Erum við hætt að hringja? …

Þegar ég var unglingur kvaddi ég vinkonur mínar, – hljóp heim og svo hringdi ég í mína bestu og við héldum áfram að tala.    Þegar boðið var í saumaklúbb hringdi maður á línuna og bauð.  Afmæliskveðjan var gjarnan að hringja í viðkomandi á afmælisdaginn, þ.e.a.s. ef maður var ekki boðin/n í afmælisveislu.
Við hringdum mikið – a.m.k. innanlands,  en verðskráin var þannig að ódýrara var að hringja í þá sem voru nálægt en þá sem bjuggu t.d. úti á landi (minnir mig) og fokdýrt var að hringja til útlanda.    Þá skrifaði fólk sendibréf,  þegar símtölin voru orðin of dýr.
Nú hefur hið rafræna tekið við.   Tölvupóstur og skilaboð með „messenger“  og  facebook.
Maður sendir afmæliskveðjur til vina og vandamanna – ég reyndar reyni að hringja a.m.k. í mína allra nánustu.    Að hringja verður því  „til hátíðarbrigða“ ..
Við erum pínku hætt að hringja,  … kannski er elsta kynslóðin ennþá þar.

Tímarnir eru breyttir –  og meira að segja hefur sms fækkað.   Skilaboðin koma í gegnum skilaboðaskjóðuna á facebook,  eða whatsapp eða hvað þetta nú allt heitir.

Kannski kemur að því að við getum bara sent hugboð og látum þar við sitja.

Þetta kerfi hentar mér vel,  mér finnst best að mæta fólki augliti til auglitis eða skrifa.  Það að hafa rödd í eyra –  er í þriðja sæti hjá mér.   Sérstaklega þykir mér þetta óþægilegt þegar ég þarf að hringja og fá þjónustu í Danmörku,  því ég skil ekki alltaf og ekki viss um að ég skiljist.   Ef ég skrifa,  er auðveldara fyrir mig að lesa svarið en bara að hlusta í símanum.

Er þetta afturför?

Ég  hef séð fleiri en einn facebook vin kvarta yfir því að allir væru hættir að hringja.   Ég held að því ætti ekki að taka persónulega.   Fólk hefur bara samband á annan hátt,  það sendir skilaboð eða skrifar eitthvað fallegt á síðuna hjá viðkomandi.    Ef við viljum enn halda sambandi í gegnum símtöl,  verðum við kannski sjálf að taka upp tólið og hringja í þau sem við söknum að heyra frá.

Ég man eftir góðum fyrirlestri sr. Sigfinns sjúkrahússprests,   en hann sagði að í stað þess að hringja í vini eða ættingja og fara að skamma þá fyrir að hringja ekki eða ala með þeim sektarkennd,  – og segja:  „Þú hringir aldrei“ .. að tala út frá hjartanu  og segja eins og er:  „Ég sakna þín“ ..  og kannski í framhaldi –  „mig langar að heyra röddina þína því mér þykir vænt um þig.“

 

phonecall_banner

Tölum aðeins um sorgina …

SORG  er yfirheiti yfir margar tilfinningar.   Eins og risastórt mengi sem inniheldur margar tilfinningar sem við flokkum oft sem neikvæðar, svo sem, doða,  reiði, söknuð, vonbrigði, vonleysi, depurð, máttleysi, afneitun, þunglyndi .. en sorgin á líka tilfinningar eins og von, þakklæti og sátt.

Við höldum stundum að sorgarferlið sé slétt og fellt .. og byrji með einni tilfinningu og færist svo yfir á aðra og endi bara í þakklæti og sátt.   Það er ekki min upplifun,  stundum geta allar tilfinningarnar komið á einum degi.

Fyrst hafa þær erfiðu þó oftast yfirhöndina – og maður trúir því ekki að maður komist yfir t.d. saknaðarpollinn.  Svo kemst maður uppúr og yfir og labbar á þurru í einhvern tíma,  en þá kemur kannski úrhelli og þá kemur nýr pollur,  þó oftast minni en þeir voru í fyrstu.    Maður hefur enga stjórn á því hvenær tilfinningarnar koma.     Það er þó ýmislegt sem getur „triggerað“ þær – eitthvað lag,  eitthvað sem er sagt – staður sem minnir á og svo framvegis.

Eitt dæmi um „trigger“ hjá mér – og að mér fannst veröldin grimm var þegar ég var send í jáeindaskanna til Danmerkur,  áður en hægt var að fara í þennan skanna hér á landi.   Skanninn var til húsa á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.    Eva mín dó á Ríkisspítalanum og mér fannst þessi bygging eins og ófreskja.   Mér þótti það óhugnanleg hugsun að fara sjálf og leggjast í skanna  – í sama spítala,  en það skrítna var að það var gott þegar upp var staðið.   Bara að mæta ófreskjunni! …      Þess vegna tel ég ekkert endilega betra að forðast að hlusta á lög sem minna á þau sem við höfum misst – eða staði sem tengjast þeim á erfiðan hátt, eins og mér fannst með spítalann.

Annað sem er mikilvægt við sorgina við missi okkar nánustu,  er að muna eftir þeim sem eru enn lifandi.   Að eftirsjáin eftir hinum dánu verði ekki það sterk að við getum ekki horft fram á við og á þau sem eru hjá okkur hér og nú í lifanda lifi.     Nota það að missa einhvern úr þessu jarðneska lífi,  til að minna okkur heldur á að sinna enn betur þeim sem við þó höfum hjá okkur og höfum enn tækifæri til að eiga í samskiptum við.

Meira ætlaði ég ekki að skrifa í dag …  en það er gott að muna eftir þessum „elementum“ sorgarinnar …  von, þakklæti og sátt –  því það eru hinir græðandi og heilandi þættir.

15178161_10210161959699233_5359295073652597802_n

Þreyta út af „engu“ …

Þegar við höfum sofið heila nótt – þokkalegum svefni,  ætlumst við til að vakna hress og til í allt – eða svona næstum allt.   En stundum vöknum við bara þreytt.    Það er stundum erfitt að útskýra það fyrir þeim sem hefur ekki upplifað það og finnst við kannski bara „löt“ ..      og að vera löt eða latur er oft eins og höfuðsyndin.
Pínku verkir hér og þar,  eymsli.    Alltaf leitum við skýringa og greininga.   Það gerði ég auðvitað á sínum tíma  (og fékk) – því ég er alin upp við að vera „dugleg“ og er reyndar hörkudugleg –  en dugnaður minn verður stundum þannig að það tekur mig marga daga að jafna mig á eftir.

Ég veit að í þessu er ég langt í frá ein.  Margt fólk upplifir „þreytu út af engu“ .. en auðvitað er alltaf ástæða,  en hún er kannski dýpri en bara að haf sofið illa.   Þreytan sem er í dag getur verið vegna einhvers sem gerðist fyrir löngu.  Þetta er bara uppsafnað.
Þegar við erum þreytt – þá þurfum við að hvíla okkur.

Mikið svakalega er gott að hafa tækifæri til hvíldar   ❤

WIN_20150213_231020

 

Hvað verður um barnið mitt?

Ég lá í stóru hjónarúmi í risherberginu í gamla húsinu okkar í Hafnarfirði,   barnsfaðir minn sofandi og barnið okkar lá á milli,  barnið sem bráðum yrði stóra systir tvíburanna sem ég bar í móðurkviði.   Ég hugsaði um stund hvað ég myndi vilja frysta þessa stund.  Það sem við lágum þarna öll fimm, örugg og saman.    Rúmið var eins og fleki á stórsjó,  en aðal málið var að við vorum öll á sama fleka og ég vissi að við vorum örugg.
En hvað yrði í framtíðinni?
Ég var ung móðir,  aðeins 24 ára – með þessar hugsanir.   Ég varð hrædd um börnin mín og við framtíð þeirra.   Hrædd við mótlæti, hrædd við sársaukann.    Sjálf hafði ég þurft að berjast fyrir sjálfri mér sem barn,  misst föður minn ung – dvalið á sumardvalarheimilum þar sem ég upplifði „survival of the fittest“ og ég varð svolítið á toppnum þar,  en leiddist samt að þurfa að hlaupa frá strákunum,   eða að þurfa að verja litla bróður minn eða önnur yngri sem urðu fyrir árás þeirra eldri.    Þetta var allskonar.

Núið:   Ég ligg ein uppí rúmi í risherbergi í smábæ í Danmörku.  Nokkrum götum frá búa barnabörnin mín,  börnin hennar Evu Lindar sem lá á milli og beið eftir að verða stóra systir.    Ég gat ekki bjargað henni,  enda var sjúkdómur hennar slíkur að enginn læknir gat bjargað henni,  en hún veiktist af sjalgæfum blóðsjúkdómi í desember 2012 og var úrskurðuð látin 8. janúar 2013.     Mín versta martröð varð að veruleika;  það að geta ekki verndað  barnið mitt.     Ég hef alla tíð verið „í ökkla eða eyra“ manneskja.  Ofverndandi eða fjarlæg.   Afskiptalaus eða gífurlega afskiptasöm um velferð barnanna.   Það er ekki til að vera stolt yfir og er eitt af einkennum meðvirkninnar.    Stundum hefur fjarlægðin verið einhvers konar sjálfsbargarviðleitni.     Ofurnæm,  líkamlega sem andlega  og ofurviðkvæm.    Það sem ég á við með ofurnæm t.d. líkamlega er að ég hreinlega meiði mig þegar fólk slær létt til mín,   það þekkir mitt nánasta fólk.    Ég þarf meiri deifingu þegar kemur að aðgerðum,  því annars finn ég til.   Það gerðist líka þegar tvíburarnir voru teknir með keisaraskurði.   Þá mistókst deifingin og ég fann þegar ég var skorin.   Sá sársauki er þó hjóm eitt,   miðað við hinn andlega sársauka við að horfa upp á veikindin og dauðann.


Ég ætla ekki að tala meira um mig,   heldur var ég að hugsa um mæður í dag.   Hvað hugsa þær á nýjum tímum,  við nýja heimsmynd.   Heimsmynd þar sem við erum smátt og smátt að venjast því að faraldur geysi um heiminn.   Heimsfaraldur þar sem tregða verður í samgöngum landa á milli,  þar sem ferðafrelsið er skert.     Þar sem við mannfólkið erum að vakna til vitundar að við erum hægt og bítandi að „drepa“ jörðina með mengun og misnotkun.    Hvernig verður heimurinn þegar börnin sem eru að fæðast í dag, verða fullorðin.    Verður sjónarsviðið eitthvað svipað og það sem við erum vön í dag,  eða eitthvað allt annað?
Við erum búin að sjá nasaþefinn af breytingum,  þar sem fólk ferðast með andlitsmaska – þar sem blómstrandi fyrirtæki skrælna vegna þess að það er ekkert fólk sem getur nýtt sér þjónustu þeirra.     Hvers er að vænta? –

Kannski er þess að vænta að við vitum ekki neitt.   Kannski er bara best að snúa sér öll að innhverfri íhugun og fara inn á við,   heim til okkar sjálfra og kenna börnunum að njóta sín í því líka.   Að kenna þeim að leita inn á við  að friði og gleði?   –   Að hið ytra breyti ekki öllu og að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum,  eins og stendur í Biblíunni hinni umdeildu,   sem inniheldur samt svo mikinn vísdóm.    Það er svo róandi að leita inn á við og hugsa inn á við, –  hugsa vel um okkur sjálf,  næra okkur eins og við værum að næra móður jörð,   með góðri andlegri og líkamlegri næringu.    Og verða þannig breytingin sem við viljum sjá.

Hvað er svo það besta sem ég hef lært?    Frá því að vera ung móðir í Hafnarfirði yfir í að verða eldri móðir og amma í Hornslet?  –   Það er æðruleysið og æðruleysisbænin,  sem hjálpar í öllum tilvikum.    Það er bænin þar sem ég bið Guð að gefa mér æðruleysi – sem er logn í stormi.   Sem er innri friður – þrátt fyrir ytri ófrið.    Það er bænin þar sem ég bið Guð að gefa mér sátt við það sem ég fæ ekki breytt.   Að sætta mig við það sem jafnvel er óásættanlegt,  því að úr sáttinni sprettur hinn nýi vöxtur.    Það er bænin þar sem ég bið Guð um kjark til að breyta því sem ég get breytt.   Hugrekki til að stíga skrefið, jafnvel þó ég sé hrædd – og síðast en ekki síst er það bænin þar sem ég bið Guð að gefa mér vit til að greina á milli –  greina á milli þess að sættast við eitthvað og að breyta því.

Spurning foreldranna:  „Hvað verður um barnið mitt?“  ..  kannski er það mikilvægasta af öllu að gefa því gott atlæti  NÚNA,   styrkja það í að takast sjálft á við heiminn.   Við verðum ekki alltaf til staðar og við erum bara megnug upp að ákveðnu marki.    Barnið verður að fá að mæta heiminum eins og við sjálf fengum,  og ungarnir sem fjúga af stað, og þeir hafa vængi til að fljúga …. og svo er bara að treysta því að allt fari eins og það á að fara.   ❤

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fær ekki breytt.
Kjark til að breyta því sem ég get breytt.
Og visku til að greina þar á milli.
(Reinhold Niebuhr

Þessi pistill er tileinkaður þessum tveimur sem voru í móðurkviði sumarið 1986.  Þessum sem hafa svolítið horfið í skuggann – þegar fókusinn fór á stóru systur sem fór til himna.   Tileinkaður Jóhönnu Völu og Þórarni Ágústi sem eru hugrökku börnin mín.      Þau eru núna að takast á við lífið og hindranir þess.
Ég treysti þeim og ég treysti heiminum fyrir þeim.

409500_4618684218869_1770856038_n