Þú veist svarið …

Öll okkar svör eru innra með okkur, –  hvað vil ég?  Hvað vilt þú?    Mitt svar er innra með mér og þitt innra með þér.   Ef við teljum okkur ekki vita svörin,  er það vegna þess að við erum búin að búa til hindranir –  eða lokanir og náum ekki að sækja svörin okkar.
Stundum er svarið of sársaukafullt –  og þá þykjumst við ekki vita svarið, eða förum í afneitun því að  það er „þægilegra“ þá stundina að  þykjast ekki vita hvað okkur er fyrir bestu. –

Svona staðhæfingum eins og koma hér að ofan þurfa að fylgja dæmisögur, svo hægt sé að skilja.

Ég segi sögur af henni Önnu, en Anna er bara tilbúin persóna,  sem ég bý til úr mörgum persónum sem ég hef rabbað við og einnig er hún hluti minnar eigin reynslu:

Anna var í sambandi við mann sem hún var mjög ástfangin af,  en hún fann að það var ekki gagnkvæmt.   Hann vildi samt ólmur vera með henni –  en fljótlega fann hún að þó hann segðist vera hrifinn af henni,  þá sýndi hann það ekki í verki,  og seinna komst hún reyndar að því að hann var óheiðarlegur gagnvart henni   (Kannski vissi hann ekki sjálfur hvað hann vildi því hann var ekki í tengslum við sjálfan sig ?)   Hún vissi að þetta samband myndi ekki ganga upp,  en hún fór í afneitun,  vegna þess að það var of sárt að hætta – og allt of mikil vonbrigði. –

Það þýddi ekkert að aðrir segðu henni að þetta myndi ekki ganga upp,  hún varð eiginlega bara þrjóskari við það –  „ég ætla að láta þetta ganga“  hugsaði hún, – en var þá komin í ákveðna stjórnsemi og örvæntingu.
Alltaf vissi hún hvað var rétt –  en hún vildi ekki vita það.
Svörin eru alltaf innra með manni.

Annað dæmi er t.d. um hvernig við blekkjum okkur með mataræði –  eða t.d. alkóhól – sígarettur o.s.frv. –

„Ég ætla að kaupa súkkulaðikex, svona ef að það koma gestir“ ..    Það sem þú veist er að þú munt líklega ekki fá gesti og borðar súkkulaðikexið  sjálf/sjálfur að lokum.  –    Þú veist það sérstaklega ef það hefur gerst áður.      Þetta getur líka verið þegar þú ert að taka fyrsta glasið eða bjórinn og hefur áður átt erfitt með drykkju, –   „æ ég fæ mér bara eitt glas“ .. en svo verða þau mörg.      Margir ætla líka að reykja minna,  borða minna ..   en fara í gamalt far.    Það er því fyrsta glasið eða fyrsta sígarettan sem skiptir máli, –  að blekkja ekki sjálfa/n sig. –

Þegar við gerum ekki það sem við vitum, eða það sem er í raun best fyrir okkur til langframa  (in the long run)  er oft  sjálfsblekking. –      Sumir segja:  „Ég veit þetta allt og kann allt“ – t.d. um mataræði,  „en ég geri það ekki“.

Ástæður fyrir því að við vitum  en  gerum ekki geta verið flóknar,  t.d. gömul innræting um að í raun eigum við ekkert skilið að ganga vel eða vera glöð og hamingjusöm.    Eða við höfum ekki trú á því.     Stundum getum við líka hafnað einhverju góðu sem kemur í líf okkar áður en okkur er hafnað.     Ein stúlka dró sig viljandi niður – þegar hún fór að upplifa gleðitilfinningar – því hún vildi frekar stjórna því sjálf en að  gleðin yrði stöðvuð utan frá eða af öðrum.

Það er margt í mörgu og við mannfólkið með flóknar tilfinningar –  en ef við slökum á og setjumst niður með sjálfum okkur,  og elskum okkur eins og við værum að elska barn,  þá kannski förum við að hlusta á okkar innri rödd – sem veit svarið og fara eftir því?

Það er þess vegna sem sjálfsumhyggja og sjálfsvirðing er mikilvæg.  Að virða sig viðlits og veita okkur athygli.    Því það sem við veitum athygli vex og dafnar – og hvers vegna ekki að veita  okkur sjálfum athygli og hlusta?

Þegar sársaukafullu ákvarðanirnar eru teknar,  eða þær erfiðu,  þá erum við SJÁLF til staðar til að mæta okkur með mildi –  og klöppum okkur á öxlina og segjum “ þú átt allt gott skilið,  þína eigin virðingu og annarra – og ég ætla að lifa samkvæmt því.“  –

Allir eiga skilið að njóta lífsins –   og  GLEÐIN  er besta víman.

Gleðin kemur þegar við erum við sjálf og erum þakklát fyrir að vera þau sem við erum og þurfum ekki að breyta neinu né stjórna neinu.

67458981_2783168081728172_1318662548802764800_n