Elskaðu náungann EINS OG sjálfa/n þig

Taktu fulla ábyrgð á eigin lífi.
Hættu að ásaka aðra.
Sjáðu sjálfa/n þig sem orsök þess sem gerist fyrir þig.

Gerðu það sem þér líkar að gera.
Ekki vera í starfi sem þér líður illa.
Taktu þátt í lífinu af fullum mætti.

Gefðu þér mörg einföld ánægjuefni.
Vertu í fötum sem þér líður vel í, fáðu þér nudd o.s.frv.

Gættu tungu þinnar, varastu að tala þig niður.
Hættu að beita sjálfa/n þig og aðra dómhörku.

Hugsaðu vel um líkama þinn.
Gefðu honum hreyfingu og góðan mat.

Hafðu viljann til að skapa lífsstíl sem þroskar og  nærir sjálfsálit þitt.
Vertu sjálfsörugg/ur í kringum aðra.

Samþykktu þig reglulega.

Haltu dagbók yfir sigra þína og árangur.

Forðastu að bera þig saman við aðra. Mundu að það sem skiptir meginmáli er hver við erum,  ekki hvað við gerum.

Gefðu þér leyfi til að gera reglulega „ekki neitt“  – skipuleggðu tíma með sjálfum/sjálfri þér.

Andaðu oft djúpt.

Uppgötvaðu kostina við að anda djúpt.

Borðaðu oft gæðamat.

Hættu að reyna að breyta öðrum.

Stilltu athyglina á það að vera sjálf/ur eins og þú vilt að aðrir séu!

Líttu reglulega í spegil og segðu:

„Ég elska þig, ég elska þig raunverulega“ ..

Farðu að sleppa sektarkendinni og hættu að segja „fyrirgefðu“ endalaust.

Farðu að sjá að mistök eru dýrmætar lexíur og forðastu það að dæma þig.

Skapaðu meðvitað jákvæðar hugsanir og tilfinningar lífsfyllingar og  sjálfs-ástar í stað gömlu hugsanana um skort.

Vertu tilbúin/n að hlæja að sjálfri/sjálfum þér og lífinu.
Hættu að taka sjálfa/n þig svona hátíðlega.

Taktu við hrósi frá öðrum án þess að fara hjá þér eða þykja það kjánalegt.

Ekki gera lítið úr jákvæðum hugsunum þeirra og tilfinningum í þinn garð.

Vertu góð/ur við hugann.

Ekki hata sjálfa/n þig fyrir að vera með neikvæðar hugsanir.

Breyttu varfærnislega hugsun þinni.

Haltu athygli þinni og hugsunum í nútíðinni, í staðinn fyrir að lifa í fortíð eða framtíð.

Viðurkenndu annað fólk reglulega, segðu þeim af hverju þér líka vel við það.

Fjárfestu í sjálfum/sjálfri þér.

Farðu á námskeið, vinnustofur og kúrsa sem þroska helstu náðargáfurnar þínar.

Gerðu lista yfir 10 hluti sem þú hefur gaman af, eða jafnvel ástríðu fyrir að gera og gerðu þessa hluti oft.

Komdu fram við þig eins og þú kemur fram við einhvern sem þú elskar.

Lofaðu þig.

Endursagt úr: http://positive-thoughts.typepad.com/inner_wisdom/

Leyfðu þér að fljóta og treysta.

„Áttu þetta skilið?“ ….

Ég var einu sinni spurð þessarar spurningar,  og svarið þá var: “NEI” og ég tók afdrifaríka ákvörðun í mínu lífi.

 

Þrátt fyrir að vita hvað ég ætti skilið og hvað ekki hélt ég ekki áfram að fara eftir því.  Og þrátt fyrir að ég leysti upp vondar aðstæður eða skaðlegar,  sem höfðu skapast að hluta til og var viðhaldið vegna minnar eigin vankunnáttu í samskiptum (meðvirkni) fór ég aftur og aftur í sama hlutverkið,  hlutverk þess sem þóknast, þess sem virðir ekki eigin langanir og þarfir vegna þess að langanir og þarfir annarra ganga alltaf fyrir.

 Ef ekki í sambandi þá í starfi.

“Ég verð að taka tillit”

“Ég vil að allir séu vinir”

“Æ, þessi á svo bágt”

“Ég get þraukað, en ekki hinir”

 „Þessi verður að fá að njóta sín“

„Ég vil ekki kvarta“ .

Fórnarlamb hvað?

 

Ég er löngu búin að læra (the hard way) að ég fæ sama verkefnið aftur og aftur þar til ég fer að tækla það rétt. 

 

Lífið er ekkert meðvirkt með okkur,  eða að sleppa okkur.  Það vill að við lærum og þroskumst.

 

En hvað á ég skilið?

 

Ég á skilið virðingu, ást og traust og til að eiga það skilið þarf ég að virða mig, elska mig og treysta mér fyrst og fremst. 

 

Ég á skilið hamingju, og hamingjuna sæki ég ekki út á við, hún kviknar innra með mér,   hún er þarna og við upplifum hana þegar við opnum augun, eyrun og skynfæri öll. 

 

Ég á skilið góða heilsu, en ég verð þá að sinna mér vel og næra bæði andlega og líkamlega,  ekki bæla niður tilfinningar sem setjast að í líkamanum,  ekki fela mig og ekki afneita sjálfri mér.  Ég verð að samþykkja sjálfa mig og elska og gera það sem í mínu valdi stendur til að halda góðri heilsu.  Auðvitað er ekki allt á mínu valdi, en ótrúlega mikið samt.

 

Ég á skilið að skína.  Já, ég má og á að skína – og ljós mitt á ekki að skyggja á neina aðra og ef þeim finnst það óþægilegt þurfa þeir kannski bara að skrúfa upp sitt eigið ljós? –   Hamingja mín er hamingja þín og öfugt.

 Ég á skilið að eiga góðan maka, ég þarf á samneyti, nánd og snertingu aðila af gagnstæðu kyni  að halda eins og svo margir.  Ég væri að ljúga ef ég þættist ekki þurfa þess.  Ég á skilið maka sem stendur mér við hlið og hann á skilið maka sem stendur honum við hlið.  Ég á skilið jafningjasamband,  heiðarleika, traust og það að vera elskuð eins og ég er og þurfa ekki að sanna mig, eða betla um athygli.  Ég á skilið maka sem veit hvað hann vill.  Hann á líka skilið að ég segi honum hvað ég vil.  Allt of mörg pör yrða ekki væntingar, langanir sínar og þrár við hvort annað og fara svo í fýlu þegar að þær eru ekki virtar. –

„Betra er autt rúm en illa skipað“ –    hvað er annars illa skipað rúm?  Það verður hver að finna út fyrir sig.

Það er margt, margt fleira sem ég á skilið, eins og að lifa án þess að þurfa að óttast útgjöld hver mánaðamót,  án þess að lifa í afkomukvíða, en það hefur verið minn raunveruleiki síðastliðið ár,  og hefur það verið mín stærsta áskorun að halda hamingjunni og sjá hana, þannig að útgjaldafrumskógurinn skyggi ekki alveg á hana, en ekki bogna við það að veraldlegur grunnur hefur gefið sig.   Ég verð að líta á það sem dýrmæta reynslu (gjöf?) að geta sett mig í spor þeirra sem hreinlega ekki eiga fyrir mat, selja gullið sitt eða hvað nú sem það er sem er einhverra peninga virði. 

 

 

Ég á margt skilið og að sjálfsögðu eiga allir menn og allar konur allt gott skilið.  

 

Við erum eflaust sjálf að hindra það ítrekað,  við trúum því ekki.

 

En ég ætla að ítreka það daglega við sjálfa mig,  

“Ég á allt gott skilið” –

 

“En hvað gagnast það manninum að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?”

 

Þessi spurning hefur leitað á mig undanfarið, – og ég er ekki að biðja um heiminn, aðeins traust þannig að ég geti haft þak yfir höfuðið og hafi frelsi til að geta heimsótt barnabörnin mín e.t.v tvisvar á ári.   Það stendur tæpt í dag,  en það rætist úr, því ég á það skilið! 😉

 

Aldrei hef ég verið með meiri innri lífsfyllingu,  enda hef ég verið dugleg að fylla á bikarinn með góðri næringu og í raun með því bara að trúa að bikarinn sé fullur og sjá það.  Vakna til meðvitundar um þessa ómetanlegu innri gjöf.

 

Nú eru nýir hlutir að koma inn í líf mitt og ný verkefni – eða réttara sagt nýjar gjafir.  Ég hef ítrekað gert sömu mistökin,  já, en nú hef ég lært og tek ekki á móti því sem mér er ekki bjóðandi.  Ég læt ekki bjóða mér upp á ógeðisdrykk sem ég drekk þegjandi og hljóðalaust vegna þess að það hentar öðrum, af honum verð ég veik. Ég ætla að gera rétt og vera vakandi,  virða þarfir mínar og langanir en ekki fara í aftursætið og alls ekki í píslarvottahlutverkið.

 

Ég get þetta,  ég ætla og ég skal,  en ég bið líka um hjálp þess máttar sem elskar mig skilyrðislaust,  og það er bara einn máttur sem getur það og það er Guð.

„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli“

Takk.

 

 

Að lifa jákvæðara lífi ..

Hættu að vera þinn versti óvinur eða óvinkona.  Vertu besti vinur þinn eða vinkona.

Hættu að gera lítið úr sjálfri/sjálfum þér.  Gerðu mikið úr þér!

Ekki leyfa öðrum að ákveða hver þú ert. þú getur ekki verið misheppnuð/misheppnaður nema með eigin samþykki!

Virtu þig.  Settu hátt verðmætamat á þig.

Farðu yfir hver þú ert og hvað þú getur gert.  Bættu upp veikleikana og finndu nýjan styrkleika á hverjum degi.

Skiptu út „Ég get ekki“  í  „ég get og ég skal“ ..

Komdu fram við þig af rausnarskap, eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Sýndu samúð.  Elskaðu sjálfa/n þig og aðrir munu elska þig.

Mundu að þú ert einstök Guðs sköpun.  Sem listaverk Guðs ertu ómetanleg/ur og ekki hægt að skipta þér út.

Sjáðu fyrir þér hvað þú vilt fá út úr lífinu, færðu þig síðan nær því.  Sjáðu það og vertu það svo.

Njóttu þess að vera einstök mannvera.  Þrátt fyrir að billjón manns hafi fæðst á þessari jörð frá upphafi,  hefur aldrei verið, og verður aldrei, önnur/annar þú.

Gerðu þér grein fyrir að þú ert mikilvæg/ur fyrir allan heiminn;  það sem gerist fyrir heiminn byrjar með ÞÉR! ..

endursagt frá:  http://positive-thoughts.typepad.com/inner_wisdom/

Hafðu hugrekki til að trúa ..

Þú mátt vita að. . .

Þú getur ekki verið öllu fólki allt.
Þú getur ekki gert alla hluti í einu.
Þú getur ekki gert alla hluti jafn vel.
Þú getur ekki gert allt betur en allir.
Þú ert mannleg/ur eins og allir aðrir.

Svo. . . .

Áttaðu þig á því hver þú ert, og vertu það sem þú ert.
Taktu ákvörðun hvað er í forgang, og gerðu það.
Finndu styrkleika þína, og notaðu þá.
Lærðu að keppa ekki við aðra,
vegna þess að enginn er í keppni við þig að vera þú.

Þá munt þú ..

Læra að samþykkja hversu einstök vera þú ert.
Læra að setja hlutina í forgang og taka ákvarðanir.
Læra að sýna þér þá virðingu sem þú átt skilið.
Og þú verður sprellifandi dauðleg vera.

Hafðu hugrekki til að trúa . . .

Að þú sért yndisleg, einstök vera.
Þú sért einstök persóna í mannkynssögunni.
Að þú hafir meira en rétt til að vera sá/sú sem þú ert.
Að lífið sé ekki vandamál til að leysa,
heldur gjöf til að virða og þú getir staðið með sjálfri/sjálfum þér
gegn hverri persónu eða hlut sem reynir að brjóta þig niður.

endursögn  á:  http://positive-thoughts.typepad.com/

Lífsgangan, nestið og viðbúnaðurinn …

Þessi hugvekja er endurvakin, – eflaust vegna þess að ég sá mynd sem minnti mig á hana.  Þessi táknræna mynd er hér:

Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft hvernig viðkomandi lifði lífinu, og í jarðarförinni er farið yfir lífsgönguna, oftar kallað lífshlaup. Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn hungrað  lífdaga, eða hvað?

p1010005_1089998.jpg
Einu sinn skrifaði ég um  menntaveginn sem væri genginn eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum ca. fyrirfram hvað á að taka langan tíma.

Ekki komast allir á leiðarenda,  heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meira og falla fyrir eigin hendi. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu, sér engan tilgang til að halda áfram.
Það sem dregur helst úr mér er illskan og skömmin. Illskan, hatrið og óttinn sem þrífst í heiminum og á minni eigin göngu herjar það á mig sem illviðri eða mótvindur.
Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og væntanlega þinn, í lifsgöngunni?  Það er væntanlega elskan – það er að vera og lifa sem vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri láta gott af sér leiða og elska því betra.
Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla og opna hjarta sitt fyrir elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.
Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.
Gildin eru m.a. þau góðu eins og:  ást, heilindi, hugrekki, traust, trú,  virðing og vinátta – þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri.  Stundum eru þau reyndar betri í að kenna okkur.
Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung – hvorki líkamlega né andlega. Við megum ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg. Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins –  njóta þess að vera þar sem við erum, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú.
Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska – elska sig og elska aðra.
Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður – og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða.
Allt sem við vökvum dafnar og þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, trúna, hugrekkið og vökva elskuna.
Sendum fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar, sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við okkar áhyggjur í viðkomandi sem við höfum áhyggjur af. Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka til viðkomandi.  Við það má bæta að senda óvinum okkar, eða þeim sem teljast dags daglega ekki í „okkar liði“ líka fallegar hugsanir,  fallegar hugsanir skaða engan og síst okkur sjálf.
Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni, kannski bara í kvöld – tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir hversdaginn, þökkum það sem við venjulega tökum sem sjálfsögðum hlut.  „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ ..
Gott nesti í formi næringar er grundvallarelement fyrir heilsusamlegri lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar;  líkamanum – og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum – en vissulega verður þetta tvennt að fara saman, á lífsgöngunni.
Síðast en ekki síst, er mikilvægt að minnast á samferðafólkið í lífsgöngunni. Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki , yndislegu og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt og mikilvægt sem ég kynnist, allir hafa eitthvað að gefa.  Sumt fólk er fyrirmyndir af því sem ég vil vera og annað fólk að því sem ég vil ekki vera.

Þau sem gefa elsku, styrk og gleði eru bestu fyrirmyndirnar og þeim kýs ég að vera samferða.


Við höfum val! 

 

 

Að leiða af ástríðu …. í tilefni nýafstaðinna forsetakosninga

„Hver einn og einasti einstaklingur fæðist hér sem ljósvíkingur“ …Ég trúi því að allir hafi kraft og geti áhrif haft.“ …  Vildi samt óska ég væri meira vakandi, stundum er ég sofandi“ .. Allir eru ljósvíkingar í hjartanu á sér“ … (Mugison og Hjálmar)

Ég er hugsi vegna nýafstaðinna forsetakosninga.  Getur verið að sá sem hafði mestu ástríðuna hafi unnið kosningarnar og hafi þannig tekist að vekja von,  eða var það vegna þess að hann vakti ótta? –  Ég ákvað að kjósa Þóru,  þó ég viðurkenni að mér hafi þótt vanta upp á ástríðuna hjá henni og upplifað eitthvað vélrænt við og við  …  en það er bara mín upplifun, og þrátt fyrir það var hún mitt val,  því þetta vélræna var bara við og við, eins og áður sagði. –  Þegar ég horfði á samræðurnar í gærkvöldi var það í raun Andrea sem heillaði mig mest,  og ég held að sú kona eigi eftir að ná árangri sem leiðtogi, þó það verði ekki sem forseti.  Reyndar var ég búin að spá því að Dorrit yrði sigurvegari kosninganna, en þar fer kona með sjarma og hugrekki þeirrar sem berskjaldar sig og tekur sig ekki of hátíðlega.

Í mínum huga þarf forseti að vera ljós og vekja ljós hjá öðrum.  Vera andlegur og ástríðufullur leiðtogi ekki síður en veraldlegur.  Því að ef að andann vantar og ástríðuna,  þá vantar ansi margt.

„Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu“ …  (´úr 5. kafli Matt. )

Það þarf ekki nema eina eldspítu til að lýsa upp dimmt herbergi.  Með þessari  einu eldspítu er hægt að kveikja á mörgum kertum.

Þannig virkar leiðtoginn og þannig er kjarninn í því að veita öðrum eldmóð og innblástur.  Það er sá sem opinberar ljósið sitt,  er tilbúin/n til berskjöldunar og  hefur hugrekkið til að losa sig við ótta, efa og hamlandi trú og gefur fólki von, bjartsýni og tilfinningu fyrir tilgangi sínum.  Mikilvægi þess að færa ljósið inn í heim óvissu og hvetja aðra til að gera það sama.  Þetta er það sem við köllum ástríðu eða eldmóð.

Ástríða er orka sem kemur frá hjartanu sem flæðir í gegnum okkur, ekki bara frá okkur. Hún fyllir hjörtu okkar þegar við leyfum það og hún gefur öðrum innblástur þegar við deilum henni.  Það er eins og sólskin sem flæðir inn um dyragátt sem við leyfum okkur að opna.

Það er ekkert nýtt, það var alltaf til staðar.  Við þurftum bara að samþykkja það.   Undir réttu kringumstæðunum virkar þetta „flæði“ áreynslulaust, auðvelt og tignarlegt.

Það er að minna okkur á að við höfum tilgang.  Okkur er ætlað að vera jákvæð.  Okkur er ætlað að vera ástríðufull og upplifa ákall lífsins – opna dyrnar sem hingað til hafa stundum lokað á ljósið. – Dyr mótstöðu og hamlana.


Innblásturinn kemur þegar við leyfum sjálfum okkur að vera andleg og í takti við innsta kjarna.

Þegar þú upplifir einlæga ástríðu og ert innblásin/n af einhverju eða einhverjum,  í hvers konar ástandi ertu?  Hvað ertu tilbúin/n til að gera til að sýn þín verði að veruleika? –  Sleppa ótta?  Sleppa efa? – Trúa á sýnina?

Þegar sjálfsöryggið vex og trúin á markmiðið er líklegra að ná árangri.

Við erum öll leiðtogar, við erum það með því að vera fyrirmyndir,  okkar eigin, börnum okkar og annarra, okkar nánustu og svo koll af kolli stækkar það … Ef við látum ljós okkar skína, – þá þýðir það að við erum að fylla okkur af ljósi lífsins, ljósinu sem okkur var gefið við fæðingu.  Það streymir til okkar og við eigum ekki að loka á það, heldur gefa það áfram. Það er okkar að viðhalda ljósinu og við getum gengið í gegnum hvern dimman dalinn á fætur öðrum, og lýst þann dal.  Okkur hefur nú þegar verið gefið ljósið,  en það er okkar að láta það skína.

(hluti af þessari hugvekju er innblásin af:
Leading with Passion  eftir John J. Murphy)