Eftirsjá á dánarbeði – eða ekki ….

Lissa Rankin er læknir, – en einnig mikil áhugamanneskja um „Mind over Medicine“ og hefur skrifað mikið um það. –  Það er s.s. um andlega þáttinn í lækningum. Ég hef fylgst með henni á Facebook og hlustað á nokkra góða fyrirlestra með henni.  Í dag (11. júlí 2014) birti hún eftirfarandi (í minni þýðingu):

„Sem læknir, sem hefur oft setið við dánarbeð, get ég staðfest þá staðreynd að hin deyjandi sjá sjaldnast eftir því að hafa ekki haft næga stjórn á lífi sínu.  Þau sjá eftir því að hafa ekki tekið meiri áhættur.  Þau sjá eftir draumum sem þau fylgdu ekki eftir, ástríðu sem þau létu renna út í sandinn.  En enn fremur, sáu þau eftir að hafa ekki opnað hjarta sitt að fullu svo að kærleikurinn flæddi út, eins og úr brotinni kókóshnetu.  Þau sáu eftir að hafa ekki tjáð sig meira um ástina,  og hvernig þau héldu aftur af sér, íklædd brynju til að vernda sig gegn berskjöldun ástarinnar. Þau sjá eftir að hafa ekki fyrirgefið þeim sem særðu þau.  Þau sjá eftir að hafa ekki haft samkennd sem lífsgildi í fyrsta sæti.   Og á þessari lokastundu, þegar þau finna sárindin yfir því að hafa látið þörfina fyrir að stjórna leiða þau til að fórna tækifærinu til að elska að fullu, finna þau, í sársaukanum í eftirsjánni, að þau eru þau sem eru í mestri þörf fyrir samkennd.

Vöknum við þetta. Ekki vera ein eða einn af þessum sem deyr með eftirsjá. Ekki láta óttann halda aftur af þér. Það er ekki of seint. Það er enn tími.  Þitt er valið.  Í stað þess að vera takmörkuð af ótta okkar,  getur þú látið hugrakka hluta þinn taka við stjórninni héðan í frá.  Þú mátt eiga drauma.  Þú hefur það sem til þarf, til að vera ein/einn af þessum, sem uppfyllir sínar ástríður,  lætur alla sem þú elskar vita, og að upplifa þessa innri ró sem felst í því að lifir í samræmi við hið sanna sjálf þitt.  Þú getur geislað frá þér meðvitund Guðs í mannlegu formi – og elskað alla leið, alltaf, og skilið eftir boðskap hjá hópi fólks.  Hjarta þitt er svona umfangsmikið.  Hugrekki þitt er svona stórt: Þú hefur enga hugmynd um hversu mikil/l þú ert.  Þú getur byrjað nú þegar.  Þú hefur innra með þér máttinn til að breyta öllu á augabragði.  Í dag getur verið fyrsti dagurinn í restinni af lífinu þínu. 

Stattu stöðug/ur í þeirri fullvissu að þú ert elskaður/elskuð.  Þú ert nóg. Þitt sanna sjálf þráir að brjótast út, og þegar þú gerir það blessar þú heiminn.“
——
Hér vantar nú bara Amen og Hallelúja.  Hvílíkur hvatningartexti að láta nú eftir sér og þora að gera það sem okkur langar til.  Er einhver þarna úti sem þig langar að segja að þú elskir?  Það er allt í lagi að viðkomandi viti það, –  þó hann/hún elski þig ekki til baka (ekki ástfangin) – þá ert þú a.m.k. búin/n að segja þitt.  Svo getur verið að okkur langi að segja vinum eða vinkonum hversu ómetanleg þau eru okkur og hvað við elskum þau mikið.  Nú eða börnum – foreldrum o.s.frv. –  Það er alltaf svo notalegt að heyra: „Ég elska þig“  –  mér hlýnar a.m.k. við það .. og látum nú elskuna flæða eins og kókósmjólk úr öllum okkar brotnu hjörtum,  því að engin/n hefur nú gengið þessa lífsgöngu án einhverra sára sem hafa skapað glufur í hjartað,  hvernig væri nú að nota þær til góðs og hleypa kærleikanum út  – í stað þess að vera í þessari brynju? –
Látum nú þau sem farin eru kenna okkur – lærum af þeim – og auðvitað lifa þau enn í okkur, svo við höfum tækifæri að ljúka því sem þau hefðu e.t.v. viljað.
Það eru sem betur fer ekki öll sem fara full eftirsjár.  Ég átti stelpu sem lifði hugrökk, fylgdi hjarta sínu og lét ekki stöðva sig. –  Hvernig hún lifði var í sínu lífi,  er mér,  og mörgum fleirum  innblástur í okkar lífi, alla daga.
Það er ekki síst hennar vegna að ég, móðir hennar, þori í dag að vera ég sjálf, með opið hjarta, þori að elska – þrátt fyrir að vera auðsæranleg og þrátt fyrir nektina sem felst í því að missa. Því ég hef uppgötvað þann sannleika að kærleikurinn er uppspretta sem eykst við notkun.
Hræðumst aldrei að elska, og vonandi mun þessi elska einhvern tímann verða ráðandi afl í heiminum. –
Það byrjar heima –  í hjartanu þínu.
Þakka þér fyrir að hafa gefið þér tíma til að lesa. ❤
candle-heart-hands

Unglingarnir og ruslið í herbergjunum – lausn – djók! …

Ég skrifaði – lausn – djók, vegna þess að þetta er eitt af vandamálum sem flestir, ef ekki allir foreldrar ræða um, röfla yfir, – rífa hár sitt yfir, rífast við unglinginn yfir o.s.frv. –

Hversu mikil orka, óánægja, vanlíðan o.s.frv. ætli fylgi þessum samskiptum út af ruslinu eða frágangi í herbergjum unglinga? –

Eru unglingar kannski bara eins og veðrið? –  Eitthvað sem ekki er hægt að breyta?

Hverjum líður illa í fatahrúgunum og ruslinu? –  Er það þeim sem búa í herbergjunum eða foreldrunum? –   Hefur það sem hingað til hefur verið gert virkað? – Að láta öllum illum látum, hóta, kvarta o.s.frv. virkað? –  Hefur það borgað sig? –  Eru allir sáttari?

Ég held að þetta sé svolítið sem þarf meira æðruleysi við.  Það er mjög algengt að unglingaherbergi séu á hvolfi. Ég man eftir móður sem hringdi einu sinni í mig, – þegar ég var aðstoðarskólastjóri.  Barnið hennar var fyrirmyndarnemandi, – stóð sig með prýði í skólanum, og taldi hún m.a. að ég hefði þar haft ítök.  Hún bað mig s.s. að ræða við barnið hennar (segi engin nöfn né kyn) um umgengnina heima. – Þessi fyrirmyndarnemandi í skóla gekk s.s. um herbergið sitt eins og það væri svínastía.

Ætli þetta sé ekki bara eitthvað þroskaskeið? –  Flestir virðast vaxa upp úr þessu og geta átt þokkalega snyrtileg heimili,  nú og ef að það er rusl,  hverjum líður illa með það.  Hversu mikið rusl þarf að vera til að okkur fari að líða illa og finnast við vera löt og ómöguleg? –

Sumir hafa heimilin alveg á hreinu, – hvert einasta rykkorn pússað,  en líkami þeirra er í rusli. –  Hver er að böggast í þeim.  Kannski er það pabbinn sem er að böggast í unglingnum? –  eða mamman? –   Kannski er þeirra eigið líf í messi, ekkert endilega líkaminn, eitthvað annað – eins og fjármálin, tilfinningarnar, samskiptin.  Hvað ef það stæði einhver á öxlinni á þeim og heimtaði að þau tækju nú til í sínu lífi? –  Þau væru bara sóðar,  tilfinninga- eða fjármálasóðar? –

Er það rétta hvatningin?

Líklegast ekki.  Ég held nefnilega að til að skilja hvort annað, þurfum við að líta í eigin barm.  Fæstir eru með „allt á hreinu“ alls staðar. –   Svo kannski er allt í lagi að slaka á.

Ég held að best sé að viðurkenna fyrir sjálfum sér hvað er í gangi,  og þá að tala út frá eigin brjósti.  Ekki segja við unglinginn.   „Þú ert algjör letingi, – farðu nú að þrífa hjá þér, – þetta er ekki hægt lengur.“ –   Heldur, viðurkenna: „ég er svo viðkvæm sál, ruslið hjá þér pirrar taugarnar mínar,  ég á svo bágt með að hafa svona á heimilinu okkar, – ég er alinn þannig upp að óreiða fer í taugarnar á mér.  Herbergið þitt er hluti af heimilinu og mér finnst ég missa tökin, þegar hluti heimilisins er í óreiðu.“  eða eitthvað í þessum dúr.

Það er í raun það sem við erum að segja.  Við trúum ekki að unglingnum líði vel í óreiðunni, – af því að okkur líður ekki vel í henni. –  Við erum samt búin að koma því þokkalega til skila að honum eigi að líða illa, og því er hann væntanlega kominn með slatta af samviskubiti að vera ekki að taka til eða ganga frá. –

Samviskubit er ekki rétta hvatningaleiðin.

Það er alveg sama lögmál hvað þetta varðar og lögmálið t.d. að halda líkama sínum heilbrigðum og hreinum. –  Það er vegna þess að við elskum okkur, og viljum bjóða okkur sjálfum upp á næringu /atlæti sem er okkur gott. –   Að elska sig er að taka ábyrgð á okkur. –  Ef við erum t.d. umhverfisverndarsinnar, – þá hugsum við vel um jörðina, heiminn. Hellum ekki eitri niður í jarðveginn og minnkum ruslið. –  Ef við gætum elskað nánasta umhverfi okkar og líkama okkar eins og jörðina (í anda umhverfisverndarsinnans)  þá færum við að ganga betur um okkur sjálf og virða. –

Það er því mikilvægt að huga að forsendunni – „af hverju ætti ég að taka til?“ – hvort sem það er í líkama mínum, sálinni, herberginu eða heiminum? –

Jú, vegna þess að mér þykir vænt um og ber virðingu fyrir líkamanum, sálinni, herberginu/heimilinu, o.s.frv. –   og ég ber sjálf/ur ábyrgð á þessu öllu saman.  Ég tek til fyrir sjálfa/n mig fyrst og fremst.

Er kannski sama lausn á þessu herbergjavandamáli og öllum öðrum vanda heimsins? –

Er lausnin að elska meira?  Elska meira umhverfi sitt, elska sjálfan sig meira?   Og munum það að elska sig er að taka ábyrgð á eigin heilsu og hamingju? –

Lausnin komin?   eigum við ekki bara að slaka á og leyfa öllum að læra sína lexíu.  Kannski að nálgast unglinginn með kærleika, – eins og áður sagði, útskýra hvað getur gerst ef hann missir tökin á umhverfi sínu, – hann hættir að finna fötin sín, þau blandast við hreinu fötin,  pizza-afgangar fara að mygla í kössunum, og bréfaruslið utan af sælgætinu safna ryki. –

Það er í raun alveg eins og þegar óreiða er í sálinni.  Ef við söfnum upp vandamálunum, þá eru þau eins og sælgætisbréf sem safna ryki, – og fara jafnvel að lykta.  Þessi ytri óreiða fer að valda innri óreiðu, – og stíflum,  því að eitthvað festist í rykinu. –

Við finnum það sjálf, þegar að við höfum tekið til í fataskápnum okkar, geymslunni, erum nýbúin að skúra o.s.frv. – að það hefur góð áhrif á andann.  –   Það virðist vera eitthvað samhengi þarna á milli. –

Herbergið hjá unglingnum er því tákn fyrir svo margt, – líka í okkar fullorðinslífi, – og ég játa mig alveg seka um að vera stundum eins og unglingurinn með fatahrúgurnar í sófanum í herberginu.

Það er alltaf leiðinlegra að gera það sem við EIGUM að gera, heldur en það sem við gerum fyrir okkur sjálf, að eigin frumkvæði, eða vegna þess að við elskum okkur svo mikið og virðum að við viljum gera það.  Það er því sjálfsvirðing og virðing fyrir umhverfinu sem þarf að vera „vakinn“ að allri tiltekt.  En ekki það að við „þurfum“ eða „eigum“ að gera það. –   Eins og við „Þurfum“ að fara í megrun,  ef við erum of þung.

Þegar við grennum okkur, þarf það að vera á réttum forsendum,  vegna heilsunnar, vegna þess að við viljum að okkur líði betur, vegna þess að við berum ábyrgð á heilsu okkar og hamingju. –

Að öllu þessu sögðu, er aðalmálið „Að láta sér líða vel“ …

Ef að einhver á herbergi, og honum líður virkilega vel í ruslinu, á ekki bara að láta hann/hana í friði? –  Ef einhver er  feit/ur grönn/grannur og honum/henni líður vel á nokkur að vera að skipta sér af því?   Að því undanskildu að viðkomandi sé að valda sér eða öðrum skaða?  …

Þetta er engin lausn, en „food for thought“ – í þessu „taktutilíherberginuþínuunglingurvandamáli“ …

p.s. ég var alin upp hjá einstæðri móður með fimm börn, – mamma hafði þann háttinn á að við tókum allt í gegn á laugardögum, og þá skiptum við með okkur verkum. – Allir tóku þátt og að sjálfsögðu tókum við herbergin okkar.  Ég held að í raun sé þetta skásta (og skemmtilegasta) ráðið sem ég veit.  Það var alltaf ákveðin stemming í því, þegar allir voru á fullu.  Og svo þegar húsið var orðið skínandi í lokin. – Það var þessi „samsköpun“ eða „co-creation“ að gera saman.

 

 

 

MessyRoom blog

Það „skemmtilega“ verður leiðinlegt þegar við fáum of mikið af því ….

Ef við borðuðum uppáhaldsmatinn okkar á hverjum degi, þá fengjum við eflaust leið á honum.  Ef við værum í Disney World á hverjum degi, værum við eflaust komin með upp í kok. Ef við værum á sólarströnd alla ævi fengjum við nóg af sólinni. –

Af hverju er heimurinn fjölbreytilegur? –  Jú, það er skemmtilegra. –

Þetta er eins og með söguna af fólkinu sem dreymdi um að sigla skútu í Karabíska hafinu, horfa á höfrunga stökkva og baða sig í sjónum.  Hljómar dásamlega ekki satt?

Svo fékk fólkið tækifæri,  – þetta var alveg eins og draumurinn,  fyrsti dagurinn leið, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva. – Svo kom dagur tvö, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva. – Svo kom dagur þrjú, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva.- Svo kom dagur fjögur, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva, ….. svo kom dagur 21, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva.

Já, svona leið tíminn, og þau voru farin að láta sig dreyma um svalara loftslag, gamla góða Ísland. –  Það er nefnilega hægt að fá nóg af því „góða“ eða „skemmtilega“ – en það skemmtilega felst oft í tilbreytingunni.  –  Að njóta líka þess sem við erum að gera núna, en ekki vera að óska okkur í burtu.

Svona almennt að hamingjunni, þá skrifaði ég eftirfarandi þegar ég vaknaði í morgun:

Ég sagði við einn átján ára ungling í gær: „þegar þú velur námsgrein í háskóla spyrðu þig: „hvað gerir mig hamingjusaman?“ í stað þess „hvað gefur mesta peninga?“…

Hamingjan innifelur það að lifa lífinu lifandi. Ekki bara að þrauka t.d. á milli utanlandsferða, eða að þrauka hversdaginn á milli helga. Hamingjan er að sjálfsögðu leiðin, en ekki bara ákvörðunarstaður eða staðir. Ekki nóg að vera hamingjusöm ef, eða þegar… þá eyðum við allt of miklu af lífinu í biðröð eftir hamingjunni. Að iðka þakklæti fyrir það sem við höfum núna, veitir okkur aðgengi að gleðinni núna, einhvers konar VIP passa. Að njóta einfaldleikans, að njóta andardráttarins, að njóta núsins. Það þarf ekkert til nema breytta hugsun. En það er hugsanamótandi að iðka þakklæti, svo við erum komin með tæki í hendurnar! 

Tækið er s.s. að iðka þakklæti eða ástunda.  Það er gert með því að meðvitað nota orðið takk meira (takk er töfraorð) og þakka fyrir það sem við eigum og erum nú þegar.

Það sem þú veitir athygli vex.

Við lítum í kringum okkur og sjáum dásemdir, eins og tré, fugla, börn … kannski höfrunga? 🙂 ..

 

 

Vanefndir á hjúskapar-eða sambandsáttmála … hvað þá?

„Vilt þú með Guðs hjálp reynast henni/honum trúr/trú, elska hana/hann og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur ykkur að höndum bera? .. “

Þessu játa brúðhjón þegar þau eru gefin saman að kristnum sið. –

Heitið er trú – ást – og virðingu, og Guð beðinn um að hjálpa til!..

Hvort sem er um hjúskap að ræða, eða að par velur að eiga í sambandi, þá er kominn einhvers konar samningur.  Formlegur eða óformlegur og á ekki að skipta máli hvort hann er gerður fyrir Guði eða mönnum.

Þetta er samningur byggður á heiðarleika.

Með vanefndum,  jafnvel ítrekuðum í einu eða fleirum af þessum atriðum, er samningur að sjálfsögðu rofinn. –

Það er því sá/sú sem rýfur samninginn  í raun sá eða sú sem er búinn að leggja drög að skilnaði. –   Það er alls ekkert alltaf þannig að sá aðili sem segir upphátt:  „Ég vil skilnað“ – eigi frumkvæði að skilnaði. Það er í raun sá aðili sem virðir ekki samninginn um trúnað – virðingu og ást.

Það er gott að hafa þetta á hreinu, – því að stundum er það þannig að sá/sú sem ákveður að fara, og er í mikilli sorg,  – er spurð/ur,   „af hverju ertu að syrgja, ákváðst þú ekki að fara?“ –   Stundum lifir fólk saman – í trúnaðarbresti, í virðingar-eða ástleysi. – Samningur er brotinn, sambandið er brotið, en fólk situr sem fastast – og oft mjög ósátt,  annað hvort annað eða bæði. –

Það er gott að huga að þessum atriðum sáttmálans.

Ert þú að virða maka þinn?

Ertu heiðarleg/ur gagnvart maka þínum?

Elskar þú maka þinn? –

Heiðarleiki er undirstaða hvers sambands, – heiðarleiki gagnvart sjálfum sér og maka sínum.   Heiðarleikinn er bjargið sem byggja má á, – um leið og hann er ekki til staðar þá er byggt á sandi og það mun óhjákvæmilega fjara undan. –

Sannleikurinn er stundum sár – en aldrei eins sár og lygi.-

Þegar við ljúgum að makanum upplifir makinn höfnun.

Sjálfsblekking og afneitun er líka lygi,   við ljúgum að okkur sjálfum.

Við upplifum við að við séum að hafna okkur sjálfum.

Við þurfum öll að stunda heiðarleika, bæði gagnvart öðrum og okkur sjálfum.

Við eigum öll rétt á heiðarleika í okkar garð og aðrir eiga rétt á heiðarleika frá okkur.

Heiðarleiki krefst hugrekkis.

Hugrekkis, vegna þess að við erum logandi hrædd við hrædd við sársaukann sem við völdum við afhjúpun sannleikann, – en þó sannleikurinn sé sár, er hann frelsandi.

Það eru oft átök að losna úr lygavef kóngulóarinnar. –

web.thumbnail

Ég hef talað um að lífið sé ævintýri, og í ævintýrum er barátta góðs og ills allsráðandi. Eitt af þessu illa eru lygavefir, – sem auðvelt er að flækja sig í, og því meira sem við veltum okkur í vefnum – þess fastari verðum við.  Þess fyrr sem við erum heiðarleg við okkur sjálf og aðra,  því betra.

Sannleikurinn er sverðið sem sker sundur lygaþræðina. –

images

 

 

 

 

Ertu krónískur kvartari? …

Af hverju kvörtum við? –   Jú, við erum óánægð með eitthvað og erum að láta það í ljós. – Það er síðan spurning hvort að kvörtunin okkar er til þess að laga vandann, eða bara til að ergja sjálfa/n sig og annað fólk, því krónískir kvartarar geta tekið á taugarnar hjá öðrum.

Það er því spurning hvort við séum að leggja góð eða vond lóð á vogarskálar alheimssálarinnar.

Ef við ætlum bara að kvarta og kveina undan því,  – en ekkert gera í því,  þá er betra að sleppa því og skipta um fókus. –  Kannski bara að líta inn á við, og spyrja sig hvort það er eitthvað í eigin lífi sem er í raun rótin að óánægjunni, – og laga þá það sem er hið innra.

Vera sjálf þessi breyting sem við viljum sjá í heiminum. 

Þekkir þú króníska kvartara – eða ert þú krónískur kvartari? –

Það er til bati …..

10423870_872642049417817_168978807461777169_n

Á 100 km hraða í ranga átt ….

Ég hlusta gjarnan á Esther Hicks – og fyrirlestrana hennar. –

Það eru margir sem leita til hennar og fá ráð, – og margir sem vilja breytingar í sínu lífi.

Ein af dæmisögunum hennar er um lestina sem er að fara á 100 km hraða í ranga átt, og stundum má líkja því við þá stefnu sem við erum að taka í lífinu. –  Þegar lestarstjórinn áttar sig, eða vaknar upp við að hann er að stefna í ranga átt, þá gerist það ekki á einu augabragði að hann geti breytt frá norðri til suðurs. –  Hann þarf að bremsa, og hægja á lestinni.  Svo stoppar lestin, síðan fer hún af stað hægt en ákveðið og kemst síðan á fulla ferð í rétta átt. –

Það getur verið þolinmæðisvinna að gera stórar breytingar í lífinu. – Þó við finnum ekki strax fyrir þeim, – þá vitum við að við erum að gera rétt,  um leið og við byrjum að bremsa. –

Breytingar krefjast oft þolinmæði og breytingar krefjast þess að við trúum að þær virki. – Það er gott að setja stefnuna. –

Þegar lestin fer í ranga átt, – erum við stöðugt ósátt, leið, pirruð,  reið o.s.frv. –  Það eru fáar stundir sem við upplifum sátt, gleði, ást .. o.s.frv. –   Um leið og við áttum okkur á leiðinni, – hvert við viljum stefna, – og förum að bremsa okkur niður,  förum við að upplifa eins og brot af sátt, gleði, ást …   en stóru skammtarnir koma ekki fyrr en við erum komin af stað í rétta átt. –

Þegar fólk er í sjálfsræktinni, og hugsar „það er ekkert að gerast“ – hjarta mitt er ekki að opnast, – ég er ekki að finna gleðina o.s.frv. –  þá þarf það að gefa sér tíma.  Lestin er að bremsa, – svo stoppar hún og svo fer hún hægt af stað í nýja átt. –

Ég hef lengi sagt að til að breyta þurfum við að taka ákvörðun, – um að vilja breyta. Breytingin er þá hafin um leið og við byrjum að hægja ferðina. –

Við þurfum að gefa okkur tíma, gefa okkur þolinmæði, gefa okkur tækifæri til breytinga. Ef að við finnum ekki breytingar strax, er svo mikil hætta á að við bara segjum, „uss þetta er ekkert að virka“  .. og gefum bara aftur í botn –  í öfuga átt. –

Ímyndaðu þér að þú sért að segja á fullu og hratt – í takt við hljóðið í lestinni:

„Ég get ekki.. ég get ekki…ég get ekki….“  en svo áttaru þig og segir hægar „É g  g e t  e k k i…… é g  g e t  e k k i….  é  g   g  e  t   e  k  k  i …..“  þar til þú stöðvar alveg, dömpar af þessu „ekki“  og byrjar  „É g  g e t …..é g  g e t …. “  … „Ég get…ég get… ég get“ .. og svo ertu komin/n á fulla ferð áfram í rétta átt. –

high-speed-manufacturing

Elsku þú … þú ert nóg.

Elsku þú, – já þú sem fæddist í þennan heim.  Þú ert verðmæt manneskja.

Þegar þú varst nýfædd/ur varstu bara örfá kíló, – núna ertu miklu fleiri kíló en það stjórnar ekki verðmæti þínu. –

Það er rangt að verðmeta manneskju eftir tölum á vigt. –  Verðmæti manneskju verður heldur ekki metið eftir tölum á einkunnaspjaldi.  Verðmæti manneskju verður ekki metið eftir dugnaði. – Verðmæti manneskju verður ekki metið eftir fjölda barna, eða afrekum eða mistökum barna. –  Verðmæti manneskju verður ekki metið eftir hegðun foreldra/systkina o.s.frv. –

Hver og ein manneskja er einstök – og þú ert einstök manneskja.

Þegar við trúum að við séum verðmæt, og virðum verðmætið þá förum við vel með þá gjöf sem lífið er.  Við þökkum fyrir þessa gjöf. –  Við erum ekki vanþákklát fyrir lífið.

Mörgum er talið trú um að þeir þurfi að vera í ákveðinni þyngd til að vera verðmæt, þurfi að skila ákveðinni einkunn til að vera verðmæt. Nú eða sýna dugnað í verki til að vera verðmæt. –

Þetta getur orðið það íþyngjandi, að við trúum að við  gerum aldrei nóg, eða erum aldrei nóg. –

Elsku þú – þú ert nóg.  Ekki vegna þess að þú gerðir eða sagðir eða  hugsaðir eða keyptir eða varðst eða skapaðir eitthvað sérstakt.  

Heldur vegna þess að þú varst það alltaf! .. 

You-Are-Enough-with-URL-700x466