Bæn um innri frið …

Elsku Guð,

Vinsamlega hjálpaðu mér við að finna frið í  huga mínum, hjarta og líkama.
Viltu hjálpa mér við að sleppa tökunum á því sem er í gangi núna!  Viltu hjálpa mér við að losa mig við þörfina að stjórna.
Viltu hjálpa mér að finna þolinmæði, og að treysta því að þú ert að leysa mín mál. Vinsamlega hjálpaðu mér við að losa mig við reiði, gremju og eirðarleysi.

Elsku Guð, hjálpaðu mér við að kalla fram minn innri frið. 

Takk fyrir.

1555415_661042837270364_595126559_n

Gekk ég yfir sjó og land …

„Gekk ég yfir sjó og land og hitti þar einn gamlan mann, sagði svo og spurði svo hvar áttu heima?“ ..

Og hvar á ég heima?

Ég las í góðum pistli Bjarna Karlssonar prests,  um að þakklæti væri andstæða sjálfsvorkunnar, og auðvitað passar það.  Það snýst um fókus, að horfa á það sem við erum þakklát fyrir í stað þess að vorkenna okkur yfir því sem við ekki höfum. –

Sumt er svo sorglegt að við megum alveg vorkenna okkur smá, en það er vonlaust að ætla að dvelja í vorkunnseminni eða reisa okkur hús í hennar landi. 

Ég heyri stundum í viðtölum mínum að það er eins og fólk leiti uppi vandamál eða hreinlega búi til hindranir í sínu lífi, –  ef það hefur ekki utanaðkomandi vandamál. –   Já, sorgleg staðreynd, og ég sá að vinkona mín Hallgerður Pétursdóttir hefur stundum skrifað: „Sumum líður best illa“.. og við höfum eflaust öll verið þar einhvern tímann. Þannig að þetta getur átt við okkur öll á einhverjum tímapunkti, en munurinn er hvort við kíkjum bara í heimsókn eða hvort við byggjum okkur hús þarna í Sjálfsvorkunnarlandi.

VIð erum öll eins í grunninn, við fáum líkama og við fáum sál.  Við erum hirðar líkama og sálar og við þurfum að staðsetja likama og sál.

Við þurfum stundum að vorkenna okkur, og leyfa okkur að finna til, en að sama skapi þurfum við að þakka okkur fyrir allt sem við höfum áorkað, allt sem við höfum gert og erum.  Þakka líka lífinu fyrir allt það góða sem það hefur fært okkur,  fyrir að mega anda fersku lofti, finna ilminn af sjónum og sjá stjörnur á himni.  Þakka fyrir litlar hendur, stórar hendur, lítil faðmlög og stór.  Þakka fyrir líf sem þó hefur hvatt, en líf sem gaf á meðan á því stóð.

Ég var að hugsa það í morgun hvað það væri magnað, þessar gjafir sem mín nánustu hafa skilið eftir. –  Pabbi kvöldbænirnar og signinguna,  mamma morgunversið „Upp, upp mín sál“ – og Eva mín endalaust ljós sem fylgir mér alla daga.  –  „Hugsaðu ljós“ .. heyri ég hana hvísla.

Með þessa hvatningu verða allir vegir færir.

Ég hef valkost og ég hef valið að búa í landi án allrar aðgreiningar og án allra landamæra og það er rúm fyrir alla sem velja að gerast landnemar þar.

Ég ætla að búa í Þakklætislandi, en þú? 

Thank-you-post-it

 

Lifum við fótósjoppuðu lífi?

Skömm er hugtak sem margir þekkja, en hafa kannski ekki íhugað sérstaklega. – Okkur er kennt að skammast okkar fyrir okkur, eða fjölskyldu okkar – allt frá barnæsku.  Við upplifum skömm þegar við göngum gegn gildum okkar.  Þegar við „leyfum“  einhverjum að gera okkur eitthvað.  Þegar við erum beitt ofbeldi og segjum ekki frá því.  Þegar við bregðumst viðmiðum samfélagsins, sem eru samt þannig að ekki er hægt að mæta þeim.  Við viljum vera eins forsíðustúlkan, vera fjölskyldan sem er fullkomin miðað við fullkomnunarstaðla sem enginn getur uppfyllt.  Allar fjölskyldur eiga einhver sár, einhver heldur framhjá, einhver drekkur of mikið, rífst of mikið, ruslar út, dópar, einhver beitir ofbeldi, en samt …

…allt á að líta vel út, eins og í bíómynd eða glansmynd – einhvern veginn fótósjoppað. –

Skömmin getur alið af sér þunglyndi, einangrun, efasemdir um eigið sjálf, einmanaleika, þráhyggju, fullkomnunaráráttu, minnimáttarkennd og það að finnast að við séum aldrei nóg eða gerum aldrei nóg.

Skömmin þvingar okkur til þess að skapa falska sjálfsmynd vegna þess að þegar við upplifum skömm finnst okkur að við séum gölluð.  Við skömmumst okkur fyrir okkur sjálf og þá er leiðin að þykjast vera önnur en við raunverulega erum.

Við förum að lifa fyrir ímyndina eða hugmyndina um okkur og sambönd okkar.

Fyrirmyndarmanneskja, fyrirmyndarmaki, fyrirmyndarmóðir … fyrirmyndarfjölskylda o.s.frv.   skv. standard sem í raun er ekki til.

Þannig lifum við fótósjoppuðu lífi.

Það er ekki fyrr en við viðurkennum veikleikana, og sættumst við sjálf okkur sem við erum frjáls.  Elskum okkur – í fullkomnum ófullkomleika – grímulaus.

Prófum að standa nakin fyrir framan spegilinn eins og barn sem aldrei hefur lært skömm,  eða að skammast sín fyrir líkama sinn, strjúkum á okkur magann sem er stundum mjúkur, stundum stór, stundum lítill, virðum fyrir okkur slit eða appelsínuhúð og elskum okkur samt.

Ekki eftir megrun eða fitun,  ekki eftir cellulite-krem eða nokkra tíma í ljósabekk. –   Elskum okkur NÚNA og sættum okkur við okkur NÚNA:

Við tökum ábyrgð á eigin lífi – tökum móti okkar eigin lífi og eigin líkama og segjum takk.

Verum auðmjúk í veikleika okkar, viðurkennum að við erum breysk og við bara megum vera það.

Við þurfum ekki að viðhalda falskri ímynd, til að lifa með okkur sjálfum,  við þurfum að losa okkur við falska ímynd til að lifa með okkur sjálfum.

Margir eru að vinna í lífstílsbreytingum í kjölfar áramóta, – við breytum engu ef skömmin er staðurinn sem við stöndum á, – þess vegna er mikilvægt að færa sig yfir á annan stað, stað sáttar.

Það er á þeim stað, í sáttinni við okkur sjálf, eins og við erum – sem við förum að vera við sjálf, ekki í spennitreyju skammar eða ótta við að það uppgötvist hver við raunverulega erum,   við uppgötvum að eigin spegilmynd er sönn og nóg og við getum sagt af einlægni við manneskjuna sem birtist okkur:

„Mikið er ég fegin/n að sjá þig, hvar hefur þú verið svona lengi elskan mín?“ ..

536703_549918495048818_1296317144_n

Hugleiðsla – af heilu hjarta –

Undanfarna daga hef ég bæði fengið símtöl og skilaboð á netinu með fyrirspurnir hvenær ég verði með næstu hugleiðslunámskeið, – svo ég svara að sjálfsögðu kallinu. 🙂

Yfirskrift febrúar- hugleiðslunámskeiðanna 2014 verður: 

„Af heilu hjarta“  –

þar sem við æfum okkur í að sjá það sem býr innra með okkur, í kjarnanum,  áttum okkur á því að við þurfum ekkert að leita að okkur sjálfum – aðeins að uppgötva okkur sjálf. – 

Námskeiðið verður einu sinni í viku,  90 mín í senn.

Ég nota mína eigin „hugleiðslukörfu“ – en það er bland í poka af því sem ég hef lært,  en þetta er að sjálfsögðu allt á mjög svo andlegum nótum.

Dæmi um það sem fólk hefur sagt:

„Ég var með höfuðverk þegar ég mætti – hann er horfinn“ ..  

„Ég sef miklu betur“ ..

„Kvíðinn er næstum horfinn“ ..

„Ég hef oft prófað hugleiðslu, en aldrei virkað fyrr…“ 

Námskeiðin byrja í febrúar:

Staður:  Lausnin, Síðumúla 13, 3. hæð.

Mánudagar kl. 20:00 – 21:30   3. 10. 17. og 24. febrúar.

eða

Föstudagar kl. 10:00 – 11:30  7. 14. 21. og 28. febrúar.

Leiðbeinandi: Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur og ráðgjafi Lausnarinnar.

Verð kr. 8000.-   (kærleiksbolli með áletrun „ég samþykki mig, ég fyrirgef mér, ég treysti mér, ég elska mig, ég virði mig, innifalinn).  

Fjöldi þátttakenda: hámark 12

Skráning mun fara fram á síðunni www.lausnin.is  (opnar væntanlega í kvöld eða morgun 14. janúar).

Ég ætla …..

 Hvað er þetta Nú sem stundum er talað um?

“Present Moment”

Present þýðir gjöf og Núið er því gjöf.

Núið er svolítið sleipt, og því erfitt að reyna að festa á því hendur, eða hvað?

Galdurinn er:  “EKKI REYNA” …

Um leið og við hættum að reyna,  kemur Núið til okkar,  það kemur ekki ef við fyllumst örvæntingu eða kappi við að elta það, því það liggur í hlutarins eðli að ef við erum að elta þá er það ekki “present”  heldur fjarlægt.

Að reyna gefur okkur útgönguleið, eins og orðið “kannski” –

Ég ætla að reyna ….

Kannski ætla ég ….

Þar höfum við opnað fyrir möguleikann að gera það ekki.

Ég ætla ekki að reyna að vera til,  heldur ætla ég að vera til.

Það er svo merkilegt að um leið og við hættum að reyna þá fara hlutirnir að gerast.

Vinátta

Vínátta er einn af mikilvægari þáttum mannlífsins. Það er gott að eiga góða og trausta vini og vinkonur, og vinátta getur verið af mörgum toga. –

Vinátta felst í svo mörgu eins og að:

  • hlægja saman
  • deila leyndarmálum
  • upplifa saman
  • gráta saman
  • o.fl. o.fl.

Hið ofangreinda gæti verið lýsing á vináttu í parasambandi. Stundum er makinn líka besti vinurinn eða vinkonan, – og þess vegna verður það þannig, hvort sem er við skilnað eða dauðsfall að við missum okkar besta vin eða bestu vinkonu. –

Gott er að hafa í huga fyrir fólk í samböndum að rækta vináttuna utan hjónabandsins/sambandsins líka, því að par getur einangrast í þessari vináttu og þá verður missirinn enn meiri ef að engir eða fáir vinir eru til að „grípa“  mann ef makinn fellur frá eða um skilnað er að ræða.

Að eiga sjálfa/n sig að vini eða vinkonu er þó  vináttan sem má aldrei þverra og  það versta hlýtur að vera að eiga ekki eigin vináttu.  Að vera sjálfri/sjálfum sér e.t.v. vond/ur.

Það er allt í lagi, við og við, að líta í eigin barm, eða jafnvel spegil og þakka sér fyrir eigin vináttu, – og kannski lofa enn betri vináttu inn í framtíðina.

hjarta

2014 – ár einfaldleikans ..

Gleðilegt ár þú bjarta sannleiksbarn, – já svona er ávarpið 1. janúar 2014 og það er gott að hefja nýtt ár á björtum nótum. –

Ég hlustaði á „englaspákonuna“ Doreen Virtue í nótt fyrir svefninn, þar sem hún sagði lykilorð fyrir árið 2014 vera „Simplicity“  eða einfaldleika. –

Þegar við lifum í einfaldleika, þá erum við ekki að safna óþarfa, og þá erum við að losa okkur við óþarfa líka.  Bæði veraldlegan og andlegan óþarfa.

Óþarfa má skilgreina sem hluti sem halda aftur af okkur, – halda aftur af okkur að ná árangri, bæði í ytri og innri markmiðum. –

Hún lýsti þessu sem við værum komin í loftbelg, og markmiðið væri að svífa hátt, komast á hærra plan, en ef við værum með of mikinn farangur kæmumst við illa á loft og þyrftum því að henda úr körfunni til að lyftast og þess meira sem við losuðum okkur við því hærra myndum við svífa.-

Dásamleg líking og við könnumst flest við það að það eru hlutir sem eru að íþyngja okkur, – hlutir eða fólk, eða bara eigin hugsanir um hluti og fólk, er það ekki? –

Fókusinn í einaldleikanum er því á það sem skiptir máli og ÞÚ skiptir máli, – það er fyrst og fremst ÞÚ sem þarft að komast með í ferðalagið í loftbelgnum, – ekki skilja sjálfa/n þig eftir og horfa á eftir honum svífa í burtu.

Hvað íþyngir þér? – Hvað heldur aftur af þér? –  Það fyrsta sem kemur í hugann er yfirleitt það sem er rétt. –  Flest tölum við um að við séum sjálf okkar stærsta hindrun,  en það er ekki alveg nákvæmt, því það eru hugsanir okkar um ákveðna hluti eða fólk.   Það þarf því oft aðeins að létta á hugsunum okkar.

Við byrjum innan frá – þar byrjum við að létta okkur, – og losa við það sem er óþarfi, og þegar við höfum losað okkur við það  þá förum við að svífa og getum jafnvel flogið. –

Leyfum okkur að trúa þessu, – leyfum okkur að leika og syngja –  það er eins og að syngja „Mikið lifandis óskapar, skelfing er gaman að vera svolítið hífaður“ … án þess að þurfa að drekka einn einasta sopa.  Bara að hugsa þetta og syngja, gerir okkur hífuð á vímu lífsins. –  Það er líka bara svolítið fyndið, og þegar við brosum, svo ekki sé talað um að hlægja virkjum við gleðina hið innra. –

Ódýrt og einfalt. –

Ég óska þér réttlætis og friðar og góðrar ferðar á æðri víddir lífsins í þínum prívat loftbelg. –

Mætumst síðan í sjöunda himni!

Á ári einfaldleikans – 2014.

hot-air-balloon-22