Hugsað upphátt um gang lífsins – og dauðans…

Amma mín,  Kristín Þorkelsdóttir – átti sína rómantík þegar hún var ung kona, – en þá kynntist hún manni og eignaðist með honum lítinn dreng. –  Þeir fóru síðar báðir úr spænsku veikinni. –

Ég veit ekki hvað ég var gömul – eða ung þegar ég fór að hugsa um áhrifin af því að kærasti móðurömmu minnar,  hafi dáið, því e.t.v. hefðu þau haldið áfram að vera saman og hún ekki kynnst afa og eignast með honum átta börn! –  Ekki mömmu mína, og mamma ekki mig og ég ekki börnin mín og þau ekki börnin sín. –

Ég hef aðeins verið að fylgjast með dýralífsþáttum undanfarið og var alveg í sjokki að sjá ísbjörninn eltast við selskóp,  en björninn var búinn að svelta í marga mánuði og var með sína húna á spena og þá vantaði næringu. –  Ég fór alveg í flækju, með hvorum átti ég að halda? –  Ísbjörninn náði ekki að veiða kópinn og ég andvarpaði léttar, – en hvað.  Já, húnarnir hans myndu svelta og hann sjálfur ef hann fengi ekki næringu. –

Svo ég snúi mér aftur að okkur mannfólkinu, þá geta ákvarðanir sem virka ekki sérlega stórar – og eru ekkert tengdar dauðsföllum haft áhrif hvort að líf kviknar eða ekki. –   Ég og fv. maðurinn minn og barnsfaðir skildum 2002, –  hann kynnist síðar konunni sinni og þau eignast lítinn yndislegan strák sem er að verða tveggja ára. –  Það má segja að ákvörðun okkar hafi haft áhrif á að þetta líf varð til. –

Fólk sem hefur aldrei eignast börn, getur meira að segja haft áhrif á það að líf verði til. – Með sínum ákvörðunum og aðkomu. –

Til dæmis barnlaus vinnuveitandi sem er að ráða fólk í vinnu, – hann velur ákveðna konu inn í starf og í fyrirtækinu kynnist hún barnsföður sínum. – Það er því ákvörðun sem vinnuveitandinn tók sem hefur „crucial“ áhrif á að þetta fólk kynnist. –

Vinnuveitandinn er þá óvart orðinn „þátttakandi“ í ákvörðun um líf, auðvitað ómeðvitaður um það.  Kannski er þetta maður/kona sem upplifir ekki tilgang með sínu lífi, eins og ég hef stundum heyrt barnlaust fólk tala um,  og ekki skrítið því að það eru til heilu söngvarnir og frásagnirnar  um það að „lífið hafi öðlast tilgang“ – þegar að manneskja hefur orðið móðir eða faðir.  –

Tilgangur með lífi okkar er að mínu mati að læra af lífinu , hvert fyrir sig, svo ég er ekki sammála um að fólk,  eða líf þess hafi ekki tilgang þegar það er barnlaust. –

Hvert eitt og einasta líf hefur tilgang og hvert og eitt einasta líf hefur áhrif að viðhalda lífi. –

Stundum er fólk meðvitað um sinn þátt.  Þ.e.a.s. eins og þegar það hefur beinlínist verið að leiða fólk saman viljandi,  kynna tvo einstaklinga. –

Ef að úr verður barn,  þá gæti sá sem kynnti parið sagt. „Ég á nú svolítinn þátt í að þú varðst til“…   😉 …

Ég skrifa þetta í framhaldi af því hvernig við tengjumst öll – þetta verður eitt allsherjar orsakasamhengi. –  Orsakir og afleiðingar. –

Þetta er stundum lífgefandi, og stundum eru ákvarðanirnar lífdeyðandi. –  En allt hefur þetta áhrif á umhverfið og aðra í kringum okkur eða sem koma síðar. –

Þetta hljómar í sumum tilfellum mjög grimmt og þess vegna setti ég dæmið af húnunum vs kópnum. –

Áhrifin þurfa ekki bara að vera áberandi verknaður.  Orð í ljóði, sögu, kvikmynd eða í samtali,  geta haft þau áhrif að fólk velur annan veg en það upphaflega ætlaði, fer aðrar götur og kynnist öðru fólki – kannski fólki sem verður maki þeirra og það eignast síðan barn með. –   Við erum svo sannarlega ekki ein –

Mitt val og þitt val, mínar gjörðir og þínar gjörðir  geta haft áhrif á það sem náunginn velur/gerir, og svo koll af kolli, áhrif til lífs og áhrif til dauða og allt þar á milli. –

Er þetta allt skipulagt eða lifum við í heimi sem er röð tilviljana? – …

Við erum öll eitt – og öll líffræðilega skyld,  öll efnafræðilega tengd jörðinni (eins og kom fram í síðasta pistli í „The Symphony of Science) við höfum áhrif á líf hvers annars, jafnvel fólks sem er langt í burtu,  það er bara fjarlægari tenging, en hún er þarna.   Ekki síst þess vegna ætti okkur að langa til að elska hvert annað miklu meira, veita meiri samhygð og sýna minni dómhörku. –

Ég vil þar að auki taka undir með Brené Brown um mikilvægi tengingar og bæta við að við séum andlega tengd. Jafnframt segir Brené (þetta er aldrei nógu oft endurtekið)

„Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.“ –

Sumu getum við ekki breytt, sumt er ekki í okkar valdi að breyta.   En við höfum öll val um viðhorf – hvernig við göngum í gegnum lífið og hvernig við umgöngumst aðra.   Val um að elska, val um æðruleysi, val um sátt, val um hugrekki og val um það að fylgja hjartanu. –

Ef hamingjan er hestur …

Þessi pistill er framhaldspistill frá þeim á undan – um „hamingjuforskotið“ –  en hann byggir á því að hamingjan sé forsenda árangurs.

Hamingjan dragi vagninn en ekki vagninn hamingjuna. –

En ef að hamingjan er hestur,  á hverju fóðrum við hestinn? –

Nú er ég ekki hestamanneskja, þó ég hafi prófað hestamennskuna – „my way“ sem þýddi það að ég byrjaði á öfugum enda, – fór í reiðtúr yfir Kjöl 😉 …   en ég get ímyndað mér að hestur þurfi góða aðhlynningu og hollt fæði svo hann haldi heilsu og orku. –

Hestur í þjónustu manna þarf örugglega á að halda góðri ummönnun, næringu, hreyfingu og útiveru.  Hann þarf að rækta og sinna. –

Ef við viljum ná árangri í samskiptum, í starfi, heilsufarslega, í sköpun o.s.frv. –  þurfum að setja það í forgang að sinna og velja hamingju okkar. –  

 

 

– Við þurfum að næra og rækta hamingju okkar til að hún flytji okkur árangur. –

Hlæðu með þér, gráttu með þér, stattu með þér …. alla leið – það má!

Hver og ein manneskja ber ábyrgð á sínum viðbrögðum,  líðan og farsæld,  – en að sjálfsögðu eru þarna undantekningar eða ákveðinn „afsláttur“ af ábyrgð ef að um t.d. barn er að ræða eða brotna eða sjúka manneskju. –  Foreldrar og samfélag bera saman ábyrgð á börnum og þeim sem ekki geta borið fulla ábyrgð,  – og okkur ber ábyrgð,  þegar við finnum að við treystum okkur ekki til að bera hana ein, að leita okkur hjálpar þegar á því er þörf.

Það skal taka fram að við þurfum sérstaklega að varast að taka ekki ábyrgðina af fólki sem á að hafa hana, getur það og vill.  Börn hafa alltaf einhverja ábyrgð og hún eykst með hverju árinu.  Við megum ekki og eigum ekki að gerast þjófar á þroska þeirra með að taka af þeim þá ábyrgð sem þau geta tekið sjálf. –

Við vitum alveg að tveir einstaklingar geta lent í svipuðu áreiti en annar tekur því vel (eða bara lætur það fram hjá sér fara) en hinn fer alveg í klessu. –  Hvað veldur því að tuttugu hrós geta gufað upp og orðið verðlaus fyrir einni gagnrýni? –  Er það ekki viðhorf þess og viðkvæmni þess sem tekur við,  að veita athygli því neikvæða og samþykkja það?  –  Líka ef að gagnrýnin er réttmæt, hvernig væri að taka henni – fyrirgefa sér og vinna úr því í framhaldi? –  Er betra að sökkva sér niður í sjálfsvorkunn, reiði, gremju,  út í sjálfa/n sig og/eða aðra? –  Og hvað varð um öll tuttugu jákvæðu atriðin.  Eru þau ekki lengur samþykkt? –

Við getum hugsað okkur samskipti,  þar sem annar aðilinn er með leiðinlegar athugasemdir og hinn aðilinn þegir bara og tekur allt inn á sig og brotnar hægt og bítandi niður.  Stundum reiðist hann gífurlega þegar dropinn fyllir mælinn,  springur – en svo byrjar allt upp á nýtt. –

Við getum séð þetta fyrir okkur sem veiðimann sem veifar veiðistöng með agni á önglinum.  Okkar verkefni er þá að vera ekki eins og fiskurinn sem bítur á og engist um, heldur að hafa skynsemi til að gera okkur grein fyrir því sem gerist EF við bítum á.  Við segjum því „nei takk“ – þetta er mér ekki bjóðandi, eða hreinlega látum öngulinn dingla og veiðimanninn engjast því að hann nær engu. –

Þegar við erum farin að upplifa gremju í samskiptum við annað fólk,  þá erum við farin úr „presence“ – úr jafnvæginu okkar, – og það er ekki það sem við viljum.  Þess vegna er mikilvægt að við setjum okkur mörk,  við tökum gagnrýni og nýtum það sem er uppbyggilegt en hendum hinu.  Ef við tökum gagnrýni illa,  í staðinn fyrir að nýta hana uppbyggilega þá erum við að leyfa öðrum að stjórna okkar lífi og verðum eins og strengjabrúður umhverfisins.   Stundum er talað um að vera með leigjanda í höfðinu sem borgar ekki leigu! –   Hver er leigusalinn? – Hver hleypti honum þarna inn. – Hvers er ábyrgðin? –

Hér þarf líka að minnast á hinn gullna meðalveg. –  Við eigum ekki að þurfa að tipla á tánum í kringum fólk  „walking on eggshells“ – er það kallað á útlenskunni. –   En á móti, gilda orð Einars Benediktssonar „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ –

EN ekki gleyma því,  enn og aftur,  að þú ert líka þessi sál. –

Af hverju gerir ekki einhver eitthvað,  spyrjum við oft og bendum í allar áttir.   Hvað með mig,  hvað með þig? – Erum við ekki einhver? –   Við getum ekki breytt fólki,  en við getum breytt sjálfum okkur og við getum valið okkur viðbrögð.  Það tekur að sjálfsögðu tíma,  en ef við hugsum í hvert skipti sem við upplifum gremju út í einhvern eða einhverjar aðstæður til veiðimannsins og öngulsins, – því að  veiðimaðurinn þarf ekkert bara að vera einhver persóna,  heldur geta það verið aðstæður sem eru okkur skaðlegar og við þurfum að velja okkur frá. –   Ath!  Aðstæður geta bæði verið huglægar og veraldlegar. –  Það er ekki nóg að flýja úr húsi ofbeldismannsins ef að hann fær enn leyfi til að gista í hausnum á okkur. –

Niðurstaða mín eftir vinnu með fólki er því að því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir ábyrgð á eigin líðan, eigin hamingju og að horfa inn á við,  því betra taki náum við á tilverunni,  verðum sterkari.  Förum ekki í fýlu eða gremju – því að það bitnar mest á okkur sjálfum og smitar reyndar oft út í ranga aðila,  þá sem okkur þykir vænst um.

Viljum við það? –

Hamingja og farsæld virkar eins,  hún smitar til okkar nánustu.

Hamingja þín er hamingja mín og öfugt.  Ef við getum ekki láð annarri manneskju það að vera hamingjusöm,  þá þurfum við að líta í eigin barm. –   Erum við þá upptekin af okkur sjálfum, eða erum við í raun uppteknari af hinni manneskjunni – leigjandanum í hausnum á okkur? –

„Get a grip“ –  eða taktu þér tak og leyfðu þér að upplifa hamingju dagsins í dag,  hamingjunni með að búa í þér og hafa leyfi og val til að reka út alla óæskilega leigjendur úr þínum kolli. –  Líka þá sem sitja þar enn frá bernskunni,  frá unglingsárum eða einhverja sem valda þér vanlíðan í dag. –   Svo þarf að halda vöku sinni, – ekki gleyma sér eins og sá sem flýtur sofandi með opinn munninn,  svo að agn veiðimannsins hefur greiða leið. –

Við verðum að lifa með vitund – ekki án vitundar. –

Gráttu með þér,  hlæðu með þér,  stattu með þér … alla leið. –   Það má!

Að ÞORA, VILJA og GETA breytt tilveru sinni ..

Hvað erum við að gera þegar við breytum tilveru okkar og hvað er það að vera til? –  Eða bara að vera? –

Ertu að sýnast eða vera? –

Hvað er þessi sögn „að breyta“ – að segja? –

Breyta er komið af orðinu braut og þess vegna er meira að segja y í orðinu breyta  au verður ey – i hljóðvarp! …

En hér er málfræðin ekki fókusinn,  heldur þetta að breyta yfir á aðra braut. –

En hvenær er tími til kominn að skipta um braut? –

Hugmyndir:

  • Þegar brautin sem við erum á er skaðleg?
  • Þegar brautin sem við erum á er leiðinleg?
  • Þegar á brautinni er fólk sem hindrar okkur í að ná árangri eða farsæld?
  • Þegar brautin býður bara upp á sársauka? –

Af hverju höngum við á þessari braut – á þessum vegarslóða sem er okkur e.t.v. helvíti og leiðir ekkert annað? –

Hugmyndir?

  1. Við gerum okkur ekki grein fyrir aðstæðum því þær eru orðnar samdauna okkur (vani)  og við sjáum því ekki ástæðu til að breyta.
  2. Við kunnum ekki að breyta
  3. Við ÞORUM ekki að breyta
  4. Við viljum ekki gera öðrum það að breyta
  5. Við eigum ekki skilið að breyta
  6. Þín ástæða? …

Já, – í fyrsta lagi þurfum við að sjá sársauka okkar,  skynja hann og vera vakandi,  það er í raun forsenda breytinganna.  Í öðru lagi þurfum við að hafa vilja, hugrekki, kunnáttu, – e.t.v. utanaðkomandi stuðning til að breyta? –

Við þurfum líka að vita og sjá hverju við getum breytt og hverju ekki. –  Við þurfum að þora að hrista af okkur púkann sem hvíslar;

„Hvað þykist þú vera, þú nærð aldrei árangri – þú nærð aldrei farsæld“…

Púki sem stöðvar okkur þegar við erum kannski um það bil að stíga upp úr djúpum farvegi. –  „Æ neee … best að halda bara áfram á sömu braut – ég veit þó hvað ég hef hér“ .. Þarna ertu gyrt/ur með belti og axlaböndum, – og missir því ekki buxurnar niður um þig – þannig að allir sjái nekt þína. –   Sést kannski bara alveg hver þú ert? –  Allar varnir farnar og skjöldur fullkomleikans líka. – Þú varst svo fullkominn í því sem þú varst í, eða var það bara fullkominn leikur? –  Við vitum að engin/n getur verið fullkominn svo það hlýtur að vera leikur – er það ekki? –

– Varstu ekki bara að sýnast – í stað þess að vera?

Úff hvað það væri nú hræðilegt að standa óvarin! –  Bara eins og Adam og Eva í aldingarðinum forðum. –  Þegar þau uppgötvuðu að þau voru nakin,  földu þau líkama sinn. –  Af hverju skömmuðust þau sín fyrir líkama sinn þó þau stælust til að borða ávöxt? – Það er reyndar önnur saga,  eða hvað? –

Heldur þú að þú stæðir nakin/n – grímulaus e.t.v. ef þú færir upp úr gamla farveginum,  örugga – þar sem þú ert í gamla hlutverkinu og leikur sama leikinn dag eftir dag? –  Ertu kannski örugg/ur í gamla hlutverkinu, veist að hverju þú gengur? –

„Fullkomleiki er 20 tonna skjöldur, sem við dröslum með okkur, og ímyndum okkur að hann muni vernda okkur, þegar hann í raun er hluturinn sem hindrar okkur að vera séð og að ná flugi.“– Brené Brown

Hún segir einnig:

Þegar við búum í samfélagi þar sem yfir flæða væntingar sem vonlaust er að uppfylla, væntingar um allt milli himins og jarðar, frá því hversu mörg kíló við eigum að vera til þess hversu oft í viku við eigum að stunda kynlíf, þá er ógnvekjandi að leggja frá sér varnarskjöldinn.

Að finna hugrekkið, ástríðuna og tenginguna við að flytja sig frá hugsuninni „Hvað ætli fólk hugsi“? yfir í „Ég er nóg.“ það er ekki auðvelt. En hversu hrædd sem við erum við breytingar, kemur að því að við verðum að svara eftirfarandi:

„Hvort er meiri áhætta? Að sleppa því sem fólk hugsar – eða að sleppa því hvernig mér líður, hvernig ég trúi, og hver ég er?

Hvernig búum við okkur undir hugrekki, ástríðu og tengingu sem við þurfum til að höndla okkar eigin ófullkomleika og að viðurkenna að við erum nóg – að við séum verðug ástar, að tilheyra og verðu þess að njóta gleði og farsældar?

Hvers vegna erum við öll svona hrædd við að láta hin sönnu okkur vera séð og þekkt?  Hvers vegna erum við svona lömuð yfir því hvað aðrir hugsa um okkur?

Eftir áratuga rannsóknir Brene Brown á berskjöldun, skömm, og því að vera ekta,  hefur hún uppgötvað eftirfarandi:

„Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra. Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik. Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.“

Í rannsóknarviðtölum sínum, komst hún að því að aðeins einn hlutur aðskildi konurnar og karlana sem upplifðu djúpstæðar tilfinningar ástar og þess að tilheyra frá þeim sem voru að berjast við það.

Það var verðmætamat þeirra.

Það er eins flókið og einfalt og eftirfarandi: Ef við viljum upplifa að fullu ást og það að tilheyra, verðum við að trúa að við séum verðug ástar og að tilheyra einhverjum. Stærsta áskorunin fyrir okkur flest er að trúa að við séum verðug núna, á þessari mínútu.

Það eru engin skilyrði fyrir verðmæti. Mörg okkar hafa skapað lista fyrir forsendum verðmætis:

* Ég verð vermæt/ur þegar ég hef misst 10 kíló

* Ég verð verðmæt ef ég verð ófrísk

* Ég verð verðmæt/ur ef ég verð/held mig edrú

* Ég verð verðmæt/ur ef allir halda að ég sé gott foreldri

* Ég er verðmæt/ur ef ég hangi áfram í þessu hjónabandi

* Ég verð verðmæt/ur ef ég næ í flottan maka

* Ég verð verðmæt þegar foreldrar mínir samþykkja mig loksins

* Ég verð verðmæt/ur þegar ég get gert allt, og það lítur út fyrir að ég sé ekki einu sinni að reyna.

Hér er það sem er í raun kjarninn í því að lifa af heilu hjarta:

Verðmæt/ur núna. Ekki EF. Ekki ÞEGAR. Þegar við erum verðug ástar og þess að tilheyra núna. Þessa mínútu. Eins og er. Að sleppa forsendunum fyrir verðmæti þýðir að ganga hinn langa gang frá “ Hvað heldur fólk?“ til þess: „Ég er nóg.“ En eins og öll mikil ferðalög, hefst þessi ganga á einu skrefi, og þetta fyrsta skref í göngunni að heilu hjarta er að æfa sig í hugrekki.

Rót orðsins „courage“ á ensku er er latneska orðið cor – fyrir hjarta. Í fyrri tíma skilgreiningu hafði orðið „courage“ aðra skilgreiningu en það hefur í dag. Það hafði upprunalega þá þýðingu að segja huga sinn, með því að tala frá hjartanu. Það stemmir ágætlega við íslenska orðið hugrekki, að segja hug sinn. Í tímans rás hefur skilgreiningin breyst og í dag á hugrekki meira skylt við hetjuskap.

Hetjuskapur er mikilvægur og við þurfum sannarlega á hetjum að halda, en Brené Brown telur að við höfum misst tenginguna við það að tala einlæglega og opinskátt um hver við erum, um tilfinningar okkar, og um reynslu okkar (góða og slæma) – það sem er skilgreining á hugrekki. Hetjuskapur er oft um það að leggja lífið að veði. Hugrekki er um að leggja berskjöldun okkar að veði – að fella varnir okkar. Ef við viljum lifa og elska af heilu hjarta og taka þátt í tilverunni þar sem við erum verðmæt, af sjónaróli verðugleikans, er fyrsta skrefið að æfa hugrekkið að vera saga okkar (skammast okkar ekki fyrir líf okkar) og segja sannleikann um það hver við erum.

Meira hugrekki er ekki hægt að hugsa sér.“ —

Þori ég, Get ég, Vil ég? – Sungu konurnar hér um árið sem voru sem hugrakkastar í kvenfrelsisbaráttunni. –  Já „frelsis“ – frelsis upp úr fari sem þær voru ósáttar við. –   Þær vildu breyta.  Þær peppuðu sig upp með söng og samstöðu. –

Þorir þú,  getur þú, vilt þú vera (til) eða sýnast? –

Eftirsjá á dánarbeði …..

Þessi frásögn hefur víða farið – enda mikilvæg lexía okkur öllum.

Áströlsk kona, Bronnie Ware hefur nú skrifað bók um eftirsjá fólks á dánarbeði en hún hefur undanfarin ár unnið við að hjúkra deyjandi fólki. Hún hefur rætt við sjúklingana um hvað þeir sjá mest eftir í lífinu og skrifað bók um fimm algengustu atriðin sem fólk nefnir.

Hvað er annars EFTIRSJÁ? –  Það liggur í orðanna hljóðan að það er að sjá eftir einhverju,  hafa ekki sagt JÁ  þegar við hefðum átt að segja já og kannski ekki sagt NEI þegar við hefðum átt að segja nei. –   Til þess þarf hugrekki,  vegna þess að stundum þýðir það að yfirgefa öryggisfarveginn sinn – sem er sá farvegur sem við þekkjum, jafnvel þó það vegur  sem okkur finnst ekki gott að þræða, – og í því felst  stíga yfir landamæri sem við höfum e.t.v. ekki prófað áður. –  Að gera eitthvað nýtt – án öryggisnets og að vita hvernig það fer – jafnvel að stíga út í óttann! –

Eftirfarandi tilvitnun er höfð eftir Mark Twain:

Twenty years from now you will be more disappointed by the things that you didn’t do than by the ones you did so. So throw off the bowlines. Sail away from the safe harbor. Catch the trade winds in your sails. Explore. Dream. Discover.

Fimm algengustu atriðin sem fólk sér eftir

1. Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til að vera trú sjálfri eða sjálfum mér en ekki því sem aðrir væntu af mér.

(stundum förum við líka inní hausinn á öðrum og höldum að aðrir vænti einhvers sem þeir eru í raun ekkert að vænta).
2. Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið.
Karlmennirnir í hópnum iðrast þess sérstaklega að hafa misst af uppvexti barna sinna en fleiri konur í hópnum voru heimavinnandi  og sáu ekki eftir þessu í sama mæli.

(Við þurfum að skoða forsendur þess að við séum að vinna mikið, – er það bara til að hafa í okkur og á, eða er það vegna hluta (dauðra hluta) sem við bara verðum að eignast?  Er það vegna gjafa fyrir aðra sem við teljum okkur þurfa að gefa? – Það má nefna það að það besta sem við gefum börnum er tími og samvera, – það langbesta reyndar). –
3. Ég vildi að ég hefði haft kjark til að tala um tilfinningar mínar.
Margir segjast hafa byrgt inni tilfinningar sínar til að forðast átök og uppskorið biturð sem gekk yfir heilsuna.

(Flestir sitja uppi með einhvers sársauka, ótta eða skömm, og það getur virkað eins og eitur fyrir líkamann. –  Við getum sleppt því að yrða tilfinningar okkar upphátt og við getum flúið þær, en það þýðir að við förum þá í staðinn í afneitun eða fíkn. – Tilfinningar sem ekki eru viðurkenndar og leyft að koma fram verða bældar og koma sér fyrir eins og tilfinningahnútur innra með þér, – nokkurs konar æxli. – Þetta æxli minnkar við tjáningu. – Þess vegna m.a. er svo mikilvægt að tala um tilfinningar, losa sig við leyndarmál sem er þungt að bera og við erum stundum að bera fyrir þá sem hafa beitt okkur ofbeldi). –
4. Ég vildi að ég hefði haldið sambandi við vini mína
Allir sakna vina sinna þegar þeir liggja fyrir dauðanum, segir hjúkrunarfræðingurinn.

(Við erum líka býsna gjörn á að bíða eftir því að vinir okkar hafi samband við okkur, ef allir hugsa svoleiðis hefur enginn samband við neinn! )
5. Ég vildi að ég hefði leyft mér meiri hamingju.
Flestir líta á hamingjuna sem val þegar þeir eru á grafarbakkanum. Óttinn við breytingar og sókn í þægindi hefur valdið því að margir þorðu ekki að grípa tækifærin þegar þau gáfust og breyta lífi sínu til hins betra.

(Hamingjan er ákvörðun, – eins og fram kemur í pistlinum sem ég skrifaði á unan,  heldur þú á lyklinum að eigin hamingju, – hann fæst ekki útí bæ í BYKO eða í annarri manneskju, við getum ekki bara staðið og beðið eftir að hamingjan detti í fangið okkar í formi annars fólks,  hamingjan er sjálfsköpuð). –

Hugrekki og hamingja fylgjast að …. það að lifa af heilu hjarta (skv. Brené Brown) er að hafa hugrekki til að fylgja sínum vegi, vera maður sjálfur – vera náttúruleg – eðlileg – orginal …

Það er að vera til … á meðan við erum til

Ég skrifaði nýlega pistil um það hvernig mér leið í heimsókn hjá mömmu á Droplaugarstöðum, þar sem fólkið er í raun komið á biðstofu ..  og ég ákvað að taka það sem hvatningu fyrir mig, sem hef val,  val um það hvort ég álíti lífið biðstofu dauðans,  eða hvort ég er enn stödd í hringiðu lífsins og fjörsins …

Ég komst að því að ég hef val … og þú hefur val –

„Ég óska þess heitast að sjá mömmu mína oftar glaða“ ..

Endurbirtur pistill, en ég skrifaði þennan 4. mars 2012. 

Ég horfði á þáttinn um Sundhöllina nýlega þar sem fylgst var með fullorðnum manni,  Kjartani. – Myndin var hæg en fangaði hugann og sýndi lífið eins og það var.  Fólk með stóra og litla drauma. Venjulegt og óvenjulegt fólk. – Ég tengist sundhöllinni reyndar tilfinningaböndum, þar sem mamma starfaði þar þegar ég var lítil stelpa og á sjálf margar nostalgískar minningar þaðan. –  Í viðtalinu við Kjartan kom fram að hann hafði misst einkason sinn,  Jón Finn Kjartansson,  en þar var um að ræða ljúfan dreng sem hafði farið á undan,  farið á undan í blóma lífsins. –  Mynd þessa drengs hefur fylgt mér.

Ég fann um hann minningargreinar, og í einni þeirra, sem systir hans skrifar er þetta fallega ljóð:

Þú hvarfst á braut með fangið fullt af blómum

að fagna jörð, er virtist björt að sjá,

en gættir ei að myrkum manna dómum,

er meiða saklaus bros á ungri brá.

Því var það svo, að veröldin þig grætti,

þó víst þú kysir bros í tára stað.

En hugur þinn, er ávallt góðs eins gætti,

gat ei komið brosum sínum að.

(Rúnar Hafdal Halldórsson, „Sólris“.)

Við þekkjum flest einhvern sem hefur valið að fara á undan.

Ég kalla það að fara á undan, þegar við styttum þessa lífsvist. – Ég þekki fólk, og hugsa til þessa fólks, og jú ég tárast. –  Yfirleitt eru þetta svo fallegar sálir, „viðkvæm blóm“ – sem þrífast illa í okkar vitskertu veröld. –  Veröldin er nefnilega þeirrar gerðar að hún ýtir okkur fram og til baka og út úr jafnvæginu okkar. –  Stundum svo langt út fyrir að við erum komin yfir hættumörkin,  alveg langt, langt. –

Það er vont, og í raun óbærilegt fyrir aðstandendur og vini sem sitja eftir og við megum ekki ásaka neinn.  Hvorki okkur sjálf né ferðalanginn. –  Það særir hann og það særir okkur.   Það fór sem fór, – við snúum ekki við tímanum en við lærum af þessu eins og öðru. Skóli lífsins er vissulega strembnari en nokkur skóli. –

Hjálp og takk, eru orð sem Paulo Coehlo rithöfundur segir að séu þau tvö orð sem við þurfum að kunna til að týnast aldrei. –

Ég held að það láti mjög nærri lagi. – Þegar við yrðum ekki líðan okkar nógu skýrt –  þá er ekki víst að einhver viti hvernig okkur líður eða finni okkur.  Að biðja um hjálp er t.d. að láta vita um aðstæður sínar, – við þekkjum það að sumir geta ekki beðið um hjálp, heldur henda sér frekar á brún hengiflugsins og vonast til að einhver sjái. –  Vonast til að einhver viti án þess að segja „hjálp.“  En við erum ekki ofurmannleg og eigum ekki að gera ofurmannlegar kröfur á okkur né aðra.

Við höfum flest verið á þessum stað, – það er að segja að þrá að vera séð og fá athygli. –

Það er vonleysið sem rekur fólk alla leið fram af bjargbrúninni. Þegar sýnin hverfur sjónum eða þegar skömmin fær valdið. –

Það er mikilvægt að muna það að veröldin sem er skökk, en ekki við.

Það er gott að vita það að þau sem farin eru vilja ekki að við þjáumst þeirra vegna, það er það síðasta sem þau vilja.  Þau vilja að við séum hamingjusöm og höldum áfram á okkar ferðalagi, og þau vilja láta vita að þau eru komin í nýtt ferðalag og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim.  Þau elska okkur,  þykir vænt um okkur og biðja okkur um að fyrirgefa sér og sleppa. –

Við hittumst fyrir hinum megin, við þurfum bara að vera þolinmóð og lifa í því trausti. –  Njóta lífsins okkar og samferðafólksins sem við höfum núna, því það gæti verið farið einn daginn og þá værum við farin að sakna þeirra sem við höfum núna. –

Horfum ekki langt yfir skammt, horfum heim til okkar,  við munum öll sameinast aftur og aftur, við lifum öll í hvoru örðu og með hvoru öðru. –   Lítil börn fæðast og eru með persónuleika þeirra sem farin eru, það er ekkert skrítið 😉 ..

Ég held það sé ekki mikill munur á þeim sem velja sér að fara og þeim sem velja sér ekki að fara. –  Oft höfum við lifað þannig að óhjákvæmilega endar það með því að við flýtum fyrir okkar dauða. –

Við reykjum þó að á sígarettupakkanum standi „Tóbak drepur“ –

Við borðum óhollt og of mikið þó að við séum komin í lífsættulega yfirvigt ..

Við lifum á alls konar krabbameinsvaldandi fæði og förum með batteríin okkar og varaorkuna líka, þó að við vitum að stress stytti lífi okkar. –

Teljum það jafnvel til dyggða að gera hálf út af við okkur i vinnu. –

Ég er ekki að benda, ég er ein af „okkur“  –  Ég hef verið í svona sjálfseyðandi aðstæðum oftar en ekki. –  Farið langt yfir andlegt og líkamlegt þanþol. – Brunnið út í vinnunni vegna þess að ég var svo „ómissandi“ – og þegar ég var greind með sortuæxli og þurfti að vera frá í stuttan tíma,  spurði ég lækninn fyrst af öllu hvort ég þyrfti að vera mikið frá vinnu.

Það var hann sem sagði þá: „Þú veist að í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk“ …Þessi sami læknir sagði reyndar: „Kvíðinn og áhyggjurnar geta gert þig veikari en krabbameinið“

– Hann vissi hvað hann var að segja. –

Dæmum ekki þá sem taka eigið líf, við erum öll í sama pakkanum.  Jafnvel þó að við séum að hugsa vel um okkur, lifa eins heilbrigt og okkur sé mögulegt, dæmum ekki. –

Virðum hvert annað, látum þau sem eru í kringum okkur vita að við erum með opinn faðminn,  að við séum tilbúin í að hlusta. – Stundum er það nóg, en stundum er ekkert sem við ráðum við og þá er það ekki lengur í okkar mætti, ekki frekar en að ætla okkur að stöðva vindinn þegar hann blæs. –

Við verðum að lifa í sátt við vindinn, og reifa seglin eða þenja (eða hvað sem þetta er kallað á sjóaramáli)  eftir því sem vindur blæs og hvert við stefnum. – En vindinum getum við aldrei breytt.  Við verðum bara lúin ef við ætlum að halda áfram að rembast við það. –

Sættumst við það sem er,  eftirsjá og gremja er barátta við vindinn. – Virðum það sem er og gerum það að okkar stað til að halda áfram en ekki til að fara til baka. – Leiðin er fram á við. –

Þessi færsla er innblásin af  fólki sem mér var kært, og af fólki sem ég veit að ykkur var og er kært. –  Sum voru komin hálfa leið á bjargbrúnina og sum fóru alla leið.

Sendum þeim öllum hlýju, kærleika og ljós, en ekki halda aftur af þeim með söknuði okkar. –

Ég minnist þess úr samtali við ungling sem átti erfitt og foreldrarnir höfðu áhyggjur af honum,  en hann sagði:

„Ég óska þess heitast að sjá mömmu mína oftar glaða“

„Þú hvarfst á braut með fangið fullt af blómum

að fagna jörð, er virtist björt að sjá,

en gættir ei að myrkum manna dómum,

er meiða saklaus bros á ungri brá.“

„En hugur þinn, er ávallt góðs eins gætti,

gat ei komið brosum sínum að.“

Hleypum brosum þeirra að NÚNA.

Er hægt að njóta (kyn)lífsins og lesa Moggann á sama tíma? ..

Ímyndaðu þér að þú sért að elskast með maka þínum og lesa um leið nýjustu fréttir í Mogganum, Fréttablaðinu eða DV –  í leiðinni. Eða verið að skipuleggja næstu skíðaferð í huganum.   Gætir þú notið kynlífsins? –

Hvar er hugur þinn, hvar er líkami þinn, hvar ert þú?

Ertu í líkama þínum eða í fólkinu í fréttunum?

Það sama gildir um að borða mat og lesa, horfa á sjónvarp, vera í tölvunni o.s.frv.  Ef við erum að gera eitthvað annað en að borða erum við ekki að njóta. –

Maki okkar á skilið fulla athygli og við sjálf eigum skilið fulla athygli – okkar sjálfra.

Geneen Roth, höfundur bókarinnar “Women, Food and God” – segir að hvernig við borðum segi allt um hvaða jafnvægi við höfum í lífi okkar. –

Jafnvægi eða æðruleysi er grundvöllur farsældar okkar. –  Það er eðlilegt að sveiflast og það þýðir ekki að lífstakturinn eigi að vera flatur.  Hann Á að sveiflast en þegar hann fer of langt upp eða of langt niður erum við komin út fyrir  hættumörk.  Það má sjá þegar líkamsþyngd er farin að hafa áhrif á heilsufar okkar, í báðar áttir. Of feit eða of mjó. –  Andlega getum við líka verið of feit eða of mjó. –  Við getum verið með ofstjórn eða vanstjórn. –

Öfgarnar ganga í báðar áttir og þá erum við komin að hófsemdinni, eða meðalveginum.   Meðalvegurinn er ekki þröngur, heldur eins og áður sagði, þar eiga að vera sveiflur en ekki dýfur og kúfar – ökkla eða eyra.  – Best að lifa u.þ.b. við miðju og sveiflast mátulega. –

Það best er auðvitað að njóta þess sem er. – Það er hluti af því að lifa í núinu.

Þegar við erum að borða að vera viðstödd,  veita matnum athygli, borða hægt, njóta hvers munnbita, finna bragð, áferð o.s.frv. –

Hvernig við borðum er síðan birtingarmynd af því hvernig er farsælast að lifa, þ.e.a.s. að njóta stundarinnar,  eins og svo margir hafa sagt í gegnum aldirnar, en við bara lesum, kinkum kolli en gerum svo annað,  kannski vegna þess að við höfum tileinkað okkur annað.  Við höfum ekki tileinkað okkur að njóta.

Ef við erum að leika við börnin okkar og hugsa um bankareikninginn erum við ekki að njóta barnanna.  Ef við erum að hitta vini okkar, en að óska þess að við séum í sólarlandaferð á meðan erum við ekki að njóta samverunnar.  Ef við erum að lesa blöðin á meðan við borðum erum við ekki að njóta matarins,  svo ekki sé minnst á fyrirsögn þessa pistils! ..

Nú hef ég verið að leiðbeina í námskeiði undir heitinu “Í kjörþyngd með kærleika” í allnokkurn tíma.  Konurnar sem hafa mætt hafa kennt mér mikið og ég sjálf lært af hverju námskeiði.  –  Markmiðið er frelsun frá vigt og auðvitað að komast í kjörþyng og ekki síst andlega kjörþyngd,  en það er forsenda hinnar líkamlegu. –

Þetta er ekki kúr, ekki fix,  og þrátt fyrir heitið á námskeiðinu er stærsta keppikeflið ekki að komast í kjörþyngd,  a.m.k. ekki á röngum forsendum. – Kjörþyngdin er í raun aukaatriði. 

Markmiðið er að fara að njóta lífsins.  Njóta þess sem við borðum og njóta lífsins alls.  Komast að sínum kjarna, ná sátt við sjálfa/n sig – en sáttin er besti byrjunarreiturinn,  og reyndar er sáttin allir reitirnir upp frá því. –  

Ég kem ekki allri hugmyndafræðinni í þennan pistil, – en hún er á leið í bók, það er augljóst! –

Niðurstaðan er:  Besta leiðin til að komast í kjörþyngd er að fara að njóta, njóta þess sem við erum að gera, veita því athygli og vera í meðvitund. –  Hvort sem við erum að lesa Moggann eða stunda kynlíf,  bara ekki gera bæði í einu.

Súkkulaðimoli sem við veitum athygli og bráðnar í munni hægt og rólega,  er miklu betri en heil plata af sama súkkulaði sem við gleypum í okkur í meðvitundarleysi. –   

Við borðum stundum í veislum eins og við munum aldrei fá að borða aftur. Búið er að nostra við veitingar,  laða fram rétta bragðið í kökurnar og skreyta,  setja ferskar rækjur í rækjusalatið og krydda. – Svo hlöðum við þessu öllu saman á einn disk og rækjusalatið og rjóminn af kökunni renna saman og svo er allt borðað á methraða og yfirleitt önnur ferð farin,  kannski með samviskubit eða skömm í maga. –  Skömmin er krabbamein hugans eins og ég skrifað um í samnefndum pistli,  svo ekki bætir í! –

Ég mæli reyndar með því að við losum okkur við allt sem heitir skömm,  því hún brýtur bara niður en byggir aldrei upp. – Skömmin er líka ein stærsta orsök fíknar og að við einmitt upplifum okkur aldrei nóg eða leitum út fyrir okkur en ekki inn á við.

En hvað um það – Þetta er ekki spurning um magn heldur gæði. –

Kvöldstund í fjörunni  í Hvalfirði þar sem við tökum inn sólarlagið, öndum að okkur andvaranum og jafnvel stingum tánum í sjóinn – getur gefið okkur meiri lífsfyllingu en við fáum við að keyra hringinn í kringum landið ef við stoppum aldrei og virðum ekki fyrir okkur náttúruna. –   Við verðum miklu fyrr búin að fá nóg ef við njótum.  Við getum keyrt marga hringi í kringum Ísland og aldrei fengið fullnægju, þegar við erum í raun týnd okkur sjálfum. –

Eftir hversu fljótt við áttum okkur á því hvað er nóg,  að fleiri hringir, hvort sem það er í kringum landið eða á fingur,   bæta ekki líf okkar –  heldur hringur sem er heill og traustur og sem við getum notið. –

Hvað hindrar þig í að njóta?  Er spurningin sem stendur eftir. –

Ég byrja með nýtt og endurskoðað námskeið,  Í kjörþyngd með kærleika –  Námskeið fyrir konur sem vilja fara að njóta.

  Njóta ___________________  (Settu það sem ÞÚ vilt njóta á línuna. -)

Fyrirkomulagið er fyrirlestrar,  hópavinna og hugleiðsla,  auk sjálfstyrkingaræfinga.

Dagskrá:

Laugardagur 24. mars

 

13:00  Mæting og kynning

14:00  Fyrirlestur   Frelsun frá megrun og kúrum

15:00  Pása

15:15  Fyrirlestur í formi íhugunar og hugleiðslu  – perlan

16:00  Umræður og samantekt

17:00  Lok

Kaffi, te, hamingjuvatn og ávextir innifalið – og eitthvað óvænt!  *hamingjuvatn= sódavatn.

Hámark 20 konur 

Sex  hópfundir 90 mín í senn á þriðjudögum (hægt að velja milli morgun- eða eftirmiðdagsfunda)   

morgunhópur 10:00 – 11:30   eftirmiðdagshópur  17:30-19:00

 (Drög að dagskrá)

Þriðjudagur 27. mars  – æðruleysið, jafnvægið

Þriðjudagur 3. apríl  – sáttin, samþykkið.

Þriðjudagur 10. apríl – kjarkurinn, hugrekkið

Þriðjudagur 17. apríl – vitið, viljinn.

Þriðjudagur 24. apríl –  trúin, traustið

Þriðjudagur 1. maí –   út í lífið a njóta

 

Verð fyrir námskeiðið er 25.900.-     (greiða þarf námskeiðið fyrirfram, nema ef um annað sé samið, – greiðslukortaþjónusta. -)

 Skráning opnar fljótlega á heimasíðu Lausnarinnar –

Nánari upplýsingar og ef þið viljið skrá ykkur beint hjá mér – sendið mér póst á johanna@lausnin.is   eða hafið samband í síma 8956119

 Þangað til mæli ég með “möntrunni”  Ég elska mig, ég samþykki mig, ég virði mig og ég fyrirgef mér 😉

Hvað hefur hugrekki með heiðarleika að gera?

Ég hlustaði á mjög góðan fyrirlestur á ted.com,  þar sem rannsóknarprófessorinn og fyrirlesarinn Brené Brown sagði sína reynslu og frá sínum rannsóknum á „Mætti berskjöldunar“ eða mætti þess að fella varnir.    „Power of Vulnerability“ ..

Það er hægt að  skoða margt í þessum fyrirlestri,og ég er búin að skrifa marga punkta, en það sem mér er efst í huga núna er það sem hún minntist aðeins á en það er hugrekkið, eða „courage“ .. 

Íslenska orðið hugrekki bendir til hugans, en courage bendir til hjartans, en er komið af latneska orðinu cor, sem þýðir hjarta. Á frönsku er hjartað coeur.  Úr enskunni þekkjum við svo orðið core og notar það fyrir kjarna. 

En hugrekkið er eitthvað sem kemur frá kjarnanum, frá hjarta manneskjunnar. Það er þó umdeilt í  andans fræðum hvort að kjarni hugsunar manneskjunnar sé í maganum (gut feeling)  eða hjartanu (follow your heart).  Kannski bara bæði og það skiptir ekki höfuðmáli.  

En hvaða hugrekki er Brené Brown að tala um?  Hún er að tala um hugrekkið: 

– við að sætta sig við að vera ófullkomin

– við að leyfa sér að lifa, 

– við að  lifa eins og við viljum sjálf 

–  að lifa eins og við erum í innsta kjarna en ekki eins og utanaðkomandi vilja eða halda að maður vilji lifa

– að lifa eins og við erum í innsta kjarna, en ekki eins og við HÖLDUM að aðrir vilji að við lifum. (Sjá t.d. söguna um hjónin og rúnstykkið).

–  til að meta sjálfa sig sem gilda manneskju

 ——–

Fólk sem er tilbúið að faðma sjálft sig fyrst og svo aðra, er hugrakkt, það óttast ekki að AÐRIR álíti það sjálfselskt!

 Fólk sem er tilbúið að vera það sjálft, láta af því að vera það sem aðrir vildu að þeir væru.

– til að samþykkja varnarleysi sitt eða viðkvæmni sína.

Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat.  En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum, heldur er skammgóður vermir (eins og að missa piss í skóna).   

Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást – þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv.  Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.

Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis.  Nýlega var grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.  

Hugrekki – er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við.  Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.

Við þurfum að hafa hugrekki til að ganga inn í aðstæður, án þess að vita hver útkoman verður.

Ástæðan fyrir því að við oft höfnum ást er óttinn við að vera hafnað sjálfum, eða óttinn við að særa aðra.   Það þýðir að við erum farin að setja óttann í forgang fyrir ástina.  Hugrekki er að fara af stað þrátt fyrir óttann, þannig sigrumst við á honum. Útkoman verður bara að koma í ljós, en ef við stöðvum okkur vegna óttans verður engin útkoma og við lifum í stöðnun. 

Það sem hér á undan kemur er blanda af mínum eigin hugrenningum og Brene Brown. 

Hlustið endilega á  Brene Brown (smellið á nafnið hennar).  það er margt sem hægt er að læra af henni.

Fann svo þessa fallegu mynd af jörðinni sem hjarta – það er gott að hugsa til hennar sem hjartað sem slær fyrir okkur öll sem eitt. 

  heart_earth.jpg

 

 

 

 Það er svo mikill léttir 😉 .. og að þurfa ekki alltaf að vita „hvað næst“ og hvernig fer þetta eða hitt.  Það stöðvar mann í áskorunum sem okkur er ætlað að takast á við, aftengir okkur frá fólki sem okkur er ætlað að þekkja og kynnast.  Við þurfum ekki, og eigum ekki, að vera alltaf að skammast okkar fyrir þetta og hitt.  „Skammastu þín“ er eitt það ljótasta sem hægt er að segja við fólk, hvað þá við okkur sjálf. 

Þú ert PERLA

Eftirfarandi pistil birti ég upphaflega á Pressunni í júní 2011. –

Við munum eflaust flest eftir því sem börn þegar einhver spurði, “viltu vera memm” og hjartað tók örlítinn kipp af gleði, yfir því að einhver sóttist eftir vináttu okkar.

Það er misjafnt hvort að við sækjumst eftir vináttu eða til okkar er sótt. Oftast eru þeir sem sækjast eftir vináttu, hugrakkari, því margir eru hræddir við höfnun, – “hvað ef að hinn segir nú nei”!.. Jafnvel þó að höfnunin hafi lítið sem ekkert með þig að gera, hún sé af ástæðum sem eru ekkert persónulegar. Skemmst er nú að líta til rafrænnar vináttu, þar sem sumir jánka öllum sem banka á vegginn, en aðrir vilja bara hafa sinn þrengsta hring sem fésbókarvini.

Það fer eftir forsendum okkar á miðlinum. Höfnun hefur því sjaldnast neitt með þig persónulega að gera. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum var hugleiðing út frá umræðum um nemendur og skóla, mikilvægi þess að tilheyra hópi.

Við höfum reyndar öll þörf fyrir að tilheyra hópi.

Í félagsfræðinni er talað um félagsleg festi, og þegar ég var að útskýra það fyrir nemendum mínum, – teiknaði ég mynd af perlufesti, þar sem hver perla væri hópmeðlimur. Hópurinn getur verið fjölskylda, vina- eða kunningjahópur, félagasamtök, íþróttafélag eða hvers konar hópur sem maður tilheyrir. Ekki er verra ef hópurinn á sameiginlega reynslu.

Hvað áttu margar svona (perlu)festar í þínu lífi?

Það virðist skipta okkur miklu máli að tilheyra hópi, að vera samþykkt af hópi og eiga samskipti innan hóps. Samvera er andheiti orðsins einvera. Í samveru nærum við þörfina til að þiggja og gefa.

Nemendur sem eru félagsfælnir, eða eiga erfitt með að nálgast aðra að fyrra bragði, þurfa samt sem áður á samveru að halda. Þess vegna er betra fyrir slíka aðila að vera í bekkjarkerfi en í opnu kerfi, þar sem þarf að hafa fyrir því að nálgast aðra.

Kunningjahópar virðast oft myndast í gegnum sameiginleg áhugamál eða markmið. Kannski leitum við að þeim sem eru líkust okkur og tengjumst best.

Vegna þess að við erum mismunandi tengjumst við fólki á mismunandi hátt. Sumum löðumst við að umsvifalaust, eins og við höfum alltaf þekkt þau, en önnur virka næstum eins og rafstraumur á okkur og við hrökkvum í burtu. Oftast byggir þetta á okkar eigin viðhorfi, viðmóti, sýn, sjálfsöryggi og því að vera tilbúin að taka náunganum eins og hann er. Þegar okkur finnst allir eða flestir orðnir leiðinlegir eða fúlir, þá er kominn tími til að líta í eigin barm. (Mjög mikilvæg lexía!) Kannski erum við bara sjálf ómöguleg og illa upplögð?

Grundvallarreglan er gamla klysjan um súrefnisgrímurnar í flugvélinni, anda að sér fyrst og sinna svo barninu. Súrefnislaus erum við einskis nýt og getum ekkert gefið af okkur. Við getum kannski gefið í stutta stund en verðum svo andlaus. Þess vegna þurfum við að spyrja okkur sjálf fyrst “viltu vera memm” – vera vinur eða vinkona okkar sjálfra, og þegar við höfum játast okkur sjálfum og eignast eigin vináttu verður hitt miklu auðveldara, við verðum miklu hugrakkari og við eigum auðveldara með að deila vináttu okkar. Þó einhver vilji ekki vera memm, þá blásum við á það, “Their loss” og höldum áfram að hitta aðra sem eru á okkar línu, eða eigum við að segja sem passa í okkar perlufesti? Þú ert dýrmæt og náttúruleg perla, farðu vel með perluna þína og kastaðu henni ekki fyrir svín. Veldu þér félagsskap sem samþykkir þig eins og þú ert.

„The most abrasive sand creates the most radiant pearls…“

Við erum ekki skuldirnar okkar …

  Get ég verið blönk og hamingjusöm? –

Það eru býsna margir orðnir aðþrengdir og aðkrepptir vegna þess að tekjur og/eða bætur hrökkva ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. –

Ég er ein af þeim sem hefur verið í þeirri stöðu, – og jú stundum upplifað örvæntingu og kvíða af þeim sökum. –  Ég kalla það „afkomukvíða“ ..

Líf mitt hefur breyst stórkostlega, frá því að þurfa næstum ekkert að velta fyrir mér peningum og meira að segja geta gaukað að vinum og ættingjum einhverri upphæð hafi þeir verið í vanda,  í það að tja.. skrimta …og vera sú sem er að þiggja frá vinum og ættingjum.-

Uppeldi mitt og okkar margra hefur verið í þá áttina að skulda aldrei neinum neitt, og sérstaklega ekki peninga.   Svo það er býsna stór biti t.d. að fá hótun um að fara á vanskilaskrá, að nafnið manns fari á einhvern „svartan lista“  …. fá neitun í bankanum um yfirdrátt, geta ekki greitt kreditkortaskuldina o.s.frv…

Hlutir sem áður voru sjálfsagðir, eins og að versla sér skó, fara á árshátíðir,  jólahlaðborð, kaupa vel inn fyrir helgi án þess að hugsa um upphæðina,  fara á kaffihús og drekka flösku af rauðvíni eru varla inni í myndinni hjá mér í dag.. eða kannski þá bara alveg „spari.“

Húsaleigan hefur forgang, því ég þarf þak yfir höfuðið og rekstrarreikningar, ég þarf líka að kaupa bensín á bílinn en keyri hann sparlega, en maturinn er aftast á lista og nú er borðað allt pastað, grjónin og fleira sem hefur safnast upp í skápunum.  Ég hendi ekki mat eins og áður,  en nýti hann miklu, miklu betur.  Reikna saman í huganum það sem ég kaupi í  Krónunni og Bónus. –

En það eru ýmsir góðir hlutir sem koma í staðinn og ég hugsa, „hvað er ég að læra af þessu?“ – „Hvað er verið að kenna mér“?

Hófsemi, sníða mér stakk eftir vexti,  hætta að lifa í kredit og vera meðvitaðri um hverja krónu sem ég eyði. –

Ég geri lista yfir það sem er „ókeypis“ í lífinu,  samveruna með vinum, gönguferðirnar,  að leika mér með barnabörnunum. Fyrirlestrar í Háskólanum,  sæki andlega næringu í fyrirlestra á netinu, bækur o.fl.

En það sem skiptir mestu máli er að vita og trúa því að verðgildi okkar sem manneskju er alltaf hið sama og launaseðillinn okkar eða bætur segir ekkert til um það. – Ef að við ættum að meta verðgildi fólks eftir tekjum þess þá væru nú heldur betur margir „svindlarar“ verðmætustu manneskjurnar. – 

Ríkir eru verðmætar manneskjur og fátækir eru verðmætar manneskjur,  en það verðmæti kemur bankareikningi þeirra EKKERT við. –

Já, ég er heppin að hafa lært það að ég get og má vera hamingjusöm akkúrat núna – hvað sem á gengur! – Frekar „fyndið“ – og þegar ég segi stundum við mig „ég er hamingjusöm“ eða endurtek „mig vantar ekkert“ þá hlæ ég inní mér  og það er bara gott. –

Ég er samt bara manneskja og fæ við og við nokkurs konar „afkomukvíða“ – en spyr mig samt hvað sé það versta sem getur gerst? –  Er þetta ekki bara spurning um stolt?

Voru ekki mestu spekingar heimsins eins og Eckhart Tolle húsnæðislausir á tímabili, – og maðurinn sem heyrði í Guði og átti samræður við hann? –  Neale Donald Walsch,  hann lifði í tjaldi í almenningsgarði,  komst alveg á botninn,  en af botninum er besta spyrnan og „úr djúpi reis dagur.“ –

Þessir menn sem ég vitna í hér á undan eru orðnir múltimilljónerar á fyrirlestrum og bókaútgáfu.  Þeir hafa reynslu og hafa upplifað „frelsið“ við að vera algjörlega eignalausir, – já þetta hljómar kannski mótsagnakennt, en stundum eru eignir og skuldir af þeim bara eins og hlekkir. –

Við erum eflaust mörg sem þurfum að koma út úr skápnum með áhyggjur okkar,  láta þær ekki skyggja á lífsljósið okkar. –

Það verður aldrei nógu oft ítrekað að verðmæti okkar er ekki tekjur okkar, húsið okkar eða bíllinn.  Sjálfstraustið á ekki að byggjast á því – það er það sem kallað er „other“ esteem, traust sem byggist á hinu ytra. – Það styður vissulega hið innra,  en eftir því sem við leyfum hinu innra að stækka meira og vera meira ráðandi og meta okkur minna eftir hinu ytra.

– Við erum ÖLL stórkostlegar manneskjur! –

Við eigum öll ljósið innra með okkur, lífsneistann – það er okkar að glæða hann og laða að okkur hið góða. – En hlustum á spekingana spjalla og íhugum hið raunverulega verðmæti. –  Spekingana sem báðir áttu ekkert veraldlegt,  en þess meira andlegt.  Við sem búum á Íslandi erum lánsöm, við eigum fríska loftið og við eigum góða vatnið, bæði kalda og heita.  Land sem er laust við stríðsátök o.fl.o.fl.  Hversu margir ætli það séu þarna úti í heimi sem myndu óska sér og upplifa sig ríka bara af þessum gæðum?

– Bara að lifa í friði? –

Það er gott að nota það sem við eigum nú þegar, þakka það sem við eigum og erum og setja fókusinn á það. –  Sætta okkur við okkur.  Samþykkja okkur,  elska og virða – því við erum virðingar verð. –

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt

Kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli