Ekki gefast upp á hinum sorgmæddu…

Sorg fylgir sársauki.  Sársauki sem þarf að finna sér farveg – og auðvitað er best ef að fólk getur grátið og tárin hreinsa sorgina.     En jafnvel þó við grátum, þá verður sársaukinn eftir, engin tár ná að hreinsa ….  sársaukinn situr eftir.
Hjartað er sem flakandi sár og fólk í sorg – fullt af sársauka, er viðkvæmt.  Það er viðkvæmt fyrir umhverfinu,  þráðurinn styttist og það er viðkvæmt fyrir vinunum.
„Þessi hringir ekki“ ..    „Af hverju kemur enginn í heimsókn?“ …   einhver sagði eitthvað MJÖG óviðeigandi. –     Allt sem aðrir gera, eða gera ekki,  verður einhvern veginn áhrifameira,  vegna þess að sjálfið er viðkvæmt.
Þetta getur orðið til þess að hin sorgmæddu verða reið –  sorgin og sársaukinn fær ekki bara útrás í tárum, heldur orðum.  Segir eitthvað  leiðinlegt eða særandi (á móti) við vinina sem verður jafnvel til þess að vinir fara og bara gefast upp á syrgjandanum.
„Hann var bara dónalegur!!!“  ..
Þetta líf getur verið  svo flókið – við verðum jafnvel þeim verst, sem við unnum mest.
Þá er málið að gefast ekki upp á syrgjandanum.
Hvers þörfnumst við – alltaf?   Við þörfnumst alltaf ástar – kærleika – umhyggju – skilnings – hlustunar  o.s.frv.

Til syrgjandans:   Vinir þínir eru ekki sérfræðingar í sorg og samskiptum.  Þeir finna kannski til með þér – en þeir vita ekki hvernig þeir eiga að vera, hvað þeir eiga að segja.   Þeir vilja vel – en eru vankunnandi.    Ekki dæma þá of hart.  ELSKUM

Til aðstandanda/vinar þess sem er í sorg:    Veitum vinum okkar og vinkonum í sorg athygli, – verum í sambandi, komum í heimsókn,  látum hann/hana vita að þau eru ekki ein.   Ekki dæma of hart.   ELSKUM.

Ég trúi að allir séu að gera SITT besta miðað við uppeldi og aðstæður sem þau búa við og kunnáttu í mannlegum samskiptum.    Mætum því fólki með mildi og í stað þess að dæma það,  þá mæta í auðmýkt og spyrja:  „Hvað get ég gert fyrir þig?“   „Mér þykir vænt um þig“ ..  o.s.frv.

 

be kind

Ert þú vandamál?

Einu sinni spurði ég ungan dreng sem ég var með í viðtali hvort hann upplifði sig sem „vandamál“ og hann andvarpaði um leið og hann svaraði:  „Já .. ég er vandamálið í fjölskyldunni“ ..      Ég fékk hreinlega þyngsli fyrir hjartað við svarið, en um leið ákveðinn skilning á vanlíðan hans.
Þegar þú upplifir að þú sért vandamálið – er það samofið sjálfsmyndinni.  Það er munur á að vera og skapa eða gera.        Það er eins og munurinn á að segja  „ÉG er lygari“  eða „Ég laug“ ..   Það er munurinn á að gera og vera og það er líka munurinn á skömm og sektarkennd.
Þegar við upplifum skömm – skömmumst við okkar fyrir það sem við ERUM.  En þegar við upplifum sektarkennd – skömmumst við okkur fyrir það sem við GERUM.   Það er „skárra“ og í raun miklu betra – því til þess að breyta því þurfum við bara að hætta að gera –  en það er erfiðara að hætta að „VERA“ ..     Það þarf að slíta á milli tengingarinnar á því sem við gerum og því sem við erum.
Sjálfsmyndin okkar á að vera óháð titlum,  árangri í starfi/skóla,  eignum,  fjölksyldu o.s.frv.      Við erum EKKI það sem við gerum.    Hvort sem það er eitthvað gott eða vont.

Hvers vegna er mikilvægt að tengja þetta ekki? –    Vegna þess að ef við hengjum okkur of mikið t.d. við árangur í námi eða starfi, en gengur ekki vel eða missum starfið –  þá er eins og það myndist eitthvað tóm innra með okkur því að við vorum búin að fylla okkur af þeirri hugmynd að við værum það sem við gerðum.
Ef við trúum að það slæma sem við gerum  – höfum stolið – logið .. eða hvað sem það er sem veldur okkur skömm.   Þá erum við í raun skömmin – og líður ekki vel með sjálfum okkur.   Við reynum að flýja okkur  með alls konar fíknihegðun.    Þannig myndast vítahringur skammar.
Sá sem er vandamál – eða álítur sig vandamál hefur engan fastan stað til að spyrna frá, – skömminn er eins og kviksyndi.  –
Ef þú ert að drekka áfengi – til að losna við tilfinningar skammar,  en skammast þín síðan fyrir að drekka – þá ertu í vítahring skammar.    Þú ERT alkóhólisti – þú segir það og samfélagið viðurkennir það sem hluta þinnar sjálfsmyndar.    Ég vil ekki tengja þetta svona.  Fólk er með óþol fyrir áfengi,  það ræður ekki við áfengi.  Það er bara manneskjur.
Ég fékk krabbamein,  en ég hef aldrei sagt:  „Ég er krabbameinssjúklingur“  því það er bara ekki hluti af minni sjálfsmynd.     Við höfum lært að segja  „Hann er með fötlun“ – en ekki „Hann er fatlaður“ ..      Ég trúi að þetta skipti máli.

Þetta skipti máli fyrir þennan unga pilt sem ég minntist á í upphafi – að hann kæmist áfram í lífinu – en það getur verið á brattann að sækja þegar hann trúir að hann sé VANDAMÁL.      Hvað með að losa fjölskylduna við þetta vandamál?    Gæti hann ekki farið að hugsa svoleiðis.

Orðræðan skiptir máli – og ég held að með að minnka þessa tengingu við gjörðir og sjálfsmynd geti hjálpað okkur til að líða betur og þá að sækja í bataleiðir.

Það ER engin/n vandamál.    Við erum bara manneskjur – sálir eða perlur sem höfum lent í hlutum – eða framkvæmt eitthvað sem gerir okkur erfiðara fyrir með að skína.    Við erum ljós – en ekki vandamál og það verður svo miklu auðveldara að komast aftur inn á „rétta braut“  ef við upplifum ljósið okkar og það er ekkert sem skyggir á það.

Tölum um það sem við höfum gert – eða hefur verið gert á hluta okkar  og við upplifum sem hluta af neikvæðri sjálfsmynd okkar eða jafnvel sem skömm okkar.  Við þurfum að fjarlægja það með því að viðurkenna það,   en um leið mæta sjálfum okkur með mildi – því við sjálf erum aldrei „Skömm“ eða „Vandamál“ ..   heldur eins og ég skrifaði hér áðan:  „ljós“ .. og við má bæta  „elska“ ..  We are LOVE and LIGHT ..

skömm

 

 

Taktu álagið af þér ..

Erum við undir álögum samfélags?   Álög í fleirtölu, álag í eintölu! –  Margir kvarta undan álagi og þá er gott að skoða rætur þessa álags og þessara álaga. –

Við höfum allskonar væntingar til okkar sjálfra:  Við ÞURFUM  að gera þetta og við VERÐUM  að vera þarna og vera hinssegin og svona.    Að þurf að verða veldur álagi.

Þessi álög eru í raun lögð á okkur í bernsku að þurfa og verða – að þurfa að GERA alls konar hluti,  vegna þess að einhvers staðar urðu þau gölluðu  gildi til í samfélaginu til að það að GERA eitthvað  yki verðmæti okkar og gerði okkur gildandi manneskjur.

Okkur er innprentað að við séum „Human doings“  í stað „Human beings“  eða  við séum Manngerur í stað þess að vera Mannverur.

Við fæðumst skilyrðislaust verðmæt og erum gildandi manneskjur „No matter what“ – eða sama hvað syngur. –

Þegar við losnum undan álaginu að ÞURFA og VERÐA ..   þá frelsum við okkur sjálf úr álögum sem samfélagið setti á okkur.    Þá fer okkur frekar að LANGA og VILJA og það er bara svo miklu skemmtilegra að starfa og lifa á þeim forsendum. –

Eitt af því neikvæðasta orði sem við höfum yfir manneskju (okkur sjálf líka)  er orðið LETI.   Að vera latur er yfirleitt litið neikvæðum orðum.  Að vera latur = að vera ekki að gera neitt.     Hvernig líður okkur þegar við erum „löt“ – jú kannski fáum við samviskubit af því að vera ekki „dugleg“  eða að vera ekki að taka til, setja í þvottavél, eða eitthvað sem maður „Á“ að vera að gera.  (Held að þarna sé komið Á-ið í Álag).   Það er nefnilega hollt að vera löt og losna undan pressunni að vera að gera eitthvað.   Við þurfum líka að muna það að það að vera að gera eitthvað gerir okkur ekki merkilegri eða dýrmætari en aðrar manneskjur.  –

Það sem er skemmtilegast við það að leyfa sér leti og enga pressu,  er að þá er maður að setja í hlutlausa gírinn – og svo bara þegar maður er tilbúinn þá er skipt yfir í 1. gír og fyrr en varir ertu komin/n í  3. 4. 5. eða hversu hátt sem það nær –  en vegna þess að manni langar –  en ekki vegna þess að maður  „þarf“ ..

Það eru mörg verkefni sem krefjast þess að vera leyst af hendi og í raun „þarf“ að vinna því þau vinna sig ekki sjálf, –  en við getum breytt okkar hugarfari gagnvart þessum verkefnum.    „Mig langar að raða fötunum í fataskápnum því þá er betra að finna þau.“  „Mig langar að vaska upp,  því þá á ég hreina diska næst þegar ég borða.“   „Mig langar að fara út að ganga því ég veit hvað mér líður vel í fríska loftinu“  –

Ef maður finnur réttu forsendurnar þá verður allt léttara –  og maður bara „þarf“ ekki neitt!  ..

Sorgin er viðkvæm eins og ungabarnið ..

Ég rifjaði upp það sem ég skrifaði á Facebook 8. nóvember 2013 – en það var m.a. þetta (örlítið breytt):

„Aldur barns er talinn í mánuðum fyrsta árið, – og tíminn sem liðinn er frá andláti náins ástvinar er talinn í mánuðum.
Tíu mánaða gamalt barn er afskaplega ungt og viðkvæmt, og tíu mánaða sorg er afskaplega ung sorg – og viðkvæm.   Þá er mikilvægt að sorgin/barnið – eigi góða að sem bera það og vernda og sýna umhyggju.   
Það er stundum freistandi að missa fókusinn á ljósið og grúfa sig undir sæng, og stundum minnist ég orða spekingsins sem sagði, að þegar við værum að gera gott, kæmi stundum „hið illa“ og reyndi að bregða fyrir okkur fæti. – Ég held þó að „hið illa“ þoli ekki svo vel ljósið og verði eins og skessurnar og tröllin, að steini við geislana. –
Þess vegna er enn mikilvægara að halda fókus, stilla á rétta bylgjulengd og velja gleði og jákvæðni. –
 
Að vera sterk, er það eina sem er í boði, hafandi það í huga að berskjöldun og viðkvæmni  (vulnerability)  er líka styrkleiki. Að játa það að geta ekki allt, og að finna til, vera særð og aum, en halda samt áfram.
 
Ég þakka tóna lífsins, þakka fyrir andardráttinn, þakka fyrir kyrrðina og núið, því það er allt sem er.“
Við umgöngumst þessa sorg eins og við umgöngumst ungabarnið,  með kærleika og mildi,  en stöðvum ekki þroska þess með því að ofvernda það eða hlífa við því sem það þarf að læra.

„Gott að vita að ég er ekki ein/n“

Ég ætla að skrifa aðeins um öðruvísi einmanaleika.  Ekki einmanaleika þar sem fólk býr eitt og hittir kannski ekki mikið annað fólk, heldur þann einmanaleika sem fólk upplifir að vera öðruvísi, eiga við vanda að glíma,  finna verki – eða upplifa sorg – nú eða skömm,  sem það telur að engin/n annar eða önnur í heiminum skilji eða hafi upplifað.

Mörgum líður eins og „aliens“ eða geimverum í mannaheimum,  finnst þeir ekki tilheyra neinum ákveðnum hópi eða ná ekki að tengjast.   Þeir verða „útundan“ og þannig einmana.

Það sem gerist þegar fólk mætir í meðferðarhópa – eða t.d. í Anonymus hópa, dæmi AA, Coda, Alanon, OA  o.s.frv.  þá fer fólk sem kannski nær ekki að tjá sig um vanlíðan sína – að heyra aðra tjá sig um nákvæmlega eða mjög nálægt því sem það sjálft er að upplifa.  Það er kannski einhver sem segir frá því sem hann/hún hefur alla tíð skammast sín fyrir og það kemur andvarp frá einhverjum í hópnum og uppgötvunin er þessi:  „Úff, ég er ekki ein/n“.

Það eru margir „þarna úti“ sem trúa því að nákvæmlega engin/n viti hvað þeir eru að ganga í gegnum,  en við erum bara allt of mörg í þessum heimi til að vera svo svakalega einstök að engin/n hafi upplifað það líka, eða eitthva mjög, mjög líkt.

Þetta – og svo margt annað hef ég lært í gegnum lífið – að við erum í raun öll í þessu – og það er svo miklu léttara þegar við áttum okkur á því að við erum í raun ekki ein.

Það er svo mikilvægt að rétta út höndina,  eða opna munninn og ÞORA að segja,  „ég þarf hjálp“ –  eða „ég þarf „þig“ ..    Mér finnst sjálfri gott að biðja Guð í auðmýkt og Guð er svo sannarlega í náunga okkar og umhverfi, og við mætum Guði á hverjum degi í góðu fólki.

Ég held það sé erfitt að hafa ekki trú – hvort sem það er það sem við köllum Guð eða æðri mátt – eða bara eitthvað alehimsafl sem við trúum að hafi mátt.  Einmitt þann mátt að skilja hvernig okkur líður og hver við erum.   Þessi trú kemur fram í laginu „Nobody know the trouble I´ve seen, nobody knows but Jesus.“      Bara það þó a.m,k. Jesús hafi skilning er samt „uppstig“ úr einmanaleika og einangrun.

En alveg eins og Guð – þá birtist Jesús í  fólkinu í kringum okkur.   Hvort sem við trúum á Guð eða Jesú.     Bænin gæti þá verið:

„Já takk – ég þarf skilning, umhyggju og kærleika og ég tek á móti með þakklæti.“
Opnaðu faðminn –  bankaðu á dyrnar og heimurinn opnast.    En við þurfum að taka hendur úr skauti og banka til að einhver heyri.    Við bönkum með bæninni.

En trúðu mér –  Þú ert ekki ein/n.    ❤

61dkJrbCT-L._SS500_
Ég minni á fyrirlestur 14. nóvember kl. 19:30 í Þjóðarbókhlöðunni.  Hægt að skrá sig ef smellt er  HÉR

 

„Hvernig var dagurinn þinn?“ ..

74299280_3286650224710601_3645792665770917888_n

Ég horfði nýlega á breskan þátt þar sem talað var um einmanaleika sem faraldur.  –  Ég held að í raun sé það að hluta til hvers vegna við „höngum“ svona mikið á facebook, því facebook er samfélag og við ræðum þar saman – skoðum hvað hin eru að gera.  Það er einhver tenging, en örugglega ekki nóg tenging.
Þegar við fyrrverandi eiginmaður minn og barnsfaðir skildum árið 2003,  hafði elsta dóttir mín áhyggjur af því að ég yrði einmana.    Ég sagði henni að það sem ég saknaði mest væri að hafa einhvern til að drekka kaffibollann með á morgnana.   Auðvitað fylgir því meira en bara að drekka kaffið,  það er spjallið og pælingarnar.    Yngri dóttir mín flutti til mín í sumar og við skiptumst á að útbúa te fyrir hvor aðra á kvöldin.  „Viltu te?“ er spurning sem tengir og við vorum í raun að þjóna hinni til skiptis.   Það var auðvitað fleira, líka kaffið á morgnana,  en iðulega var það hún sem hellti upp á og ég vaknaði við kaffiilm.  Það er þessi tilfinning að það sé einhver til staðar.   Ég upplifi þetta líka í sumarhúsinu með systur minni og fleiri stöðum.
Þessi setning „Hvernig var þinn dagur?“  felur svo margt í sér.  Það er einhver sem hefur áhuga á þér og því sem þú varst að gera.     Þetta er bara svona almennt .. getur verið hvers konar vina-eða fjölskyldusamband,  og svo kemur smá „bónus“ í parasambandi – en þá er það auðvitað koddahjalið og hin nána snerting.   Andleg og líkamleg snerting kannski?   Að finna að maður er elskaður og elska – og að langa til að snerta og vera snert.
Það er engin örvænting í því  –  það er eðlilegt.   En ég veit ekki með ykkur, en mér finnst svo aftur á móti mjög gott að vera með sjálfri mér og vera ein,  og stundum verður „of mikið af hinu góða“ ..  og fólk þarf rými – og finnst jafnvel betra að vera eitt.   Þarna þarf bara að koma inn eitthvað jafnvægi.
Annað sem þarf að taka fram er að þó fólk sé í sama rými – að ef það upplifir tómlæti þeirra sem eru þar þá verður einmanaleiki jafnvel enn meira yfirþyrmandi en ef það væri í raun eitt.  –    Ég hef rætt við margt fólk sem upplifir andlega fjarveru makans og fálæti.    Það er ekkert endilega spurt: „Hvernig var þinn dagur?“  og áhugaleysið jafnvel algjört.     Sá/sú sem ekki hefur áhuga –  honum/henni líður kannski ekkert voða vel?  –   Það má skoða það í allskonar ljósi.

Ég hef ekki lausn á einmanaleikafaraldrinum,  en kannski megum við vera forvitnari um náungann og sýna honum áhuga.  Að hann upplifi að hann skipti máli?  –   Sama hvort við búum saman  eða ekki.

Við erum misjafnrar gerðar – sum þurfa meira samneyti og sum minna, –  en ég held að fæst okkar séu þeirrar gerðar að vilja vera án ástar og tengingar við annað fólk.
Það er eitthvað í mannlegu eðli – við erum víruð fyrir elsku og tengingu – það að tilheyra öðrum,  einstaklingum eða samfélagi.    Að tilheyra ekki – gerir okkur einmana og útundan.    Þess vegna getum við glaðst yfir skrítnum hlutum,  eins og að hitta manneskju sem er að glíma við sama vanda og við sjálf,  eða hefur svipaðar hugsanir.  Þá kemur þessi setning:   „Ég er ekki ein“  .. „Ég er ekki einn“ ..   og um leið og við finnum þá tilfinningu þá kemur léttir.

Þú ert ekki einn – Þú ert ekki ein  …

Ég nota hér þessa síðu mína til að auglýsa fyrirlestur sem ég er með í Þjóðarbókhlöðunni 14. nóvember 2019 kl. 19:30  og hægt að sjá nánari auglýsingu á Facebook.   Ég ætla að tala um ýmislegt sem tengir okkur og lætur okkur líða vel .. með öðrum og okkur sjálfum!    Ég hef áhuga á að sjá þig 😉 …  og vera heyrð (auðvitað) og segi eins og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir heitin,  ég vil ekki hafa völd, en vil gjarnan hafa áhrif.

Ég hef áhuga á fólki og ég hef áhuga á þér.

Smellið HÉR til að lesa meira um fyrirlesturinn:

Vitundarvakning um brjóstakrabbamein – „Ég pissaði í buxurnar – góða skemmtun“

Ég hef ekki fengið brjóstakrabbamein,  en ég er með krabbamein sem heitir melanoma eða sortuæxli.  Fyrst greindist ég 2008 og svo kom það fram í eitlum 2014 og ég fór í aðgerð og geislameðferð, er laus við meinið – en enn undir eftirliti.
Árið 2008 missti ég bestu vinkonu mína úr brjóstakrabbameini og í vor dó mágkona mín  úr brjóstakrabbameini.

Nú er í gangi „samkvæmis“ – leikur á Facebook,  þar sem talað er um að markmiðið sé vitundarvakning um brjóstakrabbamein árið 2019.
Fólk setur einhvern mis – trúverðugan status á Facebook (nokkra sem ég féll fyrir – eins og „Ég mun koma fram í næsta þætti af Landanum“ – eða „Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni“ )  Þetta gæti bara alveg verið og alveg trúverðugt og margir hafa eflaust samglaðst eins og ég gerði.    Aðrir statusar voru ótrúverðugri: „Það er íkorni í bílnum mínum!“  „Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn“ ..  og svo þessi:  „Ég pissaði í buxurnar“..
Það var örugglega mörgum skemmt – í þessum samkvæmisleik, en mér finnst þessi aðferðafræði slæm – til að vekja fólk til vitundar um brjóstakrabbamein. –
Þó einhverjum – og kannski mörgum sé skemmt,  þá tel ég líka að þetta hafi særandi áhrif.   Ég las pistil frá bandarískri konu sem er á 4. stigi (lokastigi) þar sem hún ræðir um þessa leiki á facebook og segir sér ekki skemmt.

Textinn sem fólk fékk sem „varð það á“ að samgleðjast þeim sem vann 20 þús kallinn, eða setti athugasemd við að einhver hefði pissað á sig er eftirfarandi – og þar sjáið þið líka möguleikana.

„Nú verður þú að velja eitt af neðantöldu og setja sem status hjá þér. Þessi leikur snýst um meðvitund um brjóstakrabbamein árið 2019. Ekki skemma leikinn. Veldu eina setningu og settu sem status hjá þér.
1. Það er íkorni í bílnum mínum!
2. Ég notaði börnin mín sem afsökun til að sleppa við hraðasekt.
3. Hvernig losnar maður við fótasvepp?
4. Allir brjóstahaldarnir mínir eru týndir!
5. Ég held að ég hafi óvart tekið bónorði á netinu?!
6. Ég hef ákveðið að hætta að ganga í undirfötum.
7. Það er staðfest að ég er að verða mamma/pabbi.
8. Ég var að vinna tækifæri til að mæta í áheyrnarprufu í Jólastjörnur Bjögga!
9. Ég mun koma fram í næsta þætti af „Landanum“.
10. Ég er að fara fá apa!
11. Ég pissaði í buxurnar!
12. Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn!
13. Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni!
14. Við flytjum til Vermont í lok árs!
Settu setninguna sem þú valdir í status hjá þér án útskýringa. Afsakaðu, ég féll líka fyrir þessu. Hlakka til að sjá statusinn þinn (ekki ljóstra upp um leyndarmálið). Og mundu að allt snýst þetta um vitundarvakningu um brjóstakrabbamein árið 2019. Góða skemmtun!“

„Afsakaðu ég féll líka fyrir þessu“ ..stendur þarna.    Já – fólk er platað og það fellur í gryfju – og ofan í gryfjunni á það að verða svakalega meðvitað og vakandi um brjóstakrabbamein???
Mig vantar greinilega bæði greind og húmor til að fatta tenginguna.

Ég held reyndar að það þurfi ekki leik til að vekja okkur til meðvitundar um brjóstakrabbamein eða annað krabbamein.  Við eigum flest – nær undantekningalaust – vini eða fjölskyldumeðlimi sem hafa greinst ef ekki við sjálf.

Það væri forvitnilegt að heyra frá fólki hvernig þessi „skemmtun“  jók meðvitund þeirra um brjóstakrabbamein og hvað fólkið gerði annað en að skrifa eitthvað fyndið á facebook í framhaldinu? –

Ég tek það fram hér í lokin að ég er í góðu skapi  þó mér sé ekki skemmt við þennan aprílsgabbsleik í október.   Markmið þessa pistils er að vera vitundarvakning  um það sem fólk er að taka þátt í á facebook og hvort það sé raunverulega til góðs, eða bara til að taka þátt í „leiknum“ ..  


personal-freedom