Sorgin er viðkvæm eins og ungabarnið ..

Ég rifjaði upp það sem ég skrifaði á Facebook 8. nóvember 2013 – en það var m.a. þetta (örlítið breytt):

„Aldur barns er talinn í mánuðum fyrsta árið, – og tíminn sem liðinn er frá andláti náins ástvinar er talinn í mánuðum.
Tíu mánaða gamalt barn er afskaplega ungt og viðkvæmt, og tíu mánaða sorg er afskaplega ung sorg – og viðkvæm.   Þá er mikilvægt að sorgin/barnið – eigi góða að sem bera það og vernda og sýna umhyggju.   
Það er stundum freistandi að missa fókusinn á ljósið og grúfa sig undir sæng, og stundum minnist ég orða spekingsins sem sagði, að þegar við værum að gera gott, kæmi stundum „hið illa“ og reyndi að bregða fyrir okkur fæti. – Ég held þó að „hið illa“ þoli ekki svo vel ljósið og verði eins og skessurnar og tröllin, að steini við geislana. –
Þess vegna er enn mikilvægara að halda fókus, stilla á rétta bylgjulengd og velja gleði og jákvæðni. –
 
Að vera sterk, er það eina sem er í boði, hafandi það í huga að berskjöldun og viðkvæmni  (vulnerability)  er líka styrkleiki. Að játa það að geta ekki allt, og að finna til, vera særð og aum, en halda samt áfram.
 
Ég þakka tóna lífsins, þakka fyrir andardráttinn, þakka fyrir kyrrðina og núið, því það er allt sem er.“
Við umgöngumst þessa sorg eins og við umgöngumst ungabarnið,  með kærleika og mildi,  en stöðvum ekki þroska þess með því að ofvernda það eða hlífa við því sem það þarf að læra.

„Gott að vita að ég er ekki ein/n“

Ég ætla að skrifa aðeins um öðruvísi einmanaleika.  Ekki einmanaleika þar sem fólk býr eitt og hittir kannski ekki mikið annað fólk, heldur þann einmanaleika sem fólk upplifir að vera öðruvísi, eiga við vanda að glíma,  finna verki – eða upplifa sorg – nú eða skömm,  sem það telur að engin/n annar eða önnur í heiminum skilji eða hafi upplifað.

Mörgum líður eins og „aliens“ eða geimverum í mannaheimum,  finnst þeir ekki tilheyra neinum ákveðnum hópi eða ná ekki að tengjast.   Þeir verða „útundan“ og þannig einmana.

Það sem gerist þegar fólk mætir í meðferðarhópa – eða t.d. í Anonymus hópa, dæmi AA, Coda, Alanon, OA  o.s.frv.  þá fer fólk sem kannski nær ekki að tjá sig um vanlíðan sína – að heyra aðra tjá sig um nákvæmlega eða mjög nálægt því sem það sjálft er að upplifa.  Það er kannski einhver sem segir frá því sem hann/hún hefur alla tíð skammast sín fyrir og það kemur andvarp frá einhverjum í hópnum og uppgötvunin er þessi:  „Úff, ég er ekki ein/n“.

Það eru margir „þarna úti“ sem trúa því að nákvæmlega engin/n viti hvað þeir eru að ganga í gegnum,  en við erum bara allt of mörg í þessum heimi til að vera svo svakalega einstök að engin/n hafi upplifað það líka, eða eitthva mjög, mjög líkt.

Þetta – og svo margt annað hef ég lært í gegnum lífið – að við erum í raun öll í þessu – og það er svo miklu léttara þegar við áttum okkur á því að við erum í raun ekki ein.

Það er svo mikilvægt að rétta út höndina,  eða opna munninn og ÞORA að segja,  „ég þarf hjálp“ –  eða „ég þarf „þig“ ..    Mér finnst sjálfri gott að biðja Guð í auðmýkt og Guð er svo sannarlega í náunga okkar og umhverfi, og við mætum Guði á hverjum degi í góðu fólki.

Ég held það sé erfitt að hafa ekki trú – hvort sem það er það sem við köllum Guð eða æðri mátt – eða bara eitthvað alehimsafl sem við trúum að hafi mátt.  Einmitt þann mátt að skilja hvernig okkur líður og hver við erum.   Þessi trú kemur fram í laginu „Nobody know the trouble I´ve seen, nobody knows but Jesus.“      Bara það þó a.m,k. Jesús hafi skilning er samt „uppstig“ úr einmanaleika og einangrun.

En alveg eins og Guð – þá birtist Jesús í  fólkinu í kringum okkur.   Hvort sem við trúum á Guð eða Jesú.     Bænin gæti þá verið:

„Já takk – ég þarf skilning, umhyggju og kærleika og ég tek á móti með þakklæti.“
Opnaðu faðminn –  bankaðu á dyrnar og heimurinn opnast.    En við þurfum að taka hendur úr skauti og banka til að einhver heyri.    Við bönkum með bæninni.

En trúðu mér –  Þú ert ekki ein/n.    ❤

61dkJrbCT-L._SS500_
Ég minni á fyrirlestur 14. nóvember kl. 19:30 í Þjóðarbókhlöðunni.  Hægt að skrá sig ef smellt er  HÉR

 

„Hvernig var dagurinn þinn?“ ..

74299280_3286650224710601_3645792665770917888_n

Ég horfði nýlega á breskan þátt þar sem talað var um einmanaleika sem faraldur.  –  Ég held að í raun sé það að hluta til hvers vegna við „höngum“ svona mikið á facebook, því facebook er samfélag og við ræðum þar saman – skoðum hvað hin eru að gera.  Það er einhver tenging, en örugglega ekki nóg tenging.
Þegar við fyrrverandi eiginmaður minn og barnsfaðir skildum árið 2003,  hafði elsta dóttir mín áhyggjur af því að ég yrði einmana.    Ég sagði henni að það sem ég saknaði mest væri að hafa einhvern til að drekka kaffibollann með á morgnana.   Auðvitað fylgir því meira en bara að drekka kaffið,  það er spjallið og pælingarnar.    Yngri dóttir mín flutti til mín í sumar og við skiptumst á að útbúa te fyrir hvor aðra á kvöldin.  „Viltu te?“ er spurning sem tengir og við vorum í raun að þjóna hinni til skiptis.   Það var auðvitað fleira, líka kaffið á morgnana,  en iðulega var það hún sem hellti upp á og ég vaknaði við kaffiilm.  Það er þessi tilfinning að það sé einhver til staðar.   Ég upplifi þetta líka í sumarhúsinu með systur minni og fleiri stöðum.
Þessi setning „Hvernig var þinn dagur?“  felur svo margt í sér.  Það er einhver sem hefur áhuga á þér og því sem þú varst að gera.     Þetta er bara svona almennt .. getur verið hvers konar vina-eða fjölskyldusamband,  og svo kemur smá „bónus“ í parasambandi – en þá er það auðvitað koddahjalið og hin nána snerting.   Andleg og líkamleg snerting kannski?   Að finna að maður er elskaður og elska – og að langa til að snerta og vera snert.
Það er engin örvænting í því  –  það er eðlilegt.   En ég veit ekki með ykkur, en mér finnst svo aftur á móti mjög gott að vera með sjálfri mér og vera ein,  og stundum verður „of mikið af hinu góða“ ..  og fólk þarf rými – og finnst jafnvel betra að vera eitt.   Þarna þarf bara að koma inn eitthvað jafnvægi.
Annað sem þarf að taka fram er að þó fólk sé í sama rými – að ef það upplifir tómlæti þeirra sem eru þar þá verður einmanaleiki jafnvel enn meira yfirþyrmandi en ef það væri í raun eitt.  –    Ég hef rætt við margt fólk sem upplifir andlega fjarveru makans og fálæti.    Það er ekkert endilega spurt: „Hvernig var þinn dagur?“  og áhugaleysið jafnvel algjört.     Sá/sú sem ekki hefur áhuga –  honum/henni líður kannski ekkert voða vel?  –   Það má skoða það í allskonar ljósi.

Ég hef ekki lausn á einmanaleikafaraldrinum,  en kannski megum við vera forvitnari um náungann og sýna honum áhuga.  Að hann upplifi að hann skipti máli?  –   Sama hvort við búum saman  eða ekki.

Við erum misjafnrar gerðar – sum þurfa meira samneyti og sum minna, –  en ég held að fæst okkar séu þeirrar gerðar að vilja vera án ástar og tengingar við annað fólk.
Það er eitthvað í mannlegu eðli – við erum víruð fyrir elsku og tengingu – það að tilheyra öðrum,  einstaklingum eða samfélagi.    Að tilheyra ekki – gerir okkur einmana og útundan.    Þess vegna getum við glaðst yfir skrítnum hlutum,  eins og að hitta manneskju sem er að glíma við sama vanda og við sjálf,  eða hefur svipaðar hugsanir.  Þá kemur þessi setning:   „Ég er ekki ein“  .. „Ég er ekki einn“ ..   og um leið og við finnum þá tilfinningu þá kemur léttir.

Þú ert ekki einn – Þú ert ekki ein  …

Ég nota hér þessa síðu mína til að auglýsa fyrirlestur sem ég er með í Þjóðarbókhlöðunni 14. nóvember 2019 kl. 19:30  og hægt að sjá nánari auglýsingu á Facebook.   Ég ætla að tala um ýmislegt sem tengir okkur og lætur okkur líða vel .. með öðrum og okkur sjálfum!    Ég hef áhuga á að sjá þig 😉 …  og vera heyrð (auðvitað) og segi eins og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir heitin,  ég vil ekki hafa völd, en vil gjarnan hafa áhrif.

Ég hef áhuga á fólki og ég hef áhuga á þér.

Smellið HÉR til að lesa meira um fyrirlesturinn:

Vitundarvakning um brjóstakrabbamein – „Ég pissaði í buxurnar – góða skemmtun“

Ég hef ekki fengið brjóstakrabbamein,  en ég er með krabbamein sem heitir melanoma eða sortuæxli.  Fyrst greindist ég 2008 og svo kom það fram í eitlum 2014 og ég fór í aðgerð og geislameðferð, er laus við meinið – en enn undir eftirliti.
Árið 2008 missti ég bestu vinkonu mína úr brjóstakrabbameini og í vor dó mágkona mín  úr brjóstakrabbameini.

Nú er í gangi „samkvæmis“ – leikur á Facebook,  þar sem talað er um að markmiðið sé vitundarvakning um brjóstakrabbamein árið 2019.
Fólk setur einhvern mis – trúverðugan status á Facebook (nokkra sem ég féll fyrir – eins og „Ég mun koma fram í næsta þætti af Landanum“ – eða „Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni“ )  Þetta gæti bara alveg verið og alveg trúverðugt og margir hafa eflaust samglaðst eins og ég gerði.    Aðrir statusar voru ótrúverðugri: „Það er íkorni í bílnum mínum!“  „Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn“ ..  og svo þessi:  „Ég pissaði í buxurnar“..
Það var örugglega mörgum skemmt – í þessum samkvæmisleik, en mér finnst þessi aðferðafræði slæm – til að vekja fólk til vitundar um brjóstakrabbamein. –
Þó einhverjum – og kannski mörgum sé skemmt,  þá tel ég líka að þetta hafi særandi áhrif.   Ég las pistil frá bandarískri konu sem er á 4. stigi (lokastigi) þar sem hún ræðir um þessa leiki á facebook og segir sér ekki skemmt.

Textinn sem fólk fékk sem „varð það á“ að samgleðjast þeim sem vann 20 þús kallinn, eða setti athugasemd við að einhver hefði pissað á sig er eftirfarandi – og þar sjáið þið líka möguleikana.

„Nú verður þú að velja eitt af neðantöldu og setja sem status hjá þér. Þessi leikur snýst um meðvitund um brjóstakrabbamein árið 2019. Ekki skemma leikinn. Veldu eina setningu og settu sem status hjá þér.
1. Það er íkorni í bílnum mínum!
2. Ég notaði börnin mín sem afsökun til að sleppa við hraðasekt.
3. Hvernig losnar maður við fótasvepp?
4. Allir brjóstahaldarnir mínir eru týndir!
5. Ég held að ég hafi óvart tekið bónorði á netinu?!
6. Ég hef ákveðið að hætta að ganga í undirfötum.
7. Það er staðfest að ég er að verða mamma/pabbi.
8. Ég var að vinna tækifæri til að mæta í áheyrnarprufu í Jólastjörnur Bjögga!
9. Ég mun koma fram í næsta þætti af „Landanum“.
10. Ég er að fara fá apa!
11. Ég pissaði í buxurnar!
12. Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn!
13. Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni!
14. Við flytjum til Vermont í lok árs!
Settu setninguna sem þú valdir í status hjá þér án útskýringa. Afsakaðu, ég féll líka fyrir þessu. Hlakka til að sjá statusinn þinn (ekki ljóstra upp um leyndarmálið). Og mundu að allt snýst þetta um vitundarvakningu um brjóstakrabbamein árið 2019. Góða skemmtun!“

„Afsakaðu ég féll líka fyrir þessu“ ..stendur þarna.    Já – fólk er platað og það fellur í gryfju – og ofan í gryfjunni á það að verða svakalega meðvitað og vakandi um brjóstakrabbamein???
Mig vantar greinilega bæði greind og húmor til að fatta tenginguna.

Ég held reyndar að það þurfi ekki leik til að vekja okkur til meðvitundar um brjóstakrabbamein eða annað krabbamein.  Við eigum flest – nær undantekningalaust – vini eða fjölskyldumeðlimi sem hafa greinst ef ekki við sjálf.

Það væri forvitnilegt að heyra frá fólki hvernig þessi „skemmtun“  jók meðvitund þeirra um brjóstakrabbamein og hvað fólkið gerði annað en að skrifa eitthvað fyndið á facebook í framhaldinu? –

Ég tek það fram hér í lokin að ég er í góðu skapi  þó mér sé ekki skemmt við þennan aprílsgabbsleik í október.   Markmið þessa pistils er að vera vitundarvakning  um það sem fólk er að taka þátt í á facebook og hvort það sé raunverulega til góðs, eða bara til að taka þátt í „leiknum“ ..  


personal-freedom

 

Vanmáttur okkar aðstandenda ..

Ég er „reddari“ í eðli mínu – og kannski vegna uppeldis, hver veit? –  en þegar ég, áður fyrr, heyrði af einhverjum vanda, jafnvel vanda annarra var ég farin að leita lausna og „redda“..     Dæmi um slíkt var að þegar að yfirmann sem ég starfaði fyrir,  tilkynnti á fundi að hann og kona hans kæmust ekki á árshátíðina sem við vorum búin að plana í Amsterdam,  vegna þess að hann hafði ekki barnapössun,  þá varð Jóhanna einhvers konar „Mighty Mouse“ .. en þau sem þekkja „Mighty Mouse“  muna eftir því að hún sagði: „Here I come to save the day“   Hún skarst í leikinn þegar allir aðrir voru búnir að gefast upp og bjargaði málunum, –  já, ég hafði samband við systur mína sem endaði á því að passa krakkaskarann (held þau hafi verið fimm)  heila helgi!
Annað atvik var þegar eldri dóttir mín hringdi frá bráðamóttökunni í Fossvogi,  en þá hafði yngri dóttir mín veikst og var lögð inn,  en kærasti hennar sem var bandarískur fékk ekki að vera hjá henni sem aðstandandi.   Ég var stödd í brúðkaupi (sem gestur) – en það var eins og ég væri slökkviliðsmaður sem hefði fengið útkall, stökk af stað, þó ekki niður súlu,  heldur fór í fínu kashmírullarkápuna og setti upp virðulegasta frúarsvipinn og var mætt í móttöku bráðadeildarinnar á met-útkallstíma.   Þar fór ég með mikla réttlætingaræðu um viðmót við útlendinga og að kærastinn væri einungis á Íslandi til að vera með dótturinni,  og lagði mig fram við að útskýra aðstæður.
Móttökuritarinn ýtti þá á takkann sem opnaði hinar magísku dyr og inn fengum við að fara – og ekki nóg með það, piltinum var boðið að gista í aðstandendaherbergi með sæng og kodda.
Ég segi þessar tvær sögur vegna þess að þær eru inngangur að því sem hér kemur,  þegar svona „MiklaMús“ sem er vön að redda og stjórna,  missir máttinn.  Verður vanmáttug.   Við þekkjum það öll.
Það hefði ekki gert neitt voðalega mikið til fyrir mig að geta ekki reddað yfirmanninum pössun, –  en það hefði verið aðeins verra ef ég hefði ekki getað hjálpað í aðstæðum dóttur minnar.    Við erum hvergi eins viðkvæm eins og þegar okkar nánustu eiga hlut að máli.
Ef að börnin okkar eru veik, ef þau eru í óreglu – ef þeim líður ekki vel á einn eða annan hátt – þá langar okkur að GERA eitthvað.   Þetta á við um systkini, foreldra – maka ..  öll þau sem við elskum mest.  Ef að þeim líður illa,  þá fáum við svo mikla þörf fyrir að hjálpa þeim og það er ekkert eðlilegra í þessum heimi, en að vilja að okkar nánustu líði vel.    Væntanlega viljum við að öllum líði vel,  – en þau sem eru okkur næst snerta okkur mest. –
Það var með þessu hugarfari sem ég flaug til Danmerkur kortéri fyrir jól 2012,  þegar sama dóttir mín og hafði hringt í mig í brúðkaupsveisluna var orðin veik sjálf.  Mjög veik.   Hún var komin á spítala með mikla sýkingu í blóði,  en hún hafði sjálf talið sig vera með flensu.   Ég bókaði flugið út 18. desember og heim 23. desember,  en þá ætlaði hún sjálf að koma heim og njóta jólanna með fjölskyldunni á Íslandi, ásamt börnum sínum. –     Ég var alveg viss um það að þegar að ég kæmi út,  myndi henni batna.  Já, mamma lagar allt.    Það var tilfinningaþrungin stund að hitta hana í Skejbysjúkrahúsinu rétt fyrir norðan Árósa.   Hún var mjög veik, og eftir því sem dagarnir liðu varð hún veikari – við aðstandendur í angist,  læknarnir í  örvæntingu því þeir fundu ekki hvað var að.    Niðurstaðan var sjúkdómur sem var afar sjaldgæfur – en lækningin fannst því miður ekki.     Ég skrifaði að læknarnir hefðu verið í örvæntingu, en  það sýndi sig í því að hún var færð á milli spítala að leita að einhverjum sem kunni á hennar veikindi.
Síðasta ferðalagið hennar þar sem sálin var enn í líkamanum – var með þyrlu frá Árósum í Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn,  en þar gafst líkaminn upp og dóttir mín,  Eva Lind Jónsdóttir var úrskurðuð látin 8. janúar 2013.
Ég hafði bitið á jaxlinn allan tímann –  ég gat ekki bjargað henni,  en ég gat verið sterka mamman sem var til staðar fyrir hana og ég var það.   Hún sjálf náði að vera æðrulaus og svo gefandi og falleg á sínu dánarbeði að enginn var ósnertur.  Hjúkrunarfólkið dáðist að ungu konunni og við náðum svo sannarlega að eiga kveðjustundir,  þó þær væru óbærilega sárar.   Líklega var erfiðast að halda aftur af tárunum þegar Eva var spurð hvort hún vildi láta jarðsetja sig á Íslandi eða í Danmörku.
Þrátt fyrir þetta allt – allt þetta óhugsandi og óbærilega, er ég þakklát fyrir að hafa tækifæri til að fylgja dóttur minni síðustu sporin í þessu jarðlífi og fá að kveðja hana,  það fá ekki allir.
Þarna lærði ég „The hard way“  að ég er máttlaus, valdalaus og vanmáttug – en ég lærði líka að sætta mig við það.
Þremur árum eftir að Eva dó,  var sonur minn kominn á spítala með nærri sömu sjúkrasögu og hún,   sýkingu í blóði – og tvenns konar pensillín í æð sem virtist í fyrstu ekki ætla að virka og læknar farnir að tala um mjög alvarlegt ástand.   Hann fór sem betur fer ekki sömu leið og Eva,  –  en það komu endalaust „flash back“ minningar – við að sjá hann liggja þarna svo bjargarlausan og hundveikan – með súrefnið í nefinu eins og systir hans hafði legið,  og öll spítalahljóðin  „pípin“ í vélunum kveiktu á öllu á ný.    „Var hægt að lifa það af að missa tvö börn?“  hugsaði ég –  og var væntanlega komin í einhvern áfallagír.
Ég og tvíburasystir hans höfðum varla vikið frá rúmi hans vikuna sem hann lá inni á einangrunardeildinni á Landspítala Fossvogi,  en svo kom að því að hann var útskrifaður með fullan poka af pensillíni og verkjalyfjum.    Við gengum saman út um dyrnar út í lífið á ný,  mamman og sonurinn – og ég gladdist óumræðinlega og var full af þakklæti,  en um leið hugsaði ég hvað ég hefði óskað að ég hefði getað átt þessa stund með dóttur minni, að ganga saman út í lífið á ný. –    En það var ekki.
Nýlega ræddi ég við son minn um hvernig mér hefði liðið við að horfa upp á hann veikan, og upplifa vanmáttinn að geta ekkert gert,  en hann sagði að líklega hefðu veikindi hans  verið erfiðara fyrir okkur en hann.     Mér fannst þessi setning algjört „gull“ og segja svo margt – því eins og ég tók fram í upphafi pistilsins,  þá er það þessi gífurlegi vanmáttur – að horfa upp á okkar nánustu í veikindum – eða hverju það er sem lætur þeim líða illa,  sem lætur okkur líða illa.

Þegar við upplifum þennan vanmátt,  er engin bæn betri en æðruleysisbænin:
Guð gefi mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.
Kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina á milli.

Ég hef lært svo mikið af þessu öllu .. eftir dauða Evu leitaði ég að einhvers konar flotholti til að halda mér uppi svo ég sogaðist ekki algjörlega ofan í djúpa öldu sorgarinnar.   Ég fann fróun í því að skilja sorgina og skrifa um hana og skrifaði marga pistla.  Einn um þennan óhugsandi óbærileika.    Ekkert í þessu lífi hefur kennt mér meira en sorgin við að missa, en um leið hef ég farið að hugsa öðruvísi um það „að missa“  …

Ég hef komist að ýmsu;  t.d. að það að líða illa sjálfri hjálpar ekki mínum nánustu í þeirra vanlíðan.   Ég hef komist að því að ég verð að sætta mig við hið óásættanlega.    Sáttin er líklegasta eitt mikilvægasta sem við mannfólkið eigum.    Að ganga lífsgönguna í kærleika og gleði – þrátt fyrir ALLT er lykillinn minn.

Ég er ekki mátturinn og dýrðin.  Ég er vanmátturinn og dýrðin og það er allt í lagi.
Ég þarf ekki alltaf að GERA það er nóg að VERA.

Í dag þegar þetta er skrifað, er ég stödd í Danmörku –  og bý nú 400 metra frá börnunum hennar Evu.  Ísak, 15 ára sonur Evu kom til ömmu í gær og hjálpaði henni með að skrúfa saman grill sem hún fékk í innflutningsgjöf frá stórfjölskyldunni hér í Hornslet.

Þann 14. nóvember nk.  verð ég á Íslandi og í bjartsýniskasti bókaði ég stóran fyrirlestrarsal,  mig langar svo að deila með fólki að það er allt í lagi að vera vanmáttugur – en um leið að finna leiðir til að ganga í gleðinni – því lífið á að vera skemmtilegt.   Eva skildi okkur hin eftir með boðskap sem ég hef gert að mínum;  „Ég vil að börnin mín alist upp í gleði og jákvæðni“ ..    en auðvitað – því þannig var hún sjálf.

Ég set hér hlekk á fyrirlesturinn þann 14. nóvember nk.  þar sem ég deili mínum „Fimm háskólagráðum í lífsreynslu“ .. og já, við skulum hlæja saman,  því það er svo gott fyrir heilsuna.

SMELLIÐ HÉR 

Ég hef líka lært þetta:

we-are-all-in-this-together

 

 

Þú veist svarið …

Öll okkar svör eru innra með okkur, –  hvað vil ég?  Hvað vilt þú?    Mitt svar er innra með mér og þitt innra með þér.   Ef við teljum okkur ekki vita svörin,  er það vegna þess að við erum búin að búa til hindranir –  eða lokanir og náum ekki að sækja svörin okkar.
Stundum er svarið of sársaukafullt –  og þá þykjumst við ekki vita svarið, eða förum í afneitun því að  það er „þægilegra“ þá stundina að  þykjast ekki vita hvað okkur er fyrir bestu. –

Svona staðhæfingum eins og koma hér að ofan þurfa að fylgja dæmisögur, svo hægt sé að skilja.

Ég segi sögur af henni Önnu, en Anna er bara tilbúin persóna,  sem ég bý til úr mörgum persónum sem ég hef rabbað við og einnig er hún hluti minnar eigin reynslu:

Anna var í sambandi við mann sem hún var mjög ástfangin af,  en hún fann að það var ekki gagnkvæmt.   Hann vildi samt ólmur vera með henni –  en fljótlega fann hún að þó hann segðist vera hrifinn af henni,  þá sýndi hann það ekki í verki,  og seinna komst hún reyndar að því að hann var óheiðarlegur gagnvart henni   (Kannski vissi hann ekki sjálfur hvað hann vildi því hann var ekki í tengslum við sjálfan sig ?)   Hún vissi að þetta samband myndi ekki ganga upp,  en hún fór í afneitun,  vegna þess að það var of sárt að hætta – og allt of mikil vonbrigði. –

Það þýddi ekkert að aðrir segðu henni að þetta myndi ekki ganga upp,  hún varð eiginlega bara þrjóskari við það –  „ég ætla að láta þetta ganga“  hugsaði hún, – en var þá komin í ákveðna stjórnsemi og örvæntingu.
Alltaf vissi hún hvað var rétt –  en hún vildi ekki vita það.
Svörin eru alltaf innra með manni.

Annað dæmi er t.d. um hvernig við blekkjum okkur með mataræði –  eða t.d. alkóhól – sígarettur o.s.frv. –

„Ég ætla að kaupa súkkulaðikex, svona ef að það koma gestir“ ..    Það sem þú veist er að þú munt líklega ekki fá gesti og borðar súkkulaðikexið  sjálf/sjálfur að lokum.  –    Þú veist það sérstaklega ef það hefur gerst áður.      Þetta getur líka verið þegar þú ert að taka fyrsta glasið eða bjórinn og hefur áður átt erfitt með drykkju, –   „æ ég fæ mér bara eitt glas“ .. en svo verða þau mörg.      Margir ætla líka að reykja minna,  borða minna ..   en fara í gamalt far.    Það er því fyrsta glasið eða fyrsta sígarettan sem skiptir máli, –  að blekkja ekki sjálfa/n sig. –

Þegar við gerum ekki það sem við vitum, eða það sem er í raun best fyrir okkur til langframa  (in the long run)  er oft  sjálfsblekking. –      Sumir segja:  „Ég veit þetta allt og kann allt“ – t.d. um mataræði,  „en ég geri það ekki“.

Ástæður fyrir því að við vitum  en  gerum ekki geta verið flóknar,  t.d. gömul innræting um að í raun eigum við ekkert skilið að ganga vel eða vera glöð og hamingjusöm.    Eða við höfum ekki trú á því.     Stundum getum við líka hafnað einhverju góðu sem kemur í líf okkar áður en okkur er hafnað.     Ein stúlka dró sig viljandi niður – þegar hún fór að upplifa gleðitilfinningar – því hún vildi frekar stjórna því sjálf en að  gleðin yrði stöðvuð utan frá eða af öðrum.

Það er margt í mörgu og við mannfólkið með flóknar tilfinningar –  en ef við slökum á og setjumst niður með sjálfum okkur,  og elskum okkur eins og við værum að elska barn,  þá kannski förum við að hlusta á okkar innri rödd – sem veit svarið og fara eftir því?

Það er þess vegna sem sjálfsumhyggja og sjálfsvirðing er mikilvæg.  Að virða sig viðlits og veita okkur athygli.    Því það sem við veitum athygli vex og dafnar – og hvers vegna ekki að veita  okkur sjálfum athygli og hlusta?

Þegar sársaukafullu ákvarðanirnar eru teknar,  eða þær erfiðu,  þá erum við SJÁLF til staðar til að mæta okkur með mildi –  og klöppum okkur á öxlina og segjum “ þú átt allt gott skilið,  þína eigin virðingu og annarra – og ég ætla að lifa samkvæmt því.“  –

Allir eiga skilið að njóta lífsins –   og  GLEÐIN  er besta víman.

Gleðin kemur þegar við erum við sjálf og erum þakklát fyrir að vera þau sem við erum og þurfum ekki að breyta neinu né stjórna neinu.

67458981_2783168081728172_1318662548802764800_n

„Ávallt viðbúin“

Eftirfarandi er haft eftir Oprah Winfrey:  „Nothing about my life is lucky. Nothing. A lot of grace, a lot of blessings, a lot of divine order, but I don’t believe in luck. For me, luck is preparation meeting the moment of opportunity. There is no luck without you being prepared to handle that moment of opportunity. Every single thing that has ever happened in your life is preparing you for the moment that is to come.“ — Oprah

Á íslensku:

“Ekkert í mínu lífi byggir á heppni. Ekkert.   Sumt er vegna náðar, annað er blessun, eða guðleg forsjón –  (stundum kallað „skikkan skaparans“ – innskot mit) –  en ég trúi ekki á heppni. Fyrir mér er heppni undirbúningur sem mætir augnabliki tækifærisins.  Það er engin heppni  sem fylgir því að vera tilbúin/n að höndla þetta augnablik tækifærisins.   Hvert einasta atriði sem hefur gerst í lífi þínu er undirbúningur það sem koma skal.Það má eiginlega segja að þessi boðskapur sé í ljóðinu sem kallar á okkur að vera til þegar vorið kallar.   Við erum tilbúin fyrir vorið.

Vertu til er vorið kallar á þig,
Vertu til að leggja hönd á plóg.
Komdu út því að sólskinið vill sjá þig,
sveifla haka og rækta nýjan skóg!

HEY!

Þetta er sungið t.d. á Skátamótum enda þeirra slagorð:  „Ávallt viðbúin“ ..

tækifæri

Sjálfs – traust / Self – esteem

Skilyrðislaust verðmæti okkar –   Okkar innra verðmæti  helst það sama frá fæðingu til dauða. EKKERT og ENGINN breytir því. Ekki eignir okkar, það sem við gerum, vandamál okkar eða velgengni. Við erum alltaf jafn verðmæt og það þýðir að „við erum nóg“  – skilyrðislaust.
Markmið okkar er að finna frið, gleði, sátt og ást hið innra, því það er grunnurinn að öllu öðru. Það er engin trygging fyrir því að verða glöð og sátt að eignast hluti eða ná ytri – eða veraldlegum árangri. Það sjáum við í t.d. fólki sem á fullt af dóti/peninga en er samt óánægt og er jafnvel á flótta frá sjálfu sér í gegnum vímuefni, alkóhól eða aðrar fíknir. Kannski valdafíkn. En öll fíkn er flótti. Markmiðið er að vilja vera með okkur sjálfum og tengjast okkur sjálfum. Að sjá gullið hið innra með okkur, að trúa að það sé og að gera eitthvað í því – eins og að teygja okkur eftir því. Inn á við. Þurfum ekki að „betla“ hamingju frá öðrum.

Sjálf – styrking er að styrkja sjálfið ekki að styrkja hið ytra heldur hið innra sjálf.   Það er um SJÁLF,   annars væri það  „Hinna“ – traust.    Það sem er EKTA og hrein/n ÞÚ.  Það sem er raunverulegt er það sem er varanlegt.    Það sem þú fæðist með og verður ekki af þér tekið.
Þú ert að rækta þitt raunverulega vald – sem ekki er hægt að taka af þér. Þú passar upp á þitt innra barn og berð ábyrgð á því.

Munum að þakklætið er undirstaða gleðinnar – og ætlum að ástunda þakklætið og iðka jákvætt sjálfstal.

Ég elska mig  –  Ég samþykki mig –  Ég þakka mér –  Ég fyrirgef mér –  Ég virði mig.
„Þessi  mig/mér  sem við erum að tala um er barnið sem þú einu sinni varst.  Foreldrar þínir höfðu áður ábyrgðina barninu þegar það var lítið,   eða aðrir fullorðnir,  en núna er barnið á þinni ábyrgð og það er einnig á þinni ábyrgð að elska barnið og styrkja í þessum viðkvæma heimi.
Our Unconditional value  (Our value „no matter what“ )  – Our  inner value remains the same from birth to death. NOTHING and NO ONE can change that. Not our belongings, what we do, our problems or our success. We are always the same value – and that means „we are enough“ unconditionally.

Our goal is to find peace, joy and harmony and love – acceptance on the inside. That is the foundation for everything. There is no guarantee for happiness with worldly success. We can see it f.ex. in people who have lots of things/money but are still unhappy and even fleeing from them selves through drugs, food or alcohol or other addictions. Maybe the addiction to power. But all addiction is flight from one self. Our goal is to want to be with our selves and connect to our selves.
To see the gold inside of us, to believe in the gold inside of us and to act on it – by reaching for it – inside, we don´t need to beg for happiness from other people.

Self – empowerment – is to make your inner self strong, not the outer or other. The self that is REAL og Clear YOU.   What is lasting and can´t be taken away from you.  –  Self esteem is about  SELF not OTHER,  then it would be Other-esteem.
You are growing your authentic power – which can not be taken away from you. You take care of your inner child – and be responsible for it 

Remember that gratitude is the foundation for Joy, and we are going to practice gratitude and use positive affirmations for our selves.

I love my self –  I accept my self –  I thank my self – I forgive my self –  I respect my self.

Your „self“   we are talking about is the child you once were,  your parent´s had the responsibility for the child when it was small – or/and some other grown – ups,  but now the child is your responsibility and it´s also yours to love the child and empower it in this fragile world.  

11392815_10206491177699484_9005382576710526593_n

Fyrirlestrar – örnámskeið í boði

Fyrirlestrar í boði fyrir vinnustaði – félagasamtök eða  aðra hópa.   Umfang allt frá  30 mín – 3 tíma  ( Annað hvort 3 tíma í röð,  eða koma í 3 skipti ).

 

 

Nafn á fyrirlestri Umfjöllun
Sorg, áföll  og sátt Viðbrögð við sorg og leiðir og  hjálparráð  til að ná sátt við missi,  hvort sem um er að ræða  dauðsföll, skilnað, sambandsslit, atvinnu-heilsumissi o.s.frv. –   Þú hefur upplifað breytingar í lífinu sem þú vildir ekki,  en þarf að takast á við þær.
Meðvirkni – grunnfyrirlestur Kjarnaatriði í meðvirkni,   orsakir  – sjálfsskoðun,  lausnir.   Hvað getum við gert og hvað ekki?  –
Þakklæti sem forsenda gleðinnar  Mikilvægi þess að ástunda þakklæti og lifa í heimi fullnægjuhugsunar í stað skorts.
„Ég get það“   Hvernig náum við markmiðum okkar,  og hver eru hin raunverulegu markmið og um leið hindranir? –    Hvernig temjum við okkur jákvætt sjálfstal?  –
Mín heilsa,  mín ábyrgð. Mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin heilsu  til að auka lífsgæði og lífsgleði.
Mátturinn í Núinu Fræðsla um núvitund – og hvernig við náum að njóta augnabliksins óháð ytri aðstæðum.   Slökunaræfingar.

Til að panta fyrirlestur eða fá nánari upplýsingar:   johanna.magnusdottir@gmail.com

Hægt að sérsníða fyrirlestra og námskeið miðað við þarfir.

419760_399582396722202_155458597801251_1749816_1666267657_n

Með stálkúlu í maganum …

Ég man ekki ártalið,  en það eru a.m.k. 15 ár síðan að ég var stödd á kaffistofu Kvennakirkjunnar í Kjörgarði – sem var og hét.    Inn kom koma og kynnti sig og sagðist heita Sólveig.  Ég spurði hana hvaða þjónustu hún væri að bjóða upp á,  en hún leigði þarna herbergi  þar sem hún bauð upp á meðferðir.    Jú,  það var höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun. –    Hún hefði alveg eins getað sagt eitthvað á kínversku,  því ég vissi ekkert hvað það var.    Ég hafði þjáðst af brjósklosi í  þó nokkurn tíma,  gengið hölt og búin að minnka við mig vinnu í 80%  af þeim sökum.     Ég spurði hvort hún gæti hjálpað við brjósklos. –   Hún svaraði að það gæti hún – og svo talaði hún eitthvað um „vefræna tilfinningalosun“ .. og það var aftur einhvers konar tungumál sem ég skildi ekki.
„Tilfinningarnar eiga það til að setjast í bakið“  minnir mig að hún hafi sagt, –  en ég ákvað að panta tíma og prófa öll þessi „ósköp“  –  en það gat ekki verið meiri þjáning en að fara til sjúkraþjálfarans,  en ég var alltaf að drepast í bakinu eftir tíma hjá honum. –

Fyrsti tíminn: 

Ég lagðist á bekk,  fullklædd og Sólveig talaði blíðlega til mín.    Hún setti höndina undir hrygginn vinstra megin,  og ég fann eins og straum og hita fara niður í vinstra fótinn (en ég var með brjósklos vinstra megin).     Vegna þess hvað það er langt um liðið man ég auðvitað ekki allt í smáatriðum en þetta man ég mjög vel:  Hún lagði höndina á magann á mér og spurði um tilfinninguna í maganum.    Mér að óvörum svaraði ég að það væri eins og það væri stálkúla í maganum.    Hún spurði mig hvað ég væri gömul og mér fannst það skrítin spurning,  en ég svaraði að ég væri fimm ára og ég var allt í einu komin í portið þar sem ég bjó á Grettisgötu  í bakhúsi.    Ég lýsti því að ég stæði  þarna og mamma var búin að setja plötu fyrir garðinn okkar,  svo að vinur minn kæmist ekki inn.   Hann hafði kastað sandi framan í mig og hann mátti ekki leika við mig. –
Svo fór að hellast yfir mig mikil sorg og ég fór að hágráta,  þarna sem ég lá á bekknum og óstöðvandi flaumur tára hélt áfram að koma.     „Var ég alveg búin að missa það?“  ..  Ég skildi sjálf ekki hvað var að gerast þarna í herberginu í Kjörgarði,  en Solveig sagðist myndu passa upp á mig og ég treysti henni til þess. –
Ég rifjaði þarna upp nafn drengsins og gat nefnt það  –  en ég hafði algjörlega gleymt þessu,  og þetta hlytur að kallast „bæld minning“   en nokkrum dögum eftir að þetta gerðist  lést þessi ungi drengur.    Einhver krakki kom gangandi niður göngin og kallaði:  “ _________  er dáinn “    (ég vil ekki setja nafnið hans hér).
Af einhverjum orsökum hafði ég tekið þá hugmynd inn að ég hefði átt einhverja sök á dauða  drengsins.    Vegna þess að ég klagaði hann  og mamma hefði þess vegna lokað á hann  að það væri mín sök,  og  sektin var stálkúlan í maganum á mér.      Á þessu tímabili fór ég að pissa undir –  og sem fullorðin var ég sífellt að fá þvagfærasýkingu og blöðrubólgu.      Það gerðist varla upp úr þessu.    Það hafði eitthvað hreinsast og stálkúlan var farin.     Þetta var ótrúlegur tími –   og ég fór síðan í fleiri tíma og ég hef í gegnum ævina farið t í  höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun  til að hjálpa mér við svo margt – og ekki síst þegar ég  var í djúpri sorg og gat losað um hana þarna í örygginu. –

Bakið lagaðist líka,  ég þurfi ekki að „fara undir hnífinn“ eins og sagt er.

Þegar fólk er að ráðast á óhefðbundnar lækningar verður mér oft hugsað til minnar göngu til heilsu,  en ég hef sigrast á ótrúlega mörgum sjúkdómum án lyfja.    Ég hef notað óhefðbundnar aðferðir,  heilun,  Bowen,   höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun,  heilbrigt mataræði og síðast en ekki síst:   viðurkenningu á tilfinningum mínum – um leið og ég tala fallega til sjálfrar mín og anarrra.    Falleg orð eru það besta,  alveg eins og við tölum fallega til blómanna okkar til að þau vaxi betur.  –

Það er ekki öll heilsa falin í pillum –   en ég vil taka það fram,  að líka þegar við þurfum að taka lyf eða fara í meðferðir eða aðgerðir  þá er mikilvægt að  hugsa jákvætt um lyfið og meðferðina.   Ég fór í 25 skipti í geislameðferð 2015  og tók meðvitaða ákvörðun að hugsa jákvætt um þá meðferð og fara í hana af heilum hug,  en það er hægt að finna alls konar greinar um skaðsemi geislameðferðar.

Það er til nokkuð sem heitir Placebo áhrif,  og þá trúir maður að lyfið  (sem er í raun lyfleysa eða  bara einhvers konar gervipilla)    geri manni gott og hún virkar eins og lýsining segir að hún virki.      En það eru líka til Nocebo áhrif og það  þýðir að ef við t.d. trúum að það sé eitur í pillunni okkar,  virkar það illa fyrir okkur.

Hvað segir þetta okkur?     Jú,  aðferðirnar virka betur ef við höfum trú á þeim,  þó að trúin ein sé kannski ekki nóg ein og sér.     Líkami og sál vinna saman eins og læknavísindin og lyfin og hið óhefðbundna eiga að vinna saman.

heilsa