Gleðin við að vera …

Eftirfarandi texti er innblásinn af Eckhart Tolle, sem skrifaði m.a. bókina Mátturinn í Núinu. –

Er gleði, áreynsluleysi og léttleiki í því sem þú ert að gera?  Ef ekki, þá er tíminn að taka frá þér stundina, og þú sérð lífið sem byrði eða þraut.

„Fagnaðarerindið“ er að ef ekki er gleði, áreynsluleysi eða léttleiki í því sem þú ert að gera, þýðir það ekki að þú þurfir endilega að breyta því sem þú ert að gera, heldur getur verið að það sé nægjanlegt að breyta því hvernig þú ert að gera það.  „Hvernig“ er alltaf mikilvægara en „Hvað“ .-

Skoðaðu hvort þú getur veitt gjörningnum (því sem þú ert að gera) meiri athygli en útkomunni út úr gjörningnum. –

Dæmi úr hversdagslífinu, – þú ert að vaska upp, þú nýtur þess á meðan þú ert að gera það, uppvaskið verður að athöfn sem þú nýtur,  í staðinn fyrir að verða ekki sátt/ur fyrr en uppvaskinu er lokið 🙂 ..

þú gefur uppvaskinu fulla athygli og ert því í tímanum, en ekki í framtíínni þegar uppvaskinu er lokið. –

Þetta er einföld útskýring á „accept what is“ eða sættu þig við það sem er.  Æfingin felst í því að veita miklu meiri athygli í það sem við erum að gera en útkomunni út úr því.  Ef að við erum að vinna verkið og hugurinn kominn áfram – erum við að hafna núinu. –

Á sömu stundu og við virðum stundina, hverfur óhamingju og barátta – eins og fitan hverfur með uppþvottaleginum, og lífið fer að flæða í gleði og án áreynslu.

Þegar þú ástundar það að njóta stundarinnar og veita henni athygli, verða einfaldir hlutir mun ánægjulegri.

Svo ekki vera of upptekin við að hugsa um afraksturinn – veittu því sem þú ert að gera athygli.  Afraksturinn kemur þá óumflýjanlega og áreynslulaust.

Þarna vitum við af markmiðinu, en við erum með fókusinn á því sem við erum að gera. –

Önnur leið að segja þetta er „The Way to Heaven is Heaven“ –  Lífsgangan á að vera ánægjulega, NÚNA, ekki bara þegar við höfum náð áfangastað. –

Sátt við núið verður ekki betur lýst, – í mínum huga. –  Svona getum við sætt okkur við okkur sjálf, líkama okkar, og aðstæður okkar.  Æft okkur að ástunda þolinmæði og nægjusemi. –

Þegar þessi árátta að flýja núið – fara fram eða aftur í tíma minnkar, flæðir gleði þess að Vera inn í allt sem þú gerir.  Á þeirri stund sem athygli þín beinist að Núinu,  upplifir þú gjöf viðveru þinnar,  ró, frið.  Þú þarft ekki að reiða þig á framtíðina til að ná fullnægju – frelsun þín liggur ekki í framtíðinni.  Þegar – Þá – Ef .. heldur Núna.  Þá aftengir þú þig útkomunni. Hvorki það að mistakast eða ná árangri hefur máttinn til að breyta ástandi tilveru þinnar.  Þú hefur uppgötvað lífið sem er undirstaða stöðu þinnar í lífinu.

Þörfin til að vera eitthvað annað eða öðruvísi en þú ert hverfur, þegar þú nærð þessum stað sáttar við núið.  Það getur vel verið að þú náir alls konar árangri:  að verða þekkt/ur, auðug/ur, losir þig við hluti sem ekki þjóna þér,   en þegar horft er dýpra, inn í vídd  þess að VERA,  ertu fullkomin/n og heil vera  NÚNA.

Það vantar ekkert, skortir ekkert,  þú þarft ekki að betla – fjársjóðurinn ert þú, gleðin ert þú, ástin ert þú, friðurinn ert þú, þú ert nóg og hefur nóg og fram streymir gleðin við að vera. 

i_am_enough

Hvað viltu geta?

Á morgun byrjar níu vikna námskeið hjá Lausninni, Síðumúla 3, sem heitir: „Ég get það“ og er nafnið eftir samnefndri bók Louise Hay  þar sem farið er í sjálfsmynd, sjálfstraust, heilsu, ást og sambönd, fyrirgefningu, starfsgleði, kvíðalaust líf o.fl. –   Þar lærum við um mátt jákvæðra staðhæfinga, en neikvæðar staðhæfingar er það sem flest fólk stundar daglega.  Byrjar einhvern tímann í bernsku og er svo viðhaldið af ……okkur sjálfum.

Þetta námskeið er ein leið til að fjárfesta í sjálfum sér og styrkja eigin getu, t.d. getuna við að sleppa tökunum á hlutum sem þjóna þeim ekki lengur.

Námskeiðið er blanda gamans og alvöru.

Námskeiðið er niðurgreitt af ýmsum stéttarfélögum og ef ég væri atvinnurekandi myndi ég ekki hika við að bjóða mínu starfsfólki á svona námskeið,  þar sem m.a. er fjallað um sátt og starfsgleði og jákvæðnifókusinn yddaður. –

Enn eru nokkur pláss laus, skráning og meira um námskeiðið er HÉR.

Kannski viltu bara fá tæki til að uppgötva allt sem þú getur nú þegar en hefur ekki komið auga á? ..

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Sönn ást – sjö atriði sem gott er að hafa í huga …

Eftirfarand er lausleg þýðing á grein frá  Dr. Lisa Firestone

1. Sönn ást berskjaldar okkur.  Nýtt samband er ókannað landsvæði, og flest erum við hrædd við  óvissuna. Að leyfa okkur að verða ástfangin þýðir að við erum að taka raunverulega áhættu.  Við erum að leggja mikið traust á aðra manneskju, og leyfum henni að hafa áhrif á okkur, og við það verðum við opin og berskjölduð.  Varnirnar eru felldar alveg inn að kjarna.  Við höfum tilhneygingu til að trúa að þess meira sem sambandið skiptir okkur máli, þess meira verðum við særð.

2. Ný ást hristir upp í gömlum særindum. Þegar við förum í samband,  gerum við okkur sjaldnast ljóst hvað fyrri saga okkar hefur haft mikil áhrif.  Það sem hefur sært okkur í fyrri samböndum,  og á rætur allt til bernsku,  hefur mikil áhrif á það hvernig við sjáum fólkið sem við verðum náin og hefur líka áhrif á það hvernig við hegðum okkur í rómantískum samböndum.  Gömul neikvæð orka getur hindrað okkur í að opna okkur gagnvart einhverjum nýjum. Við gætum horfið frá nándinni vegna þess að hún hristir upp í gömlum sárindum, missi, reiði, eða höfnun.  Að langa í ást – getur orðið flókin tilfinning sem er blönduð hugmyndum um sársaukann við að missa ást. .

3. Ást ógnar gamalli sjálfsmynd.  Mörg okkar glíma við þá tilfinningu undirmeðvitundarinnar  að vera ekki elsku verð.  Við eigum í vandræðum með að finna verðmæti okkar og að trúa því að nokkur skuli láta sig varða um okkur.  Við erum öll með þessa innri gagnrýnisrödd sem spilar hlutverk hins grimma þjálfara í höfðinu á okkur, og segir okkur að við séum einskis virði og eigum ekki skilið að vera hamingjusöm.  Þessi þjálfari er skapaður úr sársaukafullri reynslu úr bernsku og gagnrýnu viðhorfi sem mætti okkur snemma á ævinni, – um leið og þetta eru tilfinningar sem foreldrar okkar höfðu í eigin garð.  (Foreldrar eru að sjálfsögðu fyrirmyndir).

Þrátt fyrir að þessi atriði valdi, með tímanum, sársauka eru þau orðin innprentuð eða forrituð í okkur.  Það getur verið að við áttum okkur ekki á því, sem fullorðin að þau séu skaðleg, en samþykkjum þau  sem eigin skoðanir á okkur sjálfum.  Þessar gagnrýnu hugsanir „innri raddir“ eru oft skaðlegar og óþægilegar, en eru um leið þægilegar í kunnugleika sínum. (Við þekkjum þær)  Þegar önnur manneskja sér okkur ólíkt röddunum,  elskar okkur og virðir, getur okkur farið að líða illa og farið í vörn, vegna þess að það ögrar þessum skoðunum sem tengjast sjálfsmynd okkar og við erum vön.

4. Með raunverulegri gleði kemur raunverulegur sársauki.  Hvenær sem við upplifum sanna gleði eða mikilfengleik lífsins á tilfinningaskala, getum við búist við að við verðum mjög sorgmædd.  Við erum í raun hrædd við gleðina.    Mörg okkar hrökklast því frá hlutunum sem geta gert okkur hvað hamingjusömust, vegna þess að þeir geta líka fært okkur mikinn sársauka.  Hið gagnstæða er líka raunverulegt.  Við getum ekki valið að deyfa okkur fyrir sorg án þess að deyfa okkur fyrir gleði. . Þegar það kemur að því að verða ástfaning/n, getur verið að við hikum, að fara alla leið, vegna óttans við sorgina sem getur vaknað upp í okkur.

5. Ástin er of ójöfn.  Margir segjast hika við að fara í samband vegna þess að hinum aðilanum „líkar of vel við þá.“  Þeir hafa áhyggjur af því að ef þeir fari í samband með þessari manneskju, muni þeirra eigin tilfinningar ekki þróast, og að hin manneskjan endi særð og upplifi að henni sé hafnað.  Sannleikurinn í þessu er að oft er ójafnvægi í ástinni, þannig að önnur manneskjan finni til meiri ástar frá einni stundu til annarrar. Tilfinningar okkar gagnvart einhverjum eru síbreytilegar frá sekúndu til sekúndu, við getum upplifað reiði, gremju, pirring eða jafnvel hatur í garð þeirrar manneskju sem við elskum.   Að hafa áhyggjur af því hvernig okkur líður- heldur okkur frá því að sjá á hvaða braut tilfinningar okkar færu ef þær fengju að flæða óhindrað.  Það er betra að vera opin/n gagnvart því hvernig tilfinningar okkar þróast með tímanum. Að leyfa áhyggjum eða sektarkennd yfir því hvernig okkur líður eða gæti liðið heldur okkur frá því að kynnast einhverjum sem sýnir okkur áhuga og getur hindrað okkur í að mynda samband sem í raun gæti gert okkur hamingjusöm.

6. Sambönd geta rofið tengsl við fjölskyldu.   Sambönd geta verið lokastig í því að verða fullorðin.  Þau gefa til kynna að við erum að hefja okkar eigið líf sem sjálfstæðir óháðir einstaklingar.  Þessi þróun getur líka þýtt að við erum að skilja við fjölskyldu okkar.  Svipað og að skilja við gamla sjálfsmynd.  Þessi aðskilnaður er ekki líkamlegur,  Hann þýðir ekki það að bókstaflega skilja við fjölskyldu okkar, heldur að losa um tilfinningatengsl – þar sem okkur líður ekki lengur eins og barni og fara frá neikvæðri dýnamík sem háði okkur í samskiptum æskuára og mótaði sjálfsmynd.

7. Ást hristir upp í ótta við ytri aðstæður.  Því meira sem við eigum því meira höfum við að tapa.  Þess meira sem einhver skiptir okkur máli, þess hræddari erum við að missa viðkomandi.  Þegar við verðum ástfangin, óttumst við ekki aðeins að missa félaga okkar, heldur verðum meira vör við eigin ódauðleika. Líf okkar verður nú verðmætara og hefur meiri tilgang, svo óttinn við að missa það verður meiri.  Í tilraun okkar við að fela þennan ótta, gætum við farið að fókusera á eitthvað sem skiptir minna máli, skapa ágreining við makann, eða gengið alla leið og slitið sambandinu.  Við erum sjaldnast meðvituð um það hvernig við verjumst þessum ytri ótta.  Við getum jafnvel reynt að finna milljón rökréttar ástæður fyrir því að vera ekki í þessu sambandi.  Þrátt fyrir að þessar ástæður, geti haft lausnir, og það sem er raunverulega að verki er þessi djúpi ótti við að missa.

Flest sambönd færa okkur margar áskoranir. Að læra að þekkja ótta okkar við nánd og hvernig hann stjórnar hegðun okkar er mikilvægt skref til að eiga, fullnægjandi, langtímasamband.  Þessi ótti getur verið bak við grímu ýmissa réttlætinga og ástæðna fyrir því að hlutirnir eru ekki að ganga upp, en það getur komið okkur á óvart hvernig við getum lært um allar aðferðir sem við notum sem sjálfseyðingu – eða hermdarverk á okkur sjálfum þegar við förum að upplifa nánd við aðra manneskju.

Elskum meira og óttumst minna …

556212_332315983512626_1540420215_n

Bæn um innri frið …

Elsku Guð,

Vinsamlega hjálpaðu mér við að finna frið í  huga mínum, hjarta og líkama.
Viltu hjálpa mér við að sleppa tökunum á því sem er í gangi núna!  Viltu hjálpa mér við að losa mig við þörfina að stjórna.
Viltu hjálpa mér að finna þolinmæði, og að treysta því að þú ert að leysa mín mál. Vinsamlega hjálpaðu mér við að losa mig við reiði, gremju og eirðarleysi.

Elsku Guð, hjálpaðu mér við að kalla fram minn innri frið. 

Takk fyrir.

1555415_661042837270364_595126559_n

Gekk ég yfir sjó og land …

„Gekk ég yfir sjó og land og hitti þar einn gamlan mann, sagði svo og spurði svo hvar áttu heima?“ ..

Og hvar á ég heima?

Ég las í góðum pistli Bjarna Karlssonar prests,  um að þakklæti væri andstæða sjálfsvorkunnar, og auðvitað passar það.  Það snýst um fókus, að horfa á það sem við erum þakklát fyrir í stað þess að vorkenna okkur yfir því sem við ekki höfum. –

Sumt er svo sorglegt að við megum alveg vorkenna okkur smá, en það er vonlaust að ætla að dvelja í vorkunnseminni eða reisa okkur hús í hennar landi. 

Ég heyri stundum í viðtölum mínum að það er eins og fólk leiti uppi vandamál eða hreinlega búi til hindranir í sínu lífi, –  ef það hefur ekki utanaðkomandi vandamál. –   Já, sorgleg staðreynd, og ég sá að vinkona mín Hallgerður Pétursdóttir hefur stundum skrifað: „Sumum líður best illa“.. og við höfum eflaust öll verið þar einhvern tímann. Þannig að þetta getur átt við okkur öll á einhverjum tímapunkti, en munurinn er hvort við kíkjum bara í heimsókn eða hvort við byggjum okkur hús þarna í Sjálfsvorkunnarlandi.

VIð erum öll eins í grunninn, við fáum líkama og við fáum sál.  Við erum hirðar líkama og sálar og við þurfum að staðsetja likama og sál.

Við þurfum stundum að vorkenna okkur, og leyfa okkur að finna til, en að sama skapi þurfum við að þakka okkur fyrir allt sem við höfum áorkað, allt sem við höfum gert og erum.  Þakka líka lífinu fyrir allt það góða sem það hefur fært okkur,  fyrir að mega anda fersku lofti, finna ilminn af sjónum og sjá stjörnur á himni.  Þakka fyrir litlar hendur, stórar hendur, lítil faðmlög og stór.  Þakka fyrir líf sem þó hefur hvatt, en líf sem gaf á meðan á því stóð.

Ég var að hugsa það í morgun hvað það væri magnað, þessar gjafir sem mín nánustu hafa skilið eftir. –  Pabbi kvöldbænirnar og signinguna,  mamma morgunversið „Upp, upp mín sál“ – og Eva mín endalaust ljós sem fylgir mér alla daga.  –  „Hugsaðu ljós“ .. heyri ég hana hvísla.

Með þessa hvatningu verða allir vegir færir.

Ég hef valkost og ég hef valið að búa í landi án allrar aðgreiningar og án allra landamæra og það er rúm fyrir alla sem velja að gerast landnemar þar.

Ég ætla að búa í Þakklætislandi, en þú? 

Thank-you-post-it

 

Lifum við fótósjoppuðu lífi?

Skömm er hugtak sem margir þekkja, en hafa kannski ekki íhugað sérstaklega. – Okkur er kennt að skammast okkar fyrir okkur, eða fjölskyldu okkar – allt frá barnæsku.  Við upplifum skömm þegar við göngum gegn gildum okkar.  Þegar við „leyfum“  einhverjum að gera okkur eitthvað.  Þegar við erum beitt ofbeldi og segjum ekki frá því.  Þegar við bregðumst viðmiðum samfélagsins, sem eru samt þannig að ekki er hægt að mæta þeim.  Við viljum vera eins forsíðustúlkan, vera fjölskyldan sem er fullkomin miðað við fullkomnunarstaðla sem enginn getur uppfyllt.  Allar fjölskyldur eiga einhver sár, einhver heldur framhjá, einhver drekkur of mikið, rífst of mikið, ruslar út, dópar, einhver beitir ofbeldi, en samt …

…allt á að líta vel út, eins og í bíómynd eða glansmynd – einhvern veginn fótósjoppað. –

Skömmin getur alið af sér þunglyndi, einangrun, efasemdir um eigið sjálf, einmanaleika, þráhyggju, fullkomnunaráráttu, minnimáttarkennd og það að finnast að við séum aldrei nóg eða gerum aldrei nóg.

Skömmin þvingar okkur til þess að skapa falska sjálfsmynd vegna þess að þegar við upplifum skömm finnst okkur að við séum gölluð.  Við skömmumst okkur fyrir okkur sjálf og þá er leiðin að þykjast vera önnur en við raunverulega erum.

Við förum að lifa fyrir ímyndina eða hugmyndina um okkur og sambönd okkar.

Fyrirmyndarmanneskja, fyrirmyndarmaki, fyrirmyndarmóðir … fyrirmyndarfjölskylda o.s.frv.   skv. standard sem í raun er ekki til.

Þannig lifum við fótósjoppuðu lífi.

Það er ekki fyrr en við viðurkennum veikleikana, og sættumst við sjálf okkur sem við erum frjáls.  Elskum okkur – í fullkomnum ófullkomleika – grímulaus.

Prófum að standa nakin fyrir framan spegilinn eins og barn sem aldrei hefur lært skömm,  eða að skammast sín fyrir líkama sinn, strjúkum á okkur magann sem er stundum mjúkur, stundum stór, stundum lítill, virðum fyrir okkur slit eða appelsínuhúð og elskum okkur samt.

Ekki eftir megrun eða fitun,  ekki eftir cellulite-krem eða nokkra tíma í ljósabekk. –   Elskum okkur NÚNA og sættum okkur við okkur NÚNA:

Við tökum ábyrgð á eigin lífi – tökum móti okkar eigin lífi og eigin líkama og segjum takk.

Verum auðmjúk í veikleika okkar, viðurkennum að við erum breysk og við bara megum vera það.

Við þurfum ekki að viðhalda falskri ímynd, til að lifa með okkur sjálfum,  við þurfum að losa okkur við falska ímynd til að lifa með okkur sjálfum.

Margir eru að vinna í lífstílsbreytingum í kjölfar áramóta, – við breytum engu ef skömmin er staðurinn sem við stöndum á, – þess vegna er mikilvægt að færa sig yfir á annan stað, stað sáttar.

Það er á þeim stað, í sáttinni við okkur sjálf, eins og við erum – sem við förum að vera við sjálf, ekki í spennitreyju skammar eða ótta við að það uppgötvist hver við raunverulega erum,   við uppgötvum að eigin spegilmynd er sönn og nóg og við getum sagt af einlægni við manneskjuna sem birtist okkur:

„Mikið er ég fegin/n að sjá þig, hvar hefur þú verið svona lengi elskan mín?“ ..

536703_549918495048818_1296317144_n

Hugleiðsla – af heilu hjarta –

Undanfarna daga hef ég bæði fengið símtöl og skilaboð á netinu með fyrirspurnir hvenær ég verði með næstu hugleiðslunámskeið, – svo ég svara að sjálfsögðu kallinu. 🙂

Yfirskrift febrúar- hugleiðslunámskeiðanna 2014 verður: 

„Af heilu hjarta“  –

þar sem við æfum okkur í að sjá það sem býr innra með okkur, í kjarnanum,  áttum okkur á því að við þurfum ekkert að leita að okkur sjálfum – aðeins að uppgötva okkur sjálf. – 

Námskeiðið verður einu sinni í viku,  90 mín í senn.

Ég nota mína eigin „hugleiðslukörfu“ – en það er bland í poka af því sem ég hef lært,  en þetta er að sjálfsögðu allt á mjög svo andlegum nótum.

Dæmi um það sem fólk hefur sagt:

„Ég var með höfuðverk þegar ég mætti – hann er horfinn“ ..  

„Ég sef miklu betur“ ..

„Kvíðinn er næstum horfinn“ ..

„Ég hef oft prófað hugleiðslu, en aldrei virkað fyrr…“ 

Námskeiðin byrja í febrúar:

Staður:  Lausnin, Síðumúla 13, 3. hæð.

Mánudagar kl. 20:00 – 21:30   3. 10. 17. og 24. febrúar.

eða

Föstudagar kl. 10:00 – 11:30  7. 14. 21. og 28. febrúar.

Leiðbeinandi: Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur og ráðgjafi Lausnarinnar.

Verð kr. 8000.-   (kærleiksbolli með áletrun „ég samþykki mig, ég fyrirgef mér, ég treysti mér, ég elska mig, ég virði mig, innifalinn).  

Fjöldi þátttakenda: hámark 12

Skráning mun fara fram á síðunni www.lausnin.is  (opnar væntanlega í kvöld eða morgun 14. janúar).