Að lifa af heilu hjarta – hvað er það?

Að lifa af heilu hjarta

Dr. Brené Brown er ein af þeim sem ég hlusta mikið á.   Hún er m.a. höfundur bókarinnar

“The Gifts of Imperfection: Let Go of Who You Think You’re Supposed to Be; Embrace Who You Are.”

Brené talar um ótta okkar við að vera ekki nógu góð, ekki nógu fylltu-inn-í eyðuna -___________  (mjó, rík, áhugaverð, skemmtileg, gáfuð).   Til þess að geta verið í djúpum og  einlægum samskiptum við aðra, verðum við að leyfa öðrum að sjá hver við erum en ekki vera í hlutverkum eða með grímu.

Rannsóknir Brené leiða m.a. í ljós að til þess að hafa þessa dýpt í samskiptum og í samböndum,  verðum við að trúa að við séum virði þess að vera elskuð,  virði þess að tilheyra öðrum.

Fólkið sem trúir að það sé elsku vert og það að tilheyra NÚNA, án skilyrða eða forsenda,  ekki eftir eftir einhvern x tíma eða eftir að það verður nógu _______ (mjótt, ríkt, áhugavert, skemmtilegt, gáfað o.s.frv.)  Það er fólkið sem hún kallar fólkið sem lifir af heilu hjarta.

Fólk sem lifir af heilu hjarta:

– Upplifir djúpa tilfinningu fyrir innra verðmæti

– Er nógu hugrakkt til að vera ófullkomið og hvorki felur galla sína né flýr þá.

– Hefur samhygð með sjálfu sér til að vera gott við sjálft sig fyrst (súrefnisgríman á sjálfan sig fyrst til að hjálpa barni).

– Upplifir dýpt í tengslum við aðra sem kemur með því að sleppa tökum á því sem það heldur að það EIGI að vera, svo það geti verið það sem það er.

– Sættir sig við berskjöldunina.  Það sem gerir þau berskjölduð gerir þau aðlaðandi.

–  Er tilbúið að segja „Ég elska þig“ fyrst eða reyna sig í sambandi sem gæti jafnvel ekki gengið,  að gera hluti án öryggisnets.

Kjarninn í boðskap Brene:  Til að tengjast,  verðum við að taka áhættu. Við verðum að vilja berskjalda okkur og hafa hugrekki og samhygð með sjálfum okkur  til að trúa að við séum NÓG,  að við séum verðmæt,  að við tilheyrum,  og síðan getum við gefið til annarra. 

Þegar bikar okkar er barmafullur,  höfum við af nógu að gefa.

Að elska án væntinga um endurgreiðslu …

Louise Hay er kona komin hátt á níræðisaldur og sem hefur lifað tímana tvenna.  Hún gekk í gegnum mikla erfiðleika sem barn og unglingur,  og einnig á fullorðinsaldri en hefur ákveðið að snúa viðhorfi sínu til lífsins upp í jákvæðni.

Ég hlusta oft á hana þegar ég vil ýta undir jákvæðni mína og vellíðan,  því eitt af því sem Louise Hay segir er að ef að við erum alltaf að spyrja „Þykir þér vænt um mig?“ – „Elskarðu mig?“ og svo framvegis séum við „Co-dependent“ eða meðvirk.   Við erum háð því að aðrir elski okkur og þyki vænt um okkur og það sé líka táknrænt fyrir óöryggi að þurfa að spyrja.

Það ætti víst að vera þannig að ef við sjálf erum fullkomlega örugg í eigin skinni,  hvort sem við erum börn eða fullorðin,  þurfum við ekki að spyrja um samþykki hinna á okkur eða elsku.   Við eigum líka að geta greint það með viðmóti og eflaust gerum við það flest.

Margir muna eftir parinu sem birtist í Mogganum í mörg ár undir

„Ást er….“

Ástin hefur nefnilega ýmsar birtingarmyndir og í raun þarf ástin ekkert að sanna sig.  En falleg samskipti, snerting, augnatillit segir oft meira en þúsund orð.  –

Það er alveg eins hægt að tjá elsku á þennan máta eins  og hægt er að tjá ofbeldi eða beita því  með þögn, með augnatilliti, með því að hunsa, afskiptaleysi o.s.frv.

Hvort sem við erum börn eða fullorðin þá finnum við hvort að fólki þykir vænt um okkur eða ekki,  nema að okkur skorti eitthvað – og auðvitað er það reyndin í mörgum tilfellum.

Það er mikilvægt að tala saman, og auðvitað að hrósa, yrða væntumþykjuna upphátt – en það verður að vera inneign fyrir orðunum.  Annars eru þau ekki sönn og við erum ekki sönn eða heiðarleg.

Fyrirsögnin er „Að elska án væntinga um endurgreiðslu“ ..  sprautan að því var þessi danska tilvitnun á Facebook:

„KÆRLIGHED begynder der, hvor der ikke ventes gengæld.“
eða
Kærleikurinn hefst,  þar sem ekki eru væntingar um endurgreiðslu.
Þarna er um að ræða skilyrðislausan kærleika.
Ef við tengjum þetta við efnið að ofan,  þá snýst þetta um að leyfa okkur að elska án þess að vera í stöðugum ótta við að vera ekki elskuð til baka.   Fá endurgjald.
Þetta er erfitt,  og næstum bara á færi þeirra sem eru langt komin í því að lifa í sátt og samlyndi við sjálfa sig.  Þeirra sem upplifa lífsfyllinguna með sjálfum sér,  þeirra sem finna ástina innra með sér.
Við eigum hana öll hið innra,  það er bara spurningin að opna á hana.
Stóra spurningin sem við þurfum að spyrja er ekki hvort að aðrir elski okkur,  heldur:
„Elska ég mig?“ … samþykki ég mig,  eða hvað vantar mörg prósent upp á að ég sé virði minnar eigin elsku?“ ..
Þarf ég að sanna elskuna í eigin garð,  vinna góðverk, þarf elskan í eigin garð endurgjald? –  Getur kannski verið að þetta sé fyrirfram greitt og við skuldum ekkert fyrir elskuna?
Getur þú elskað þig skilyrðislaust?
Verðmæti þitt felst ekki í verkum þínum eða gjörðum,  verðmæti þitt felst í þér sem góðri sköpun.   Verðmæti þitt hefur ekki rýrnað síðan þú varst nýfætt ungabarn sem engar kröfur voru gerðar til aðrar en að þú – barnið –  andaðir og nærðist.  Þetta barn var virði allrar elsku og það er það enn í dag.  Það hefur ekki farið neitt og býr innra með þér og það er þitt að vernda það og elska.
Auðvitað höfum við öll GERT eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir,  sagt eitthvað o.s.frv.  en það eru gjörðir og hafa ekkert með kærleika án skilyrða að gera.   Án skilyrða þýðir að það er ekki hægt að stilla upp plúsum eða mínusum,  góð verk eða vond verk hafa þar ekkert að segja.
Ef við upplifum að við getum ekki elskað okkur sjálf,  þá er það vond tilfinning og hún hefur áhrif á allt líf okkar og hvernig aðrir upplifa okkur líka.   Það er því ágætt að átta sig á því að það er e.t.v. auðveldara að elska barnið innra með okkur,  því það hefur ekki farið neitt,  við þurfum bara að veita því athygli…. og ást.

Hvernig verður þú persónan sem þú elskar? …

Þú stendur fyrir framan spegilinn og segir:

„Ég elska þig“ … en einhvers staðar á bakvið hljómar „EKKI“ ..  Þú hreinlega trúir ekki eigin fullyrðingu,  því fyrir þér er hún ekki sönn, þér finnst þú ekki elsku þinnar virði.   En hvernig getur þú orðið þessi persóna sem er elskunnar virði?

Þessi ráð fann ég á síðu sem heitir Positive Thoughts og heitir greinin á frummálinu „Become the person you love.“

 1. Hættu að dæma þig og farðu að meta þína innri fegurð. – Dómharka í eigin garð er ekki það sama og vera heiðarleg/ur við sjálfa/n sig. Það að lifa sem einlæg, umburðarlynd manneskja, er stærsta áskorunin, fyrir utan það að geta sett sig í spor annarra, að líða vel í sínum eigin sporum.Í hverju brosi er fegurð. Í hverju hjarta er elska. Í hverjum huga er viska. Í hverri manneskju er sál, líf, verðmæti og það er hæfileikinn til að sjá alla þessa hluti í öðrum, líka okkur sjálfum.
 2. Komdu fram við sjálfa/n þig eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.  Samþykktu þig!  Óöryggi er það sem gerir þig óaðlaðandi, en ekki þú.  Vertu þú,  bara eins og þú ert.  – á þann fallega máta sem aðeins þú þekkir. Viðhorf þitt til þín mótar viðhorf annarra til þín.  Ef þú elskar ekki sjálfan þig gera aðrir það ekki heldur.   Og þegar þú ert orðin/n sátt/ur í eigin skinni, kemur vissulega í ljós að það mun ekki endilega öllum líka við þig,  en þú munt ekki láta þig varða um það.
 3. Láttu þig minna varða hvað öðrum finnst um þig. – Ekki týna sjálfum/sjálfri þér í leit þinni fyrir samþykki annarra.  Gerðu þér grein fyrir að þú munt alltaf virðast aðeins minni en sumt fólk telur þig vera,  en að flest fólk áttar sig ekki á því að þú ert miklu stærri persóna en þú lítur út fyrir að vera.  Þú ert nógu góð/ur – og alveg nóg,  svona eins og þú ert.  Þú þarft ekki að sanna tilverurétt þinn fyrir öðrum.  Láttu þig minna varða hvað þú ert í augum annarra og meira varða hvað þú ert í eigin augum.
 4. Þekktu verðmæti þitt. – Við samþykkjum oft þá ást sem við teljum að við eigum skilið.  Það er ekkert vit í því að vera í öðru sæti í lífi einhvers,  þegar þú veist að þú ert nógu verðmæt/ur til að vera í fyrsta i lífi einhvers annars.
 5. Ekki flýta þér í ástarsamband. – Ástin er ekki aðeins kynlíf, að fara á flott stefnumót eða sýnast.  Hún snýst um að vera með persónu sem dregur fram hamingju þína eins og enginn annar getur gert.  Þú þarft ekki einhvern fullkominn,  aðeins einhvern sem þú getur treyst  – og sýnir þér fram á að þú ert hans einasta eina,  eða einasti eini (The One and Only).  Ef þú hefur ekki fundið sanna ást nú þegar,  ekki stunda málamiðlun.  Það er einhver þarna úti fyrir þig sem mun elska þig skilyrðislaust,  jafnvel þó það sé ekki manneskjan sem þú varst að vonast eftir upphaflega.
 6. Slepptu tökum á fólki sem er ekki raunverulega til staðar fyrir þig. – Sumu fólki er ekki ætlað að passa inn í líf þitt, hversu mikið sem þig langar til þess að það geri það.  Þeir sem eru ástar þinnar virði eru þeir sem standa með þér í gegnum storma lífsins og gleðjast með þér þegar að erfiðleikar eru yfirstaðnir.  Kannski inniheldur „hamingjusamur endir“ aðeins sjálfa/n þig í augnablikinu.   Kannski ert þú ein/n á ferð að tjasla þér saman og hefja nýtt líf,   að frelsa sjálfa/n þig til að hafa tækifæri á einhverju betra í framtíðinni.  Kannski er „hamingjusamur endir“ einfaldlega það að sleppa tökunum.

 

Hópur fyrir þig? …

Mig langar að brydda upp á svolitlu nýju, – þetta er eflaust til annars staðar líka,  en í starfi mínu sem leiðtogi í hópavinnu,  þar sem ca. 5 – 10 aðilar deila með sér tilfinningum, upplifunum, sigrum og sorgum,  kemur alltaf á einhverjum tímapunkti þessi setning:

„Gott að finna að ég er ekki ein/n“ ..    og þá í merkingunni,  að við séum ekki þau einu sem erum að ganga í gegnum ákveðna hluti, við erum kannski bara með sömu vandamál, sömu hugsanir, tilfinningar og fullt af öðru fólki.

Í hópavinnu speglum við okkur í náunganum þannig að við lærum líka um okkur sjálf.

Í gærkvöldi var ég með örnámskeið um meðvirkni og bauð upp á hópavinnu einu sinni í viku í framhaldi.  Tvær konur komu langt að og treystu sér ekki til að keyra.  Sjálf þarf ég að keyra til Reykjavíkur frá Hvanneyri til að mæta og leiða hópa og námskeið. –   Þá fékk ég þá hugmynd að búa til nethópa og minnka ferðalögin,  þó að alltaf sé best að hittast „Live“ og svona hópahittingur á neti gæti vissulega endað í slíku, t.d. góðu helgarnámskeiði.  En málið er að búa til hópa á Facebook,  leynihópa,  sem þýðir að aðeins þeir sem eru í hópnum sjá hvað þar fer fram og vita af tilvist hans.

Hugmynd er ekkert merkileg án framkvæmdar,  svo nú verður farið af stað 😉 ..

Þetta virkar þannig að þeir sem eru í hópnum geta sett inn spurningar, reynslusögur og rabbað saman,   en ég er leiðbeinandi, og mun leitast við að svara eða koma með leiðsögn (ef svara er þörf) öllu innan sólarhrings frá fyrirspurn, læt vita ef það tefst.   Ég get sett inn pistla sem varða það efni sem verið er að ræða o.s.frv.

Ef þú vilt koma í svona hóp, með mig sem leiðbeinanda  þá borgar þú 1000.- krónur á mánuði  leggur inn á reikning 0303-26-189  kt. 211161-7019  sendir þú mér póst á johanna.magnusdottir@gmail.com um að þú sért búin/n að greiða og í hvaða grúppu þú vilt koma og ég set þig inn.

p.s. þú þarft að „adda“ mér á Facebook 😉

Hópur  1.   30 ára og eldri

Hópur 2.  18 – 30  ára

Hópur 3.   Skilnaður (karlar)

Hópur 4.  Skilnaður (konur)

Grúppa 5.  Tilfinningar og offita

Í þessum grúppum er hægt að ræða allt milli himins og jarðar, sem tengist manneskjunni,  andleg líðan, líkamleg líðan, kvíði, stress, óhamingja, félagsfælni, geð og   Þetta er tilraun til að finna úrræði og gæti tengt fólk saman.

Sendu mér líka póst ef þú sérð hugmynd að grúppu! 😉

Ath!  Í hópunum gilda sömu reglur og við værum að hittast.  Þ.e.a.s. trúnaður og heiðarleiki um það sem talað er.   Þegar þú ert komin/n í grúppu setur þú inn kveðju og segir í nokkrum línum eftir hverju þú leitar og hvað þú ert almennt það sem þú ert að glíma við.  Þú getur líka sent mér það ítarlegra prívat. 

Vonandi komumst við saman að kjarnanum!

 

 

 

 

 

Þið megið gjarnan dreifa þessu fyrir mig – ef þið þekkið einhvern sem gæti þurft á úrræði að halda. –  Þetta á vafalaust eftir að þróast.

Ég á facebook:  http://www.facebook.com/johanna.magnusdottir

Átta leiðir til að átta sig á tilfinningakúgun …

Eftirfarandi er endursögn á greininni:

Eight Ways to Spot Emotional Manipulation“ – grein eftir Fiona McColl.

Ég lenti í vandræðum með þýðingu á „Emotional manipulation“ – því það er eins og við vitum lúmsk stjórnun, eða kúgun en samt ekki neitt gott íslenskt orð til yfir það.  „Emotional Manipulation“  er einhvers konar stjórnun þar sem togað er í ýmsa tilfinningastrengi til að fá sínum vilja framgengt og til þess notaðar alls konar aðferðir,  sem eru yfirleitt duldar, og því mikilvægt að gera sér grein fyrir aðferðafræði þeirra sem beita slíkri stjórnun.  Það er eflaust brot af þessari persónu í okkur öllum, – alltaf gott að líta í eigin barm þegar við erum að greina svona,  en líka auðvitað á umhverfið og átta okkur á því hvort að einhver er að toga í okkur til að stjórna og hvort við séum þá meðvirk með viðkomandi og ölum á „sjórnunarhæfileikunum!“

Hér er greinin:

 1. Það er tilgangslaust að reyna að vera einlægur við tilfinningakúgara.  Öllu er snúið upp á þig.  Þú segir t.d. „ég er mjög sár að þú skyldir gleyma afmælisdeginum mínum. Svar: – „Ég er mjög sár að þú skulir halda að ég hafi gleymt afmælisdeginum þínum,  ég hefði auðvitað átt að segja þér hvað ég er að ganga í gegnum þessa dagana – en ég vil ekki íþyngja þér.  En þú hefur rétt fyrir þér,  ég hefði átt að bíta á jaxlinn, setja sársauka minn til hliðar (og þarna koma jafnvel tár) og setja fókusinn á afmælið þitt. „Fyrirgefðu“  – Jafnvel þó þú sért að hlusta á þessi orð, færðu óþægindatilfinningu (creepy feeling)  sem þér finnst viðkomandi alls ekki vera að meina að honum/henni þyki þetta leiðinlegt, en þar sem þeir eru búnir að segja þetta ertu skilin/n eftir tóm/ur og getur ekkert sagt.  Annað hvort það eða þér finnst þú vera farin að gæta að ÞEIRRA vanlíðan!!!  Undir öllum kringumstæðum, ef þú upplifir að þessum „öngli“ sé kastað- ekki gleypa hann.  Ekki fara að taka þetta á þig og ekki taka við afsökun sem þú upplifir sem óheiðarlega. (Feels like bullshit).  Ef þú upplifir hana þannig, þá er hún þannig.  Regla númer eitt – ef þú ert að eiga við tilfinningakúgara treystu á innsæi þitt.  Treystu á skynjun þína.  Um leið og kúgarinni nær árangri – gengur hann á lagið og reynir meira.
 2. Tilfinningakúgari er fús til að hjálpa.  Ef þú biður þá um að gera eitthvað samþykkja þeir yfirleitt strax- það er EF þeir voru ekki búnir að bjóðast til þess áður.   Síðan þegar þú segir „Ok – takk“  fara þeir að stynja ógurlega, eða tjá það með einum eða öðrum hætti án þess að segja það upphátt,  að þeir vilji í raun ekki aðstoða þig. Þegar þú segir að það virðist ekki vera að þeir vilji aðstoða -munu þeir snúa því við og segja að AUÐVITAÐ hafi þeir viljað hjálpa og hversu ósanngjarn getir þú eiginlega verið.    Þetta er eitt form „Crazy making“  eða að láta þig líta út fyrir að vera klikk, en tilfinningakúgarar eru góðir í því. Regla númer tvö – ef að tilfinningakúgari segir JÁ – láttu þá standa við það.  Láttu sem þú sjáir ekki svipbrigðin né stunurnar,  og ef þeir vilja ekki gera hlutina láttu þá segja þér það hreint út – eða settu bara á þig Ipod með góðri tónlist, skildu þá eftir með leikritið og farðu í bað.
 3. „Crazy making“  – að segja einn hlut og fullvissa þig svo um að þeir sögðu það ekki.  Ef þú ert í sambandi þar sem þér finnst þú þurfa a skrifa niður það sem sagt er þar sem þú ert farin/n að efast um eigin geðheilsu,  ertu að upplifa tilfinningakúgun.  Tilfinningakúgari er meistari í að snúa hlutunum á hvolf og útskýra hlutina í burtu.  Þeir geta verið svo útsmognir að þú getur setið og horft á svart en þeir kalla það hvítt, og þeir færa svo góð rök fyrir því að þú ert farin að efast um eigin skynjun.  Svart verður hvítt. VIÐVÖRUN: Tilfinningakúgun er MJÖG hættuleg. Það er mjög truflandi fyrir tilfinningakúgara að þú skrifir niður á meðan þið talið saman.  Segðu bara að þú sért orðin svo gleymin/n þessa dagana að þú þurfir að punkta hjá þér.   Ef þú ert farin/n að þurfa að gera þetta þarftu að vísu að gera þér grein fyrir að þú þarft að fara að koma þér úr skaðlegum aðstæðum.
 4. Sektarkennd.  Tilfinningakúgarar eru meistarar að koma inn hjá þér sektarkennd.  Þeim tekst að láta þig fá samviskubit að tala og samviskubit yfir að tala ekki.  Yfir því að vera of mikil tilfinningavera eða ekki nógu mikil tilfinningavera,  yfir því að vera of gjafmildur eða ekki gefa nógu mikið.  Allt kemur til greina.  Tilfinningakúgarar segja sjaldan hvaða þarfir þeir hafa eða langanir – þeir fá það sem þeir þurfa eða langar í gegnum tilfinningastjórnun.  Flest okkar höfum hæfileika til að minnka sektarkenndina sem þeir reyna að troða inn en ekki öll.  Önnur öflug tilfinning sem er notuð er vorkunn.  Tilfinningakúgari er yfirleitt mjög mikið fórnarlamb og lætur alla vita.   Þeir ýkja vandamál sín og láta sem flesta vita, svo hægt sé að næra og hugsa um þá.  Þeir berjast sjaldan eigin baráttu, en fá aðra til að vinna skítverkin fyrir sig.  Það klikkaða er að þegar þú gerir það fyrir þá (sem þeir biðja aldrei beint um) snúa þeir sér að þér og segjast alls ekki hafa ætlast til þess að þú gerðir nokkurn skapaðan hlut!   Reyndu að berjast ekki baráttu annarra, eða hreinsa upp þeirra skít.  Segðu frekar „Ég hef fulla trú á því að þú náir þessu upp á eigin spítur“ – tékkaðu á viðbrögðunum og taktu eftir hvaða „bull“ kemur – enn og aftur.
 5. Tilfinningakúgarar berjast óheiðalega.  Þeir koma ekki hreint fram.  Þeir munu fara á bak við þig og að lokum koma öðrum í þá aðstöðu að segja þér það sem þeir myndu ekki segja við þig sjálfir.  Þeir eru „passive aggressive“- sem þýðir að þeir finna „fjallabaksleiðir“ til að láta þig vita að þeir eru ekki ánægðir.  Þeir segja það sem þeir telja að þú viljir heyra, en gera alls konar hluti í kring til að gera lítið úr því.  Dæmi: „Auðvitað vil ég að þú farir aftur í skólann elskan og þú veist að ég mun styðja þig.  Síðan, á prófkvöldi, þegr börnin eru grátandi, sjónvarpið á fullu og þarf að fara út að ganga með hundinn situr herra eða frú „elskuleg/ur“ á rassinum og horfir á þig skilningvana augum.  Ef þú kvartar yfir því að fá ekki stuðninginn sem var lofað færðu svar eins og „Þú heldur varla að veröldin stoppi þó þú sért að fara í próf elskan?“  Öskraðu, grenjaðu eða kyrktu viðkomandi – aðeins hið síðastnefnda mun hafa langtímaáhrif,  en það mun líklegast koma þér undir lás og slá!
 6. Ef þú ert með hausverk er tilfinningakúgari með heilaæxli!  Hversu slæmt sem þú hefur það – þá hefur sá sem er tilfinningakúgari upplifað það líka eða er þar núna, en samt 10 sinnum verra hjá honum.  Það er erfitt, eftir einhvern tíma að upplifa tilfinningatengsl við tilfinningakúgara vegna þess að þeir hafa lag á því að endurhanna samræður og snúa sviðsljósinu á sjálfa sig.  Ef þú segir það við þá,  verða þeir líklegast mjög særðir og kalla þig eigingjarna/n – eða segja að það sért þú sem þurfir alltaf að fá athyglina. Jafnvel þó þú vitir að svo sé ekki, ekki reyna að afsanna það því það er óyfirstíganlegt verkefni.  Ekki hafa fyrir því – treystu á innsæi þitt og gakktu burt.
 7. Tilfinningakúgarar hafa hæfileikann til að hafa áhrif á andrúmsloftið allt í kringum þá.   Ef að tilfinningakúgari er leiður eða reiður verður herbergið fullt af þeirri orku –  það vekur viðbrögð hjá þeim sem eru í herberginu, og allir fara að reyna að gleðja, geðjast eða þóknast viðkomandi –  laga það sem er að hjá þeim.  Haltu þig við svona týpu í einhvern tíma og þú munt verða svo meðvirk-ur að þú munt gleyma að þú nokkurn tímann hafðir þarfir  svo ekki sé talað um að þú hafir alveg jafnan rétt á að fá þörfum þínum mætt eins og öðrum. –
 8. Tilfinningakúgarar taka enga ábyrgð.  Þeir taka ekki ábyrgð á sjálfum sér né hegðun sinni. –  Það snýst allt um hvað aðrir „gerðu þeim“  Ein af einföldustu leiðum til að átta sig á tilfinningakúgara er að þeir stofna til náins sambands með því að  deila snemma mjög persónulegum upplýsingum sem eru venjulega í þeim anda að „að-krækja-í-þig-og-láta-þig-vorkenna-sér“  Í upphafi finnst þér þessi persóna vera mjög næm, tilfinningalega opin og e.t.v. örlítið berskjölduð.  Trúðu mér – að tilfinningakúgari er álíka berskjaldaður og Pit Bull með hundaæði og það mun alltaf vera einhver krísa sem þarf að komast yfir.

Þannig hljómaði nú þetta – ekki beint uppbyggilegt – en ágætt að þekkja merkin.