„Voðaleg viðkvæmni er þetta“ …

Ég fór í sambúð 2007 og flutti inn á heimili mannsins. – Hann var elskulegur og allur af vilja gerður til að ég myndi upplifa mig „heima“ – og að heimilið væri okkar, en ekki bara hans og barnanna hans. Ég var með leyfi til að breyta og bæta. Á arinhillu stóð fjölskyldumynd, – hann ásamt fyrrverandi eiginkonu og börnum. –

Eitthvað truflaði það mig – ef heimilið átti að vera „okkar“ að hafa þarna fyrrverandi eiginkonu upp á hillu, – og spurði hvort ég mætti ekki taka myndina niður. – Það fannst honum „voðaleg viðkvæmni“ – en ég man nú ekki alveg nákvæmlega hvaða samræður fóru í gang. Niðurstaðan var að myndin fékk að standa. –

Úr því að svona var komið, – ákvað ég að fara í gamla dótið mitt, og fann mynd í ramma af mér ásamt mínum fyrrverandi eiginmanni og börnum. Stillti henni upp við hliðina á hans. –

Til að gera langa sögu stutta, þá hafði hann ekki áhuga á að hafa mynd af mínum fyrrverandi eiginmanni uppi á hillu – og þá voru báðar myndirnar fjarlægðar.

„Voðaleg viðkvæmni er þetta“ 😀 …

Líklegast er það þannig að við getum ekki sett okkur í annarra spor fyrr en að hafa reynt sjálf? –

Námskeið – Sátt eftir skilnað laugardag 18. september 2021

Hvað veist þú um samband skilnaðar og meðvirkni? – Langar þig að læra svolítið um það og á sjálfa þig? – Hefur þú upplifað höfnun? Býrð þú við óuppgerða sorg eftir skilnað – jafnvel sem var fyrir mörgum árum, eða ertu nýskilin og veist ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga? – Lofaðir þú annarri manneskju að treysta henni, elska og virða, – en gleymdir að lofa sjálfri þér? –

Í framhaldi af þessum spurningum ætla ég að bjóða upp á hið marg- eftirspurða námskeið „Sátt eftir skilnað“ – sem ég nú kalla „Frá sorg til sáttar eftir skilnað“ verður nú aftur í boði. –

Námskeiðið er fyrir þær konur sem vilja vinna úr erfiðum tifinningum við skilnað – hvort sem skilnaður er ný afstaðinn, eða eftir sitja tilfinningar. (Ath! mun auglýsa námskeið fyrir karla fljótlega líka – en ég vel að hafa þetta aðgreint).

Hvenær og hvernig og hvar?

Námskeiðið verður haldið laugardaginn 18. september frá kl. 10:00 – 16:00
 með eftirfylgni fjögur kvöld – frá 20:00 – 21:30 – sem þátttakendur og leiðbeinendur koma sér saman um að hittast.
Útbúinn er lokaður hópur á facebook, þar sem þú ferð í um leið og staðfestingargjald er greitt og þar eru nánari upplýsingar. Trúnaðar er óskað, bæði um það hverjir eru að taka þátt og það sem um er rætt.
Staðsetning er í Hólmslandi, Tungufelli – (Heiðmörk).

Verð: 31.900.- staðfestingargjald kr. 3000.- (til að festa plássið) rest greiðist fyrir 15. september
Hámark 8 manns á námskeiði
Innifalin morgunhressing, ávextir, kaffi og te, hádegismatur og eftirmiðdagshressing.

Leiðbeinandi: Jóhanna Magnúsdóttir, kennari, ráðgjafi og guðfræðingur.

Dagskrá laugardags:

10:00 mæting, morgunhressing og kynning (húsið opnar 9:45)
11:00 Fyrirlestur
12:00 Úrvinnsla og samtal
13:00 Hádegismatur
14:00 Fyrirlestur
15:00 Úrvinnsla, samtal og heimferðarhugleiðsla.
16:00 Lokið ❤

Markmið námskeiðisins er að um leið og sorginni við skilnað er veitt athygli – að ná sátt við sjálfa/n sig og þá breyttu stöðu sem þú hefur í lífinu sem fráskilin/n einstaklingur.


Til að bóka þig eða fá nánari upplýsingar – hafðu samband í einkaskilaboðum á facebook, eða johanna.magnusdottir@gmail.com sími 8956119.

Umsögn 44 ára konu sem tók þátt í námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ „Mesta áfall í lífi mínu var að skilja. Mér fannst mér hafa mistekist, þetta var ekki ætlunin, ég var uppfull af sorg og skömm og föst þar. Ég hafði engar aðferðir og engin tæki til að vinna úr þessu áfalli. Á námskeiðinu Lausn eftir skilnað með Jóhönnu Magnúsdóttur kom léttirinn, því ég var ekki ein og til var leið til úrvinnslu. Lausn eftir skilnað er réttnefni námskeiðsins, það var mér ómetanlegt á leið minni til betra lífs.“

Síðasta námskeið hófst 14. ágúst og er enn í gangi, þar erum við búin að hittast í fyrsta eftirfylgnitíma – og það sem konurnar eru að upplifa er það sama – eða svipað og í fyrri hópum, þeim finnst þær „tilheyra“ hópi sem hefur eyru til að hlusta og deila með sér lífsreynslu og þær fá speglun á tilfinningar sínar og upplifanir með að hlusta á aðra þátttakendur.

Upphafið að skilnaði – skilnaður frá sjálfum sér?

Eftirfarandi efni  er stolið og stælt, bland í poka úr eigin smiðju og af netinu. – Ákvörðun um skilnað er yfirleitt tekin eftir einhvern aðdraganda, þó að annar aðilinn komi alveg af fjöllum og bregði mjög. – Stundum hefur sá aðdragandi staðið yfir í mörg ár.  Þannig að það er bara sá/sú sem setur niður fótinn og segir;  “Ég vil ekki meira svona”  sá aðili sem yrðir skilnaðinn,  þó að hann sé í raun löngu kominn í loftið.

Stundum er það auðvitað þannig að annar eða báðir aðilar hafa vitað að það er ekki “allt í lagi” en hafa horft fram hjá því, kannski með þá von í brjósti að það reddaðist af sjálfu sér.

Hvað er fólk að segja þegar það er fjarlægt og forðast nánd við hvert annað,  eru það ekki fyrstu skrefin í átt að skilnaði? –  Þessi fjarlægð getur verið frá maka, en líka flótti frá sjálfum sér. – Að vera “absent” – eða fjarstödd andlega, og stundum oft í líkama líka.

Það má kannski segja að upphafið að skilnaði sé skilnaður frá sjálfum sér.

Sjálfsvirðing, sjálfstraust, sjálsfsmeðvitund og að elska sjálfa/n sig sé undirstaða þess að geta virt, treyst og elskað aðra manneskju? 

Tilfinning sem er oft ríkjandi hvað skilnað varðar er höfnun.  Fólk upplifir höfnun þegar makinn hefur haldið framhjá. – Fólk upplifir líka höfnun þegar maki þess forðast nánd, forðast samveru og forðast kynlíf. –  Höfnunin getur komið fram á svo marga vegu. –  Hver byrjar að hafna skiptir ekki öllu máli, eða það að finna sökudólg yfir höfuð. –

Það er ekki bara ein lausn við hjónabandserfiðleikum.  Ekki sú eina að skilja.  Lausnin getur verið að leita sér hjálpar, fara (þá bæði) að vinna í sér,  skilja hvað gerðist, líka hjá okkur, því við getum ekki alltaf bara horft á hinn aðilann.  Best tel ég að bæði vinni í sér og saman líka.

KARLAR OG SKILNAÐUR

Samfélagið hefur kennt körlum að vera “harðir” fela tilfinningar sínar, gráta ekki. –  Karlmenn verða þar af leiðandi oft tilfinningalega lokaðir og eiga erfitt með að tjá sig, því  þeir telja e.t.v. að karlmennsku sinni vegið?  Ég set hér spurningamerki, því ég er ekki karlmaður.

Karlmenn, jafnt og konur eru tilfinningaverur.  Litli strákurinn hefur jafn mikla þörf og litla stelpan, en fljótlega er farið að gera greinarmun, – enn í dag og það tekur tíma að afvenja samfélagið af þessu.  “Gráttu ekki eins og stelpa” – “Harkaðu af þér og vertu karlmaður” ..  þetta liggur enn í loftinu og er í undirmeðvitundinni. –

Það þykir “flottara” að karl verði reiður en að hann verði dapur eða gráti.

Hvað ef að karlmaður er yfirgefinn af eiginkonu, hafnað og hann skilinn eftir í lausu lofti? –  Hvaða tilfinningar sýnir hann?  – Hann fer auðvitað í gegnum allan tilfinningaskalann eins og kona, en reiði gæti orðið hans birtingarmynd, því það er svona “skást” út á við. –

Við lærum margt í bernsku og við berum þær tilfinningar með okkur inn í fullorðinsárin.  Ef að drengur hefur fengið höfnun í bernsku, og aldrei tjáð sig um hana, eða ef að hann situr uppi með einhver óyrt sár eða vanlíðan, þá ýtir það undir enn meiri vanlíðan við skilnað. –  Viðbrögðin geta koma fram eins og hjá barni sem fær ekki það sem því finnst eiga skilið. – Með reiði. –

Hverjar eru afleiðingar af innibyrgðum tilfinningum? –  Þær geta leitað í farveg fíknar, ofbeldis, einangrunar – allt farvegur sem er til þess gerður að komast af.  Við erum “survivors”  og leitum leiða til að þola það óþolanlega.  Ef við tjáum okkur ekki um það, um hvernig okkur líður, verður það óhjákvæmilegt að leita í einhvern af áðurnefndum farvegum.

Ein af leiðunum okkar getur verið að afneita tilfinningunum og/eða deila þeim ekki með neinum, hvorki fjölskyldu, vinum né utanaðkomandi,  vinna ekki í sjálfum sér,  heldur að fara í örvæntingu að leita að næsta maka, og það að fara í því ástandi inn í samband er aldrei góðs viti. –  Heilunin hefur ekki átt sér stað og má segja að það sé eins og að hella ekki óhreina vatninu úr skúringarfötunni áður en nýtt vatn er sett í það. –

Þessi leið er ekki einungis leið karlmanna, konur nota hana oft, en mun sjaldnar en karlmenn. –  Samfélagsmenningin er að breytast,  en enn er eins og áður sagði minna umburðalyndi í garð karlmanna, þannig að heilbrigð viðbrögð eins og að sýna tilfinningar eða fara í gegnum sorgarferli er síður viðurkennt þegar karlmaður á í hlut.  Það að viðurkenna ótta, vanmátt, depurð, sorg og kvíða. – En allt er þetta hluti eðlilegs sorgarferlis eftir skilnað.

Í stað þess að sýna þessa hlið, sýnir þá karlmaðurinn aðeins merki reiði – sérstaklega í návist annarra,  en í raun er það eina tjáningarformið sem hann leyfir sér að nota, þegar hann kannski í raun langar bara að viðurkenna hversu sorgmæddur hann er.

REIÐIN

Depurð er yfirleitt túlkuð sem veikleikamerki og karlmenn vilja helst ekki vera merktir sem veikir. Það er því skárra að vera reiður!  Öskra eins og sært ljón? –  Reiðin sýnir vald og getur valdið því að menn  (og konur reyndar) segja særandi hluti við maka sem þeir upplifa höfnun frá.

Að missa maka sinn við skilnað getur orðið til þess að upplifa stjórnleysi á eigin lífi.  Þvinguð breyting hefur átt sér stað. “Þetta átti að fara allt öðruvísi” – Reiðin getur verið tæki til að öðlast valdið á ný, að refsa með orðum og gjörðum, persónunni sem virðist hafa valdið sársaukanum.

Það er auðveldara.  “Hún/hann hélt framhjá mér, var alltaf að drekka,  var ferlega löt/latur,  var fjarlæg/ur og sinnti mér ekki.” –

Önnur aðferð er að gera lítið úr fyrrverandi maka, opinbera viðkvæm atriði sem voru á milli ykkar tveggja. Það er gert lítið úr hinum gagnvart vinum, fjölskyldu og samfélagi. –  Í raun bara til að réttlæta sjálfa/n sig og skilnaðinn.  – En fólk þarf líka að hætta að leggjast svona þungt eftir því að vita “Af hverju skilduð þið?” .. – “Segðu mér nú alla sorasöguna”..

Það eru takmörk fyrir því hvað utanaðkomandi þurfa að vita mikið – og stundum kemur þeim það ekkert við. –

Of mikil reiði og óyrtar tilfinningar hafa þekktar afleiðingar, hvort sem er í hjónabandi eða eftir. –

Ofbeldi er ein útrásaraðferðin, – ef að menn geta ekki tjáð sig eðlilega þá leiðast þeir oft út í ofbeldi.  Ekki endilega með því að berja makann, heldur með að sýna vald sitt og “styrk” með því að skemma hluti, henda niður fatahenginu, brjóta, bramla og skella hurðum.  Þar ofan á kemur hið munnlega ofbeldi – ljótu orðin látin fjúka.

HINDRUN BATA

Reiði, gremja og afneitun hindrar eðlilega framvindu batans eftir skilnað og hindra fólk í að ná fótfestu í nýjum samböndum, þegar að gömlu sárin eru tekin með í hið nýja.

Með (reiði) fókusinn fastan á fyrrverandi er vonlaust að vera í sambandi með núverandi. –

HVAÐ GERÐIST?

Það þarf að skilja hvað gerðist, hvað misheppnaðist í fyrra sambandi, hver voru mín mistök og hver voru makans? –   Það þarf að læra af fyrra sambandi til að það næsta verði betra.  Hvernig er hægt að vera betri maki í framtíðinn?   Ef að tilfinningarnar voru ást í byrjun,  hvað gerðist og hvenær fór það að gerast? –  Af hverju valdi hann hana og hvers vegna valdi hann að vera áfram með henni?

Sjálfþekking er grundvallandi til þess að næsta samband fari ekki á sama veg. Að afneita hinum “ógnvænlegu tilfinningum eins og ótta, kvíða, depurð o.s.frv. mun bara lengja bata- og  heilunarferlið.

BÖRN OG SKILNAÐUR

Fólk frestar því oft að skilja vegna barnanna, en stundum er betra fyrir börnin að búa með friðsælum foreldrum til skiptis en að búa inni á heimili fyllt spennu milli foreldra, eða jafnvel ofbeldi.

Það er mikilvægt að foreldrar hafi hag barnanna sinna í fyrirrúmi við skilnað. Börn hafa rétt til beggja foreldra, og foreldrar þurfa virkilega að varast það að nota ekki börnin sem vopn í baráttunni við fv. maka. Það er allt of algengt og það er allt of eigingjarnt.  Það þarf líka að varast að rugla ekki nýrri manneskju inn í líf þeirra of snemma.  Það er farsælast fyrir börnin að foreldrar geti umgengist án hnjóðsyrða eða að tala illa um hvort annað í eyru barnanna.  Fókusinn verður að vera á farsæld barnanna og mikilvægt að engin/n lofi upp í ermina á sér hvað börnin varðar. –

KVÍÐI  

Stressið sem við upplifum í gegnum skilnað skilur marga eftir með kvíðahnút.  Það er svo margt sem breytist og margir kvíðavekjandi hvatar.  Fyrir þau sem eru fyrir kvíðin, getur skilnaður verið nær óbærilega kvíðavekjandi.  Kvíðinn getur komið fram í óróleika, stöðugum áhyggjum og ótta. Það er ekki óalgengt að festast í smáatriðum varðandi framkvæmdaatriði í skilnaði, við vandamál sambandsins og með hugann við hvað hinn aðilinn er að gera.  Það getr truflað einbeitingu, svefn og dagleg störf.  Margir grennast mjög hratt í þessu ástandi og ekki sjaldgæft að sjá fólk missa mörg kíló við skilnað, en þetta vigtartap er yfirleitt hratt og mjög slæmt heilsufarslega séð.

SORG

Sorgarferlið er mjög áreiðanlegt en aldrei auðvelt. Það er sorgin sem menn eru að forðast eða flýja þegar þeir leita í drykkju, lyf, vinnu, tölvur eða hvað sem þeir nota.  Þetta eru engar “short cuts” – skemmri leiðir fyrir sorg.  Ef við reynum að flýja þá framlengjum við eymdina. –  Eina leiðin er að fara í gegnum hana. – “Go through it”..

Doði er oft fyrsta stigið, þar sem við trúum ekki hvað er að gerast eða afneitum því. –  Sumir verða hissa og finnst þeir ekki finna neitt í byrjun, en slíkt breytist síðan í sjokk fyrr en varir.

Annað stig sorgar er þegar tilfinningarnar ná að koma upp á yfirborðið.  Fólk upplifir panik, þunglyndi, ofsakvíða eða reiði eða bland af þessum tilfinningum.  Á þessu stigi geta karlar fundið fyrir meiri erfiðleikum vegna þess að þeir eiga oft erfiðara með að tjá upplifun sína eða að opna sig fyrir öðrum.   Þeir gætu jafnvel forðast stuðning þegar þeir þurfa mest á honum að halda, til að láta líta út eins og allt sé í lagi og þeir með fulla stjórn.  Grátur, martraðir og kvíði eru oft einkenni annars stigs.

Þriðja stigið leiðir oft til að fólk dregur sig í hlé.  Það getur verið erfitt að vera í kringum fólk á þessu stigi, og á þessu stigi á ekki að þvinga sér upp á fólk í sorg, að vera með sjálfu sér er líka gott – og svefninn og einveran getur orðið til þess að gefa hinum syrgjandi næði til að jafna sig.  Að fara í mikla endurskoðun er eðlilegt viðbragð á þessu stigi, vegna þess að við þurfum að skilja hvað gerðist og skilja hinar dramatísku breytingar sem hafa orðið í lífinu.

Á fjórða stigi þarf að fara að velja hvort við ætlum að halda áfram eða staðna, horfa aftur eða fram.  Endurbyggja líf sitt.  Það þýðir að sættast við aðstæður, lifa með þeim og læra af þeim.  Það þarf að prófa nýja hluti, hitta nýtt fólk og upplifa nýjar aðstæður. –  Fara svolítið út fyrir þægindahringinn til að gera sér grein fyrir því hvað leiðir til hamingju og vonar við að halda áfram lífsgöngunni.

ENDURNÝJUN

Getur eitthvað gott komið út úr skilnaði? …

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, og margir ná að fóta sig ágætlega í nýja lífinu. Kannanir sýna (ég er ekki með tilvitnun í þær) að mörgum líður betur eftir skilnað að einhverjum tíma liðnum, jafnvel þó það hafi ekki verið þeirra val að skilja.  Þeir sem vinna í sér, upplifa e.t.v. meiri lífsfyllingu, hamingju og finna meira ríkidæmi innra með sér.

Þú getur spurt:

Hvers sakna ég úr fyrra sambandi? –

Hvaða þættir eru það sem ég þarf að forðast með nýjum maka? –

Hvaða drauma get ég nú látið mig dreyma, sem voru stöðvaðir af fyrri maka? –

Öll sambönd og samskipti  eru lærdómur, áskorunin er að láta þessi sambönd verða til þess að vaxa og bæta framtíðina.

Samskiptin sem eru undirstaðan að öllum öðrum samskiptum eru þó samskiptin við okkur sjálf.

Við þurfum öll að læra að skilja ekki við okkur sjálf, heldur er upphafið að trúlofast sjálfum okkur, læra að elska, treysta og virða okkur sjálf! –

Skilnaður – væntingar og vonbrigði

Við upphaf ástarsambands, – er eins og við séum að fitja upp fyrir flík, – í huganum sjáum við ekki einungis stroffið, heldur erum við farin að sjá alla peysuna fyrir okkur. Vonin er að klára peysuna, – ganga frá öllum endum og fara svo að nota hana. – Við gerum okkur væntingar – og reiknum með að þær rætist. –

Svona væntingar gerum við líka þegar við hefjum samband, – auðvitað er það miklu flóknara, en við erum búin að sjá einhvers konar mynd fyrir okkur. Síðan styrkist myndin þegar sambandið er orðið lengra, – jafnvel að hjónabandi … og stundum hefur það staðið í mörg ár, ef ekki tugi ára. Svo .. fer eitthvað að klikka .. eitthvað fer að skyggja á myndina og hún er ekki alveg eins og búist var við. – Það gerist eitthvað sem veldur því að myndin sem átti að enda þannig að tveir einstaklingar sætu hönd í hönd, horfandi á sólarlag lífsins…. bregst. Annar aðilinn vill ekki meira – ekki meira með þér, eða þú vilt ekki meira. Ástæðurnar geta verið svo fjöldamargar, – það getur hafa verið lengi að fjara undan, eða það gerist snöggt. Væntingarnar eru brostnar – og brostnar væntingar valda sorg og leiða.

Myndin er horfin – þú ert ein/n eftir að horfa á sólarlagið og þú saknar þess sem hefði getað orðið. Einmanaleiki er algeng tilfinning eftir skilnað, höfnun ef maki þinn hefur viljað slíta hjónabandinu, eða jafnvel leitað á önnur mið. – Sumir finna fyrir skömm, að hafa ekki getað haldið sambandinu lifandi o.fl. o.fl. Fæstir fara úr hjónabandi án einhverra erfiðra tilfinninga. –

Það er gott að ræða þessar tilfinningar með öðrum sem skilja þær – og eru í samlíðan. Stundum er sorgin vð skilnað ekki viðurkennd – eða hún er bæld, nú eða að fólk festist í sorginni og kemst ekki áfram í lífinu. Þetta er allskonar því við erum allskonar. –

Ég hef boðið upp á námskeið til að vinna úr sorginni við skilnað – í mörg ár og næsta námskeið er laugardaginn 14. ágúst nk. – Þú getur smellt á ÞENNAN HLEKK til að lesa meira um það og fá upplýsingar hvar þú bókar.

Vertu hjartanlega velkomin/n.