Að eignast maka .. upp úr miðjum aldri.

Þegar við erum ung og verðum kærustupar þá er lífið þokkalega einfalt.  Það er bara þú og hann,  eða þú og hún,  svona eiginlega bara svoleiðis.

Svo gerist það svo oft,  því miður alllt of oft, að þetta par með einfalda lífið fer að flækja það því það kann ekki alveg að vinna saman eða lifa saman og endar sambandið þá oftar en ekki með skilnaði,  ef þau þá ekki hanga á óánægjunni einni saman  – nú eða af gömlum vana.

Annað hvort ætti fólk að leita sér hjálpar hvað sambandið varðar og finna sátt í sambandinu eða slíta því.  Svona hvorki né, er varla neitt til að hrópa húrra fyrir.

En hvert vorum við komin, jú, þegar flæða svona fyrrverandi út á „sambandsmarkaðinn“  þá eru þessir fyrrverandi oftar en ekki komin með börn – og fyrrverandi eiga fyrrverandi í misgóðu andlegu jafnvægi eða stuði til að láta fyrrverandi í friði.  Fókusinn er allt of oft stilltur á fyrrverandi,  hvað hún/hann er að gera,  o.s.frv.   Annað hvort er að vera eða ekki vera í sambandi, er það ekki?

Það er ekkert auðvelt að byrja í nýju sambandi,  en fólk tekur áhættuna því það er gott að elska og vera elskuð.  Snerta og vera snert.   En vegna þess að fólk kemur með farangur inn í sambönd vill farangurinn oft verða of þungur að dröslast með og þá verður að kunna að losa sig við þannig að það passi í ferðatöskuna.  „Hámarkvigt 20 kg“ .. eins og í flugvélunum!

Það þarf að sortera – svo vélin geti flogið! ..

Farangur getur þýtt ýmislegt,  eins og áður hefur komið fram; fyrrverandi – það er engin spurning að það má alveg losa sig við hann/hana,  börn eru líka farangur en það skilur enginn við börnin sín, eða ætti ekki að gera það þó sumir geri því miður.   Þau eru hluti farangurs sem verður að taka með í reikninginn og læra að púsla þeim inn í nýja sambandið.   Hljómar einfalt? – Það er það ekki og sérstaklega ekki þegar fyrrverandi hefur ítök og reynir að spilla fyrir.  Skil ekki að fólk hafi ekki meiri sjálfsvirðingu en að vera að böggast í fyrrverandi og nýja sambandinu? –   Eða jú ég skil það,  þetta eru særðar manneskjur sem oft hafa upplifað mikla höfnun og vanlíðanin er slík að þær vilja skemma fyrir – „Ef ég finn ekki hamingjuna má hann/hún ekki finna hana“ –

„Hann/hún á ekki gott skilið eftir það sem hann/hún gerði – og ég ætla að skemma fyrir“ …

En ojbara – af hverju ekki sleppa tökum á þessum „njóla“ sem fyrrverandi hlýtur að vera og fara að lifa í eigin lífi en ekki hans/hennar?

Snúið?

Svona vesen er allt of algengt – og ég hvet alla/r til að líta í eigin barm.

Fyrirsögnin er „Að eignast maka … upp úr miðjum aldri“ ..  það þarf ekkert að vera „miðjum“ aldri .. það er bara hvenær sem er.

Það getur verið um þrítugt – fertugt – fimmtugt og uppúr ..

Ég talaði við konu á sjötugsaldri og hún saknaði þess að eiga „partner“ –   þegar þú segir „ping“ – þá er einhver annar sem segir „pong“ ..  Það er koddahjal og knús og svona „hvernig var dagurinn hjá þér“  rabbið sem margir sakna.   Einhver sem deilir með þér lífinu,  þú kastar og það er einhver sem grípur,  kastar til baka og þú grípur.

Einhver sem nýtur með þér sólarlagsins. 

Það er ekki þannig að það sé alltaf skemmtilegra að eiga partner – sérstaklega ef þeir eru leiðinlegir 😉 .. eiga við drykkjuvandamál að stríða eða með einhver önnur vandræði þá dregur þessi partner, eða það sem fylgir honum úr þinni eigin lífsgleði.. þá sannast hið forkveðna að betra er autt rúm en illa skipað.

Það er dýrmætt að eiga góðan maka – sem mætir þér á miðri leið, þarf ekki að vera í samkeppni við þig,  þið styðjið hvort annað,  hafið kósý saman á köflóttum náttbuxum – og dekrið hvort annað til skiptis.  Undirstaða góðs sambands er að vera í góðu sambandi við sjálfa/n sig.  Það er gott að vera í góðu sambandi og njóta sólarlagsins.

Eigum við það ekki öll skilið?

556212_332315983512626_1540420215_n

Hin eilífa orka lífsins ..

Þó þú takir eitthvað tæki úr sambandi þýðir það ekki að orkan sé ekki enn til staðar.

Rafmagnið.

Líkaminn okkar er tæki – en við erum tengd ósýnilegum straumi – orku, lífsorku sem aldrei deyr.  Það þýðir að þó að líkaminn, eða hulstrið okkar og líffærin sem halda líkamanum gangandi deyji þá höldum við áfram „við“ – sem orka –  sem sál – höldum áfram.

Við höfum þá möguleika á að vera sannir sálufélagar, því við verðum ekki aðeins við hlið þeirra sem við elskum – við verðum með þeim alltaf og alla daga og í þeim.

Við getum ekki sinnt þeirra líkamlegu þörfum en við erum 100% til staðar fyrir þau andlega,  þau þurfa bara að finna það og skynja.

Þau sem eru „skilin eftir“ geta valið að ganga áfram í gleði eða sorg.  Aðsklnaðurinn er erfiður svo það kemur alltaf sorg,  en sorgin má ekki vara að eilífu,  það þolir enginn, ekki heldur þeir sem fóru – það finnst þeim vont.  Allir hafa sitt hlutverk og einhver verður að hafa gleði og gæfu til að sinna sjálfum sér og þeim sem þurfa hendi til að halda í.

Ekki spyrja mig hvaðan þetta kemur, en eflaust kemur þetta bara frá sama stað og flest mín skrif sem bara koma og ég veit ekkert hvaðan.

Annars…

Jú, ég veit það og þú kannski líka.

WEBBizCardFront

12 skref að sjálfsrækt …

1014093_549281085109778_432690481_n

 

1.  Ef þú hefur á tilfinningunni að það sé rangt, ekki framkvæma það 

2. Segðu nákvæmlega það sem þú meinar

3. Ekki fara í þóknunarhlutverkið. 

4. Treystu á eigið innsæi. 

5.  Aldrei tala illa um sjálfa/n þig. 

6.  Aldrei gefast upp á draumum þínum 

7.  Aldrei vera hrædd/ur við að segja „Nei“ 

8.  Aldrei vera hrædd/ur við að segja „Já“ 

9.  Vertu góð/ur við sjálfa/n þig 

10. Slepptu tökunum á því sem þú getur ekki stjórnað

11. Haltu þig frá drama og neikvæðni

12. Elskaðu ❤

Ég held reyndar að það sem er skráð hér sem 12 sé rúsínan í pylsuendanum,  það að elska sé grunnurinn að þessu öllu, elska sjálfan sig, elska aðra, elska lífið.

Við höfum val hvernig við förum í gegnum lífið – þó að lífið mæti okkur með alls konar uppákomum,   þá er eins og stendur einhvers staðar, ein versta fötlun mannlegrar tilveru er það að hafa neikvætt viðhorf. 

Listum upp það og veitum athygli því sem við höfum og því sem við erum þakklát fyriir – „count our blessings“ – en ekki liggja í listunum yfir það sem okkur vantar eða skortir.

Það sem við veitum athygli vex – og því er besta sjálfsræktin að veita sjálfum/sjálfri sér jákvæða athygli og vaxa og þroskast þannig.

Áhættan við að gráta er að virka of tilfinninganæm ..

Áhættan við að hlæja er að við lítum út eins og kjánar.  Áhættan við að gráta er að við virkum of tilfinninganæm. Áhættan við að tengjast öðrum er að blanda sér í málefni annarra.

Áhættan við að sýna tilfinningar er að opinbera sjálfa/n sig.   Áhættan við að opinbera drauma þína eða hugmyndir fyrir framan aðra er að tapa þeim.  Áhættan við að elska er að vera ekki elskuð á móti.

Með því að lifa tökum við áhættuna á því að deyja.  Með því að vona tökum við áhættuna á því að vonin bregðist.  En áhættu verður að taka.  Vegna þess að stærsta ógn lífsins er að taka enga áhættu.  Ef þú tekur enga áhættu og gerir ekkert, deyfir þú anda þinn.  Þú getur forðast sársauka og sorg, en þú getur ekki lært, fundið til, breyst, vaxið, elskað og lifað.

Hlekkjuð við viðhorf okkar, erum við þrælar. Þá höfum við gefið eftir frelsið.  Aðeins ef við tökum áhættuna erum við frjáls.

„Sú manneskja sem tekur enga áhættu, gerir ekkert, hefur ekkert, er ekkert, og verður ekkert.  Hún getur forðast þjáningu og sorg, en hún getur ekki lært og upplifað og breyst og vaxið og elskað og lifað.“

~Leo Buscaglia 1043988_548142515223054_926169340_n

Hið vandmeðfarna vald – að kunna á takkana hjá einhverjum …

Ef þú ýtir á start takkann á þvottavélinni,  fer þvottavélin í gang.  Nema að hún sé biluð!  Heilinn í minni þvottavél er eitthvað illa tengdur, hún fer í gang en stoppar oft í miðju prógrammi, og þá þarf að endurræsa.

En ekki ætlaði ég að fara að skrifa hér um þvottavélaprógramm.

Flest þekkjum við aðila sem hafa það vald yfir okkur að þeir þekkja á hvaða „takka“ á að ýta til að við förum í gang.  Þá er ég ekki að tala um „í gang“ á góðan máta,  heldur þegar kveikt er á þessu gamla prógrammi,  t.d. sektarkennd, skömm, vanlíðan, reiði o.s.frv.

„Takkafólkið“  verður eflaust alltaf til í lífi okkar, og  eina sem við getum gert er að gera okkar besta til að forðast umgengni við þetta fólk eða  að fá endurforritun,  þannig að þrátt fyrir að reynt sé að ýta á alla taka, verðum við ónæm eða aftengjum þræðina í þessa takka.

Oftar en ekki er fólkið í nærfjölskyldu,  þannig að við slítum okkur ekki svo létt frá því.  Stundum veit það ekki af valdi sínu og telur sig ekki hafa gert nokkurn skapaðan hlut.

Mamma kemur heim þreytt úr vinnunni og segir við barnið: „Þakka þér fyrir að taka úr uppþvottavélinni“ – (sem það gerði ekki) – en nú er kveikt á samviskubitstakkanum,  vatnið seytlar inn og tromlan fer í gang.   Nú gengur sektarkenndin og veltist um innra með barninu sem stóð sig ekki.

Langar mömmu til að barninu líði illa? –  Telur hún þetta vænlegt til árangurs, uppbyggilega aðferð við að kenna barninu að gera heimilisstörf?

Ég held ekki.

Þetta er bara gamla prógrammið hennar mömmu sem hún notar á barnið sitt. Eitthvað sem notað var á hana og hún notar áfram því hún kann ekki annað.

Við endurforritum með því að vakna til meðvitundar um það hvenær við erum að beita valdi,  hvenær við erum að ýta á takka sem eru óhollir öðrum.

Verum vakandi með valdið,  hvernig við notum það og hvernig við beitum.

Við viljum jú öll vera góð og ekki ala á vanlíðan hjá öðrum,  en yfirleitt er það nú þannig að eftir því sem við erum sjálf að glíma við meiri vanlíðan þess iðnari verðum við að dreifa henni yfir á aðra.

Verum góð  ❤

Fresh-Lotus-Flower

„Ég á líf, ég á líf“ ….

Já, já, ég veit það – sumir eru bara orðnir mjög þreyttir á þessu lagi, en mikið svakalega er textinn góður og boðskapurinn eftir því.

Því miður eru ekki allir sem kunna að meta það að þeir eigi líf,  og það er svolítið sorglegt að horfa upp á fólk sem hefur val um lif að þiggja ekki lífið sem þeim er gefið.

Til að „kunna“ að meta þurfum við að læra að meta og kennararnir eru að sjálfsögðu við eldra fólkið – fyrirmyndirnar sem kennum börnunum.

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.  Þau horfa á hvernig mamma lifir sínu lífi og  þau horfa á pabba hvernig hann lifir sínu lífi.  Þau horfa líka til afa og ömmu, e.t.v frænku eða frænda – þau horfa á kennarana sína í skólanum, vissulega skólafélaga líka, og svo ýmissa fyrirmynda sem birtast í frægu fólki eða þeirra sem eru áberandi almennt í samfélaginu.

Þau horfa líka á samskipti þessa fólks,  samskipti pabba og mömmu, samskipti foreldra e.t.v. við stjúpforeldra o.s.frv. –   Allt hefur áhrif á val barnanna og síðar unglinganna hvernig þau lifa lífinu og hvort þau lifa lífinu lifandi og meta.

Lífsgangan er langt ferðalag,  fyrir flesta.   Það velur sér hver og einn sinn farveg þó að hann horfi á þau sem á undan ganga og sjái e.t.v. einhverja leið sem honum líst á að sé farsæl.

En farvegurinn skiptir kannski ekki öllu máli,  það er hvernig hann er genginn.  Hvaða nesti við veljum með í ferðalagið.  Þar læra börnin af þeim sem á undan fara.  Hvernig ganga þau? –  Eru þau að njóta ferðalagsins, virða fyrir sér útsýnið, brosa til samferðamanna, hjálpa þeim sem á hjálp þurfa að halda,  eru þau að ganga í gleði?

Eða?

Eru þau álút og með hettuna dregna upp á höfuð – líta sjaldan upp og ganga leiðina eins og leiðslu og næstum sofandi? –  Sjá þau útsýnið?

Það er ekkert sjálfsagður hlutur að eiga líf og því er yndislegt að syngja óð til lífsins og þakka lífið sem gefið er.   Ég sá frétt um mann sem sagðist hafa farið á „Get a life“ kúrinn,  en hann hafði verið einn af þeim sem var að vinna gegn lífinu,  með því að bæla það og deyfa með mat og var orðinn allt of þungur.  Hann þurfti líka að komast upp úr sófanum.  Það getur verið átak.  En þessi maður var heppinn,  hann hafði val og hann notaði valið.  Kannski hefur hann séð einhvern samferðamann sem átti gleðilegra líf en hann sjálfur og sá að það ER hægt að eiga gleðilegt líf, að lifa lífinu lifandi en ekki bara þrauka.   Það er auðvitað það sem við flest hljótum að vilja.

Þegar við erum að nöldra yfir smámunum eða stofna til rifrilda út af hlutum sem raunverulega skipta engu máli,  eða gera rellu út af því,  þá eru margir sem svara því einmitt því að segja „Get að life“  – og það sorglega er að ef að fólk er fast í hlutum sem skipta ekki máli, er fast í gremju eða smámunasemi þá er það að vinna gegn lífinu.  Ef lífið er leiðinlegt þá er stundum farið í það að búa til vandamál eða veita þeim allt of mikla athygli.  Fara í sjálfsvorkunn og í raun hafna lífinu.  –

Ég talaði um það í upphafi að sumir kunna ekki að lifa lífinu,  það eru í sumum tilfellum fólkið sem hefur ekki fengið tækifæri til að fljúga úr hreiðrinu frá foreldrunum – hefur ekki fengið leyfi til að breiða út vængina og fljúga, já og detta nokkrum sinnum.   Læra að reyna aftur þegar þau detta o.s.frv.   Það eru hin ofvernduðu og ofdekruðu og þá meina ég „of“ – og þetta „of“ er ekki gott ekki frekar en „van“ ..

Það er alveg eins og ofvökvuð planta … hún nær ekki að dafna og stundum ekki að lifa. Lífsgangan er þá farin með þeim hætti að þau eru borin í bakpoka foreldranna eða samferðafólksins og það er hvorki gott fyrir  þann sem ber eða þann sem er borinn.  Hvorugur nýtur göngunnar.

Það að komast á fjalltoppinn á eigin gleði og eigin orku er ekki sambærilegt við það að komast þangað keyrandi í bíl og e.t.v sitjandi í aftursætinu.

Lagði ég af stað í það langa ferðalag
Ég áfram gekk í villu eirðarlaus
Hugsaði ekki um neitt, ekki fram á næsta dag
Einveru og friðsemdina kaus

Ég á líf, ég á líf yfir erfiðleika svíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín
Þegar móti mér blæs, yfir fjöllin há ég klíf
Ég á líf, ég á líf, ég á líf

Ég skildi ekki ástina sem öllu hreyfir við
Þorði ekki að faðma og vera til
Fannst sem ætti ekki skilið að opna huga minn
Og hleypa bjartri ástinni þar inn

Ég á líf, ég á líf yfir erfiðleika svíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín
Þegar móti mér blæs, yfir fjöllin há ég klíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín

Og ég trúi því, já, ég trúi því
Kannski opnast fagrar gáttir himins
Yfir flæðir fegursta ástin
Hún umvefur mig alein

Ég á líf… yfir erfiðleika svíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín
Þegar móti mér blæs, yfir fjöllin há ég klíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín

Ég á líf, ég á líf, ég á líf

masada9

Neikvæð – jákvæð … fýla kemur ekki utan frá!

Einu sinni voru nokkrar konur í hópi að tala saman. Þ.m.t. Arnlaug og Geirlaug. Arnlaug kom með alls konar hugmyndir og var að tala um uppbyggilega hluti, en Geirlaug reif þá niður jafnóðum og sá hindranir í öllum hugmyndum Arnlaugar.

Arnlaug varð mjög pirruð og sagði við Geirlaugu: „Þú ert svo neikvæð“ – Geirlaug fór í vörn og mikla fýlu og ætlaði að rjúka út. –

Hvað gerist þegar að fólk (sem telur sig almennt jákvætt) umgengst neikvætt fólk? – Jú, neikvæða fólkið kallar fram neikvæðnina í öðrum, og e.t.v. efasemdir. Í stað þess að ásaka Geirlaugu um neikvæðni hefði verið rétt af Arnlaugu að nota „ég“ samskipti (sem meistari Hugó er þekktastur fyrir að kenna í samskiptum foreldra og barna)  og segja. „Ég finn til svo mikillar neikvæðni innan í mér í þessum samskiptum okkar.“ – Það er nefnilega þannig að neikvætt fólk kallar fram okkar neikvæðni og jákvætt fólk kallar fram okkar jákvæðni.

Við eigum þetta flest – ef ekki öll – innan í okkur,  neikvæðnina,  en bara spurning hvort við erum meðvituð um það og hvernig við „tæklum“ tilfinningarnar. Verum vakandi yfir því sem er að gerast.

Fýla kemur ekki utan frá, hún kemur innan frá. Þannig að ef við förum í fýlu þá er búið að kveikja á einhverju innan með okkur, sem við höfum ekki passað upp á eða kunnum ekki að gæta að.  E.t.v. eru það lærð viðbrögð sem þarf að aflæra. 

Meðvitundin er eins og slökkvitæki, þ.e.a.s. um leið og við áttum okkur á því að verið er að kveikja á eða ræsa neikvæðnitakkana þá er það okkar að sjá það og viðurkenna að það hafi tekist og bara hreinlega slökkva á þeim aftur. 😉 ..

Við verðum að athuga það að eflaust er ástæða þess að okkur langar svo mikið að breyta öðrum og hjálpa sú að okkur langar að öllum líði vel,  því að ef öðrum líður vel líður okkur vel.  Hitt er líka til að við viljum að aðrir finni til óhamingju,  en oftast er það vegna þess að þeir hafa með einu eða öðru móti sært okkur og við viljum að þeir finni sársauka okkar.

Við erum svo óendanlega mikið tengd.  Munum að við „græðum“ aldrei á óhamingju annarra,   og skiljum af hverju okkur líður eins og okkur líður.   Ef við erum í fýlu út í einhvern munum það líka að fýlan kemur ekki utan frá.

Við berum ábyrgð á okkar eigin líðan.

Já, já, þetta var morgunhugleiðingin.

Gott að átta sig á eigin ljósi. –

1045095_10151570470523141_187147723_nJákvæða fólk!

Við heppin að hafa jákvæðnineista líka og leyfum honum endilega að loga!