Sandkorn á strönd …

Ég ætla að skrá eftirfarandi niður, því ég vil að það geymist. – Ég fór á tímabili til konu í höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð, en hún hjálpaði mér mjög mikið með að fara í gegnum mínar tilfinningar. – Upphaflega vissi ég ekkert hvað þetta var, en ég var að leita mér hjálpar  vegna brjóskloss í baki, – en hvað það varðar hef ég ekki fundið fyrir því í mörg ár.   Hún setti hendina undir bakið á mér og hitinn leiddi niður í fót og ég man ekkert hvenær ég hætti að finna fyrir brjósklosinu, það bara gleymdist!

Ég er ein þeirra sem trúi því að tilfinningarnar okkar setjist að í líkamanum og veiki hann séu þær ekki virtar eða tjáðar. –  Ég trúi því,  því að ég hef upplifað það, aftur og aftur. –

Ég trúi því líka að áhyggjur geti ýtt undir sjúkdóma og við getum hugsað í okkur sjúkdóma. – Ekki viljandi auðvitað en óviljandi. –

Í fyrsta tímanum hjá þessari konu runnu fram minningar, – sem ég hafði steingleymt, en þær voru mjög sárar og tengdar litlum vini mínum sem hafði dáið þegar ég var fimm ára.  Þessu hafði ég alveg gleymt,  en þær minningar voru svo sannarlega ekki falskar heldur sannar og bældar. –  Ég hafði lifað með þá sektarkennd í maganum alla tíð, sem byggðist á því  að dauði hans væri á einhvern hátt mér að kenna, – en við höfðum átt í deilum einhverjum dögum áður en hann  dó.   –   Þetta var ranghugmynd barnsins, sem hafði tekið sér bólfestu. –

En þetta er bara inngangur. –  Eftir mörg skipti hjá konunni fór hún að „senda“ mig aftur í einhvers konar fyrri líf  (já ég upplifði það) og það var mjög sérstakt. –

Hún spurði mig og ég sagði frá, eins og ég væri að upplifa það. Ég upplifði það bæði andlega og líkamlega. –  Í eitt skipti sagðist ég vera sautján ára og byggi á einhvers konar Bordel í New Orleans –  ég sagðist vera með tæringu (notaði þau orð)  og í tímanum hóstaði ég eins og berklasjúklingur (án þess að ég væri með vott af kvefi). –

(Þegar ég var barn fékk ég alltaf jákvæð viðbrögð um það að ég væri með berkla, þ.e.a.s. eftir berklaplásturinn og þurfti því að fara í auka-test. – Þegar ég var 17 ára byrjaði ég með óskýrðan hósta, sem ég ætlaði aldrei að losna við, – ég fór til sérfræðings sem spurði mig hversu lengi ég hefði reykt, – ég sagði auðvitað „aldrei“ og var hneyksluð, enda með fóbíu fyrir reykingum. – En þá sagði hann: „Hálsinn á þér lítur út eins og á versta reykingamanni“)

.. Ég er alnafna Jóhönnu Magnúsdóttur, systur afa míns sem dó 17 ára úr berklum (var reyndar að muna þessa tengingu núna bara um leið og ég skrifa). –

Tilviljanir ofan á tilviljanir? –

En sú frásögn sem ég ætlaði aðallega að deila hér situr helst í mér. –

Ég upplifði það s.s. að ég væri stödd í helli, ég var ung kona á fyrstu öldunum eftir Krist – ég var í raun í felum og horfði út um hellismunnann.  Hellirinn var í fjalli. – Ég sá í fjarska eins og fólk væri að ferðast, þetta var þjóðvegur og mér fannst ég sjá fólk í fjarska sem var að ferðast þar um og ég sá sjóndeildarhringinn og hafið.  Litirnir voru sandgulir og bláir.  Engin borg framundan.  Konan spurði mig að nafni og ég sagðist heita Shiloh eða Shilou – borið fram Sjilú.  –

Hún spurði mig hvað ég væri að gera og ég sagðist vera að skrifa. –  Hún spurði mig þá hvað ég væri að skrifa, ég brást hissa við spurningunni og svaraði um hæl. „Sannleikann“ –  þetta svar kom sjálfri mér á óvart, – því að í þessari „dáleiðslu“ þá ertu í raun vakandi, en eins og áhorfandi að sjálfri þér. –

Ég var satt að segja steinhissa á öllu „bullinu“ sem kom upp úr mér og tilfinningunum sem ég fann. –

Ég man ekki eftir meira samtali, – en ég man að síðan breyttist þessi Shiloh og varð að gamalli konu, – en enn í hellinum. Hún var orðin þreytt og lúin og tilbúin að fara.  Ég upplifði það algjörlega.  Ég umbreyttist þá í einhvers konar hvítan gegnsæan fugl/fiðrildi – helst hægt að lýsa því sem hvítkornóttri slæðu –  og flaug af stað og það var svakaleg frelsistilfinning og kvaddi lúinn líkama Shiloh. –

Auðvitað gúglaði ég allt sem ég gat og fann ýmislegt þessu tengt.

Ég fann það sem heitir  Sannleiksguðspjall (hvort sem þessi skrifaði sannleikur var undir heitinu sannleikur eða ekki?) – sem var hluti af mörgum handritum sem fundust í Nag Hammadi á miðri síðustu öld –  og ég fann nafnið Shiloh sem er hebreskt. –  Ég fann reyndar ýmislegt fleira en fer kannski nánar út í það síðar.

Ég leyfði mér líka að efast og hugsa hvort að ég myndi svona margt í undirmeðvitundinni úr guðfræðináminu, – ég veit það ekki. – Ég mundi það  auðvitað ekki úr guðfræðináminu hvernig það er að deyja.   Hvort sem þetta er ég – sem er að upplifa fyrri líf eða ég að skynja aðra veru í fortíð, eða tilfinningar hennar,  þá var þetta mjög skrítið. –

Í dag veit ég a.m.k. hvað ég er að gera, og það er að ég er að leitast við að skrifa sannleikann.   Heiti bara Jóhanna og þeir sem þekkja mig vita að ég vil vel.  Ég hef séð margt og upplifað margt, ég man að ég sagði einu sinni frá einni af upplifuninni, fyrir mörgum árum og viðkomandi sagði: „Ekki segja neinum frá þessu,  fólk heldur að þú sért klikkuð“ – 😉 ..Fólk getur bara ráðið hvort það vill þekkja mig eins og ég er og með mína sögu. – Klikk eða ekki klikk. –

Hugurinn okkar er svakalega magnaður og líkaminn líka. –  Ég hef stundum fundið á mér það sem koma skal, – og ég veit að margir finna það líka, – en oft er það „tabú“  að ræða slíkt. –  Ég bið ekki um þetta og það kemur bara sem kemur og stundum kemur ekkert í langan tíma. –

Tenginginar á milli manna eru ekki bara í orðum, við skynjum. –  Sérstaklega er hægt að skynja þá sem eru í kringum okkur og náin. –  Einfaldasta myndin af því er þegar við hugsum til einhvers eða höfum tekið upp símann til að hringja í einhvern og hann hringir. –

Í Symphony of Science segir að við séum öll tengd hvrot öðru líffræðilega og jörðinni efnafræðilega –  það er spurning hvort það er bara núna eða hvort við erum tengd aftur í tímann og fram? –

Heimurinn er líka innra með okkur. -„Við erum leið heimsins til að þekkja sjálfan sig“ segir Carl Sagan. – Þeir sem líta á heiminn sem Guð, – segja að við séum leið Guðs til að þekkja sjálfan sig. –  Í gegnum okkur, tilfinningar okkar og reynslu.  Þess vegna hefur Guð upplifað ALLT og þekkir allt og getur sett sig í spor allra. –

Þegar ég sá meðfylgjandi myndband styrktist ég í trúnni, en fyndið að sonur minn styrktist í trúleysi sínu.  – Svona eru sjónarhornin okkar ólík – en í raun erum við bara með önnur orð.  Fyrir mér er heimurinn Guð,  en fyrir syni mínum er heimurinn heimurinn.  Það skiptir í raun engu máli og þegar upp er staðið stjórnum við engu um það.  Við erum bara örlítil sandkorn og risastórri strönd. –  En ef engin væru sandkornin væri engin strönd. –

Viðbót: – Flesta daga dreg ég úr lítilli fjársjóðskistu spjald, en kistan er kölluð „Fjársjóður hjartans“ – , – og ég spurði spurningar í morgun,  – „Var ég að gera rétt með því að segja frá þessu“ – og dró spjaldið:

„Börnin mín elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ –   Fyrsta Jóh. 3:18

Af hverju þurfa (flestar) konur fleiri skó en (flestir) karlar? …

Ég er kona og ég á skó …

Þetta er ekki frumleg yfirlýsing, en margir hafa spurt sig hvað þetta sé eiginlega með konur og skó? …

Ég hef líka spurt mig.

Eftir því sem ég hef farið dýpra í sáttina við lífið og sjálfa mig, og það sem raunverulega skiptir máli hef ég minni þörf fyrir nýja skó. –

Við göngum í óþægilegum skóm.

Támjóum skóm sem kremja og afmynda tær.

Háhæla skóm sem valda stundum tábergssigi og eru stundum svo óþægilegir að við erum að „deyja“ á dansgólfinu og þær sem virkilega langar að njóta dansins enda stundum með að kasta þeim af sér og dansa á sokkunum,  eða berfættar.

Við eltum tískuna. –

Einu sinni komu fótlaga skór í tísku, með breiðri tá og úr mjúku leðri. –  ummmm…

Ég á eina skó sem ég kalla í dag „fasteign á fótum“ – en ég keypti þá í KronKron fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan, í einhverju vanlíðunarkastinu (eyddi s.s. um efni fram!)    Ég var að átta mig á því að ég hef notað þá fjórum til fimm sinnum. – Það er slæm nýting,  svona eins og þegar fólk kaupir sér fellihýsi og fer bara í það einu sinni eða tvisvar á ári.

Síðustu skókaup mín voru í Danmörku sl. áramót, en það voru há rússkinsstígvél og það voru hagstæð skókaup, þau kostuðu um 300 krónur danskar,  voru flatbotna og þægileg – og stígvélin sem ég hafði átt áður og búin að láta sóla voru úr sér gengin.  Ég get alveg réttlæt þau skókaup. –

En á árum áður fór ég ekki til útlanda öðru vísi en að koma með nokkur pör af skóm heim. –

Í „nýja“ lífinu mínu þá hugsa ég miklu minna um dauða hluti, ég er alltaf hrifin að hafa fallegt í kringum mig og er alltaf hrifin af fallegum fötum. – En ég er orðin fimmtug og hef safnað miklu ég á nóg. –   Þegar ég opna fataskápinn í dag,  þá veit ég að ég á föt í við öll tilefni og sem geta enst ævina á enda. –

Líklegast heitir þetta nægjusemi. –

Ég viðurkenni að ég keyrði niður Laugaveg í gær og sá kjól í glugga og það fór einvher „kitla“ í gang, – að mig langaði í kjólinn, en hún varði bara í nokkrar sekúndur. –

Ég er komin yfir skófíknina. –  Á nokkra þægilega og góða skó sem fara vel með fæturnar á mér og það er nóg. –

Hamingja mín liggur ekki í skónum mínum.  –  Það er frelsi að langa ekki í skó, það er frelsi að upplifa að manni skortir ekkert. –

„I shall not want“ –   shoes….

Ég held að í raun sé þetta tilfinningatengt – við finnum til einhvers tilfinningatóms, okkur vantar lífsfyllingu og þá er bara spurning hvort að við kunnum að greina hana,  reynum að fylla hana með súkkulaði,  mat,  fötum eða skóm – það er jú „fixið“ – en hvað endist það lengi? –   Hvað dugar hvert par lengi? –

Hvenær er komið nóg af skóm? –

Tómir tilfinningapokar verða aldrei fylltir með skóm. –

„Bikar minn er barmafullur“ …  það þýðir ekki að maður meiki eða geti  ekki meira, eins og margir túlka það, –  þessi setning þýðir:

„Ég hef nóg“ ..

Íhugaðu málið næst þegar þig langar í skó, hvort það sé ekki eitthvað annað sem þig raunverulega hungrar í. –  Hvað er það í lífinu eða sem er ekki í lífinu sem við fáum þessa tilfinningu að langa í  veraldlega hluti? –   Er það nauðsynleg þörf eða bara löngun og hvers vegna er þessi löngun. –

Þetta gildir reyndar um næstum allt sem við kaupum sem dags daglega er talað um sem óþarfa eða lúxus. –

Hinn raunverulegi lúxus er að vera sjálfum sér nægur.  Að njóta nærandi tíma og samveru. –

Stundum þrælar fólk sólarhringa á milli til að kaupa hluti sem ekki vantar,  fylla geymslur og fataskápa þar sem hlutirnir gleymast og týnast og um leið týnir það sjálfu sér. –  Hefur hvorki tíma né andrými fyrir sig né aðra,  jafnvel ekki börnin sín. –

Skórnir eru bara ein birtingarmynd. –

Hvað áttu mörg pör af skóm og hversu mörg þeirra eru í notkun?

Í þessu sem öðru er meðalhófið best,  við þurfum skó til að ganga á,  spariskó, vetrarskó, hversdagsskó, íþróttaskó, stígvél, gönguskó ….   ég veit um marga karlmenn sem eiga ca.  3-5 pör af skóm og eru sáttir. –  Svo þegar aðalskórnir eru úr sér gengnir,  er stundum keypt annað par – alveg eins,  því þeir voru svo þægilegir! 😉

Af hverju ganga karlmenn ekki í háum hælum? – Af hverju ganga þeir ekki í skóm sem eru þröngir eða meiða? –

Af hverju þurfa konur fleiri pör af skóm er karlmenn?

Ath! – Það eru til undantekningar,  en ég er hér að tala um það sem er algengast. –

p.s. þetta eru flottir skór,  en þeir breyta þér ekki –  þú ert alltaf jafn dásamleg. –

Ef hamingjan er hestur …

Þessi pistill er framhaldspistill frá þeim á undan – um „hamingjuforskotið“ –  en hann byggir á því að hamingjan sé forsenda árangurs.

Hamingjan dragi vagninn en ekki vagninn hamingjuna. –

En ef að hamingjan er hestur,  á hverju fóðrum við hestinn? –

Nú er ég ekki hestamanneskja, þó ég hafi prófað hestamennskuna – „my way“ sem þýddi það að ég byrjaði á öfugum enda, – fór í reiðtúr yfir Kjöl 😉 …   en ég get ímyndað mér að hestur þurfi góða aðhlynningu og hollt fæði svo hann haldi heilsu og orku. –

Hestur í þjónustu manna þarf örugglega á að halda góðri ummönnun, næringu, hreyfingu og útiveru.  Hann þarf að rækta og sinna. –

Ef við viljum ná árangri í samskiptum, í starfi, heilsufarslega, í sköpun o.s.frv. –  þurfum að setja það í forgang að sinna og velja hamingju okkar. –  

 

 

– Við þurfum að næra og rækta hamingju okkar til að hún flytji okkur árangur. –

Hamingjuforskotið … er hægt að auka hamingju sína?

Stutta útgáfan fyrir þau sem ekki vilja lesa allt:

 • Hamingja er forsenda árangurs í starfi, heilsu, samskiptum, sköpunar, orku o.s.frv.  en ekki öfugt.
  • Við getum mótað heilann m/hugarfari
  • Skrifaðu niður 3 atriði á hverju kvöldi sem hafa veitt þér gleði yfir daginn (þurfa ekki að vera stór)
  • Það sem þú veitir athygli vex, jákvæðni vex þegar við veitum hinu jákvæða athygli =  meiri hamingja sem leiðir af sér meiri árangur í lífi og starfi.
 • Og svo langa útgáfan:

Happiness is the key to success. If you love what you are doing, you will be successful.“Albert Schweitzer.

„Hamingjan dregur vagninn en ekki vagninn hamingjuna“ – (nýjasti uppáhalds frasinn minn)

þetta eru gömul sannindi og ný. – Það  þýðir að við eigum ekki að bíða eftir að ná árangri  (ef, þá, þegar o.s.frv.)  til að öðlast hamingju.   Í  gær rakst ég á góðan pistil sem segir frá bók um þessi málefni en ég ætla að snúa honum snöggvast yfir á Íslensku og kannski bæta inn í eftir eigin hjarta. (Ætlaði að skrifa höfði, en ég er líka að æfa mig að skrifa frá hjarta en ekki aðeins höfði ;-))

(orginalinn – svo þið haldið ekki að ég hafi fundið upp pistilinn – eða hamingjuna – segðu!!! 😉  .. er hægt að lesa ef smellt er HÉR)

Það eru svo sem ekki ný sannindi fyrir okkur að hamingjusamt starfsfólk er betra starfsfólk, – þetta gildir auðvitað líka um námsmenn – og svo bara fólk almennt í daglegu lífi. –

Shawn Achor skrifar bókina „The Happiness Advantage“ árið 2010. –  Við getum e.t.v. kallað hana Hamingjuforskotið

Í bókinni talar höfundur um hvernig hamingjusamir starfsmenn geta bætt starfsemi fyrirtækisins.  Við höldum oft að ef við vinnum nógu mikið og náum ákveðnum árangri ÞÁ verðum við hamingjusöm.

Það hefur verið hinn hefðbundni hugsanagangur. Alveg eins og sú hugmyndafræði að það að missa x mörg kílió geri okkur hamingjusöm. –

En höfundur færir rök fyrir því að formúlan sé öfug.  Í stað þess að setja árangur sem forsendu hamingju, setur hann hamingjuna sem forsendu árangurs. –

Í ár birtir Harvard Business Review niðurstöður úr 225 rannsóknum sem styðja það að hamingjusamir starfsmenn hafa 31%  meiri framleiðni, 37% hærri sölu, og þrisvar sinnum meiri sköpunarkraft. –

Í bókinni stendur:

“happiness leads to success in nearly every domain, including work, health, friendship, sociability, creativity, and energy” (Achor, 2010, p. 21).

Hamingjan er leið til árangurs á næstum hvaða sviði sem er, vinnu, heilsu, vináttu, félagslega, í sköpun og orku. –

Það besta sé að við getum öll tileinkað okkur jákvæða hugsun og glaðlegra viðhorf.   Jeiiiiiii…. 😉

Heili mannsins er stórkostlegur vegna þess að hann hefur eitthvað sem vísindamenn kalla „neuroplasticity“    stórt orð sem þýðir að heili okkar er mótanlegur eða sveigjanlegur — er hæfur til að breytast og aðlagast í gegnum lífið.

Eitt gott ráð sem Achor bendir á bók sinni er aðferð sem er kölluð „Tetris áhrifin“ – aðferð við að þjálfa heilann í að einbeita sér á hið jákvæða í stað hins neikvæða í lífinu.

Hann mælir með eftirfarandi:

Skrifaðu niður þrjá góða hluti í starfinu og lífinu sem gerðust í dag (gerðu þessa æfingu á hverjum degi).  Þetta þvingar huga þinn til að líta til baka yfir daginn að jákvæðum atriðum og möguleikum. Þessi þrjú atriði geta verið einföld og lítil – eitthvað sem fékk þig til að brosa eða hlægja,  eitthvað sem gaf þér tilfinningu fyrir árangri eða von o.s.frv.  Það þarf ekki að vera neitt djúpt eða hátíðlegt, aðeins eitthvað sérstakt. –

Gerð var rannsókn á fólki sem gerði þetta og niðurstaðan var: „Þeir sem skrifuðu niður þrjá góða hluti á dag í viku voru hamingjusamari og minna þunglyndir í eftirfylgni eftir mánuð, þrjá mánuði og sex mánuði.“ – (þetta stendur víst á bls. 101 í bókinni.)

Lexían er þessi:   Þess betri sem við verðum að skanna (veita athygli) hlutum til að punkta niður,  verður það að vana að við förum að sjá fleiri góða hluti.  Mælt er með að til að halda sig við þessa æfingu, að gera það á sama tíma á hverjum degi.

Við hér á Íslandi höfum nú flest heyrt frasann:

„Það sem þú veitir athygli vex“ – en það er gott að fá „tæki“ til að læra að þjálfa heilann í hamingjunni 😉

Þetta var bara ein æfing sem var sagt frá hér, – það er hægt að þjálfa heilann á fleiri máta, – eins og að æfa sig í að tala ekki illa um aðra, baktala, öfunda, rægja o.s.frv. – því að í raun erum við að tala illa um okkur sjálf. –   Á sama hátt þurfum við að hætta að tala niður til okkar sjálfra, og í stað þess að tala fallega við okkur, það er „móteitrið“ við niðurbrjótandi röddinni – eða púkanum á öxlinni. – þessum sem segir „Hvað þykist þú vera“ – „Hvað þykist þú ætla að gera“  „Þú er ekki verðug/ur – átt ekkert gott skilið“  „Þú gerir aldrei nóg“  o.s.frv….

Ég ætla að prófa þessa „hamingjutilraun“ sjálf.  Þ.e.a.s. að taka eftir þremur góðum hlutum til að skrifa niður seinni partinn, og skrifa þá niður í „hamingjubók“  😉 … og safna þannig góðum minningum og styrkja heilann (og hjartað)  fyrir hamingjuna. –

Fyrir þig – og fyrir fyrir þína,  láttu ljós þitt skína.

Viðbót 31. október 2012,  – ég er löngu byrjuð á þessu og farin að kenna þessa aðferðafræði.  Niðurstaða:  Hún virkar og ég hef heyrt allt upp í það sem kalla má „kraftaverkasögur“ ..  😉

Hlæðu með þér, gráttu með þér, stattu með þér …. alla leið – það má!

Hver og ein manneskja ber ábyrgð á sínum viðbrögðum,  líðan og farsæld,  – en að sjálfsögðu eru þarna undantekningar eða ákveðinn „afsláttur“ af ábyrgð ef að um t.d. barn er að ræða eða brotna eða sjúka manneskju. –  Foreldrar og samfélag bera saman ábyrgð á börnum og þeim sem ekki geta borið fulla ábyrgð,  – og okkur ber ábyrgð,  þegar við finnum að við treystum okkur ekki til að bera hana ein, að leita okkur hjálpar þegar á því er þörf.

Það skal taka fram að við þurfum sérstaklega að varast að taka ekki ábyrgðina af fólki sem á að hafa hana, getur það og vill.  Börn hafa alltaf einhverja ábyrgð og hún eykst með hverju árinu.  Við megum ekki og eigum ekki að gerast þjófar á þroska þeirra með að taka af þeim þá ábyrgð sem þau geta tekið sjálf. –

Við vitum alveg að tveir einstaklingar geta lent í svipuðu áreiti en annar tekur því vel (eða bara lætur það fram hjá sér fara) en hinn fer alveg í klessu. –  Hvað veldur því að tuttugu hrós geta gufað upp og orðið verðlaus fyrir einni gagnrýni? –  Er það ekki viðhorf þess og viðkvæmni þess sem tekur við,  að veita athygli því neikvæða og samþykkja það?  –  Líka ef að gagnrýnin er réttmæt, hvernig væri að taka henni – fyrirgefa sér og vinna úr því í framhaldi? –  Er betra að sökkva sér niður í sjálfsvorkunn, reiði, gremju,  út í sjálfa/n sig og/eða aðra? –  Og hvað varð um öll tuttugu jákvæðu atriðin.  Eru þau ekki lengur samþykkt? –

Við getum hugsað okkur samskipti,  þar sem annar aðilinn er með leiðinlegar athugasemdir og hinn aðilinn þegir bara og tekur allt inn á sig og brotnar hægt og bítandi niður.  Stundum reiðist hann gífurlega þegar dropinn fyllir mælinn,  springur – en svo byrjar allt upp á nýtt. –

Við getum séð þetta fyrir okkur sem veiðimann sem veifar veiðistöng með agni á önglinum.  Okkar verkefni er þá að vera ekki eins og fiskurinn sem bítur á og engist um, heldur að hafa skynsemi til að gera okkur grein fyrir því sem gerist EF við bítum á.  Við segjum því „nei takk“ – þetta er mér ekki bjóðandi, eða hreinlega látum öngulinn dingla og veiðimanninn engjast því að hann nær engu. –

Þegar við erum farin að upplifa gremju í samskiptum við annað fólk,  þá erum við farin úr „presence“ – úr jafnvæginu okkar, – og það er ekki það sem við viljum.  Þess vegna er mikilvægt að við setjum okkur mörk,  við tökum gagnrýni og nýtum það sem er uppbyggilegt en hendum hinu.  Ef við tökum gagnrýni illa,  í staðinn fyrir að nýta hana uppbyggilega þá erum við að leyfa öðrum að stjórna okkar lífi og verðum eins og strengjabrúður umhverfisins.   Stundum er talað um að vera með leigjanda í höfðinu sem borgar ekki leigu! –   Hver er leigusalinn? – Hver hleypti honum þarna inn. – Hvers er ábyrgðin? –

Hér þarf líka að minnast á hinn gullna meðalveg. –  Við eigum ekki að þurfa að tipla á tánum í kringum fólk  „walking on eggshells“ – er það kallað á útlenskunni. –   En á móti, gilda orð Einars Benediktssonar „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ –

EN ekki gleyma því,  enn og aftur,  að þú ert líka þessi sál. –

Af hverju gerir ekki einhver eitthvað,  spyrjum við oft og bendum í allar áttir.   Hvað með mig,  hvað með þig? – Erum við ekki einhver? –   Við getum ekki breytt fólki,  en við getum breytt sjálfum okkur og við getum valið okkur viðbrögð.  Það tekur að sjálfsögðu tíma,  en ef við hugsum í hvert skipti sem við upplifum gremju út í einhvern eða einhverjar aðstæður til veiðimannsins og öngulsins, – því að  veiðimaðurinn þarf ekkert bara að vera einhver persóna,  heldur geta það verið aðstæður sem eru okkur skaðlegar og við þurfum að velja okkur frá. –   Ath!  Aðstæður geta bæði verið huglægar og veraldlegar. –  Það er ekki nóg að flýja úr húsi ofbeldismannsins ef að hann fær enn leyfi til að gista í hausnum á okkur. –

Niðurstaða mín eftir vinnu með fólki er því að því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir ábyrgð á eigin líðan, eigin hamingju og að horfa inn á við,  því betra taki náum við á tilverunni,  verðum sterkari.  Förum ekki í fýlu eða gremju – því að það bitnar mest á okkur sjálfum og smitar reyndar oft út í ranga aðila,  þá sem okkur þykir vænst um.

Viljum við það? –

Hamingja og farsæld virkar eins,  hún smitar til okkar nánustu.

Hamingja þín er hamingja mín og öfugt.  Ef við getum ekki láð annarri manneskju það að vera hamingjusöm,  þá þurfum við að líta í eigin barm. –   Erum við þá upptekin af okkur sjálfum, eða erum við í raun uppteknari af hinni manneskjunni – leigjandanum í hausnum á okkur? –

„Get a grip“ –  eða taktu þér tak og leyfðu þér að upplifa hamingju dagsins í dag,  hamingjunni með að búa í þér og hafa leyfi og val til að reka út alla óæskilega leigjendur úr þínum kolli. –  Líka þá sem sitja þar enn frá bernskunni,  frá unglingsárum eða einhverja sem valda þér vanlíðan í dag. –   Svo þarf að halda vöku sinni, – ekki gleyma sér eins og sá sem flýtur sofandi með opinn munninn,  svo að agn veiðimannsins hefur greiða leið. –

Við verðum að lifa með vitund – ekki án vitundar. –

Gráttu með þér,  hlæðu með þér,  stattu með þér … alla leið. –   Það má!

Að ÞORA, VILJA og GETA breytt tilveru sinni ..

Hvað erum við að gera þegar við breytum tilveru okkar og hvað er það að vera til? –  Eða bara að vera? –

Ertu að sýnast eða vera? –

Hvað er þessi sögn „að breyta“ – að segja? –

Breyta er komið af orðinu braut og þess vegna er meira að segja y í orðinu breyta  au verður ey – i hljóðvarp! …

En hér er málfræðin ekki fókusinn,  heldur þetta að breyta yfir á aðra braut. –

En hvenær er tími til kominn að skipta um braut? –

Hugmyndir:

 • Þegar brautin sem við erum á er skaðleg?
 • Þegar brautin sem við erum á er leiðinleg?
 • Þegar á brautinni er fólk sem hindrar okkur í að ná árangri eða farsæld?
 • Þegar brautin býður bara upp á sársauka? –

Af hverju höngum við á þessari braut – á þessum vegarslóða sem er okkur e.t.v. helvíti og leiðir ekkert annað? –

Hugmyndir?

 1. Við gerum okkur ekki grein fyrir aðstæðum því þær eru orðnar samdauna okkur (vani)  og við sjáum því ekki ástæðu til að breyta.
 2. Við kunnum ekki að breyta
 3. Við ÞORUM ekki að breyta
 4. Við viljum ekki gera öðrum það að breyta
 5. Við eigum ekki skilið að breyta
 6. Þín ástæða? …

Já, – í fyrsta lagi þurfum við að sjá sársauka okkar,  skynja hann og vera vakandi,  það er í raun forsenda breytinganna.  Í öðru lagi þurfum við að hafa vilja, hugrekki, kunnáttu, – e.t.v. utanaðkomandi stuðning til að breyta? –

Við þurfum líka að vita og sjá hverju við getum breytt og hverju ekki. –  Við þurfum að þora að hrista af okkur púkann sem hvíslar;

„Hvað þykist þú vera, þú nærð aldrei árangri – þú nærð aldrei farsæld“…

Púki sem stöðvar okkur þegar við erum kannski um það bil að stíga upp úr djúpum farvegi. –  „Æ neee … best að halda bara áfram á sömu braut – ég veit þó hvað ég hef hér“ .. Þarna ertu gyrt/ur með belti og axlaböndum, – og missir því ekki buxurnar niður um þig – þannig að allir sjái nekt þína. –   Sést kannski bara alveg hver þú ert? –  Allar varnir farnar og skjöldur fullkomleikans líka. – Þú varst svo fullkominn í því sem þú varst í, eða var það bara fullkominn leikur? –  Við vitum að engin/n getur verið fullkominn svo það hlýtur að vera leikur – er það ekki? –

– Varstu ekki bara að sýnast – í stað þess að vera?

Úff hvað það væri nú hræðilegt að standa óvarin! –  Bara eins og Adam og Eva í aldingarðinum forðum. –  Þegar þau uppgötvuðu að þau voru nakin,  földu þau líkama sinn. –  Af hverju skömmuðust þau sín fyrir líkama sinn þó þau stælust til að borða ávöxt? – Það er reyndar önnur saga,  eða hvað? –

Heldur þú að þú stæðir nakin/n – grímulaus e.t.v. ef þú færir upp úr gamla farveginum,  örugga – þar sem þú ert í gamla hlutverkinu og leikur sama leikinn dag eftir dag? –  Ertu kannski örugg/ur í gamla hlutverkinu, veist að hverju þú gengur? –

„Fullkomleiki er 20 tonna skjöldur, sem við dröslum með okkur, og ímyndum okkur að hann muni vernda okkur, þegar hann í raun er hluturinn sem hindrar okkur að vera séð og að ná flugi.“– Brené Brown

Hún segir einnig:

Þegar við búum í samfélagi þar sem yfir flæða væntingar sem vonlaust er að uppfylla, væntingar um allt milli himins og jarðar, frá því hversu mörg kíló við eigum að vera til þess hversu oft í viku við eigum að stunda kynlíf, þá er ógnvekjandi að leggja frá sér varnarskjöldinn.

Að finna hugrekkið, ástríðuna og tenginguna við að flytja sig frá hugsuninni „Hvað ætli fólk hugsi“? yfir í „Ég er nóg.“ það er ekki auðvelt. En hversu hrædd sem við erum við breytingar, kemur að því að við verðum að svara eftirfarandi:

„Hvort er meiri áhætta? Að sleppa því sem fólk hugsar – eða að sleppa því hvernig mér líður, hvernig ég trúi, og hver ég er?

Hvernig búum við okkur undir hugrekki, ástríðu og tengingu sem við þurfum til að höndla okkar eigin ófullkomleika og að viðurkenna að við erum nóg – að við séum verðug ástar, að tilheyra og verðu þess að njóta gleði og farsældar?

Hvers vegna erum við öll svona hrædd við að láta hin sönnu okkur vera séð og þekkt?  Hvers vegna erum við svona lömuð yfir því hvað aðrir hugsa um okkur?

Eftir áratuga rannsóknir Brene Brown á berskjöldun, skömm, og því að vera ekta,  hefur hún uppgötvað eftirfarandi:

„Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra. Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik. Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.“

Í rannsóknarviðtölum sínum, komst hún að því að aðeins einn hlutur aðskildi konurnar og karlana sem upplifðu djúpstæðar tilfinningar ástar og þess að tilheyra frá þeim sem voru að berjast við það.

Það var verðmætamat þeirra.

Það er eins flókið og einfalt og eftirfarandi: Ef við viljum upplifa að fullu ást og það að tilheyra, verðum við að trúa að við séum verðug ástar og að tilheyra einhverjum. Stærsta áskorunin fyrir okkur flest er að trúa að við séum verðug núna, á þessari mínútu.

Það eru engin skilyrði fyrir verðmæti. Mörg okkar hafa skapað lista fyrir forsendum verðmætis:

* Ég verð vermæt/ur þegar ég hef misst 10 kíló

* Ég verð verðmæt ef ég verð ófrísk

* Ég verð verðmæt/ur ef ég verð/held mig edrú

* Ég verð verðmæt/ur ef allir halda að ég sé gott foreldri

* Ég er verðmæt/ur ef ég hangi áfram í þessu hjónabandi

* Ég verð verðmæt/ur ef ég næ í flottan maka

* Ég verð verðmæt þegar foreldrar mínir samþykkja mig loksins

* Ég verð verðmæt/ur þegar ég get gert allt, og það lítur út fyrir að ég sé ekki einu sinni að reyna.

Hér er það sem er í raun kjarninn í því að lifa af heilu hjarta:

Verðmæt/ur núna. Ekki EF. Ekki ÞEGAR. Þegar við erum verðug ástar og þess að tilheyra núna. Þessa mínútu. Eins og er. Að sleppa forsendunum fyrir verðmæti þýðir að ganga hinn langa gang frá “ Hvað heldur fólk?“ til þess: „Ég er nóg.“ En eins og öll mikil ferðalög, hefst þessi ganga á einu skrefi, og þetta fyrsta skref í göngunni að heilu hjarta er að æfa sig í hugrekki.

Rót orðsins „courage“ á ensku er er latneska orðið cor – fyrir hjarta. Í fyrri tíma skilgreiningu hafði orðið „courage“ aðra skilgreiningu en það hefur í dag. Það hafði upprunalega þá þýðingu að segja huga sinn, með því að tala frá hjartanu. Það stemmir ágætlega við íslenska orðið hugrekki, að segja hug sinn. Í tímans rás hefur skilgreiningin breyst og í dag á hugrekki meira skylt við hetjuskap.

Hetjuskapur er mikilvægur og við þurfum sannarlega á hetjum að halda, en Brené Brown telur að við höfum misst tenginguna við það að tala einlæglega og opinskátt um hver við erum, um tilfinningar okkar, og um reynslu okkar (góða og slæma) – það sem er skilgreining á hugrekki. Hetjuskapur er oft um það að leggja lífið að veði. Hugrekki er um að leggja berskjöldun okkar að veði – að fella varnir okkar. Ef við viljum lifa og elska af heilu hjarta og taka þátt í tilverunni þar sem við erum verðmæt, af sjónaróli verðugleikans, er fyrsta skrefið að æfa hugrekkið að vera saga okkar (skammast okkar ekki fyrir líf okkar) og segja sannleikann um það hver við erum.

Meira hugrekki er ekki hægt að hugsa sér.“ —

Þori ég, Get ég, Vil ég? – Sungu konurnar hér um árið sem voru sem hugrakkastar í kvenfrelsisbaráttunni. –  Já „frelsis“ – frelsis upp úr fari sem þær voru ósáttar við. –   Þær vildu breyta.  Þær peppuðu sig upp með söng og samstöðu. –

Þorir þú,  getur þú, vilt þú vera (til) eða sýnast? –

Um æðri mátt …

Margir sem leita til mín eru að íhuga það sem kallað er æðri máttur, – en það er það sem ég og margir kalla dags daglega Guð. –  Ástæðan fyrir því að fólki „líkar betur“ við hugtakið æðri máttur en Guð er að guðsmyndin er oft orðin fyrir þeim hálfónýt,  þar sem það er mynd af dæmandi Guði,   Guði hefndar – og jafnvel mjög fjarlægum Guði. –

Í lokuðum hópi í gær fór umræðan um almætti Guðs og kærleikann hátt, og sýndist sitt hverjum og allir höfðu rétt fyrir sér (að mínu mati) –  því að í raun getur engin/n sagt okkur hvernig Guð er,  eða æðri máttur,  en það er hægt að segja frá sinni mynd og þegar við förum að tengja okkur við ákveðna mynd og skilja/þekkja æðri mátt þurfum við ekki að spyrja lengur,  við bara finnum og skynjum. –

Nýlega heyrði ég þá tilgátu að þegar við létum annað fólk eða leyfðum því að vekja með okkur gremju,  og þá stjórna lífi okkar og tilfinningum, værum við að gera það að okkar æðra mætti og þá væri ekki pláss hinn raunverulega æðri mátt. –

Ég hef vanið mig á að byrja daginn með einhverju fallegu, hlusta á fallegan boðskap á Youtube,  lesa bæn, hugleiða – og í morgun dró ég úr „Fjársjóði hjartans“ en það eru spjöld sem nýbúið er að gefa út og fást í Kirkjuhúsinu, – þar sem falleg ritningarvers leiða mann inn í daginn og aftan á spjaldinu er bæn. – Tilviljun? – Ég sem var að ræða Guð og æðri mátt í gær, og þar að auki að skrifa um mikilvægi þekkingar/reynslu í pistli á mbl.is –

Spjaldið sem ég dró segir: „Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt.“ –  1. Jóh. 3:20

Í huga mér kom upp mynd af okkur krökkunum í kringum pabba, – en ég minnist þess að hann var að lesa framhaldssögu fyrir okkur, en hún heitir einmitt „Mamma skilur allt“ –

Börn upplifa oft Guð sem foreldri sem klikkar ekki, sem elskar þau skilyrðislaust og þannig á það auðvitað að vera. – En við þekkjum auðvitað að þar getur brugðið útaf. –  Guð hefur það fram yfir mömmur og pabba – og hvern sem er að hann getur sett sig algjörlega í okkar spor. – Það sem er enn mikilvægara er að almætti hans felst í því að gera það sem við getum oftast ekki,  það er að elska okkur og náungann skilyrðislaust og fyrirgefa. –

.. Þegar börnin mín voru lítil sagði ég við þau að ef að þau bæðu bænirnar fyrir svefninn, myndi þau dreyma vel. – En svo gerðist auðvitað hið óumflýjanlega, að barnið sem var fullt af trúnaðartrausti til móður og til Guðs, vaknaði einn morguninn og sagði „mig dreymdi illa, SAMT bað ég bænirnar mínar.“ – Ég hafði s.s. lofað upp í ermina á sjálfri mér og Guði sjálfum og barnið varð auðvitað eitt spurningarmerki, bað ég ekki nógu heitt? – Elskar Guð mig ekki nógu mikið? Er mamma að plata? Á ég ekki skilið að dreyma fallega? .. o.s.frv.

– Það hefði verið  réttara að segja við barnið að við biðjum Guð að vera með okkur í draumunum okkar, og ef okkur dreymir illa, fáum jafnvel martröð, er Guð þar líka og upplifir hana með okkur, þannig að við séum aldrei ein og Guð skilji okkur 100% hvort sem okkur líður vel eða illa. –

Bænin aftan á spjaldinu sem ég dró er eftirfarandi:

„Guð, ég þakka þér fyrir allt sem þú getur gert i okkur og fyrir allt sem þú getur gert án okkar,  Hjálpaðu okkur að hvíla í þér. -“ 

Þetta er það sem kallað er að gefa sig æðra mætti, – „Surrender to God“…   Ég vil ekki kalla það uppgjöf,  í hefðbundnum skilningi, heldur er það miklu líkara sátt.  Að sættast við Guð,  í stað þess að glíma við Guð. –

Eins og ég tók fram í upphafi, þá er engin/n sem getur sagt okkur hver okkar æðri máttur er eða hver Guð er fyrir OKKUR. –

Það er mikill friður og frelsun að hvíla í Guði/æðra mætti, – eða jafnvel því sem sumir kalla og talað er um í Biblíunni því sem ER.  Því Guð bara er.   „I AM“ –   „ÉG ER“  –  og það er alveg nóg.

-Mamma verður aldrei Guð,  pabbi verður aldrei Guð,  þú verður aldrei Guð, – manneskja verður aldrei Guð,  því að manneskja getur aldrei þekkt allt eða skilið allt,  hversu mikið sem hún leggur sig fram.  En eftir því sem manneskja hefur meiri samhug, sýnir meiri einlægan skilning sýnir hún meiri þroska. – Dómharka er aftur á móti andstæðan, dómharkan er þroska- eða þekkingarleysi – og þá líka dómharka í eigin garð.  –

Sá sem hefur þroska og þekkingu hefur líka skilning. –

Sumir telja að eina leiðin til að öðlast þennan þroska og öðlast visku sé í gegnum lífsreynsluna – jafnvel sársaukann,  en við getum lagt okkur fram við að skilja og dæma ekki, án þess að þurfa að hafa gengið í gegnum alla þjáninguna sjálf. – Við náum langt og við náum þroska, en við getum aldrei og viljum aldrei þurfa að ganga í gegnum alla mögulega þjáningu. –

Við getum ekki verið okkar eigin æðri máttur, – eða okkar Guð, vegna þess að það liggur í orðanna hljóðan.  Æðri máttur er máttur sem hefur gengið í gegnum allar sorgir mannlegs lífs og alla gleði og er enn að.  –  Enginn mannlegur máttur hefur möguleika á því. –  Engin manneskja er fullkomin og engin manneskja getur ætlast til þess að hún sé fullkomin og við megum ekki dæma okkur fyrir það að geta ekki allt sem Guð eða æðri máttur getur. –  Við erum mannleg og eigum að fagna mennsku okkar og virða það að við erum takmörkuð,  en fagna því jafnframt að geta hvílt í Guði eða æðra mætti og skilyrðislausri elsku hans. –

Eftirfarandi er bútur úr kærleiksóð Páls Postula, en margir upplifa það að Guð sé kærleikur og ég leyfi mér hér að skipta út orðinu kærleikur og setja Guð í staðinn. –

Guð er langlyndur, hann er góðviljaður. Guð öfundar ekki.
Guð er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Guð hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Guð gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Guð fellur aldrei úr gildi.

Ef þú smellir hér er tengill á pistil sem ég vitna í að ofan og tengist þessum pælingum um þekkinguna og skilninginn. –