Að byggja á bjargi …

Það sem hefur leitað á mig undanfarið er þetta með mismuninn að byggja á bjargi og byggja á sandi, – fór svo að „gúgla“ það og fann að ég hafði verið að hugsa þetta fyrr, finnst alltaf fyndið að finna pistla eftir sjálfa mig um það sem ég er að hugsa um í dag.

Ég myndi eflaust skrifa þetta pinku öðru vísi í dag, en samt mjög líkt. Það væri svo gaman að taka skrif Eckhart´s Tolle og bera þau saman við margt sem stendur í Biblíunni, Tolle talar um hlið til að komast í verundina, þessa verund sem sumir upplifa sem Guð, og í Biblíunni er talað um þröng hlið. – En eins og Tolle bendir á er hugtakið Guð býsna vítt (og misnotað), en hér er ég að tala um það sem verund svipað og Tolle gerir. Tek svo fram að orðið „heimska“ er runnið af rótum þess að leita heim, og í pistilinum tala ég um heimskuna að leita í það sem við þekkjum jafnvel þó það sé vont fyrir okkur og hefti frelsi okkar.

Að byggja á bjargi er að hafa traust og trú og leyfa sér að trúa því að allt fari eins og það á að fara. Stjórnast ekki af ótta, hvað sem á dynur, heldur á trúnni á m.a. það að þegar við nærum elskuna farnist okkur vel. – Hið sanna HEIM er heima hjá okkur og heima í Verundinni/Guði – en hið falska HEIM er þegar við erum þar sem okkur líður illa, við erum barin, heim sem egóið stundum leiðir okkur, egóið nærist á ótta. M.a. ótta við skoðanir annarra, hvað öðrum finnst og því sem aðrir geta gert okkur.

Þekktu þig og þekktu Guð, treystu þér og treystu Guði, leyfðu þér og leyfðu lífinu.

Hér er svo pistillinn sem ég fann – en hann er frá 2009.

3.12.2009 | 22:59

Að byggja á sandi ..

Í þessum pistli langar mig að tala til trúaðra um á hverju trú þeirra byggist. Nú tala ég bara út frá mínum bakgrunni, uppeldi, þekkingu, lífsreynslu, menntun og vissulega trú. Þegar ég skrifa, leyfi ég mér að láta flæða, og er ekki að vitna beint í aðra eða  að taka upp nákvæmlega orðrétt úr Biblíunni, en vissulega liggur það allt að baki. Það er svipað og ég les slatta af uppskriftabókum til að fá innblástur til að elda, en elda síðan bara „upp úr mér“ .. Man eflaust sumt úr uppskriftunum, en bæti svo í það sem minn smekkur og bragðlaukar leyfa.

Ég hef nú um nokkurt skeið átt viðræður bæði við trúlausa sem trúaða. Trúlausir eru ekki eins flóknir, þ.e.a.s. þeir skiptast aðallega í þá sem eru algjörlega trúlausir á alla yfirnáttúru, eins og Vantrúarmenn, eða þá sem hafa ekki átrúnað t.d. á guð eða goð, en trúa þó á yfirnáttúrulega hluti.

Trúfólk er mun flóknara fyrirbæri og flóran djúp og breið.

Alveg eins og ég veit að ég er gagnkynhneigð kona (því ég hneigist til karlmanna) er ég hneigð til trúar. Ég ætla ekki að fara í það að skilgreina mína trú í smáatriðum, ekki frekar en ég myndi skilgreina mitt kynlíf. Sumt verður að fá að vera prívat. Wink  Það er þó ekkert felumál að ég er kynvera og ég er trúvera og skammast mín fyrir hvorugt.

Nú hef ég oft lesið pistla eftir trúfólk og kynnst trúfólki sem er afskaplega háð Biblíunni. Vitnar í texta sí og æ máli sínu til stuðnings. Biblían er bók, er rit sem var skrifað af mönnum sem eru löngu, löngu dauðir. Orðin þar eru dauð – nema að einhver lifandi lesi þau og noti þau.

Fyrir kristið fólk er Jesús lifandi, lifandi orð Guðs. Orðið sem varð hold, reynt var að deyða þetta orð en Orðið reis upp og lifir enn, merkilegt nokk. Þessu lifandi orði kynntist ég sem barn, í sunnudagaskóla, í bæn á mínu heimili og í fólkinu í kringum mig. Auðvitað í bókum eins og Perlur og í Biblíusögum í barnaskóla. Aldrei sá ég neitt ljótt í kringum þetta Orð. Kynntist því jafnframt í söng og leik.

Einn söngurinn fjallaði um heimska manninn sem byggði á sandi og síðan var þar annar hygginn  sem byggði á bjargi.

Ekki geta allir byggt a orði Guðs eða vilja, þar sem þeir hafa kannski aldrei heyrt það eða eru ekki aldir upp við það. Það er því ekki hægt að segja að þeir byggi á sandi.

Heimsmynd sem byggir á elsku er byggð á kletti. Hvaðan sem þessi elska kemur.

Mín upplifun er sú að í sumum tilfellum sé Biblíunni haldið of þétt upp að  augum  að  hún hleypi ekki ljósi  elskunnar í gegnum sínar þykku síður.  Biblíunni er haldið fast því að fólkið þorir ekki að sleppa því það treystir ekki að Guð muni grípa það.  Það er hrætt við að heimsmyndin hrynji ef að allt sem stendur í Biblíunni er ekki satt og rétt og hið eina.  Hrætt við að viðurkenna mótsagnir og þversagnir bókarinnar jafnvel þó þær séu augljósar.  Fíllinn er klæddur í músasunbol, bara vegna þess að það stendur í bókinni að fíllinn eigi að passa í músastærðina.

Hver og hvað er þá  kletturinn?   Kletturinn er sjálfstraustið.  Að trúa á sjálfan sig vegna þess m.a. að við erum sköpuð í mynd Guðs og framlenging af Guði.  Áðurnefnd elska kemur þarna sterk inn, því að til að treysta á okkur sjálf þurfum við að elska okkur sjálf.

Hús er mjög þekkt tákn fyrir manneskjuna.  Þú byggir þig á sjálfinu. Að trúa ekki á sjálfan sig, elska sig og treysta ekki sjálfum sér er því heimska, því hvernig eiga aðrir að trúa eða treysta á þann sem ekki trúir á sjálfan sig.

Að hafa trú á sjálfum sér eru hyggindin.

Við erum öll eins og Pétur – klettur, við byggjum á sjálfum okkur, sum þiggja Guðs hjálp, önnur ekki.

Kjarninn í kristnum siðferðisboðskap er að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig og okkur er sagt að láta ljós okkar skína.  Ekki fela það, – ekki fara í „I´m not worthy“ gírinn.  Allir eru verðugir að skína og eiga að skína.  Skína inn á við og út á við. Ekki veitir af ljósinu á þessum dimmu dögum desembermánaðar.

Því miður verð ég svo oft sorglega vör við þá staðreynd að kynbundið ofbeldi er tengt því að menn blási lífi í þau biblíuvers sem segja að karlinn sé æðri og nær Guði en konan, svo ekki sé minnst á þann texta sem er notaður til að undirstrika  gagnkynhneigðarhyggjuna – þar sem hinn gagnkynhneigði telur sig æðri hinum samkynhneigða. 

Að telja sig æðri öðrum manneskjum er ekki að elska náungann EINS OG sjálfan sig, það er að elska sjálfan sig MEIRA en náungann.

Kristið fólk getur því ekki leyft sér að telja sig merkilegra en hinn trúlausa.

Ég nenni ekki að ritskoða það sem ég hef skrifað hér að ofan,  það er kannski eitt sem orkar tvímælis – það er þegar ég segi að það sé heimska að trúa ekki á sjálfan sig, þá gæti einhver sagt að sumir trúi ekki á sjálfa sig vegna þess að utanaðkomandi er búinn að beita þá ofbeldi og brjóta þá niður.

Hver þekkir ekki frásagnir af konum sem fara til manna sinna aftur og ítrekað eftir að búið er að lúberja þær. Sorry – það er heimska.  Við hjálpum þessum konum ekkert með að segja þeim eitthvað annað – eins og það séu hyggindi eða ást að leita til húsbónda sem barinn hundur.

(Innskot 2012,  þetta er mjög beitt hjá  mér,  þetta er lærð hegðun frá bernsku að leita í öryggið þar sem óttinn við öryggisleysið verður meira en traustið á frelsinu) – það er fólk sem er komið með gríðarlega lágt sjálfsmat (eða metur sig réttara sagt út frá því sem aðrir segja)  sem lætur bjóða sér ofbeldi og því miður verður það að segjast að það er oft orðið svo veikt að það getur með engu móti komið sér sjálft úr þessum skaðlegu aðstæðum,  en fyrsta skrefið er þá að biðja um utanaðkomandi hjálp til að styrkja sig til að geta komið sér úr þeim).  Þessar aðstæður geta verið við sjálf líka,  við getum verið okkar verstu óvinir og farið að stunda sjálfskaðandi hegðun.

svo heldur pistill frá 2009 áfram:

Konur þurfa að fara að taka ábyrgð á sjálfum sér og hætta að kenna körlum um allt sem miður fer. Það kemur með sjálfstrausti og sjálfsvirðingu og með þannig byggja þær á kletti en ekki sandi.

Jæja elskulega fólk, ég vona að þið takið viljann fyrir verkið og að þið skiljið eitthvað í þessum ítarlegu hugleiðingum.

Bæti hér við broti sem kom i athugasemd:

„En á meðan ógagnrýnin upptaka trúarbragða þykir dyggð, þá verða þessir hlutir ekkert skárri. Það er ekki dyggð að taka upp regluverk án þess að athuga hvort það sé sanngjarnt og velmeinandi – það er heimska sem í vanhugsun sinni verður vonska“  (Kristinn Theódórsson)

Það er gott að þetta kom fram með „vanhugsun.“   Það er þetta með að vakna og vera með meðvitund um hvað er gott og hvað er illt, og hugsunina hvað er bjargið og hvað er sandurinn.

Ef ég byggi líf mitt og gjörðir mínar á sandi fær það ekki staðist,  ef ég byggi það á bjargi fær það staðist. –  Það fjarar ekki undan því sem er byggt á trausti.

Það sem er ekta er bjargið,  það sem er gerfi er sandurinn.

Það er gott að lesa úr Mattheusarguðspjalli það sem stendur þar og tengja það við það sem á undan kemur.  Ekkert er nýtt undir sólinni, pælingarnar fara í hringi.  Mér finnst eftirfarandi texti magnaður og segja svo margt sem skiptir máli.

Dæmið ekki

1Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. 2Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. 3Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? 4Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu. 5Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
6Gefið ekki hundum það sem heilagt er og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.

Biðjið, leitið

7Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. 8Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. 9Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu[1]

Orðrétt: syni sínum.

stein er það biður um brauð? 10Eða höggorm þegar það biður um fisk? 11Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?
12Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.

Þröngt hlið

13Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður sem liggur til glötunar og margir þeir sem þar fara inn. 14Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur er liggur til lífsins og fáir þeir sem finna hann.

Af ávöxtum þeirra

15Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. 16Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. 18Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. 20Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Á bjargi

21Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.
22Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? 23Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.
24Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. 25Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
26En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. 27Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
28Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans 29því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Aldrei nógu dugleg, aldrei nógu góð og aldrei nógu mjó? …

Ég var að kenna á námskeiði nýlega og setti upp á töflu:

Við erum aldrei nógu _________________________

og bað þau sem þar voru að fylla í eyðuna, kasta fram sem upp á vantaði, það komu fleiri orð,  en ég held að þetta séu þau algengustu.

Eflaust er það síðasta – „aldrei nógu mjó“ algengara hjá konum en þó eru karlmenn þar líka  og við þekkjum hvað gerist þegar að það að vera aldrei nógu mjó fer yfir strikið; – þá breytist það í sjúkdóminn anorexíu.

Að sama skapi,  þegar við erum aldrei nógu góð eða dugleg, getum við farið yfir í sjúklegt ástand, við göngum fram af okkur í dugnaði – förum langt yfir strikið alveg eins og anorexíusjúklingar, – og enn og aftur það sama í góðmennskunni.

Í öllum tilfellum erum við orðin sjúk.

Svona hættuleg er fullkomnunaráráttan.

Fullkomnunarárátta lærist af samfélagi sem gerir kröfur sem eru sjúkar.

Ég hef verið í öllum þessum hlutverkum,  ekki nógu góð, ekki nógu dugleg og ekki nógu mjó.  Það veldur því að ég var aldrei nógu sátt, og því aldrei hamingjusöm. –

Ef ég var góð og að sinna einhverjum,  var ég kannski að berja mig fyrir að vera ekki að sinna eða vera góð við einhvern eða einhverja aðra.

Ef ég var dugleg að vinna, en ekki dugleg að þrífa heima var ég ekki nógu dugleg, punktur.   Eða öfugt.

Ef ég var komin í „rétta“ þyngd gat ég samt fundið einhverja „vansköpun“ of þykkir ökklar,  ekki sá „súperkroppur“  sem ég ætlaði mér að vera.

Þrátt fyrir allt ofangreint,  geri ég mér grein fyrir því að ég var mjög dugleg, mjög góð og með eðlilegt og heilbrigt vaxtarlag.   En ég var ekki nóg.

Orsökin kom úr uppeldi og orsökin kom úr umhverfi.

Svo fór ég ásamt fv. manni mínum að ala upp börn, en hann var líka með sömu einkenni, að vera ekki nóg, þó við sýndum þau á mismunandi hátt. –  Lélegt sjálfsmat getur bæði komið út í vanmáttarkennd, að finnast við ómerkileg og óverðug og líka í ákveðnum hroka gagnvart öðrum,  en það er hrokagríman til að aðrir sjái ekki að hvað við erum „í raun“  ómöguleg.  (Það er það sem okkur finnst, eða höldum um okkur).

Börnin læra að þau séu ekki nóg, ekki nógu mjó, ekki nógu dugleg og ekki nógu góð,  og færa það yfir á börnin sín sem ef ekkert er að gert.

Það er því okkar sem „vöknum“ að rjúfa keðjuna.

Það sem ég er að lýsa hér að ofan er auðvitað það sem ég er að vinna með dags daglega.  Ég er „sérfræðingur“  í sjálfri  mér og mínum bata og það er þess vegna sem ég á auðvelt með að sjá og nema annað fólk og hvar það er statt.

Við erum þarna flest,  þ.e.a.s. að vera ekki nóg.  Við þurfum að vakna til meðvitundar um það hvað er að,  af hverju við getum ekki verið ánægð,  og þegar meðvitund er náð og við förum að hætta að gera óraunhæfar kröfur til okkar sjálfra,  vera okkar bestu vinir og lifa í meðvitund erum við komin á réttan veg. –  Veg hamingjunnar.   Vegur hamingjunnar liggur í því að upplifa sig í að vera nóg,  skilyrðislaus hamingja sem hefur ekkert að gera með útlit, dugnað eða hversu mikið af góðverkum við vinnum. –

Þessi ofangreindi pistill varð til í morgungöngunni þar sem ég rölti hér hringinn, Holtsgata, Bræðraborgarstígur, Sólvallagata, Vesturvallagata og svo aftur Holtsgata.  – Ég geng hann með glaðan voffaling þegar ég er að passa hann fyrir dóttur mína. –

Yfirþyrmandi þakklæti fyllti huga minn,  í morgunkyrrðinni.  Ekki bara þakklæti, heldur líka ást, – því núna þegar ég hef lært svona mikið á sjálfa mig og lært að ég má elska sjálfa mig,  get ég fyrst farið að elska í raun og veru.  Ekki á forsendum óttans að einhverjum líki ekki við mig,  að ég sé ekki nóg. –

Við lærum það sem fyrir okkur er haft,  en það er algjörlega óþarfi að dæma foreldra okkar eða þá sem kenndu,  líka heiminn því að heimurinn kann ekkert á þetta frekar en við. –  Ekki kunni ég á þetta heldur.

Við erum særð börn særðra barna, sárin koma hægt og bítandi.

Eina sem við getum raunverulega gert er að láta af dómhörku og óraunhæfum og ómanneskjulegum væntingum í eigin garð og annarra. –  Þær væntingar verða aldrei upp fylltar og því enda þær alltaf í vonbrigðum.

Gleðjumst yfir og þökkum fyrir það sem er,  og fögnum því að vera nóg,  ekki þegar og ekki ef,  heldur núna. –  Við erum öll elsku verð, skilyrðislausrar elsku, ekkert „ef“ og ekkert „þegar“   við erum elskuð núna,  og hvers vegna ekki af okkur sjálfum? –   Vegna þess að ég er ekki nógu ____________________?

Ég hef lýst æðra mætti/Guði  sem mætti sem elskar okkur skilyrðislaust og sem fyrirgefur skilyrðislaust.  Ástæðan fyrir því að margir leita þangað er til að fá hjálp við að elska sig og virða,  er að æðra mætti er ekkert ómögulegt.  Í því liggur almættið, í hinu skilyrðislausa.

Ég trúi að við séum sköpuð í mynd þessa almættis og ef svo er þá ættum við að hafa möguleikann á að elska skilyrðislaust og fyrirgefa. – Við höfum bara villst af leið.

Fagnaðarerindið er að við erum nóg, við erum sama mannveran og áhyggjulausa barnið sem var í öruggu móðurlífi,  fékk næringu frá móður, upplifði öryggi móðurlífs og var umvafið kyrrð legvatnsins.

Guð/æðri máttur/cosmos/vortex – eða hvað sem við viljum kalla það er móðurlífið okkar, kyrrðin, öryggið, næringin, elskan og allt sem er gott og verndandi.

Þegar við eru stödd þar erum við í sátt og vellíðan.

Eftir því sem við getum dvalið þar lengur og oftar,   þess betra verður líf okkar og það er líf í bata.  Það þarf að aflæra það sem afvegaleiddi og læra það sem kemur okkur til baka, og til eru aðferðir við að komast þangað,  vegna þess að við svo sannarlega erum týnd í heimi sem afvegaleiðir og gefur röng skilaboð. – Þær aðferðir þekkja margir sem hugleiðslu, yoga, tengingu við náttúru o.fl.  Það getur engin/n gengið þá leið fyrir okkur, en öll höfum við möguleika á þeirri göngu ef við viljum,  okkar er valið.

 

Sköpum SAMAN nýjan heim …

„Það sem þú veitir athygli vex“ – þetta er staðreynd sem fæstir andmæla.

Ég var að hlusta á áhugaverða hugmyndafræði um eina af tilgátum þess að sambönd eru betri í upphafi og fari síðan að versna og svo jafnvel að verða bara hreinlega vond sambönd.

Þegar fólk er ástfangið horfir það á og dásamar það sem er gott í fari maka síns.  Alls konar kækir og vondir siðir verða aukaatriði,  fókusinn er ekki á því heldur öllu þessu dásamlega.  Spékoppanum,  fallegu augunum,  hvernig hann/hún snertir þig o.s.frv. –

Hvernig makinn kreystir tannkremstúpuna,  spýtir  út í vindinn, eða klórar sér í rassinum (ef út í það er farið)  er ekki í fókus og skiptir hreinlega engu máli eða er bara sætt í þessu tilviki jafnvel,  vegna þess að það sem hann gerir sem er fallegt verður aðalatriðið. –

Svo ef að þessari athygli á hið jákvæða er ekki viðhaldið,  eða ef við förum að láta atriðin sem voru aukaatriði í upphafi skipta meira máli,  oft vegna þess að við sjálf erum ekkert voða glöð, eða sátt,  þá förum við að setja fókusinn á þau og þau vaxa og VAXA og verða allt í einu orðin að aðalatriði og hið góða jafnvel hverfur í skuggann.

Það sem ég skrifa hér er mjög mikil einföldun,  en ég held að þetta sé rétt.

Þetta gerist sérstaklega ef við höfum farið í sambandið á röngum forsendum, til að bjarga hinum aðilanum frá sjálfum sér (stundum) eða  erum ekki sátt í eigin skinni, – ef við sinnum okkur ekki sjálf, en ætlumst til að hamingja okkar, gleði og friður séu öll færð okkur af makanum.    Þá förum við í hlutverk betlarans og við fáum ekki það sem við viljum. –  Ef við erum í hlutverki þess sem veit að hann hefur nóg og er nóg.  Förum í sambandið af sjónarhóli fullnægjunnar.  Af sjónarhóli þess sem  er með lífsfyllingu, gerir sér grein fyrir að hann/hún þarf að hafa  ástina í hjartanu, gleðina og friðinn,  innra með sér,  þá er mun auðveldara að fókusera og vera þakklát fyrir það sem makinn hefur fram að færa.

Á yndisleika hans og um leið eykst öryggi makans. –

Því auðvitað dregur það fólk niður að vera stanslaust undir gagnrýnisaugum, og það er verið að efast um það.

Það er verið að röfla um þetta og tauta um hitt. –

Annað sem ég hlustaði á,  það var um mikilvægi þess að taka sameiginlegar ákvarðanir.   Það er að vera „co-creators“ –   Ef að konan fær þá hugmynd um að þessa helgi vilji HÚN að farið sé í garðvinnu,  þá er uppsprettan ekki hjá manninum og þá gæti vantað innspýtinguna og löngunina til að fara að vinna í garðinum.   Þetta gæti verið akkúrat öfugt ef að maðurinn hefði SJÁLFUR fengið hugmyndina,  eða hugmyndin hefði fæðst í notalegu spjalli:  „Hvað ættum við að gera saman um helgina“ – og hún hefði eins og stendur þarna „fæðst“ í spjallinu.

Þá væru hjónn orðin sam-skaparar.

Ef við ætlum að troða okkar sköpun upp á hinn þá erum við farin að hefta frelsi hins og við erum verur frelsisins.

Það er grundvallandi að við upplifum frelsi í sambandi,  og það gerum við ekki ef að það er verið að troða upp á okkur „Þú skalt“ – „Þú átt“ – „Mér finnst að þú ættir að gera það sem ÉG vil. –

Þetta er einhvers konar þvingun á mér eða minni sköpun upp á þig og öfugt.

Mér finnst þetta útskýra býsna margt, – þess vegna finnst mér alveg frábær t.d. hugmynd konu sem var á námskeiði hjá mér,  konu sem var búin að vera í hjónabandi í 40 ár sem sagði að fjölskyldan,  ekki bara hún og maðurinn, heldur börnin þegar þau voru heima,  hefðu haldið fund vikulega þar sem þau ræddu hvað væri framundan,  óskir, langanir, þarfir og bjuggu til plan fyrir vikuna.   Þar settu þau líka fjölskyldureglur sem ALLIR fengu að taka þátt í. –

Við erum alltaf að læra,  og læra að skilja líka.  Skilja hvert annað.

Best er að við getum skapað þannig og unnið út frá löngun og eigin vilja,  ekki einhverju sem er þvingað upp á okkur,  ekki einhverju sem kemur sem valdboð frá maka.   Svo er það ekki unnið, viðkomandi uppsker bæði nöldur og samviskubit  eða unnið í gremju, og samviskubit allt sem unnið er í gremju lætur okkur líða illa.   Þetta er vonlaus staða. –

Veitum athygli því sem vel er gert, hæfileika og yndisleika þeirra sem eru í kringum okkur,  ekki bara í sambandi heldur alls fólks.  Og þökkum fyrir það líka.

Það sem við veitum athygli vex.

Verum skaparar,  en líka sam-skaparar,  en ekki þvinga okkar sköpun upp á aðra,  leyfum okkur að skapa saman.   Er það ekki SAM-VISKA okkar? –

Góð sam-viska? –

Veröldin er okkar, ef við viljum.

Að sættast við aðstæður ..

„Accept what is, as you have chosen it“ …  eitthvað á þennan máta skrifar Eckhart Tolle.

Úff, – hugsaði ég fyrst þegar eg las þetta,  það velur sér enginn hörmungar eða vondar aðstæður! ..

En hvað á hann við með þessu?

Í raun er þetta alveg í takt við æðruleysisbænina, eða upphaf hennar.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.

Það sem ER getum við ekki breytt.

En við getum farið ýmsar leiðir út frá því sem ER – eða núniu, efir hvernig við tæklum það. –

Það eru alls konar breytingar í okkar lífi sem við veljum ekki sjálf,  eða við veljum a.m.k. ekki meðvitað sjálf.

Veikindi, missir, áföll hvers konar,  eitthvað sem við reiknuðum ekki með – og eitthvað sem við hefðum aldrei valið ef við hefðum mátt ráða. –

Veraldleg áföll eru öðru vísi en t.d. andleg eða heilsufarsleg. –

Þá er ég að tala um muninn á því t.d. að beygla bílinn eða lenda í beyglu sjálfur.

Hvort sem er,  þarf maður á einhverjum tímapunkti að sættast við það sem er,  og þegar sáttinni er náð hefst vöxtur að nýju.

Lífið er hreyfing, og lífið  er vöxtur.   Ef við stöðnum og vöxum ekki út á við er hætta á því að eitthvað fari að vaxa inn á við,  og þá er ég ekki að tala um eitthvað gott heldur eitthvað vont.   Það sem vex inn á við er einhvers konar æxli,  æxli gremju, æxli reiði, æxli afbrýðisemi eða einhverrar vondrar tilfinningar.

Tilfinningar þurfa að eiga farveg út.  „Expression“ – er tjáning.  Við erum að setja eitthvað út.  „Suppression“  – er bæling og við höldum einhverju inni. –

Það er því mikilvægt þetta tvennt, að leyfa tilfinningunum að koma – ekki forðast þær,  bæla eða afneita,  sættast við þær ef þær eru þarna, yrða þær upphátt og halda svo áfram. –

Lissa Rankin læknir hélt fyrirlestur þar sem hún sagði:  „Either you grow or you grow a tumor“ –    Þetta „tumor“ eða æxli getur verið bæði andlegt og líkamlegt, en það hefur alltaf vond áhrif.

Að samþykkja það sem er,  að ná sátt er eins og að búa til jarðveginn fyrir heilbrigðan vöxt,  – þegar sátt er náð er hægt að fara að vaxa á ný. –

Það er að hafa trú á því að þegar einar dyr lokast opnast aðrar.  Við verðum þá að hætta að hanga á hurðarhúninum á þeim læstu og fara að líta í kringum okkur eftir opnum dyrum. –  Við gætum líka öskrað, skammast, barmað okkur og rifist yfir þessum lokuðu til eilífðarnóns.   En viljum við það? –

Leyfum okkur að trúa á nýjan vöxt,  að aðrar dyr bíði – dyr að einhverju óvæntu.

Það getur verið  vont þegar dyrunum er skellt á nefið á manni, og það er svo sannarlega í lagi að gráta yfir því.  Það er bara eitt form útrásar fyrir trjáningu (expression)   En eftir því sem við dveljum lengur við þessar dyr,  er það eins og að eltast við maka sem vill ekki sambúð lengur. –   Það veldur stöðnun.  Fókusinn er þá á því sem var,  og/eða það sem er utan við okkur sjálf,   í staðinn fyrir að stilla hann á það sem verður,  og/eða inn á við.

Nýtt upphaf hefst þegar við förum að líta upp,  sjá að það eru fleiri dyr og virða fyrir okkur möguleikana. –  Það byggir á okkar ákvörðun og hugrekki.

Guð – gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.“

Að elska sig innan frá ….

Ég sat í sólinni með Tolle um helgina, – nánar tiltekið með bókina „Mátturinn í Núinu“ – en það er eiginlega sama hvar ég opna hana, það er alltaf eitthvað gott sem talar til mín. –

„Þú getur ekki eyðilagt það sem er raunverulegt“  – og þarna var hann að tala m.a. um sambönd.

Samband byggt á ótta, afbrýðisemi, óöryggi er ekki raunverulegt.

Samband er ekki hundaól.

Ef að þarf að binda annan niður, þá er sambandið ekki raunverulegt. – 

Til  að eiga í heilu sambandi þurfa báðir aðilar að vera þar af heilindum, langa til þess og ekki bara fyrir hinn aðilann.

Ekki af vorkunnsemi, ekki sem einhvers konar „compromise“ –

Svo ég vitni í Brené Brown, „vinkonu“ mína,  þá eru það manneskjur sem lifa af heilu hjarta sem blómstra í lífinu og blómstra þá líka í samskiptum, og að lifa af heilu hjarta er að hafa hugrekki til að tjá sig um langanir, þarfir og tilfinningar við hinn aðilann. –  Að segja sögu sína.  

Að lifa af heilu hjarta er að hafa sjálfstraust og leyfa ljósi sínu að skína,  jafnvel við erfiðustu aðstæður.  

Að lifa af heilu hjarta er að elska sig innan frá.  –

bætti þessu svo við þegar ég var að pósta þessu á vegginn á Facebook.

„Litla“ stelpan mín Jóhanna Vala,  bauð mér í „lunch“ í hádeginu og við ræddum margt og mikið,  á heimleiðinni í bílnum  bar m.a.  þetta á góma. „Það er ekki hægt að eyðileggja það sem er raunverulegt.“ –   Mér finnst svo gaman þegar ég dett í samræður við börnin mín og ég finn að þau eru með miklu meiri skilning á lífinu og tilverunni en ég hafði á þeirra aldri. –   Að þau þroski sig andlega er mér mesta gleðin, því að það er eitthvað sem ekki verður af tekið og mölur og ryð fá eigi grandað. – 

Það er raunverulegt. –

Að rísa upp eftir að hafa fallið er að lifa ..

Við höfum að sjálfsögðu ekki val um allt, – sumt er okkur gefið og annað ekki.  En það mikilvægasta höfum við;  það er hinn frjálsi vilji.

Eins og þarna stendur þá kemur sá tími í lífinu,  eða við komum að þeim gatnamótum þar sem tökum ákvörðun um að láta ekki bjóða okkur upp á hvað sem er,  „drama“  eða hvað sem við köllum það á íslensku þar sem stundum er verið að gera úlfalda úr mýflugu – sem óhjákvæmilega gerist þegar að fókusinn er fastur á neikvæðni og leiðindi.  Sumt fólk nærist á vandamálum,  því miður er það nú þannig, – það reyndar fitar bara skuggahliðina sína eða sársaukann sinn,  en það er nóg til að það er erfitt að umgangast það.

Við getum valið okkur fólk sem nærir sólarhliðina okkar, og nærir sólarhliðina sína, –  Gleymum þessu vonda, og setjum athyglina á hið góða og það sem við veitum athygli vex.  Þökkum það sem við höfum og viljum hafa og það vex líka.

Elskum fólkið sem kemur fallega fram við okkur og biðjum þeim blessunar sem gerir það ekki.  Lífið er of stutt til að lifa  í óhamingju.

Að skrika fótur, gera mistök og jafnvel detta kylliflatur er bara eðlilegur hluti lífsins, en að rísa upp aftur, eftir fallið,  er að lifa. –

Í aðstoðarskólastjóratíð minni hafði ég oft orð á því við nemendur að það væri hverjum manni hollt að prófa það að falla. – Það er ekki síðri skóli en að læra stærðfræði eða íslensku.

Sjálf féll ég í stærðfræði í framhaldsskóla og síðan í grísku í háskólanum. – Það var voðalega vont í bæði skiptin,  og sérstaklega í seinna skiptið þá var ég alveg komin að því að gefast upp.  En ég kláraði mitt embættispróf í guðfræði. –

Ég veit að ég var betri aðstoðarskólastjóri vegna þess að ég hafði reynt það á eigin skinni að falla.  Ég átti betra með að setja mig í spor þeirra sem komu niðurbrotin eftir fall og settust inn á skrifstofu,  en um leið gat ég líka hvatt þau og spurt hvað þau ætluðu að gera í framhaldinu.  Hversu lengi þau hyggðust ætla að liggja og gráta fallið eða hvort þau væru búin að taka ákvörðun hvernig þau ætluðu að nálgast verkefnið í annað sinn.  Hvort þau væru búin að skoða prófið, hvað gerðu þau rétt og hvað rangt.   Því öðru vísi er erfitt að læra af mistökum sínum. –  Fókusinn þarf ekki síst að vera á því sem gert var rétt og svo þarf þá bara að bæta við. –

Þetta er allt spurning um viðhorf, ekki gefast upp og ekki gera ekki neitt.  Ákvörðun um að eiga gott líf er fyrsta skrefið á þinni réttu leið. – Ákvörðunin um að lifa í heiðarleika við okkur sjálf og aðra,  og láta heldur ekki bjóða okkur hvað sem er. –

Og nú ítreka ég nýjasta uppáhaldsfrasann minn:

„When you say yes to life,  life says yes to you“ –

eða

Þegar þú segir JÁ við lífið segir lífið JÁ við þig.  –  Hlustaðu