Væntingar og vonbrigði …

Sama hvert litið er, það eru alls staðar árekstrar.  Við mannfólkið rekumst svolítið eins og bílar í klessubílasal.

Kannski er bara best að taka því þannig líka.  Setja á okkur gúmmíhringinn – eins og bílunum.  Klessa á hvort annað og hlæja að því.

Það er þegar keyrt er of fast og ítrekað sem kannski við fáum nóg og fáum jafnvel höfuðverk.

Ég hef nú verið viðloðandi starfsmannahald í liðlega ár, og „Gvöð minn góður“ .. hvað það getur verið snúið! –

Flestir ákveða að það sé náunginn sem sé neikvæður.  Svoleiðis er það bara.   „Ha ég?“ – „Ég er bara uppbyggileg eining fyrir samfélagið“ ..

En hvort sem við erum á heimili, í vinahópi eða starfsmannahópi þá erum við alltaf fyrst og fremst manneskjur,  – sama hvaða stöðu við gegnum.  Við erum manneskjur með væntingar um að eiga gott líf og uppbyggilegt líf,  nokkurn veginn í sátt og samlyndi við aðrar manneskjur.

Það hefur gengið mynd á Facebook – um það að ef við erum óánægð þá getum við bara farið, – við séum ekki rótföst tré.   Svona líkingar eru alltaf einfaldaðar.  Það að fara – eða breyta til er kostnaðarsamt,  en reynsla min er nú samt að það borgi sig að vera þar sem við erum ánægð.

Að taka ákvörðun hvar við ætlum að vera stödd í lífinu,  og hætta að vænta þess að aðrir sjái um að gera okkur glöð, – eða hafi vald á hamingju okkar og heilbrigði. –   Við verðum eiginlega að taka okkur sjálfum það vald í hönd.   Hver og ein manneskja verður að huga að sér og gera SIG glaða.

Hvað ef hún væri að ráðleggja barninu sínu, – eða bestu vinkonu eða vini. Ef við erum í vandræðum með ráð,  þá er alltaf gott að stilla sjálfum sér upp sem persónulegum ráðgjafa sjálfs sín í því formi.

Ég held að ef við leggjum allar okkar væntingar á utanaðkomandi, – fjölskyldumeðlimi, maka, vinnuveitendur .. eða bara hvern sem er,  þá sé það uppskrift af vonbrigðum.   Það er eiginlega best að gera væntingar til sjálfs sín,  því við vitum nákvæmlega hvað okkur vantar og hvað við viljum.

Við viljum væntanlega flest það sama; það að vera heilbrigð og hamingjusöm og þá er bara að fara að koma til móts við eigin væntingar, – og ekkert „ég get ekki“ eða svoleiðis …

Hún Edda Heiðrún Backmann missti mátt í höndum, – það var enginn sem getur málað fyrir hana,  – hún fór að mála með munninum.   Hún fann lausn,  – lausn sem er ótrúleg.

Lausnir okkar margra eru ekki langt undan,  en á meðan við teljum að hún sé í annarra höndum – þá erum við magnlaus og eins og betlarar að bíða ölmusu. –

Að lokum ætla ég að birta hér dæmisöguna hans Eckharts Tolle til útskýrirngar.

Maður nokkur sat á kassa, – hann hafði setið á þessum sama kassa í mörg ár.  Hann rétti út höndina og betlaði peninga.  Einhverjir gáfu honum peninga og aðrir gengu fram hjá.  Svo stoppaði þar einn maður og spurði betlarann: „Af hverju betlar þú?“ –  „Er það ekki augljóst, vegna þess að ég er fátækur og mig vantar peninga.“ –   Þá spurði maðurinn „hefur þú litið í kassann sem þú situr á?“  –   Betlarinn svaraði því neitandi,  – en maðurinn benti honum þá á að kíkja í kassann.   Það sem kom í ljós var að kassinn var fullur af gulli. –

Fólk er fullt af lausnum, fullt af gleði og fullt af ást.  En ef það leitar alltaf til annarra til að leysa sín mál,  að uppfylla sínar væntingar þá er hætta á vonbrigðum, – eða það þarf að vera háð öðrum til þess að uppfylla væntingar.  –

Það er ótrúlegur léttir þegar við erum komin yfir það að vænta þess frá öðrum sem við höfum sjálf.  Við erum öll full af gulli, – og það er mín heita ósk að við sjáum það  ÖLL.

Já,  þessi pistill er um ÞIG,  og ÞÚ ert gulls ígildi,  pældu aðeins í því!

971218_563124067057884_436886814_n(1)

 

Barnið þitt er ekki „vandamál“ …

Enginn er betri fyrir barnið en foreldri þess og enginn er verri fyrir barnið en foreldri þess. –

Allir sem líffræðilega geta orðið foreldrar geta orðið foreldrar.  Til þess þarf enga gráðu, menntun eða annað.   Það þykir bara sjálfsagt að þegar við höfum eignast barn að við kunnum að sinna því, að við elskum það og ölum fallega upp.

Það er bara ekki alltaf svoleiðis.

Þegar barn fær ekki þá umhyggju, uppeldi eða aðbúnað sem er því eðlilegur,  fer það eðlilega að breyta sér.   Það fer að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður.  Óeðlilegar aðstæður eru í raun allar aðstæður sem gera það að verkum að barn breytir sér.  Algengast dæmið er alkóhólískt heimili.   Það getur líka verið heimili þar sem foreldri á við geðræna kvilla að stríða.   Þegar foreldrar kunna ekki eða geta ekki einhverra hluta vegna veitt barninu það sem það þarfnast,  fer barnið að taka upp á alls konar uppátækjum til að reyna að stjórna foreldrum sínum – og reyna að laða fram umhyggju, ást o.s.frv. –    Það fer í hlutverk,  – t.d. hlutverk barnsins sem reynir að gleðja.  „Ég skal mála allan heiminn elsku mamma“ ..   Barnið finnur þörf til að gera eitthvað svo mamma verði glöð og er þannig stundum farið að bera ábyrgð á gleði mömmu.
Stundum fara þessi börn að taka sig verulega á í námi,  því þau vita að það gleður mömmu eða pabba ef þau koma með háar einkunnir.   Svo vilja sum ekki vera fyrir eða taka pláss,  því það eru víst nógu mikil vandamál fyrir.  Það eru t.d. systkini langveikra barna sem fara í þann gírinn.

Svo getur það verið að þetta barn, – hegði sér ekki eins og foreldrarnir ætlast til.  Fari í uppreisn þegar það er búið að fá nóg, – það er búið að fá nóg af því að þóknast og geðjast og vera gleðigjafi heimilisins,  og fer í hinar öfgarnar.   Verður fúlt á móti og skapar vanda,  eða bara það skapar ekki viljandi vanda,  það bara getur ekki meira.   Þá fær barnið stundum að heyra að það sé vandamál.

Ég man eftir 14 ára strák, sem sagði þetta við mig: „Ég er vandamál“ – en vegna þess að ég þekkti fjölskyldusöguna vissi ég að hann var ekki vandamál og reyndar er ekkert barn vandamál.  Það geta vel verið vandamál í kringum barnið og í hegðun þess – það sem það gerir getur ollið vandamálum,   en barn er ALDREI  vandamál.
Hvernig í ósköpunum er hægt að ætla ráðgjafa,  eða sálfræðingi að hjálpa einstaklingi við að styrkja sjálfsmynd sína  sem fær að heyra það beint eða óbeint heima hjá sér að það sé vandamál-IÐ.

Ég skrifaði hér í upphafi að enginn væri betri fyrir barnið en foreldri og enginn verri.   Enginn er verri vegna þess að enginn hefur sterkari  mótandi áhrif en foreldri,  oft er það mamman og oft er það pabbinn og stundum bæði,  eða hvernig samskipti foreldranna eru.   Það er því bráðnauðsynlegt fyrir ALLA foreldra sem eiga börn sem eru í vandamálum (muna – ERU ekki vandamál),  að leita SÉR hjálpar hjá meðvirknisamtökum,  – eða einhvers staðar þar sem þau geta skoðað hvort að eitthvað í þeirra eigin hegðun, orðræðu eða annað hafi haft þau áhrif að barnið þeirra sé  að glíma við t.d. fíkn.   Muna:  ekki fara í sjálfsásökun,  – hér er verið að tala um sjálfsskoðun og að finna rót.  Kannski er hún í uppeldi foreldranna sjálfra,  eða umhverfi sem þeir geta ekki gert að,  og hvað þá til baka.  Enginn breytir fortíð,  en það er mjög mikilvægt að þekkja sína sögu og hvernig hún hefur breytt okkur þegar við sjálf vorum börn! –  Hvað var sagt við okkur?

Þegar á að hjálpa barni eða unglingi í vanda,  þarf alltaf að skoða samhengi hlutanna.   Það er alveg sama þó þetta barn eða unglingur komi frá „góðri“ fjölskyldu,   það eru margar „góðar“ fjölskyldur með alls konar ógróin sár og ómeðhöndluð sem smita áfram í ættlegginn.   Eitthvað sem hefur safnast undir mottuna og er órætt.

Þegar ég fór á mitt fyrsta meðvirkninámskeið fannst mér barnið mitt,  dóttir mín vera vandamál.  Svo var ég látin taka fókusinn af henni og huga bara að sjálfri mér.   Það var þetta með súrefnisgrímuna sko! –   Það sem ég þurfti sjálf að gera var að hreinsa út gömul sár og sorgir, – allt til bernsku.   Ég þurfti að læra að elska sjálfa mig og virða – og játast sjálfri mér eins og ég var, –  þá breyttist eitthvað.   Ég varð fyrir „opinberun“   þegar ég var seinna að hjálpa ungri stúlku – sem bjó ein með mömmu sinni og ég speglaði mig algjörlega sem móðir stúlkunnar og ég vissi þá að vandinn var að stórum hluta hjá mér.   Ég fór úr vinnunni og beint heim til dóttur minnar – tók utan um hana, grét og sagði „fyrirgefðu“ ..

Það getur verið stórt skref fyrir móður að átta sig á að hún var ekki að gera allt rétt,  en hún þarf ekki bara að fyrirgefa barninu sínu – hún þarf líka að fyrirgefa sjálfri sér.  –  Því hún kom úr ákveðnu umhverfi og uppeldi sem hún fékk engu um ráðið.

Hver er þá staðan?     Við breytum ekki fortíð,   en það er alltaf hægt að byrja upp á nýtt og gera betri framtíð.   Framtíð í meðvitund um hvernig við bregðumst við,  hvort við hegðum okkur sjálf eins og sært barn og viðbrögðin okkar verða slík,  eða hvort við erum orðin fullorðin – við séum búin að taka sjálf okkur í fangið og segja:  „fyrirgefðu elskan mín,  – þú gast ekki og vissir ekki betur – en NÚNA veistu og getur og það er aldrei of seint að skipta um fókus,  og fara að vinna upp,   og það er eina leiðin!

Hugsa upp en ekki niður,  hugsa ljós en ekki myrkur!  … áfram .. og þá erum við búin að kenna barninu okkar þess bestu lexíu – sem góðar fyrirmyndir! –

485819_203030436495113_521866948_n

 

 

Orðið „umhverfissóði“ fær nýja merkingu …

Ég hef alltaf verið ofurviðkvæm fyrir reykingarlykt, – eða réttara sagt reyknum sem kemur þegar verið er að reykja.   – Sem ung kona, og þótti hinn argasti dóni þegar ég bað fólk vinsamlegast ekki að reykja þegar ég var að borða,  eða þegar ég fór að biðja fólk um að reykja ekki inni hjá mér og í kringum börnin mín.

Sjálf ólst ég upp við að það var reykt í bílnum,  reykt inni o.s.frv.  – og við sem munum eftir því þegar boðið var upp á sígarettur og vindla t.d. í fermingarveislum og saumaklúbbum  – enda framleiddir öskubakkar og sígaretturstatíf í stíl við stellið –  hlæjum stundum að því í dag!  –

Við erum alltaf að læra!

Ég stundaði s.s. óbeinar reykingar sem barn, og var oft ekki undankomu auðið.

Þannig var tíðarandinn, og ekki er ég að dæma eina einustu manneskju fyrir að reykja ofan í barn, á meðan fólk vissi ekki betur. –  

Auðvitað er margur reykurinn í dag, og mengunin sem við erum að bjóða börnum – og fullorðnum upp á.   En þessi pistill á að fjalla um öðruvísi reyk og öðruvísi mengun,  og það er mengun orðræðunnar – mengun umtals.  Mjög klár kona sagði við mig í gær  „Það er munur á að vera gagnrýnandi eða umhverfissóði“ – og það kviknaði á ýmsu hjá mér!

Hvernig haga umhverfissóðar orðum sínum? –   Jú,  þeir t.d. tylla sér hjá þér og hella yfir þig úr öskubökkunum sínum.   Þeir reykja alveg ofan í þer og blása reyknum framan í þig þar til þú verður grænn.   Þeir mæta þér í lokuðu rými þar sem þeir púa og púa – hverja sígarettuna á fætur annarri og kannski margir saman,  þar til að þú ert orðin vel mettaður,  og fötin þín lykta þegar þú kemur heim.

Þegar þú situr í herbergi með fólki sem gerir lítið annað en að baktala náungann,  eða ræða neikvæða hluti –  þá eru áhrifin ekki ósvipuð.  –  Það er að segja þér einhverja svæsna hluti – nú eða bara hella úr skálum eða öskubökkum reiði sinnar.  (Munum að hér er ekki verið að tala um venjulega og uppbyggilega gagnrýni,  heldur umhverfisspjöll). –    Hvað í ósköpunum eigum við að gera til að forðast þetta?   Erum við ekki bara dónar að biðja fólk að hætta,  eða eigum við bara að brosa og taka við?  – Svo er auðvitað hægt að fara að reykja líka, – þá finnur maður varla lengur lyktina eða hvað?   …  

Ég hef  gerst „sek“ um umhverfismengun með orðum – en ég vil vera meðvituð.   Ég veit núna hvað þetta er óhollt,  alveg eins og við vitum núna hvað það er óhollt að anda að sér reyk,  og því er engin ástæða til að láta bjóða sér upp á eitthvað sem er eins og eitur.   Við megum segja: „Nei takk, þetta er ekki fyrir mig.“ –

Við erum alltaf að læra, eða ættum að vera að því. 

Við gætum farið að venja okkur á að anda grunnt,  til að taka sem minnst af eitrinu inn, en það er heldur ekki hollt fyrir líkamann.

Það er mjög gott að vera meðvituð um þetta,  er það sem við erum að segja,  eru orðin okkar umhverfisspjöll –  eru þau úrgangur sem við erum að dreifa um umhverfi okkar.  Hver er tilgangurinn með því sem við erum að segja?   Er það að fríska loftið eða metta það?  –

Það er hollt að hugsa og endurhugsa.  Það er líka hollt að standa með okkur sjálfum,  og næst þegar við mætum einhverjum sem vill fara að púa yfir okkur,  þá segjum við.  Afsakið,  en er þér sama þó þú gerir þetta ekki í kringum mig? –

Pælum aðeins í þessu saman.  ❤

Sköpum gott andrúmsloft, – hver vill það ekki?

Hið eilífa jólabarn … jólahugleiðing 2015

Skálholt  13. desember 2015   –  hugleiðing flutt á aðventukvöldi.

„Viltu leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns?“  

Væntanlega  hafa flestir sem hér eru staddir í kvöld, og eru komnir yfir fermingaraldur svarað þessari spurningu játandi.

Í kvöld langar mig að við íhugum saman hvernig það er að gera barnið Jesú – jólabarnið að leiðtoga lífs síns,  og það er mikils virði og í raun alveg lífsnauðsynlegt að rifja upp barnið í okkur sjálfum – og reyndar aldrei að gleyma því! ..

Einu sinni á ári,  og einmitt á jólunum, –  er vakin sérstök  athygli á barninu Jesú og eins og það er margt sem mig „klæjar í“  að tala um hér í kvöld,   þá varð það  jólabarnið  og barnið í sjálfri mér  sem kallaði mest á mig.
Ég er afskaplega þakklát fyrir það að hafa heyrt það kalla,  – því það er svo sannarlega ekki alltaf svo.  Stundum kallar þetta barn hátt og snjallt, –  „“ gættu að“ …  eða  „mundu að sinna mér“ … og  þessu barni  þarf svo sannarlega að veita umhyggju, ást  og athygli, –  eins og öllum öðrum börnum þessa heims. –  Það þarf að VIRÐA það.

Börn nærast á athygli,  og börn veslast upp upplifi þau tómlæti.   Þau verða fyrir vonbrigðum, – þau upplifa jafnvel að þau séu ósýnileg.

Við erum öll börn –  öll sem sitjum hér í kvöld, sama á hvaða aldri við erum, börn  sem þurfum athygli.  Við þurfum ekki síst athygli okkar sjálfra.

Þegar við vorum lítil börn þurftum við athygli – og ef við fengum ekki athygli þá höfðum við hátt, – og það er stundum kölluð neikvæð athygli.    Það er nefnilega þannig að jákvæð athygli er best,  næst skást er neikvæð athygli, – en verst er tómlætið.

Þetta lærði ég meðal annars í námskeiði um vellíðan, sem ég sótti á vegum endurmenntunarstofnuar Háskólans í Reykjavík,  en þá vorum við ekki að tala um börn,  heldur fullorðið fólk.   Við vorum að tala um vinnustaði,  hversu mikilvægt væri fyrir þau sem eru að reka fyrirtæki væri að veita starfsfólki sínu athygli.   Það gilda nefnilega sömu lögmál í gegnum allt lífið og á öllum aldri.

Þegar að við erum börn þurfum við athygli og þegar við erum fullorðin „börn“ þurfum við líka athygli.

Áður en ég held áfram í þessum athyglispælingum – ætla ég að segja aðeins frá mér, – og hvað ég hef verið að starfa við og grúska í á undanförnum árum.   Eins og fram kemur í kynningunni heiti ég Jóhanna Magnúsdóttir,  ég kláraði embættispróf í guðfræði  í febrúar 2003,  en var vígð sem til prestþjónustu á Sólheimum í Grímsnesi,  hér í Skálholti 15. nóvember sl.

Ég held ég hafi alla ævina verið að prédika,  bæði í ræðu og riti – fyrsta útgefna efnið eftir mig var birt í skólablaði þegar ég var fjórtán ára,  og það fjallaði um umgengni.   Frá því  ég útskrifaðst úr guðfræði 2003 hef ég starfað við ummönnun aldraðra,  við sölu á legsteinum,  við fatasölu,  sem aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla í sex ár og svo gerðist ég sjálfstætt starfandi ráðgjafi, fyrirlesari og hélt námskeið,  fyrir fólk af öllum stærðum og gerðum, – þar til ég tók við starfi forstöðumanns félagsþjónustu á Sólheimum fyrir liðlega ári síðan.

Ég byggði þessa leiðsögn á því sem ég hafði lært í skóla, m.a. í guðfræði og kennsluréttindanámi og á námskeiðum, sem eru býsna mörg og eitt þeirra stærstu var fimm daga meðvirkninámskeið sem ég fór á hér í Skálholti,  á vegum Lausnarinnar – sem ég fór síðan sjálf að starfa með.   En síðast og alls ekki síst byggði ég það sem ég var að kenna á minni eigin lífsreynslu, og hvernig ég hafði unnið úr mínum áföllum.

Ég minnist þess að þegar ég tók sálgæsluáfanga  í guðfræðideildinni, – þá hefðum við rætt að það væri ekki á neina eina manneskju leggjandi að upplifa öll áföll mannlegrar tilveru,  til þess eins að geta sett sig í spor annarra.   En í sorg – og við áföll,  leitar syrgjandinn eftir skilningi.  Hann leitar að einhverjum sem getur skilið hvernig honum eða henni líður.   En í raun er það bara einn sem skilur allt og veit allt og hefur verið alls staðar sem við erum, –  og það er Guð.   Fyrir mér er það hluti af almætti Guðs að þekkja hverja einustu taug og tilfinningu í mér,  og Guð skilur mig hundrað prósent,  og eftir því sem ég hef upplifað meiri áföll og missi,  hef ég líka skilið Guð betur.

Hvernig má það vera? 

Í sálgæslunni lærðum við m.a.  um hann Job, – Job sem var grandvar og góður maður.  Gerði allt „rétt“ – en þrátt fyrir það fór ýmislegt vont að gerast hjá honum.   Ég ætla ekki að rekja söguna af Job hér, en hvet alla sem hafa áhuga til að lesa hana – eða lesa aftur,  því hún er mjög áhugaverð.    Job missti í raun allt,   eða svona næstum allt.  Hann missti fjölskyldu sína,  eigur sínar,   heilsuna og útlitið meira að segja líka – og hann stóð eftir  með sjálfan sig.   En þegar búið var að taka þetta burtu,  hvað sá hann þá?    Jú hann sá Guð.   Áður hafði hann bara heyrt um Guð, – vissi um Guð af afspurn –  en núna hafði hann hreinlega séð Guð, og upplifað Guð.  Guð var svo nálægur,  þegar allt annað var farið.

Ég hef átt svona „Job“ stundir í mínu lífi og mitt stærsta áfall var við missi dóttur minnar – en hún lést í janúar 2013,  aðeins 31 árs gömul, eftir stuttan og grimman aðdraganda þar sem hún var mjög veik og var eiginlega flutt í örvæntingu  á milli spítala í Danmörku,  þar sem hún hafði búið og  þar sem læknar voru ráðþrota yfir óvenjulegum blóðsjúkdómi sem þeir réðu ekki við.

Ég hugsaði til Guðs –  „Þetta þekkir þú“ –  „að upplifa þjáningu og dauða barnsins þíns.“   Og vegna þess hve dóttir mín var yndisleg manneskja, falleg og gefandi þá leyfði ég mér líka að hugsa:   „Hún er eins og Jesús“   Jesús dó fyrir okkur,  og eins og ég sakna dóttur minnar og það að hafa félagsskap hennar – þá hef ég líka  upplifað hvílíka stóra gjöf hún hefur gefið öllum með því hvernig hún var og hversu mikið við lærðum af henni.

Hún hefur m.a. kennt mér að meta lífið, hvað það er sem skiptir máli í lífinu – að hlutirnir sem skipta máli eru ekki hlutir.   Hún hefur fært okkur hin saman, – mig og yngri systkini hennar – og síðast í gær fékk ég skilaboð yngri dóttur minni  sem bauð mér að koma og gista hjá sér á þessum „Sakna Evutíma“ ..  eins og hún kallaði það,  því svo sannarlega er aðventan ekki bara tilhlökkunartími – heldur líka tími söknuðar fyrir okkur sem höfum misst.  Og það höfum við flest.

Sem móðir þurfti ég að bera hið óbærilega.  Sem barn Guðs kynntist ég því  að Guð bar þetta óbærilega með mér.  Ég hefði ekki getað gert það ein.  Hann gerði það með því að skilja mig og hafa verið þarna.  Hann hefur nefnilega verið og er alls staðar.  Í sorg og gleði og í öllu á milli.

„Þó ég fari um dimman dal – geng ég aldrei ein“ ..

En nú eru jólin að koma – við erum á aðventuhátíð og það er svo mikilvægt að gleðjast og fagna.  

Við fögnum því meðal annars að ekkert sem er raunverulegt deyr.  Jesús er lifandi,  hann er raunverulegur og hann er meira að segja jólabarn ..

Við skulum alltaf  muna eftir þessu barni – veita því athygli   Jesúbarninu og okkar innra barni sem aldrei deyr.

Job þurfti að læra það „the hard way“   eða gegnum áföll og missi að þekkja og sjá Guð.   En hvað ef við þurfum þess ekki?      Hvað ef vð hlustum eftir röddinni – guðsneistanum í sjálfum okkur,  – jólabarninu í sjálfum okkur.   Hvað ef við lokum augunum og sjáum með hjartanu? –   Hvað heyrum við þá?   Kannski eithvað eða einhvern sem vill okkur ekkert nema gott,  sem hvíslar að okkur:  „Ég elska þig“ …

Og þá erum við komin að því markmiði sem ég hafði í allri ráðgjöfinni, fyrirlestrunum og námskeiðunum.   Það er að fólk næði tengingu við uppsprettuna,  sem í kirkjunnu má að sjálfsögðu kalla Guð, –   næði tengingu við sitt innra barn – og heyrði þessi orð  „Ég elska þig“ –    og á móti hvíslum við sem fullorðin,  í umboði Guðs í leiðsögn Jesú Krists og með krafti heilags anda;  „ég elska þig“ …     Leyfum okkur að anda djúpt,  hvert og eitt okkar – loka augunum,  sjá með hjartanu, faðma okkur jafnvel – og hvísla að okkur í hljóði  „Ég elska þig“ …

Ef við höfum einhvern tímann hætt að elska þetta barn, – þá er það vegna utanaðkomandi áhrifa,  skilaboða frá samfélaginu sem eru ekki frá Guði,  því Guð veit að við erum verðmæt – alltaf – og elskar hvert og eitt okkar án skilyrða og án þess sem bætist við þegar við förum að fullorðnast, án þess að við setjum á okkur varalit, – án þess að við fáum bestu einkunnirnar í skólanum,   án þess að við séum í kjörþyngd, – guð elskar án skilyrða.  Getum við elskað barnið án skilyrða,  eins og það gerir fyrstu árin sín – þegar það dæmir sig ekki eða ber sig saman við aðra?
Við höfum flest séð lítil börn virða fyrir sér fingurna sína,  og barnið  hugsar væntanlega ekki,  –  „jeminn hvað ég er með feita putta! –  „Oh hvað ég vildi vera eins og þessi eða hinn“ .. barnið hefur þann eiginlega að vera,  horfa án þess að dæma og kannski er það bara í einhvers konar undrun.

Þegar þetta litla barn fer að geta staðið í sína tvær fætur og heyrir tónlist,  þá byrjar það að hreyfa sig í takt við tónlistina,  því það nýtur hennar, –  þá hugsar það væntanlega ekki, –  „ætli einhver sé að horfa á það hvað ég er með útstæðan maga?“ ..  „Hvernig ætli öðrum finnist ég?“ ..   Það er ekki komið með þá hugsun – heldu getur notið tónlistarinnar – það samsamar sig tónlistinni og nær að vera það sjálft – án allra dóma og samanburðar og áhyggju yfir því hvað öðrum finnst. Það þarf ekki að þóknast – það þarf ekki að geðjast,  bara vera.
Þetta er barnið sem við viljum rifja upp, og vernda og segja við það:

„Ég elska þig … bara af því þú ert til og þú ert raunverulegt“ .. „já, já, það er þarna ennþá“  :- )  ..

Um leið og við segjum þetta,   þá búum við til góða elskandi orku,  sem er ekki bara fyrir okkur og barnið,  hún er fyrir alla þá sem eru í kringum okkur og hún nærir heiminn.

Munum hver við erum,  við erum guðs börn,  og okkur eru gefnir líkamar til að guðs barn fái að starfa hér á jörðu.   Það að elska sig,  þýðir að við förum vel með okkur,  og hugsum um bæði líkamann og sálina – eins og okkur væri falið að hugsa um jesúbarnið.  –   Við berum ábyrgð á heilsu þess og hamingju,   það er leiðtogi lífs okkar – og þess vegna skulum við muna eftir því,  því allt sem það segir okkur er sprottið af kærleika og væntumþykju, –   og eina sem við þurfum að gera er að veita því athygli – og við segjum „já“   ég vil gera þig að leiðtoga lífs míns.

Vertu velkomið jólabarn – ég hlakka svo til að taka á móti þér,  – þú skiptir mig máli og  ég upplifi að ég skipti máli vegna þín.

Svo þegar við komum heim í kvöld,  – þá legg ég til að við setjum lag á fóninn,  eins og sagt var í gamla daga, – og hleypum fram okkar innra barni,   með því að hrista okkur í takt við tónlistina, – það er ekkert til sem heitir að kunna ekki að dansa, – og leyfum okkur að finna fyrir jólabarninu í sjálfum,  hleypum forvitna barninu út – leyfum því að vera með í gleðinni  og dæmum það ekki.

Ég er – Þú ert og  Guð er með í öllu þessum pakka – bara ef við leyfum það!

Þakka fyrir áheyrnina – þakka þér og þínu innra barna og þökkum Jesú Kristi fyrir að vera með okkur alla daga.

 

„Þegar þú kvartar, gerir þú þig að fórnarlambi. Yfirgefðu aðstæður, breyttu aðstæðum, eða sættu þig við þær. Allt annað er klikkun! ..“

Þessi titill sem er þýðing á orðum meistara Eckhart Tolle er  eiginlega eins og  önnur útgáfa af æðruleysisbæn Paul Tillich:

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

10983125_10153032684498908_6987238600039959036_n

Enginn vill standa lengi í fórnarlambsstöðunni.  Þar erum við stödd, ef við kvörtum um sama hlutinn aftur og aftur, við sömu aðilana, sem e.t.v. hafa ekki möguleika á að breyta, eins og samstarfsfólk,  fjölskyldu eða vini.   Þú verður þessi nöldurseggur sem dregur alla niður í kringum þig.   Það er því mikilvægt að beina kvörtunum í réttan farveg, – nú ef að þeir sem þú vilt að breyti hlutum gera það ekki,  þarf að taka aðra ákvörðun.  Breyta sjónarhorni – og finna sátt,    Því það að lifa lengi í ósáttinni, er tærandi og það verður enginn nýr vöxtur. –

Hvernig áttu að umgangast fólk sem er neikvætt? …

Við lendum öll í því að þurfa að umgangast neikvætt fólk. Við getum stundum forðað okkur úr aðstæðum, en stundum ekki. –

Eins og alltaf er gott að byrja „heima“ hjá okkur sjálfum.  Hvernig á ég að mæta þessu fólki? –  eins og það er sjálft, eða get ég gert það á annan hátt. Á ég að láta þeirra tíðni draga mig niður?  – Auðvitað ekki! –  Það er gott að íhuga,  hvernig mæti ég þessu fólki?  Sem óvinur eða sem kærleiksrík manneskja sem vill öðrum vel.   Það er ákveðin áskorun falin í því að mæta neikvæðni með jákvæðni,  að mæta kaldlyndi og leiðindum með kærleika og gleði. –  Þannig höldum við okkar tíðni, og við höldumst í okkar kjarna og göngum ekki út fyrir sjálf okkur. –

Það er gott að horfa á manneskju sem er í „ham“ – eða er neikvæð sem veiðimann með veiðistöng, –  þessi manneskja danglar veiðistönginni að okkur og ef við nálgumst þau þá opnum við munninn og gleypum agnið.  Þessi nálgun sem ég er að tala um hér er tilfinningaleg nálgun.  Við förum inn í þeirra tíðni,  í stað þess að halda okkur í okkar, eða okkar kjarna.

Það er ekki alltaf hægt að ganga í burtu, því að erfiða fólkið getur verið með okkur í vinnu, í bekk í skóla eða í fjölskyldu okkar.

Þegar við eigum í þessu – þá er gott að muna að við eigum imyndunarafl.  Ágætis leið til að  taka „valdið“ af þessum neikvæðu persónum eða reiðu,  er að ímynda sér að við séum að vefja þau inn í fallega slæðu.  Slæðu væntumþykju,  því auðvitað þurfa þau á væntumþykju að halda.  Slæðan getur verið í fallegum litum.  En við vefjum þau þannig að hendurnar eru fastar.  Þær ná þá ekki að sveifla veiðistönginni.

Ef við verðum neikvæð við að umgangast neikvætt fólk – þá erum við auðvitað ekkert skárri! –  Þess vegna muna:   Kærleikann og slæðuna, og brosa – því við erum í essinu okkar,  í miðri uppsprettu kærleikans þar sem okkur líður vel og þar þrífst ekki neikvæðni.   Höldum okkur þar og þá erum við ósnertanleg.

10422396_898081083551104_7633883796964282996_n

 

 

 

Það er eitthvað stórkostlegt að gerast …

10679950_10152340343462344_8825098239313946217_o

Eftirfarandi grein er eftir Gustavo Tanaka — Brasilískan rithöfund og frumkvöðul.   Ég tók mig til og þýddi hana, – eftir bestu getu, en ef smellt er HÉR er hægt að lesa hana á frummálinu.  Ég bið lesendur að taka viljann fyrir verkið,  en þessi grein er staðfesting á svo mörgu sem ég hef sjálf upplifað og grunað.

Flest okkar hafa alls  ekki uppgötvað að það er eitthvað stórkostlegt að gerast.

Gustavo Tanaka segir frá því að fyrir nokkrum mánuðum hafa hann frelsað sig frá hefðbundnu samfélagi.  Hann hafi slitið keðjuna sem hélt honum föstum í kerfinu.  Alveg frá þeim tíma hefur hann séð heiminn frá nýju sjónarhorni;  því að allt er að ganga í gegnum breytingar, og að við flest verðum ekki vör við það.

Hvers vegna er heimurinn að breytast?  spyr hann.  Hann gefur í þessum pistli upp  átta ástæður,  sem fengu hann til að trúa því.

 1- Það þolir enginn lengur hið hefðbundna vinnu módel 

Við höfum náð þolmörkum.  Fólk sem vinnur hjá stórum fyrirtækjum þolir ekki lengur störf sín.  Skorturinn á tilgangi bankar upp á – innan frá – eins og örvæntingafullt öskur.

Fólk vill komast út. Því langar til að hætta öllu. Lítum á hversu margir eru tilbúnir að taka áhættuna og henda sér út í frumkvöðlastarf,  fólk fer í rannsóknarleyfi, fólk með vinnutengt þunglyndi, fólk sem hefur brunnið út.

2 – Frumkvöðlamódelið er líka að breytast 

Síðastliðin ár,  með sprengju í nýjungum, hafa þúsundir frumkvöðla breytt bílskúrum sínum í skrifstofur – til að blása lífi í billjón dollara hugmyndir sínar.   Kjarni frumkvöðlastarfsins var að finna einhvern til að fjármagna og fá fjármagn.  Að fá fjármagn var eins og að vinna heimsmeistaratitil.

En hvað gerist eftir að búið er að fjármagna hjá þér?

Þú ferð aftur í það að vera starfsmaður.  Það getur verið að þú hafir safnað til þín  fólki sem deilir ekki draumi þínum,  sem er ekki sammála tilgangi þínum og fljótlega fer þetta að snúast allt um peningana.  Fjármálahliðin fer að verða megin drifkraftur í rekstrinum þínum.

Fólk þjáist vegna þessa.  Það sem var í fyrstu frábært fór að falla,  vegna þess að peninga sækna módelið er endalaust.

Það þarf að finna nýja leið til að leita.  Gott fólk er byrjað nú þegar.

3 – Aukning samstarfs 

Margt fólk hefur áttað sig á því  að það þýðir ekkert að halda áfram einn síns liðs.  Margir hafa vaknað upp við það að það er ekkert vit í að halda áfram í hinni brjáluðu hugmyndafræði: „hver maður fyrir sig.“

Stöðvaðu, taktu skref aftur á bak og hugsaðu.  Er það ekki fáránlegt að við, 7 billjónir okkar, lifandi á sömu plánetu,  höfum vaxið lengra frá hvort öðru?  Hvaða vit er í því að snúa baki við þúsundum, jafnvel milljón, manns sem búa í kringum okkur í sömu borg?  Í hvert skipti sem það hvarflar að mér, verð ég sorgmæddur.

Sem betur fer, eru hlutirnir að breytast.  Við deilum,  samstarfs fjármála hugmyndir eru framkvæmdar, og þær beinast á nýjar brautir.  Í áttina að samstarfi, að deila, að hjálpa, í samkennd.

Það er fallegt að fylgjast með þessu.  Það snertir mig.

4 – Við erum loksins að átta okkur á hvað internetið er 

Internetið er ótrúlega fallegur hlutur og aðeins núna, eftir svona mörg ár, erum við að skilja mátt þess.  Með internetinu er heimurinn að opnast,  hindranir falla, aðskilnaði lýkur,  samkenndin hefst,  samstarfið springur út, hjálpsemin kemur.

Sumar þjóðir sáu alvöru byltingar sem notuðu internetið sem megin hvata, eins og Arabíska vorið.  Í Brasilíu er ný byrjað að nota þetta verkfæri betur.

Internet er að brjóta niður múgsefjunina. Stóru fjölmiðlafyrirtækin sem stýra fréttum eftir því hvaða skilaboð henta þeim best og hvað þau vilja að við lesum eru ekki lengur stærstu eigendur upplýsinga  Við leitum eftir því sem við viljum. Við tengjumst þeim sem við viljum. Við skoðum  það sem okkur sýnist.

Við komu internetsins eru þau smáu ekki lengur mállaus, þarna er rödd. Hin nafnlausu urðu viðurkennd.  Heimurinn nær saman. Og þá getur kerfið fallið.

5 – Fall hinnar óhóflegu neysluhyggju 

Í of langan tíma hefur okkur verið stýrt til þess að neyta eins mikils eins og við getum.  Til þess að kaupa allar nýjar vörur sem koma á markað, nýjasta bílinn, nýjasta iPhone,  aðal vörumerkin, fullt af fötum, skóm, mikið, mikið og mikið af eiginlega hverju því sem hönd á festi.

Með því að fara gegn fjöldanum, hefur marg fólk uppgötvað  að það að neyta minna, lifa rólegra lífi,  borða einfaldari mat – eru birtingarmyndir aðgerða sem eru í gangi núna, og sýna fram á það með mótsagnarkenndum hætti hversu fáranlega við höfum skipulagt okkur.

Færri nota bíla, færri eru að eyða um efni fram, og fleira fólk er að skiptast á fötum, kaupa notaðar vörur, deila eignum, bílum, íbúðum, skrifstofum.

Við þörfnumst ekki alls þessa sem okkur var sagt að við þyrftum.  Og þessi nýja meðvitund um neysluna getur fellt hvaða fyrirtæki sem lifir á þessum ofneyslu enda.

6-  Við borðum lífrænt og heilsusamlegt 

Við vorum svo klikkuð að við samþykktum að borða hvað sem er!  Það þurfti bara að bragðast vel og þá var það í lag.

Við vorum alveg sofandi fyrir  því að fyrirtæki byrjuðu að eitra matinn okkar og við sögðum ekkert!

En svo fór sumt fólk að vakna,  og fór að virkja og styrkja það að borða heilsusamlegt og lífrænt.

Það fer bara vaxandi.

En hvað hefur það að gera með efnahaginn og vinnuna?  Eiginlega allt, segir Gustavo Tanaka.

Matvælaframleiðsa er einn af aðal grunninum í samfélaginu. Ef við breytum hvernig við hugsum,  neysluvenjum og hvernig við borðum, verða fyrirtæki að bregðast við því að aðlaga sig að hinum nýja markaði.

Smábýlin eru farin að skipta aftur máli í framleiðslukeðjunni.  Fólk er jafnvel að rækta plöntur og fræ á eigin heimilum líka.

Og það endurskapar allt efnahagslífið.

7 —  Andleg vakning 

Hversu marga vini eigum við sem æfa jóga.  Hvað með hugleiðslu?  Hugsum nú til baka,  10 ár,  hversu marga þekktum við sem stunduðu þetta?

Hið andlega,  var of lengi,  tileinkað fólki sem iðkaði dulspeki,  þessum sem þóttu skrítnir og dularfullir.

En sem betur fer, er þetta líka að breytast.   Við erum komin að mörkum raunsæis og skynsemi.   Við náðum að skilja það, að með einungis meðvituðum huga okkar,  náum við ekki að átta okkur á öllu sem gengur á hérna. Það er eitthvað annað í gangi,  og Gustavo er viss um að við viljum ná því líka.

Við viljum skilja hvernig hlutirnir virka.  Hvernig lífið vinnur, hvað gerist eftir dauðann, hver þessi orka sé, sem fólk talar svo mikið um, hvað sé skammtafærði,  hvernig hugsanir geta orðið að veruleika og skapað tilfinningu okkar fyrir raunveruleika, hvað er tilviljun og samhljómur, hvers vegna hugleiðsla virkar, hvernig það er hægt að lækna með því að nota einungis hendur, hvernig þessar óhefðbundnu meðferðir, sem eru ekki samþykktar af þeim hefðbundun geti í raun og veru virkað.

Fyrirtæki eru farin að bjóða starfsfólki upp á hugleiðslu. Hugleiðsla er jafnvel kennd í skólum.   Hugsum um það.

8 — Afskólunar stefnur

Hver skapaði kennslumódelið?   Hver valdi greinarnar sem við verðum að taka?  Hver valdi það sem við lærum í sögutímum?  Hvers vegna var okkur ekki kenndur sannleikurinn um aðrar fornar menningar?

Hvers vegna ættu börn að fylgja sérstökum reglum?  Af hverju eiga þau að fylgjast þögul með öllu?  Hvers vegna ættu þau að vera í einkennisbúningi?  Hvað með að taka próf – upp á það að þau hafi lært?

Við höfum þróað kerfi sem styrkir og æfir fylgjendur kerfisins. Sem ræktar fólk til að verða venjulegar manneskjur.

Til allrar hamingju, er margt fólk að vinna við að endurhugsa þetta – í gegnum hugtök eins og afskólun, „hack“-skólun“  og heimaskólun.

Hér er hægt að smella á hlekk þar sem „Hackschooling“ er útskýrð.  (Ég bætti þessu við, þessi hlekkur er ekki í greininni).

Kannski höfum við aldrei hugsað þetta, og erum kannski hissa.  En þetta er að gerast.

Hægt og rólega, er verið að vekja fólk og það er að átta sig á hversu brjálað það er að lifa í þessu samfélagi.

Lítum á allt þetta nýja sem er að gerast og reynum að hugsa að allt sem búið er að kenna okkur hingað til sé eðlilegt.  Höfundur heldur ekki.

Það er eitthvað stórkostlegt að gerast. 

veröld