Með „köku“ í ofninum …

„So if you want something in your life, first you must think of it, put your intention behind it, and keep your focus on it. It is almost like baking a cake. The thought is in the oven and you have to keep it baking with belief. You have to see your thought manifesting and becoming real.“ ..

Ef við viljum fá eitthvað inn í líf okkar,  verðum við fyrst að eiga hugsun um það,  taka ákvörðun um það  og halda fókusnum á því.  Það er næstum eins og að baka köku.  Hugsunin er í ofninum og við verðum að halda áfram að baka með trú. Við verðum að staðfesta hugsunina og sjá hana verða raunveruleika.

Heilinn okkar virkar eins og „simulator“ –  þegar flugmenn læra að fljúga fara þeir í flughermi (flight-simulator)  – og reyna sig í ýmsum aðstæðum.

Þarna eru menn ólíkir dýrum – að ég held og sá einhven fræðsluþátt um það.

Við erum stöðugt í þessum lífshermi að máta okkur í aðstæðum og prófa að lifa lífinu fyrirfram. Við búum til – ólíklegustu aðstæður og sjáum fyrir okkur hvernig við lendum eða „krössum“ –  án þess að hafa hugmynd um hvernig fer í raun og veru.

Margir telja að við getum skapað með hugsunum okkar hvernig muni fara,  og þó það eigi ekki við í öllum tilvikum þá er það oft.

Þetta snýst svo mikið um trú á eigin getu, hæfileika og trú á að lífið taki á móti okkur. –

Það erum s.s. við sem setjum oft upp hindranir og stíflur – eða förum í ofstjórn.  Ofstjórn virkar þannig að við tökum kökuna út úr ofninum áður en hún er bökuð,  eða að við treystum ekki bakaraofninum! .. 😉

Trúum ekki að út úr þessu komi kaka.

En hvað ef við förum eftir uppskriftinni sem var gefin hér í upphafi – eða það sem ég skrifaði um „uppskrift að betra lífi“ hér nokkrum pistlum á undan? –

Hvað ef við leyfum okkur nú að fara að trúa og treysta? ..  við séum búin hræra deigið,  setja í formið og leyfum ofninum að taka við? –

Þó við vitum ekki nákvæmlega hvenær „plingið“ í klukkunni gellur, þ.e.a.s. hvenær kakan er bökuð – þá treysta því að sá tími komi ? –

Hlustum eftir „plingi“ – en ekki gefast upp á að bíða eða halda fyrir eyrun þegar það gellur.  Við höfum bakað margar kökur í lífinu, – líka vandræði auðvitað – því að ef við trúum á vandræði þá verða vandræði er það ekki?

Og þó við höfum stundum bakað misheppnaðar kökur,  eða eitthvað hefur farið úrskeiðis, – þá þýðir það ekki að við eigum að gefast upp í bakaríi lífsins! ..

Reynslan hlýtur að hafa kennt okkur að margar góðar kökur bakast ef við förum rétt að og vöndum okkur 😉

425125_10150991208683141_2145683887_n

Uppskrift að betra lífi ..

1.  Ástundum þakklæti – því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs.

2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði,  og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði.

3. Veljum góða andlega næringu,  við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð andleg næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. –  Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. –

4. Forðumst að vera fórnarlömb,  klæðum okkur ekki í „fórnarlambsbolinn“ á morgnana heldur „sigurvegarabolinn“ –  berum höfuðið hátt.

5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum – gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd.  Eymd er valkostur.

6.  Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum „já takk“ að lífið komi til móts við okkur.  – Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið.  Þegar við vitum allt – t.d. hvernig við eigum að ná árangri – en við trúum ekki á eigin árangur.  Trúðu á þinn mátt og megin.

7.  Veitum athygli og virðum það góða,  okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur.  Að veita athygli er svipað og að virða,

8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða  þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum.  Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur.  Okkur skortir ekkert.  Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.

9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar – fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir,  útiveru,  fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.

10.  Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.

11. Verum heiðarleg og sönn,  gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu.  Tölum út frá hjartanu,  það þýðir að segja ég en ekki þú. „Mér líður svona þegar“ .. í stað þess að ásaka „Þú ert ..“

12.  Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar.  Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum.  Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.

13. Lítum okkur nær.  Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann.  Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.

14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu  – sem okkur líður illa í – hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós.  Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.

15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. – Ekki vera of stolt,  –

15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur,  virðum innri frið.

16. Elskum óvini okkar – óttann og skömmina, – „Kill them with kindness“ – það þýðir að við eyðum þeim með elsku.  Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. – Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum – og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? –   Stjórnsemi – það að treysta ekki er að óttast. „Faith or fear“ –   Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna.  Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja – og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.

Biðjum um æðruleysi – til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt – sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta.  Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. –  Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.

Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það – því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur – ekki fyrr. 

Lífskrafturinn er kærleikur,  allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska,  hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. –  Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu,  við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.

Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.

Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, – verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.

Lifum heil. og höfum trú.  

1185179_423218941120300_1002824657_n

Þetta snýst allt um trú …

Þegar ég skrifa trú, þá er ég ekki að tala um trú sem trúarbrögð,  en við erum svo fátæk í íslenskunni að trú er notað um faith, belief og religion,  kannski fleira.

Trúin sem ég er að tala um hér er hugmyndir eða sú trú sem við höfum um okkur sjálf, getu okkur og um hvernig við erum og hvað við gerum. –

1174682_501815599908980_883015767_n

Snýst um trú á sjálfan sig og trú á að lífið komi til móts við okkur.

Ótti – kvíði – stjórnsemi – óöryggi o.fl eru einkenni þess að skorta trú.

Við trúum ekki á okkar hæfileika, við trúum ekki að við eigum allt gott skilið, við trúum ekki að okkur geti gengið vel,  við trúum ekki að við finnum góðan maka, við trúum ekki á að við finnum starf sem er áhugavert, við trúum ekki að við eignumst draumahúsið o.s.frv. –  Svo er það hið innra, við trúum ekki að við náum heilsu, náum sátt, náum að finna frið o.s.frv. –

Við getum lesið alla „The Secret“ – og allar sjálfshjálparbækur,  en ef við trúum engu sem þar stendur þá gera þær ekkert gagn.

EInhvers staðar stendur að trúin flytji fjöll.

Þau sem hafa trú á markmiðum sínum ná frekar árangri,  þau sem leyfa sér að leggjast í hendi trúarinnar og efast ekki þau uppskera oftast samkvæmt því. –

Það er þessi BELIEF – TRÚ  – eða HUGMYNDAFRÆÐI um okkur sjálf sem skiptir máli. – Ekki hvað aðrir hugsa, og við megum ekki gera það heldur að okkar trú eða hugmyndum – heldur hvað við hugsum í okkar höfði, eða hverju við trúum.  Ef við trúum að við séum heppin erum við fókuseruð á heppni.  Ef við trúum að við séum óheppin þá sjáum við ekki einu sinn þó að það liggi þúsund kall á götunni,  því við erum svo viss um að við séum svo óheppin.

Þetta með trúna og óheppnina sannaði Darren Brown í mynd sem hann gerði um „The Lucky Dog“ –  þar sem hann (ásamt hjálparfólki) náði að sannfæra fólk um að ef það snerti styttu af hundi – sem var algjörlega valin af handahófi,  yrði það heppnara. Og það var reyndin.  Hægt er að sjá heimildarmynd um þetta á Youtube.

Svo það þarf bara að fara að trúa, eða skipta út trúnni.

Í staðinn fyrir að nota alls konar setningar eins og

„Ég ætla að reyna að gera það“

„Ég ætla kannski að gera það“

„Ég vona að ég geti það“

„Ég er ekki viss um að ég geti það“

þá segjum við einfaldlega:

„ÉG GET ÞAГ  .. og við trúum á okkar mátt og megin,  það sem okkur er gefið hið innra. – Losum okkur við það sem íþyngir eins og ótta, skömm og efa – og höldum áfram í góðri trú.

Það munu koma hlykkir á leiðina, – og stormar,  en trúin er lykilatriðið.   Ef við erum í vanda með það,  þá þurfum við að biðja fyrir okkur að öðlast meiri trú – og fá styrk við það.   Trú á kærleika, jákvæðni og gleði. –

Við getum líka þakkað fyrir hvað við erum heppin að svo mörgu leyti. –

Við höfum öll máttinn (og dýrðina),  en við þurfum að læra að nota hann.  Leita inn á við, – leita ekki langt yfir skammt.

Þessi pistill er grundvallandi fyrir því sem ég er að fara að kenna – núna á örnámskeiði kl. 18:00 -20:00 í dag í Lausninni,  Síðumúla 13, 3. hæð.   Sjá http://www.lausnin.is

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n

Fyrst á réttunni svo á röngunni, tjú, tjú, trallalla ..

Ég hef nokkrum sinnum horft á myndina „Conversation with God“ – en þar segir frá ævi Neale Donald Walsch og hvernig hann hóf samræður sínar við Guð og hvernig hann fór að skrifa.

Eitt af því sem kom í huga minn í morgun (en það er ansi margt) er þetta „quote“  frá Neale, en það er þá svarið um eðli Guðs.

„Neale, you’ve got me all wrong… and you’ve got YOU all wrong too. I don’t want anything from you to be happy. But, you think you are below ME, when in truth… we are all one. There is no separation.“

Allt líf er orka, og eftir að hafa hlustað á Lissa Rankin í morgun, sem talar um innsæið okkar, eða innra ljós (inner pilot light) sem við þurfum að nota til að heila okkur innan frá, sé ég að hún er að tala um það sama og Esther Hicks sem nefnir orkuna the Source, eða uppsprettu,  höfundur „The Secret“ – talar um Love (kærleikann, ástina, elskuna)  sem æðstu orkuna eða (Greatest Power),  það er þá þessi margumræddi æðri máttur. –   Margir kalla þennan mátt Guð.

„Heal from the inside out“ … Peel your masks down and let your light shine“.   Lissa Rankin

Grímurnar sem hér um ræðir, eru hlutverkagrímurnar okkar,  þá í samræmi við stétt, stöðu, starf, hjúskaparstöðu o.fl.

Ljósið kemur innan frá.

Gleðin er forsenda árangurs.

Gleðin kemur innan frá.

Ástin kemur innan frá.

Traustið kemur innan frá.

Virðingin kemur innan frá.

Sækjum þetta allt í uppsprettu ljóssins.

Við erum svo oft að leita langt yfir skammt, – leita að ljósi sem við þegar höfum,  leita að trausti sem við þegar höfum, leita að virðingu sem við þegar höfum, leita að ást sem við þegar höfum.

Við þurfum bara að trúa að þetta sé þarna allt saman,  óendanleg uppspretta – og meira en nóg, –

Við eigum þetta ekki einungis skilið, við eigum þetta og þurfum bara að finna, heyra og sjá þennan innri fjársjóð.

Stundum þurfum við að standa á haus til að fá nýtt sjónarhorn,  eða horfa fyrst á réttunni og svo á röngunni? ..

Himnaríki er innra með okkur og þar getum við gengið í gleði og friði alla daga, líka núna.

Gefum því tækifæri – hindrum það ekki – leyfum því að koma fram.

„Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.“  (Úr fjallræðunni). 

„Heal from the inside out“ … Peel your masks down and let your light shine“.   Lissa Rankin

Hvað eru grímurnar sem Lissa Rankin talar um annað en mæliker sem hylur ljósið?

Heilun kemur innan frá og öll viljum við lifa heil.

Já,  heil og sæl. 

 Teka_InnerLight_big

Ég er nóg

Í bata  er best að lifa

og þegar ég kem auga á sársauka minn

tek ég ákvörðun um að breyta um farveg

kveð sárin sem urðu til við rangar hugsanir

vegna þess að ég hef lært að ég er verðmæt

grímulaus og allslaus fyrir Guði og mönnum

og ég á allt gott skilið, eins og við öll

ég reisi mér ekki tjaldbúðir í sorginni

ekki frekar en skömminni

sleppi íþyngjandi  lóðum höfnunar og hefndar

því ég hef frelsað sjálfa mig

og þá þarf ég ekki að spyrna frá botni

heldur  flýg af stað sem fis

inn í nýja og betri tíma

þar sem óttinn fær engu stjórnað

hugrekkið heldur mér á lofti

hjarta mitt er heilt og sátt

ég fyrirgef vegna mín

sleppi tökum á fortíð og fólki

og leyfi því að koma sem koma skal

set ekki upp hindranir og farartálma

og kvíði engu

heldur brosi breiðu brosi eftirvæntingar

við vissum ekki betur

kunnum ekki betur

kærleikurinn kemur og kyssir á bágtið

þakklætið þerrar tárin

Gleðin valhoppar í kringum mig

bíður spennt og segir í sífellu:

„komdu út að leika“  🙂

Mér er frjálst að elska

og þess meira sem ég elska

vex kærleikurinn til lífsins

ég kallaði áður „elskaðu mig!“

en nú þarf ég ekki að betla

bara elska

það er nóg

ég hef nóg

ég er nóg

quote

Jú, þú ert nafli alheimsins …

„Hver heldurðu eiginlega að þú sért? – Heldur þú að þú sért nafli alheimsins?“

Eeeee…

Hver og ein manneskja getur aldrei upplifað veröldina öðru vísi en að hún sé í miðjunni. –   Þess vegna er það ekkert til að skammast sín fyrir að segjast vera nafli alheimsins (síns).

Við erum aldrei nafli náunga okkar. 😉

Munurinn á okkur og Guði – er að Guð er nafli alheimsins og í sérhverjum nafla.  –  Getur fundið allar tilfinningar, skilið okkar sjónarhorn. Fundið okkar sorg, gleði og skilur allt.

Guð er kærleikur.

Þegar við hleypum inn kærleikanum förum við að sjá hlutina út frá því ljósi.
Með „augum“ kærleikans og við förum að upplifa máttinn sem því fylgir.

Þvi fylgir líka frelsi.  Frelsi frá illu,  frelsi frá dómhörku, frelsi frá illu umtali, frelsi frá ótta og hatri.

Flestallt ofbeldi er unnið út frá ótta,  ótta við að missa,  ótta að hafa ekki stjórn, og óttinn blindar augun og hjartað fyrir kærleikanum.

Þess vegna þarf hver og ein manneskja að hreinsa út sinn ótta og hleypa enn meira kærleika að.

Í móðurlífinu þiggjum við næringu í gegnum naflastrenginn,  góða næringu sem lætur okkur þroskast og þegar við erum tilbúin þá fæðumst við inn í heiminn.  Förum úr verndandi móðurlífi móðurinnar inn í jarðneska tilveru þar sem okkur mæta endalaus verkefni og áskoranir.

Móðurlífið er okkar micro cosmos, eða smá heimur,  heimurinn er okkar macro cosmos  eða alheimur.  Þar höldum við áfram að þiggja næringu – þó á annan hátt sé,  en við getum alltaf – þegar við leyfum það – skynjað okkur í móðurlífi heimsins.  Þar sem ríkir ekkert annað en kærleikur og gleði.   Ef við upplifum annað erum viið týnd og höfum horfið frá móðurlífinu,  erum stödd einhvers staðar fjarri okkur sjálfum.

Móðurlífið hefur aðdráttarafl því að kærleikurinn hefur aðdráttarafl.  Öll mótstaða okkar heldur okkur frá þessu móðurlífi. –  Líka mótstaða við erifðum tilfinningum. –  Þegar við finnum sorg þá megum við ekki setja upp mótstöðu við sorginni, heldur taka á móti henni  með kærleika og gráta – og þegar við höfum fengið þessa útrás þá finnum við að við erum hugguð í þessu móðurlífi.

Ef við aftur á móti berjumst á móti tilfiningunum – hleypum þeim ekki út, förum við lengra og lengra frá móðurlífinu. – Förum frá staðnum og fjarlægjumst okkar eigin nafla.

Svo stöndum við ofboðslega týnd í henni veröld og spyrjum: „hvað vil ég? – hvað er ég? –  Er ég farin að lifa eftir öðrum nöflum? –  Þeirra sjónarhorni, en ekki mínu eigin? –

Af hverju get ég ekki fylgt mínu innsæi – eða „útsæi?“ –  er það kannski vegna þess að ég er á skökkum stað í tilverunni? –

Kannski má ég bara fara að trúa því að ég sé nafli alheimsins,  því ég get ekki skynjað veröldina rétt út frá nafla annarra. –

Ef okkur ætlar að líða vel í þessum heimi,  þurfum við að fara að skilja að tilgangur lífsins er ekki þjáning,  þó oft þurfi þjáningu til að skilja hann,  – tilgangur lífsins er að uppgötva kærleikann og gleðina,  tilgangur lífsins er þakklæti.

Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að vera nafli alheimsins,  ábyrgð á sjálfum sér,  það er ekki hægt að kenna neinum öðrum um,  ekki aðstæðum, ekki fólki og ekki veðrinu.

Þegar við stöndum upp eftir naflaskoðun þá skiljum við þetta:

Kærleikurinn er krafturinn sem færir okkur bata og breytingar.

Hættum að leika guði í lífi annarra – taka fram fyrir hendurnar á almættinu, ef svo má að orði komast. –  Skyggjum ekki á þeirra eigin nafla,  svo það fólk geti fengið að skynja heiminn á sinn hátt. Segjum þeim ekki hvernig lifið lítur út frá þeirra nafla.

Hvað sem á gengur í lífinu,  þá er farvegurinn okkar aftur heim í móðurlífið – heim í kærleikann, gleðina og friðinn.   Það koma stormar sem hrinda okkur út úr þessum unaðsstað,  en  í staðinn fyrir að horfa frá honum þar sem eymdin liggur – þá tökum við ákvörðun að komast aftur heim.

Með ákvörðuninni er batinn hafinn.  Þá hættum við að vera fórnarlömb aðstæðna eða annars fólks.

Þegar við tökum ákvörðun, – segjum „já takk“ – ég vil elska, gleðjast og þakka – og taka á móti því góða sem lífið gefur, þá þurfum við að hvíla í trausti þeirrar ákvörðunar, en ekki fara að finna alls konar hindranir í eigin huga um að það sem við höfum ákveðið muni ekki ganga upp. – Ekki fara að leita að ástæðum, fólki og aðstæðum, – afsökunum fyrir að stöðva ákvörðunina. Leyfum henni að verða, vegna þess að hún kemur okkur heim til okkar.

„Let it be“ .

Að setja heilbrigð mörk …

Að setja sér eða öðrum mörk,  þýðir ekki að við séum að breyta öðru fólki.  Það að setja mörk er að ákvarða hversu mikið þú ert tilbúin/n að láta bjóða þér og síðan að koma þessum mörkum til skila með ákveðni og festu og halda þig við þau.
Ef þú átt erfitt með að setja mörk,  getur verið að þú sért farin/n að taka á þig ábyrgð á tilfinningum annarra og vandamál þeirra.  Líf þitt gæti orðið ein ringulreið og fullt af dramatík.  Þér finnst kannski erfitt að segja „nei“ vegna þess að þú hræðist höfnun.  Þú gætir verið annað hvort yfirmáta stjörnsöm/samur og ábyrgðarfull/ur,  eða afskiptalaus og háð/ur í  samskiptum þínum við aðra.   Þú hefur mikið langlundargeð gagnvart hegðun sem er ofbeldisfull í þinn garð. Þú fórnar gildum þínum til að þóknast eða geðjast einhverjum og/eða forðast átök.

Hjálpleg ráð vð að setja mörk:

Settu mörk jafnvel þó þér finnist þú eigingjörn/gjarn eða sek/ur.  Þú átt rétt á því að hugsa um sjálfa/n þig.
Byrjaðu á auðveldustu mörkunum/fólkinu
Settu þau skýrt fram og án tilfinninga og í eins fáum orðum og mögulegt er.
Ekki fara að afsaka þig eða réttlæta.
Aðrir MUNU reyna þig – þau sem eru vön að geta stjórnað þér eða manipulera með þig.  Stattu við þitt eða gakktu í burtu.
Fáðu aðra í lið með þér,  þau sem virða þín mörk.

Það tekur tíma að setja heilbrigð mörk.
EF þú hefur óheilbrigð mörk,  laðar þú að þér þau sem sjá sér leik að borði og fara að misnota sér það.  Farðu því að laða inn í líf þitt heilbrigðara fólk.

 

1170720_498620266895180_1106913787_n

Að koma nakin fram …

Hér er ég ekki að ræða líkamlega nekt, heldur hina andlegu.  En já, ég viðurkenni að ég ákvað að hafa titilinn svona því það vekur, af einhverjum ástæðum,  alltaf athygli blessuð nektin.

Við tölum um líkamlegt ofbeldi og við tölum um andlegt ofbeldi.  Í skólanum töluðum við kennarar oft um að nemendur væru andlega fjarverandi.

Það er nefnilega ekki alltaf það sama að vera á staðnum og að vera á staðnum,  en förum ekki lengra út í þá sálma.

Brené Brown flutti frægan fyrirlestur um „Power of Vulnerability“  eða mátt berskjöldunar eins og það hefur verið þýtt á ensku, – þið skrifið bara Power of Vulnerability – á Youtube eða Ted.com  ef þið viljið kíkja á hann og ef þið hafið ekki hlustað mæli ég sterklega með því.

Þarna er Brené að tala um máttinn sem fylgir því að hafa ekki leyndarmál, segja það sem manni býr í brjósti og lifa þannig í rauninni „nakin/n“  með sig og sitt líf – játa ófullkomleika sinn,  ótta sinn, vanmátt sinn o.s.frv.

EIns og lesendur pistlanna minna og þau sem hafa mætt á námskeið eða fyrirlestra hafa orðið vör við,  þá tala ég mjög mikið á persónulegum nótum og ber tilfinningar mínar hiklaust á torg.  Það er eitt af þessum einkennum berskjöldunar – og að játa kannski á sig eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir,  svo dæmi sé tekið.

Þetta er ekki bara máttugt og auðvelt – því stundum fylgja þessu „Vulnerability Hangovers“  eða berskjöldunartimburmenn.  –

Þeir felast í því að eitthvað prógram kikkar inn, sem segir: „Hvað varstu að gera manneskja“ –  „hugsar þú bara um sjálfa þig, hefur þetta ekki áhrif á aðra og bla, bla, bla“ .  eða þá hugsunin um að einhver notfæri sér það sem ég opinbera gegn mér.

En þessir timburmenn koma ekki oft, – ég fer varlega í „vínið“ ..

Ef ég hef óttaleysi sem grunn, þá óttast ég ekki að segja upphátt það sem mér býr í brjósti, – og ég veit líka að stundum virkar það sem leiðarljós fyrir annað fólk að gera það sama.

Það er því bara hressandi og felsandi að koma nakin fram!

21-the-world

Gleðin og sorgin eru systur

Að vera sterk í erfiðum aðstæðum þýðir ekki að við bítum bara á jaxlinn, setjum hausinn undir okkur, skellum í lás á tilfinningarnar og höldum áfram. – Svoleiðis virkar aldrei vel og endar að mínu mati oftar en ekki í vanlíðan og/eða veikindum.

Að vera sterk er að fara í gegnum sorgina þannig að við mætum henni, virðum hana og viðurkennum. Grátum þegar við þurfum að gráta, en um leið ætlum við ekki að dvelja í henni að eilífu vegna þess að við erum meðvituð um það að það hjálpar okkur ekki tli bata eða til að lifa við hlið hennar. –

Gleðin og sorgin eru systur – og hægt og varlega förum við að taka á móti gleðinni. Allt í æðruleysi og trausti.

Við afneitum ekki sorginni – en við afneitum ekki heldur gleðinni.

Við vitum af báðum systrum, og snúum okkur oftar og oftar að gleðinni og röbbum við hana á lífsleiðinni. Við sættum okkur við sorgina líka – afneitum henni ekki – því að þá erum við farin að lifa í blekkingu en ekki sannleika

Það er, enn og aftur, sannleikurinn sem frelsar.

„When you are at the your lowest point, you are open to the greatest change. Strength doesn’t come from what you can do, it comes from overcoming the things you thought you couldn’t do.“

1185179_423218941120300_1002824657_n