Sápukúluhugleiðing …

Þegar við reynum að grípa sápukúlu, færist hún lengra í burtu vegna loftmótstöðunnar. – Prófum að rétta út lófann og sjá hvort hún lendir ekki þar. Þannig er það um margt í þessu lifi, – það er ekki rétt að „hrifsa“ eða „hremma“ hlutina.

Sápukúla 1

Það virkar reyndar gegn öllum lögmálum.

Það er gott að ganga inn í daginn með því hugarfari – að fylla sig af kærleika og góðvild, – og sýna fólki hjarta sitt, í stað þess að ganga á eftir fólki. Réttum út hönd, en hrifsum ekki. Löðum að okkur það góða, eins og sápukúlur sem lenda á hendi. –
Allt verður í lagi ❤

Sápukúla 2

 

 

Lífsreglurnar fjórar …

 

Lífsreglurnar fjórar
Margir þekkja bókina „Lífsreglurnar fjórar“  eða „The four Agreements“ – eftir Don Miguel Ruiz.   Sjá hlekk HÉR

 

Hér eru þessar fjórar lífsreglur – sem ræddar eru í bókinni.  Það sem er skáletrað hér eru dæmi  frá eigin brjósti.  Ég mæli með lestri þessarar bókar, sem einni af grunnbókum í sjálfsrækt.
Vertu flekklaus í orði
Talaðu af heilindum. Segðu aðeins það sem þú meinar. Passaðu að nota ekki orðið
gegn þér eða til að slúðra um aðra. Beindu krafti orða þinna í átt að sannleika og kærleika.

Hvað er það að segja það sem þú meinar? –   og hvers vegna eigum við að gera það? –  Jú, dæmi: 

Afi og amma sakna barnabarnanna.  Loksins kemur unglingurinn í heimsókn,  en þá segir afi með vandlætingartón  „Sjaldséðir hvítir hrafnar!“ .. og amma bætir við „Þú kemur bara aldrei í heimsókn“ ..     Unglingurinn fer í vörn, og dauðsér eftir því að hafa þó loksins komið í heimsókn, og að öllum líkindum líður langur tími þar til hann kemur aftur.  

Ef að afi og amma hefðu sagt það sem þau meina, hefðu þau sagt!  „Mikið er yndislegt að þú ert kominn, – okkur þykir svo vænt um það, – okkur langar svo að sjá þig oft, því það er svo gaman að fá þig.“ –    Það er það sem raunverulega er í gangi, en þegar þau eru í skömmunum – eru þau að tjá sig um sársauka sinn og söknuð,  ekki það sem þau meina: Að þau elski barnabarnið sitt. 

Ekki taka neitt persónulega
Ekkert sem annað fólk gerir er þín vegna. Það sem aðrir segja og gera er speglun af  þeirra
eigin veruleika, þeirra eigin hugarástandi. Þegar þú hættir að taka skoðanir og gjörðir
annarra nærri þér, verðurðu ekki lengur fórnarlamb ónauðsynlegrar vanlíðunar.

Einu sinni var það þannig að ég sveiflaðist eins og lauf í vindi eftir hvað fólk sagði við mig, sérstaklega mitt nánasta.  Ef ég fékk hrós var ég glöð en ef einhver setti út á mig var ég leið.   Tilfinningar mínar stjórnuðust alveg af því hvað „hinir“ sögðu um mig,  og ég áttaði mig ekki á því að það sem „hinir“ segja er þeirra upplifun á mér,  en það er ekki ég.   Nýlega klagaði ölvaður farþegi rútubílstjóra fyrir að vera ölvaður.  Rútubílstjórinn var stöðvaður og látinn blása í mæli, og auðvitað var hann edrú.   Það var sá fulli sem upplifði hinn ölvaðan 😦 ..   Þetta er nú eitt mest „extreme“ dæmi um að fólk þurfi að líta í spegil, en þetta er oftar en ekki.   Þannig að ef einhver segir þig neikvæðan t.d. þá mætti sá sami skoða hvernig hann þekkir neikvæðni þína, eru það kannski hans eigin neikvæðu takkar sem eru í gangi.    Alla veganna – taktu stjórn á þér og ekki láta aðra ákvaða hvernig þér líður!!  Oftar en ekki snúast athugasemdir um þá, en ekki þig, svo ekki taka neitt persónulega. 

Ekki draga rangar ályktanir
Hafðu hugrekki til þess að spyrja spurninga og til að biðja um það sem þú
raunverulega vilt. Hafðu samskipti þín við aðra skýr svo þú komist hjá misskilningi
og sárindum. Þessi eina lífsregla getur breytt lífi þínu.

Ég var einu sinni með par í viðtali, – þau áttu tvö börn og voru bæði að vinna úti – svo það þurfti mikið skipulag.  Hann fór reglulega í ræktina tvisvar í viku, en hún kvartaði undan því.   Hann varð hissa, og spurði hvort það væri ekki í lagi að hann héldi sér í formi.  Hún varð fúl og sagðist ekki komast í ræktina eins og hann.  Ég spurði hana þá hvort hún væri búin að segja hvaða daga hún vildi komast í ræktina.  Þá svaraði hann að hann hefði ekki vitað að hún vildi fara.   Ég spurði hana hvort hún hefði ekki rætt það við hann, en þá sagði hún „Hann á bara að fatta það! ..    Hún ályktaði að hann myndi fatta hvað hún væri að hugsa,  en hann gerði það ekki.   Það er ekki hægt að ætlast til að aðrir viti hvað við hugsum,  jafnvel þó það séu makar okkar.   Það hugsa ekki allir eins og því getum við ekki ályktað hvað hinir eru að hugsa!! 

Gerðu alltaf þitt besta
Þitt besta mun breytast á hverju andartaki við ólíkar aðstæður. Burtséð
hverjar kringumstæðurnar eru, gerðu einfaldlega alltaf þitt besta og þú
munt hætta að fordæma, fara illa með þig og fyllast eftirsjá.

Ég held að lykilorðið hér sé „þitt“ –  því að við getum bara gert okkar besta, en ekki annarra besta.  Ef við erum alltaf að miða okkur við aðra, verðum við eflaust aldrei ánægð.  Það var eins og konan sem var að íhuga að ganga á Esjuna.  Vinkona hennar hljóp upp á klukkutíma,  og konunni fannst hún algjör „lúser“ að vera að rölta þetta á tveimur eða þremur klukkutímum. –  Það var samt stórsigur hjá henni.   Það getur verið jafn mikill persónulegur sigur fyrir einn að ganga á Arnarhól eins og fyrir annan að ganga á Hvannadalshnúk.   Við eigum að miða árangur okkar við okkur sjálf.  Gera OKKAR besta! 
Lifsreglurnar

Angist okkar liggur oft í því að vilja stjórna því sem við höfum ekki möguleika á að stjórna …

Ég var að ræða við konu sem er með mér í alþjóðlegum „Melanoma“ hópi á Facebook.   Það er hópur fólks sem hefur greinst með Melanoma, eða sortuæxli.

Hún var að tala um áhyggjur sínar, hvað henni liði illa og fleira og ég fór aðeins að deila með henni hvernig ég tæklaði lífið.   Ég minntist á það að ég væri ekki að reyna að stjórna því sem er ekki mitt að stjórna.

Hún svaraði til til að „control“ eða stjórnun væri lykilorðið í þessu.  Það að missa stjórn og ráða ekki hvert lífið stefnir, verður fólki ofviða.  Það er óvissan.

Allir lifa reyndar í óvissu, – lífið er eins og konfektkassi, eins og hann Forrest Gump sagði, við vitum ekki hvað við fáum.   Fótunum getur verið kippt undan okkur á morgun,  nú eða aldrei.

Angistin liggur í því að vera að reyna að stjórna því sem ekki er okkar að stjórna.  Þá er gott að skipta um fókus, – og sleppa tökum á því óstjórnanlega og fókusera á það sem við getum gert.  –   Það er eins og að sleppa hurðarhúni á harðlæstri hurð og prófa aðra, sem kannski opnast mjúklega. –

Það er mitt mottó að lifa lífinu lifandi, og væntanlega þitt – lesandi góður 🙂 …   og þá er að finna leiðir til þess að lifa lífinu lifandi og gera það besta úr því sem við höfum úr að moða.   Við getum setið og syrgt eitthvað°og upplifað angist vegna þess sem við  sem við getum ekki ráðið við, en það grefur okkur bara dýpra í þá stöðu.   Það er allt í lagi að syrgja en ekki festast þar.  Um leið og við tökum stöðuna okkar eins og hún er í dag í sátt, þá fyrst er möguleiki á að halda áfram.  Nýr vöxtur sprettur úr sáttinni.

Þegar fókustinn fer á það sem hægt er að gera, og að þakka það,  þá lyftist andinn um leið, og andinn skiptir ótrúlega miklu máli til þess að við lifum lífinu lifandi.   

Þetta á við um svo margt í lífinu,  – það eru ekki bara sjúkdómar, það er annað fólk og hvernig það hegðar sér,  það er vinnuveitandinn okkar, – það eru stjórnvöld jafnvel.  Við megum ekki gera út af við okkur í angist yfir því sem við höfum ekki stjórn á.  Við þurfum fyrst og fremst að líta í eigin barm og kannski bara stjórna okkur sjálfum, og vera sú manneskja og sú ríkisstjórn sem við viljum sjá og heyra?

Æðruleysisbænin á hér vel við eins og alltaf.

Mynd_0552720

 

Nákvæmlega engin/n hefur leyfi til að valta yfir þig …..

Það getur bæði verið styrkleiki og veikleiki að þegja.  Það fer eftir aðstæðum.   Ég fékk ábendingu frá góðri konu um það í gær,  að kannski væri mér illt í hálsinum vegna þess að ég hefði ekki tækifæri til að segja hug minn. –

Gæti það verið?

Ég lendi alveg í fólki með leiðindi og dónaskap eins og allir aðrir, en hef tekið þann pólinn í hæðina að svara aldrei með því sama, og ég mun ekki gera það.   Það sem fólk segir og lætur út úr sér skilgreinir það sjálft.   Ég skil fólkið, það er sársauki innra með því og þess vegna leyfir það sér ýmislegt.  En þarna komum við að vanda.  Hversu lengi á maður að leyfa einhverjum að ausa úr sér, – og hversu miklu?  –

Ég fékk það heilræði frá systur minni einu sinni,  þegar ég var að kvarta yfir svona ástandi, og sagði svo í framhaldi:  „En manneskjan er svo veik, svo ég hef alveg skilning á því að hún hagi sér svona“ ..      og þá svaraði mín að bragði:  „Það að manneskja sé í hjólastól gefur það henni ekki leyfi til að valta yfir þig, eða hvað?“ ..

Ef að manneskja kæmi brunandi í hjólastól og ætlaði að keyra á okkur, þá myndum við auðvitað setja fyrir okkur hendur og kalla e.t.v. „STOP“  eða „Hættu nú!“ ..

Svoleiðis er það með þá sem eru með munnlegt „valt“  við verðum að fara sömu leið.  Segja stop eða hættu,  og ef viðkomandi lætur ekki segjast,  neyðumst við e.t.v. til að fá hjálp við að stöðva viðkomandi eða bara hreinlega forða okkur frá honum. –

Góðmennskan má ekki fara út í það að við séum dyramottur sem megi ganga yfir á skítugum skónum. –

Þetta er oft erfið lexía að læra.  Best væri að við gætum verið eins og Búddar þegar einhver byrjar með leiðindi – en við erum bara fólk af holdi og blóði og með fullt af tilfinningum.  Það á engin/n skilið að það sé valtað yfir hann og það er bara vont að láta keyra yfir sig!! ..

Nei – kærleikurinn verður að virka í báðar áttir, líka að okkur sjálfum.  Ekki vildum við að komið væri illa fram við náunga okkar, og hvers vegna okkur sjálf.  Segjum bara hingað og ekki lengra! ..

Ég var alin upp við setninguna,  „Sá vægir er vitið hefur meira“ …. það dugði mér lengi, en það má þó ekki verða til þess að þessi vægð verði til þess að sá vitminni fái valdið.

Mætum náunganum alltaf með kærleika,  en þó ekki með undirgefni,  því sársaukin hans á ekki að stjórna báðum.

Elskum meira og óttumst minna.

419235_497263263618422_325429145_n

 

Heilunarmáttur þess að borða ís í boxi ….

Ég átti erfiðan dag … rölti inn í eldhús og fann þar maískökur, kókósmjöl og möndlur (af því ég er að lifa svo heilbrigðu lífi). – Fékk mér 2-3 möndlur, en þær fylltu ekki upp í tilfinningatómið sem ég var að burðast með.  Allt í einu kviknaði ljós í höfðinu á mér, – ég mundi eftir BEN & JERRY´S ísnum sem Hulda systir hafði komið með um áramótin, og við höfðum ekki opnað.  Ég hefði reyndar opnað hann síðar,  þegar ég bauð vini mínum í mat, og við höfðum fengið okkur smá skeið af ís.   Ég man að mér fannst ísinn full sætur fyrir minn smekk.

En þarna stóð þetta fallega ísbox,  strawberry and cheesecake flavour! –   Ég settist í sófann með boxið og matskeið, og skildi þá allar bíómyndirnar þar sem konurnar sátu og úðuðu í sig ís.   Allt í einu varð ísinn að unaði – og huggun.  Merkilegt!! ..   Jarðarberjabragðið kveikti á fallegri minningu,  þar sem við dóttir mín vorum staddar á Amagerbrogade og borðuðum besta jarðarberjaís sem við höfðum á ævinni smakkað (að okkur fannst á þeim tíma)! –

Það er kannski ekki alslæmt að leyfa sér stundum að njóta þess góða sem framleitt er, og merkilegt hvað þessi ís varð miklu betri þegar ég þurfti á honum að halda.   Já, ég tala alveg öfugt ofan í það sem ég er vön, – gegn „tiflinningaáti“ – og svoleiðis.   En ég er alltaf að uppgötva nýjan sannleika, a.m.k. fyrir sjálfa mig, – og auðvitað búin að átta mig á að meðalhófið er best.   Það sem skiptir mestu máli er að NJÓTA þess sem við erum að gera og ekki gera það með samviskubiti eða sektarkennd.  Þá er betra að sleppa.

Þetta var dásamleg stund, og líklegast komst ég bara í einhvers konar hugleiðsluástand við þetta …..

Lifum ofoðslega heil og glöð – og það mikilvægasta NJÓTUM! …

strawberry-cheesecake-detail

 

Skömmin reiðir sig á það að við höfum þá trú að við séum ein.

Einhvers staðar heyrði ég sagt að skömmin væri undirrót flestra fíkna, og því er mjög mikilvægt að átta sig á hvernig hún virkar – og hvernig hún virkar ekki.

Lítum á skömm sem eitthvað sjálfstætt fyrirbæri sem vill lifa af.  Þetta fyrirbæri tekur sér bólfestu innra með okkur,  hún felur sig innra með okkur.

En hvers eðlis er þessi skömm? –

Skilgreining Brené Brown, sem hefur rannsakað skömmina í tugi ára:

„We are all wired for love and belonging“ ..  „Shame is the intensely painful feeling that we are unworthy of love and belonging“ .. 

Við höfum öll þessa þörf fyrir að vera elskuð – að  tilheyra – til að vera samþykkt – til að vera í hluti heildar.

Skömmin felst í því að upplifa það að við séum ekki elskuð,  að við séum ekki þess virði að tilheyra – vera samþykkt eða hluti heildar. 

Í skömminni upplifum við einmanaleika, vegna þess að við erum aðskilin frá heildinni.

Skömmin býr með okkur öllum, – og hún er ein af frumtilfinningunum.

Ég skrifaði í upphafi að hún feli sig, – og þess vegna er mikilvægt að varpa á hana ljósi, – og tala um hana eða það sem veldur okkur skömm,  því við það minnkar hún.   Leynd, þögn og dómharka viðhalda skömminni,  en skömmin lifir ekki af skilning og samhygð. 

Skömmin reiðir sig á það að við höfum þá trú að við séum ein.

Góður vinur eða vinkona, nú eða ráðgjafi  getur gert kraftaverk,  með því að hlusta á frásögn okkar,  en þá með samhygð og án þess að dæma.   Þau sem hafa prófað að tala um skömm sína á hópfundum,  – og hafa fundið samkennd,  hafa upplifað frelsið.   Líka þau sem hafa hlustað á aðra segja frá einhverju sem þau héldu að þau sætu ein uppi með.  Þá kemur þessi léttir:

„Ég er ekki ein“    „Ég er ekki einn“ …

Það er því gífurlega mikilvægt – að við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki ein.  Ekki sitja ein uppi með leyndarmál, eða eitthvað sem við upplifum sem skömm.

Skömmin lifir ekki af samkenndina.

Sýnum samhug og skilning – og losum okkur við dómhörku,  hversu dásamleg er ekki veröldin þá?

skömm

 

 

Vertu breytingin… veldu gleðilegt ár! …

Margt fólk lítur á nýtt ár sem nýtt upphaf,  sem er vissulega rétt.   En það má líka þrengja þetta alveg þannig að hvert augnablik sé nýtt upphaf.   Það er alltaf hægt að taka nýja ákvörðun, – og þá þurfum við að vita hvaða leiðarljós við ætlum að nota við þessa nýju ákvörðun.

Ég útbjó einu sinni lítið kennsluhefti, – og framan á það skrifaði ég

„VERTU BREYTINGIN – VELDU GLEÐI“ ..

Það þýðir m.a. að þegar við stöndum frammi fyrir vali, – þá er gott að hugsa: „Hvað er það sem færir mér mesta gleði?“ ..

Hvers vegna er gleðin svona mikilvæg?   Það er vegna þess að hún er besti drifkraftur sem til er! –

Sumt fólk er hrætt við gleðina, –  og kann ekki að njóta hennar á meðan hún varir.   Sumir hugsa:  „Þetta getur nú ekki varað lengi“  ..  og það gengur í sumum tilfellum svo langt, að fólk stoppar hjá sér gleðina, – vegna þess að það vill hafa stjórn og ráða sjálft hvenær hún stoppar, en að hún sé stöðvuð af ytri aðstæðum.   Já, svona getum við verið stórfurðuleg! –

Við getum í raun fundið þúsund ástæður fyrir því að vera EKKI glöð.  Já, það er allt frá því að ríkisstjórnin sé ómöguleg til þess að það er ekki til mjólk í kaffið okkar! –

Að sama skapi getum við fundið þúsund og eina ástæðu fyrir því að VERA glöð.

„Eymd er valkostur“ …  þ.e.a.s. ef við listum upp nóg af ástæðum fyrir að vera óánægð, þá tekst okkur það örugglega.    En fagnaðarerindið er:

„GLEÐI er líka valkostur“ …   og það er mjög snjallt að skrifa upp allt það sem gerir okkur glöð, einhvers konar gleðilista.  Leita að góðum fréttum, – hlusta á skemmtileg lög sem láta okkur líða vel, horfa á „Feel-good“  myndir.   Þær heita ekki „feel-good“ að ástæðulausu!! ..   Ef það eru til „Feel-good“ myndir hljóta að vera til „Feel-bad“ myndir, ekki satt?  –

Hvað þýðir þetta? –   Jú, við þurfum svolítið að velja hvað það er sem veitir okkur gleði.
Nú gætu sumir farið að hugsa.  Oh, en hún/hann   _______   er bara svo leiðinleg/ur – hvernig get ég verið glöð/glaður nálagt henni/honum????..

Við getum skipt um sjónarhorn gagnvart þessum einstakling, sem okkur hefur hingað til fundist eins og eitur.  Hvað ef við hugsuðum að þessi einstaklingur væri að kenna okkur lexíu? –   Hvað ef allt sem við þyrftum væri að mæta þessum einstaklingi með kærleika í stað pirrings eða óþoli?  Ekki síst vegna þess að við erum öll eitt,  og hann er bara að sýna okkur eina hlið mannlegs eðlis.  Kannski vanmátt í samskiptum?    Þú veist væntanlega að það sem aðrir láta út úr sér – skilgreinir þá en ekki þig? –

Ef við erum á okkar „happy disk“  eða svífandi á okkar hamingjuplani, – ekki láta þau sem eru þar ekki draga okkur niður. –   Bjóðum þau velkomin upp, – en segjum þeim að við ætlum ekki að stíga niður!  –  Við gerum það ekki beint,  heldur bara með því að halda okkur á okkar stað og halda áfram að vera glöð.

Ef einhver segir:  „Þú mátt ekki vera glöð/glaður af því ég er það ekki“-  þá vitum við að það er eitthvað að hjá þessum aðila.   Finnum til með honum,  en látum hann ekki kippa undan okkur gleðinni. –

Auðvitað er ég ekki að tala um að vera í einhverjum hamingjudansi í kringum syrgjendur,  við höfum nú öll einhverja skynsemi hvað slíkt varðar og við höfum flest lært að bera virðingu fyrir náunganum.

En ef við mætum manneskju,  sem hreinlega sækir í óhamingjuna og leitar upp afsakanir og ástæður til að vera ekki glöð, – endalaus „en, en, en“ – er engin ástæða til að fara í þá leit með henni eða elta hana þangað.   Ef við mögulega getum vísað henni leiðina að gleðinni,  – kannski bara með því að halda okkar gleði um leið og við sýnum þessari manneskju kærleika, – þá sigra allir.  –

Rísum yfir hversdagslegt þras og mas.

Einhvers staðar stendur að kærleikurinn sé besta meðalið,  og ef það virkar ekki, þá eigi að stækka skammtinn.

Endalaust ást – út yfir endamörk alheimins ❤

11993295_10153234914874150_7530001414201599506_n