Hamingjan liggur í því að sætta sig við ófullkomleikann ..

Brene Brown er rannsóknarprófessor í University of Houston Graduate College of Social Work. Hún hefur varið 10 árum í að rannsaka berskjöldun (vulnerability),  skömm,  einlægni og hugrekki. Hún er höfundur bókarinnar „The Gifts of Imperfection.“

Eftirfarandi er þýðing (og smá útúrdúrar) á grein sem birtist á CNN „Want to be happy, stop trying to be perfect.“  

Hún er þarna með „lykilinn“ að lífshamingjunni – og efni hennar kallast algjörlega á við það sem við hjá Lausninni erum að vinna með í sambandi við meðvirkni, en sá sem er meðvirkur er einmitt alltaf með hausinn fullan af því „hvað aðrir eru að hugsa“ og að geðjast umhverfinu svo að hann sé samþykktur. Sér ekki eigið verðmæti, nema í gegnum annað fólk eða hluti (einföldun).

En eftirfarandi er þýðing eða endursögn.  en mér finnst þetta svo ótrúlega mikilvæg skilaboð og held að við værum svo mjög bætt ef að við færum að lifa í heimi án blekkinga og þykjustunnileikja. Fólk færi að þora að segja hlutina eins og þeir eru, en ekki lifa bak við grímur meira og minna allt lífið, þar sem það segir bara „allt ágætt“ þrátt fyrir að vera e.t.v. í vanlíðan.

Eftirfarandi er greinin:

Mörg okkar hafa í gegnum árin rembst eins og rjúpan við staurinn við að vera fullkomin.  En undarlegt en satt, að aldrei virðist það nást og við erum orðin úrvinda, teygð og toguð að innan af skömm og vonbrigðum yfir því að ná ekki þessum meinta fullkomleika.
Við getum ekki slökkt á „röddinni“ í hausnum, sem hljómar eitthvað á þessa leið „Þú ert aldrei nógu góð/ur“  – „Hvað skyldi fólk eiginlega halda?“ .. „Hver þykist þú vera?“
Hvers vegna, þegar við vitum að það er ekkert til sem heitir fullkomið, eyðum við svona miklum tíma og orku að vera og gera allt fyrir alla?  Halda öllum ánægðum? –
Er það vegna þess að við erum svona hrifin af fullkomnun? – Öööö.. nei!
Staðreyndin er sú að við löðumst að fólki sem er raunverulegt og með báða fætur á jörðinni.  Við hrífumst af frumleika og dáumst að lífi sem er svolítil  óreiða og ófullkomið.
Við sogumst inn í fullkomleikann af einfaldri ástæðu:  Við teljum að fullkomleikinn muni vernda okkur.
Fullkomleiki er sú trú að ef við lifum fullkomin, lítum fullkomlega út, og hegðum okkur fullkomlega vel, getum við forðast eða gert sem minnst úr sársaukann við gagnrýni, áfellisdóm og skömm.
Við verðum öll að upplifa að við séum einhvers virði og tilheyrum einhverjum, og verðmæti okkar er í húfi þegar við erum aldrei nógu _____________ (þú getur fyllt í eyðuna: mjó/r, falleg/ur, greind/ur, sérstök/sérstakur, hæfileikarík/ur, dáð/ur, vinsæl/l, upphafin/n).
Fullkomleiki er ekki það sama og að gera okkar besta. Fullkomleiki er ekki um að ná heilbrigðum markmiðum og vexti;  hann er skjöldur eða skrápur.  Fullkomleiki er 20 tonna skjöldur, sem við dröslum með okkur, og ímyndum okkur að hann muni vernda okkur, þegar hann í raun er hluturinn sem hindrar okkur að vera séð og að ná flugi.

Fullkomleikinn er það sem heldur aftur af okkur að ná árangri.
Þegar við búum í samfélagi þar sem yfir flæða óuppfyllanlegar væntingar í öllu mögulegu,  frá því hversu mörg kíló við eigum að vera til þess hversu oft í viku við eigum að stunda kynlíf, er ógnvekjandi að leggja frá sér varnarskjöldinn.  Að finna hugrekkið, ástríðuna og tenginguna við að flytja sig frá hugsuninni „Hvað ætli fólk hugsi“?  yfir í „Ég er nóg.“  það er ekki auðvelt.  En hversu hrædd sem við erum við breytingar, kemur að því að við verðum að svara eftirfarandi:
Hvort er meiri áhætta?  Að sleppa því sem fólk hugsar – eða að sleppa því hvernig mér líður,  hvernig ég trúi, og hver ég er?
Hvernig búum við okkur undir hugrekki, ástríðu og tengingu sem við þurfum til að ná utan um okkar eigin ófullkomleika og að viðurkenna að við erum nóg – að við séum verðug ástar, að tilheyra og gleði?  Hvers vegna erum við öll svona hrædd við að láta hin sönnu okkur vera séð og þekkt. Hvers vegna erum við svona lömuð yfir því hvað aðrir hugsa um okkur?
Eftir áratuga rannsóknir Brene Brown á  berskjöldun, skömm, og einlægni, hefur hún uppgötvað eftirfarandi:
Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.
Í rannsóknarviðtölum sínum, komst Brené að því að aðeins einn hlutur aðskildi konurnar og karlana sem upplifðu djúpstæðar tilfinningar ástar og þess að tilheyra frá þeim sem voru að berjast við það. Það var verðmætamat þeirra.  Það er ekki flóknara en eftirfarandi:

Ef við viljum upplifa að fullu ást og það að tilheyra, verðum við að trúa að við séum verðug ástar og að tilheyra einhverjum.
Stærsta áskorunin fyrir okkur flest er að trúa að við séum verðug núna, á þessari mínútu.  Það eru engar forsendur fyrir verðmæti.
Mörg okkar hafa skapað lista fyrir forsendum verðmætis:

  • Ég verð vermæt/ur þegar ég hef misst 10 kíló
  • Ég verð verðmæt ef ég verð ófrísk
  • Ég verð verðmæt/ur ef ég verð/held mig edrú
  • Ég verð verðmæt/ur ef allir halda að ég sé gott foreldri
  • Ég er verðmæt/ur ef ég hangi áfram í þessu hjónabandi
  • Ég verð verðmæt/ur ef ég næ í flottan maka
  • Ég verð verðmæt/ur þegar foreldrar mínir samþykkja mig loksins
  • Ég verð verðmæt/ur þegar ég get gert allt, og það lítur út fyrir að ég sé ekki einu sinni að reyna

Hér er það sem er í raun kjarninn í því að lifa af heilu hjarta:

Verðmæt/ur núna. Ekki EF. Ekki ÞEGAR.  Þegar við erum verðug ástar og þess að tilheyra núna. Þessa mínútu. Eins og er.
Að sleppa forsendunum fyrir verðmæti þýðir að ganga hinn langa gang frá “ Hvað heldur fólk?“ til þess: „Ég er nóg.“  En eins og öll mikil ferðalög,  hefst þessi ganga á einu skrefi, og þetta fyrsta skref í göngunni að heilu hjarta er að æfa sig í hugrekki.
Rót orðsins „courage“ á ensku er er latneska orðið cor – fyrir hjarta.  Í fyrri tíma skilgreiningu hafði orðið „courage“ aðra skilgreiningu en það hefur í dag.  Það hafði upprunalega þá þýðingu að segja hug sinn, með því að tala frá hjartanu.  Það stemmir ágætlega við íslenska orðið hugrekki, að segja hug sinn.
Í tímans rás hefur skilgreiningin breyst og í dag á hugrekki meira skylt við  hetjuskap.  Hetjuskapur er mikilvægur og við þurfum sannarlega á hetjum að halda, en Brene Brown telur að við höfum misst tenginguna við það að tala einlæglega og opinskátt um hver við erum, um tilfinningar okkar, og um reynslu okkar (góða og slæma) – það sem er skilgreining á hugrekki.
Hetjuskapur er oft um það að leggja lífið að veði.  Hugrekki er um að leggja berskjöldun okkar að veði – að fella varnir okkar. Ef við viljum lifa og elska af heilu hjarta og taka þátt í tilverunni þar sem við erum verðmæt, af sjónaróli verðugleikans, er fyrsta skrefið að æfa hugrekkið að vera saga okkar (skammast okkar ekki fyrir líf okkar) og segja sannleikann um það hver við erum. 

Meira hugrekki er ekki hægt að hugsa sér.“

„SANNLEIKURINN MUN GJÖRA YÐUR FRJÁLS“ .. 

grima.jpg

Samtal um sjálfs-traust – I hluti

Þessi skrif eru mínar eigin hugleiðingar í bland við hugleiðingar úr bókinni „Self-Confidence“ eftir Paul McGee,  en hann talar þar um hvað þarf oft lítið til að breyta miklu. – Tekur sem dæmi gerið í brauðbaksturinn,  eða stefnubreytinguna á áttavitanum þegar til lengri tíma er litið.

Flest ef ekki öll viljum við geta treyst öðrum, en ekki síður okkur sjálfum. –

Svo hvað er sjálfstraust? – Hafa trú/traust á sjálfum/sjálfri sér –

Í „glóyrðabók“ Guðna Gunnarssonar,  segir hann:

Treysta: að styrkja, að trúa og  Trúa: að treysta sig, að styrkja sig

Sjálfstyrking og sjálfstraust vinna því saman og við þurfum að vinna með trúna og traustið á hverjum degi, – vinna í því að styrkja sig. –

Paul McGee (höfundur „the SUMO guy“ – (Shut up and move on) segir að sjálfstraust sé X-faktor lífsins okkar. Góðu fréttirnar eru, að oft þarf ekki nema litla breytingu til að auka sjálfstraustið til muna.

Ég er ekki að tala um annarra traust, sem er það sem kemur að utan, heldur sjálfs-traust sem kemur innan frá.

Við þurfum ekki að vera veik til að batna. Við höfum öll gott af því að styrkja sjáflstraust okkar.

Sjálfstraust tengist hugrekki. – Ef okkur er boðið verkefni eða vinna og við förum að draga úr okkur, þ.e.a.s. úrtöluröddin fer að yfirgnæfa þurfum við að styrkja hvatningaröddina. – Það er til að við þorum! –

Kannski höfum við einhvern tímann fengið tækifæri upp í hendurnar og okkur langað að segja JÁ,  en ekki þorað því vegna skorts á trausti á okkur sjálfum!

Lykiliin er að hafa traust á á getu okkur og hæfileikum, jafnvel þó að við hefðum ekki kunnað starfið,  við hefðum e.t.v. og eflaust getað lært það!

Að auka sjálfstraustið gerir lífið ekkert endilega auðveldara, við höldum áfram að gera mistök og mæta mótstöðu, en það eykur gæði lífsgöngu okkar. –

Sjálfstraust þýðir ekki að við verðum Súperman eða Wonder-woman, – við höldum áfram að vera takmörkuð við hæfileika okkar en munurinn er sá að við treystum þá sem eru fyrir. –  Ef við getum sungið þá þorum við að syngja.  Við höfum öll hæfileika (þeir eru kallaðir talentur (talents)  í Biblíunni) til að ávaxta. –

Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann, – en dæmi um fólk sem gerir það ekki og hefur ekki raunveruleikaskyn er t.d. það fólk sem mætir í söngprufur fyrir raunveruleikaþætti algjörlega laglaust. –

Þó ég hafi ágætt sjálfstraust þá veit ég að ég mun ekki vinna stórsigra á óperusviðinu eða sem ballerína 😉 ..

Aftur á móti, hef ég ágæta hæfileika til að skrifa og ég gæti með góðu sjálfstrausti, trú á sjálfa mig, ræktað þá hæfileika. –

Ég get að sjálfsögðu farið að dansa lika, þó ég geri mér engar grillur um að vinna sigra í ballettheiminum!

Sjálfstraust og hæfileikar verða að fara saman. –

Hæfileikar eru stundum kallaðar náðargáfur, – gjafir sem okkur eru gefnar.  Það er í raun synd að nýta aldrei þessar gjafir eða fela þær.  Þær eru partur af okkur og eina sem við þurfum að gera er að nota þær. –

Ef að hæfileikarnir eru múrsteinar, er sjálfstraustið steypan á milli þeirra, – og það þarf bæði til að ná árangir og njóta velfarnaðar.  Sjálfstraustið hjálpar okkur við að byggja. –

Pælum í því að við erum bara býsna sjálfsörugg í mörgu.  „Practice makes perfect“ –  Flestir geta lært hluti eins og að aka bíl, til að byrja með erum við klaufsk, drepum e.t.v. á bílnum og skiptum vitlaust um gír, en svo er það einn daginn þannig að aksturinn er orðinn næstum sjálfráður.   Hvað ef að við hefðum aldrei trúað á getu okkar til að keyra bíl? –

Sjálfstraust er ekki andstæða við auðmýkt.  Sá sem er auðmjúkur hefur einmitt einmitt gott sjálfstraust.  Það þarf t.d. oft hugrekki til að biðjast fyrirgefningar. –  Að viðurkenna mistök sín er hugrekki.

Það er þó fín lina á milli hroka og sjálfstrausts, og þegar að við getum ekki viðurkennt mistök okkar – erum við komin yfir hana – (komin hrokamegin við línuna). –

Auðmýkt er ekki það að láta valta yfir sig, leggjast eins og dyramotta fyrir fótum fólks.  Auðmýkt er að taka heilbrigt tillit til sjálfs sín, auðmýkt er að vita það að það er allt í lagi að gera mistök og viðurkenna þau.  Auðmýkt er að játa það að það er í lagi að vera ófullkomin og ekki hægt að vera fullkomin. –

Sá sem aldrei gerir neitt – gerir heldur aldrei mistök 😉

Það er sjálfstraust að gera sér grein fyrir og játa veikleika sína og að við getum ekki verið sterk á öllum sviðum. –

E.t.v. er auðmýktin fólgin í því að viðurkenna að á ákveðnum sviðum lífsins þurfum við að þiggja hjálp frá öðrum. –

Auðmýktin er andstæða hroka en ekki andstæða sjálfstrausts.-

Það er hollt að staldra við, líta í eigin barm og spyrja sig hvort að við treystum okkur til að biðja um hjálp, treystum okkur til að viðurkenna þegar við höfum gert mistök. Ég er ekki að tala um að taka byrðar heimsins á okkar herðar, eða taka á okkur sök að ósekju. – Bara þegar t.d. við uppgötvum að við höfum kannski farið offari í dómum okkar gagnvart einhverju fólki,  kannski í bræði? –

Það er svo gott að doka við, hugsa aðeins áður en við leggjum af stað í ferðalag, en ekki leggja af stað í reiði eða gremju, – það er vondur byrjunarreitur. –

„Að efast um gjörðir sínar er allt í lagi á meðan að efinn er vinur okkar en verður ekki yfirvaldið. -“

Læt þetta duga í bili – sem fyrsta hluta.  En annar hluti verður um „Hver braut niður sjálfstraustið þitt?“ – Þar verður m.a. farið í bernskuhlutann og meðvirknina. –

Með hjartað í brjóstahaldaranum …

Neale Donald Walsch – sá hinn sami og segir frá samtölum sínum við Guð, segir að við séum alltaf að fá skilaboð frá Guði,  þau geta birst sem orð í dagblaði, setning sem talar til þín úr ljóði, eða bara komið sem skilaboð með fólki. –

Vegna þess að ég þykist stundum vera svo meðvituð, held ég að ég sjái þau alltaf,  en eflaust fara þau mörg framhjá mér – kannski vegna þess að ég er ekki að veita þeim athygli, hlusta ekki og sé ekki. –

„Sá sem augu hefur hann sjái,  sá sem eyru hefur hann heyri“ –

En það er ekki alltaf svo.

Það var í ágúst 2012 að ég var í fimmtugsafmæli vinkonu minnar, var búin að skemmta mér mjög vel auk þess að vera veislustjóri.  Þemað mitt var „kærleikur“ – og hafði ég keypt límband og límt það inn í möppu fyrir afmælisbarnið ásamt ýmsu propsi, en á límbandinu stóð „kærlighed“  –  enda keypt í dönsku verslunarkeðjunni Tiger.

Þar verslaði ég líka falleg rauð steinhjörtu og hafði sett eitt inn í brjóstahaldarann til að hafa í hjartastað (ein af mínum sérviskum) og ætlaði jafnvel að nota það sem einhvers konar gigg í afmælinu, – ef að sú staða kæmi upp, en það væri pínu í anda Siggu Kling sem raðar steinvölum í sinn haldara,  og dreifir. –

Ég var ekki nógu frökk um kvöldið og leyfði steininum að hvíla í friði! 😉 ..

Um eitt leytið var ég orðin lúin, búin að drekka nokkur hvítvínsglös, en lá vel á mér – (s.s. ekki of mörg glös) og við ákváðum að panta leigubíl.  Fórum við í samfylgd,  ég og síðan vinkona mín og maðurinn hennar enda öll á leið í 101.  –

Þau settust í aftursætið, og ég í framsætið, – en bílstjórinn var notalegur eldri maður og var hann að spila hlýlega Salsa tónlist. – Ég hreifst strax af tónlistinni og bauðst hann þá til að hækka. –  Við fórum síðan að ræða um lífið og tilveruna, börn, barnabörn,  sjósund, sumarbústað fjölskyldunnar við Hreðavatn og síðast en ekki síst Tango og Salsa.  Sagðist hann fara reglulega að dansa,  bæði í Iðnó og Thorvaldsen og hvatti okkur til að prófa það. –

Jæja, þegar við vorum komin á fyrri áfangastað réttu vinir mínir fram visakort og vildu borga bílinn,  en leigubílstjórinn sagði þeim að láta það vera. –  Við urðum smá spurningamerki, en hann sat fastur við sinn keip. – Þá héldum við áfram ég og hann og enduðum á Holtsgötu, en héldum áfram að tala um dansinn.  Ég var auðvitað kurteis og tók upp veskið,  en hann ítrekaði þá að hann vildi enga greiðslu,  hann væri búinn að þiggja svo mikinn kærleika þetta kvöldið að hann þyrfti enga greiðslu 😉   … Ég verð að viðurkenna að ég fékk trú á mannkynið og kærleikann þetta kvöld. –  Ég þakkaði honum auðvitað hjartanlega fyrir elskulegheitin, – hljóp létt á fæti inn – og þegar ég háttaði var ég búin að gleyma hjartanu í brjóstahaldaranum sem valt nú fram á gólfið………..

Þessi saga er frá því í ágúst – og nú er kominn febrúar, bráðum mars og ég enn ekki farin að dansa!  Að dansa er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og fyrir utan það að vera góð hreyfing. (Búin að ákveða eitt lag fyrir útförina mína og það er Dancing Queen með Abba, ekki ráð nema í tíma sé tekið!)

Í morgun var ég á fundi þar sem þessi saga rifjaðist upp, – ég ætla að íhuga það hvort að ég hafi bara horft fram hjá því að Guð hafi verið að senda mér skilaboð um að fara að dansa, – en hvort sem það eru skilaboð frá Guði, alheiminum eða leigubílsjóra er kominn tími til að dansa!

Skilnaður frá sjálfum sér?

Þessi pistill er aðallega um skilnað og karlmenn, en á að sjálfsögðu við konur að miklu leyti. –  Efnið er stolið og stælt, bland í poka úr eigin smiðju og af netinu. – 
Ákvörðun um skilnað er yfirleitt tekin eftir einhvern aðdraganda, þó að annar aðilinn komi alveg af fjöllum og bregði mjög. – Stundum hefur sá aðdragandi staðið yfir í mörg ár.  Þannig að það er bara sá/sú sem setur niður fótinn og segir;  „Ég vil ekki meira svona“  sá aðili sem yrðir skilnaðinn,  þó að hann sé í raun löngu kominn í loftið.

Stundum er það auðvitað þannig að annar eða báðir aðilar hafa vitað að það er ekki „allt í lagi“ en hafa horft fram hjá því, kannski með þá von í brjósti að það reddaðist af sjálfu sér.

Hvað er fólk að segja þegar það er fjarlægt og forðast nánd við hvert annað,  eru það ekki fyrstu skrefin í átt að skilnaði? –  Þessi fjarlægð getur verið frá maka, en líka flótti frá sjálfum sér. – Að vera „absent“ – eða fjarstödd andlega, og stundum oft í líkama líka.

Það má kannski segja að upphafið að skilnaði sé skilnaður frá sjálfum sér.

Sjálfsvirðing, sjálfstraust, sjálsfsmeðvitund og að elska sjálfan sig sé undirstaða þess að geta virt, treyst og elskað aðra manneskju? 

Tilfinning sem er oft ríkjandi hvað skilnað varðar er höfnun.  Fólk upplifir höfnun þegar makinn hefur haldið framhjá. – Fólk upplifir líka höfnun þegar maki þess forðast nánd, forðast samveru og forðast kynlíf. –  Höfnunin getur komið fram á svo marga vegu. –  Hver byrjar að hafna skiptir ekki öllu og ég tel að skilnaður eigi ekki að vera einhvers konar „blaming game“ ..

Það er ekki bara ein lausn við hjónabandserfiðleikum.  Ekki sú eina að skilja.  Lausnin getur verið að leita sér hjálpar, fara (þá bæði) að vinna í sér, bæta það sem brotið er í sér, því við getum ekki alltaf bara horft á hinn aðilann.  Best tel ég að bæði vinni í sér og saman líka.

KARLAR OG SKILNAÐUR

Samfélagið hefur kennt körlum að vera „harðir“ fela tilfinningar sínar, gráta ekki. –  Karlmenn verða þar af leiðandi oft tilfinningalega lokaðir og eiga erfitt með að tjá sig, því  þeir telja e.t.v. að karlmennsku sinni vegið?  Ég set hér spurningamerki, því ég er ekki karlmaður.

Karlmenn, jafnt og konur eru tilfinningaverur.  Litli strákurinn hefur jafn mikla þörf og litla stelpan, en fljótlega er farið að gera greinarmun, – enn í dag og það tekur tíma að afvenja samfélagið af þessu.  „Gráttu ekki eins og stelpa“ – „Harkaðu af þér og vertu karlmaður“ ..  þetta liggur enn í loftinu og er í undirmeðvitundinni. –

Það þykir „flottara“ að karl verði reiður en að hann verði dapur eða gráti.

Hvað ef að karlmaður er yfirgefinn af eiginkonu, hafnað og hann skilinn eftir í lausu lofti? –  Hvaða tilfinningar sýnir hann?  – Hann fer auðvitað í gegnum allan tilfinningaskalann eins og kona, en reiði gæti orðið hans birtingarmynd, því það er svona „skást“ út á við. –

Við lærum margt í bernsku og við berum þær tilfinningar með okkur inn í fullorðinsárin.  Ef að drengur hefur fengið höfnun í bernsku, og aldrei tjáð sig um hana, eða ef að hann situr uppi með einhver óyrt sár eða vanlíðan, þá ýtir það undir enn meiri vanlíðan við skilnað. –  Viðbrögðin geta koma fram eins og hjá barni sem fær ekki það sem því finnst eiga skilið. – Með reiði. –

Hverjar eru afleiðingar af innibyrgðum tilfinningum? –  Þær geta leitað í farveg fíknar, ofbeldis, einangrunar – allt farvegur sem er til þess gerður að komast af.  Við erum „survivors“  og leitum leiða til að þola það óþolanlega.  Ef við tjáum okkur ekki um það, um hvernig okkur líður, verður það óhjákvæmilegt að leita í einhvern af áðurnefndum farvegum.

Ein af leiðunum okkar getur verið að afneita tilfinningunum og/eða deila þeim ekki með neinum, hvorki fjölskyldu, vinum né utanaðkomandi,  vinna ekki í sjálfum sér,  heldur að fara í örvæntingu að leita að næsta maka, og það að fara í því ástandi inn í samband er aldrei góðs viti. –  Heilunin hefur ekki átt sér stað og má segja að það sé eins og að hella ekki óhreina vatninu úr skúringarfötunni áður en nýtt vatn er sett í það. –

Þessi leið er ekki einungis leið karlmanna, konur nota hana oft, en mun sjaldnar en karlmenn. –  Samfélagsmenningin er að breytast,  en enn er eins og áður sagði minna umburðalyndi í garð karlmanna, þannig að heilbrigð viðbrögð eins og að sýna tilfinningar eða fara í gegnum sorgarferli er síður viðurkennt þegar karlmaður á í hlut.  Það að viðurkenna ótta, vanmátt, depurð, sorg og kvíða. – En allt er þetta hluti eðlilegs sorgarferlis eftir skilnað.

Í stað þess að sýna þessa hlið, sýnir þá karlmaðurinn aðeins merki reiði – sérstaklega í návist annarra,  en í raun er það eina tjáningarformið sem hann leyfir sér að nota, þegar hann kannski í raun langar bara að viðurkenna hversu sorgmæddur hann er.

REIÐIN

Depurð er yfirleitt túlkuð sem veikleikamerki og karlmenn vilja helst ekki vera merktir sem veikir. Það er því skárra að vera reiður!  Öskra eins og sært ljón? –  Reiðin sýnir vald og getur valdið því að menn  (og konur reyndar) segja særandi hluti við maka sem þeir upplifa höfnun frá.

Að missa maka sinn við skilnað getur orðið til þess að upplifa stjórnleysi á eigin lífi.  Þvinguð breyting hefur átt sér stað. „Þetta átti að fara allt öðruvísi“ – Reiðin getur verið tæki til að öðlast valdið á ný, að refsa með orðum og gjörðum, persónunni sem virðist hafa valdið sársaukanum.

Það er auðveldara.  „Hún/hann hélt framhjá mér, hún var alltaf að drekka, hún var ferlega löt.“  „Hún var fjarlæg og sinnti mér ekki.“ –

Önnur aðferð er að gera lítið úr fyrrverandi maka, opinbera viðkvæm atriði sem voru á milli ykkar tveggja. Það er gert lítið úr hinum gagnvart vinum, fjölskyldu og samfélagi. –  Í raun bara til að réttlæta sjálfa/n sig og skilnaðinn.  – En fólk þarf líka að hætta að leggjast svona þungt eftir því að vita „Af hverju skilduð þið?“ .. – „Segðu mér nú alla sorasöguna“..

Það eru takmörk fyrir því hvað utanaðkomandi þurfa að vita mikið – og stundum kemur þeim það ekkert við. –

Of mikil reiði og ótjáðar tilfinningar hafa þekktar afleiðingar, hvort sem er í hjónabandi eða eftir. –

Ofbeldi er ein útrásaraðferðin, – ef að menn geta ekki tjáð sig eðlilega þá leiðast þeir oft út í ofbeldi.  Ekki endilega með því að berja makann, heldur með að sýna vald sitt og „styrk“ með því að skemma hluti, henda niður fatahenginu, brjóta, bramla og skella hurðum.  Þar ofan á kemur hið munnlega ofbeldi – ljótu orðin látin fjúka.

HINDRUN BATA

Reiði og afneitun hindrar eðlilega framvindu batans eftir skilnað og hindra fólk í að ná fótfestu í nýjum samböndum, þegar að gömlu sárin eru tekin með í hið nýja.

Með (reiði) fókusinn fastan á fyrrverandi er vonlaust að vera í sambandi með núverandi.

HVAÐ GERÐIST?

Það þarf að skilja hvað gerðist, hvað misheppnaðist í fyrra sambandi, hver voru mín mistök og hver voru makans? –   Það þarf að læra af fyrra sambandi til að það næsta verði betra.  Hvernig er hægt að vera betri maki í framtíðinn?   Ef að tilfinningarnar voru ást í byrjun,  hvað gerðist og hvenær fór það að gerast? –  Af hverju valdi hann hana og hvers vegna valdi hann að vera áfram með henni?

Sjálfþekking er grundvallandi til þess að næsta samband fari ekki á sama veg. Að afneita hinum „ógnvænlegu tilfinningum eins og ótta, kvíða, depurð o.s.frv. mun bara lengja bata- og  heilunarferlið.

BÖRN OG SKILNAÐUR

Í raun þyrfti heilt blogg til að skrifa um þetta. Fólk frestar því oft að skilja vegna barnanna, en stundum er betra fyrir börnin að búa með friðsælum foreldrum til skiptis en að búa inni á heimili fyllt spennu milli foreldra, eða jafnvel ofbeldi.

Það er mikilvægt að foreldrar hafi hag barnanna sinna í fyrirrúmi við skilnað. Börn hafa rétt til beggja foreldra, og foreldrar þurfa virkilega að varast það að nota ekki börnin sem vopn í baráttunni við fv. maka. Það er allt of algengt og það er allt of eigingjarnt.  Það þarf líka að varast að rugla ekki nýrri manneskju inn í líf þeirra of snemma.  Það er farsælast fyrir börnin að foreldrar geti umgengist án hnjóðsyrða eða að tala illa um hvort annað í eyru barnanna.  Fókusinn verður að vera á farsæld barnanna og mikilvægt að engin/n lofi upp í ermina á sér hvað börnin varðar. –

KVÍÐI  

Stressið sem við upplifum í gegnum skilnað skilur marga eftir með kvíðahnút.  Það er svo margt sem breytist og margir kvíðavekjandi hvatar.  Fyrir þau sem eru fyrir kvíðin, getur skilnaður verið nær óbærilega kvíðavekjandi.  Kvíðinn getur komið fram í óróleika, stöðugum áhyggjum og ótta. Það er ekki óalgengt að festast í smáatriðum varðandi framkvæmdaatriði í skilnaði, við vandamál sambandsins og með hugann við hvað hinn aðilinn er að gera.  Það getr truflað einbeitingu, svefn og dagleg störf.  Margir grennast mjög hratt í þessu ástandi og ekki sjaldgæft að sjá fólk missa mörg kíló við skilnað, en þetta vigtartap er yfirleitt hratt og mjög slæmt heilsufarslega séð.

SORG

Sorgarferlið er mjög áreiðanlegt en aldrei auðvelt. Það er sorgin sem menn eru að forðast eða flýja þegar þeir leita í drykkju, lyf, vinnu, tölvur eða hvað sem þeir nota.  Þetta eru engar „short cuts“ – skemmri leiðir fyrir sorg.  Ef við reynum að flýja þá framlengjum við eymdina. –  Eina leiðin er að fara í gegnum hana. – „Go through it“..

Doði er fyrsta stigið, þar sem við trúum ekki hvað er að gerast eða afneitum því. –  Sumir verða hissa og finnst þeir ekki finna neitt í byrjun, en slíkt breytist síðan í sjokk fyrr en varir.

Annað stig sorgar er þegar tilfinningarnar ná að koma upp á yfirborðið.  Fólk upplifir panik, þunglyndi, ofsakvíða eða reiði eða bland af þessum tilfinningum.  Á þessu stigi geta karlar fundið fyrir meiri erfiðleikum vegna þess að þeir eiga oft erfiðara með að tjá upplifun sína eða að opna sig fyrir öðrum.   Þeir gætu jafnvel forðast stuðning þegar þeir þurfa mest á honum að halda, til að láta líta út eins og allt sé í lagi og þeir með fulla stjórn.  Grátur, martraðir og kvíði eru oft einkenni annars stigs.

Þriðja stigið leiðir oft til að fólk dregur sig í hlé.  Það getur verið erfitt að vera í kringum fólk á þessu stigi, og á þessu stigi á ekki að þvinga sér upp á fólk í sorg, að vera með sjálfu sér er líka gott – og svefninn og einveran getur orðið til þess að gefa hinum syrgjandi næði til að jafna sig.  Að fara í mikla endurskoðun er eðlilegt viðbragð á þessu stigi, vegna þess að við þurfum að skilja hvað gerðist og skilja hinar dramatísku breytingar sem hafa orðið í lífinu.

Á fjórða stigi þarf að fara að velja hvort við ætlum að halda áfram eða staðna, horfa aftur eða fram.  Endurbyggja líf sitt.  Það þýðir að sættast við aðstæður, lifa með þeim og læra af þeim.  Það þarf að prófa nýja hluti, hitta nýtt fólk og upplifa nýjar aðstæður. –  Fara svolítið út fyrir þægindahringinn til að gera sér grein fyrir því hvað leiðir til hamingju og vonar við að halda áfram lífsgöngunni.

ENDURNÝJUN

Eftir sorg er komið tækifærið til að lifa hamingjusömu og fullnægjandi lífi, e.t.v. í fyrsta skipti? –

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, og margir ná að fóta sig ágætlega í nýja lífinu.  Kannanir sýna (ég er ekki með tilvitnun í þær) að mörgum líður betur eftir skilnað að einhverjum tíma liðnum, jafnvel þó það hafi ekki verið þeirra val að skilja.  Þeir sem vinna í sér, upplifa e.t.v. meiri lífsfyllingu, hamingju og finna meira ríkidæmi innra með sér.  Hvers sakna ég úr fyrra sambandi? – Hvaða þættir eru það sem ég þarf að forðast með nýjum maka? –  Hvaða drauma get ég nú látið mig dreyma, sem voru stöðvaðir af fyrri maka? –  Öll sambönd eru lærdómur, áskorunin er að láta þessi sambönd verða til þess að vaxa og bæta framtíðina.

Við þurfum öll að læra að skilja ekki við okkur sjálf, heldur er upphafið að trúlofast sjálfum okkur, læra að elska, treysta og virða okkur sjálf! –

Að vera fráskilinn og misskilinn karlmaður ..

 Mín ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur – get ekki sett mig í spor karlmanna (ekki 100%) en hef hlustað á þá marga, og nú er komið að þeim að tjá tilfinningar sínar og ræða um líf sitt eftir skilnað, uppgjör við fortíð og svo framvegis! –

Í öll þau skipti sem við höfum haldið námskeiðin „Lausn eftir skilnað“ hefur komið a.m.k. ein kona sem hefur átt karlkyns vin sem hefur spurt hvort að ekki væru námskeið í boði fyrir karlmenn. –  Við ákváðum að starta námskeiðunum einungis fyrir konur, – en nú er sú stund komin að við erum að íhuga að skella upp einu „Lausn eftir skilnað – fyrir karlmenn.“

Karlmenn þurfa ekki síður að vinna í sínum tilfinningum en konur, og átta sig á aðdraganda síns skilnaðar.

Aðdragandinn er oft þessi, (ath! ég segi og skrifa oft, en alls ekki alltaf!) –  Karlinn er ekki að „nærast“ í sambandinu, og þá sérstaklega saknar hann kynlífs og nándar, eða telur sér a.m.k. trú um að hann geri það.  Konan snýr oftar og oftar baki í hann í rúminu (kannski vegna þess að hann er leiðinlegur) – hann verður pirraður út í hana og hún enn pirraðri og langar enn síður í manninn! – Yfirleitt átta þau sig hvorugt á því að það er andlega hliðin sem er vannærð og líkamlega fylgir á eftir. –

Þegar svona gerist fer maðurinn oft að leita út fyrir hjónabandið, skráir sig á stefnumótasíður, til að auka spennuna, „bara til að skoða“ – eða fer að líta hýru auga til samstarfskonu,  sem er ekki með þetta sama röfl og konan heima. –  Stundum verður til röð atvika og dag einn er maðurinn farinn að lifa í leyni með vinkonu utan hjónabands, eða eiga trúanaðarvinkonu. –  Það getur líka verið gömul skólasystir á Facebook, sem hann fór að rabba við eitt laugardagskvöldið þegar að konan fór í sumarbústað með vinkonunum.-  Það er svo margt. –

Hér erum við bara að tala um eitthvað svona ferli – ekki um þann sem er kynlífsfíkill og þráir bara spennuna,  en það getur að sjálfsögðu verið í bland. –

Traust er lykilatriði í samböndum sem hjónaböndum, – og þegar að fólk er komið í trúnaðarsamband – og/eða kynlífssamband við annan aðila þá er búið að brjóta traust við makann. –

Í staðinn fyrir að láta maka sinn vita að þeir séu óánægðir og koma hreint fram, – kjósa þeir frekar að taka áhættuna að eiga sér vinkonu útí bæ, eða leika sér með samstarfskonunni, – oft vegna þess að í raun vilja þeir ekkert skilja við eiginkonuna.  Hún heldur utan um þeirra líf að svo mörgu leyti og oft eru börn í spilinu – En það er reyndar annað en vinkonan fær að heyra; hún fær að heyra að hann sé alveg að fara að skilja, bara tímaspursmál. -Konan sé svo erfið og leiðinleg o.s.frv.

Ástæðan fyrir því að maðurinn kemur ekki heiðarlega fram við eiginkonu sína, eða þá sem hann er heitbundinn er því oft vegna óttans við að missa hana, óttans við að missa tengsli við hana og jafnvel við börnin sín. –  Í öðru lagi vegna óttans við, að hann telur sér trú um, að særa hana.  En í raun er það vegna óttans við eigin sársauka við að horfa upp á særða eiginkonu sína, og jafnvel börn. –

Sumir treysta sér alls ekki til að ræða þessi mál við maka sinn og velja það frekar að sprengja upp hjónabandið með einhvers konar atburði – þannig að þeir koma því þannig fyrir að upp um þá komist og allt fari í háaloft. – Eða fara að taka sérstaklega eftir smáatriðum í fari makans, og pirra sig á því sem áður skipti engu máli. –

Dæmigerð svona atriði eru t.d. hvernig fólk kreystir tannkremstúpu, ef hún fer að verða stóra málið, þá er oft eitthvað miklu alvarlega á bak við. –

Þegar maðurinn fer að huga sérstaklega hvort hann eigi flottar nærbuxur, þá má konan alveg fara að leggja saman 2 og 2.  (Að sjálfsögðu er það ekki algilt, en býsna algengt).

Margir hyggja á skilnað og eru búnir að íhuga hann lengi í huganum, en vilja finna annan aðila til að grípa sig þegar þeim er hent út eftir að tjá sig um ætlun sína við makann. –  Þeir mæta þá og segjast þurfa rými, eða eitthvað álíka en sverja og sárt við að það sé engin/n  í spilinu. – En fljótlega kemur oft annað í ljós. –

Að sjálfsögðu skilja ekki allir vegna framhjáhalds, eða réttara sagt vegna orsaka framhjáhalds.  Heldur vegna þess að hjónin bara uxu í sundur – voru orðin fjarlæg, og þeim tókst að átta sig áður en farið var að leita í annað ból. –  Nú eða annar aðili  hefur hagað sér eins og lýst er hér á undan.  – Aðdragandinn getur verið með ýmsu móti. –

Hvernig sem hann er, þá er skilnaður erfiður,  stundum mjög sár og mjög illur. –  Karlmenn eins og konur upplifa tómarúmið sem makinn skilur eftir og jafnvel ný kona getur ekki fyllt upp, eða hún reynist bara vera sama konan með aðra kennitölu og eftir einhver ár fer sama ferlið í gang aftur. –

Ef þú ferð af stað í samband með leyndarmál og lygar í ferðatösku og heldur áfram að bæta í hana, kemur einn daginn að því að hún springur. –  Það verður að sortera í töskunni – byrja með tóma tösku ef að ekkert er í henni sem verður til gagns. –

Karlar og konur ganga oft með gamla skömm í tösku, erfið mál frá æsku og uppeldi. – Þessi mál íþyngja síðan öllu sambandinu og þau verða bara þyngri eftir því sem þau eru borin lengra með okkur. –

Þessi mál eru oft mjög tilfinningatengd og þau eru þá flúin með ýmsu móti, með ýmissi fjarveru – fjarveru sem felst í drykkju, ofáti, vinnufíkn, tölvufíkn … eða bara einhverju sem fær fólk til að gleyma eða forðast sjálft sig. –

Það er vont, sárt og illt að skilja, – það er heldur aldrei bara tveir sem skilja, og það hefur áhrif á börn, ef þau eru í spilinu, foreldra, systkini, vini viðkomandi o.s.frv. –

Ef skilnaður er orðinn að staðreynd, þarf að skoða sig, læra að þekkja sig og þekkja hvers vegna skilnaðurinn átti sér stað. –  Hvenær hófst skilnaður í raun og veru?  – Læddist hann bara að og kom algjörlega að óvörm eins og þjófur á nóttu,  eða var aðdragandinn langur og augljós? – Var það það sem þú vildir í raun eða ekki? –

Karlmenn, eins og konur,  eiga rétt á og hafa gott af því að átta sig á aðstæðum sínum, skilja tilfinningar sínar og forðast með því að sagan endurtaki sig,  það óskar þess enginn í upphafi sambands að skilja,  það eru mistökin,  en að spila hjónabandsskákina upp á nýtt með sömu leikjum án þess að skoða taflið endar auðvitað á sama veg. –

Það skal tekið fram að þessi pistill er skrifaður fyrst og fremst  með karlmenn í huga, en að sjálfsögðu má snúa honum alveg við, og sjá konu fyrir sér í þessu hlutverki. – Þeir sem lesa vita hvað þeir kannast við og hvað ekki, og auðvitað á þetta aldrei allt við einhvern einn eða eina. –

En hvað um það!

Enginn vill sitja uppi með sektarkennd, eða fara inn í nýtt samband löðrandi í sektarkennd – hvernig væri því að skoða líf sitt ÁÐUR en farið er að sjarma fyrir næstu drottningu? –

Þessi pistill er skrifaður í tilefni að væntanlegu námskeiði „Lausn eftir skilnað“ – en fyrir karlmenn, sem sett verður upp í mars-eða apríl mánuði hjá Lausninni og verður með svipuðu fyrirkomulagi og áður.  – Þ.e.a.s. einn laugardag frá 9:00 – 15:00 og svo fjórir hóptímar 1.5 tími í senn,  í eftirfylgni. –

Ef þú hefur áhuga eða ert með fyrirspurn endilega sendu tölvupóst á johanna@lausnin.is –  skráning hefst fljótlega, eða um leið og dagsetning er komin á námskeiðið. –

„Love is you“ ….

Eftirfarandi eru tveir pistlar sem ég hef sameinað eða „endurvakið“ af fyrra bloggi:

Þar sem líkaminn er farartæki okkar, er mikilvægt að huga að honum, fara vel með hann svo að allt virki og við komumst sem flestar „mílur“ á honum.  Í því felst að sjálfsögðu að þrífa og bóna, en mikilvægast af öllu er að þykja vænt um hann hvernig sem hann er,  því að hann gengur bæði fyrir andlegu og líkamlegu eldsneyti.

Mestu skiptir að hugsa fallega um líkama sinn, – ekki bara að láta hann líta vel út eða eins og við höldum að aðrir vilji (hrukkulaus og ungleg kannski?).  Með útliti getum við bætt í traustið, en ekki hið raunverulega sjálfstraust heldur einhvers konar annað-traust.  Eða eins og Pia Mellody höfundur bókarinnar „FACING CODEPENDENCE“ kallar það Other-esteem.

Fólk sem byggir á Other-esteem byggir á utanaðkomandi hlutum eins og t.d.;

Hvernig það lítur út

Hversu hár launaseðill þeirra er

Hverja þeir þekkja

Á bílnum þeirra

Hversu vel börnin standa sig í skóla, vinnu o.s.frv.

Hversu áhrifaríkur, mikilvægur eða aðlaðandi maki þeirra er

Gráðurnar sem þeir hafa unnið sér inn  (Bjarnfreðarson með fimm háskólagráður)

Hversu vel þeim gengur í lífinu þar sem öðrum þykir þau framúrskarandi

Að fá ánægju út úr þessu ofantöldu, eða fullnægju er í fínu lagi, en það er EKKI sjálfstraust.

Þetta Other-esteem er byggt á gjörðum, skoðunum eða gjörðum annars fólks.

Vandamálið er að uppruni þessa Other er utan sjálfsins og því viðkvæmt eða brothætt vegna þess að það er eitthvað sem við getum ekki stjórnað.  Það er hægt að missa þessa utanaðkomandi hluti hvenær sem er, og er því óáreiðanlegt – Það er ekki gott að byggja sjálfstraust á einhverju sem getur horfið eða eyðst.

Útlit okkar gerir það óumflýjanlega. Kjarni okkar er sá sami hvort sem við erum ung eða gömul, með gervineglur, botox, silikon, diplomur úr háskóla o.s.frv.   Hann er alltaf sá sami og nærist á því að við sættumst við okkur,  þekkjum og elskum okkur.

Sjálfstraust okkar á ekki að byggjast á hversu vel barni okkar gengur í skóla, eða hvort að því gengur illa í lífinu. Það er það sem flokkast undir Other.

Ef við lærum að við erum verðmæt og góð sköpun, hvernig sem við lítum út, hvernig sem börnum okkar farnast, þá náum við að hlúa að sjálfstrausti okkar og þá hætta utanaðkomandi öfl að þeyta okkur fram og til baka eins og laufblöðum í vindi.

Ef við látum umhverfið hafa svona mikil áhrif erum við meðvirk að meira eða minna leyti, og við erum það flest. Það er ekkert til að skammast sín fyrir og reyndar eigum við að skammast okkar sem minnst, en í staðinn hleypa tilfinningunum i þann farveg að vera meðvituð.

Ef við gerum okkur grein fyrir því að það sem Sigga systir sagði í gær hafði svona neikvæð áhrif á okkur, eða það sem Óli bróðir sagði hafði svona góð áhrif kom okkur upp í skýin erum við meðvirk.

Við látum umhverfið stjórna því hvort við erum glöð eða sorgmædd.

Ég fór sjálf út í meðvirknivinnu vegna þess að ég var eins og laufblað í vindi, lifði til að þóknast.  En þegar ég vaknaði til meðvitundar um það , sá ég að það var til að þóknast öllum öðrum en sjálfri mér.

„Hvað skyldi þessi segja ef ég …. “  Ætli þessi verði ánægð ef ég … “  „Ég get ekki verið hamingjusöm nema þessi og þessi séu það líka…. “

Hvað græðir barn í Biafra á því að lítil stelpa á Íslandi klári matinn sinn?

Já, við lærðum þetta í bernsku.

Við þorum ekki að vera glöð vegna þess að einhverjum öðrum líður illa, – eða hefur það ekki eins gott, hvað hjálpar það þeim?

Að vilja gera lífið betra og setja lóð á vogarskálar hamingjunnar, byrjar hjá okkur.  Við erum dropar í þessum hamingjusjó og ef við ætlum að gera gagn og bæta sjóinn þá skulum við huga að okkar sjálfstrausti, okkar innra manni sem er verðmæt manneskja – hvað sem á dynur.

Verðmæti okkar rýrnar aldrei.

Sem fyrirmyndir þá skulum við hafa þetta í huga, börn þessa heims vilja sjá þig með gott sjálfstraust – elsku mamma, elsku pabbi, elsku afi, elsku amma, elsku frænka og elsku frændi.

Sjálfstraust er eitt það mikilvægasta sem fólk hefur í lífsgöngunni, trú á sjálfu sér,   því með gott og heilbrigt sjálfstraust getur þú gengið án þess að láta kasta þér fram og til baka,  án þess að láta einelti hafa áhrif á þig, eða minnka áhrif þess. Án þess að gleypa agn veiðimannsins sem vill veiða þig á beitu og láta þig engjast á önglinum.

Dæmi um slíkt er þegar einhver þarna úti pirrar þig og þú færð hann eða hana á heilann og þá ert það ekki þú sem ert við stjórnvölinn í þínu lífi lengur,  heldur sá eða sú sem þú vilt síst að sé það.

Meðvitund er það sem þarf og það þarf sjálfskoðun, sjálfsþekkingu og sjálfsfrelsun.

Frelsun frá því að finnast það sem öðrum finnst.

Þegar þú veist hvað ÞÉR finnst,  já þér og engum öðrum,  um sjálfa/n þig, þegar þú ert farin/n að samþykkja þig og þínar skoðanir,  standa með sjálfri/sjálfum þér  þá ertu farinn að uppgötva sjálfstraustið þitt.

Geneen Roth segir frá því sem Súfistarnir kalla „Ferðalagið frá Guði“ ..

„Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr – er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum.“

Þegar ég tala um Guð, þá finnst mér einfaldast að setja upp guðsmyndina sem kemur fram í eftirfarandi ljóðlínum:

Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.

(Steingrímur Thorsteinsson,  ath! Guð i alheims geimi og Guð í sjálfum þér er bara eitt og hið sama).

Og meira um að vera elskuð ..

Elskan er í raun grunnur sjálfstrausts, en ekki það sem mölur og ryð geta grandað, titlar, útlit o.s.frv., allt annað – það sem kemur að utan, hversu fræg við erum og slíkt, er ekki trygging fyrir sjálfstrausti, því það er eitthvað sem eyðist og hverfur.  

„You are loved“

– og það hittir í mark, enda getur elskan ekki geigað nema að sá sem hún er ætluð forði sér eða skýli hjarta sínu.

Við þurfum nefnilega öll að vita að við séum elskuð,  og ekki bara vita, heldur trúa því.

Þú ert elskaður

Þú ert elskuð 

Það sem er þó mikilvægast að trúa er að við séum okkar eigin elsku verð.

Kærleiksboðorðið virkar í báðar áttir;

Elskaðu aðra eins og þú elskar þig  –   Elskaðu þig eins og þú elskar aðra  

Sýndu sjálfri/sjálfum þér virðingu.

Við göngum oft býsna nærri okkur sjálfum, sýnum okkur ekki þá tillitssemi sem við oft á tíðum sýnum öðrum. Bjóðum okkur upp á hluti sem við myndum ekki bjóða neinum öðrum. Erum næstum dónaleg við okkur sjálf.

Í leit okkar að elsku og viðurkenningu förum við stundum yfir mörk þess boðlega fyrir okkur sjálf.

Við erum alltaf að lenda í þessu, að yfir okkur sé gengið að einhver tali niður til okkar, að okkur sé sýnd óvirðing.  Þá fer það eftir viðhorfi okkar til sjálfra okkar hvernig við tökum því. Hvort við kokgelypum eins og fiskur sem gleypir agn,  eða hvort við sendum það til föðurhúsanna,  annað hvort í huganum eða við tölum upphátt, eða stígum út úr aðstæðum á annan hátt.

Ef við elskum okkur ekki nógu mikið eða gerum okkur grein fyrir verðmæti okkar þá látum við það líðast að aðrir nái að fara undir skinnið okkar og stjórna,  við gefum út leyfisbréf og látum þetta jafnvel brjóta okkur niður.

En þegar við gerum okkur grein fyrir að elskan er fyrir hendi, hún hefur alltaf verið fyrir hendi – hún er hluti af þér og kemur frá hjarta þínu,  þá getur þú farið að slaka á, þú átt allt gott skilið.

„You are loved – Love is you“ … 

„Love’s like the water when the well runs dry
Quench my thirst, keep me alive
Just need one sip, baby, love is you
Love is you, love is you, love is you, love is you“

bambi_1090415.jpg

Getraun: Þessi mynd er tilvitnun í ákveðinn  sálm í Biblíunni …. 😉

Með brosandi maga : – ) … föstudagspistillinn

Þessi pistill verður í léttum dúr, – best að taka það fram ef þið skylduð ekki taka eftir því! –

Innspýtingin er grein um „Shock up eða Ass up“ – vaxtarmótandi sokkabuxur á Pjattrófum DV (á maður/kona að mæla með svoleiðis síðu??)  og vandamálið við að komast í þær. –

Ekki er vandamálið síðra að VERA eða endast í þeim. –

Man eftir árshátíðum, afmælum, hátíðum þar sem maður sat og gat varla beðið eftir því að komast heim og rífa sig úr sokkabuxunum – stundum voru ástæðurnar aðrar, en látum hinar liggja á milli hluta. – Hér erum við á penu nótunum! –

Fyrir utan það að sokkabuxur kosta einhvern helling,  og þessar 20, 30, 40 den .. endast yfirleitt aðeins í eitt til tvö skipti hjá mér, – þá eru þær í mínum huga orðið hálfgert pyntingartæki. –

Þegar ég fór að lesa  og heyra um það að elska sig, og virða – þá áttaði  ég mig líka á því  að í því fólst ekki bara að elska sig svona andlega, heldur líka líkamann sinn líka, það tvennt verður ekki slitið í sundur!  (Þetta hljómar svolítið eins og brúðkaupssáttmáli).

– Það þýddi að klæða sig í óþægilega skó og eða aðþrengjandi klæðnaði var í raun ekki að elska sig, heldur misþyrming á eigin líkama, úff …

Ég er heppin að mér hefur aldrei þótt óþægilegt að ganga á hælum, sérstaklega ekki ef þeir eru bara nokkrir sentimetrar og breiðir. – Svo þegar ég fer í kjóla núna geng ég í skóm upp á kálfann með nóg pláss fyrir tær,  flatbotna skóm eða stígvélum. –

Hversu oft sjáum við ekki stelpurnar á pinnahælunum vera búnar að kasta þeim útí horn og fara að dansa á tánum, eða sokkaleistunum? – Gott hjá þeim!

Ég hef kvatt þröngu sokkabuxurnar og á nú tvennar 80 – 120 den sokkabuxur til skiptana, – og spara heeeeelllling á sokkabuxnakaupum og svo er auðvitað hægt að vera berleggjuð á sumrin! –

Auðvitað er ég ekkert að tala um neitt „extreme“ hér.  Ef við viljum vera í háhæluðu skónum stundum þá erum við það bara og ef við viljum borða kókósbollur stundum þá gerum við það líka bara. – Allt sem á að gerast með valdi eða öfgum, er eiginlega dæmt til að falla. – Við berjum okkur ekki til betrunar, heldur elskum okkur. –

Átti þetta ekki að vera í léttum dúr? –

Alla veganna, ef fólk hefur ekki tekið eftir því, þá er ég að kenna námskeiðið: –  „Í kjörþyngd með kærleika“ – sem fjallar í raun ekkert um að komast í kjörþyngd – hehe – eða þannig -og samt!  – Það fjallar um að fara að elska sig nógu mikið til að komast í kjörþyngd – á RÉTTUM forsendum, – og þar er byrjað á að breyta hugarástandi!  „Shift our state of being“  – Andleg kjörþyngd er byrjunarreitur. – ELSKA SIG – alla,   líka magann sem flæðir út um allt, eða lærin – rassinn eða hvað það er sem er of mikið af. –

Við s.s. elskum af okkur kílóin,  með jákvæðu sjálfstali, með því að njóta lífsins og njóta þess sem við borðum, en ekki borða með samviskubiti, með því að gefa líkamanum að borða það sem er frumunum hollt og gefur honum orku og næringu sem gerir hann glaðan.  Hlusta á líkamann.  Ekki  borða það sem verður honum til ills, prumps eða rops, þannig að okkur verkjar í magann á eftir!

– Svona klassískt aðfangadagskvöld (í shock up í þokkabót) – þar sem við óskum okkur heitast að vera bara – klukkan 9 að kvöldi – komin í víðar flónnelsnáttbuxurnar upp í rúm til að liggja þar afvelta og jafna okkur. –

Njótum engan veginn kvöldsins! – Hvað er það? –

Jæja, s.s. elskum mallann okkar;  tölum fallega til hans og virðum.  Hann er eiginlega nafli alheimsins, eða amk er naflinn staðsettur þar! – 😉 – Það segir okkur nú ýmislegt! –

Minn magi er þeim kostum gæddur, að hann brosir alltaf til mín! – Ég virði hann fyrir mig í spegli og sé þá þetta breiða bros, en ég er ekki hissa að hann brosi, enda tilefnið að tvö börn voru frelsuð úr honum fyrir liðlega 25 árum! –   Hann hefur brosað síðan!

Ég þarf s.s. ekki að gera annað en að hátta og horfa í spegil og framan í mig er brosað,  heppin ég!

Svona vigt ættu allir að eiga 😉