Nákvæmlega engin/n hefur leyfi til að valta yfir þig …..

Það getur bæði verið styrkleiki og veikleiki að þegja.  Það fer eftir aðstæðum.   Ég fékk ábendingu frá góðri konu um það í gær,  að kannski væri mér illt í hálsinum vegna þess að ég hefði ekki tækifæri til að segja hug minn. –

Gæti það verið?

Ég lendi alveg í fólki með leiðindi og dónaskap eins og allir aðrir, en hef tekið þann pólinn í hæðina að svara aldrei með því sama, og ég mun ekki gera það.   Það sem fólk segir og lætur út úr sér skilgreinir það sjálft.   Ég skil fólkið, það er sársauki innra með því og þess vegna leyfir það sér ýmislegt.  En þarna komum við að vanda.  Hversu lengi á maður að leyfa einhverjum að ausa úr sér, – og hversu miklu?  –

Ég fékk það heilræði frá systur minni einu sinni,  þegar ég var að kvarta yfir svona ástandi, og sagði svo í framhaldi:  „En manneskjan er svo veik, svo ég hef alveg skilning á því að hún hagi sér svona“ ..      og þá svaraði mín að bragði:  „Það að manneskja sé í hjólastól gefur það henni ekki leyfi til að valta yfir þig, eða hvað?“ ..

Ef að manneskja kæmi brunandi í hjólastól og ætlaði að keyra á okkur, þá myndum við auðvitað setja fyrir okkur hendur og kalla e.t.v. „STOP“  eða „Hættu nú!“ ..

Svoleiðis er það með þá sem eru með munnlegt „valt“  við verðum að fara sömu leið.  Segja stop eða hættu,  og ef viðkomandi lætur ekki segjast,  neyðumst við e.t.v. til að fá hjálp við að stöðva viðkomandi eða bara hreinlega forða okkur frá honum. –

Góðmennskan má ekki fara út í það að við séum dyramottur sem megi ganga yfir á skítugum skónum. –

Þetta er oft erfið lexía að læra.  Best væri að við gætum verið eins og Búddar þegar einhver byrjar með leiðindi – en við erum bara fólk af holdi og blóði og með fullt af tilfinningum.  Það á engin/n skilið að það sé valtað yfir hann og það er bara vont að láta keyra yfir sig!! ..

Nei – kærleikurinn verður að virka í báðar áttir, líka að okkur sjálfum.  Ekki vildum við að komið væri illa fram við náunga okkar, og hvers vegna okkur sjálf.  Segjum bara hingað og ekki lengra! ..

Ég var alin upp við setninguna,  „Sá vægir er vitið hefur meira“ …. það dugði mér lengi, en það má þó ekki verða til þess að þessi vægð verði til þess að sá vitminni fái valdið.

Mætum náunganum alltaf með kærleika,  en þó ekki með undirgefni,  því sársaukin hans á ekki að stjórna báðum.

Elskum meira og óttumst minna.

419235_497263263618422_325429145_n

 

Heilunarmáttur þess að borða ís í boxi ….

Ég átti erfiðan dag … rölti inn í eldhús og fann þar maískökur, kókósmjöl og möndlur (af því ég er að lifa svo heilbrigðu lífi). – Fékk mér 2-3 möndlur, en þær fylltu ekki upp í tilfinningatómið sem ég var að burðast með.  Allt í einu kviknaði ljós í höfðinu á mér, – ég mundi eftir BEN & JERRY´S ísnum sem Hulda systir hafði komið með um áramótin, og við höfðum ekki opnað.  Ég hefði reyndar opnað hann síðar,  þegar ég bauð vini mínum í mat, og við höfðum fengið okkur smá skeið af ís.   Ég man að mér fannst ísinn full sætur fyrir minn smekk.

En þarna stóð þetta fallega ísbox,  strawberry and cheesecake flavour! –   Ég settist í sófann með boxið og matskeið, og skildi þá allar bíómyndirnar þar sem konurnar sátu og úðuðu í sig ís.   Allt í einu varð ísinn að unaði – og huggun.  Merkilegt!! ..   Jarðarberjabragðið kveikti á fallegri minningu,  þar sem við dóttir mín vorum staddar á Amagerbrogade og borðuðum besta jarðarberjaís sem við höfðum á ævinni smakkað (að okkur fannst á þeim tíma)! –

Það er kannski ekki alslæmt að leyfa sér stundum að njóta þess góða sem framleitt er, og merkilegt hvað þessi ís varð miklu betri þegar ég þurfti á honum að halda.   Já, ég tala alveg öfugt ofan í það sem ég er vön, – gegn „tiflinningaáti“ – og svoleiðis.   En ég er alltaf að uppgötva nýjan sannleika, a.m.k. fyrir sjálfa mig, – og auðvitað búin að átta mig á að meðalhófið er best.   Það sem skiptir mestu máli er að NJÓTA þess sem við erum að gera og ekki gera það með samviskubiti eða sektarkennd.  Þá er betra að sleppa.

Þetta var dásamleg stund, og líklegast komst ég bara í einhvers konar hugleiðsluástand við þetta …..

Lifum ofoðslega heil og glöð – og það mikilvægasta NJÓTUM! …

strawberry-cheesecake-detail

 

Skömmin reiðir sig á það að við höfum þá trú að við séum ein.

Einhvers staðar heyrði ég sagt að skömmin væri undirrót flestra fíkna, og því er mjög mikilvægt að átta sig á hvernig hún virkar – og hvernig hún virkar ekki.

Lítum á skömm sem eitthvað sjálfstætt fyrirbæri sem vill lifa af.  Þetta fyrirbæri tekur sér bólfestu innra með okkur,  hún felur sig innra með okkur.

En hvers eðlis er þessi skömm? –

Skilgreining Brené Brown, sem hefur rannsakað skömmina í tugi ára:

„We are all wired for love and belonging“ ..  „Shame is the intensely painful feeling that we are unworthy of love and belonging“ .. 

Við höfum öll þessa þörf fyrir að vera elskuð – að  tilheyra – til að vera samþykkt – til að vera í hluti heildar.

Skömmin felst í því að upplifa það að við séum ekki elskuð,  að við séum ekki þess virði að tilheyra – vera samþykkt eða hluti heildar. 

Í skömminni upplifum við einmanaleika, vegna þess að við erum aðskilin frá heildinni.

Skömmin býr með okkur öllum, – og hún er ein af frumtilfinningunum.

Ég skrifaði í upphafi að hún feli sig, – og þess vegna er mikilvægt að varpa á hana ljósi, – og tala um hana eða það sem veldur okkur skömm,  því við það minnkar hún.   Leynd, þögn og dómharka viðhalda skömminni,  en skömmin lifir ekki af skilning og samhygð. 

Skömmin reiðir sig á það að við höfum þá trú að við séum ein.

Góður vinur eða vinkona, nú eða ráðgjafi  getur gert kraftaverk,  með því að hlusta á frásögn okkar,  en þá með samhygð og án þess að dæma.   Þau sem hafa prófað að tala um skömm sína á hópfundum,  – og hafa fundið samkennd,  hafa upplifað frelsið.   Líka þau sem hafa hlustað á aðra segja frá einhverju sem þau héldu að þau sætu ein uppi með.  Þá kemur þessi léttir:

„Ég er ekki ein“    „Ég er ekki einn“ …

Það er því gífurlega mikilvægt – að við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki ein.  Ekki sitja ein uppi með leyndarmál, eða eitthvað sem við upplifum sem skömm.

Skömmin lifir ekki af samkenndina.

Sýnum samhug og skilning – og losum okkur við dómhörku,  hversu dásamleg er ekki veröldin þá?

skömm

 

 

Vertu breytingin… veldu gleðilegt ár! …

Margt fólk lítur á nýtt ár sem nýtt upphaf,  sem er vissulega rétt.   En það má líka þrengja þetta alveg þannig að hvert augnablik sé nýtt upphaf.   Það er alltaf hægt að taka nýja ákvörðun, – og þá þurfum við að vita hvaða leiðarljós við ætlum að nota við þessa nýju ákvörðun.

Ég útbjó einu sinni lítið kennsluhefti, – og framan á það skrifaði ég

„VERTU BREYTINGIN – VELDU GLEÐI“ ..

Það þýðir m.a. að þegar við stöndum frammi fyrir vali, – þá er gott að hugsa: „Hvað er það sem færir mér mesta gleði?“ ..

Hvers vegna er gleðin svona mikilvæg?   Það er vegna þess að hún er besti drifkraftur sem til er! –

Sumt fólk er hrætt við gleðina, –  og kann ekki að njóta hennar á meðan hún varir.   Sumir hugsa:  „Þetta getur nú ekki varað lengi“  ..  og það gengur í sumum tilfellum svo langt, að fólk stoppar hjá sér gleðina, – vegna þess að það vill hafa stjórn og ráða sjálft hvenær hún stoppar, en að hún sé stöðvuð af ytri aðstæðum.   Já, svona getum við verið stórfurðuleg! –

Við getum í raun fundið þúsund ástæður fyrir því að vera EKKI glöð.  Já, það er allt frá því að ríkisstjórnin sé ómöguleg til þess að það er ekki til mjólk í kaffið okkar! –

Að sama skapi getum við fundið þúsund og eina ástæðu fyrir því að VERA glöð.

„Eymd er valkostur“ …  þ.e.a.s. ef við listum upp nóg af ástæðum fyrir að vera óánægð, þá tekst okkur það örugglega.    En fagnaðarerindið er:

„GLEÐI er líka valkostur“ …   og það er mjög snjallt að skrifa upp allt það sem gerir okkur glöð, einhvers konar gleðilista.  Leita að góðum fréttum, – hlusta á skemmtileg lög sem láta okkur líða vel, horfa á „Feel-good“  myndir.   Þær heita ekki „feel-good“ að ástæðulausu!! ..   Ef það eru til „Feel-good“ myndir hljóta að vera til „Feel-bad“ myndir, ekki satt?  –

Hvað þýðir þetta? –   Jú, við þurfum svolítið að velja hvað það er sem veitir okkur gleði.
Nú gætu sumir farið að hugsa.  Oh, en hún/hann   _______   er bara svo leiðinleg/ur – hvernig get ég verið glöð/glaður nálagt henni/honum????..

Við getum skipt um sjónarhorn gagnvart þessum einstakling, sem okkur hefur hingað til fundist eins og eitur.  Hvað ef við hugsuðum að þessi einstaklingur væri að kenna okkur lexíu? –   Hvað ef allt sem við þyrftum væri að mæta þessum einstaklingi með kærleika í stað pirrings eða óþoli?  Ekki síst vegna þess að við erum öll eitt,  og hann er bara að sýna okkur eina hlið mannlegs eðlis.  Kannski vanmátt í samskiptum?    Þú veist væntanlega að það sem aðrir láta út úr sér – skilgreinir þá en ekki þig? –

Ef við erum á okkar „happy disk“  eða svífandi á okkar hamingjuplani, – ekki láta þau sem eru þar ekki draga okkur niður. –   Bjóðum þau velkomin upp, – en segjum þeim að við ætlum ekki að stíga niður!  –  Við gerum það ekki beint,  heldur bara með því að halda okkur á okkar stað og halda áfram að vera glöð.

Ef einhver segir:  „Þú mátt ekki vera glöð/glaður af því ég er það ekki“-  þá vitum við að það er eitthvað að hjá þessum aðila.   Finnum til með honum,  en látum hann ekki kippa undan okkur gleðinni. –

Auðvitað er ég ekki að tala um að vera í einhverjum hamingjudansi í kringum syrgjendur,  við höfum nú öll einhverja skynsemi hvað slíkt varðar og við höfum flest lært að bera virðingu fyrir náunganum.

En ef við mætum manneskju,  sem hreinlega sækir í óhamingjuna og leitar upp afsakanir og ástæður til að vera ekki glöð, – endalaus „en, en, en“ – er engin ástæða til að fara í þá leit með henni eða elta hana þangað.   Ef við mögulega getum vísað henni leiðina að gleðinni,  – kannski bara með því að halda okkar gleði um leið og við sýnum þessari manneskju kærleika, – þá sigra allir.  –

Rísum yfir hversdagslegt þras og mas.

Einhvers staðar stendur að kærleikurinn sé besta meðalið,  og ef það virkar ekki, þá eigi að stækka skammtinn.

Endalaust ást – út yfir endamörk alheimins ❤

11993295_10153234914874150_7530001414201599506_n

 

 

 

Áramótaspá fyrir alla – konur og karla …

Ágæti þú, – já þú sem ert alveg einstakt eintak af manneskju.  Ef eitthvað er að íþyngja þér, slepptu því bara og hættu að reyna að stjórna því sem þú kemur aldrei til með að geta stjórnað.  Þú nærð kannski tökum á því tímabundið, en það verður ekki til langframa. –   Þú nennir varla að halda puttanum lengi í gatinu á stíflunni eða hvað? –   Hvar skilur það þig eftir? –  Jú, þá ertu fastur/föst við stífluna, og stíflan verður að þinni stíflu! –

Elskulegi þú – þú ert ekki alveg að átta þig á hversu dýrmæt manneskja þú ert, og hefur ekki alveg leyft þér að vaxa og skína eins og þú átt skilið.  Þú átt það til að láta skoðanir annarra skyggja á ljósið þitt.  Ljósið þitt má skína og á að skína,  því hvernig ætlar þú að lýsa veginn fyrir aðra ef þú heldur aftur af því og þér? –

En hvað er svo framundan minn kæri einstaklingur – þú? –  Framundan er skapandi tímabil, þú ert að skapa framtíðina og framtíðin er ævintýri! – Veistu það.  Þú ert þátttakandi í mesta ævintýri allra tíma! –  Engin ævintýri eru slétt og felld með beinum brautum.   Í ævintýrum eru góð öfl og ill, það eru álfameyjar og nornir,  risakóngulær, gryfjur og hólar.   En þú, af því það ert nú þú,  veist að þetta er ævintýri og veist (eða veist það núna)  að þú getur gert þitt besta, og ekki hins eða hennar besta.  Alltaf „ÞITT“ besta.  Og þegar þú gerir þitt besta,  þá veistu að þú ert stödd/staddur í ævintýri og gerir það besta úr hverri stund.   Núna, sko. –

Þú munt mæta fallegri persónu fljótlega, – og ef þú ert ekki í ástarsambandi gæti kviknað ást.  Þessi persóna er líklegri til að koma til þín, ef þú speglar þig á hverjum degi, kyssir spegilinn og segir: „Oh ég elska þig“ ..   þá snögglega birtist út úr speglinum annar aðili sem er líka búinn að vera að æfa sig og munnar ykkar mætast! –

Já, og ef þú ert í sambandi, – elsku þú,  – þá gerðu þetta endilega líka. Nema ekki við spegilinn, heldur maka þinn auðvitað.  Horfist í augu, eins og þið séuð að horfa í spegilinn og segið „Ég elska þig“ .. og þið verðið spegilmynd og um leið bergmál hvers annars. –

Elsku þú, ég spái þér góðum degi,  þar sem þú leiðir sjálfa/n þig á vit ævintýranna!

SPENNANDI! … 🙂

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Velgengni og ávextir á nýju ári ..

Sólheimakirkja – prédikun 31. desember 2015 

Lúkasarguðspjall 13. kafli

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“

 

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og drottni Jesú Kristi.

Ó Jesú bróðir besti

og barnavinur mesti

Æ breið þú blessun þína

á barnæskuna mína

Þau ykkar sem voruð hér í messunni á aðfangadag munið væntanlega eftir sögunni úr mötuneytinu á Sólheimum, –  þar sem fjöðrin sveif.  En það er meira sem svífur á Sólheimum og það er „blómadrottningin“  sem svífur, eða réttara sagt  gengur á milli borða í mötuneytinu og syngur sálma.

Það gerði hún a.m.k. í fyrradag,  þar sem hún söng um Jesú bróður besta, og var umhugað að sr. Birgir heyrði nú sönginn hennar.  –

Hjá öðrum kollega mínum las ég það að prédikanir skrifuðu sig stundum sjálfar, – og það má segja að báðar þessar hátíðarprédikanir skrifi sig sjálfar.   Það þýðir að innihald þeirra er allt til staðar.   Lífið sjálft er prédikun.

Í Guðspjalli dagsins, – er fjallað um fíkjutré – sem bar að lokum ávöxt,  – og söngur blómadrottningarinnar tengist fyrir „tilviljun“   beint við guðspjall dagsins:

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái’ að spilla.

Hvernig berum við ávöxt?   

Þau, sem Jesús sagði þessa sögu um fíkjutréð upphaflega, hafa ekki verið í vafa um það  að þau sjálf voru fíkjutréð. Þeim var ekki heldur hulið hver ávöxturinn var sem vænst var af þeim; en það var  réttlæti og réttvísi.   Það höfðu þau áður heyrt hjá Jesaja spámanni.

Fyrst voru þau treg til, og ástunduðu reyndar ekki réttlæti og réttvísi,  en Jesús gafst ekki upp,  og þau fengu tækifæri – en þó ekki út í hið endanlega – heldur miðaðist það við eitt ár, til að bæta sig og ástunda réttlæti og réttvísi.

Það er hægt að heimfæra þessa sögu á tímann í dag og allt fólk í dag, –  að þegar við erum góð börn, og forðumst hið illa – þá nær það ekki að spilla.   Fíkjurnar á trénu eru uppskeran,  uppskera af því að gefa trénu góða og lífræna næringu.

Það má líka tala um uppskeruna sem árangur eða velgengni.  Það er hægt að upplifa innri og ytri velgengni.   Ytri velgengni er t.d. það að ná einhverju prófi,  eignast allt það sem við setjum á óskalistann, –  hús, bíl, maka eða hvað það er sem er á listanum! –  En við erum ekki að tala um þannig velgengni i þessari dæmisögu, – heldur að ná að ganga vel hið innra.  Það er t.d. að ná að vera sátt og hamingjusöm, nú og auðvitað kærleiksrík.    Það er hinn raunverulega velgengni.

Fyrir nokkrum árum fór ég á fyrirlestur hjá manni nokkrum sem heitir Brian Tracy og var fyrirlesturinn um „success“ eða velgengni.   Hann var að tala um að ganga vel bæði hið ytra og innra,  því oft þarf það að haldast í hendur,  svona eins og líkami og sál  – en þó er hið innra oft mun mikilvægari.  „Því hvað gagnast það manninum að eignast allan heiminn,  og glata sálu sinni?“  –  Það er líka oft talað um innri fegurð, – við getum hitt manneskju sem er með fallegt andlit og stæltan kropp,  en ef hún iðkar ekki kærleika og réttlæti,  þá nær þessi manneskja ekki að skína.   Það virkar líka öfugt.  Okkur getur þótt einhver ófríð eða ófríður skv. fegurðarstöðlum hins veraldlega,  en hún hefur þvílíka fegurð hið innra að við sjáum ekkert nema fegurð þegar að við kynnumst þessari manneskju. J
Það er hið andlega sem er grunnurinn.  Við þekkjum sögur af Hollywoodstjörnum sem ná ytri velgengi að virðist, þær verða ríkar og frægar,  líta svaka vel út og eiga „gordjöss“ maka. –  En samt sem áður eru þær að dópa og drekka og gera sig meðvitundarlausa vegna þess að þær kannski gleymdu að næra sig hið innra,  ytri árangur varð svo mikilvægur,  að sálin hreinlega gleymdist! –  Svoleiðis manneskja ber ekki ávöxt.

Jesús var þolinmóður,  hann gaf fólkinu tækifæri til að ástunda góða siði – ekki síst til þess að það bæri sjálft ávöxt.
Það er jafn ánægjulegt að sjá uppskeru erfiðis síns eins og það getur verið gremjulegt þegar engin uppskera verður.  Þá er eins og unnið sé til einskis.

Hann sr. Birgir hefur verið einstaklega naskur að velja sálma fyrir messurnar,  því þeir passa svo einstaklega vel við guðspjöllin og því notum við sömu messuskrána ár frá ári, enda um klassík að ræða.   Við fáum í rauninni „leiðarvísi“ hvernig við uppskerum velgengni hið innra  eða – við náum að bera ávöxt í laginu,  Þú Guð sem stýrir stjarnaher, eftir Valdimar Briem: Þar segir m.a.:

Stýr mínu hjarta’ að hugsa gott

Stýr minni tungu’ að tala gott

Stýr minni hönd að gjöra gott,

Stýr mínum fæti’ á friðar veg,

Stýr mínu fari heilu heim

Skáldið er að biðja um leiðsögn og stjórnun,  því hann veit að stjórnun guðs er leið til velgengni.   Ef við ástundum fallegt mannlíf og falleg samskipti þá fer okkur að líða vel í hjartanu.  Við tölum saman en ekki sundur.  Þannig berum við ávöxt,  svo sannarlega.  Er þetta ekki annars stórkostlegt fagnaðarerindi?  ___

Uppskriftin að velgengni hið innra er því að hugsa inn á við – og rækta andann.  En dásamlegt í raun.   Áburðurinn er til staðar og –  við höfum þetta stórkostlega tækifæri til að vaxa og dafna og bera yndislega lífræna ávexti í hæsta gæðaflokki.

Ég má til með að segja ykkur örlítið meira frá honum Brian Tracy og því sem hann kenndi.  Hann nefndi tvö atriði sem væru mjög góð til uppskera árangur og velgengni.   Það er að við tækjum okkur sjálf í fangið og þökkuðum þessa góðu sköpun sem við erum, og segðum „Mér líkar við mig“  –   Þeir sem vilja geta gert svona – eins og fiðrildi, klappað á axlir sér og sagt: „Mér líkar við mig“ –  og svo annað, sem ttengist trúnni og það er „Ég get það“ „Ég get það“ ..  og þá gekk þessi tæplega sjötugi maður um gólfið í Hörpu eins og lest, – og sagði „Ég get það“  „Ég get það“ ..   Þegar við erum að guggna, – og höldum að við séum jafnvel einskis virði  og getum ekki,  þá er ágætt að muna eftir þessu,  að faðma sig og iðka sjálfshvatningu! –

Ég var að kenna á námskeiði fyrir fólk með fötlun í Borgarnesi fyrir nokkrum árum, og þá lékum við þessa lest, – „Ég get það“ lestina.   Þegar við sögðum „Ég get það“ fór lestin áfram, En þegar við sögðum „Ég get það ekki“ fór hún aftur á bak.  Sama átti við „Mér líkar við mig“ – þá fór lestin áfram – en ef við sögðum „Mér líkar ég ekki“  – þá fór hún aftur á bak.  Til að ná árangri og uppskera viljum við halda áfram og fá stýringu jafnfram frá þessum góða Guði – sem stýrir stjarnaher.

Nú erum við á lokametrum ársins 2015.  Eftir örfáa klukkutíma slær nýja árið inn.  Áramót eru oftast  ljúfsár tími,  við förum í huganum yfir það sem var,  en um leið bíðum við spennt eftir því sem kemur.  Það er mikill tregi í því að syngja um árið sem er liðið og  sem aldrei kemur til baka.  Það er búið.  Við upplifum ákveðinn missi og söknuð –  og missir er alltaf sársaukafullur. Það er allt í lagi að gefa gaum að sorginni smá stund,  en hún er fenjasvæði til að fara í gegnum en ekki reisa þar hús. –  Leyfum okkur að fara hægt og rólega í gegnum þetta fenjasvæði,  sjá fyrir okkur það sem var en síðan kveðja það með hlýju og umhyggju.  En svo verðum við  að kunna að sleppa því sem var og taka bjartsýn og brosandi móti því sem kemur.  Ég er afskaplega bjartsýn fyrir hönd okkar hér á Sólheimum að árið 2016 verði mjög gott ár.   Ár þar sem fíkjutréð ber ávöxt.  Það er ekkert erfitt að ímynda  sér það með því góða fólki sem á Sólheimum býr og starfar.  Og þar með talað blómadrottningin sem gengur á milli borða í mötuneytinu og syngur sálma.

Með blíðum barnarómi
mitt bænakvak svo hljómi:
Þitt gott barn gef ég veri
og góðan ávöxt beri.

Sálmur eftir prédikun er ákall til Guðs um að heyra bænir okkar, –  gerum þessa bæn að okkar. Að hvert okkar beri góðan ávöxt,    – og þegar við  syngjum „drottinn kom þú til mín“ – þýðir það að Guð gefur okkur það sem upp á vantar, og við e.t.v. getum ekki alveg sjálf.  Við tökum þessi skref áfram með Guði.  Skref í átt að árangri sem felst í því að öðlast lífsfyllingu. Öðlast gleði, ást og sátt í hjarta.  Og það er ekkert betra en að gróðursetja í í sáttinni.   Því upp frá sáttinni sprettur nýr vöxtur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Sálmur eftir prédikun

Ó, heyr mína bæn,

ó, heyr mína bæn.
Er ég bið, svara mér.
Ó, heyr mína bæn,

ó, heyr mína bæn,
Drottinn, kom þú til mín.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o