Feður og dætur ..

Ég hef verið að lesa svo sorglegar fréttir undanfarið, sem innihalda samskipti feðra og dætra.  Þið vitið um hvaða fólk ég er að tala. Það skiptir ekki öllu máli, – og þessi pistill fjallar ekki um einstök mál heldur bara almennt um þessi tengsl, og það sama gildir um tengsl milli annarra í fjölskyldunni, hver svo sem þar eiga í hlut.  Auðvitað gæti þetta verið móðir og sonur, eða systir og bróðir.

Öll þessi vondu samskipti eiga sér rætur í sársauka. EInhver segir eitthvað eða gerir eitthvað út frá eigin sársauka.

Er allt þetta fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldunni tilbúið til að ganga ósátt til hinstu hvílu? –   Hvað ef að einhver deyr og ekki hefur náðst sátt?

Það er svo sorglegt að horfa upp á ættingja, jafnvel í valdabaráttu, um eitthvað sem eyðist,  þ.e.a.s. þessi völd flytur enginn með sér inn í eilífðina. –  Sálin fer með okkur inn í eilífðina, sál sem hefur e.t.v. ekki náð að fyrirgefa.  Og eftir verður sál sem heldur nær ekki að fyrirgefa,  sál sem situr uppi með að vera búin að missa e.t.v. barnið sitt og kvaddi það ekki með sátt. –

Í mínum huga er fátt sorglegra.

Mér finnst þetta líka ákveðið vanþakklæti fyrir lífið.  Að eiga dóttur eða eiga föður, að eiga son, að eiga móður,  en ná ekki að njóta þess að eiga samskipti við hvort annað.

Sum sár eru svo djúp að þau er erfitt að heila,  en þar finnst mér að guðsfólkið,  eða sem telur sig trúa á kærleiksríkan Guð,  ætti einmitt að biðja Guð um lækningu og heilun.  Biðja Guð um að hjálpa sér við fyrirgefninguna.

Ég hef litla trú á illskunni, hvað sem hver segir.  Ég trúi að hún sé til, en ég trúi að það sé hægt að afvalda hana með elskunni.

Ég trúi ekki öðru en að faðir liggi andvaka að geta ekki talað við dóttur og að dóttir liggi andvaka að geta ekki talað við föður. Þetta er tap á báða bóga. –

Fyrirgefningin er stærsta gjöf sem hægt er að gefa sjálfum sér.  Hún þýðir ekki að við höfum samþykkt gjörðir eða orð hinna,  hún þýðir að við sleppum tökum á reiði, gremju, og öllu því sem hið vonda vill að við höldum fast í.  Ég trúi að við getum snúið á illskuna með því að samþykkja hana ekki,  og gera hana ekki að okkar. –

Við syndgum öll einhvern tímann, sum í smáu önnur í stóru. Við gerum öll mistök einhvern tímann.

Þegar ásakanirnar birtast á víxl í blöðunum – er það réttur vettvangur til fyrirgefningar? –   Munu ásakanir á víxl leysa málin?

Ef við viljum raunverulega ná bata og betra lífi, þrátt fyrir að vondir hlutir hafi gerst,  – þá þurfum við að sýna skilning en ekki stunda það sem kallað er „The Blaming Game.“ –

Hættum að leita að sökudólgum og förum að skilja AF HVERJU hlutirnir gerast, eða fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. það er miklu farsælli leið til að leysa flest mál og deilur.

Lífið er of stutt og of mikilvægt til að því sé lifað í deilum, ekki gera ekki neitt, eins og þar stendur,  enginn einstaklingur getur verið hamingjusamur hvort sem sál hans er plöguð af skömm vegna vondra leyndarmála eða lifir með sál sem nær ekki að skína  vegna reiði og gremju.

Með von í hjarta að þessi skrif hjálpi til skilnings á mikilvægi þess að eyða ekki lífinu til einskis  .. okkar dýrmæta lífi.

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Hvernig iðkum við þakklæti?

Hvað er lífsfylling? –

Það hlýtur að fela í sér að við séum sátt og ánægð með það sem við höfum.

Andheiti við lífsfyllingu er lífstóm, ekki að það sé orð sem við notum.

En lífstómið er tómleikatilfinning.  Tilfinning að það vanti eitthvað í lífið, okkur skorti, við söknum o.s.frv. –

Í bók sem heitir „Women, food and God, an unexpected path to almost everything“ – lýsir höfundurinn Geneen Roth því hvernig við reynum stundum að fylla á þetta tilfinningatóm með mat. –

Við getum skipt út þeirri hugmynd með mörgu öðru sem við reynum að nota – en dugar ekki, því við erum að kalla eftir tilfinningalegri næringu en fyllum á með fastri fæðu  eða veraldlegum hlutum af ýmsum toga.

Það sem vantar er oftar en ekki friður, ást, sátt, gleði, – eitthvað andlegt sem ekki er hægt að fylla á með mat.

Hér er komið að þakklætinu.

Þegar við þökkum það sem við höfum, og stillum fókusinn á það, förum við að upplifa meiri fullnægju og minna tóm. –  Þá látum við af hugsuninni um skort. –

En þakklæti er ekki bara eitthvað sem við hugsum, heldur þurfum við að ganga lengra, og „praktisera“ þakklæti.  –

Ég er nú ein af þeim sem hefur fundist pinku „fyndið“ og e.t.v. öfgafullt að biðja borðbænir fyrir mat, en líklegast er það ein fallegasta þakkarbænin, að þakka fyrir að fá að borða, því það er ekki sjálfsagður hlutur alls staðar í heiminum. –

Þó við förum ekki að taka upp þá iðju, nema kannski hvert og eitt svona sér fyrir sig,  þá er það að iðka þakklæti eitthvað í þeim dúr.

Það sem ég hef kennt á námskeiðunum mínum er t.d. að halda þakklætisdagbók, – þá skrifar fólk niður daglega, yfirleitt á sama tíma dags það sem það er þakklátt fyrir,  e.t.v. þrjú til fimm atriði.  Þetta þarf að iðka til að það komist upp í vana.

Hugrækt virkar eins og líkamsrækt, – það dugar ekki að æfa skrokkinn einu sinni og halda að við séum komin í form.  Við þurfum að endurtaka æfingarnar aftur og aftur og gera það að lífsstíl eða nýjum sið í okkar lífi. –

Þakklætið virkar líka þannig, –  að þakka daglega eða a.m.k. reglulega þó það sé aðeins 2 -3 í viku. –

Það er nefnilega þannig að þakklæti er undirstaða lífsfyllingar, sáttar, gleði og ýmissa góðra tilfinninga.

Þakka þér fyrir að lesa!

Sáum fræjum þakklætis og uppskerum ………

971890_412903325485195_97787239_n