Þreyta út af „engu“ …

Þegar við höfum sofið heila nótt – þokkalegum svefni,  ætlumst við til að vakna hress og til í allt – eða svona næstum allt.   En stundum vöknum við bara þreytt.    Það er stundum erfitt að útskýra það fyrir þeim sem hefur ekki upplifað það og finnst við kannski bara „löt“ ..      og að vera löt eða latur er oft eins og höfuðsyndin.
Pínku verkir hér og þar,  eymsli.    Alltaf leitum við skýringa og greininga.   Það gerði ég auðvitað á sínum tíma  (og fékk) – því ég er alin upp við að vera „dugleg“ og er reyndar hörkudugleg –  en dugnaður minn verður stundum þannig að það tekur mig marga daga að jafna mig á eftir.

Ég veit að í þessu er ég langt í frá ein.  Margt fólk upplifir „þreytu út af engu“ .. en auðvitað er alltaf ástæða,  en hún er kannski dýpri en bara að haf sofið illa.   Þreytan sem er í dag getur verið vegna einhvers sem gerðist fyrir löngu.  Þetta er bara uppsafnað.
Þegar við erum þreytt – þá þurfum við að hvíla okkur.

Mikið svakalega er gott að hafa tækifæri til hvíldar   ❤

WIN_20150213_231020

 

Hvað verður um barnið mitt?

Ég lá í stóru hjónarúmi í risherberginu í gamla húsinu okkar í Hafnarfirði,   barnsfaðir minn sofandi og barnið okkar lá á milli,  barnið sem bráðum yrði stóra systir tvíburanna sem ég bar í móðurkviði.   Ég hugsaði um stund hvað ég myndi vilja frysta þessa stund.  Það sem við lágum þarna öll fimm, örugg og saman.    Rúmið var eins og fleki á stórsjó,  en aðal málið var að við vorum öll á sama fleka og ég vissi að við vorum örugg.
En hvað yrði í framtíðinni?
Ég var ung móðir,  aðeins 24 ára – með þessar hugsanir.   Ég varð hrædd um börnin mín og við framtíð þeirra.   Hrædd við mótlæti, hrædd við sársaukann.    Sjálf hafði ég þurft að berjast fyrir sjálfri mér sem barn,  misst föður minn ung – dvalið á sumardvalarheimilum þar sem ég upplifði „survival of the fittest“ og ég varð svolítið á toppnum þar,  en leiddist samt að þurfa að hlaupa frá strákunum,   eða að þurfa að verja litla bróður minn eða önnur yngri sem urðu fyrir árás þeirra eldri.    Þetta var allskonar.

Núið:   Ég ligg ein uppí rúmi í risherbergi í smábæ í Danmörku.  Nokkrum götum frá búa barnabörnin mín,  börnin hennar Evu Lindar sem lá á milli og beið eftir að verða stóra systir.    Ég gat ekki bjargað henni,  enda var sjúkdómur hennar slíkur að enginn læknir gat bjargað henni,  en hún veiktist af sjalgæfum blóðsjúkdómi í desember 2012 og var úrskurðuð látin 8. janúar 2013.     Mín versta martröð varð að veruleika;  það að geta ekki verndað  barnið mitt.     Ég hef alla tíð verið „í ökkla eða eyra“ manneskja.  Ofverndandi eða fjarlæg.   Afskiptalaus eða gífurlega afskiptasöm um velferð barnanna.   Það er ekki til að vera stolt yfir og er eitt af einkennum meðvirkninnar.    Stundum hefur fjarlægðin verið einhvers konar sjálfsbargarviðleitni.     Ofurnæm,  líkamlega sem andlega  og ofurviðkvæm.    Það sem ég á við með ofurnæm t.d. líkamlega er að ég hreinlega meiði mig þegar fólk slær létt til mín,   það þekkir mitt nánasta fólk.    Ég þarf meiri deifingu þegar kemur að aðgerðum,  því annars finn ég til.   Það gerðist líka þegar tvíburarnir voru teknir með keisaraskurði.   Þá mistókst deifingin og ég fann þegar ég var skorin.   Sá sársauki er þó hjóm eitt,   miðað við hinn andlega sársauka við að horfa upp á veikindin og dauðann.


Ég ætla ekki að tala meira um mig,   heldur var ég að hugsa um mæður í dag.   Hvað hugsa þær á nýjum tímum,  við nýja heimsmynd.   Heimsmynd þar sem við erum smátt og smátt að venjast því að faraldur geysi um heiminn.   Heimsfaraldur þar sem tregða verður í samgöngum landa á milli,  þar sem ferðafrelsið er skert.     Þar sem við mannfólkið erum að vakna til vitundar að við erum hægt og bítandi að „drepa“ jörðina með mengun og misnotkun.    Hvernig verður heimurinn þegar börnin sem eru að fæðast í dag, verða fullorðin.    Verður sjónarsviðið eitthvað svipað og það sem við erum vön í dag,  eða eitthvað allt annað?
Við erum búin að sjá nasaþefinn af breytingum,  þar sem fólk ferðast með andlitsmaska – þar sem blómstrandi fyrirtæki skrælna vegna þess að það er ekkert fólk sem getur nýtt sér þjónustu þeirra.     Hvers er að vænta? –

Kannski er þess að vænta að við vitum ekki neitt.   Kannski er bara best að snúa sér öll að innhverfri íhugun og fara inn á við,   heim til okkar sjálfra og kenna börnunum að njóta sín í því líka.   Að kenna þeim að leita inn á við  að friði og gleði?   –   Að hið ytra breyti ekki öllu og að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum,  eins og stendur í Biblíunni hinni umdeildu,   sem inniheldur samt svo mikinn vísdóm.    Það er svo róandi að leita inn á við og hugsa inn á við, –  hugsa vel um okkur sjálf,  næra okkur eins og við værum að næra móður jörð,   með góðri andlegri og líkamlegri næringu.    Og verða þannig breytingin sem við viljum sjá.

Hvað er svo það besta sem ég hef lært?    Frá því að vera ung móðir í Hafnarfirði yfir í að verða eldri móðir og amma í Hornslet?  –   Það er æðruleysið og æðruleysisbænin,  sem hjálpar í öllum tilvikum.    Það er bænin þar sem ég bið Guð að gefa mér æðruleysi – sem er logn í stormi.   Sem er innri friður – þrátt fyrir ytri ófrið.    Það er bænin þar sem ég bið Guð að gefa mér sátt við það sem ég fæ ekki breytt.   Að sætta mig við það sem jafnvel er óásættanlegt,  því að úr sáttinni sprettur hinn nýi vöxtur.    Það er bænin þar sem ég bið Guð um kjark til að breyta því sem ég get breytt.   Hugrekki til að stíga skrefið, jafnvel þó ég sé hrædd – og síðast en ekki síst er það bænin þar sem ég bið Guð að gefa mér vit til að greina á milli –  greina á milli þess að sættast við eitthvað og að breyta því.

Spurning foreldranna:  „Hvað verður um barnið mitt?“  ..  kannski er það mikilvægasta af öllu að gefa því gott atlæti  NÚNA,   styrkja það í að takast sjálft á við heiminn.   Við verðum ekki alltaf til staðar og við erum bara megnug upp að ákveðnu marki.    Barnið verður að fá að mæta heiminum eins og við sjálf fengum,  og ungarnir sem fjúga af stað, og þeir hafa vængi til að fljúga …. og svo er bara að treysta því að allt fari eins og það á að fara.   ❤

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fær ekki breytt.
Kjark til að breyta því sem ég get breytt.
Og visku til að greina þar á milli.
(Reinhold Niebuhr

Þessi pistill er tileinkaður þessum tveimur sem voru í móðurkviði sumarið 1986.  Þessum sem hafa svolítið horfið í skuggann – þegar fókusinn fór á stóru systur sem fór til himna.   Tileinkaður Jóhönnu Völu og Þórarni Ágústi sem eru hugrökku börnin mín.      Þau eru núna að takast á við lífið og hindranir þess.
Ég treysti þeim og ég treysti heiminum fyrir þeim.

409500_4618684218869_1770856038_n

Verði MINN vilji .. eða hvað?

Ég gekk brosandi út úr Bónus á Laugavegi, með skínandi gula poka í skínandi veðri.   Hafði verslað fyrir yfir 12 þúsund krónur,  en ég átti von á saumaklúbbsvinkonunum og ákvað að gera vel.  Keypti auðvitað ýmislegt fleira.    Ég rölti síðan upp Laugaveginn í áttina að íbúðinni þar sem ég bý á meðan ég er í fríinu.   Til mín kom ungur piltur og spurði hvort ég ætti 300 krónur að gefa honum.
Heilinn fór í spuna;   „Hvað ætlaði hann að gera við peningana?“  –  Átti ég að spyrja? –   En svo fattaði ég það.  Mér kom það ekki við.  Það var ekki mitt að ákveða fyrir fullorðinn mann hvað hann ætlaði að gera við 300 krónur.    Kannski var hann að sníkja fyrir bjór og kannski fyrir strætó.  Mér kom það ekki við,  – ég gat bara alveg gefið honum  án þess að setja upp skilyrði fyrir því hvernig hann ætlaði að nota peninginn.
—  (Allt þetta hugsaði ég á 3 sekúndum)
Svo kom að því að ég svaraði  og sagði:  „Ég á ekki 300 krónur en ég á 1000 krónur og þú mátt eiga þær.“   Hann ljómaði og ég rétti honum seðilinn.   Kvaddi og sagði:  „Gangi þér vel – og óskaði þess í einlægni að þessum unga manni farnaðist vel.“ –

Hann kom ekki til mín til að biðja mig um að dæma sig, heldur bara að spyrja hvort ég gæti gefið honum peninga.   Það var mín ákvörðun að gera það.    Ég hafði engan rétt til þsss að ákveða fyrir hann hvað ÉG VILDI að hann gerði við peningana.    Gjöfin var án skilyrða og þannig er ástin líka.

Við viljum svo oft hafa vit fyrir fólki og stjórna hvað aðrir gera.  Við viljum að fólk sé skikkanlegt, sleppi áfengi, vímuefnum, – allri fíkn.   Auðvitað er það vegna þess að við elskum það.    En við verðum að átta okkur á því að við stjórnum ekki lífi annars fólks.  Fólk þarf elsku, væntumþykju, virðingu og fólk þarf að finna að við treystum því fyrir sjálfu sér.  Þannig – mögulega – öðlast það traust á sjálfu sér.

Það er því ekki „Verði MINN vilji“ –  heldur  „Verði Guðs vilji minn vilji“ ..  en Guðs vilji er alltaf það sem er best fyrir okkur. –    Treystum fólki og treysum Guði.

 

 

Allar sálir skipta máli … líka þær ófæddu.

Hefur þú fengið hugarfóstur?  –   og hvað ef þessi hugsun var um barn sem þig langaði að eignast? –    Kannski varð til sál við þessa hugsun,  sál sem varð aldrei að líkama, en var samt barnið þitt?  –     Stundum ná fóstrin lengra og fá líkama – og byrja að þroskast í móðurkviði,  en af einhverjum orsökum nær líkaminn ekki að þroskast eða er veikur og fóstrið deyr.   Sál þess deyr þó ekki.

Til hvers að eiga sálarfóstur – eða sálarbarn ef maður getur ekki notið þess?    Hvers vegna að ganga í gegnum sorgina þegar sálin fær ekki tækifæri til að koma í líkama í þennan heim.     Þessi sál fylgir okkur alltaf –   og verður kennarinn okkar.    Það er það sama um sálir og börn –  þau eru kennararnir okkar.
Í þessu lífi erum við stöðugt að þroskast, – við erum aldrei þau sömu í gær og í dag – og hvað þá á morgun.    Við þróumst og þroskumst.    Sálirnar þroska okkur – og „samskiptin“ við þær.    Þessi þroski getur verið mjög sársaukafullur,  sérstaklega þegar að vonir um barn í líkama  verður að engu.    Það verður fósturlát, ungbarnadauði, barn deyr … á hvaða aldri sem er.    Það verður alltaf þroski  foreldris  að missa barn.    Foreldri syrgir barnið –  jafnvel þó það hafi aðeins verið örlítil sál – eða jafnvel svo langt aftur að vera hugarfóstur.    Það syrgir það sem hefði getað orðið.    Syrgir draum um framtíð með þessu barni.
Stundum tekst foreldrum að hugga sig við að sálin er eilif og þeir finna fyrir barninu sínu – sál þess.    Þau ná jafnvel að þakka fyrir lkamann sem lifi stutt,  því þannig náðu þeir að finna eitthvað áþreifanlegt.
Hvað ef að við værum í fullvissu um að barnið – sálin lifði?    Það er jú talað um eilíft líf –  og huggunartexti útfaranna er „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..
Jesús var hluti af Guði,  sama eðlis.  Hvað ef að börnin okkar eru hluti af okkur?    Sálir sem líkamnast – og sumar sálir sem líkamnast aldrei,  en eru samt börnin okkar.

Hvað ef að allir eiga börn –  en sumir bara „sálarbörn“ .    Sálarbörnin eru ekki þau sem við sjáum,  heldur bara hjálparenglar  sem sitja í aftursætinu þegar við erum í bíltúr – og sem eru hlaupandi um íbúðina /húsið – þegar við höldum að við séum í raun ein?

Er það ekki bara yndisleg tilhugsun?      Að vera mamma eða pabbi hjálparengils?

1a78b30a9b10bb354fd0fcdebadeea8e

Ljóðin mín

Á hverju kvöldi
hlusta ég
á nið öldunnar
í andardrætti mínum ….
Ég og hafið
förum að sofa
og verðum eitt..

JM 2017

Hamingjan hangir úti á þvottasnúru
Hún blaktir í vindinum
og það tekur í fúnar tréklemmur
sem hafa staðið af sér veturinn
Ég anda djúpt og hlusta
á lökin taka undir fuglasönginn
Mikið er gott að vera hér
við þvottasnúrurnar
þar sem hamingjan hangir
JM 2016

Rómantískt hugarflug
Við leiddumst út á gólfið
mér fannst ég reyndar svífa
tónarnir flæddu fram
úr hljóðfærunum
og líka úr hjartanu
við vorum í takt
á allan mögulegan máta
horfðumst í augu
djúpt inn í sálina
ógleymanlegt
og eilíft
Eitthað sem aldrei deyr
er það sem við áttum
í rólegum dansi
sem var okkar
og aðeins okkar
dýrmæt perla
í perlufesti
minninganna
JM 2014

JM 2016  …

Bleikur himinn
minnir mig alltaf á þig
klukkan tifar
lífið gengur
hjarta móður
leyfir sér að finna til
en um leið
að vera til
ástin mín
Eva mín
að eilífu

JM 2013

Að byggja sig upp á fordæmalausum tímum.

Titillinn vísar í það – að í stað þess að „nærast“ enn meira á fréttum af kórónavírus – að snúa vörn í sókn og mennta sig um það sem skiptir mestu máli,  um mannlega þáttinn!

Ég hef áhuga á að vera leiðbeinandinn þinn í að þekkja sjálfa/n  þig svo þú getir t.d. vitað hvað ÞÚ vilt  – en þinn vilji er ekki endilega vilji allra annarra í kringum þig  🙂  ….

Hvað geri ég best – og hvað finnst mér skemmtilegast að gera? –
Því er fljótsvarað:  Það er að kenna og deila því sem ég hef lært með öðrum í því markmiði að bæta heiminn. –

Það var á lokaárinu minu í guðfræði sem ég fór fyrst að heyra um meðvirkni – og mér var bent á að ég væri meðvirk.   Það var prestur sem tók mig í starfsþjálfun sem rétti mér bókina „Aldrei aftur meðvirkni“ – en ég eiginlega bara skildi ekkert í þessu og kannaðist ekkert við mig í þessum pakka –  og lagði bókina á hilluna aftur.   Þetta var árið 2002.
Svo var það árið 2011 að ég skráði mig á námskeið um meðvirkni í Skálholti – og þaðan var ekki aftur snúið,  vissulega frá Skálholti,  en ekki frá vitneskjunni.   Ég þakka endalaust að fá að læra um og skilja hvernig meðvirkni virkar í okkar lífi, hvernig hún er í raun eins og eitur.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar,  meiri lærdómur tekinn inn – og ég hef skrifað marga pistla  um efnið,  sá þekktast e.t.v.  „Meðvirkni er ekki góðmennska“ …

En til að gera laaaanga sögu stutta,  þá ætla ég að bjóða upp á námskeið á netinu – á facebook  í grúppu sem heitir bara NUM  ❤      (Námskeið um meðvirkni – og svo hjarta á eftir – og hjartað skiptir miklu máli – því þegar við erum mjög meðvirk skortir okkur oft þetta  ❤   eða sjálfsástina.

Nýtt námskeið um meðvirkni: Orsakir – afleiðingar – og hvernig við vitum hvenær við erum meðvirk og hvenær bara t.d. góð? –
Er meðvirkni stjórnsemi – eða er hún kannski umhyggja?
Hversu skaðleg er meðvirkni í raun?

Ég mun einnig blanda inn í umræðuna sjálfsstyrkingu og kvíðalosun – og bara allskonar ráðum til betri lífsgæða. 

Mér finnst best að tala inn í tímana eins og þeir eru, þannig að ég læt umhverfið svolítið ráða hvað verður á dagskrá á hverjum degi – tala inn í aðstæður hvern dag.

Námskeiðið byrjar miðvikudag eftir viku kl. 16:00 á íslenskum tíma. (Það er beina útsendingin – en hægt að horfa eftir á).
Það fer fram í fyrirlestrum í lokuðum hópi. Fyrirlestrarnir verða fjórir, 8. apríl – 15. apríl – 22. og 29. apríl.

Verð fyrir þetta námskeið er einungis 1400.- krónur 

Hvort sem þú ert að pæla í eigin meðvirkni eða annarra þá vertu velkomin/n. Alltaf gott að fræðast og maður getur endalaust á sig blómum bætt.

Vinsamlega sendu þátttökuósk á mig hér í skilaboðum eða á netfangið: johanna.magnusdottir@gmail.com

Ég mun, að námskeiði loknu, í lok apríl – bjóða upp á framhald sem verður sett upp á svipaðan hátt og grúppurnar sem ég var með hjá Lausninni, þar sem ca. 10 manns „hittast“ í 90 mín og þar verður gagnvirkt samtal í gegnum zoom fundarbúnað. (Segi nánar frá því í hópnum sem mun byrja).

Deilið gjarnan 

17499540_914738481996934_1047657613236719554_n

 

Höldum dampi – og dveljum í kærleikanum … og gleðinni!

Þegar ég sat við dánarbeð dóttur minnar – á sjálfum jólunum, þá hugsaði ég; hvernig getur fólk verið „þarna úti“ og verið glatt og fagnað þegar heimurinn er að hrynja? –
Það var minn heimur – þá.

Það var hugsun þeirrar stundar,
það er hugsunin sem kemur fram í ljóði Audens – sem vill stöðva allar klukkur heimsins þegar ástvinur deyr. –

‘Stop all the clocks, cut off the telephone’

Stop all the clocks, cut off the telephone, 
Prevent the dog from barking with a juicy bone, 
Silence the pianos and with muffled drum 
Bring out the coffin, let the mourners come. 

Let aeroplanes circle moaning overhead 
Scribbling on the sky the message He Is Dead, 
Put crepe bows round the white necks of the public doves, 
Let the traffic policemen wear black cotton gloves. 

He was my North, my South, my East and West, 
My working week and my Sunday rest, 
My noon, my midnight, my talk, my song; 
I thought that love would last for ever: I was wrong. 

The stars are not wanted now: put out every one; 
Pack up the moon and dismantle the sun; 
Pour away the ocean and sweep up the wood; 
For nothing now can ever come to any good. 

W H Auden


Ég skildi það síðar að þannig virkar heimurinn ekki,  og á alls ekki að gera.

Við sýnum samhygð – en eigum að nýta allar mögulegar stundir til að vera glöð – og njóta á meðan við getum notið.

—–
Ég vil líta á heiminn sem kennslustofu – en eins og við sjálf leyfum börnunum okkar ekki að velja að fara í skóla – heldur er það skylda. Þá er það okkar skylda að sitja í þessum skóla og við fáum ekki að velja okkar námsgreinar.

Hvað er verið að kenna okkur núna? – Það er örugglega margt, en það sem ég vil leggja áherslu á er að sjá það sem vírusinn er að sýna okkur. Það eru engin landamæri. „Imagine there´s no country“ ..

Það eru ekki VIÐ og ÞIÐ – við erum öll í þessu saman. Leiðtogar eru hins vegar ekki að átta sig á því og þjóðernishyggjan birtist í því að kalla „SITT“ fólk heim.

„Já, bara ef að okkar fólk kemst í öndunarvél – þá skítt veri með hina? .. “

Ég hef hugsað margt í gegnum alla þessa vírusumræðu – en við sjáum varla neitt annað núna. Hvarf hungursneiðin? Hurfu allar aðrar plágur og stríð? – Hvar eru krabbameinsveik börn núna?
Vírusinn er grafalvarlegur og harður kennari – en við verðum að átta okkur á því hvað hann er að kenna.

Ég er að starfa við afleysingar á hjúkrunarheimili fyrir aldraðra í Danmörku, þar liggur fólk á tíræðisaldri með buxur fullar af niðurgangi – og segir „fyrirgefðu“ þegar ég, aðstoðarkonan kem til að aðstoða það. „Já, fyrirgefðu að ég gat ekki haldið hægðum.“ – Ég bít á jaxlinn og hugsa: „þetta er alvöru – og þetta krefst styrks“ .. og það er verið að kenna mér auðmýkt – og ég aðstoða með öllum þeim kærleika sem mér er gefinn.

En ég hugsa líka: „Hver eru lífsgæði þessa fólks?“ .. jafnframt; „Myndi ég vilja vera í þessum sporum?“ – svarið er „Nei“ .. Ég ætla ekki að fara lengra í þessa umræðu, en hugurinn hefur hvarflað til þessarar kóróna veiru sem „velur“ hin öldruðu fram yfir hin ungu, þó undantekningar séu þar á.

Þegar ungt fólk deyr – segjum við gjarnan: „Þetta er svo óréttlátt“ og það er það svo sannarlega skv. okkar réttlætiskerfi.

Við eigum að deyja í réttri röð og allir að fá að deyja „saddir lífdaga“ ..

Hvað er kórónuvírusinn að kenna okkur? –

Mér finnst rétt að taka hin ungu framyfir hin eldri ef til kemur að það þurfi  að forgangsraða aðgengi að öndunarvélum. Þannig er okkar menning. Mér finnst ekki rétt að vera svona upptekin af því að kalla „okkar“ fólk heim því kannski er þetta ekkert lengur spurning um „Við og þið“ – heldur að við þurfum að læra að við erum öll íbúar á einum stað sem heitir JÖRÐIN.

Hið góða:

Við erum byrjuð að bregðast við með söng, með tónlist – íbúar standa á svölum og kallast á og hlusta – sem kannski hafa ekkert samband haft. Neyðin færir okkur nær hvert öðru og náunginn fer að skipta máli. Þegar ég greindist með krabbamein í annað skipti – þá hélt ég að ég væri dauðvona, enda komin á 3. stig á þeim skala, en ákvað að útbúa síðu sem hét „Tækifærið“ – Hvaða tækifæri liggja í því að vera greind með krabbamein?

Ný hugsun, nýtt mataræði, nýjar áherslur, njóta – eða eins og Stefán Karl heitinn orðaði það – og fleiri: „Lífið er núna“ –
Kóróna vírus er kennari og krabbamein er kennari. Við förum að hugsa öðruvísi. Hvað skiptir máli og hvað sjáum við? –

Kær æskuvinkona mín  lést úr krabbameini 2008. Hún hafði náð lexíunni áður en hún fór. Við vorum í göngutúr í Kópavoginum – og ég var að horfa á veggjakrot og sóðaskap í undirgöngum þar sem við gengum framhjá og ætlaði að fara að „fussa og sveija“ yfir þeim ófögnuði – þegar hún stöðvar mig með orðunum:

„Jóhanna sjáðu hvað himininn og skýin eru falleg!!“ .. Ég vaknaði, já vaknaði – og áttaði mig á hvar hugur minn var og fókusinn var. Það var hún sem vakti mig og sýndi mér fegurðina sem var allt í kring – en ég sá ekki fyrir ljótleikanum vegna þess að ég valdi að horfa á hann.

Já, við þurfum að vera raunsæ og ekki líta undan yfir því vonda sem er að gerast, en við verðum líka að gæta okkar að sogast ekki öll inn í sjúkraherbergið yfir þeim deyjandi.

Einhverjir verða að halda jól og hafa gaman og gleði – börnin okkar eiga það skilið, þeirra er framtíðin – og JÖRÐIN.

Höldum dampi og gleði – og verum eitt í kærleikanum.

Lífið heldur áfram ..

good

Hvem stjæler dine drømme?

Det er min første blog på dansk, men jeg håber at alle forstår meningen, fordi det er det vigtigste. 🙂
´´´´´´´´´´´´´´
Har du fået ideer og interesse for noget og er begyndt at diskutere det med din venner eller familie og deres første reaktion var …“Av Pas nu på!“…  og deres ord giver dig den fornemmelse at luften gár ud af ballonen, eller som du var „on fire“ men ilden fik en ordentlig spand vand på og blev slukket; eller næsten slukket? 

 

Man skulle tro, at dem som stoppede eller stjal vores drømme, var nogle, som ikke kunne lide os, og det kan selvfølgelig godt være, men her vil jeg skrive noget om dem, som elsker os og måske derfor bekymrer sig om os.   Frygter at vores drømme mislykkes, og vi bliver såret.   Det kan så godt ske at det mislykkes, og at vi bliver såret.   Men hvis vi ikke får lov til at prøve, så bliver det måske aldrig til noget.   Det er også en oplevelse at vores nærmeste ikke tror på os, eller hvad vi kan, og vi har måske kæmpet med vores selvtillid.

 
Det er en kærlighedsgerning når mor stopper sit barn som vil løbe ud på gaden og lyset er rødt.  Der er årsagen for „pas nu på“ kærlighed, fordi det er sikkert farligt, men selvfølgelig er det også fx  morens frygt om at barnet kommer til skade. 

 

Det kan også stamme fra kærlighed, da „barnet“, som måske er blevet 40 år, kommer til sin mor og fortæller, at nu vil den starte sit projekt op, som han /hun har drømt om i mange år.   Han / hun kommer med et smil og passion i hjertet, men så er det første som kommer ud af mors mund: „Pas nu på“ … og det er som ilden og passionen går i stå. 

Har du oplevet det? 

Der er mere frygt end kærlighed i det svar.   Moren er der blevet „drømmetyv“ og „udviklingstyv“,   fordi barnet skal selvfølgelig have lov til at opleve det for sig selv om drømmen virker eller ikke.     Igen:  det sker aldrig hvis vi ikke får lov til at prøve. Det er vigtigt at vide at det er morens frygt om at drømmen ikke virker, og den fører hun over til dig, som har så meget lyst til at lave noget. Det værste er at det kan „smitte“ over til dig, fordi selvfølgelig har du haft bekymringer og indre begrænsninger.  Dem er du vokset op med. Men dem vil du gerne komme over.    Måske har du været inde på en „Jeg kan gøre det“,(I can do it)  kursus og kommer med mod og inspiration fra det.  Hvis det ikke sidder fast nok, så er det „nemt“ for dem som elsker os og vil passe på os at „fjerne“ det. 

 

Nu er det vigtigt at have så megen selvtillid, at din mors stemme ikke bliver din egen.   Den stemme som er bange for dine ideer eller at du kommer videre. Vi er programmeret som børn og det program kan sidde meget fast.   Vi har måske lært at tænke: “jeg er ikke nok“ “jeg kan ikke“,  „hvem er jeg  egentlig .. der er nogle andre som kan nå langt, det bliver aldrig mig.“   ..
Husk at det er ikke en dom over forældre at vide, at det er tit deres stemmer, som stopper os.   Selvfølgelig har de også hjulpet os på mange måder. Det er bare hvordan de selv voksede op og de ved ikke bedre. 

Hvis vi ikke lader frygten for at mislykkes stoppe os, så kan vi gå videre og prøve.  Sådan lærte vi jo at gå. Vi gik og så faldt vi og stod op igen. Jeg havde engang en 25 år gammel pige til samtale, og hun sagde, at hun ville så gerne gå videre i verden, men hun havde det lige som hun var et barn som ville lære at gå, men hendes mor ville ikke slippe hende.  Hun kunne ikke komme videre fordi mor holdt hende tilbage. 

Det kan være din indre stemme som gør det nu, og måske er du moren/faren, eller kæresten som stjæler modet eller drømmene fra den du elsker, har du tænkt på det?.. 

Det er godt at være bevidst om éns egen „selv-tale“ og også hvad man siger til de andre, som man elsker.
Det er vigtigt at være forsigtig,men risikoen er også noget som gør livet mere spændende. En båd er mest sikker bundet i havnen, men det er ikke den rolle en båd har. 

At elske er også en risiko, fordi man kan miste, men man elsker alligevel.

81ed53f7ba224875fe7d4478a3d93872

 

Jeg har skrevet her øverst at det er min første blog på Dansk,  og så har jeg fået moden  (dog jeg hørte mange gang: „pas nu på“ I mit hoved,  at holde en foredrag på dansk.   Det er ikke helt min første,  fordi jeg har holdt en foredrag for mit barnebarns klasse om Island,   den lykkedes så godt at børnene blev meget intresseret i Island og mange ville gerne rejse der og se sig om!

Det er min ønske med min foredrag,  at den påvirker på dig som en inspiration til at gå videre og rejse I din indre verden og at du tør at udvikle og vokse og ingen kan stoppe dig, heller ikke dem som elsker dig (og frygter for dig).

 

Hvis du vil vide mere, eller vil styrke dig I dine meninger så kan du:

Bestille en tid til privat samtale hos mig,  det gør du med at skrive til mig  johanna.magnusdottir@gmail.com    (eller hvis du vil flere oplysninger)

Komme til min foredrag I Hornslet,   19. marts kl. 20:00 -22:00   Tingvej 36,  I Zalinas Kilde

Bestille en tid i Access Bars behandling hos mig,  men Access Bars er et værktøj som jeg bruger til at hjælpe mennesker at komme av med deres gamle program og „rense“ forhindringer og begrænsninger.   (Det minder mest om at delete virus fra komputer!!)
Det bestiller du også med at kontakte mig  johanna.magnusdottir@gmail.com  eller på facebook messenger.

 

Her kan du melde dig til og  bestille/købe  billett til foredrag. På facebook   HER 
På  Billetto   HER
Her kan du læse mere om min Access Bars side.   HER 

 

p.s. Målet er at du er stærk nok til at høre din egen rigtige stemme … og den siger du kan og du er nok!! 😀

971218_563124067057884_436886814_n(1)

 

Valdefling og sjálfstyrking – netnámskeið

Vegna fjarlægðar minnar frá Íslandi get ég (eðlilega) ekki haldið námskeið á Íslandi, en búseta mín er í Danmörku.

Ég hef hins vegar áhuga á að bjóða upp á netnámskeið í valdeflingu (empowerment) og sjálfstyrkingu.   Eins konar  „I can do it“ –  eða „Ég get það“  námskeið.    Námskeiðið mun vara 4  vikur  og kostar 8000.-

Um er að ræða alls konar æfingar –  t.d. til að æfa breytt hugarfar til að skapa sér  betra og jákvæðara líf.    Allt frá jákvæðum staðhæfingum upp í leikfimiæfingar – til að styrkja orkuna.   Það er auðvitað mikilvægt að þetta sé skemmtilegt.   Eina sem fólk þarf að hafa er netsamband og facebook 🙂

Lágmarksfjöldi þátttakenda er 8 manns. 

Það sem verður í boði:

Átta fyrirlestrar lagðir inn  – (tveir í hverri viku)   þar geta þátttakendur sett inn spurningar á eftir og ég svara þeim.   Allar spurningar og svör eru birt öðrum þátttakendum.     Þáttakendur geta einnig sent mér persónulegar spurningar,  en ég mun þá birta svörin við þeim fyrir alla, en þá kemur ekki fram hver spyr.

Einnig mun ég leggja upp með spurningar til hópsins – og mynda þannig þráð.

Ítarefni sem reynist gagnlegt til uppbyggingar og sjálfstyrkingar verður einnig í boði.  Þetta efni er frá fólki sem ég hef lært af,  en þeir fyrirlestrar eru undantekningalítið á ensku.

Það verður margt, margt annað í boði – í hópnum,  en það verður betur kynnt innan hópsins.   Þetta fer allt fram í facebook hópi  sem kallast:   Valdefling20201 – og hópurinn verður lokaður og farið er fram á trúnað.

Uppfært  12. febrúar 2012:

Vegna fjölda áskorana mun ég fara af stað með hópinn hér í Valdeflingu /sjálfstyrkingu þegar ég hef náð lágmarksþátttöku sem eru ca. 8 manns. Ég mun verða með beina útsendingu í ca. 30 – 40 mínútur í senn. Það verður þó hægt að horfa á fyrirlesturinn ef þið missið af.

Ég verð með 2 fyrirlestra í viku – á mánudögum og fimmtudögum kl. 17:30 (get breytt tíma ef það passar meirihluta illa).   Verðið er 8000.-   krónur á þátttakanda

Þetta verða 8 fyrirlestrar yfir 4 vikur – sem endar ávallt með stuttri hugleiðslu/slökun.

Drög að dagskrá

1. Kynning

2. „Hver er ég“? fyrirlestur um það hver við í raun og veru erum.

3. Markmið og hindranir – Innri /Ytri

4. Valdefling – hugrekki.

5. Ábyrgð – Áhætta – Ákvörðun – Ástundun .. Áin fjögur ..

6. Þakklæti – gleði

7. Samvinna – samskipti

8. Samantekt

Nánari upplýsingar  og/eða skráning er hjá johanna.magnusdottir@gmail.com

 

Hvernig get ég hlakkað til jólanna?

Ég talaði einu sinni við mann sem sagði að hann hlakkaði aldrei til jólanna.  Eiginlega bara kveið þeim.  Ég spurði hvers vegna það væri   og þá átti hann sínar ástæður;  jú,  ein sú stærsta var að vinur hans hafði látist um jólin þegar þeir voru ungir menn.
Ég hefði getað sagt það sama,  þ.e.a.s. að ég hlakkaði ekki til jólanna – og mín ástæða væri af svipuðum toga, – að dóttir mín hefði veikst fyrir jól og ég hefði varið jólunum á gjörgæsludeild hjá henni og hún síðan látist.   Ég hef kallað þessi jól, sem voru árið 2012, „Ekki jólin“  eða jólin sem komu ekki. –

Margir kvíða jólum vegna minninga frá bernsku þegar mamma og/eða pabbi urðu ofurölvi um jólin.   Jólunum fylgdu vandamál.

En er það ekki synd að taka „gömlu“ jólin með inn í nýju jólin? –   Hvers vegna að yfirfæra tilfinningar sem voru einu sinni yfir á hið nýja? –   Kannski getum við ekki annað?

Maðurinn sem ég talaði um í upphafi hafði aldrei rætt þessa sorg yfir dauða vinar síns.  Hann hafði bælt hana með sér,  en hún var þarna – og kom fram um hver jól.    Hann forðaðist sorgina og fékk sér vel neðan í því um jólin.   Þannig skapaði hann kannski kvíðafull jól fyrir sín börn? –    „Hvernig verður pabbi um jólin?“ ..

Ég fylltist í raun þakklæti fyrir hönd þessa manns, að hafa loksins úttalað sig um sorgina –  og útskýrði fyrir honum að það að viðurkenna ekki vanliðan sína – og bæla hana,  væri kannski orsökin fyrir því að hann bæri þennan kvíða fyrir jólunum.   Það er SVO mikilvægt að  finna til.  Leyfa sér að gráta og syrgja og ganga í gegnum sorgina, en ekki bæla hana,  því hún mun minna á sig ef hún er ekki virt.

Tímamót og tilfinningar – er eins og hestur og kerra.  Fylgjast að.    Tilfinningar spretta fram á afmælisdögum,  dánardögum,  áramótum – jólum o.s.frv. –    Það er vegna þess að þessa tíma tengjum við upplifunum með fjölskyldu og/eða nánum vinum.  –

Það er allt í lagi að hafa ekki alltaf allt eins.  –

Hvort sem það eru jól eða hversdagur,  þá er mikilvægast að vera „sjálfum/sjálfri sér nærri“   ef ég má orða það þannig.   Eiga innri frið og sátt við sjálfan sig.
Dótturdóttir mín spyr mig stundum hvort ég sé ekki einmana,   því ég er mikið ein,  – en ónei –  ég segi henni frá því að mér líði vel með sjálfri mér – og auðvitað meina ég það.   Það þýðir ekki að mér þyki ekki einlæglega gaman og vænt um að vera með henni og öðrum fjölskyldumeðlimum og vinum,  – en mér þykir það auðvitað enn betra þegar mér líður vel í mér. –
Þessi dótturdóttir mín missti mömmu sína þegar hún var aðeins þriggja ára gömul.  – Ég var með henni nokkrum vikum síðar úti að ganga,  – og hún tók fast í höndina á mér þegar við vorum að fara yfir götu og sagði: „Amma passaðu þig á bílunum – svo þeir keyri ekki á þig og þú verðir engill eins og mamma mín.“ –   Elsku barnið og elsku hjartað mitt, sem var að springa.

Þessi dótturdóttir mín og öll börn eiga skilið að upplifa gleðileg jól.   Og öll erum við börn í hjarta.   Við eigum skilið að hlakka til jólanna.    Við getum gert það á okkar eigin hátt.   Með því að hafa það markmið að eiga sátt og frið í hjarta.   Við þurfum ekkert að hafa jólin eins og aðrir – eða eins og  einhverjir „þarna úti“ segja okkur að hafa þau.   Heldur gera þau OKKAR.     Gera það besta úr því sem við höfum,  og muna að jólin eru ný.

Ég trúi því að stelpan mín sé engill – eins og dóttir hennar kallaði hana – og sé í raun með okkur á jólunum.   Vinurinn sem maðurinn missti er líka engill – og allir sem farnir eru á undan okkur.    Amma, afi, frænka, frændi, pabbi, mamma, sonur, dóttir  …

Það er gott að kveikja á kerti  fyrir og um jólin – setjast niður og hugsa um þessa engla og láta þá vita að við eigum þau ALLTAF  í hjartanu og  við þökkum fyrir að hafa fengið að elska þau.

Þegar börnin mín voru lítil söng ég fyrir þau:  Nóttin var sú ágæt ein,  eftir Einar Sigurðsson frá Heydölum.   Þar er lína sem hittir mig alltaf í hjartastað:  „Friður á jörðu og fengin sátt“ –    það er þessi sátt við núið og allt sem er,  sem gefur mér frið og gefur þessa opnun á að ég get hlakkað til!
(Hér fyrir neðan er mynd af þessum þremur grallaraspóum 🙂 )

Ég leita að ástæðum til að hlakka til jólanna  (en ekki fyrir að kvíða þeim)...   og þegar jól fyrir mér eru skilgreind sem „Friður og sátt í hjarta“ –   þá er auðvelt að hlakka til.    

Ég óska öllum friðar og sáttar –  á aðventu,  á jólum og á öllum tímum.   ❤

165066_1676887475803_6312771_n.jpg