Að leyfa hárinu að vaxa ..

Ég sat andspænis ungri frænku sem var að hefja sitt annað ár í skólagöngu.  Hún stynur stundarhátt „mig langar að vera með sítt hár þegar ég byrja í skólanum á morgun“ –  en hár hennar var í nokkurs konar Prins Valiant stíl klippt rétt fyrir neðan eyrun. –

Ég svaraði henni að líklegast yrði hún að bíða eitt ár með það, að byrja á nýju skólaári með sítt hár,  en nú skyldi hún bara leyfa hárinu að vaxa og sjá hvað gerðist.

Við vitum að hár þarf tíma til að vaxa, og við vitum að margir hlutir gerast nákvæmlega svona.  Þeir þurfa sinn tíma til að þróast og verða til. En við verðum líka að gefa þeim „séns“ til að vaxa og ekki alltaf klippa aftur þó við verðum óþolinmóð og síddin sé einhvers konar millisídd sem er hvorki fugl né fiskur.

Um leið og ákvörðun er tekin að leyfa einhverju að vaxa er niðurstaðan komin,  en hún kemur ekki á morgun. –

Þetta er svipað og með að ákveða að taka af sér kíló,  þau fara ekki af með barbabrellu, – eða að fara að spara peninga,  bankabókin er ekki orðin feit á morgun. –  En ef við erum ákveðin,  trúum á vöxinn eða framkvæmdina þá er ekkert sem stöðvar það,  nema e.t.v. ein góð manneskja sem við þekkjum mjög vel, og það erum við sjálf.

Leyfum góðum hlutum að gerast og leyfum lífinu aðeins að hafa hönd í bagga,  Það snýst um lögmál þess að leyfa, eða Law of allowance.  Gæti verið að þar kæmi líka lögmálið um að eiga skilið, – það er líka til.

Trúum á árangur,  og trúum líka á ævintýri. –

Whether-you-think-you-can-or-whether-you-think-you-cannot-you-are-right

Ekki láta neikvætt fólk hafa áhrif ..

Mörg meðferðin ráðleggur fólki að klippa á samskipti sín við það fólk sem við eigum erfitt með að umgangast.  Það er oft auðveldara sagt en gert, sérstaklega ef þetta fólk er fjölskylda.-

Ef við hugsum neikvæðni sem myrkur og jákvæðni sem ljós, þá er eðlisfræðin þannig að ljósið sigrar myrkrið.  Þú kveikir á kerti í dimmu herberig og herbergið er ekki dimmt lengur. –  Dimman getur ekki verið þar sem er ljós. Ef þú kveikir á fleiri kertum verður enn meira ljós.

Þegar við förum í sjálfsvinnu,  þá liggur sú sjálfsvinna m.a. í því að uppgötva ljósmagnið hið innra.  Allt hið innra er eins og óþornandi uppspretta, en stundum þarf bara að skrúfa frá henni.  Fólk sem tjáir sem með neikvæðni sér ekki ljósið,  og/eða kann ekki að skrúfa frá þessum krana. –  Það hefur þó möguleikann að skrúfa frá okkar neikvæða krana, þ.e.a.s. ef við erum ekki sjálf ákveðin í að hafa hann lokaðan.

Ef við gerum okkur grein fyrir þessu, að það er undir okkur komið hvernig við bregðumst við neikvæðni, – að kannski þurfum við aðeins að herða og styrkja okkar eigin neikvæða krana og skrúfa betur frá þeim jákvæða,  þá förum við líka að átta okkur á okkar eigin ábyrg á okkar líðan.

Ef okkur líður illa i kringum neikvætt fólk, – sem er fjölskylda eða vinir, þá gætum við hreinlega sagt þeim frá því að það sé þarna einhver neikvæðni hið innra með okkur sem kviknar þegar neikvæð umræða fer af stað,  hvort þau myndu vera svo elskuleg,  – að halda neikvæðni í lágmarki í kringum okkur þar sem við hefðum í raun ekki meiri styrk en raun bæri vitni!

Ef þetta fólk raunverulega elskar okkur eða þykir vænt um þá verður það við beiðninni, – en annars hefur það val og við höfum þá gefið þeim tækifæri sem það hefði annars ekki fengið,  þ.e.a.s að við færum að hætta að umgangast það án þess að segja okkar hug.

Kannski er þetta ein af aðferðunum við að setja fólki mörk, þ.e.a.s. – hvað við látum bjóða okkur og hvers konar viðhorf umlykja okkar tilveru.

Svo höldum áfram að kveikja ljós og vera ljós.

Þökkum ljósið hið innra og biðjum um styrk til að láta það flæða.  Ef einhverjum líður illa með það ljós,  verður sá hinn sami að forða sér, en við eigum ekki að þurfa að hlaupa burt með ljósið.

1170720_498620266895180_1106913787_n

Á ég að týna mér eða þér? – um ójafnvægi í samböndum 1. hluti

Þessi pistill heitir á frummálinu:

„The split-level relationship“  og er eftir Steve Hauptman

Hér eru tvær spurningar sem við glímum við ef við viljum vera í heilbrigðu sambandi.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það er hægt að glíma við þær.

En það er glíman sem skiptir máli.

Af hverju?

Vegna þess að hún framkallar grunnþarfir þess sem við höfum fram að færa í hvaða sambandi sem er.

Samband (connection) og frelsi. 

Samþykki annarrar persónu og að samþykkja sjálfa/n sig.

Heilan og raunverulegan maka,  og á sama tíma, heila/n og raunverulega/n þig.

Tvo raunverulega og heila einstaklinga.

Flestir sem höfundur þekkir eru sannfærðir um að ekki sé hægt að vera heil (þau sjálf) bæði á sama tíma.

Flestir eru úr fjölskyldum –  sem hafa alkóhólískt – eða ofbeldistengt mynstur eða eru á annan hátt vanvirkar – og hafa þar af leiðandi ekki haft möguleikann á að finna jafnvægið milli þess að vera í sambandi og vera frjáls.

Það sem þau lærðu var að hafa eitt þýddi að missa hitt.  Annað hvort var það samband eða frelsi.

Það að ávinna sér ást og samþykki foreldra, til dæmis, þýddi það að fórna mikilvægum hlutum í lífi þeirra sjálfra,  eins og frelsinu við að tjá sig frjálslega eða að sinna eigin þörfum.

Það er í fjölskyldunni sem við ólumst upp sem hvert okkar lærði sitt persónulega svar við þessum tveimur spurningum.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Og svarið sem við tileinkuðum okkur varð að mikilvægum (þó að mestu ómeðvituðu) hluta grunnviðhorfa okkar til lífsins og sambanda okkar,  það sem höfundur kallar – okkar Plan A.

Sumir taka ákvörðun, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að hafa MIG, og til fjandans með ÞIG“ – sálfræðingar kalla þetta hið sjálfhverfa svar (The narcissistic answer.)

Önnur ákveða, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að haf ÞIG, og til fjandans með MIG“ – sem er hið „margfræga“ meðvirka svar.

Þá segir hinn sjálfhverfi maki  „ÉG fyrst,“ og hinn meðvirki svarar, „Já, elskan.“

Og þessar tvær persónugerðir enda saman með ótrúlega reglulegu millibili.

Þegar fylgst er með samskiptum þessa pars,  kemur  á óvart hversu fyrirsjáanleg samskiptin eru.  Í öllum aðstæðum finnur sjálfhverfi einstaklingurinn einhverja leið til þess að segja: „Ég fyrst/ur,“ og hinn meðvirki svarar „Já, elskan.“  Það er eins og þessir aðilar hafi sest niður fyrir langa löngu og skrifað undir samning um að gera þetta svona.

Sem þeir að hluta til gerðu.

Það hvernig þau svöruðu þessum tveimur spurningum hér að ofan,  eru að stærstum hluta ástæðan fyrir að þau löðuðust hvort að öðru.

Höfundur segir að flest pör sem leita ráðgjafar hjá honum fylgi þessu mynstri – svo mörg að hann ákvað að gefa þessu parasambandi nafn.

Hann kallar það „split-level relationship“ –  við gætum kallað það „samband á aðskildu plani“ –  eins og að par búi í pallaraðhúsi og annar aðilinn sé alltaf skör neðar en hinn.

Þessi sambönd á aðskildu plani ganga um tíma, en brotna yfirleitt alltaf upp.  Á einhverjum tímapunkti áttar annað hvort annar aðilinn eða báðir að þeir eru ekki að fá það sem þeir þarfnast úr sambandinu.

Hin meðvirku taka yfirleitt eftir því fyrst. Þegar þessi maki er kvenkyns getur þetta leitt til þess sem höfundur kalla „The Walk-Away Wife“ – „Eiginkonan sem gengur burt.“ –  Ég mun skrifa sérstaklega um það síðar.

En hin sjálfhverfu hafa tilhneygingu til að vera óhamingjösum líka. Þau kvarta um einmanaleika,  skort á nánd við hinn meðvirka maka, eða skort á virðingu og umhyggju.  Þau geta upplifað óþolinmæði,  eirðarleysi, pirring, gremju.  Stundum neyta þau áfengis, eiturlyfja, ofnota mat, lifa í reiði eða halda framhjá, og líður svo illa með það.

Allt þetta á sér stað vegna þess að þessi sambönd á misjöfnu plani eru ófrávíkjanlega óheilbrigð.

Kunnugleg, vissulega.  Jafnvel þægileg, að því leyti að fólk veit hvað það hefur.  (Öryggistilfinningin).

En þessi sambönd eru ekki heilbrigð.  Þessi svör sem mynda ójafnvægi og samböndin á misjöfnu plani eru byggð á geta ekki uppfyllt tilfinningaþörf tveggja fullorðinna einstaklinga.  Og það endar með því að báðir aðilar upplifa sig svikin,  án þess að skilja hvers vegna.

Hvernig er batinn hjá svona pari?

Þá er hlutverkum víxlað.

Hinn meðvirki einstaklingur verður að þróa með sér hugrekki og æfa sig í að standa upp fyrir sjálfum sér.

Hinn sjálfhverfi  verður að þróa með sér samhug og æfa sig í að stíga niður,  æfa sig í að gefa í stað þess að heimta.

Auðvelt?  Nei.  Fyrir hvorugt þeirra er þetta auðvelt.

Aðeins nauðsynlegt til að vera á sama plani.  (Búa á sömu hæð).

Þýðing – Jóhanna Magnúsdóttir – http://www.johannamagnusdottir.com

„Á snældu skaltu stinga þig … „

Þyrnirós svaf í heila öld – en svo vakti prinsinn hana með kossi ..

Ég heyrði af manni, hér í Danmörku, – þar sem ég er stödd núna, sem stakk sig í fingurinn – ekki á snældu – heldur á þyrni.   Hann hugsaði ekki mikið um það en líkaminn gleymdi því ekki,  því að það fór að koma illt í puttann og hann bólgnaði og varð tvöfaldur ef ekki þrefaldur að stærð, – síðan fór hann að fá verk alveg upp í handlegg svo honum leist ekki á blikuna og fór til læknis.  Maðurinn var þá kominn með ígerð í fingurinn og blóðeitrun.   Skera þurfti í fingurinn til að ná út ýmsu sem þar var farið að grassera.  Maðurinn var frá vinnu í einhverjar vikur út af þessu.

Stundum verðum við fyrir svona andlegum stungum,  allt frá því sem við teljum ekki svo mikið upp í eitthvað sem er mjög mjög sárt þegar það gerist.  –

Í mörgum tilfellum fer eitthvað að grassera,  grafa um sig innra með okkur og hafa áhrif á sálarlífð.  Það er því miður ekki eins augljóst og ígerð eða blóðeitrun sem hægt er að mæla með tækjum og sést með berum augum.

Það sem fer að grafa innra með fólki eftir andlegar stungur er skömmin,  og hún er þá sambærileg við gröftinn sem þarf að hleypa út og við blóðeitrunina sem þarf að fá pensillín við.

SKömminni þarf að hleypa út,  öllum þessum hugsunum,  meðvituðum eða ómeðvituðum sem hafa áhrif á sálarlíf einstaklingsins.

Ex-pression er enska orðið fyrir tjáningu.  Það þarf að ná skömminni út og það er gert með því að tjá sig um atburðinn,  að deila sögu sinni.  Ekki sitja uppi með hana ein/n.

Ekki halda leyndarmál einhvers –  það er líka samfélagslegt góðverk að segja frá svo fleiri geti forðast brenninetlur og þyrna.  Líka fyrir annað fólk sem þarf hvatningu til að leita sér aðstoðar við að hreinsa út gröft og eitur.

Já – skömmin er eitur.

Við þurfum öll að vakna – ekki sofa Þyrnirósarsvefni og missa þannig af því að lifa lífinu.   Vakna til meðvitundar um að það að stinga sig eða vera stungin er ekki til að halda leyndu.   Því fyrr sem brugðist er við því betra.

Ef ekkert er að gert getur slíkt haft banvænar afleiðingar.

Við eigum ekki að þurfa að þegja yfir sögu okkar og hver við erum.  Það er þvingandi og setur okkur í fangelsi hugans.

Með nýjum hugsunum – pensillínii hugans –  frelsum við okkur úr ánauð þess atburðar sem kveikti upphaflega á skömminni.  Við hættum að láta eins og ekkert sé, hættum að fela og hreinsum hana út.

Kannski var það prins eins og rannsóknarprófessorinn Brené Brown sem hefur stúderað skömm og mátt berskjöldunar í yfir 12 ár,  sem vakti okkur til meðvitundar með kossi sínum.

Það er gott að það er til fólk sem hefur þessa ástríðu,  þessa ástríðu að skilja hvernig lífið virkar – hvernig við hugsum og hvað hugsanir okkar hafa mikið vald yfir lífi okkar.

Það að upplifa skömm er ein tegund trúar, trúarinnar að vera ekki nógu góð og stundum bara næstum ónýt. –

Frelsið felst í því að hætta að trúa að við séum óverðug ástar, óverðug þess að eiga góð tengsl við annað fólk – óverðug þess að yndislegur prins eða prinsessa komi inn í okkar líf.

Við getum þegið þennan koss lífsins og verðugleikans hvenær sem við viljum.  Við getum rofið álög nornarinnar þegar vð viljum,  eða hvað?

Jú, við getum það með þeirri trú að við eigum gott líf skilið.

Enn og aftur – þetta snýst allt um trú.

Hverju við trúum um okkur sjálf.

Hvað átt þú skilið?

coexist_with_respect_bumper_sticker-p128636613026383655en8ys_400

 

Það er ekki í boði ..

Getur verið að fólk haldi að lausn þeirra mála finnist í því að finna sökudólga fyrir því hvernig komið er fyrir því? –

Eftir því sem það bendir meira á ytri aðstæður og annað fólk tekur það minni og minni ábyrgð á eigin lífi og endar með að vera gjörsamlega valdalaust.

Af hverju að taka af sér valdið, sinn eigin mátt og megin? – Af hverju að stilla sér upp sem fórnarlambi og upplifa sig föst í aðstæðum í stað þess að spyrja; „Jæja hvað get ÉG gert, og hvaða leið er nú best út úr þessum aðstæðum?“ .. Væl – vol – kvart og kvein. Það er allt í lagi að gráta og syrgja, og það er meira að segja leiðin til að halda áfram, en að festast í slíkum aðstæðum er ekki lausn, ekki bati og ekki í boði – svo talað sé gott leikskólamál.

Þetta framansagt varð að einlægum „status“ hjá mér á facebook sem margir voru sammála og langar mig að halda þessu hér til haga.  Í framhaldi fékk ég spurninguna:

  • „Að leiðbeina þeim sem biðja um aðstoð út úr svona ógöngum er meira en að segja það. Svona hugsunarháttur getur hafa viðgengist hjá fjölskyldum síðan langa langa amma bjó með honum langa langa afa „dagdrykkjumanni“ Þetta er svo „eðlilegt“ ástand út frá óeðlilegum aðstæðum. Er þetta ekki eitthvað í okkur öllum?“
    Svarið mitt var á þessa leið:
  •  Þetta er spurningin um að sleppa – um að fyrirgefa – og frelsa sig þannig úr ánauð aðstæðna og fólks í staðinn fyrir að fara dýpra inn í aðstæður eða tengjast þeim/því sem særir okkur enn fastar. Það er rétt vegna þess að því meira sem við biðjum fólk um að sleppa tökunum, þess fastar heldur það.
    Óskin verður að koma innan frá – og allir verða að eiga sitt „aha“ moment. Engin/n verður þvingaður eða þvinguð til breytinga. EKki frekar en hægt er að segja fólki að trúa. Trúin og allt sem ER kemur innan frá, frá uppsprettunni – sem vill okkur vel og er hreinn kærleikur.
    Sá/sú sem VILL hlusta  heyrir og sá/sú sem VILL sjá sér, en það er spurning hvort að viljinn sé fyrir hendi, það eru þessar endalausu hindranir og þessi mikla mótstaða (resistance) sem við erum að glíma við. Jú við öll.
    1095045_563187810407763_647635916_n

Með „köku“ í ofninum …

„So if you want something in your life, first you must think of it, put your intention behind it, and keep your focus on it. It is almost like baking a cake. The thought is in the oven and you have to keep it baking with belief. You have to see your thought manifesting and becoming real.“ ..

Ef við viljum fá eitthvað inn í líf okkar,  verðum við fyrst að eiga hugsun um það,  taka ákvörðun um það  og halda fókusnum á því.  Það er næstum eins og að baka köku.  Hugsunin er í ofninum og við verðum að halda áfram að baka með trú. Við verðum að staðfesta hugsunina og sjá hana verða raunveruleika.

Heilinn okkar virkar eins og „simulator“ –  þegar flugmenn læra að fljúga fara þeir í flughermi (flight-simulator)  – og reyna sig í ýmsum aðstæðum.

Þarna eru menn ólíkir dýrum – að ég held og sá einhven fræðsluþátt um það.

Við erum stöðugt í þessum lífshermi að máta okkur í aðstæðum og prófa að lifa lífinu fyrirfram. Við búum til – ólíklegustu aðstæður og sjáum fyrir okkur hvernig við lendum eða „krössum“ –  án þess að hafa hugmynd um hvernig fer í raun og veru.

Margir telja að við getum skapað með hugsunum okkar hvernig muni fara,  og þó það eigi ekki við í öllum tilvikum þá er það oft.

Þetta snýst svo mikið um trú á eigin getu, hæfileika og trú á að lífið taki á móti okkur. –

Það erum s.s. við sem setjum oft upp hindranir og stíflur – eða förum í ofstjórn.  Ofstjórn virkar þannig að við tökum kökuna út úr ofninum áður en hún er bökuð,  eða að við treystum ekki bakaraofninum! .. 😉

Trúum ekki að út úr þessu komi kaka.

En hvað ef við förum eftir uppskriftinni sem var gefin hér í upphafi – eða það sem ég skrifaði um „uppskrift að betra lífi“ hér nokkrum pistlum á undan? –

Hvað ef við leyfum okkur nú að fara að trúa og treysta? ..  við séum búin hræra deigið,  setja í formið og leyfum ofninum að taka við? –

Þó við vitum ekki nákvæmlega hvenær „plingið“ í klukkunni gellur, þ.e.a.s. hvenær kakan er bökuð – þá treysta því að sá tími komi ? –

Hlustum eftir „plingi“ – en ekki gefast upp á að bíða eða halda fyrir eyrun þegar það gellur.  Við höfum bakað margar kökur í lífinu, – líka vandræði auðvitað – því að ef við trúum á vandræði þá verða vandræði er það ekki?

Og þó við höfum stundum bakað misheppnaðar kökur,  eða eitthvað hefur farið úrskeiðis, – þá þýðir það ekki að við eigum að gefast upp í bakaríi lífsins! ..

Reynslan hlýtur að hafa kennt okkur að margar góðar kökur bakast ef við förum rétt að og vöndum okkur 😉

425125_10150991208683141_2145683887_n

Gleðjumst yfir okkar innra ljósi ..

Marianne Williamson – er einn af þessum andlegu gúrúum sem ég hef aðeins verið að fylgjast með,  en eins og ég hef útskýrt áður þýðir gú-rú víst frá myrkri til ljóss. –

Á heimasíðu Marianne er hægt að finna margt áhugavert og m.a. eftirfarandi texta, að sjálfsögðu er orginalinn á ensku,  en þegar ég ætlaði að fara að snara honum á íslensku ákvað ég að leita hvort að einhver hefði ekki gert það fyrr og sú var raunin,  svo ég gerði í raun bara „kópí-peist“ –   svo textinn er í boði Marianne Williamson og þýðandans Svans Gísla Þorkelssonar.

En hann hljóðar svona:

„Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;“hvers vegna ætti ég að vera snjöll, fögur, hæfileikarík og fræg?“ Spurningin ætti frekar að vera, „hvers vegna ekki ég.“ Þú ert barn Guðs. Að látast vera lítilfjörlegur þjónar ekki heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni. Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra.“

Marianne Williamson (þýðing Svanur Gísli Þorkelsson)

Þetta er í raun mikilvæg samantekt á því sem ég hef verið að skrifa um,  eins og mikilvægi þess að leyfa ljósi sínu að skína, – það er ekki nýr sannleikur og kemur t.d. fram í Biblíunni.

Líka mikilvægi þess að gera ekki lítið úr sjálfum okkur og það að okkar eigin ljós á ekki að skaða annarra ljós.

Margir eru hræddir við að láta ljós sitt skína, og margir eru hræddir við að vera glaðir.  Já, – nýlega komst ég yfir efni sem fjallaði um það að í raun væri gleðin eitt af því sem við óttuðumst.

Um leið og við förum að finna fyrir mikilli vellíðan eða gleði – þá byrjum við að skemma og hugsunin fer í gang „hvenær hættir þetta“ –  „þetta getur nú ekki enst lengi“ .. og svo framvegis.

„Of gott til að vera satt“ –   ef eitthvað er gott og okkur líður vel og erum glöð þá er okkur óhætt að njóta stundarinnar,  ekki skemma hana með því að hugsa að hún endist ekki,  að einhvern tímann muni þetta hætta og eitthvað verra taki við.

Ýmsir af þessum meisturum eða gúrúum tala um „The present moment“  eða Núið.  Að njóta Núsins,  og er Eckhart Tolle kannski þar fremstur meðal jafningja enda skrifaði hann bókina „Mátturinn í Núinu.“

Það er svo gaman að orðaleiknum, „Present“ – og tengist textanum frá Marianne.  Því auðvitað er present ekki bara núið heldur líka þýðir það gjöf.   Lífsins gjöf.  Þegar við erum „present“ erum við viðstödd.  Viðstödd –   stöndum í núinu.

Þegar við erum viðstödd (okkur sjálf) eigum við auðveldara með að tengjast okkar eigin innra ljósi en ef við erum fjarri – ef hugurinn er einhvers staðar annars staðar.

Innhverf íhugun er hugsun um þetta innra.  Við tengjum hugann við ljósið,  í stað þess að vera með hann á flökti út um allar trissur, hvort sem það er í öðru fólki eða á öðrum tíma.

Ef við erum ótengd þá höldum við að við verðum glöð „þegar“  – þegar eitthvað hefur gerst – eða þarna,  þ.e.a.s. á öðrum stað.

Auðvitað hefur umhverfi áhrif, fólk hefur áhrif.  En ef við erum ekki tengd okkar innra ljósi,  þá verðum við aldrei ánægð og finnst alltaf eins og okkur skorti eitthvað. –

Þá skiptir engu máli að fara í „draumaferðina“ til Parísar,  eða á sólarströnd, eða hvert sem ferðinni er heitið.   Ef við erum ekki með sjálfum okkur,  við erum absent eða fjarverandi okkur sjálf þá njótum við ekki stundarinnar, – erum ekki „present“ – erum ekki að njóta þessarar dýrðar sem okkur er gefin,  okkar innri fjársjóðs.

Þess vegna er þetta svo magnað – þessi áskorun að vera ekki í óverðugleikahugsuninni, –  heldur að sjá okkar innra ljós og upplifa innra verðmæti,  og ekki síst vegna þess að við gerum heiminum ekki gagn með því að gera lítið úr gjöf Guðs,   lífinu sjálfu, úr okkur sjálfum.

shine-large

Þetta snýst allt um trú …

Þegar ég skrifa trú, þá er ég ekki að tala um trú sem trúarbrögð,  en við erum svo fátæk í íslenskunni að trú er notað um faith, belief og religion,  kannski fleira.

Trúin sem ég er að tala um hér er hugmyndir eða sú trú sem við höfum um okkur sjálf, getu okkur og um hvernig við erum og hvað við gerum. –

1174682_501815599908980_883015767_n

Snýst um trú á sjálfan sig og trú á að lífið komi til móts við okkur.

Ótti – kvíði – stjórnsemi – óöryggi o.fl eru einkenni þess að skorta trú.

Við trúum ekki á okkar hæfileika, við trúum ekki að við eigum allt gott skilið, við trúum ekki að okkur geti gengið vel,  við trúum ekki að við finnum góðan maka, við trúum ekki á að við finnum starf sem er áhugavert, við trúum ekki að við eignumst draumahúsið o.s.frv. –  Svo er það hið innra, við trúum ekki að við náum heilsu, náum sátt, náum að finna frið o.s.frv. –

Við getum lesið alla „The Secret“ – og allar sjálfshjálparbækur,  en ef við trúum engu sem þar stendur þá gera þær ekkert gagn.

EInhvers staðar stendur að trúin flytji fjöll.

Þau sem hafa trú á markmiðum sínum ná frekar árangri,  þau sem leyfa sér að leggjast í hendi trúarinnar og efast ekki þau uppskera oftast samkvæmt því. –

Það er þessi BELIEF – TRÚ  – eða HUGMYNDAFRÆÐI um okkur sjálf sem skiptir máli. – Ekki hvað aðrir hugsa, og við megum ekki gera það heldur að okkar trú eða hugmyndum – heldur hvað við hugsum í okkar höfði, eða hverju við trúum.  Ef við trúum að við séum heppin erum við fókuseruð á heppni.  Ef við trúum að við séum óheppin þá sjáum við ekki einu sinn þó að það liggi þúsund kall á götunni,  því við erum svo viss um að við séum svo óheppin.

Þetta með trúna og óheppnina sannaði Darren Brown í mynd sem hann gerði um „The Lucky Dog“ –  þar sem hann (ásamt hjálparfólki) náði að sannfæra fólk um að ef það snerti styttu af hundi – sem var algjörlega valin af handahófi,  yrði það heppnara. Og það var reyndin.  Hægt er að sjá heimildarmynd um þetta á Youtube.

Svo það þarf bara að fara að trúa, eða skipta út trúnni.

Í staðinn fyrir að nota alls konar setningar eins og

„Ég ætla að reyna að gera það“

„Ég ætla kannski að gera það“

„Ég vona að ég geti það“

„Ég er ekki viss um að ég geti það“

þá segjum við einfaldlega:

„ÉG GET ÞAГ  .. og við trúum á okkar mátt og megin,  það sem okkur er gefið hið innra. – Losum okkur við það sem íþyngir eins og ótta, skömm og efa – og höldum áfram í góðri trú.

Það munu koma hlykkir á leiðina, – og stormar,  en trúin er lykilatriðið.   Ef við erum í vanda með það,  þá þurfum við að biðja fyrir okkur að öðlast meiri trú – og fá styrk við það.   Trú á kærleika, jákvæðni og gleði. –

Við getum líka þakkað fyrir hvað við erum heppin að svo mörgu leyti. –

Við höfum öll máttinn (og dýrðina),  en við þurfum að læra að nota hann.  Leita inn á við, – leita ekki langt yfir skammt.

Þessi pistill er grundvallandi fyrir því sem ég er að fara að kenna – núna á örnámskeiði kl. 18:00 -20:00 í dag í Lausninni,  Síðumúla 13, 3. hæð.   Sjá http://www.lausnin.is

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n

Ég er nóg

Í bata  er best að lifa

og þegar ég kem auga á sársauka minn

tek ég ákvörðun um að breyta um farveg

kveð sárin sem urðu til við rangar hugsanir

vegna þess að ég hef lært að ég er verðmæt

grímulaus og allslaus fyrir Guði og mönnum

og ég á allt gott skilið, eins og við öll

ég reisi mér ekki tjaldbúðir í sorginni

ekki frekar en skömminni

sleppi íþyngjandi  lóðum höfnunar og hefndar

því ég hef frelsað sjálfa mig

og þá þarf ég ekki að spyrna frá botni

heldur  flýg af stað sem fis

inn í nýja og betri tíma

þar sem óttinn fær engu stjórnað

hugrekkið heldur mér á lofti

hjarta mitt er heilt og sátt

ég fyrirgef vegna mín

sleppi tökum á fortíð og fólki

og leyfi því að koma sem koma skal

set ekki upp hindranir og farartálma

og kvíði engu

heldur brosi breiðu brosi eftirvæntingar

við vissum ekki betur

kunnum ekki betur

kærleikurinn kemur og kyssir á bágtið

þakklætið þerrar tárin

Gleðin valhoppar í kringum mig

bíður spennt og segir í sífellu:

„komdu út að leika“  🙂

Mér er frjálst að elska

og þess meira sem ég elska

vex kærleikurinn til lífsins

ég kallaði áður „elskaðu mig!“

en nú þarf ég ekki að betla

bara elska

það er nóg

ég hef nóg

ég er nóg

quote