Við erum ekki skuldirnar okkar …

  Get ég verið blönk og hamingjusöm? –

Það eru býsna margir orðnir aðþrengdir og aðkrepptir vegna þess að tekjur og/eða bætur hrökkva ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. –

Ég er ein af þeim sem hefur verið í þeirri stöðu, – og jú stundum upplifað örvæntingu og kvíða af þeim sökum. –  Ég kalla það „afkomukvíða“ ..

Líf mitt hefur breyst stórkostlega, frá því að þurfa næstum ekkert að velta fyrir mér peningum og meira að segja geta gaukað að vinum og ættingjum einhverri upphæð hafi þeir verið í vanda,  í það að tja.. skrimta …og vera sú sem er að þiggja frá vinum og ættingjum.-

Uppeldi mitt og okkar margra hefur verið í þá áttina að skulda aldrei neinum neitt, og sérstaklega ekki peninga.   Svo það er býsna stór biti t.d. að fá hótun um að fara á vanskilaskrá, að nafnið manns fari á einhvern „svartan lista“  …. fá neitun í bankanum um yfirdrátt, geta ekki greitt kreditkortaskuldina o.s.frv…

Hlutir sem áður voru sjálfsagðir, eins og að versla sér skó, fara á árshátíðir,  jólahlaðborð, kaupa vel inn fyrir helgi án þess að hugsa um upphæðina,  fara á kaffihús og drekka flösku af rauðvíni eru varla inni í myndinni hjá mér í dag.. eða kannski þá bara alveg „spari.“

Húsaleigan hefur forgang, því ég þarf þak yfir höfuðið og rekstrarreikningar, ég þarf líka að kaupa bensín á bílinn en keyri hann sparlega, en maturinn er aftast á lista og nú er borðað allt pastað, grjónin og fleira sem hefur safnast upp í skápunum.  Ég hendi ekki mat eins og áður,  en nýti hann miklu, miklu betur.  Reikna saman í huganum það sem ég kaupi í  Krónunni og Bónus. –

En það eru ýmsir góðir hlutir sem koma í staðinn og ég hugsa, „hvað er ég að læra af þessu?“ – „Hvað er verið að kenna mér“?

Hófsemi, sníða mér stakk eftir vexti,  hætta að lifa í kredit og vera meðvitaðri um hverja krónu sem ég eyði. –

Ég geri lista yfir það sem er „ókeypis“ í lífinu,  samveruna með vinum, gönguferðirnar,  að leika mér með barnabörnunum. Fyrirlestrar í Háskólanum,  sæki andlega næringu í fyrirlestra á netinu, bækur o.fl.

En það sem skiptir mestu máli er að vita og trúa því að verðgildi okkar sem manneskju er alltaf hið sama og launaseðillinn okkar eða bætur segir ekkert til um það. – Ef að við ættum að meta verðgildi fólks eftir tekjum þess þá væru nú heldur betur margir „svindlarar“ verðmætustu manneskjurnar. – 

Ríkir eru verðmætar manneskjur og fátækir eru verðmætar manneskjur,  en það verðmæti kemur bankareikningi þeirra EKKERT við. –

Já, ég er heppin að hafa lært það að ég get og má vera hamingjusöm akkúrat núna – hvað sem á gengur! – Frekar „fyndið“ – og þegar ég segi stundum við mig „ég er hamingjusöm“ eða endurtek „mig vantar ekkert“ þá hlæ ég inní mér  og það er bara gott. –

Ég er samt bara manneskja og fæ við og við nokkurs konar „afkomukvíða“ – en spyr mig samt hvað sé það versta sem getur gerst? –  Er þetta ekki bara spurning um stolt?

Voru ekki mestu spekingar heimsins eins og Eckhart Tolle húsnæðislausir á tímabili, – og maðurinn sem heyrði í Guði og átti samræður við hann? –  Neale Donald Walsch,  hann lifði í tjaldi í almenningsgarði,  komst alveg á botninn,  en af botninum er besta spyrnan og „úr djúpi reis dagur.“ –

Þessir menn sem ég vitna í hér á undan eru orðnir múltimilljónerar á fyrirlestrum og bókaútgáfu.  Þeir hafa reynslu og hafa upplifað „frelsið“ við að vera algjörlega eignalausir, – já þetta hljómar kannski mótsagnakennt, en stundum eru eignir og skuldir af þeim bara eins og hlekkir. –

Við erum eflaust mörg sem þurfum að koma út úr skápnum með áhyggjur okkar,  láta þær ekki skyggja á lífsljósið okkar. –

Það verður aldrei nógu oft ítrekað að verðmæti okkar er ekki tekjur okkar, húsið okkar eða bíllinn.  Sjálfstraustið á ekki að byggjast á því – það er það sem kallað er „other“ esteem, traust sem byggist á hinu ytra. – Það styður vissulega hið innra,  en eftir því sem við leyfum hinu innra að stækka meira og vera meira ráðandi og meta okkur minna eftir hinu ytra.

– Við erum ÖLL stórkostlegar manneskjur! –

Við eigum öll ljósið innra með okkur, lífsneistann – það er okkar að glæða hann og laða að okkur hið góða. – En hlustum á spekingana spjalla og íhugum hið raunverulega verðmæti. –  Spekingana sem báðir áttu ekkert veraldlegt,  en þess meira andlegt.  Við sem búum á Íslandi erum lánsöm, við eigum fríska loftið og við eigum góða vatnið, bæði kalda og heita.  Land sem er laust við stríðsátök o.fl.o.fl.  Hversu margir ætli það séu þarna úti í heimi sem myndu óska sér og upplifa sig ríka bara af þessum gæðum?

– Bara að lifa í friði? –

Það er gott að nota það sem við eigum nú þegar, þakka það sem við eigum og erum og setja fókusinn á það. –  Sætta okkur við okkur.  Samþykkja okkur,  elska og virða – því við erum virðingar verð. –

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt

Kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli

„Love is you“ ….

Eftirfarandi eru tveir pistlar sem ég hef sameinað eða „endurvakið“ af fyrra bloggi:

Þar sem líkaminn er farartæki okkar, er mikilvægt að huga að honum, fara vel með hann svo að allt virki og við komumst sem flestar „mílur“ á honum.  Í því felst að sjálfsögðu að þrífa og bóna, en mikilvægast af öllu er að þykja vænt um hann hvernig sem hann er,  því að hann gengur bæði fyrir andlegu og líkamlegu eldsneyti.

Mestu skiptir að hugsa fallega um líkama sinn, – ekki bara að láta hann líta vel út eða eins og við höldum að aðrir vilji (hrukkulaus og ungleg kannski?).  Með útliti getum við bætt í traustið, en ekki hið raunverulega sjálfstraust heldur einhvers konar annað-traust.  Eða eins og Pia Mellody höfundur bókarinnar „FACING CODEPENDENCE“ kallar það Other-esteem.

Fólk sem byggir á Other-esteem byggir á utanaðkomandi hlutum eins og t.d.;

Hvernig það lítur út

Hversu hár launaseðill þeirra er

Hverja þeir þekkja

Á bílnum þeirra

Hversu vel börnin standa sig í skóla, vinnu o.s.frv.

Hversu áhrifaríkur, mikilvægur eða aðlaðandi maki þeirra er

Gráðurnar sem þeir hafa unnið sér inn  (Bjarnfreðarson með fimm háskólagráður)

Hversu vel þeim gengur í lífinu þar sem öðrum þykir þau framúrskarandi

Að fá ánægju út úr þessu ofantöldu, eða fullnægju er í fínu lagi, en það er EKKI sjálfstraust.

Þetta Other-esteem er byggt á gjörðum, skoðunum eða gjörðum annars fólks.

Vandamálið er að uppruni þessa Other er utan sjálfsins og því viðkvæmt eða brothætt vegna þess að það er eitthvað sem við getum ekki stjórnað.  Það er hægt að missa þessa utanaðkomandi hluti hvenær sem er, og er því óáreiðanlegt – Það er ekki gott að byggja sjálfstraust á einhverju sem getur horfið eða eyðst.

Útlit okkar gerir það óumflýjanlega. Kjarni okkar er sá sami hvort sem við erum ung eða gömul, með gervineglur, botox, silikon, diplomur úr háskóla o.s.frv.   Hann er alltaf sá sami og nærist á því að við sættumst við okkur,  þekkjum og elskum okkur.

Sjálfstraust okkar á ekki að byggjast á hversu vel barni okkar gengur í skóla, eða hvort að því gengur illa í lífinu. Það er það sem flokkast undir Other.

Ef við lærum að við erum verðmæt og góð sköpun, hvernig sem við lítum út, hvernig sem börnum okkar farnast, þá náum við að hlúa að sjálfstrausti okkar og þá hætta utanaðkomandi öfl að þeyta okkur fram og til baka eins og laufblöðum í vindi.

Ef við látum umhverfið hafa svona mikil áhrif erum við meðvirk að meira eða minna leyti, og við erum það flest. Það er ekkert til að skammast sín fyrir og reyndar eigum við að skammast okkar sem minnst, en í staðinn hleypa tilfinningunum i þann farveg að vera meðvituð.

Ef við gerum okkur grein fyrir því að það sem Sigga systir sagði í gær hafði svona neikvæð áhrif á okkur, eða það sem Óli bróðir sagði hafði svona góð áhrif kom okkur upp í skýin erum við meðvirk.

Við látum umhverfið stjórna því hvort við erum glöð eða sorgmædd.

Ég fór sjálf út í meðvirknivinnu vegna þess að ég var eins og laufblað í vindi, lifði til að þóknast.  En þegar ég vaknaði til meðvitundar um það , sá ég að það var til að þóknast öllum öðrum en sjálfri mér.

„Hvað skyldi þessi segja ef ég …. “  Ætli þessi verði ánægð ef ég … “  „Ég get ekki verið hamingjusöm nema þessi og þessi séu það líka…. “

Hvað græðir barn í Biafra á því að lítil stelpa á Íslandi klári matinn sinn?

Já, við lærðum þetta í bernsku.

Við þorum ekki að vera glöð vegna þess að einhverjum öðrum líður illa, – eða hefur það ekki eins gott, hvað hjálpar það þeim?

Að vilja gera lífið betra og setja lóð á vogarskálar hamingjunnar, byrjar hjá okkur.  Við erum dropar í þessum hamingjusjó og ef við ætlum að gera gagn og bæta sjóinn þá skulum við huga að okkar sjálfstrausti, okkar innra manni sem er verðmæt manneskja – hvað sem á dynur.

Verðmæti okkar rýrnar aldrei.

Sem fyrirmyndir þá skulum við hafa þetta í huga, börn þessa heims vilja sjá þig með gott sjálfstraust – elsku mamma, elsku pabbi, elsku afi, elsku amma, elsku frænka og elsku frændi.

Sjálfstraust er eitt það mikilvægasta sem fólk hefur í lífsgöngunni, trú á sjálfu sér,   því með gott og heilbrigt sjálfstraust getur þú gengið án þess að láta kasta þér fram og til baka,  án þess að láta einelti hafa áhrif á þig, eða minnka áhrif þess. Án þess að gleypa agn veiðimannsins sem vill veiða þig á beitu og láta þig engjast á önglinum.

Dæmi um slíkt er þegar einhver þarna úti pirrar þig og þú færð hann eða hana á heilann og þá ert það ekki þú sem ert við stjórnvölinn í þínu lífi lengur,  heldur sá eða sú sem þú vilt síst að sé það.

Meðvitund er það sem þarf og það þarf sjálfskoðun, sjálfsþekkingu og sjálfsfrelsun.

Frelsun frá því að finnast það sem öðrum finnst.

Þegar þú veist hvað ÞÉR finnst,  já þér og engum öðrum,  um sjálfa/n þig, þegar þú ert farin/n að samþykkja þig og þínar skoðanir,  standa með sjálfri/sjálfum þér  þá ertu farinn að uppgötva sjálfstraustið þitt.

Geneen Roth segir frá því sem Súfistarnir kalla „Ferðalagið frá Guði“ ..

„Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr – er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum.“

Þegar ég tala um Guð, þá finnst mér einfaldast að setja upp guðsmyndina sem kemur fram í eftirfarandi ljóðlínum:

Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.

(Steingrímur Thorsteinsson,  ath! Guð i alheims geimi og Guð í sjálfum þér er bara eitt og hið sama).

Og meira um að vera elskuð ..

Elskan er í raun grunnur sjálfstrausts, en ekki það sem mölur og ryð geta grandað, titlar, útlit o.s.frv., allt annað – það sem kemur að utan, hversu fræg við erum og slíkt, er ekki trygging fyrir sjálfstrausti, því það er eitthvað sem eyðist og hverfur.  

„You are loved“

– og það hittir í mark, enda getur elskan ekki geigað nema að sá sem hún er ætluð forði sér eða skýli hjarta sínu.

Við þurfum nefnilega öll að vita að við séum elskuð,  og ekki bara vita, heldur trúa því.

Þú ert elskaður

Þú ert elskuð 

Það sem er þó mikilvægast að trúa er að við séum okkar eigin elsku verð.

Kærleiksboðorðið virkar í báðar áttir;

Elskaðu aðra eins og þú elskar þig  –   Elskaðu þig eins og þú elskar aðra  

Sýndu sjálfri/sjálfum þér virðingu.

Við göngum oft býsna nærri okkur sjálfum, sýnum okkur ekki þá tillitssemi sem við oft á tíðum sýnum öðrum. Bjóðum okkur upp á hluti sem við myndum ekki bjóða neinum öðrum. Erum næstum dónaleg við okkur sjálf.

Í leit okkar að elsku og viðurkenningu förum við stundum yfir mörk þess boðlega fyrir okkur sjálf.

Við erum alltaf að lenda í þessu, að yfir okkur sé gengið að einhver tali niður til okkar, að okkur sé sýnd óvirðing.  Þá fer það eftir viðhorfi okkar til sjálfra okkar hvernig við tökum því. Hvort við kokgelypum eins og fiskur sem gleypir agn,  eða hvort við sendum það til föðurhúsanna,  annað hvort í huganum eða við tölum upphátt, eða stígum út úr aðstæðum á annan hátt.

Ef við elskum okkur ekki nógu mikið eða gerum okkur grein fyrir verðmæti okkar þá látum við það líðast að aðrir nái að fara undir skinnið okkar og stjórna,  við gefum út leyfisbréf og látum þetta jafnvel brjóta okkur niður.

En þegar við gerum okkur grein fyrir að elskan er fyrir hendi, hún hefur alltaf verið fyrir hendi – hún er hluti af þér og kemur frá hjarta þínu,  þá getur þú farið að slaka á, þú átt allt gott skilið.

„You are loved – Love is you“ … 

„Love’s like the water when the well runs dry
Quench my thirst, keep me alive
Just need one sip, baby, love is you
Love is you, love is you, love is you, love is you“

bambi_1090415.jpg

Getraun: Þessi mynd er tilvitnun í ákveðinn  sálm í Biblíunni …. 😉

Hugrekki og trú …

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli.

Reinholdt Niebuhr

Fáar bænir segja meira í ekki fleiri orðum, eins og æðruleysisbænin. –

Ég verð að viðurkenna að í fyrstu þuldi ég þessa bæn án þess að tileinka mér hana, eða hugsa djúpt , og hugsaði ekkert endilega hvað væri þarna á bak við. –

Fyrsta orðið/hugtakið í bæninni er Guð, – því er þetta bæn til Guðs og með því erum við að biðja um hjálp sem er gjöf Guðs.-

Þessi Guð er sá/sú/það Guð sem er bara Guð út frá okkar sjónarhorni, eitthvað stærra okkur, eitthvað máttugra. Eitthvað sem bara ER. –  Eitthvað afl sem vill okkur vel og getur elskað okkur skilyrðislaust, en það er meira en við yfirleitt getum sjálf.  Þess vegna, m.a.,  er það stærra og meira.

Við getum líka séð þetta út frá því sjónarhorni að Guð sé ský, og við séum regndroparnir sem lendum á jörðinni, verjum þar tíma með öllum hinum regndropunum – og svo gufum við upp aftur og sameinumst skýinu. –  Skýið er alltaf stærra, en sama eðlis. Það harmónerar líka alveg við það að vera sköpuð „í Guðs mynd“ …

En útgangspunkturinn er að það segir ÞÉR enginn hvað og hvernig Guð er,  því að þrátt fyrir að við séum öll eins að því leyti að við erum líkami, sál og hugur, erum við öll einstök.  (Á sama hátt og engir tveir dropar eru 100%  eins í laginu)

ÞAKKLÆTI

Hinn djúpvitri höfundur Paolo Coehlo sagði einhvers staðar að ef við kynnum aðeins tvö orð, „hjálp“ og „takk“ á öllum tungumálum myndum við aldrei týnast. –   Stundum erum við eins og tveggja ára barnið sem er að reyna að reima á sig skóna, – við segjum „ég get“ en höfum ekki enn kunnáttuna.  Að sjálfsögðu höldum við áfram að reyna, en fáum hjálp þar til við höfum náð þeim þroska að geta reimað okkar skó. –

Að sama skapi, er mikilvægt að þakka fyrir, þakka fyrir það sem við höfum nú þegar og þakka fyrir þegar okkur er hjálpað. –

 Þakklæti elur af sér þakklæti. –

ÆÐRULEYSIÐ

„….æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.. “

Við biðjum um gjöf æðruleysis (serenity) til að öðlast sátt eða samþykkja  það sem er og við getum ekki með nokkru leyti breytt. –  Æðruleysið er í mínum huga, ró, friður, jafnvægi, sátt, dýpt, kyrrð.  Það sem við fáum stundum með því að stunda yoga, bæn, íhugun, hugleiðslu, slökun, með sporavinnu, úti í náttúrunni o.s.frv. –

 Við þurfum öll að finna okkar leið að æðruleysinu. –  En munum að leiðin er inn á við en ekki út á við. –  Við þurfum að nálgast okkur en ekki fara frá okkur. –

KJARKURINN

„….kjark til að breyta því sem ég breytt …. “

Það þarf kjark til að breyta, kjark gagnvart sjálfum sér, kjark gagnvart innsta hring og gagnvart samfélaginu. –

Þegar okkur langar að breyta heiminum, þá byrjum við á byrjuninni: okkur sjálfum –  Það þarf hugrekki til þess.

Við þurfum að hafa nægilegt hugrekki til að ganga inn í óttann, og þá er gott að vita að við göngum ekki ein og þá leitum við aftur til Guðs sem gengur með okkur. –  Höfum nægilega trú til að gera það sem við óttumst. –  Horfast í augu við okkur sjálf og náunga okkar.  Náunginn getur verið einhver í fjölskyldunni, vinahóp eða eitthvað ókunnugt fólk. Fólk sem þú býst við að leggi dóm á það sem þú ert að gera. –  Við getum einnig verið okkar hörðustu dómarar og því þurfum við að mæta eigin dómhörku með hugrekki. –  Þá er gott að hafa Guð með sér, því að Guð elskar skilyrðislaust. –

VAL

Samfélagið tekur okkur ekki endilega vel þegar við förum að fella af okkur hlekki skammar og ótta. –  En við getum valið á milli frelsisins að vera við sjálf og fangelsins að þurfa að lifa eftir því sem aðrir vilja og segja okkur. –  Nú eða eftir því sem við HÖLDUM að aðrir vilji, því oft er það bara okkar mistúlkun eða ranghugmyndir um vilja annarra í okkar garð.

(Að sjálfsögðu verðum við að vera ábyrg gjörða okkar, og virða þau sem eru í kringum okkur, og sinna þeim skyldum sem við höfum tekið að okkur, sérstaklega þegar um börn er að ræða, og okkar frelsi má ekki felast í því að hefta aðra eða beita þá ofbeldi).

Kjarkurinn kemur frá kjarnanum, – frá hjartanu sem yfirleitt veit hvaða leið er best, en við þurfum að sjálfsögðu að vera viðstödd kjarnann til að heyra hvað þar hljómar. –  Ef röddin í höfðinu er hávaðasöm, eða raddirnar sem koma að utan, truflar það oft rödd hjartans. –  Oft er talað um „úrtöluraddir“ – og áhrif þeirra. –  Úrtöluröddin eða niðurrifsröddin er líka okkar innri rödd, sem stundum hlustar á úreltar eða útrunnar hugmyndir um okkur sjálf og segir með hásum rómi „Hvað þykist þú vera?“ –  „Þú getur ekki“ .. o.s.frv.  Hverju ætlar þú að trúa? –

„… og vit til að greina þar á milli.“

Hvernig greinum við á milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki breytt? –

Sumt er borðleggjandi;  Við getum ekki breytt fortíðinni, en við getum breytt viðhorfi okkar til fortíðarinnar. –

Þegar við glímum við  vandamál  þurfum við fyrst að sjá vandamálið, svo orsakir þess,  þá hvaða lausnir eru í boði – er hægt að breyta eða þarf ég að sættast við aðstæður mínar? –  Og hvað felst í sáttinni?

Við verðum að taka ákvörðun, og við þurfum vit til að velja hvort og hverju við getum breytt. –

Gremja yfir stöðu okkar, eyðir orku okkar og heldur aftur af eldmóði okkar.

Í stað þess að fyllast gremju yfir aðstæðum, samþykkjum við þær og byrjum frá þeim punkti að gera eitthvað í aðstæðunum. –

Einhver gæti farið að berja sig niður fyrir að vera búinn að koma sér í vondar aðstæður, hafa farið illa með líf sitt – hingað til – en það að berja sig niður byggir ekki upp –  Við berjum ekki sáttina í okkur.  Það hjálpar heldur ekki til að fara í ásakanagírinn, jú – það getur vel verið að það hafi verið komið illa fram við okkur, en það að fyllast gremju yfir því, bitnar ekki á þeim heldur okkur.

NÚIÐ

Að sættast við það sem er, þýðir ekki að við séum að gefast upp, heldur að samþykkja núið, – samþykkja og gera okkur ljósa stöðu okkar,  sjá raunveruleikann til að geta haldið áfram. –

Þetta er að doka við, viðra fyrir okkur útsýnið, spyrja til vegar og leita hjálpar ef það þarf, en ekki vaða áfram bara eitthvað út í bláinn og á sama vegi og kom okkur í villuna.

Með samþykkinu á því sem er, stöðvum við, sorterum það sem við þurfum að taka með okkur,  hvað ætla ég að taka með mér og hverju ætla ég að henda.

Með sáttinni erum við lögð af stað nýja leið, með því höfum við breytt án þess að breyta. –  Eins mótsagnakennt og það hljómar. –

Við getum breytt okkur, hugarfari okkar og sjónarhorni.

Ef við stöndum inní herbergi og horfum upp, sjáum við aðeins upp í loft, en ef við göngum nokkur skref, út um dyrnar sjáum við himininn. –

Ef við förum með þetta hugarfar inn í líf manneskju sem er búin að missa tökin á mataræði, peningum, sambandi, vinnu .. eða hverju sem er,  þá þarf hún fyrst að opna augun og samþykkja ástandið,  viðurkenna það en ekki afneita,  samþykkja það eins og það er og sættast við – fyrirgefa sjálfri sér fyrir að vera komin þangað sem hún ætlaði sér ekki,  skoða hvaða leið hún fór og hvað það var í hennar lífi sem leiddi til þess að hún villtist af leið.

Þá er farið í það að sortéra,  greina og átta sig á því hvað það er sem leiddi hana afvega og hvað það er sem hélt henni þó inni á veginum sem hún vildi. –

Það þarf að velja á milli þess sem er enn nýtilegt og þess sem er löngu orðið súrt og komið langt fram yfir dagsetningu.  Var jafnvel ónýtt frá upphafi. –

Svo þegar við höfum staldrað við, þá er að halda áfram með þann kjark að sleppa þeim hækjum sem í raun voru hlekkir sem héldu okkur niðri. –

Við þurfum að lifa í þeirri trú að Guð styðji við okkur,  þegar okkur finnst við vera að detta. –

Það má nota líkinguna af barni sem er að læra að hjóla án hjálparadekkja. Foreldrið heldur við, og svo einn daginn hjólar barnið og heldur að foreldrið haldi við, en um leið og það uppgötvar að foreldrið heldur ekki lengur,  þá missir það kjarkinn og dettur. –  En auðvitað getum við líka treyst því að mamma eða pabbi styðji okkur á fætur á ný. –

En hversu velviljuð sem foreldrar okkar eru, með allan sinn stuðning og elsku,   þá erum það alltaf við sjálf sem þurfum að læra að hjóla …

„Hvert fara brostin hjörtu?“ … Whitney Houston 1963 – 2012

Ég sá það á Facebook í morgun, eins og e.t.v. margir að hin fræga söngkona Whitney Houston er látin,  en hún var aðeins 48 ára og fædd 9. ágúst 1963.

Allir sem eitthvað fylgdust með fréttum af „fallega og fræga“ fólkinu og jafnvel fylgdust ekkert sérlega með þeim fréttum,  gátu séð og lesið að hún var löngu týnd á sinni leið. –  Ég er alls ekki vel inní því,  en veit að þar komu bæði áfengi og eiturlyf við sögu. –  Þannig að hún hefur verið í flótta frá sjálfri sér og lífinu.

Fyrir mér er þetta enn ein áminningin um að fegurð, frægð, auður og hæfileikar duga ekki til farsældar, og hvað þá að hamingjan felist í því að vera mjó. –

Hamingjan dregur vagninn, en ekki vagninn hamingjuna. – Það þýðir að hamingjan byrjar innra með okkur og ekki hægt að taka hana eingöngu utan frá. – Það verður aldrei annað en skammvinn sæla eða fix.   Það er að segja, það dugar svo skammt. –  Við drekkum ekki hamingjuna úr flösku,  við kaupum ekki hamingjuna í skóbúð,  við fáum ekki hamingjuna á prófskírteini og hamingjan er ekki tala á vigt. –

Við getum notað önnur orð þarna fyrir hamingjuna, eins og kærleikann og jafnvel Guð.  Það getur hver og ein/n ákveðið fyrir sig.

„Know thyself, and thou shalt know the Universe and God “ „Þekktu sjálfa/n þig, og þú munt þekkja alheiminn og Guð“ ..

Ef við erum á flótta frá sjálfum okkur, er vonlaust að þekkja okkur sjálf. –

Ef við lærum ekki innra verðmætamat, – að meta okkur án ytri mælikvarða, átta okkur á því að við erum verðmæt, „no matter what“ – eða hvað sem að utan kemur.   Ríkidæmi okkar getur falist og felst að vissu leyti í reynslu okkar, en við getum farið illa með það ríkidæmi, alveg eins og hið veraldlega ríkidæmi. –

Whitney Houston var falleg sál, ótrúlega verðmæt – eins og við öll. – Fyrsta lagið sem kom í hugann þegar ég sá þetta „RIP Whitney Houston“ – var „I will always love you“ – og spilaði það á Youtube.  Man eftir myndinni „The Body Guard“ og hef séð þá mynd oftar en einu sinni og oft hlustað á lagið á Youtube. –

En svo fann ég annað fallegt með henni,  „Where do broken hearts go?“ ….  Eflaust hefur það átt við þessa konu, að hjarta hennar var brostið,  en brostin hjörtu þurfa í raun bara að fá athygli okkar sjálfra,  við þurfum að hlú að okkur,  fara að elska okkur skilyrðislaust, án tillits til stéttar, stöðu, útlits, frama og frægðar. –

Að elska og samþykkja okkur sjálf er grunnforsenda eigin farsældar. –  Brostin hjörtu þurfa að komast heim. –

Fallega sál, far þú í friði. –

Frá þjáningu til þroska .. Lausn eftir skilnað

Þegar ég var barn og kvartaði, fékk ég oft svarið að þetta væru nú bara vaxtaverkir! – Ég hef aldrei fengið það á hreint hvort að vaxtaverkir eru raunverulega til eða ekki, en ég hef fundið það á eigin skinni að vöxturinn til þroska er sársaukafullur. –

Það er þegar við göngum á veggi, dettum í holur, rekumst á .. og þar fram eftir götunum sem við fáum oft stærstu tækifærin til þroska og vits. – Og kannski er lífið bara skólaganga til skilnings? –

Það er erfitt að setja sig í spor annarra án þess að hafa sömu eða svipaða reynslu. – Þess vegna er reynslumikið fólk, fólk sem hefur gengið í gegnum sorgina oft betri sálusorgarar en það sem hefur ekki gert það.

Sorgin getur verið allt frá litlum ósigrum upp í mikinn harm, og næstum því , eða algjörlega óbærilegan. –

Sem betur fer er engin manneskja það „menntuð“ í sorginni að hún geti sett sig í spor allra.

Ég á ýmsa misalvarlega  sorg að baki, og ein af þeim er skilnaður við maka – og það hef ég upplifað oftar en einu sinni, en þó með ólíkum hætti. –

Í þessum pistli ætla ég að fjalla um þann sorgarferil sem auðvitað verður þegar upp er staðið að þroskaferli.  Þessi pistill er blanda af minni eigin reynslu og reynslu margra kvenna sem ég hef fengið á námskeið, – en eitt slíkt námskeið verður haldið í Lausninni 18. febrúar nk. kl. 9:00 -16:00 með fjögurra kvölda eftirfylgni í hópum. – sjá nánari upplýsingar og skráningarform  www.lausnin.is

Ef að fólk fer ekki í samband á réttum forsendum í upphafi, hefst skilnaðarferlið við fyrstu kynni. –  Ástin er góð, en hún getur blindað – og við förum oft að gefa afslátt af okkur sjálfum, okkar þörfum, væntingum og gildum fyrir makann. –

„Við mættumst, horfðumst í augu og frá fyrsta kvöldi vissum við að við yrðum hjón. –  En það var svo margt sem við vissum ekki, og margt sem ég vissi ekki fyrr en eftir skilnað tuttugu árum seinna, og enn er ég að öðlast skilning á ástæðum þess að skilnaður var óumflýjanlegur. -“

Það voru tvö særð börn sem mættust, sem fóru að reyna að fylla upp í skörð hvers annars og sögðu „elskaðu mig“ – tvö börn að fullkomna sig með hinu. Tvö börn sem ekki kunnu að elska sig sjálf.   Í dag veit ég að það þarf tvo heila einstaklinga en ekki tvo hálfa.  – En það eru svo sannarlega ekki skilaboðin sem heimurinn veitir. – „Can´t breath without you“ .. segir í söngvunum. –

Þetta getur gengið svo langt í að uppfylla þarfir makans, að við setjum okkar eigin þarfir algjörlega til hliðar, og öfugt, við ætlumst til þess að makinn setji sjálfan sig til hliðar til að þjóna okkur. –

En hoppum áfram í tímann, hjónaband sem hefur varið í mörg ár, hjónabandsblómið er orðið skrælnað því að gleymst hefur að vökva, – allt annað en við og sambandið er sett í forgang.  Samveran er orðin vélræn og það sem er miklvægast af öllu, gagnvæm virðing og væntumþykja gufuð upp.

Það er erfitt að bera virðingu fyrir aðila sem ber ekki virðingu fyrir sjálfum sér. –  Sjálfsvirðing er því grundvallandi til að um gagnkvæma virðingu sé að ræða. –  Það er líka erfitt að elska, ef við elskum okkur ekki sjálf – ástin svokallaða er þá líka orðin eigingjörn ást en ekki kærleiksrík og óeigingjörn. „Þetta er MINN maki“ – og afbrýðisemin kviknar því við erum óörugg, og kannski ekki að ástæðulausu. –

Ef við gefum afslátt af eigin löngunum og þrám, þá erum við ekki sönn lengur, – ef við erum bara í að uppfylla langanir og þrár makans, eða það sem við höldum að hann vilji,  þá er sambandið orðið eins og þarfasamband en ekki ástarsamband.-   Svo fer þetta oft út í þann farveg að annar aðilinn fer að stjórna hinum, oft með kynlífi.

Kynlíf fyrir mér er meira en hopp upp í rúmi, eða úti móa. Slíkt er allt í lagi með, en eins og hjónaband byrjar að spinnast á fyrsta degi sambands (ef úr því verður) – lifnar kynlífið líka á fyrsta degi sambands. –  Kynlífið er samofið hversdagslifinu, hvernig við umgöngumst hvert annað.  Kynlífið er stök rós, gefin af engu tilefni. Kynlífið er nudd með olíu. Kynlífið er göngutúr í rigningunni, eða bíltúr í Borgarfjörðinn .. með okkar maka.

Maki sem upplifir niðurrif og andlegt ofbeldi yfir daginn, eða áhugaleysi yfir hennar/hans daglegu þörfum, – missir löngun til að stunda samfarir með maka sínum, – makinn verður argur þegar hinn neitar,  eða  kynlífið er á þeim forsendum að gera makann „góðan“ – en ekki vegna þess að þú finnur til löngunar .. kannski verði hann ekki eins leiðinlegur daginn eftir, eða jafnvel að hann verði skemmtilegur og sé tilbúinn að gera eitthvað skemmtilegt saman, eða bara ekki vera leiðinlegur? –  Kynlíf er rangt ef það verður skylda en ekki uppfylling eigin þarfa.  Eða í sumum tilfellum undirliggjandi hótun sem felst í því að það verður að gefa makanum að borða svo hann fái sér ekki að borða annars staðar!..

Sambönd þurfa neista, og það þarf tvo aðila í parasamband sem þurfa bæði að leggja til neistann og upplifa hann. –

Okkur á að þykja gaman að koma maka okkar á óvart, deila með honum því sem á dynur og koma hreint til dyranna. –

Óheiðarleiki er einn versti óvinur sambanda. –

Segjum að hjónabandið sé orðið eitthvað þunnt, – freistingarnar blasa við útum allt, og – jú, annar aðilinn – jafnvel bæði er farinn að líta aðila utan hjónabandsins hýru auga. –

Það er þarna sem á að segja STOP – og fara að skoða hjónabandið. – Leita hjálpar, leita að ráðgjöf.  Áður en sá stóri skaði er skeður að annar aðilinn fer og leitar í fang annarrar konu/karls hvort sem það er tilfinningalega eða líkamlega. –  Því þá er sambandið rofið, traustið er fokið út um gluggann.  Það er í raun hinn eiginlegi skilnaður.

Það þarf hugrekki til að tjá sig upphátt um það að maður sé óánægður í sambandi og sé farin/n að horfa í kringum sig til að fá útrás fyrir tilfinningar eða kynlíf eða bæði. –

Ástæðan fyrir hræðslunni við að segja er oft sú að í raun er fólk hrætt við að missa maka sinn. – Segir sjálfu sér að það vilji ekki særa hann með því að segja, en gerir sér ekki grein fyrir að sárið af vantraustinu er þúsund sinnum stærra og alvarlega en að koma heiðarlega fram. – Bæði er sárt og erfitt, en sannleikurinn er það sem frelsar.

Lygin endar iðulega og oftast með ósköpum.  Snjóboltinn verður að snjóflóði.

Það er nefnilega alls ekkert víst að sá aðili sem er að leita út á við vilji skilja. – Hann vill bara bæði eiga konu/mann heimili börn, OG einhvern til hliðar til að halla sér að.-

Þetta reyna margir, stundum vegna ófullnægju tilfinningalega og/eða kynferðislega,  eða vegna spennufíknar.  Framhjáhaldsfíkn er orð sem er til. – Þá er það bara spennan og fixið sem með því fæst sem sóst er eftir. –

Fíknin verður til eins og aðrar fíknir – vegna tilfinninga sem ekki hefur verið horfst í augu við, stundum bældra eða þeirra sem ekki hafa verið ræddar. Hér hef ég skrifað um framhjáhald með öðrum aðila, en það er líka hægt að „halda framhjá“ á annan máta, t.d. með áfengi, með vinnu, með eilífri fjarveru og vera ekki til staðar. –  Andleg fjarvera er ein tegund andlegs ofbeldis, – hún þarf ekki að vera „viljandi“ – en er samt vond fyrir þann sem fyrir henni verður. –

Ef að fólk er ekki tilbúið til að vinna í sér, sjá sár sín til að breytast, þá er eina leiðin að skilja,  sérstaklega ef að hjónabandið er orðið vont og skemmandi fyrir báða aðila og ef að börn eru í spilinu,  smitar það að sjálfsögðu til þeirra. –

Það er sorg að skilja, það er draumur sem deyr, – þetta átti ekkert að fara svona og kannski búið að hanga á fingrunum á brúninni í langan tíma. – Án þess þó að kalla á hjálp. –

Þegar traustið er brotið eru tvær leiðir, – ef að báðir aðilar eru tilbúnir að leita sér hjálpar má e.t.v. ná að tvinna sambandið upp á nýtt, en það þarf gífurlegan viljastyrk og auðvitað ást til þess. –  Hin leiðin er skilnaður og hvor um sig vinni í sér, að gera sig heila/n til þess að einmitt fara ekki með sjálfa/n sig inn í næsta samband á sömu röngu forsendum og í fyrsta sambandið.  Þ.e.a.s. án þess að vera búin/n að trúlofast sjálfum/sjálfri sér.-  Við segjumst vera tilbúin að elska, virða og samþykkja maka okkar þegar við játumst honum/henni, jafnvel frammi fyrir Guði.

 – En gleymum megin forsendunni, þ.e.a.s. að vera búin að játast okkur sjálfum. –   Komast í samband við okkur sjálf. –

Þegar við föllum á þessu sameiginlega prófi, þá þýðir ekki að dvelja lengi við það að við höfum fallið. – Við þurfum að skoða prófið, hvað gerðum við rangt – og ekki síður mikilvægt, hvað gerðum við rétt!  – Hvað gerði ég rétt, hvað gerði ég rangt.  Hvað gerði hann/hún rétt, hvað gerði hann/hún rangt. –

Munum endilega líka eftir því sem virkaði vel, var gleðilegt og byggði upp.  Kannski hefði mátt stækka þann hluta og minnka hinn? –

Allt hefur sinn tíma undir sólinni. – Það tekur tíma að syrgja og það er mikilvægt að leyfa sér að syrgja – sjá sárin, til að geta breytt og gert heilt. –  Þannig verður sorgarferli að þroskaferli, og við göngum frá þjáningu til þroska. –

Þroskanum fylgja vaxtaverkir – þá þekki ég – og því er mikilvægt að vera umvafinn vinum og fjölskyldu, og þeim sem við treystum – og það er gott að finna þau sem geta sett sig í okkar spor. –

„Það er gott að vita ég er ekki ein“ .. er algengasta uppgötvun sem konurnar hafa gert á námskeiðunum „Lausn eftir skilnað“ ..

Námskeiðin eru ætluð konum,  þar sem það er enn svo að konur eru viljugri og hugrakkari við að leita sér hjálpar. –  En það er í skoðun að bjóða sambærilegt námskeið fyrir karla, komi óskir um það.

Höfum það að lokum alltaf í huga, að það hjálpar okkur ekki að fara í ásökunargírinn (The Blaming game). – „Allt honum að kenna“ eða „Allt henni að kenna“ .. jafnvel þó að annar aðilinn hafi verið erfiðari, veikari, fjarlægari, brotið trúnað – þá er það yfirleitt skýringin að hann kann ekki önnur viðbrögð, þau eru viðbrögðin sem hann lærði í bernsku.  Viðbrögð sem einkennast af flótta eða feluleik. –  Þess vegna er það að við hjá Lausninni teljum að grunnástæða fyrir hjónaskilnuðum, eða að sambönd gangi illa eða ekki upp, sé meðvirkni.  Ástand sem lærðist á löngum tíma og hófst í bernsku, – jú einmitt þegar við vorum með vaxtaverkina og kvörtuðum og kannski þurftum við bara knús.

Knús á þig og takk fyrir að lesa. –

Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur, kennari, ráðgjafi

www.lausnin.is

johanna@lausnin.is

námskeið – einkaviðtöl – fyrirlestrar

Sjáðu sárin og læknaðu þau ….

„You have to see your pain to change“ .. Geneen Roth

„To heal my wounds, I need to be brave enough to face them“  Paulo Coehlo.

Það er vont að líða illa og vita ekki hvað veldur. – Það er líka vont að líða illa og neita að horfast í augu við það sem veldur okkur vanlíðan. –

Stundum vitum við það.

Stundum vitum við það en þorum ekki að horfast í augu við það.

Stundum vitum við það ekki og þurfum að fá hjálp við að finna út úr því.

Við þurfum að skilja orsök sársauka okkar til að breytast. –

Við verðum að hætta að flýja hann, afneita, deyfa, svæfa ….

Hver er sorg þín?

Hver er sársauki þinn?

10553404_936503526365002_406861571316943881_n

 

 

Æðruleysið á lífsgöngunni ..

Mamma mín er til heimilis á hjúkurnarheimilinu Droplaugarstöðum og hefur verið það núna bráðum í tvö ár. – Ég heimsæki hana reglulega, svona u.þ.b. einu sinni í viku og svo erum við systkinin sem búum hér á landi með „heimsóknarkerfi“ – þannig að við skiptum helgunum á milli okkar. –

Það er erfitt að horfa upp á mömmu sína fjarlægjast.  Mamma er með heilabilun,  sem er kölluð „Vascular Dementia“ – sem má þýða sem æðaheilabilun, – sem er annar algengasti hrörnunarsjúkdómurinn á eftir Alzheimer.  Blóðflæðið minnkar til heilans og því fylgir m.a. að minnið fjarar út og fólk verður utan við sig og ringlað. –

Það er lán í óláni að mamma komst inn á þetta góða hjúkrunarheimili þar sem hún hefur stórt einkaherbergi með dótið sitt, með fullt af myndum af barnabörnunum og sína persónulegu muni. – Þar eru að vísu rúm frá stofnuninni, náttborð og nú það nýjasta; hjólastóll – sem mamma forðast að vísu eins og heitan eldinn.  Það er ótrúlega mikill sjálfstæður vilji í henni og stundum gerir hún hluti sem maður trúir eiginlega ekki að séu henni færir.

Starfsfólkið er að gera sitt besta, og sumt fer langt fram úr sér og má þar helst nefna hana Rósu, sem dekrar við fólkið og er alltaf eins og sólin.

Það eru alls tíu konur á deildinni hennar mömmu og mamma er alls ekki sú „veikasta“ og mamma er sem betur fer yfirleitt glöð og sátt. – Það léttir okkur ættingjum hennar heimsóknirnar. Stundum er hún þó þannig að hún getur ekki haldið sér vakandi og það er auðvitað erfiðara að heimsækja hana við þær aðstæður.

Mamma hefur oft verið þannig stödd að við höldum að það sé komið að því síðasta, en ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft hún hefur komið „til baka“ – en það er á þessum tímum þegar hún er einmitt sem verst,  að það er erfiðast að heimsækja.  Og svo hefur það stundum bara erfið áhrif að heimsækja deildina og sjá hinar konurnar.  Því ekki eru þær allar eins sáttar og mamma. –

Í gær fór ég sem oftar að heimsækja mömmu og þá kom Vala dóttir mín með mér. Við vorum heppnar,  mamma sat frammi í setustofu og var í þokkalega góðum gír, svona miðað við hennar ástand. –

Ég þarf samt einhvern veginn alltaf að hjúpa mig svolítið og ganga þarna inn og út með æðruleysið í huga.  Með sáttina í hjartanu yfir því sem ég fæ ekki breytt,  en um leið þarf ég að minna mig á það sem ég FÆ BREYTT. –

Ég get ekki breytt lífi né ástandi móður minnar. – En eins og ég sagði við Völu mína á leiðinni í lyftunni niður.

„Við skulum nýta þetta til að átta okkur á mikilvægi þess að lifa lífinu lifandi!  “

Margir upplifa hjúkrunarheimili eins og biðstofu. – En hvað með okkur hin sem erum yngri, frískari, með heilann í lagi (eða svona að mestu leyti í lagi? ;-)) ..  Erum við nokkuð að lifa lífinu okkar, eins og við séum sitjandi á biðstofu, og eftir hverju erum við að bíða? –

Hvað er það sem hlammar okkur niður í sófann (ekki það að það sé ekki í lagi að velja sófann við og við, og njót þess að hvíla sig) – en svona almennt þegar sófinn er orðinn besti vinurinn? ..

Ég heyrði nýlega setningu sem hefur verið mér hugleikin,  „Put the happiness in front of the carriage“ – sem mér finnst gaman að þýða;

„Láttu hamingjuna fyrir framan hestvagninn“ ..

Og þá er hamingjan hesturinn sem við setjum fyrir framan hestvagninn, – enda myndum við aldrei setja hestinn fyrir aftan og ætlast til að vagninn drægi hestinn.

Flestir þekkja söguna sem sögð er af indjánahöfðingjanum og baráttu úlfanna tveggja.

Annar þeirra er:
ótti, reiði, öfundsýki, græðgi, hroki, sjálfsmeðaumkun, rógur og svik.

Hinn er:
Gleði, kærleikur, auðmýkt, tillitsemi, gjafmildi, sannleikur og samhugur með öðrum.

Eitt barnanna spurði: Afi, hvaða úlfur vinnur?

Sá gamli horfði alvörugefinn á barnahópinn og sagði:

Sá sem þú fóðrar.

Ef við breytum nú sögunni og setjum hesta í stað úlfa,  hvor hesturinn er líklegri til að dafna og fyllast eldmóði til að draga vagninn? –

Hvað dregur okkur sjálf áfram og hvað dregur okkur niður? –

Hvað er á okkar andlegu næringartöflu? –

Erum við að næra okkur með illmælgi, öfund, skömm, samviskubiti,  baktali, ofbeldi, reiði, neikvæðni, illsku, gremju, ótta, hatri, dómhöru og fleiru í þessum dúr? …

Eða nærum við okkur með þakklæti, jákvæðni, hugrekki, sátt, elsku, vinarþeli, samhug, samvinnu, trú, von og kærleika? …

Við þurfum væntanlega ekki mikið vit til að greina þarna á milli, hvort er okkur hollara og hvort veitir okkur meiri hamingju. –

Við vitum öll að hreyfing og hollur matur er góð fyrir heilsuna, en …… en hvað? –  Við þurfum að vilja og við þurfum að taka skrefin ..

Við sækjum nefnilega í margt af þessu sem er vont og dregur úr okkur, alveg eins og við sækjum í það sem er óhollt fyrir frumur líkamans.  Sækjum í það sem fitar okkur þó að við viljum ekki fitna og séum e.t.v. í hættulegri yfirþyngd! ..

Ég held að þetta sé það sem Eckhart Tolle talar um, þegar hann talar um að næra sársaukalíkamann.  Við erum að næra sársauka okkar í stað þess að næra hamingju okkar.   Tolle segist t.d. vera hissa að í veröld sem stærstur meiri hluti mannkyns vill frið en ekki stríð,  vill ofbeldislausan heim, séum við að kaupa okkur inn á ofbeldismyndir. –

Nýlegar voru hugmyndir á lofti að fjöldamorðinginn Anders Breivik hefði orðið fyrir áhrifum af ákveðinni bíómynd. – Við vitum alveg að fjölmiðlar, tölvuleikir,  kvikmyndir o.fl.  hefur áhrif á undirmeðvitundina.  Það hefur áhrif til ills,  en sem betur fer hefur það líka áhrif til góðs.  Það er til fullt af „feel-good“ myndum,  sem skilja mann eftir með sólina í hjartanu. –

Ég er ekki að tala um að við eigum að láta eins og ofbeldi þrífist ekki, – en við eigum ekki að fóðra það. –

Alveg eins og með úlfinn – sá sem þú fóðrar vex og dafnar og sá sem þú sveltir veslast upp og deyr. –

Þetta gildir um allt, þetta þekkja þau sem eru með „græna fingur“ – og huga að garðinum sínum og þetta gildir að sjálfsögðu um börnin okkar, –  ekkert þurfa börn, eða fátt, frekar – en athygli frá foreldrum sínum. –  Þau visna ekki og deyja við athyglisskortinn og áhugaleysið, en eitthvað innra með þeim veikist þegar þau fá ekki athygli.  Ég las í bók sem ég kynnti mér á námskeiði í HR, sem ber heitið „Well-Being“ að mikilvægi athyglinnar er sannað.  Það sem er mikilvægast og í fyrsta sæti er:

Jákvæð athygli, þ.e. að taka eftir hinu jákvæða,

í öðru sæti er að taka eftir hinu neikvæða

og það versta er að veita EKKI athygli, eða að vera afskiptalaus með öllu.

–  Allir þurfa að sjást, og það er vont að upplifa sig ósýnilega/n.

Hamingjan og gleðin vill heldur ekki vera ósýnileg, hún þarf athygli og næringu til þess að geta dregið hestvagninn. –

Louise  Hay er þekkt kona, sem hefur skrifað margar bækur um hvernig hún vann sig út úr neikvæðri „forritun“ sem barn. Hún talar um sig sem 85 ára unga en ekki gamla, og  hefur notað þessa jákvæðu næringafræði. Hún hefur vanið sig á að virkja hugann til jákvæðni með því að fara með daglegar staðhæfingar,   eða  „affirmations“ –

Þessar staðhæfingar sem við þörfnumst  er ekki erfitt að finna, – þær eru andstæða þess niðurrifs, eða þeirra orða sem margir nota daglega og við flest ef ekki öll.  Niðurrifs og afneitunar á okkur sjálfum. –  Í stað þessa niðurrifs þurfum við að fara að samþykkja og það gerum við m.a. með jákvæðum staðhæfingum. –

Orð eru álög, eins og Sigga Kling segir í samnefndri bók.

Í staðinn fyrir að segja „Ég er lúser“  – segjum við  „Ég er sigurvegari“ ..  Við höfum val um að klæða okkur í annars vegar „Winner bolinn“ á morgnana eða „Loser“ bolinn .. Við getum fóðrað lúserinn í okkur og við getum fóðrað þann sem tapar.  –

Það er mikilvægt að þó að það gerist ekki nein barbabrella á einum degi, þá alveg eins og neikvæða sjálfstalið hefur e.t.v. komið okkur í neikvæðan gír á löngum tíma,  þá tekur jákvæða talið sinn tíma. – En það virkar ekki ef því er bara hætt.  Það þýðir ekkert að fara bara í jákvæðniátak í þrjá daga og svo búið.  Lífið er ekki átak,  kúr, eða spretthlaup,  heldur er lífið langhlaup.  Ég held það standi meira að segja utan á GH magazine! .. (Góði hirðirinn).   –

það hljóta allir að vera sammála hvorn úlfinn, eða hestinn þeir vilji helst fóðra.

En hvernig breyti ég gömlum vana, ef ég er búin/n að tala niður til mín og vera í sama hjólfarinu svona lengi?  –

We are what we repeatedly do. Excellence, then, is not an act, but a habit.“ – (Aristotle)

Ég fékk þýðingu á þessu frá Jóhanni Pétri Sturlusyni, sem einmitt hefur sérhæft sig í því sem kallað er breytingastjórnun og er með ráðgjöf þar að lútandi hjá www.stjornun.is , – en það á viðskiptasviði, – en það merkilega er að það sem virkar á einu sviði virkar venjulega á öðru líka! ..

„Endurteknar athafnir móta hver við erum. Yfirburðaárangur næst því ekki með skammtímaátaki heldur með venjum eða lífsstíl – Við erum skepnur vanans.“ 

Við upplifum oft að við séum föst, – við höfum ekki val, en við höfum a.m.k. val um viðhorf, við höfum val um andlega næringu, og líkamlega. Hvernig væri að byrja þar.  Breyta einu í einu?

Það er „win-win“  ástand að velja hið góða og jákvæða, vegna þess að það sem við segjum og gerum hefur ekki síst áhrif á okkur sjálf.

Þannig virkar bergmál lífsins,  við köllum  „þú ert  fífl“ í bergið og það endurómar til okkar.  Við köllum „þú ert frábær“ í bergið og það endurómar til okkar … við getum notað þetta með „winner“ – „loser“ .. hugtökin. –

Á sama hátt virkar t.d. gremjan, gremjan i garð annarra, – þegar við pirrumst á fólkinu í kringum okkur, höfum e.t.v lent í uppákomu og sitjum uppi með sárt ennið, sofum ekki, liggjum andvaka með gremjuna mallandi á meðan sá eða sú sem við erum gröm útí sefur kannski værum blundi. – Hver borgar þann reikning og hvaða áhrif hefur það á okkur að hafa svona leigjanda sem borgar ekki húsaleigu í höfðinu? –

Það þarf hugarfarsbreytingu til að tileinka sér og fóðra sig með því góða,  stundum þarf ákveðinn kjark eða hugrekki til þess.  Hugrekki til að stíga upp úr gömlum siðum og gömlum vana. –  Hugrekki til að segja upphátt:  ´“Ég er sigurvegari“ .. og það þarf trú. Það þarf sýnina, að sjá fyrir sér sigurvegarann og það þarf trúna til að trúa á hann, ef að við trúum því ekki af hverju ættu hinir að gera það? – ..

Við þurfum að standa upp og fara að ganga lífsgönguna,  lifa lífinu lifandi meðan við höfum tækifæri, orku og val – nýta okkur þann fjársjóð sem innra með okkur býr og kemur okkur áfram,  setja hamingjuhestinn fyrir framan kerruna og slá svo í! …

GUР gefi mér æðruleysi

Til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt

Kjark til að breyta því sem ég get breytt

Og vit til að greina þar á milli

Þakkir til allra þeirra sem hafa verið samferða mér hingað til á lífsgöngunni, sem hafa kennt mér, leitt mig og hvatt .. líka sem hafa verið mér erfið/ir, þvi að þar hef ég líka lært.

– Lífsins skóli færir okkur endalaus verkefni til að takast á við.

(Ég notaði þennan grunn sem fyrirlestur hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins fyrir fólk í atvinnuleit.)

Erum við kjúklingar? …

Eftirfarandi grein er endurunninn af grein minni á mbl.is „hænur hafa ekki val“ – en ég er að færa brot af því besta hingað yfir á wordpress síðuna, – og endurbæta.

Ég hef verið að íhuga hvers vegna við; manneskjan í vestrænu nútíma þjóðfélagi, værum svona miklir neytendur.  Já neytendur og þá þiggjendur í leiðinni.  Jafnframt hef ég íhugað hvers konar neysla er í gangi og hver sé orsök hennar.  Tímarnir hafa breyst og við þurfum að fylla í tóm-stundirnar okkar.

Ég tel að ákveðið tómarúm hafi myndast í „velmeguninni“ og um leið í vanlíðaninni.  Í vanlíðan höfum mið mikla þörf  fyrir að „gleðja“ okkur með ýmsum hlutum sem okkur finnst við verða að eignast, – eða með að drekka eða borða of mikið.  Þá erum við ekki að eignast hluti eða borða vegna þess að við erum í raun svöng, eða að okkur vanti eitthvað nauðsynlega. Við erum að seðja  hinn vanlíðandi einstaklng.   Að seðja þann sem er hefur sár.

Vandamálið er að við verðum ekki södd af þessu, hvorki andlega né líkamlega.  Þetta er í raun eins og að missa piss í skóna,  stundarfriður og ekkert meira og meira að segja er stundarfriðurinn oft blendinn því að þegar við erum að næra þessa vanlíðan (og undir niðri vitum við að við erum að gera það) þá erum við oft full af skömm eða samviskubiti, bæði á meðan því stendur og eftir á.

Sérstaklega hvað t.d. mataræði snertir.

„Æ, ég veit ég á ekki að borða yfir mig“

„Ferlegt vesen – ég ætlaði ekki að borða allt þetta súkkulaði – snakk – brauð …“ eða hvað það er sem þú VEIST að er þér óhollt til langs tíma litið.

„Úff, mér líður nú bara illa eftir þessar fréttir“ ..

„Ojbara – hvað þetta var viðbjóðslegur karakter í þessari mynd“ ..

„Ég ætla að fela þessa skó, segi engum frá því að ég hafi eytt öllum þessum peningum og ég hafði ekki efni á því“ .. eða  „á þúsund pör fyrir heima“ …

Allt er þetta dæmi um manneskju sem er að myndast við að næra eitthvað.  Í raun er hún að næra vanlíðan sína.  Það skiptir ekki máli hvort hún er rík eða fátæk.

Til þess að átta sig á því hvernig okkur líður í raun, skiptir máli að vera viðstödd sjálfa/n sig.  Vera með andlega nærveru við sjálfan sig.  Leita inn á við og leita sátta við þessa í raun dásamlegu veru sem þú ert.

Sættast við sig,  bera virðingu fyrir sér,  bera virðingu fyrir náunganum.  Slúður, öfund og baktal er eitt form slæmrar neyslu,  sú næring er ekki uppbyggileg fyrir neinn. 

Uppbyggilegt er mikilvægt orð í þessu sambandi.  Við erum að vaxa, þroskast, dafna ..

Í dag er mikið talað um lífrænt ræktaðan mat.  Dýr sem alast upp við gott fóður og góð skilyrði gefur mun hollara kjöt af sér – og mun hollara fyrir okkur að snæða.

Ef við hegðum okkur eins og hænur í búri sem fá tilbúið fóður,  erum heft í búrunum (af okkur sjálfum) þá endum við sem slæmar og óhollar hænur.

chicken-in-cage.jpg

 

 

 

Hænur sem fá að vappa úti í sólarljósinu – nú eða í rigningunni,  gefa af sér „hamingjuegg“ og stundum kallaðar hamingjuhænur.

hamingjuhaena.jpg

 

 

 

 

 

Munurinn á mönnum og hænum, er m.a. sá að við höfum val,  við getum útbúið okkur nokkurs konar „Rimla hugans“ eins og Einar Már rithöfundur kallaði það í bókartitli sínum.  Við getum boðið okkur upp á myrk og aðþrengd búr og vont fóður sem fitar okkur hratt og vel.  En við getum líka valið að sleppa rimlunum,  frelsa hugann og næra okkur með góðu fóðri.

Við erum heppin að vera ekki hænur!

Hófsemd er orð sem Íslendingum er ekki sérlega tamt,  ekki mér heldur, en hefur verið mér hugleikið undanfarið.

Allt sem er „of“ eitthvað er yfirleitt vont.  Ofát, ofneysla.  „Öfga“ eitthvað er líka vont, og talað um að fólk sveilist öfganna á milli.

Dæmi um slíkt eru blessaðir megrunarkúrarnir.  Þess vegna eru þeir slæmir,  því að þeir stuðla að öfgum á milli.  Jójó þyngd.

Meðvitund er annað lykilorð,   að gera sér grein fyrir hvenær maður er raunverulega saddur,  hvenær maður þarf á nýjum skóm að halda.  Hvenær maður hefur fengið sér nóg í glas o.s.frv. Við verðum eins og áhorfendur að eigin gjörðum og um leið okkar bestu vinir eða vinkonur.

Til þess að átta sig, þarf maður að þekkja sjálfa/n sig, átta sig á sjálfri/sjálfum sér.  Sjálfsþekking fæst með því að spyrja sig spurninga,  skoða hvað er ysta lagið og hvað er í innsta kjarna.

onion_core.png

Það er talað um að við flysjum laukinn og komumst þannig að kjarnanum. Það fara nú margir að gráta við það og það er bara eðlilegt og allt í lagi.  Það er líka gott að ræða við einhverja nána, vini og vandamenn og biðja þá um að vera heiðarlega í okkar garð.

Þegar við áttum okkur á sjálfum okkur,  rótinni fyrir því að við sækjum í hina og þessa neysluna, þráhyggjuna eða hvað það nú er sem er ekki að virka uppbyggilegt,  getum við farið að vinna í uppbyggingunni.

„You have to see the pain to change“ – Við þurfum að sjá sársaukann og viðurkenna hann til að breytast. –

Það er stundum kallað að viðurkenna vanmátt sinn.  Að einhvers staðar á leiðinni fórum við út af veginum, og þurfum að komast inn á veginn aftur.  Þá er gott að leita leiðsagnar.

Að viðurkenna vanmátt sinn er um leið hugrekki og styrkleikamerki, þó það virki þversagnarkennt.  Það er sterkara að lifa í sannleika en í blekkingu.  Það er merki um styrk að biðja um hjálp.  Að vera en ekki sýnast.

Það þýðir heldur ekki að við séum ekki verðugar og góðar manneskjur.  Það þýðir að við erum tilbúin að takast á við að eiga gott líf.  Veita okkur lífsfyllingu sem nærir, en ekki fylla tómið inni í okkur með rusli.

Dæmi um nærandi lífsfyllingu:

  • samvera með maka (ef við eigum maka – og það er æskilegt að sé á sömu línu og maður sjálfur)
  • samvera yfirleitt, með börnum, fjölskyldu, vinum. – með sjálfum sér og Guði.
  • alls konar list, bæði að þiggja og skapa – uppbyggileg sköpun
  • hrós
  • hlátur
  • lestur á nærandi efni – sem þér líður vel af
  • matur með góðri næringu sem borðaður er við góðar aðstæður (ekki fyrir framan ísskápinn)
  • göngur, fjallgöngur, ferðalög,
  • spila spil
  • dansa
  • syngja
  • leika
  • skrifa
  • teikna
  • hugleiða
  • að hanna fallegt heimili
  • að vera í náttúrunni
  • að þakka hið hversdagslega – það sem við venjulega lítum á sem sjálfsagðan hlut
  • o.fl. o. fl….

Við verðum að hafa í huga að fara ekki út í öfgar,  hvorki of né van.   Finna hvenær er komið nóg, finna hvenær vantar. Skalinn er 1-10,  hvar erum við stödd á hamingju-eða hungurskalanum, bæði hvað mat og aðra neyslu varðar.

Það er mikilvægt að átta sig á því hvað er það sem veitir manni í raun lífsfyllingu, sátt, farsæld og gleði.

Á listanum hér fyrir ofan er mikið talað um samveru,  margir eru einmana, einangraðir og finnst það bara ekkert gott.  Það er afleiðing þess þjóðfélags sem við lifum í,  þó að við vildum eflaust ekkert okkar skipta við þá sem lifðu hér á Íslandi á tímum baðstofulofta þá var fólkið a.m.k. saman.  Fjölskyldur þurfa að huga að því að tengjast betur, vinir að huga að vinum sínum.  Sjálf er ég oft einmana og hef hugsað til allra hinna sem eru einmana – að mynda vinabönd við annað einmana fólk, og vonandi finn ég aðferðafræðina við það.  Það skal tekið fram að við getum svo sannarlega líka verið einmana með fullt af fólki og í hjónabandi jafnvel,  ef fólk nær ekki góðu sambandi við hvert annað.

En auðvitað er þar meðalhófsreglan sem gildir líka, okkur þykir stundum gott að vera ein, í friði – það má bara ekki vera „of“ ..  Wink

Ég heyrði einu sinni dæmisögu um tvo fugla í búri, í búrinu höfðu þeir nóg að borða og í búrinu var öryggið. – Allt þeirra líf hafði söngur þeirra snúist um frelsið. –  Dag einn gleymdi eigandi búrsins að læsa því – og búrið var opið.  Annar fuglinn flaug af stað en hinn varð hræddur og færði sig innar í búrið. –

Gott er að spyrja sig hvar við erum stödd, hvers konar neytendur erum við og hvers konar neitendur líka kannski?  Erum við að afneita sjálfum okkur?  Færum við okkur innar í búrið þegar að frelsið er í augsýn? –   Þegar rimlum hugans er lyft ..

„Are you a chicken?“ ….

Við erum mörg hrædd við breytingar, og það er talað um að vera „chicken“ þegar við erum hrædd við eitthvað. – Öryggið liggur í hinu gamla.  Að gera og vera eins og við höfum alltaf verið.  En hvert hefur það leitt okkur og hvar erum við stödd í dag? –   Er eitthvað sem við getum gert eða breytt? –  Hvað með að byrja á okkur sjálfum? –

Guð – gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.“

Reinhold Niebuhr Carnegie

 

4046465128_5d68701d2c.jpg