Ég hef upplifað sárustu sorg, – en um leið skynja ég viðbrögð þeirra sem í kringum mig eru. Mínir nánustu eru að sjálfsögðu að upplifa sína sorg við sinn missi, börnin, systkinin, pabbinn, frænkur, frændur, amman, vinir, vinkonur o.s.frv. –
Það er stór sorg að missa, – og það er sorg sem kannski ekki oft er rædd, en það er sorgin við að horfa upp á þau sem manni þykir vænt um, missa.
Viðbrögðin eru misjöfn, – flestir vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til að lina sorg hinna, upplifa sig vanmáttug, og óska þess að geta gert meira.
Í raun er svo lítið hægt að gera, bara vera. Vera til staðar og vera vinir í raun eins og þar stendur, og getur varla staðið skýrar. „Vinir í raun.“ –
Ekki hverfa, ekki týnast – en þó ekki reyna að fara að laga eða bæta eitthvað sem ekki er hægt að laga eða bæta.
Stundum kveikir sorg vina okkar á okkar eigin sorg. Það er skýrast þegar við förum í jarðarför hjá einhverjum sem er okkur ekkert endilega mjög tengdur – kannski fullorðinn afi, langafi saddur lífdaga, en tónlistin, andinn og allt tal í kirkjunni um dauðann, eilífa lífið – það kveikir upp og vekur upp sárar tilfinningar og það er þá bara um að gera að gráta þær og skammast sín ekkert fyrir það.
Ég hef heyrt í fólki sem skammast sín fyrir að gráta í jarðarförum hjá fólki sem þeim er ekkert mjög náið. – Skömmumst okkur aldrei fyrir að gráta, því að gráturinn er gjöf. Gráturinn er losun á sorg og erfiðleikum.
Það er sama hver á í hlut, þegar stórkostlega grimmir og sorglegir atburðir gerast, eins og nú nýlega þegar móðir lést og skilur eftir sig fjögur börn, þá skiptir máli fyrir þau sem sinna þeim að þau þurfa að fá fyrirmynd gleði og jákvæðni líka. Mér fannst það svo mikilvægt þegar presturinn danski kom að tala við okkur Henrik, nokkrum dögum eftir dauða Evu, að minnast þess að börnin hennar þörfnuðust áfram heimilis sem ríkti gleði og uppbygging. –
Það hljómar mótsagnakennt að tala um gleði þegar að verið er að tala um svona sorglega hluti, – gleðin og sorgin eru systur, var mér kennt í sálgæslufræðum í Háskóla Íslands og ég hef fengið að kynnast þeim báðum mjög náið. – Það hefur allt sinn tíma, en við megum ekki ganga í burtu með sorginni og skilja gleðina eftir vinalausa. –
Vinir hjálpa með að halda áfram að sinna sér, fóðra hamingju sína og gleði, – styrkja sig – ekki síst til að hreinlega geta verið til staðar og stuðnings þegar á þau er kallað.
Ég er þakklát fyrir mína vini og vinkonur, fyrir fjölskyldu sem er bara frábær. Það er gott að ganga með og í gleðinni.
Ég mætti konu í gær sem var svo sorgmædd, vegna sorgar fjölskyldu sem hafði lent í mikilli sorg. Það hafði haft veruleg áhrif á hennar líf. Kannski var það eitthvað sem kviknaði innra með henni sjálfri, rifjaðist upp, eða að hún fann svona mikið til með fjölskyldunni, – en það er mikilvægt að muna að samhygð hefur sín mörk – þ.e.a.s. að fara ekki of djúpt inn í sorg hinna þannig að það fari að verða okkar eigin sorg og þurfum jafnvel að fara að fá huggun frá þeim sem syrgir sinn nánasta. – Þá er þessu alveg snúið á hvolf.
Þekkjum mörkin – að veita samhug þýðir að vera til staðar og sýna skilning en ekki gera sorg vinar eða vinkonu að okkar eigin sorg, þannig að huggunarhlutverkið snúist við. Ef þetta reynist okkur mjög erfitt þá er um að gera að leita sér hjálpar – en ekki hjá þeim sem við finnum til með.
Munum að vera bestu vinir og vinkonur okkar sjálfra, og að eins og vinátta er mikilvæg og hin ytri huggun – að sterkasta huggunin kemur innan frá. – við erum til staðar og leyfum fólki að huggast.á eigin forsendum.
Láttu þér líða vel – þetta líf er til þess gert. 🙂