Hugar-og líkamsvirðing – hvað er það?

Virðing =  verðmæti? 

Virðing =  að virða fyrir sér?

Skoðum aðeins rót enska orðsins respect, en það þýðir einmitt að virða fyrir sér, eða líta á.  Taka tillit til.  (Til-lit  er að líta til).

Sjá:

The word respect from the latin word respicere meaning „look at, regard, consider“. Respicere itself is a combination of two words RE „I“ + SPECERE „Look“, hence the word for glasses „spectacles“.

(þetta fékk ég á þessum tengli)

Virðing, eða að virða, er því að sjá, veita athygli – og svo mætti segja að vera vakandi, eða með meðvitund. MEÐ VITUND vs ÁN VITUNDAR.

Virðing felst þá í því að veita athygli, en andheiti athygli er t.d. tómlæti. – 

Jákvæð athygli er yfirleitt það sem flestir sækjast eftir. 

Í öðru sæti er það neikvæð athygli.

Tómlæti eða að fá enga athygli er svipað og að vera ósýnileg. Þar kemur aftur inn, það að sjá.

Við viljum öll vera séð, en ekki týnd, eða ó-virt –

Versta tilfellið er þegar við erum týnd sjálfum okkur.  Þegar við veitum sjálfum okkur ekki athygli, sjáum okkur ekki = VIRÐUM okkur ekki. –  

Kannski erum við að horfa á okkur í gegnum gleraugu annarra, en höfum týnt okkar eigin gleraugum og höfum því ekki sjálfsvirðingu. –

Þetta er svolítill orðaleikur, en segir margt.

Þegar fólk talar um að vera í sjálfsleit, þá þarf það fyrst og fremst að byrja á að finna sín eigin gleraugu.  Því að það þekkir sig ekki í gegnum aðra, eða á ekki að gera það. –

Yfirskrift pistilsins var hugar- og líkamsvirðing hvað er það?

Mikið hefur verið rætt um líkamsvirðingu undanfarið,  og áhersla á að allir líkamar séu virtir.   Já, tek undir það; sjáum og verum séð.

Hvernig virðum við okkar eigin líkama? –

Við tölum fallega til hans, hugsum fallega til hans, nærum hann á hollri fæðu, ofgerum honum ekki, þrengjum ekki að honum með of þröngum fatnaði eða skóm, ofgerum honum ekki með vinnu sem ofbýður honum.-  Hlúum að honum, verndum og styrkjum. –  Við veitum honum athygli.  Við hlustum þegar hann kvartar undan verkjum og reynum að skilja hvað hann er að segja okkur. 

Ef við erum með vöðvabólgu, magabólgu eða háþrýsting, er ekki líkaminn okkar að segja okkur að slaka á? –  

Við óvirðum líkamann með ýmsu.  Við óvirðum hann með mat sem hann þolir illa, með of miklu áfengi, – eða í raun með hvers kyns óhófi eða vanrækslu.  Við tökum ekki til-lit til hans. – (ég skipti orðinu tillit viljandi).

Líkaminn á skilið virðingu okkar, hann er farartækið okkar og hulstur sem gerir okkur kleift að lifa sem manneskjur.

Að sama skapi á hugurinn skilið virðingu, hugur og sál.  Allt sem við köllum andlegt. 

At-huga.  Gæta að huganum? –  Við virðum (fyrir okkur)  hugann.

Við verðum að gæta að með hverju við nærum hugann, hvað við bjóðum honum upp á. 

Eckhart Tolle talar um að maðurinn næri sársaukalíkama sinn. 

Sársaukalíkami eða „Pain body“ eins og hann kallar hann – er sá hluti okkar sem þjáist.  Það er sársauki okkar, reiði, ótti, gremja og óánægja.  Það er einhvers konar skuggatilvera okkar sem hefur öðlast sjálfstætt líf.

Þetta skuggalíf minnir mig á blómið í Litlu Hryllingsbúðinni, sem kallar í sífellu „GEF MÉR“ ..

Skuggaveran vill taka yfir og fitna. Hún vill fá ATHYGLI eins og aðrar verur.   Hún fitnar á því sem er óhollt, hún fitnar á því sem við flokkum oft undir fíkniefni, eða það sem við nærum fíkn okkar með. – 

Fyrirsagnir um skelfingu selja betur en fallegar fréttir. 

Fólk talar um að það eigi ekki líf, ef það getur ekki reykt sígarettuna sína, drukkið kókið sitt eða borðað kokteilsósuna. 

Það er ekkert skrítið.  

Einhver „verðlaunar“ sig með því óhollasta sem hann veit.   Hvern er hann að verðlauna? –  Er hann að verðlauna sig eða þennan sjálfstæða sársaukalíkama?

Er hann ekki að virða (sjá)  ljósveruna, þessa sem vill vera heilbrigð?  –

Við erum flókin fyrirbæri og eigum ekki að fara í kleinu eða skömm yfir að næra skuggaveruna, eða sársaukalíkamann.  Þá viðhöldum við vítahringnum, því að skömmin er uppáhaldsfæða sársaukalíkamans.

Aðal málið er að ganga vakandi um þennan heim,  VIRÐA SIG ..   sjá dýrðarveruna, ÞIG –  veita henni athygli og næra.  Eftir því sem hún tekur meira pláss og verður sýnilegri,  þess auðveldara er að virða sársaukalíkamann ekki viðlits.  Eftir því meiri athygli sem við veitum hinu góða, eftir því betra andlegt sem líkamlegt fæði við notum þess minna pláss er fyrir hið vonda. –  Þetta er ekkert átak,  þetta er bara hugarfarsbreyting.

Hvoru viljum við gefa meira pláss,  hvorn ætlum við að fóðra? –

Við höfum val.

Er fókusinn á fyrrverandi? ..

Er að endurvekja þennan pistil – en hann var upphaflega birtur í byrjun maí 2012.

Þessi pistill er skrifaður til þeirra sem hafa gengið í gegnum skilnað.

Ég er nú búin að hlusta á marga lýsa hvað þeir eru að upplifa eftir skilnað og eitt af því sem fólk er mjög upptekið af, er  hvað fyrrverandi maki er að aðhafast.  Svo ekki sé talað um ef að hann er kominn með nýjan maka.

Fókusinn getur í ákveðnum tilfellum orðið svo sterkur á líf fyrrverandi maka,  að eigið líf fellur alveg í skuggann, og reyndar gleymist alveg.

Ef  það sem fyrrverandi er að gera hefur ekki bein áhrif á þig,  fjárhagslega eða ef það eru börn í spilinu og hegðunin snertir þau illa,  þá kemur þér það ekkert við! ..

Annað hvort er fólk skilið eða ekki.

Situr þú heima og hugsar:  „Hvað ætli hann sé að gera núna?“ –  „Oh, nú er hann búinn að bjóða henni til Spánar“  – eða   „Æ, er hún að fara með þessum gaur á skíði“ .. „Hún gerði þetta nú aldrei fyrir mig“ ..   „Hvað ætli þau séu að gera núna?“ .. o.s.frv. –

Svo er það samviskubitsskilnaðurinn „Æ, ætli hún/hann bjargi sér“ – „Hvernig getur hún/hann reddað þessu?“ – „Rosalega er ég vond/ur að skilja við hann/hana,  ég hefði kannski bara átt að þrauka þetta“ ..

Við verðum að gera ráð fyrir að hér sé um fullorðna einstaklinga að ræða,  sem verða  að læra að vera sjálfbjarga.  Engin/n á að vera í hjónabandi gegn sínum vilja, bara af skyldurækni.  Það er í raun óheiðarleiki, og gæti líka valdið því að viðkomandi færi að vera vondur við maka sinn, vegna eigin vanlíðunar.   Það ætti að mínu mati alltaf að leita hjálpar, ráðgjafar eða að skoða orsakir þess að hjónaband er að trosna,  áður en út í skilnað er farið, og endilega áður en út í einhver hliðarspor er farið.  Það er mun dýrara að skilja en leita sér ráðgjafar,  en þegar fólk hefur tekið ákvörðun og er jafnvel búið að taka skrefið,  hjálpar það engum að lifa við samviskubit.

Ef þú ert með hugann, eða fókusinn á fyrrverandi maka, þá ertu ekki með hugann hjá sjálfum/sjálfri þér og þá ertu heldur ekki að vinna í þínu lífi, að koma því á flot á ný,  heldur stödd/staddur víðs fjarri þér. –   Jafnvel, í sumum tilfellum,  að reyna að komast (meðvitað eða ómeðvitað) upp á milli þíns fyrrverandi og nýju konunnar/nýja karlsins. –

Þetta virkar auðvitað í báðar áttir,  sá eða sú sem er komin/n í samband er stundum,  samt sem áður, upptekin/n af sinni/sínum fyrrverandi eða er stjórnað af honum/henni og það er kannski ekki sérlega áhugavert fyrir nýja aðilann í lífi hans/hennar.

Því fyrr sem þú sættir þig við að þinn/þín fyrrverandi er farin/n að lifa sínu lífi, getur þú farið að lifa ÞÍNU lífi, og það skiptir ÖLLU máli. –

Athugaðu líka eitt;  að ef að þið eigið börn saman, hlýtur þú að óska fyrrverandi maka hamingju, – vegna þess að börnin græða alltaf á að eiga hamingjusama foreldra.

Pabbi og mamma eiga kannski ekkert voðalega auðvelt með að vera glöð svona fyrst eftir skilnað,  og jafnvel þó að sumir nái sér í annan félaga fljótlega eftir skilnað,  þýðir það ekki að sárin séu ekki enn að gróa. –

Að óska öðrum velfarnaðar og hamingju,  á aldrei að skaða okkar eigin hamingju.  Ef að hamingja annarra skyggir á okkar hamingju,  þá þurfum við að íhuga okkar gang. –

Allir eiga skilið að njóta farsældar.

Þó að par eða hjón skilji, þarf það ekki að þýða að þau séu vond, eða annar aðilinn vondur.  Það getur þýtt að þau hafi ekki kunnað á samskiptin sín á milli. Hafi þroskast í sitt hvora áttina eða eitthvað álíka.  Hafi e.t.v.  ekki kunnað að veita hinu athygli, – og ekki kunnað að veita sjálfu sér athygli.

Kannski fær makinn meiri athygli eftir skilnað, en nokkru sinni í sjálfu hjónabandinu? –   Hvað er það?  Var ástin þá á eigingjörnum forsendum eða var hún skilyrðislaus? –

Hver og ein manneskja,  hvort sem hún er fráskilin eða ekki, ber ábyrgð á sinni hamingju.  Það getur vel verið að hún sé niðurbrotin, orðin lítil í sér eftir átök og árásir stjórnsams maka, – að hún komi viðkvæm og veik út úr brostnu hjónabandi,  en þá er vinnan að gera sig heila/n.  Ekki með því að standa í hefndaraðgerðum gegn fyrrverandi,  eða vera með hugann  hjá honum sí og æ,   heldur með því að setja fókusinn á sjálfa/n sig. –

Fullt af fólki lagði leið sína í Bauhaus þegar það opnaði, – hvert erindi þessa fólks var kemur okkur nákvæmlega ekkert við. Við gætum eytt tíma okkar og orku í að dæma þetta fólk og pæla í erindi þeirra,  en hvað hefur það upp á sig? – Kemur okkur eitthvað við hvað annað fólk er að gera á meðan það er ekki að beita ofbeldi eða fremja einhver hryðjuverk? –

Það sem skiptir aðal máli er ekki hvar hinir eru, eða hvað þeir eru að gera – heldur hvar við sjálf erum staðsett í okkar lífi. – Njótum þess að vera þar sem við erum, á okkar stað og í okkar tíma.

Skilnaður hefur mismunandi aðdraganda, hann getur komið okkur algjörlega í opna skjöldu,  eða fólk hefur lengi verið að íhuga skilnað.  Hann getur komið í friði, þ.e.a.s. hjón finna að sambandið er kulnað og þau treysta sér ekki til að blása lífi í það á ný,  eða hann getur komið eins og stormveipur,  algjört áfall fyrir annan aðilann. –

Aðdragandinn getur verið enginn eða langur, alveg eins og ef að um dauðsfall væri að ræða.   Hvernig sem hann ber að höndum, fylgir honum sorg og sorgarferli,  það þarf að fara í gegnum það ferli,  væntanlega sárar tilfinningar eins og höfnun, reiði, doða, afneitun … en það er aðeins með því að fara í gegnum þessar tilfinningar sem við náum þroskanum. –

Sá sem er þroskaður fer líka að skilja það að dómharka eða hefnd virkar helst á þann sem hana ber í brjósti. –  Það gerir hjartanu ekki gott. –

Það er því best að leyfa tilfinningunum að koma,  fara í gegnum þær,  kveðja þær og blessa, og um leið sinn fyrrverandi  og fara svo að lifa SÍNU lífi. –

Hvað ef þú segir „Týpískt fyrir mig“ .. þegar jákvæðir hlutir gerast í lífinu?

Ég var að hlusta á ákveðna lífsspeki,  heimsfílósófíu eða hvað sem á að kalla það.

Hún er sú að við þurfum ekki að skapa drauma okkar,  þeir séu þegar skapaðir, það eina sem við þurfum að gera sé að leyfa þeim að rætast.

Getum við tekið undir það?

Ég held að þarna sé ekki aðeins lítið sannleikskorn, heldur mjög stór sannleikur.

Flestir átta sig nefnilega á því,  þegar farið er að skima eftir hindrunum í að ná árangri,  að þær hindranir séu þeir sjálfir. – Þ.e.a.s. að hindranirnar séu innra með okkur.

Úrtöluraddir, hvort sem þær eru að utan eða innan verða alltaf okkar eigin,  því að það þarf okkur sjálf til að samþykkja þær. –

Ítrekað horfir maður á myndbönd af fólki sem hefur heyrt einhvern segja, jafnvel lækninn sinn, eitthvað á þá leið að það geti ekki, og muni aldrei geta eitthvað. – Meira að segja eru sumir sem hafa lamast, en ná ótrúlega fljótum bata, ekki síst vegna jákvæðni og ákveðni í bland við læknavísindin, – eins og hún Fanney Þorbjörg sem lenti í skíðaslysinu í Geilo. Sumir eru lamaðir andlega, og þurfa að koma sér á fætur. –

Ef við trúum að við séum óheppin,  sjáum við ekki tækifærin.

Darren Brown, sem er best þekktur sem dáleiðari og fyrir að uppræta svikamiðla, gerði þátt um fólk í heilu þorpi.   Hann kom þeim sögusögnum af stað, með hjálp fréttamanna og kvikmyndaliðs, að í þorpinu væri stytta sem kölluð var „Lucky Dog“ – Til að gera langa sögu stutta,  fóru ýmsir að trúa að styttan færði þeim heppni og hvað gerðist? –  Jú,  fólkið fór að leyfa heppninni að vinna með sér, fór að trúa að það gæti verið heppið, og varð reyndar „heppnara“. –  Einn náunginn taldi sig ekki heppinn,  en Darren Brown og tökuliðið sýndi fram á að hinn óheppni veitti ekki athygli því góða sem honum var fært.

Þeir gerðu meira að segja tilraun á honum.  Sendu auglýsingabæklinga heim og inn á milli settu þeir skafmiða,  ef hann hefði skafið af honum hefði hann unnið sjónvarp. –  Einhver ræddi við „óheppna“ manninn daginn eftir og hann hefði ekki skafið af skafmiðanum eða séð hann. –

Þeir gerðu ýktari tilraun og settu 50 punda seðil á stéttina sem maðurinn var vanur að ganga, – hann gekk fram hjá honum.   Að lokum stilltu þeir upp á bíl stóru skilti þar sem þeir settu nafnið hans og „Call this number“ –   Ég held að bíllinn hafi keyrt þrisvar fram hjá manninum áður en hann áttaði sig á því að það var verið að tala til hans. –

Þessi maður lokaði á sín tækifæri,  hann leyfði ekki draumum sínum að rætast.

Þessu var þó snúið við, – og mæli ég með að fólk horfi á þennan þátt á Youtube. Smelli honum hér í lok pistilsins, ásamt öðru efni.

Við höfum eflaust flest heyrt að við sköpum okkar heim. – E.t.v. er hann þegar skapaður,  en við sjáum hann ekki, gefum honum ekki tækifæri vegna þess að við erum vantrúuð á hann og við höfum innra með okkur gamla hugmyndafræði að við séum t.d. ekki heppin. –

Hvað segjum við þegar við erum óheppin? – „Týpískt fyrir mig“ .. og það hljómar auðvitað eins og hin týpíska eða hinn týpíski þú sé bara að upplifa endalausa óheppni. –  Fæstir segja „Týpískt fyrir mig“ – þegar góðir hlutir gerast. – Halda frekar að það sé jafnvel undantekningin. –

Í stað þess að segja „Mig langar að vera áhrifaríkur skapari “ –  segjum við   „Mig  langar að vera áhrifaríkur „leyfari“. –      Andheiti leyfara er hamlari. –

Leyfari þess að láta drauma mína rætast.  Láta það sem þegar er skapað njóta sín. –

Við þurfum að losa um þessar innri hömlur, úrtöluraddir, hindranir og stíflur. –

Þær eru e.t.v. orðnar býsna þéttar,  eins og stífla eða varnargarður sem stöðvar flæði árfarvegs. –  Við verðum að losa þessa stíflu stein fyrir stein. –

Steinarnir eru gamlar hugsanir sem eru orðnar að stíflu.  Gömul skömm sem situr ef til vill eins og stífla og virðist óbifanleg.   (Munum þá eftir „Trixinu“  að skömm er losuð með því að tala um hana, hún þolir það engan veginn, því með því að tala um hana minnkar hún!) ..

Hugurinn okkar er svo magnaður og við erum mögnuð,  við þurfum bara að leyfa okkur að vera það. –  Við erum öll stjörnur  (að minnsta kosti stjörnuryk)  og það er meira að segja vísindalega sannað! –

Þess vegna er það í eðli okkar að skína. –

Leyfðu þér að skína. –

“The atoms of our bodies are traceable to stars that manufactured them in their cores and exploded these enriched ingredients across our galaxy, billions of years ago. For this reason, we are biologically connected to every other living thing in the world. We are chemically connected to all molecules on Earth. And we are atomically connected to all atoms in the universe. We are not figuratively, but literally stardust.”
― Neil deGrasse Tyson

Hér er eitt videó um mann sem hætti að hlusta á úrtöluraddir og leyfði:

og svo sagan um „The Lucky Dog“

Meðvirkni eða masókismi? …

Ég las eftirfarandi lýsingu á masókisma eða sjálfspíslarhvöt:

„Sjálfspíslahvöt: Að gefa upp hluta af sjálfum sér“

Þetta ofangreint er í grein þar sem  Haukur Ingi Jónasson, guðfræðingur og sálgreinir er að taka viðtal við Esther Menaker, bandarískan sálgreini –  og það sem hún segir m.a. um sjálfspíslarhvöt:

„Hugmynd mín um það sem ég nefni tilfinningalega sjálfspíslahvöt er sú að hún byggi í reynd á eiginleika einstaklingsins til að gefa upp hluta af sjálfum sér og vilja sínum. Þegar um sjálfspíslahvöt er að ræða gerir einstaklingurinn þetta til að forðast aðskilnað frá þeim eða því sem hann elskar. Löngun, þrám og þörfum er fórnað til að mæta þörfum annarrar manneskju. Hugsun og tilfinningu er fórnað til að forðast aðskilnað. Þetta sjáum við í ástarsamböndum þar sem fólk er tilbúið til að undirgangast miklar píslir og þjáningar í stað þess að missa. Slík sjálfspíslahvöt brýtur persónu einstaklingsins niður því hann/hún fórnar sér aðeins til þess að verða ekki yfirgefin(n). Sjálfspíningarhvöt þess sem meiðir sig líkamlega er þessu skyld, en er róttækara form þar sem bæld reiði, niðurlæging eða kynórar fá lausan tauminn og beinist gegn einstaklingnum sjálfum, oft með mjög alvarlegum afleiðingum.“

Ég skáletraði það sem hljómar alveg eins og lýsing á meðvirkum aðila.

Sá sem er meðvirkur (co-dependent) hegðar sér  svona,  og í bók Piu Mellody,  „Facing Codependence“  talar hún einmitt um að fólk stundi einhvers konar hryðjuverk gagnvart sjálfu sér. –

Það er þessi sjálfsfórn,  píslarvottahlutverk eða afsláttur af sjálfum sér,  löngunum sínum og þrám, – allt á þeim forsendum að þiggja ást eða viðurkenningu frá öðrum aðila eða aðilum. –

Þá spyrjum við af hverju? –

Því verður ekki svarað hér að fullu,  en hluti af svarsins liggur í eftirfarandi:

Vegna þess að viðkomandi upplifir sig ekki nægilega verðmæta/n án verkanna, án þess að fórna sér,  án þess að geðjast,  þóknast og vera í ýktustu tilfellum „undirlægja“ eða jafnvel það sem talað er um að bjóða sig fram sem dyramottu.

„Já, góðan daginn  – gjörðu svo vel að ganga á mér á skítugum skónum“ .. og svo í framhaldi koma væntingar  um þakklæti eða viðurkenningu fyrir fórnina..

Þarna er manneskja búin að fórna allri sjálfsvirðingu og mun varla fá hana frá samferðafólki.

Það er svo mikilvægt að hafa það í huga að við eigum ekki að þurfa að gefa upp neinn hluta af sjálfum okkur þegar við förum í samband, vinnu, eða í samskipti við fólk. –

Af hverju gerum við það? –  m.a. vegna þess að við erum með brenglað verðmætamat á okkur sjálf. –  Sækjum því í viðurkenningu fyrir það sem við gerum og lifum oft á kolröngum forsendum. –  Ekki til að njóta lífsins,  heldur til að þóknast umheiminum,  en það endar auðvitað með því að við vanvirðum lífið sem okkur var gefið. –  Okkar líf er ekkert ómerkilegra en líf annarra.

Hvað ef að þú gætir farið til baka,  horft á þig sem ungabarn í vöggu og segðir við það:  „Þú verður ekki verðmætt elsku barn,  nema að þú standir þig, sért duglegt í skóla, vinnu, eignist flottan maka, börn, bíl, hús og búir til fullt af peningum“..

Við erum enn þetta barn, bara fullorðið barn.

Að verða fullorðin/n þýðir ekki að við megum gera lítið úr verðmæti okkar.  Gera lítið úr gjöf lífsins.

Verðmæti barnsins er ekki metið í hinu ytra og verðmæti þitt sem fullorðinnar manneskju ekki heldur. –  Það er óbreytanlegt. –

Sjálfs-traust felst í því að meta þetta innra verðmæti.  Það er „self-esteem“  Það er ekki sjálfs-traust að byggja á því sem hið ytra færir okkur, – það kallar Pia Mellody „Other-esteem“  en við getum greint allt sem við köllum „the other“ eða hið ytra sem eitthvað sem er hverfult.  Meira að segja útlitið,  því við verðum öll gömul og hrukkótt einn daginn. –   Eða a.m.k. þau sem hafa farsæld til að lifa löngu lífi. –

Sjálfstraust er í raun virðing fyrir mannhelgi sinni,  þó við missum allt sem við merkjum okkur með og hengjum okkur á,  vinnu, vini, eignir o.s.frv.   þá missum við ekki okkur sjálf. –

Í raun er auðveldara að tína sjálfum sér þegar hið ytra er of ýkt, eins og dæmin sanna í heimi Hollywood stjarnanna. –  Þar er fólk farið að lifa eftir ytri væntingum um hver þau eru og í panikinu um að missa „aðdáendur“ fer fólkið að breyta sér með því að skera burt óæskilega hluta sjálfs sín, – breytir útliti sínu í örvæntingu við það að geðjast og passa inn í væntingarnar og formin  og  flýr sjálft  sig með  sílikoni eða bótoxi.

Það er ekkert skrítið að heimur fræga fólksins sé fullur af fíkn og fötum.

Verst þegar að slík hegðun er klöppuð upp af veikum heimi. –

Lifum heil og af heilu hjarta. –

Við þurfum ekki að vinna okkur inn fyrir ást,  raunveruleg ást er án skilyrða. –

Líka sjálfsást. –

Ath! – hægt er að lesa meira um meðvirkni á síðu Lausnarinnar http://www.lausnin.is

Greinina sem ég vísaði í má lesa ef smellt er HÉR

Farsælt hjónaband? …

„Standið saman, en ekki of nærri hvort öðru,“ segir spámaðurinn. „Því að það er bil á milli musterissúlnanna og eikin og kýprusviðurinn vaxa ekki hvort í annars skugga.“   Kahlil Gibran

“Ef ég nú bara hefði vitað þetta fyrr….. „ 

Það er gott að vera vitur eftir á, – en lífið er ákveðinn skóli. Það þýðir þó ekki að við eigum að skilja alla brunna eftir opna til að sem flestir fái þá lífsreynslu að detta ofan í þá. –

Suma brunna er betra að forðast.  Og stundum er ágætt að hlusta á reynslu öldunganna.   –  

Það eru nokkur grunnatriði sem hver og ein manneskja þarf að tileinka sér til að lifa farsælu,  eða sem farsælustu lífi og þá að lifa í farsælu hjónabandi. 

Hver manneskja þarf að hafa sjálfstraust, sjálfsvirðingu, og “sjálfsást” – en sjálfsást er ekki það sama og við notum í daglegu tali um sjálfselsku.  Það er meira að þykja vænt um sjálfa sig.   Manneskja sem ber virðingu fyrir sjálfri sér, treystir sér og elskar er mun líklegri til að hafa möguleika til að vera elskuð, virt og treyst. –

Í hjónabandi eru  tveir heilir einstaklingar, en ekki tveir hálfir, og þeir eru jafnstórir og jafnmikilvægir. –  Þessir tveir einstaklingar þurfa að lifa saman á jafningjagrundvelli,  sem gefa og taka á víxl. –  Báðir þurfa á næringu að halda, andlegri og líkamlegri. –

„Standið saman, en ekki of nærri hvort öðru,“ segir spámaðurinn. „Því að það er bil á milli musterissúlnanna og eikin og kýprusviðurinn vaxa ekki hvort í annars skugga.“  

Í framhaldi af þessum pælingum,  langar mig að stilla mér upp í spor öldungsins og bjóða upp á fyrirlestra á léttu nótunum, – þó með alvarlegu ívafi,  um mikilvægi þess að lifa í sátt við sjálfan sig og fara heil inn í hjónaband, og lifa heil í hjónabandi. – 

Ég ræði þessi atriði sem upp eru talin,  auk þess að gefa nokkur praktísk ráð og hugmyndir fyrir hjón til að rækta sambandið betur,  mikilvægi þess að báðir aðilar tjái sig um tilfinningar sínar, vonir, langanir og þrár. – 

Fyrirlesturinn er í raun “forvarnarfyrirlestur – með hverju  byrgjum við brunninn,  eða tökumst á við ljónin á veginum? –  Hvað er mikilvægt að hafa í nesti þegar að þessi leið er valin?  Hverjar eru ytri hindranir og hverjar innri?

 

Hvað setjum við í bakpokann þegar við leggjum af stað í þetta ferðalag með maka? –

  • Ást   
  • Virðingu
  • Traust
  • …..

Þetta hljómar allt voðalega einfalt,  en það gleymist oft að nota það sem er í bakpokanum, eða þá að við kunnum hreinlega ekki að höndla þetta –   

Er hægt að klúðra ást, virðingu og trausti? …   eee.. já!  –  en endilega skráðu þig á fyrirlestur,  taktu þátt og prófaðu smá óhefðbundið, – eigðu góða kvöldstund með kærastanum/kærustunni – eða með eiginmanni/eiginkonu … og síðast en ekki síst með sjálfri/sjálfum þér! 😉

Staðsetning:   Síðumúli 13. 3. hæð  – salur Lausnarinnar

10 – 20 manns

Dags:  Fimmtudag 24. maí   frá  20:00 – 22:30

Holl næring og notaleg kvöldstund. –

Þátttakendur fá gjafapoka, með bolla merktan með hjarta og ýmsu sem minnir á gott samband,  ekki síst við sjálfan sig. –

(svo verður auðvitað eitthvað óvænt)

Kynningarverð:

 

4500.- krónur  á mann/konu

 

 

Fyrirlesari og leiðbeinandi:   Jóhanna Magnúsdóttir, ráðgjafi, framhaldsskólakennari og guðfræðingur.

 

Sendið póst á johanna@lausnin.is   til að skrá ykkur og/eða fá nánari upplýsingar 😉

Ath! .. Það er miklu ódýrara að skilja en að skilja.  Það er fyrra “skiljað” að skilja hvað veldur skilnaði,  þá er ég ekki að tala um framhjáhald,  leiðindi eða ofbeldi,  sem orsök skilnaða,  heldur orsökina bak við orsökina fyrir framhjáhaldi, leiðindum og ofbeldi. –  Við förum í alvöru forvarnir. –  😉

Ath!  Get komið með þennan fyrirlestur í fyrirtæki,  stofnanir, félagasamtök, kirkjur.  Hafið samband í síma 895-6119 eða johanna@lausnin.is

„Sparkaðu í rassinn á sjálfum þér“ …..

Eftirfarandi færsla er frásögn af því hvernig ég notaði myndlíkingu af fjallgöngu sem hálfgert markþjálfunartæki fyrir nemendur.

Fjallið sem um ræðir var kallað Hraðbrautarfjallið  notaði ég það sem markþjálfunartæki í Menntaskólanum Hraðbraut þar sem ég var aðstoðarskólastjóri og var viðstödd sex útskriftir stúdenta þaðan. –

Nemendur voru þá að ganga á fjall og á toppnum var mark sem á stóð “STÚDENTSPRÓF”

Fjallið samanstóð af fimmtán hólum (lotum).   Á milli þessara hóla voru lautir,  en það var “hvíldarvika” þar sem nemendur áttu helst flestir að hvíla í,  en sumir þurftu að nýta til að ná upp þeim sem voru búnir.   Það er eins og við þekkjum á fjallgöngu.

Sumir eru alltaf á undan og hafa þá tækifæri til lengri hvíldar í stoppunum. – 

Lotan eða hóllinn samanstóð því af 4 vikum námi, 1 viku lokaprófum, og 1 viku frí.  Eins og áður sagði hvíldust sumir en aðrir þurftu að nota þessa viku til að taka upp 1 -3 próf. –

En einn hóll var kláraður í einu. – 

Hólarnir voru eins og áður sagði 15 stykki. –

Ég teiknaði upp fjallið svo að hver og einn nemandi gæti staðsett sig og jafnvel merkt sig inn á slóðina. Hvar hann væri staddur. –

Gert X yfir þær hæðir sem voru búnar.  Litið yfir farinn veg og séð að hann var e.t.v.  kominn þó nokkuð langt.

Mitt hlutverk, námsráðgjafa, kennara og annars starfsfólks var að vera leiðsögumenn, eða þjálfarar. –  

Ábyrgð göngunnar var á hendi nemenda (og foreldra þeirra sem voru yngri en 18 ára). 

Allir þurftu að ganga sjálfir og bera ábyrgð á göngunni.

Eins og í fjallgöngu, þá þarf að huga að ýmsu.

Útbúnaði – miðað við veður og nesti.

Ekki dugði að fara t.d. í opnum strigaskóm í rigningu og roki.

Þegar hér er talað um nesti og viðbúnað, er m.a. talað um námsgögn og hið huglæga fóður sem kom frá kennurum. 

Svo þurfti auðvitað að búa sig þannig að eitthvað gæti dunið á,  stormar og óveður og þá – er spurning hvernig fólk er búið undir það.  

Fólk sem gengur á fjall, þarf oft að vera búið að styrkja sig.  Það stýrir ekki góðri lukku að ganga algjörlega óþjálfaður á fjall.  –

Þess vegna skiptir máli að vera búin/n að styrkja sig líkamlega og andlega.  Það gildir líka í skólagöngunni. –

Þeir sem höfðu sjálfstraust, sjálfsvirðingu og trú á sjálfum sér gengur yfirleitt betur.   Og auðvitað þeir sem höfðu góða grunnþjálfun. –

Fjallganga er mjög góð líking fyrir skólagöngu, – og í raun lífsgönguna alla. –

Til að undirstrika þetta – bauð ég nemendum í fjallgöngu (alvöru) að hausti og vori.  En þau fengu það metið sem íþróttatíma. 

Margir þáðu að fara í þessar göngur. –

Þær urðu 10 alls.

Hægt að smella hér til að sjá um þær.  HÉR

Ég þekkti ekkert orðið markþjálfun þegar ég var að kenna þessa hugmyndafræði til að ná markmiðinu “STÚDENTSPRÓF”  en fór síðan í markþjálfunartíma til aðstoðarrektors HR, sem sagði að þetta flokkaðist nákvæmlega undir það. –

Í markþjálfun þá setur maður niður skýr markmið, helst mælanleg og tímasetur. –

Síðan þarf að skoða hindranir,  innri og ytri, – og það má kalla t.d. veðrið hindranir,  lofthræðslu, lélegan útbúnað,  lélegt líkamlegt form, afsakanir  o.s.frv.

Þá förum við að sjálfsögðu að skoða,  hvað getum við lagfært og hvað þurfum við að gera ÁÐUR en lagt er í göngu.

Það er EKKER vit í að klífa Hvannadalsnjúk í engu formi. 

Við byrjum á Helgafelli eða jafnvel bara í Elliðaárdalnum. –  Byrjum skref fyrir skref.  –

“Practice makes perfect” –   eða Æfingin skapar meistarann. –

Svo þegar við erum klár t.d. í Esjuna,  þá prófum við hana – og þegar við erum komin upp að Steini, eins og það er kallað – og höfum e.t.v. aldrei komist á toppinn,  og ætlum að fara að gefast upp,  þá er spurning hvor ekki verða að skrifa í gestabókina? … 😉

 

Þessi mynd er reyndar tekin á Keili. –

Einu sinni var ég búin að nota öll ráð sem ég hafði pokahorninu til að hvetja nemanda áfram,  ekki gat ég borið hann á bakinu upp fjallið, enda honum enginn greiði gerður með því. –

Það voru endalausar afsakanir og þetta og hitt sem sem truflaði ..

Ég fór að skynja að þetta voru innri hindranir en ekki ytri og sagði því:

…  „hættu nú þessu volæði, taktu ábyrgð og sparkaðu í rassinn á sjálfum þér“ … ég hálf skammaðist mín fyrir að vera svona gróf,  en þarna var þolinmæðin á þrautum. –  Daginn eftir kom hann til mín og sagði: 

„Jóhanna,  þetta var besta ráðið sem þú gast gefið mér.“ –  og hann stóð sig eftir þetta og kláraði stúdentsprófið á tveimur árum. –

Eitt eilífðar smáblóm …

Eitt eilífðar smáblóm

Þegar ég horfi á myndbönd sem kallast „Symphony of Science“ – styrkist ég í trúnni á Guð, aðrir styrkjast í trúnni á vísindin. –

Ég finn vísindin í Guði og Guð í vísindunum. –

„Guðs ríki er innra með yður“ .. Jesús Kristur

„The Cosmos is also within us“ –  „We are a way for the Cosmos to know itself“ –  Carl Sagan

Þjóðskáldið Matthías Jochumsson var undir áhrifum frá 90. Davíðssálmi þegar hann skrifaði Lofsönginn sem við notum sem þjóðsöng en fyrsta erindið er hér:

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:,: Íslands þúsund ár, :,:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Eckhart Tolle talar um Guð sem „Being“ vegna þess að hugtakið Guð sé svo gildishlaðið og misnotað, – en auðvitað veldur sá er á heldur og hvað er Being annað en tilveran eða veröldin,  heimurinn, Cosmos? –  Guð sem er allt og Guð sem er heimurinn? –

Ég er því  „eitt eilífðar smáblóm sem tilbiður Guð sinn og deyr“  – skemmtileg þversögn í þessari línu, eitthvað eilíft og deyr –  en í raun er ég og við öll, eilíf, því að allt líf er tengt,  við erum öll eitt,  líffræðilega tengd hvert öðru og efnafræðilega tengd jörðinni. –

Við erum eilíf. –

Við erum öll „eitt eilífðar smáblóm“  hvort sem við könnumst við eða játumst heiminum eða Guði, – það skiptir í raun engu máli,  það er rétt frá staðsetningu hvers „blóms“ í veröldinni …

Veröldin er stórkostleg …

Samhugur ætti því að vera hið rétta eðli okkar.  Það er að vilja hvert öðru vel og vera jöfn, en ekki að vera merkilegri en annar eða ómerkilegri. –  Okkar starf er m.a. að ganga vel um jörðina, ganga vel um veröldina og umgangast okkur sjálf og aðra af virðingu og elsku ..

Umhverfisvernd er elska til sjálfra okkar og annarra, hún virkar inn á við og út á við. –  Heimurinn er líka innra með okkur. –

Engin/n er „atvinnulaus“  vegna þess að við erum verkamenn í víngarði Guðs, – eða víngarði heimsins (Cosmos) eftir hvernig við lítum á það og starf okkar er að hjálpa heiminum við að þekkja sjálfan sig. –

Um leið og við störfum við það að hjálpa heiminum við að þekkja sjálfan sig, komumst við ekki hjá því að starfa við það að þekkja okkur sjálf, kynnast okkur sjálfum, því að,  best að endurtaka það: „The cosmos is also within us“ – eða heimurinn er líka innra með okkur. –

Við erum hluti af heildarpakkanum. –

Ekkert starf er merkilegra en annað starf, allt hefur sinn tilgang, engir tveir vinna starfið nákvæmlega eins. –  Því fleiri sem leggja hönd á plóg, því fleiri upplýsingar fær heimurinn um sjálfan sig, og vex því með hverri veru sem tekur þátt í lífinu.  Með hverri sorg og hverri gleði þroskast heimurinn.

Við erum því hluti af þroskaferli og vexti veraldarinnar. – Enda er veröldin og við orðin/n mun „gáfaðri“ núna en t.d. á ritunartíma Biblíunnar. – Þess vegna verðum við alltaf að lesa fornar bókmenntir með innblæstri dagsins í dag, okkar eigin innblæstri  en ekki innblæstri þeirra sem skrifuðu þær. –

„The Cosmos is also within us“ – The beauty of a living thing is not the atoms that go into it – but the way the atoms are put together –

„The Cosmos is also within us“

„We are a way for the Cosmos to know itself“ –

Í dag er 1. maí,  frídagur verkalýðsins, – en í raun erum við aldrei í fríi sem verkalýður þessa heims, þar sem við erum að störfum til að heimurinn læri að þekkja sig, og að launum fáum við súrefni til að anda,  drögum andann djúpt og gleðjumst yfir þessu dásamlega verkefni sem lífið er.