Uppskrift að betra lífi ..

1.  Ástundum þakklæti – því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs.

2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði,  og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði.

3. Veljum góða andlega næringu,  við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð andleg næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. –  Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. –

4. Forðumst að vera fórnarlömb,  klæðum okkur ekki í „fórnarlambsbolinn“ á morgnana heldur „sigurvegarabolinn“ –  berum höfuðið hátt.

5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum – gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd.  Eymd er valkostur.

6.  Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum „já takk“ að lífið komi til móts við okkur.  – Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið.  Þegar við vitum allt – t.d. hvernig við eigum að ná árangri – en við trúum ekki á eigin árangur.  Trúðu á þinn mátt og megin.

7.  Veitum athygli og virðum það góða,  okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur.  Að veita athygli er svipað og að virða,

8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða  þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum.  Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur.  Okkur skortir ekkert.  Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.

9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar – fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir,  útiveru,  fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.

10.  Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.

11. Verum heiðarleg og sönn,  gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu.  Tölum út frá hjartanu,  það þýðir að segja ég en ekki þú. „Mér líður svona þegar“ .. í stað þess að ásaka „Þú ert ..“

12.  Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar.  Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum.  Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.

13. Lítum okkur nær.  Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann.  Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.

14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu  – sem okkur líður illa í – hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós.  Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.

15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. – Ekki vera of stolt,  –

15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur,  virðum innri frið.

16. Elskum óvini okkar – óttann og skömmina, – „Kill them with kindness“ – það þýðir að við eyðum þeim með elsku.  Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. – Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum – og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? –   Stjórnsemi – það að treysta ekki er að óttast. „Faith or fear“ –   Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna.  Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja – og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.

Biðjum um æðruleysi – til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt – sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta.  Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. –  Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.

Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það – því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur – ekki fyrr. 

Lífskrafturinn er kærleikur,  allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska,  hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. –  Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu,  við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.

Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.

Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, – verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.

Lifum heil. og höfum trú.  

1185179_423218941120300_1002824657_n

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n

Þroski – aldur – þroskaferli – sorgarferli

558544_565506246819666_1881197736_n
Er sammála þessu – nema upphafsorðunum, „as you get older“ – vegna þess að þroski fylgir ekki alltaf aldri. – Hef mætt ungu fólki með mjög mikinn þroska og eldra fólki sem er staðnað. – Setningin „aldur er afstæður“ gildir ekkert bara þegar fólk er í ástarsamböndum þar sem aldursbilið er eins og eitt stykki unglingur eða meira. –

Þroski kemur með lífsreynslu og hvernig við vinnum úr henni. Það eru ekki allir sem læra né þroskast í lífsins skóla, við verðum að vera viðstödd til að læra. Að vera ekki viðstödd þýðir að við flýjum, afneitum eða deyfum tilfinningar okkar. Þroski næst með því að virða tilfinningar okkar. (Virða hér getur líka staðið fyrir að viðurkenna tilfinningar eða sjá þær, „respect“ ). Ef við gerum það ekki er hættan á að við förum í flótta, afneitun, fíknir o.s.frv. – þá verður ekki þroski.