„Hvert fara brostin hjörtu?“ … Whitney Houston 1963 – 2012

Ég sá það á Facebook í morgun, eins og e.t.v. margir að hin fræga söngkona Whitney Houston er látin,  en hún var aðeins 48 ára og fædd 9. ágúst 1963.

Allir sem eitthvað fylgdust með fréttum af „fallega og fræga“ fólkinu og jafnvel fylgdust ekkert sérlega með þeim fréttum,  gátu séð og lesið að hún var löngu týnd á sinni leið. –  Ég er alls ekki vel inní því,  en veit að þar komu bæði áfengi og eiturlyf við sögu. –  Þannig að hún hefur verið í flótta frá sjálfri sér og lífinu.

Fyrir mér er þetta enn ein áminningin um að fegurð, frægð, auður og hæfileikar duga ekki til farsældar, og hvað þá að hamingjan felist í því að vera mjó. –

Hamingjan dregur vagninn, en ekki vagninn hamingjuna. – Það þýðir að hamingjan byrjar innra með okkur og ekki hægt að taka hana eingöngu utan frá. – Það verður aldrei annað en skammvinn sæla eða fix.   Það er að segja, það dugar svo skammt. –  Við drekkum ekki hamingjuna úr flösku,  við kaupum ekki hamingjuna í skóbúð,  við fáum ekki hamingjuna á prófskírteini og hamingjan er ekki tala á vigt. –

Við getum notað önnur orð þarna fyrir hamingjuna, eins og kærleikann og jafnvel Guð.  Það getur hver og ein/n ákveðið fyrir sig.

„Know thyself, and thou shalt know the Universe and God “ „Þekktu sjálfa/n þig, og þú munt þekkja alheiminn og Guð“ ..

Ef við erum á flótta frá sjálfum okkur, er vonlaust að þekkja okkur sjálf. –

Ef við lærum ekki innra verðmætamat, – að meta okkur án ytri mælikvarða, átta okkur á því að við erum verðmæt, „no matter what“ – eða hvað sem að utan kemur.   Ríkidæmi okkar getur falist og felst að vissu leyti í reynslu okkar, en við getum farið illa með það ríkidæmi, alveg eins og hið veraldlega ríkidæmi. –

Whitney Houston var falleg sál, ótrúlega verðmæt – eins og við öll. – Fyrsta lagið sem kom í hugann þegar ég sá þetta „RIP Whitney Houston“ – var „I will always love you“ – og spilaði það á Youtube.  Man eftir myndinni „The Body Guard“ og hef séð þá mynd oftar en einu sinni og oft hlustað á lagið á Youtube. –

En svo fann ég annað fallegt með henni,  „Where do broken hearts go?“ ….  Eflaust hefur það átt við þessa konu, að hjarta hennar var brostið,  en brostin hjörtu þurfa í raun bara að fá athygli okkar sjálfra,  við þurfum að hlú að okkur,  fara að elska okkur skilyrðislaust, án tillits til stéttar, stöðu, útlits, frama og frægðar. –

Að elska og samþykkja okkur sjálf er grunnforsenda eigin farsældar. –  Brostin hjörtu þurfa að komast heim. –

Fallega sál, far þú í friði. –