Sársaukinn við að horfa upp á sorg annarra ..

Ég hef upplifað sárustu sorg, – en um leið skynja ég viðbrögð þeirra sem í kringum mig eru.  Mínir nánustu eru að sjálfsögðu að upplifa sína sorg við sinn missi, börnin, systkinin, pabbinn, frænkur, frændur, amman, vinir, vinkonur o.s.frv. –

Það er stór sorg að missa, – og það er sorg sem kannski ekki oft er rædd, en það er sorgin við að horfa upp á þau sem manni þykir vænt um,  missa.

Viðbrögðin eru misjöfn, – flestir vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til að lina sorg hinna, upplifa sig vanmáttug, og óska þess að geta gert meira.

Í raun er svo lítið hægt að gera, bara vera. Vera til staðar og vera vinir í raun eins og þar stendur, og getur varla staðið skýrar.  „Vinir í raun.“ –

Ekki hverfa, ekki týnast  – en þó ekki reyna að fara að laga eða bæta eitthvað sem ekki er hægt að laga eða bæta.

Stundum kveikir sorg vina okkar á okkar eigin sorg.  Það er skýrast þegar við förum í jarðarför hjá einhverjum sem er okkur ekkert endilega mjög tengdur – kannski fullorðinn afi, langafi saddur lífdaga,  en tónlistin, andinn og allt tal í kirkjunni um dauðann, eilífa lífið – það kveikir upp og vekur upp sárar tilfinningar og það er þá bara um að gera að gráta þær og skammast sín ekkert fyrir það.

Ég hef heyrt í fólki sem skammast sín fyrir að gráta í jarðarförum hjá fólki sem þeim er ekkert mjög náið. –  Skömmumst okkur aldrei fyrir að gráta, því að gráturinn er gjöf.  Gráturinn er losun á sorg og erfiðleikum.

Það er sama hver á í hlut, þegar stórkostlega grimmir og sorglegir atburðir gerast, eins og nú nýlega þegar  móðir lést og skilur eftir sig fjögur börn, þá skiptir máli fyrir þau sem sinna þeim að þau þurfa að fá fyrirmynd gleði og jákvæðni líka.   Mér fannst það svo mikilvægt þegar presturinn danski kom að tala við okkur Henrik,  nokkrum dögum eftir dauða Evu,  að minnast þess að börnin hennar þörfnuðust áfram heimilis sem ríkti gleði og uppbygging. –

Það hljómar mótsagnakennt að tala um gleði þegar að verið er að tala um svona sorglega hluti, – gleðin og sorgin eru systur, var mér kennt í sálgæslufræðum í Háskóla Íslands og ég hef fengið að kynnast þeim báðum mjög náið. –  Það hefur allt sinn tíma,  en við megum ekki ganga í burtu með sorginni og skilja gleðina eftir vinalausa. –

Vinir hjálpa með að halda áfram að sinna sér, fóðra hamingju sína og gleði, – styrkja sig – ekki síst til að hreinlega geta verið til staðar og stuðnings þegar á þau er kallað.

Ég er þakklát fyrir mína vini og vinkonur, fyrir fjölskyldu sem er bara frábær. Það er gott að ganga með og í gleðinni.

Ég mætti konu í gær sem var svo sorgmædd, vegna sorgar fjölskyldu sem hafði lent í mikilli sorg.  Það hafði haft veruleg áhrif á hennar líf.  Kannski var það eitthvað sem kviknaði innra með henni sjálfri, rifjaðist upp, eða að hún fann svona mikið til með fjölskyldunni, –  en það er mikilvægt að muna að samhygð hefur sín mörk – þ.e.a.s. að fara ekki of djúpt inn í sorg hinna þannig að það fari að verða okkar eigin sorg og þurfum jafnvel að fara að fá huggun frá þeim sem syrgir sinn nánasta. –  Þá er þessu alveg snúið á hvolf.

Þekkjum mörkin – að veita samhug þýðir að vera til staðar og sýna skilning en ekki gera sorg vinar eða vinkonu að okkar eigin sorg, þannig að huggunarhlutverkið snúist við. Ef þetta reynist okkur mjög erfitt þá er um að gera að leita sér hjálpar – en ekki hjá þeim sem við finnum til með.

Munum að vera bestu vinir og vinkonur okkar sjálfra, og að eins og vinátta er mikilvæg og hin ytri huggun – að sterkasta huggunin kemur innan frá. – við erum til staðar og leyfum fólki að huggast.á eigin forsendum.

Láttu þér líða vel – þetta líf er til þess gert. 🙂

533257_584256411631978_1561503500_n

Að sleppa og taka á móti með krepptan hnefa?

Flest könnumst við við það að eiga erfitt með að sleppa tökum.  Við höldum í ýmislegt sem oft er ekki okkar að stjórna, höldum jafnvel í fortíð eða fólk sem við viljum breyta. –

Þegar við höldum þá kreppum við hnefann – höldum fast í taumana og lokum á. –

Fyrir utan það að halda fast – þá lokum við á möguleikann á nýjar gjafir sem kæmu í staðinn,  því við tökum ekki á móti neinu með krosslagðar hendur eða kreppta hnefana. –

Til að taka á móti þarf að opna lófana – sleppa tökunum – finna það fara og svo finna nýja orku í lófunum og leyfa þessu nýja að koma,  þiggja gjafir lífsins og ekki veita þeim mótstöðu.

Þetta er góð æfing, þ.e.a.s. að sitja í nokkrar mínútur á dag með opna lófana – og taka á móti og segja „Já takk“ –

535347_300756753337389_1236466656_n

Ég get það …. og hvað er þetta „það?“ …..

Þegar við viljum ná árangri þurfum við oft að minnast þess að vera raunsæ.

Manneskja í svona nokkuð lélegu „sófaformi“ ákveður ekki að ganga Esjuna á morgun, – heldur tekur hún ákvörðun um að ganga á Esjuna, en byrjar aðeins smærra,  e.t.v. er nóg að taka klukkutíma göngu á jafnsléttu til að byrja með og fara svo að prófa aðeins halla, eins og að ganga í Búrfellsgjá og enda á toppnum þar. –  Endurtaka það og svo fara þegar styrkurinn er orðinn meiri á Esjuna, – og ganga e.t.v. upp að steini.  Það má endurtaka og síðan þegar styrkurinn vex fara alveg upp á topp og skrifa þar í gestabók.

Þetta tekur tíma – en ákvörðunin er fyrst.

Þetta „Það“ sem þessi manneskja getur er að ganga, er að hreyfa sig – og jú hún getur gengið upp á toppinn á Esjunni,  þó það sé ekki alveg daginn eftir ákvörðun. –

Þegar við ætlum okkur of stór skref á of stuttum tíma líður okkur eins og við séum vanhæf og ómöguleg,  getum hreinlega ekki. – En gefum okkur tíma og gefum okkur það að vera raunsæ og tökum bara ákvörðun.

Það er margt sem við getum, ef þú ert að lesa þetta þá til dæmis getur þú lesið, þú getur andað, þú getur notað tölvu, kannski getur þú gengið á Esjuna strax á morgun,  en kannski ekki fyrr en eftir ár? –

Jákvæð staðhæfing er upphaf að mörgu, og þarf ekki að vera röng þó hún virki ekki akkúrat í dag eða á morgun.  Ef þú segir við sjálfa/n þig: „Ég elska mig djúpt og einlæglega“ – eða „Ég virði mig, ég er stórkostleg manneskja“ þá er það satt, þó þú trúir því ekki þá stundina.  Það kemur að því, ef þú bara heldur áfram og endurtekur þessar setningar, og helst fyrir framan spegil þar sem þú horfir í augu þér.  Þá hættir þú líka að láta aðra segja þér eitthvað annað,  því þannig virkar sjálfs-traustið.

„Ég get ÞAГ –  … setningin kemur okkur áfram, en við eigum að færast áfram, þó að við og við komi mótvindur og feyki okkur jafnvel um koll, þá höldum við áfram, vegna þess að við getum það! –

Hafðu TRÚ  – og þú getur ÞAÐ.

425125_10150991208683141_2145683887_n

Er slóðinn varðaður með kærleika? …

Næstum daglega stöndum við frammi fyrir einhvers konar vali, – veraldlegu vali eins og  hvað við eigum að hafa í matinn, og svo vali um viðhorf. –

Ákvarðanir eru teknar og við tökum stefnu samkvæmt þeim, og svo kemur eitthvað upp á og þá breytist stefnan.

Oft heyrum við sagt „Ég veit ekki hvað ég vil“ –  eða „Ég veit ekki hvert ég er að stefna“ –

Þetta þýðir þó varla að við vitum ekki neitt.

Við getum byrjað að stilla upp fyrir okkur það sem við vitum, – flest fólk vill t.d. frið, gleði, ást, styrk o.s.frv. –  Þá er hægt að setja fókusinn þangað, eins og fram kemur í síðustu færslu sem nefnist: Hókus Fókus.

Það eru nokkur ár síðan ég sá tilvitnun frá Carlos Castenada og er hún eftirfarandi:

„Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn’t it is of no use.“  

Það er gott að hafa svona vörður, vörður hjartans – kærleikans – á slóðanum okkar.  Ef við lendum á gatnamótum og þurfum að velja á milli tveggja leiða, að spyrja okkur hvor leiðin færi okkur meiri kærleika, meiri ást – og þá allt sem áður er nefnt; gleði, frið og styrk. ❤

6a00d8344a59a353ef00e54f4fbf2d8834-800wi

Friður ..

Stundum töpum við friðnum okkar, eða höfum ekki tíma né aðstæður til að sinna honum. – Utanaðkomandi áreiti hefur vinninginn, fólk, staðir, atburðir og við leyfum því að taka yfir.

Það er þá sem óöryggið og gremjan notar tækifærið og stingur upp kollinum.

Það er ástæðan fyrir því að við  verðum að forgangsraða upp á nýtt og taka frá tíma fyrir friðinn.

cropped-dsc06299.jpg

Er hefndin sæt – eða súr? …

Ef þú hefur einhvern tímann rekið tána í stálfót – þá þekkir þú tilfinninguna sem kemur.  Sársauki – reiði og margir bölva upphátt.  Engum dettur þó í hug að sparka aftur á sama stað,  því þá meiðir sá hinn sami sig aftur. –

Það er ekki hægt að kenna neinum um nema okkur sjálfum að hafa rekist á stólinn.

Þegar aftur á móti einhver klessir innkaupavagninum aftan á hælana á þér í Bónus,  og þú finnur til – þá ertu komin/n með „sökudólg“ og gætir hvesst þig við hann,  sársaukinn er þó hinn sami,  og verknaðurinn var væntanlega og að öllum líkindum óviljaverk – og fæstir öskra á þann sem meiðir þá,  eða tekur sinn vagn og þrusar aftan á „sökudólginn.“ –

En í hvaða tilvikum þurfum við „hefnd?“ –

Væri það ekki ef að stóllinn hér i upphafi hefði sjálfstæðan vilja (sál) tilfinningar og myndi hreinlega ráðast á okkar tær? –   Eða að náunginn í Bónus hefði keyrt viljandi aftan á hælana á okkur?

Kannski felst hefndarviljinn helst í því að fólk þráir að einhver – og þá aðilinn sem særði SKILJI hvað þetta er vont.  Það liggur í fæstum tilvikum í því að vilja meiða.  Ef að sá sem keyrir aftan á biðst einlægrar afsökunar þá þurfum við varla að sýna honum framá hvað hann meiddi okkur mikið.

Hvað með hin andlegu sár? – Hvað með sárin eftir trúnaðarbrest eða höfnun? –   Höfnun upplifir fólk þegar makinn heldur framhjá með öðrum aðila.  Á þá að halda framhjá á móti og eru þá báðir aðilar komnir á sama plan? –  Er ekki bara skaðinn skeður og annað hvort að vinna í sáttum og fyrirgefningu eða kveðja stólinn, – nei ég meina makann?

Það er nefnilega þannig að reyna að hefna sín – með því að gera það sama, er eins og að sparka aftur í stólinn,  sársaukinn verður bara meiri.

En vissulega getur verið að þú sért búinn að kenna maka þínum „Lexíu“ – þ.e.a.s. nú hefur hann upplifað sársauka trúnaðarbrestsins,  eða það að þú ert búin/n að kenna henni hvaða tilfinningar það koma þegar þú stígur út fyrir ykkar heitbindingu.

En þetta er ekki sæt hefnd, hún er súr.

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn skilur heiminn eftir blindan og tannlausan. – Reyndar var þessu mótmælt í „The Intouchables“ þar sem síðasti maðurinn verður væntanlega eftir með eitt auga og eina tönn,  eða hvað?

En við náum því sem talað er um.

Það sem við viljum fá út úr hefndinni er einhvers konar uppgjör – skilningur og það þarf ekki alltaf að vera að gera það sama við gerandann og hann gerði þér. –

Dauðarefsingar eru löglegar enn í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna, –  við sjáum í bíómyndum þar sem bugaðir foreldrar sitja og horfa á aftöku morðingja barnsins þeirra.   „Nú er réttlinu fullnægt“ – gæti setningin verið.

Líf fyrir líf – en hvað?  Er hefndin sæt? –  Fara foreldrarnir heim með bros á vör og sól í hjarta?  Er barnið komið til baka?    Auðvitað ekki.

Og er ekki verið að hefna sín á röngum aðila?  Ætli það séu þá ekki aðstendendur þess sem gerði sem sitja eftir með sorgina að missa.  Þá eru komnir fleiri syrgjendur í heiminn, gleði, gleði – eða ekki.

Það er eitthvað hörmulega rangt við þessa „hefnd“ –

Fólk þarf svo sannarlega að taka afleiðingum gjörða sinna,  fræðast,  skilja og átta sig.  Ef þetta fólk er ekki fært um það, og glæpurinn er á því stigi að það er hættulegt samfélaginu,  þarf að einangra það frá þeim sem það getur valdið skaða og til þess eru fangelsin.  Auðvitað eiga þau að standa undir nafni líka sem „betrunarhús“ – og þar þyrfti að vera öflugt starf þar sem farið er í að vinna uppbyggingarstarf með þá sem eru þar.

Enn aftur að fórnarlömbunum.  Það er einhver fróun sem fólk leitar, leitar skilnings,  það vantar eitthvað eða einhvern til að beina sársauka sínum og reiði að.

Vandamálið er að það að rífa auga úr þeim sem rífur auga úr okkur færir okkur ekki sjonina á það auga. –

Jú – hinn er eineygður líka,  en það breytir engu fyrir okkar sjón.

Til að geta náð bata – andlegum bata,  þurfum við að fyrirgefa, fyrirgefa OKKAR vegna.  Vegna þess að batinn næst ekki meðan við hvílum í reiðinni.   Batinn næst ekki meðan við erum föst í ásökun.  Batinn hefst þegar við sleppum tökunum á geranda,  kveðjum hann – höldum okkar leið, stillum fókusinn af honum og á okkur.  Byggjum upp andann, sættumst við aðstæður,  svona ERU þær og við getum ekki breytt því sem gerðist – svona afturábak. Við getum ekki breytt fortíð og sama hversu mikið við meiðum og lemjum einhvern –  við fáum ekki það til baka sem við misstum.

Höldum áfram,  og besta „hefndin“  í sumum tilvikum er einmitt að vera hamingjusöm. –   Það er ekki bara besta hefndin,  heldur í þeim tilvikum sem við höfum misst,  þá er það það hið besta sem við getum gert fyrir þann sem við höfum misst.  Þið getið bara hugsað það út frá sjálfum ykkur,  ef þið færuð úr þessari jarðvist,  mynduð þið vilja að ættingjar sætu fastir í reiði og hefndarhug eða næðu sér á strik og yrðu glöð og hamingjusöm? –

Hvað með trúnaðarbrestinn og höfnunina? –  Hvað ef að þessi fyrrverandi sér nú eftir ykkur og sér að þið eruð bara lukkuleg og glöð án hans/hennar?

Að fyrrverandi sé ekki sólin ykkar og tunglið og þið komist áfram og séuð farin að dansa salsa og ganga á fjöll með skemmtilegum hópi? –  Eða bara eiga ykkar glöðu stundir með sjálfum ykkur? –

Það er sætleiki en ekki súrleiki.

Það er af mörgu að taka hér – og ég hef tekið ýmislegt hér inn sem við gætum viljað hefna fyrir.  En hefndin – svona klassíks þar sem við viljum gera það sama við hinn aðilann – gengur sjaldnast upp.  Hún er súr og við gætum í sumum tilvikum alveg eins sparkað í stólinn sem við meiddum okkur á aftur, og svo aftur og bara meitt okkur út í hið óendanlega.

Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`

En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ –  (MT 5.:38-39)

Þetta þýðir að við förum ekki á sama plan og sá/sú sem slær.  Við rísum yfir það og tökum ekki þátt.  Skiljum að flest ofbeldi eða það sem á okkur er unnið er út frá sársauka, dómgreindarleysi eða vanmætti þess sem fremur verknaðinn.  (Ofbeldi er í raun vanþekking og vanmáttur – vanmáttur þess að geta tjáð og ástundað kærleika – og kærleika kennum við varla með ofbeldi).

Kristur segir á krossinum,  „faðir fyrirgef þeim því þau vita ekki hvað þau gjöra“ –  er það ekki skýrasta dæmið?

Fyrirgefningin er gjöf til okkar sjálfra, – ef hún reynist okkur ofviða má feta í fótspor frelsarans og biðja föðurinn,  æðri mátt, lífið að taka boltann – fyrirgefa fyrir okkar hönd, því mennska okkar hindrar okkur í því að fyrirgefa beint og milliliðalaust. –

En fyrirgefning er fyrst og fremst gjöf frelsisins til okkar sjálfra,  hún hindrar það að hegðun annarra tæri upp okkar eigin hjörtu.

Fyrirgefningin er sæt.

1234933_10151721377503141_1503000993_n

Einföld formúla ánægjunnar ..

1. Þakklæti fyrir það góða sem er í lífi okkar (upplagt að minnast þess á hverjum degi seinni partinn, og endilega virkja alla fjölskyldumeðlimi, æði fyrir börn að alast upp við þennan sið).

2. Gleði – ánægja er afrakstur þakklætis, og kemur vegna þess að við höfum nú stillt fókusinn meira á það sem við erum þakklát fyrir og ánægð með í lífinu.

3. Jafnvægi – næst mun frekar þegar við erum glöð – við nennum ekki að ergja okkur á smámunum, á öðru fólki sem er í fýlu o.s.frv. –  ef við förum í gremju eða fýlu byrjum aftur á stigi 1 og þökkum meira og ef við spólum í sama fari þurfum við e.t.v. að fyrirgefa meira (sjálfum okkur líka).

4. árangur –  næst nú í því sem við tökum okkur fyrir hendur og í samskiptum.

Gleðin er ekki einungis besta víman, hún er besta orkan sem kemur okkur áfram að því markmiði sem við stefnum og að ganga í gleði hlýtur að vera mikill lífsárangur!

Eigum góðan dag og leikum okkur! –

426349_4403581721455_1819512707_n

 

Skammgóður vermir …

…að missa piss í skóna. –

Það neitar því þó enginn að það hitar,  en eins og segir í titlinum – það dugar skammt.

Talandi um skó, þá er það líka skammgóður vermir að kaupa sér skó! –  Hversu fljótt verða skórnir bara hversdagslegir og við þurfum næsta par til að „gleðja“ okkur?

Það sem ég er að byggja upp hér er smá umræða um það sem kallað er ytri markmið,  en áhrif þeirra er svolítið eins og þessi skammgóði vermir, – það kemur alltaf „hvað næst?“ .. Markmið sem virka svo stórkostleg þegar við höfum ekki náð þeim – eins og að fá gott starf – verður hversdagslegt þegar við erum búin að venjast titlinum. Makinn sem virkaði eins og fjarlægur draumaprins/prinsessa áður verður svona eitthvað sjálfsagður, við kunnum sjaldnast að meta hann/hana eða finnst hann/hún bara alls ekkert endilega uppfylla væntingar um þetta „drauma.“   Við förum í sólarferðina og hún er „púff“ búin. –

Sólin var skammgóður vermir,  því svo er komið heim á hið kalda Frón á ný og við þurfum smá aðlögun  á eftir – eftir að hafa fengið nasaþefinn af hlýju, kvartbuxum, að borða undir berum himni o.s.frv. –

Hvað er þá það sem endist og er ekki svona skamm-eitthvað?

Það er það sem er raunverulegt,  raunveruleg eign, innri fjársjóður,  lífsfylling sem er ekki frá okkur tekin –  ekki með því að verða atvinnulaus, makalaus, peningalaus o.s.frv. –   Það eru þessi uppfylltu innri markmið, ást, friður og gleði sem eru þarna til staðar til langframa,  sama hvað gerist hið ytra.

Sjálfsástin sem hlýjar innan frá – og hægt er að rækta með því að tala fallega til þessarar sálar sem er þarna fyrir innan,  tala t.d. fallega við okkur þegar við horfum í spegil.  Horfa framhjá hinu ytra, horfa djúpt í augun okkar – alveg inn í sál og segja:

Mikið svakalega elska ég þig í dag,  og taka svo tveggja mínútna kyrrðarstund þar sem við síðan lokum augunum og skynjum með hjartanu ljósið innra með okkur,  og hitann sem það gefur.  Það er ljósið sem ekki slokknar,  eilíft ljós meira að segja.  Þó allt hverfi – hið ytra, er þetta allt sem þarf.

Þetta er það sem má kalla „dýrðarlíkaminn“ sem rís upp á hinstu stundu,  en það má líka kalla dýrðarlíkamann; sálina.

Já núna fór ég allt í einu í prédikunargírinn, en það bara gerist – ræð ekkert við þessa fingur á lyklaborðinu, – ég held að þetta hljóti að vera „dýrðarfingurnir“  🙂

Elskum friðinn – strjúkum „dýrðar-kviðinn“ ..

733833_10201743643821718_1138113304_n

Hvað gerist ef maki þinn „dansar“ ekki eftir þínu höfði?

Mikill samskiptaspekúlant var að falla frá, hann Hugó Þórisson – blessuð sé minning hans, – en ég sótti eitt sinn helgarnámskeið hjá honum og hlustaði a.m.k. 3svar á hann á fyrirlestrum. –

Það er ýmislegt sem situr eftir eins og ‘“Ég“ boðin,  að tala út frá sjálfum sér en ekki með ásökun,  og það að „Segja það sem maður meinar og meina það sem maður segir.“

Þó Hugó hafi aðallega gefið sig út sem ráðgjafi í samskiptum foreldra og barna þá gilda þessi samskiptaboð að sjálfsögðu milli fullorðins fólks.

Ferlið í samböndum vill of verða þannig að fólk kynnist með fyrirfram gefnar væntingar um hinn „fullkomna“ maka, og ætlar síðan hinum aðilanum alls konar hluti sem eru honum kannski alls ekkert eiginlegir.  Væntingar verða s.s. óuppfylltar og skapa óánægju og vonbrigði hjá þeim sem væntir og vonar og ætlast til.  Það versnar líka oft í því þegar annar aðilinn ætlast til að hinn hreinlega viti hvað hann eða hún er að hugsa og fer svo í gríðarlegt fýlu-eða gremjukast þegar hinn hegðar sér ekki skv. væntingum og tilætlun þess sem óskar.

Þá kemur inn þetta gullkorn að segja upphátt hvað við viljum, hvers við vonum og tala um þarfir okkar og langanir,  jafnvel framtíðarvonir og framtíðarsýn og sjá hvort þær smella saman. –

Það þýðir ekki að ætla maka sínum að sjá um okkar eigin hamingju, – eða taka ábyrgð á okkar hamingju, – svo ekki sé talað um ef við erum búin að ætla honum að vera öðru vísi en hann er, svo er hann bara alls ekkert þannig og fara þá að stjórnast með hann á þann hátt að breyta honum í eitthvað sem hann alls ekki er!!!..  og jú,  fara svo í megafýlu ef honum tekst ekki að vera það sem VIÐ viljum að hann sé. –

Flókið, pinku. – En þarna kemur inn stjórnsemin, og það að ef við hefjum samband á röngum forsendum,  þ.e.a.s. við ætlum okkur að breyta maka okkar til að „aðlaga“ hann að okkur þá er það nokkurn veginn dæmt til að mistakast.  Ef að einhver fæ ekki að vera sá sem hann raunverulega er finnur hann ekki hamingjuna sína og enn þá síður getum við ætlast til að viðkomandi geti gert okkur hamingjusöm.

Alltaf eru það sömu grunnlögmál sem virka, þ.e.a.s. í samskiptum,  við þurfum að vera sátt í eigin skinni til þess að eiga farsælt samband með öðru „skinni“  😉

Það á engin/n að orku-eða hamingjusjúga annan aðila til að fá hamingju og ekki eigum við heldur að þurfa að vera hamingjubrunnur fyrir aðra.  Það er hver og ein/n sinn eigin hamingjubrunnur. –

Um leið og við förum að ætlast til að uppspretta hamingju okkar liggi í annarri manneskju erum við að gefa frá okkur eigin mátt og vald – og fær hinni manneskjunni máttinn – gera hana að einhvers konar æðra mætti og jafnvel þannig að hún skyggi á okkar eigin æðra mátt.

Makinn verður þá einhvers konar „Guð“ í okkar lífi – og þegar makinn klikkar – fer ekki að OKKAR vilja,  þá missum við „trúna.“ –

Verum við sjálf – leyfum öðrum að vera þau sjálf – reynum ekki að breyta fólki – og látum ekki fólk breyta okkur.

Verum við sjálf og virkjum  okkar eigin uppsprettu gleði, gleði, gleði! 😉

to be yourself in a world that is constantly trying to make you something else is the greatest accomplishment copy