ÁÁÁÁÁÁ ….örblogg

  1.  ÁKVÖRÐUN … ef við viljum breyta þurfum við að taka ákvörðun.  Við höfum val, við tökum ákvörðun hvort við ætlum að horfa upp eða niður.
  2. ÁHÆTTA .. ef við viljum breyta þurfum við að taka áhættu, lífið sjálft er áhætta.   Það er öruggast að gera ekki neitt, en það er líka leiðinlegast.  Lífið hefst fyrir utan þægindahringinn.
  3. ÁBYRGÐ ..  við verðum að gera okkur grein fyrir því að við berum ábyrgð á okkur sjálfum, ekki á öllum í kringum okkur, nema jú ef það eru ungabörn, – smátt og smátt verðum við að fara að kenna börnum ábyrgð.  Við erum ábyrg fyrir því að kenna börnum ábyrgð.
  4. ÁRANGUR ..  formúlan fyrir árangri  er að ástunda þakklæti. Það er engin gleði án þakklætis, þakklætið kemur fyrst svo gleðin, – glöð manneskja nær frekar árangri en sú sem er óánægð.
  5. ÁSTUNDUN .., æfingin skapar meistarann, og það þarf að ástunda t.d. þakklæti til að það virki.
  6. ÁST …. ef ekkert af ofangreindu virkar, þarf kannski bara meiri ást, – en það að elska sig er m.a. að taka ábyrgð á eigin heilsu og hamingju. –

525966_4121119355193_877443323_n

 

Þakklát fyrir súrefnið í loftinu …

Félagi sonar míns lenti í því að vera næstum kafnaður í reyk – þegar hann varð innlyksa í íbúð sinni,  þegar kviknaði í íbúð á hæðinni fyrir neðan. –  Hann lýsti því hvernig hann rétt náði að anda, sá ekki handa sinna skil fyrir sótsvörtum reyk, en komst svo inn í herbergi þar sem hann gat andað að sér lofti inn um glugga.

Þegar slökkviliðsmennirnir komu loks inn til hans, eftir dágóða stund, og frelsuðu úr prísundinni,  var hann því væntanlega þakklátastur að geta andað óhindrað að sér fersku lofti. –

Ég var, enn og aftur, með námskeið í gær, og einn þátttakandi spurði um „töfralausn“ að betra lífi. –

Ég er þess fullviss að fyrsta skrefið hvað betra líf varðar, er Ákvörðunin um að eiga betra líf.  Í henni felst sú hugmyndafræði að við trúum að við eigum það skilið og þess vegna megum við ekki hindra það sjálf.  –  Við segjum því:

„JÁ TAKK“ … (Mæli með því að opna faðminn í leiðinni og anda djúpt að sér lífinu og svo anda lengi frá til anda frá sér gömlu hugmyndunum að við eigum ekki gott skilið!

Annað skrefið – sem er jafn mikilvægt hinu fyrsta, -felst í þessu „Já takk“ –  því að „JÁ“ þýðir að við erum að opna fyrir gjafir lífsins og „TAKK“  þýðir að við erum þakklát fyrir gjafirnar, – líka þær sem við höfum nú þegar. –

Grunngjöf lífsins er andardrátturinn okkar, – og það að geta andað sjálfstætt að okkur súrefni. –  

Við áttum okkur eflaust ekki á því svona dags daglega, eða þökkum það fyrr en e.t.v. við sjálf eða nánir ættingjar hafa þurft að vera háð utanaðkomandi öndunaraðstoð.  Við höfum séð fólk sem  er háð súrefniskút.  Í upphafi hverrar flugferðar er talað um að ef að loftþrýstingur breytist muni súrefnisgrímur falla niður og þá eigum við að setja þær yfir munn og nef og anda því að okkur, og ef við ferðumst með barn þá setja grímuna á okkur fyrst og svo barnið. –

Reyndar er þetta mest notaða lýsing á mikilvægi þess að hjálpa sjálfum sér fyrst, áður en við aðstoðum barn. –  Sem þýðir auðvitað mikilvægi þess að við séum í ástandi sjálf til að geta aðstoðað aðra.

Af einhverjum ástæðum hugsaði ég mikið um andardrátt og súrefni í gær, – og hvað ég væri þakklát fyrir að geta dregið andann, svona ein og hálparlaust. –

Ég hugsaði um það út frá því sjónarhorni, að af einhverjum orsökum finnst okkur svo sjálfsagt að geta andað að við þökkum það ekkert sérstaklega.   Okkur finnst það kannski bara svo sjálfsagt, vegna þess að flestir ganga um og anda áreynslulaust.

Það er ekki fyrr en við upplifum skort á einhverju að við áttum okkur á því hversu dýrmætt það er. –  Þegar við erum að kafna, þegar við þurfum að vera háð súrefniskút, – þá er þráin að geta andað djúpt og frjálst.

Við sem búum á Íslandi búum við ferskt loft í ómældu magni, við erum að vísu að spilla því á höfuðborgarsvæðinu við og við, og sumir upplifa óþægindi þess vegna,  þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum. –

Ferskt loft er þakkarvert og það að geta andað er þakkarvert. –

Hver er svo þessi „töfralausn“ að betra lífi? –

Jú, það er að þakka það sem við höfum, og okkur finnst venjulega svo svakalega sjálfsagt, – svona eins og súrefnið,  skjól fyrir veðri og vindum,  það að fá að borða, það að eiga fjölskyldu o.fl. o.fl. – allt sem við tökum eins og sjálfsögðum hlut,  en það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi. –

Við eigum allt gott skilið, það er ekki málið.  –  Við erum líka að fá svo margt gott, og lykilatriðið er að vera þakklát. –

Þakklát fyrir að við erum nóg og höfum nóg – á meðan við getum andað.-

Þegar við Ástundum þakklæti,  förum við að finna að líf okkar batnar, – því að þakklætið ber með sér einhvers konar fullnægjutilfinningu og sátt,  á meðan vanþakklæti ber með sér tilfinningu skorts óg óánægju. –

Það er miklu betra að lifa fullnægjuhugsun en í hugsununinni um að þarfnast eða skorta. –

Þegar við erum full af þakklæti, eykst tilfinningin fyrir  innri frið og sátt, eykst gleðin, eykst ástin. –

Þakklæti er því undirstaða þess að eiga betra líf.

Þakklæti fyrir lífsins andardrátt.

TAKK ER TÖFRAORÐIÐ .. 

man-breathing-fresh-air

 

 

Ekki gefa frá okkur valdið …

„Hann lætur mér líða svona“

„Hún lætur mig fá samviskubit“

„Hann kemur mér alltaf í vont skap“

„Hann veldur mér vonbrigðum, þegar að hann breytist ekki“ …

Þetta eru nokkur dæmi um setningar – sem við segjum þegar við höfum gefið valdið yfir okkar eigin tilfinningum yfir til annarra. –

Hver lætur okkur líða svona eða hinsegin? –  Ef einhver lætur okkur líða á einn eða annan hátt, þýður það að við erum valdalaus gagnvart viðkomandi.  Við höfum ekki vald á eigin líðan, heldur þessi hann eða hún sem lætur okkur líða. –

Auðvitað hefur fólk mismunandi áhrif á okkur, orkan okkar getur passað vel saman, – stundum finnum við það við fyrstu kynni.  En við þurfum að læra það að við megum ekki gefa frá okkur allt vald yfir eigin líðan, leggja ábyrgðina á okkar tilfinningum á annarra herðar.

„Elskaðu mig“ – „Skemmtu mér“ –  „Gleddu mig“ –  „GEF MÉR“  söng plantan í Litlu Hryllingsbúðinni.

Þegar við verðum svona háð öðru fólki hvað tilfinningar varðar, verðum við eins og strengjabrúður. –  Ef einhver hrósar okkur eða veitir okkur viðurkenningu, verðum við glöð en ef einhver gagnrýnir eða er leiðinlegur við okkur verðum við leið. –

Alltaf þessi „einhver“ – sem er utanaðkomandi. –

Breytingin er að átta sig á að við erum „einhver“ – sem getum endurheimt valdið, ef við höfum gefið það frá okkur.

Í þessu samhengi vil ég enn og aftur endurtaka setninguna: „Meðvirkni verður til þegar við reynum að fá frá öðrum það sem við höldum að við höfum ekki sjálf.“ –

Við höldum að við höfum ekki valdið, en við höfum það.

 

Við reynum að fá ást, virðingu, traust, viðurkenningu – jafnvel athygli. –

Kannski fáum við valdið með að skipta um fókus, hætta að leita út á við eftir viðurkenningu, eftir „skipun“ um hvernig okkur á að líða.

Er það ekki bara? –  🙂

971218_563124067057884_436886814_n(1)

 

Hvað er lífið að reyna að gefa þér? …

Það er sælt að gefa og það er sælt að þiggja“ – Það verður eiginlega að vera svoleiðis, til að það sé jafnvægi milli þess að gefa og þiggja og í raun er það sami hlutur, því með því að þiggja erum við að gefa. –

Það er þó ekki sama hvernig við þiggjum.  Ef við þiggjum þannig að við tökum öllu sem sjálfsögðum hlut, bara tökum við því og segjum hmmmm…  eða hrmph… jafnvel – eins og það sé bara það sjálfsagðasta í heimi,  þá ber það vott um vanþakklæti og verður okkur e.t.v. ekki að góðu. –

Það er þarna sem þakklætið kemur sterkt inn, – þakklætið fyrir þær gjafir sem við erum að fá á hverri stundu lífs okkar. –

Við erum að fá loft til að anda að okkur, sem er í raun grunn-gjöfin. Ef við erum stödd á Íslandi erum við að fá hreint og gott vatn, við erum með hitaveitu og hægt að baða sig eða sturta á hverjum degi, og jafnvel oft á dag.  Við búum í landi þar sem ekki eru stríð o.fl. o.fl. –   Þetta er bara brot af því sem hægt er að vera þakklát fyrir. –  En á meðan að við lítum á þetta allt sem sjálfsagt og þökkum aldrei fyrir það,  og ef við hugsum okkur lífið sem „gjafara“ þá hlýtur það að fá smá leið á okkur sem aldrei segjum „Takk“ – eða hvað? –

Ég held að mikilvægi þess að veita gjöfum lífsins athygli sé vanmetið og mikilvægi þess að þakka þessar gjafir. –

Þó við höfum ekki ástundað þakklæti hingað til er aldrei of seint að byrja, og um leið og við förum að ástunda þakklæti opnast svo margt,  því er ekki miklu skemmtilegra að gleðja þakkláta persónu en vanþakkláta eða þá sem segir aldrei TAKK? –

Það er gott að gefa því gaum sem við eigum, því sem við höfum, hæfileikum okkar, fólkinu okkar,  – taka eftir því sem er að ganga vel og svo þurfum við auðvitað að finna tilfinningarnar okkar, því það er nú ekki kurteisi að gefa þeim engan gaum,  þær sem eru að banka upp á hjá okkur og segja „hæ ég er hér“ –  kannski er bara ráð að þakka það að hafa tilfinningar,  við tilfinningaverur? – Við viljum ekki vera dofin eða tilfinningalaus,  þó á einstaka stundum þurfum við á því að halda, en það er undantekningin en ekki reglan. –

Hvað ef lífið er að reyna að gefa þér eitthvað – bíður brosandi með pakkann og þú horfir alltaf í einhverja aðra átt,  veitir því ekki athygli og ert upptekinn af því sem þú færð ekki. –   Hvað ef lífið væri persóna? – Þá myndir þú særa lífið,  með því að taka ekki við gjöfinni,  nú ef þú myndir svo sjá gjöfina – taka hana bara og stinga inní stofu og loka svo hurðinni framan í lífið svo það stæði fyrir utan. –

Ég hef gert svona hluti. – Tekið þeim sem sjálfsögðum. –

Ég vona að mér endist æfin til að þakka gjafirnar, sem eru endalaust margar,   meira að segja lífið hennar Evu minnar, sem var þrjátíuogeitt ár. –  Sumt fólk eignast aldrei börn,  en ég eignaðist stelpu sem var falleg, góð, dugleg, skein skært og heillaði fólk,  eignaðist tvö falleg börn.  Það er dýrðleg gjöf.

Hvernig get ég verið þakklát fyrir hennar líf?

Það er bara alls ekki erfitt, það var svo STÓR gjöf,  fjársjóður sem var undir regnboganum,  – þó að lífið endist ekki eins lengi og við búumst við, – við höldum auðvitað að við fáum öll að verða a.m.k. sjötug,   þá er lífið þakkarvert.  Allt líf, hversu stutt sem það varir, er þakkarvert. –  Eftir því fallegra sem lífið var, því sorgmæddari verðum við þegar við missum.

Fuglarnir hér á Framnesveginum eru farnir að vekja mig á morgnana, – uppúr sex fara þeir að syngja.  Ég sit í „Lazy-Boy“ stólnum hennar móður minnar heitinnar, og skynja að ég er ástfangin. –

Það er auðvelt fyrir mig að skynja ástina þegar ég skrifa,  því að þar liggur ástríða mín. –  Það flæðir áreynslulaust, og þó ég hugsi stundum;  „á þetta erindi við aðra en mig, – er þetta ekki of „prívat?“ –  þá eru það bara sekúndubrot,  því að ég veit ég á erindi við þig,  systir, bróðir,  „fellow human being“ – langar mig í raun bara að segja. –   Við erum svo öll eitthvað eins og mikið að skoða sömu hluti, lenda í sömu gryfjum, glíma við sömu hindranir, höldum að við séum svo ein en erum svo mikið að upplifa það sama. –

Ég er hér af því að þú ert hér,  þú skiptir mig máli og ég er SVO ÞAKKLÁT fyrir þig. –

Þú ert það sem lífið er að færa mér, og ég væntanlega það sem lífið er að færa þér. –

Allt sem gerist í heimi hér er hluti lífsins. –

Ég þakka gjafir lífsins og ætla að halda áfram að þakka, lærdómurinn er stundum þungur og stundum erfitt að skilja tilgang,  en allt fer vel að lokum. –

1393469_10152066057691211_1753453545_n

 

 

 

 

 

 

 

 

„Sátt eftir skilnað“ – hvað er það? ..

Þann 20. júní nk. frá 09:00 – 16:00 býð ég upp á námskeiðið „Sátt eftir skilnað“ – námskeið fyrir konur. (Ég mun einnig setja námskeið upp fyrir karla – fái ég fyrirspurnir og verði eftirsókn nægjanleg).

Hvar:
Námskeiðið verður haldið í Heilsumiðstöð Íslands,  Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík.

Hvenær:
Laugardagur 20. júní frá 09:00 – 16:00
Þriðjudagur 23. júní frá 20:00 – 22:00
Þriðjudagur 30. júní frá 20:00 – 22:00
Facebook – hópur þar sem þátttakendur tengjast einnig.

Leiðbeinandi: Jóhanna Magnúsdóttir, prestur og kennari

Meira:

Ég hef verið leiðbeinandi á námskeiðum fyrir þau sem eru fráskilin, ég hef boðið upp á það sérstaklega fyrir konur og sérstaklega fyrir karla.

Hvernig er námskeiðið Sátt eftir skilnað byggt upp?

Námskeiðið er einn laugardagur frá 9:00 – 16:00 og síðan tvö skipti tveir tímar í senn í eftirfylgni.

Laugardagurinn hefst á að ég kynni mig og þátttakendur kynna sig.

Ég kynni mig og forsendur mínar fyrir að leiðbeina á námskeiðinu. Ég nýti þar menntun mína í guðfræði og sálgæslu, menntun mína úr kennslufræðum en síðast en ekki síst, og það sem vegur þyngst er að ég nýti og deili  minni eigin reynslu, reynslu mína að lifa af eftir skilnað, fara í gegnum sorgina við skilnað og halda áfram án þess að vera sífellt að líta í baksýnisspegilinn.

Sorgin er mér ekki ókunnug, og ég þekki muninn á sorg eftir skilnað og sorg eftir dauðsfall, svo dæmi séu tekin, hafandi misst föður þegar ég var á barnsaldri, vinkonur í blóma lífsins,  dóttur og móður árið 2013.   Ég hef þó ekki upplifað sorg eftir að missa maka við dauðsfall. 

Reynsla mín liggur líka í því að hafa verið beggja vegna borðsins, þ.e.a.s. „gamla konan“ – og „nýja konan“ – og það skapast oft „konfliktar“ vegna slíks. –   Mín börn eiga stjúpu og ég hef reynslu af því að vera stjúpa.   Skilnaður verður oft að kvennastríði, því miður.  Fyrrverandi er kölluð „sú klikkaða“ og núverandi „druslan“ ..  og kannski eru báðar þessar konur þannig að ef þær hefðu hist við aðrar aðstæður en ekki í hlutverkunum að vera fyrrverandi og núverandi hefði þeim líkað ágætlega við hvor aðra. 

Ég hef talað við ótal pör, og stundum verð ég hissa og spyr: „Voruð þið í sama sambandi?“ –   Bæði upplifa sig sem fórnarlömb ofbeldis og kannski eru þau það bæði, – það er svo erfitt oft að sjá frá sjónarhóli hins aðilans, sérstaklega þegar okkur er orðið í mun að fá skilning á OKKAR sjónarmiði.  Reiði eftir sambandsslit er oft byggð á því að við þráum að makinn sem við erum að skilja við, skilji af hverju okkur líður svona illa, skilji sársauka okkar, – og þá sérstaklega er það eftir trúnaðarbrest í sambandi.  Trúnaðarbrestur (framhjáhald) er sársaukafullt og fólk upplifir oft mikla niðurlægingu, jafnvel þó niðurlægingin eða skömmin sé í raun þess sem heldur fram hjá eða brýtur trúnað. – 

Af hverju segi ég frá þessu? – Jú, fólk spyr: „Hvað getur þessi kona kennt mér?“ –  „Er hún ekki bara einhver guðfræðingur sem þykist geta kennt eitthvað upp úr kennslubókum?“ –  „Hvaða reynslu hefur hún?“ –    Það hjálpar mér að vera guðfræðingur, því ég hef vissulega líka fagþekkingu t.d. á sálgæslu.  Það hjálpar mér líka að hafa lært kennslufræði.  En auðvitað er reynslan það sem ég byggi að mestu leyti á, það að hafa gengið leiðina á undan, svipað og leiðsögumaður sem þekkir slóðann.

En áfram að uppsetningu námskeiðisins. 

Þegar þátttakendur hafa kynnt sig og sagt í stuttu máli frá sínum aðstæðum,  í nánu og persónulega spjalli,  flyt ég fyrirlestur sem heitir:  „Sorgarferli verður að þroskaferli“  og fer jafnframt í orsakir skilnaðar og afleiðingar. –

Eftir morgunfyrirlesturinn ræðum við í hópi þær tilfinningar sem kviknuðu hjá hverjum og einum á meðan fyrirlestrinum stóð, – og oft er það sem þátttakendur eru að uppgötva hluti sem skiptir þá máli hvað varðar þeirra skilnað.  Sérstaklega orsakir,  því það er mikilvægt að átta sig á því hver rótin er, og hún er yfirleitt mun dýpri en upphaflega er haldið. –   Hún er yfirleitt sprottin af einhvers konar meðvirkni.

Í fyrirlestrum mínum legg ég áherslu á mikilvægi þess að hver og ein manneskja beri ábyrgð á eigin velferð og mikilvægi þess að við erum ekki komin saman eða á námskeið  til að ásaka eða finna sökudólga, heldur til að skilja af hverju fór sem fór. –

Fyrirgefning í eigin garð og annarra,  og það að fara að fókusera á eigið líf og eigin hamingju er lykilatriði til að ná sátt eftir skilnað,  því ef að fókusinn er á fyrrverandi þá er fólk ekki að lifa sínu lífi heldur lífi síns fyrrverandi maka.

Á námskeiðinu höfum við haft þann háttinn á að taka hádegishlé – og þá fer hópurinn yfirleitt saman eitthvað að fá sér að borða.

Eftir hádegi er síðan haldið áfram og er þá annað innlegg mitt sem leiðbeinanda og aftur síðan sest niður og rætt.

Það er nú þannig með sannleikann að hann frelsar, en hann er sár þegar hann uppgötvast. –

Í seinni fyrirlestrinum er m.a. fjallað um skömmina við að hafa „leyft“ ákveðnum hlutum að viðgangast, –  skömmina við að beygja af lífsgildum sínum og láta bjóða sér eitthvað sem manneskja með góða sjálfsvirðingu myndi ekki gera.   Það þarf því oft að byggja upp sjálfsvirðingu og sjálfstraust eftir skilnað.

Laugardagurinn er oft átakamikill tilfinningalega, og miklar uppgötvanir – „aha moment“ –  og stundum er erfit að fara í gegnum þessar tilfinningar eins og skömm, reiði, sektarkennd og höfnun,   þó vissulega komi ein góð tifinning stundum í kjölfarið og það er frelsistilfinning, sérstaklega þegar sambandið hefur verið þrúgandi eða litað af ofbeldissamskiptum. –

Það skal þó taka það fram, að það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þó að alls konar vondar tilfinningar séu samofnar sambandinu – þá getur verið að fólk hafi átt, og nokkuð víst það hafi átt margar góðar og gleðilegar stundir og það er óþarfi að láta eins og allt hafi verið ónýtt. –

Hvert samband er eins og skóli, og það er mikilvægt að koma reynslunni ríkari út úr sambandi og nýta þá reynslu til góðs en ekki ills. –

Stundum hefur fólk skilið vegna þess að það er í vondu sambandi við sjálft sig og kennir makanum einvörðungu um.

Það er algengara en marga grunar að þegar okkur fer að líða illa, þá, í stað þess að líta inn á við og spyrja: „Hvað get ég gert“ – er litið til makans og spurt „Hvað getur hann/hún gert.“   Tilhneygingin er að vilja breyta maka sínum – en að sjálfsögðu er það ekki hægt.  Ef manni líkar ekki við makann þá er auðvitað rangt að vera í sambandinu og óheiðarlegt gagnvart honum.

Áherslan í námskeiðinu er á ákveðna viðhorfsbreytingu, sem felst í því að fara að elska sig og má því segja að markmiðið sé að trúlofast sjálfum/sjálfri sér.

Elska sig, virða sig, treysta sér og þar með að taka ábyrgð á eigin lífi og eigin hamingju.  –  Sættast við sig og samþykkja sig sem heila manneskju.   Þá fyrst má segja að við séum tilbúin í að vera hluti af pari.   Tvær heilar manneskjur sem deila lífinu saman, en ekki tvær hálfar eða brotnar sem eru að reyna að fá frá hinni það sem þær vantar. –

Meðvirkni verður til þegar við reynum að fá frá öðrum það sem við höldum að við höfum ekki sjálf. –

Gott samband er byggt upp af aðilum sem kunna báðir að gefa án þess að vænta einhvers í staðinn.   Það er vont ef að annar aðilinn er sífellt að gefa og hinn sífellt að þiggja,  og sá sem gefur, gefur aldrei nóg og sá sem þiggur fær aldrei nóg  (auðvitað ekki, því við verðum aldrei „södd“ þegar aðrir eiga að sjá um að gefa okkur eitthvað sem við ættum að gefa okkur sjálf.)

Eftirfylgnitímar eftir námskeiðið eru tvö skipti eins og sagt er frá í upphafi,   þar sem hópurinn hittist undir leiðsögn leiðbeinanda og við ræðum framvindu, hvernig gengur að tileinka sér að vinna að eigin hamingju,  og þátttakendur deila í trúnaði því sem upp er að koma í samskiptum við makann, því auðvitað eru alltaf samskipti þegar ganga þarf frá hlutum eða þegar að börn eru í sambandinu. –

Fólk skilur ekki sem foreldrar og þarf að hafa samskipti vegna barnanna og það þarf varla að taka það fram að auðvitað skipta hagsmunir barnsins mjög miklu máli. –

Ef fólk getur ekki talað saman um börnin eða mál tengd þeim, án þess að blanda öðrum tilfinningatengdum málum inní umræðuna, eða byrja að ásaka maka sinn, þá er alltaf betra að hafa bara samskipti skriflega.

Það sem er þó mikilvægt að benda á er að eðlilegar væntingar foreldra til barna sinna eru að þau séu heilbrigð, hamingjusöm og sátt. –  Það er nákvæmlega það sem börnin vilja sjá hjá foreldrum sínum,  svo markmið námskeiðs:

„Sátt eftir skilnað“ hlýtur þá að vera að ná heilbrigði, hamingju og sátt, eða a.m.k. taka ákvörðun um að vilja ná slíku og fara að stilla fókusinn þangað. 

(það gildir að sjálfsögðu fyrir barnlaust fólk líka).

Foreldrar eru fyrirmyndir og það besta sem þau geta gert fyrir börnin sín er að lifa eins og þau myndu vilja að börnin þeirra lifðu.

Vera breytingin sem þau vilja sjá hjá öðrum.

Þegar við vinnum í okkar andlegu hlið,  vinnum í meðvirkni okkar, opnum augun og verðum meðvituð og förum að læra að taka ábyrgð á andlegri og líkamlegri velferð og heilsu,  Læra að við þurfum ekki að eignast meira dót, drekka meira vín, borða meiri mat eða lifa í samviskubiti og sektarkennd,  svo dæmi séu tekin.   þá er það svo gott langtímaplan að þegar upp er staðið hljótum við að græða sjálf.

Það verða því engir lúserar þegar upp er staðið, ég vinn vinnuna mína og fæ greitt fyrir og þau sem sækja námskeiðið opna oft augun fyrir því sem þau raunverulega eiga,  heilan fjársjóð innra með sjálfum sér. – 

Þau sem hafa sótt námskeið hjá mér hafa flest heyrt dæmisöguna sem er í upphafi bókarinnar „Mátturinn í Núinu“ en hún fjallar um manninn sem sat á kassa og betlaði.  Það kom til hans maður og spurði hann af hverju hann betlaði.  Sá sem betlaði svaraði því til að hann ætti ekkert. –  Aðkomumaðurinn spurði hann þá hvort hann hefði litið inn í kassann sem hann sæti á, en hann svaraði því til að það hafði hann ekki gert.

Þeir opnuðu þá kassann í sameiningu og í ljós kom að hann var fullur af gulli. –

Fólk er fullt af gulli,  fólk sem er einhleypt,  fólk í samböndum, fráskilið fólk, – en þegar það horfir aldrei inn á við, í eigin „kassa“ þá heldur það áfram að betla og vera þurfandi í stað þess að átta sig á því að það er nóg.

Það er svo mótsagnarkennt, en það virðist vera þannig að þegar við erum sátt við okkur sjálf og í góðu ástarsambandi við okkur sjálf, þá erum við fyrst tilbúin að vera í ástarsambandi við aðra,   en það er líka lógískt.   –

Þá erum við komin með ástarsamband en ekki samband byggt á þörf.  E.t.v. þörf fyrir að vera bjargað eða þörf fyrir að bjarga. –  Eins og þörf betlarans og þess sem gefur betlaranum.  Þar verður alltaf ójafnvægi í sambandinu. –

Sátt eftir skilnað, hvað er það? – Jú, námskeið sem vekur fólk sem hefur skilið við maka sinn til umhugsunar,  og langar að vera heilt og e.t.v. geta farið í nýtt samband sem heilli og betri einstaklingur. –   Hvort sem það er aðeins samband við sjálfan sig eða líka við aðra manneskju.

Næsta námskeið  (í Reykjavík)  fyrir konur er 20. júní 2020 – haldið í Heilsumiðstöð Reykjavíkur.   Lágmarksþátttaka eru 7 og hámark 12.  Verð fyrir námskeiðið er 29.000.-  (4000.- staðfestingargjald)    en ef greitt að fullu fyrir  1. júní –  er veittur afsláttur og námskeiðið kostar þá 25.000.-   Hægt er að skrá sig eða senda fyrirspurnir  með því að senda tölvupóst  á johanna.magnusdottir@gmail.com

codependent-no-more

„Ég get það ekki“ … ertu þín eigin andspyrnuhreyfing, eða hvað?

Þegar fólk er innt eftir þeirra stærstu hindrun,  þá er svarið iðulega:

„Ég sjálf“ –  „Ég sjálfur“ .. og það er svo sannarlega satt. –

Við erum ekki í neinni afneitun hér að það séu ekki til ytri hindranir, og við vitum í flestum tilfellum hverjar þær eru,  en stundum eru óskýr mörk milli ytri og innri hindrana. –

Innra með okkur er einhvers konar andspyrnuhreyfing, sem muldrar og tautar og finnur alls konar afsakanir fyrir því að við getum ekki og leyfum ekki,  trúum ekki að góðir hlutir gerist fyrir okkur eða við eigum nokkuð gott skilið. –

Það er vont að eiga í þessu innri (hugsana)stríði. –

Hvað gerist ef við hættum að hlusta á þetta „lið?“  –

Hvað ef að það er rigning úti, og einhver úr hreyfingunni byrjar – „sko, týpískt að það komi hellidemba þegar þú ætlaðir í göngutúr?“

Þú gætir svarað:  „Já týpískt fyrir mig, – afsökunin komin og þú ferð aftur uppí sófa.“ –

EÐA

„Já, það er líka týpískt fyrir mig að eiga þennan fína útivistarfatnað og mér finnst rigningin bara góð og hressandi. og mér finnst gott að komast út og hreyfa mig.“ –

Auðvitað er ég að tala þarna um mismunandi viðhorf, og hver stjórnar því í raun. –   Eru það „kallar og kellingar“  í okkar innri andspyrnuhreyfingu eða eru það við sjálf. –   Þessar raddir eru auðvitað þær sem við höfum tileinkað okkur (stundum raddir fólks sem hefur stjórnað okkur í gegnum tíðina, eða við höfum gefið of mikið vald í okkar lífi) en úr því við gátum tileinkað okkur þær,  af hverju ættum við ekki að geta af-tileinkað okkur þær? –

Það er miklu meira sem við getum en við getum ekki.  En lykilatriði er að hafa sjálf trú á eigin getu og að líka við okkur sjálf,  af því við erum svo einstök, dásamleg og stórskemmtileg í þokkabót!..

Stofnum því friðarhreyfingu innra með okkur,  kærleikurinn sigrar að sjálfsögðu allt,  svo það þarf kannski bara að hleypa enn meiri kærleika að, kærleika í eigin garð,  því að með því að fara að þykja vænt um sjálfa/n sig þá langar okkur svo mikið að gera það sem er best fyrir okkur og þá hlustum við ekki lengur á úrtöluraddir, eða tökum a.m.k. ekki mark á þeim og finnst þær bara krúttlega kjánalegar. –

Nýtt námskeið:   ÉG GET ÞAÐ,  hefst í Lausninni 12. maí – fyrir fólk á öllum aldri.   Smelltu hér til að skoða nánar eða skráningu.

Þetta námskeið verður væntanlega í boði næsta haust í Borgarnesi á vegum Lausnarinnar Vesturlandi,  hlakka til að kynna það!

1605_L1

 

 

 

Heilbrigð mörk, þorir þú? ….

Það að setja mörk er ekki að breyta öðru fólki. Það er frekar að ákveða hversu langt við erum tilbúin að hleypa öðru fólki og sýna jafnframt ákveðni í að hleypa því ekki inn fyrir okkar mörk.

Ef við eigum erfitt með að setja heilbrigð mörk, getur verið að við förum að taka ábyrgð á tilfinningum og vandamálum annarra. Lífið verður stjórnlaust og fullt af dramatík.  Við getum átt i erfiðleikum með að segja „Nei“  af ótta við að vera hafnað.

Við erum öll „víruð“ til að elska og því að tilheyra, og óttinn við að missa eða vera hafnað, getur rist djúpt – og stjórnað því hversu hugrökk við erum að setja mörk.

Við getum verið annað hvort yfirmáta ábyrg og stjórnsöm, eða vanvirk og  háð í samskiptum.  VIð sýnum mikið umburðarlyndi hvað varðar ofbeldishegðun í okkar garð.  VIð fórnum mögulega eigin gildum til að geðjast öðrum eða forðast vandræði eða til að halda friðinn.

Þegar við síðan fórnum eigin gildum, upplifum við skömm og upplifum okkur lítils virði.  Skömmin er rót flestra fíkna og flótta frá sjálfinu, svo það að setja mörk er grundvallandi til að halda sjálfsvirðingu okkar.

Góð ráð varðandi að setja heilbrigð mörk: 

Setjum mörk, jafnvel þó okkur finnist við eigingjörn eða upplifum sektarkennd. Við erum í fullum rétti í að passa upp á okkur sjálf.  

(Ef einhver sem reynir á mörk okkar segir að við séum sjálfselsk, er hann/hún í raun að segja,  „Þú átt ekki að elska þig, eða þóknast þér, þú átt að elska mig, eða þóknast og geðjast  mér).

Byrjum á þeim sem okkur finnst auðveldust.  E.t.v. ekki þeim sem eru í okkar nánasta hring, því þau eru oft erfiðust.

Setjum skýr mörk, án tilfinningasemi og í eins fáum orðum og hægt er.

Ekki fara í það að réttlæta eða afsaka.

Fólk sem er vant að stjórnast með okkur eða fá sínu framgengt, og er vant því að komast inn fyrir mörkin – mun halda áfram að  reyna á mörkin og reyna að stjórnast með okkur og fá það sem það var vant að komast upp með og við „leyfðum“ því áður.

Þá verðum við að standa með okkur, og fast á okkar gildum, ef viðkomandi lætur ekki segjast, verðum við að hætta samskiptum við hann/hana.  Gott er að koma upp stuðningsneti fólks sem virðir mörk okkar.

Það tekur tíma að læra að setja heilbrigð mörk, – gefum okkur tíma og tækifæri til að læra.

Ef við höfum óheilbrigð og óskýr mörk, munum við laða að okkur það fólk sem notfærir sér það.  Þess vegna þurfum við að fara að laða að okkur heilbrigðara fólk.    

Með heilbrigðum mörkum löðum við að okkur heilbrigt fólk. – 

1170720_498620266895180_1106913787_n

Skilnaður og meðvirkni, – „af hverju skilduð þið?“ ..

Það er staðreynd, að sumum finnst erfitt að skilja, vegna þess að þau hræðast þessa spurningu

„Af hverju skilduð þið?“ –

Í flestum tilfellum, ef ekki öllum, er svarið svo langt að það tæki heila ritgerð til að útskýra það og skýringar eiga rætur allt frá bernsku. –  Svörin eru því í fæstum tilfellum góð, rétt eða sanngjörn því þau eru einhvers konar „hálfsannleikur.“

Ef að manneskju líður illa í sambandi, á það ekki að vega þyngst „hvað fólk segir“ – og leita útskýringa til að réttlæta það fyrir ÖÐRUM. –

Eitt af því slæma sem hlýst af þessu, þ.e.a.s. að þora ekki að taka skrefið út úr sambandi út af áliti annarra, er að fólk fer stundum að búa til aðstæður, meðvitað eða ómeðvitað,  sem sprengja sambandið, og þá til að hafa „gilda“ ástæðu. –  Ástæðu sem samfélagið samþykkir. – Einnig er það tilhneygingin að fara að leita uppi galla makans, (það sem þú veitir athygli vex).

Hvað gerist svo? ..

„Ó, já – hélt hann/hún framhjá“ – málið dautt. –  Eða þá að ofbeldið hefur magnast í restina, svo öðru hvoru var „nóg boðið“ – svona miðað við almennt samþykkta staðla, en í raun var því löngu nóg boðið, en  þorði ekki að hlusta á innri rödd eða samþykkja. –

Svo þegar, og ef að skilnaður verður, þá heldur oft ruglið áfram.  Fólk leitar skýringa og í mörgum tilfellum þá fer hinn fráskildi aðili að mála sinn eða sína fyrrverandi í miklu ljótari litum en var í raun og veru.  Fer að fegra sig á kostnað maka síns, til að réttlæta skilnaðinn,  fyrir  öðrum.

Þá hefst líka oft skotgrafahernaður vina og ættingja, – „ha, já var hann/hún svona ömurleg/ur, – vá hvað þú ert mikil hetja“ – o.s.frv. –  Það er upphafningin á kostnað fyrrverandi, en alveg látið liggja á milli hluta að það voru þarna tveir aðilar sem kannski voru bara ekkert sérstaklega góðir í samskiptum sín á milli. –

Kannski bara tveir aðilar sem voru með ólíkar væntingar og vegna vonbrigða við brostnum væntingum, urðu þessir aðilar sárir og fóru að eiga í vondum samskiptum.  Upphefja sig á kostnað makans í sambandinu (hæðast að maka sínum, eða gera grín fyrir framan aðra) –  kvarta og kveina að makinn fullnægði ekki þeirra þörfum, hlustaði ekki nóg, skildi ekki nóg – læsi ekki hugsanir nóg o.s.frv. –

Ásakanir á víxl – „allt þér að kenna að ég er ekki hamingjusöm/samur – glöð/glaður – o.s.frv. –   Ábyrgðin er orðin makans, – og það sem gerist líka að makinn tekur ábyrgðina og sektarkenndina yfir því að hafa ekki verið nógu góður.  – Þetta verður vítahringur sem versnar og stækkar og eykur á vanlíðan, vanlíðanin eykur aftur vond samskipti, flótta, fíknir, ofbeldi o.s.frv. –

Þessar ásakanir halda oft áfram eftir skilnað, NEMA fólk fari að átta sig á að HAMINGJAN er heimatilbúin,  þ.e.a.s. við megum ekki leggja alla ábyrgð á okkar hamingju á makann,  og makinn má ekki taka af okkur ábyrgðina heldur. –   Það er þetta ójafnvægi sem raskar oft samböndum. –

Þegar tveir sjálfstæðir einstaklingar mætast – í gagnvkæmri virðingu og trausti, geta þessir einstaklingar talað saman og sagt óskir sínar, væntingar og vonir UPPHÁTT og  gera sér ekki endalaust vonir um að hinn aðilinn lesi hugsanir. –  Þá verður ekki gremja og fýla.

Ef það sem við biðjum um, eða óskum eftir er ekki virt, þarf að skoða það á heiðarlegan hátt, eru þessar óskir – væntingar ósanngjarnar? –    Þegar parið er ósammála þá er það oft sem kemur til kasta hlutlauss ráðgjafa,  sem getur ráðlagt.  Það er yfirleitt hægt að finna hvar jafnvægið liggur. –

Stundum eru lífsgildi, viðhorf og framtíðarsýn pars svo ólík,  að þau eru í raun bara að stefna í sitt hvora áttina allt sambandið og þá er ekki skrítið að illa gangi. –

Nú er pistillinn orðinn lengri en ég ætlaði mér, en það eru margar spurningar þarna úti í loftinu. –

Spurningin „Af hverju skilduð þið?“ – er spurning fyrir parið sem skildi að átta sig á, það er spurning sem það þarf að svara til að finna út „vankunnáttu“ sína í því að vera par. –  Það er spuringin sem er gott að svara ef fara á í nýtt samband síðar, svo ekki sé farið í sama pakkann á ný. –

Fólkið þarna úti – sem er forvitið – og auðvitað umhugað um þetta par er ekki aðalmálið í skilnaði.  Útskýringarnar eru ekki fyrir það. Þær eru fyrir aðilann sjálfan,  til að skilja sig, viðbrögð sín og samskipti sín. –   Ekki til að leita að sökudólgum, og alls ekki einmitt til að leita að sökudólgum, vegna þess að það heldur aftur af bataferlinu í hverri sorg, líka skilnaðarsorginni. –

Svo ef einhver þarna úti er of meðvirkur til að skilja, of meðvirkur til að virða sínar eigin tilfinningar og pælir of mikið í því hvað hinir hugsa,  þá vona ég að þessi pistill hjálpi.  Við eigum aldrei að vera í sambandi eða hjónabandi á röngum forsendum,  vegna þess að aðrir vilji það, eða við höldum að það sé öðrum fyrir bestu.  Það hljómar líka afskaplega skakkt eitthvað.

Algengt er að talað um að sambandi sé haldið gangandi „fyrir börnin“- en iðulega eru það einmitt börnin sem eru þolendur vondra samskipta foreldra og líður oft illa með tveimur óánægðum foreldrum og læra af þeim vond samskipti. –   Oftar en einu sinni hef ég heyrt þessa setningu „Ég vildi að mamma og pabbi hefðu skilið fyrr.“ –  og kannski voru það foreldrar sem voru að reyna, eða notuðu það sem afsökun að halda sambandinu gangandi barnanna vegna.

Þegar foreldri virðir sig og tilfinningar sínar og lætur ekki bjóða sér lítillækkandi samskipti þá eru það betri skilaboð til barnsins en að sýna því að vond samskipti séu í lagi, en það hljóta að vera skilaboðin ef að foreldrar sýna hvort öðru óvirðingu.

Lifðu ÞÍNU lífi, aðrir koma aldrei til með að lifa því fyrir þig. Það þýðir líka að taka ábyrgð á sínum eigin samskiptum, sinni hamingju og velferð.

Ef barnið er sett í forgang, þá verða samskiptin ósjálfrátt betri, þá vanda foreldrar sig og átta sig á því að barnið tekur nærri sér illt umtal á hvorn veginn sem það er.

Það er ekki hugrekki að tala illa um  maka, fyrrverandi eða núverandi,  eða að reyna að reisa sig við eftir skilnað með að finna sökudólga.  Það er hugrekki að stíga út úr aðstæðum sem þjóna þér ekki lengur eða eru þér skaðlegar. –

Það er hugrekki að vinna í SINNI hamingju og fylgja SÍNU hjarta.

Frelsið felst í því að hætta að hafa áhyggjur og lifa lífi sínu eftir því hvað aðrir segja, hvað öðrum finnst og hvað aðrir halda.

Þú heyrir hvað hjarta þitt segir þér, þegar þú leyfir því að komast að fyrir utanaðkomandi röddum. –

Ekki gleyma ÞÉR í glaumnum. –

Hlustaðu á hjarta þitt og fylgdu því.  Fólk sem lifir af heilu hjarta er hugrakkt fólk sem sleppir því að draga ályktanir af því hvað hinir eru að hugsa.

Við kennum hugrekki með að vera hugrökk.  

Lifum innan frá og út – það þýðir að hlusta á innri rödd, fylgja sínu ljósi,  ljósinu sem okkur er gefið.

Það er meðvirkni þegar við höldum að við þurfum að fá ljósið frá öðrum, og trúum ekki að við höfum þetta ljós sjálf.

Kviknar á perunni?

Uppfært  júní 2018:   Fer bráðum af stað með námskeiðið  „Sátt eftir skilnað“ –  18.    Það er einn laugardagur  9:00 – 16:00  og svo  4  vikur  (eitt kvöld í viku  1,5 tími í senn).   Hægt er að láta vita af sér á netfanginu:   johanna.magnusdottir@gmail.com   –

Hægt að lesa meira ef smellt er HÉR 

525912_10150925020918460_1818531631_n