpa þér að komast úr þessum aðstæðum, eða kenna þér að bregðast við.

p.s. það er mikilvægt að við gerum ekki lítið úr upplifun barna –  þegar barn segir:   „Mér er illt“ ..   þá má ekki segja:  „Þér er ekkert illt“ .. því hvað er það annað en að kenna barni að efast um tilfinningar sínar? ..   og hvað gerist þá þegar þetta barn er orðin fullorðin manneskja?    lengi býr að fyrstu gerð!! . .

Mæli með þessum fyrirlestri til að skilja þetta enn betur:

gaslighting-with-quotes.png

Eru áhyggjur hreyfiafl til góðs? .. prédikun í Skálholtsdómkirkju 4. september 2016

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og drottni Jesú Kristi.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt – og vit til að greina þar á milli! 

Þessi bæn kallast æðruleysisbænin, og er eftir Reinhold Niebuhr –  Margir telja að æðruleysi sé andstæðan við áhyggjur,  og var eitt af því sem nefnt var þegar ég spurði bæði lærða og leika hvað þeir teldi andstæðuna við áhyggjur – og jafnframt hvaða tilfinning það væri sem við upplifðum – í áhyggjuleysi.

Sumir sögðust upplifa frelsi og aðrir innri frið,  sem er í raun náskylt því að upplifa æðruleysi.

Hvað ef við skiptum út æðruleysinu fyrir áhyggjur – þá myndi bænin hefjast þannig:

„Guð gefi mér áhyggjur …..“

Það er nokkuð víst að það er enginn sem biður Guð um auknar áhyggjur.

Orðið áhyggjur og áhyggjufull er áberandi í guðspjallstexta dagsins –  og það var í raun hugheystandi fyrir mig,  sem var að fara að flytja mína fyrstu messu í Skálholtsdómkirkju, sem sóknarprestur í afleysingum að fletta upp guðspjallstexta dagsins.  Ég hugsaði með mér:  „Ah .. Guð er að segja mér að hafa ekki áhyggjur – þetta verður þá „áhyggjulaus messa“   J   ..    Ég vænti að við séum öll sammála því að áhyggjur eru óæskilegar og þær eru ekki það hreyfiafl sem til dæmis gleðin – eða trúin er.

Við aukum ekki spönn við æfi okkar með því að hafa áhyggjur!

Áhyggjur eru hugsanir sem virka sem hindranir.   Áhyggjur eru af sama meiði og óttinn – og við heyrum oft talað um að andstæðan við óttann sé elskan. –   Þegar við erum full af ótta,  þá kemst elskan ekki að.    Í fyrsta Jóhannesarbréfi stendur:   „Ótti er ekki í elskunni, heldur útrekur fullkomin elska óttann“ …      Þannig að næst þegar við byrjum að hafa áhyggjur eða óttast,  þá ættum við kannski að prófa að skipta út þessari hugsun  óttahugsun  –  og hleypa kærleikanum að,  því það liggur í orðanna hljóðan að þegar við eru full af áhyggjum – eða áhyggjufull eins og við köllum það,  þá kemst nú varla annað að.    En „galdurinn“  er auðvitað að um leið og við skiptum um fókus – við t.d. hugsum „Ljós“ – „kærleikur“ –   við hugsum  Guð – við hugsum Jesús,  hvað verður um allt sem við vorum að pína okkur sjálf með og draga okkur niður með í þessu kviksyndi neikvæðra hugsana? –    Það hverfur eins og við höfum kveikt á ljósaperu,  og það er ekki lengur myrkur!

Það er til  saga af afar áhyggjufullri fjölskyldu – og hvernig hún uppskar í sínu lífi,  eða uppskar ekki:     Þetta er gamaldags saga,  – úr sveit,  – ég veit ekki hvaðan hún er eða hver samdi hana,  kannski vitið þið það og megið segja mér það á eftir,   en ég heyrði hana á förnum vegi – og finnst hún eiga erindi í dag.  –   Þessi áhyggjufulla fjölskylda samanstóð af rosknum hjónum og gjafvaxta dóttur – og þau voru farin að hafa áhyggjur af því að enginn væri unnustinn.    En dag einn kom aðkomumaður – nokkuð myndarlegur bara og  bað bóndann um hönd dótturinnar.  (Það er enginn nútíma feminismi í þessari sögu – geymum hann til betri tíma).   –   Hjónin sem voru orðin lúin og vildu gjarnan sjá dóttur sína í hjónabandi,  tóku unga manninum vel – og  ákváðu að bjóða honum upp á öl til að fagna trúlofuninni.  Ölið var geymt í kjallaranum og stungu þau upp á að dóttirin færi í kjallarann að sækja ölið.   Það leið og beið og ekki kom dóttirin til baka.  Þá fór móðirin að huga að henni,  en ekki kom hún aftur.  Húsbóndinn sá sér þann kost vænstan að athuga með mæðgurnar,  –  og það sama var uppi á teningnum.  Vonbiðillinn sat nú einn í eldhúsinu og var orðinn bæði hissa og þurrbrjósta,  svo hann ákvað að fara að kanna málið sjálfur.    –  Hann kom að þar sem þrjár manneskjur – sátu hágrátandi í kjallaratröppunum.  –    Hann spurði hvað ylli þessari miklu hryggð,  en þá sagði unga konan að hún hefði verið á leiðinni niður í kjallara og séð þar öxi slútandi niður og fór að hugsa að ef þau myndu giftast – og ef þau eignuðust son   og svo þegar sonurinn yxi úr grasi og færi að heimsækja ömmu og afa – og sækja fyrir þau öl,  þá myndi öxin kannski detta niður á hann og hann deyja. –  Allt þetta sagði hún á milli ekkasoganna – og foreldrar hennar orguðu henni til samlætis,    þau voru yfirkomin af ótta  – og einhvers konar fyrirfram  sorg yfir því sem mögulega – kannski gæti gerst í ókominni framtíð.    –   Vonbiðillinn leit upp í loft –  teygði sig í  öxina og tók niður og sagði svo,  – ég er hættur við bónorðið,  og flýtti sér í burtu.

Þessi saga er mjög ýkt  – en lýsir mjög vel þegar eitthvað er ofhugsað – eða áhyggjur bera okkur ofurliði.     Það er ekki alltaf sem hægt er að fjarlægja öxina.  En öxin gæti svo vel verið táknræn fyrir eitthvað sem við óttumst – eða höfum áhyggjur af.

 

Þessi fjölskylda óttaðist dauðann – og það gera margir.  En ef við værum alla daga að hugsa um dauðann,  eða hafa áhyggjur af honum, –  þá sætum við eflaust bara eins og þessi fjölskylda – stjörf af ótta og hágrétum – vegna þess að einhvern daginn myndi öxin falla.

Í 23. Davíðssálmi,   segir:  „Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt.“  –  Þessi  þessi dimmi dalur – er stundum þýddur sem  „Dauðans skugga dalur“   og hvað er dauðans skugga dalur annað en lífið okkar ? ..  dimman hlýst af skugganum sem dauðinn varpar á lífið.    Við fjarlægjum ekki dauðann.   Hann er þarna alltaf.   En svo heldur textinn áfram:  „Ég óttast ekkert illt,  því þú ert hjá mér“ ..      Drottinn er hirðirinn sem er hjá okkur – og það er engin ástæða að óttast því við erum alltaf með Drottni.  –    Ótti skv. þessu er því hreinlega skortur á trú.   –

Skilaboðin eru að treysta – sama hvað á gengur.

Í upphafi guðspjallstextans – er talað um að ekki sé hægt að þjóna tveimur herrum.  Guði og mammón.  –  Og það er ekki heldur hægt að þjóna eða tileinka sér bæði Ótta og Elsku,  því eins og áður sagði þá er enginn ótti í elskunni.   Það er engin hálfvelgja í boði.   Hún dugar að minnsta kosti ekki.

Við getum hlegið að  fjölskyldunn sem sat og grét undir öxinni, –  en það er líka gott að muna eftir þeim,  næst þegar við förum í sjálfspyntingarhugsanir  – sem ræna okkur gleðinni og sem stela af okkur kærleikanum,   –  því þegar við hugsum hugsanir sem láta okkur líða illa,  þá að sjálfsögðu erum við ekki að elska okkur eða meðtaka kærleika.
Texti dagsins er eins og fyrirmynd að Núvitundarpælingum samtímans.   Að lifa og njóta núna –  en vera ekki komin langt fram í tímann – í hugsunum.   Jú kannski til að hlakka til og sjá fyrir sér eitthvað skemmtilegt – en alls ekki búa til framtíðarskrímsli.   Við eigum orðatiltækið „koma tímar – koma ráð“ og Danirnir segja:  „Den tid den sorg“ ..

Hvernig eigum við þá að fara að því að tileinka okkur þessa uppbyggilegu hugsun?  Hvernig eigum við að skipta út áhyggjum og ótta fyrir trausti og elsku?    Kannski að veita því athygli sem er hér og nú, –  í dag – en ekki á morgun.   Vera svolítið eins og fuglarnir og blómin.    Bara vera,  núna. –     Elska Guð og elska náungann eins og okkur sjálf.

Textarnir í sálmum dagsins fjalla meira og minna um það að treysta Guði, – og vináttu Jesú.  Þegar við sátum við eldhúsborðið á heimili Jóns organista, og völdum sálmana ræddum við líka hvað það væri áhyggjufrelsandi að syngja – og það væri í raun ákveðin sjálfsbjörg falin í því að syngja – því það er eiginlega vonlaust að vera í fýlu og syngja. –   Söngurinn og tónlistin er ein af mörgum gjöfum Guðs til okkar – til að létta okkur lífið og gera það fallegra.   Kannski er bara málið,  að næst þegar sækja að okkur sækja þungir þankar – eða áhyggjur að fara bara að syngja.   Jafnvel eins og Bobby Macferrin söng forðum daga:  „Don´t  Worry be happy“ ..

Það er gott að það komi eitt fram í lokin – vegna þess að margir gætu setið uppi með stíft tak á áhyggjunum –   það er óttinn við að sleppa áhyggjunum.   Að með því séum við of kærulaus og ekkert gerist.    Það er reginmisskilningur.  Áhyggjur og fyrirhyggja eru ekki sami hlutur.    Áhyggjur eru ekki hreyfiafl.  Þær eru einmitt  öfugt.  Þær virka oft lamandi eða í það minnsta hamlandi.   Það er miklu betra að ganga í verkin með gleði, sátt við það sem er og æðruleysi –  heldur en að ganga inn í þau með sligandi áhyggjupoka,   … ef við ætlum að komast áfram  ..

 

Elskum meira og óttumst minna,  sleppum og treystum Guði.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

14051623_10209194665757489_5562091429089796409_n