Þroski og breytingar …

Í námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ hef ég flutt fyrirlestur sem ber heitið „Sorgarferli verður að þroskaferli“ –  sem vísar að sjálfsögðu í þroskann sem verður í gegnum sársaukann og ekki síður sem verður við breytinguna. –

Stundum veljum við breytinguna,  en stundum er hún þvinguð upp á okkur. –

Við viljum, að sjálfsögðu, fá að velja okkar breytingar, en þannig gengur heimurinn ekki alltaf fyrir sig.  Um sumt höfum við ekkert val og þá verðum við að læra sáttina. –

Við getum ekki breytt veðrinu,  en við getum klætt okkur út í veðrið og stundum höfum við tækifæri til að færa okkur úr stað, þ.e.a,s. að fara þangað sem veðrið er öðruvísi.  Oftast er það nú frá snjóbyl og myrkri í sól og hita sem hugurinn leitar. –  En það er önnur umræða.

Segjum að við höfum ekki möguleika á að koma okkur „í líkama“ burt úr veðrinu,  þá er eina leiðin að gera það andlega, eða a.m.k. breyta viðhorfi okkar til þess, og þannig upplifa sól og hita innra með okkur,  þessa sem við þráum svo mikið og hugsum til. –

Stundum verða breytingar sem við viljum ekki, þær sem eru þvingaðar upp á okkur, – líka hlutir sem við eiginlega neyðumst til að velja – eins og að velja skilnað frá maka.  Það er aldrei valið á upphafsreit sambands, a.m.k. ekki ef farið er í sambandið á réttum forsendum. –

Stundum er dembt yfir okkur breytingum, – vinnustaðurinn er seldur og við þurfum að skipta um vinnu.  Tækninýjungar hellast yfir og við þurfum að aðlagast og uppfæra okkur,  eins og þær uppfærast.  „Ný útgáfa af Firefox“ – nýtt tölvukerfi o.s.frv. –  Einu sinni vann ég við bókhald og kunni bara vel á kerfið,  svo var ákveðið að taka upp nýtt kerfi og ég fylltist óöryggi og hræðslu, – „Oh, ég kunni svo vel á hitt“ –  en smám saman lærði ég á nýja kerfið. –

Við getum verið farin að mastera einhvern leik hér á Facebook, en ætlum við að hanga endalaust í honum eða prófa nýjan leik og vera eins og byrjendur? –

Ég held mér að vísu frá þessum leikjum því margir eru fíknivaldandi, – held mig bara við fíknina við að tjá mig skriflega 😉 ..  – og reyndar munnlega líka –

Hvað sem er þá höfum við yfirleitt gott af breytingum en erum misvel búin til að aðlagast eða taka  á móti þeim. –  Við vitum að það er til fólk sem gengur alveg úr skaftinu við minnstu breytingar og hvað þá ef þær eru með stuttum fyrirvara.  Reyndar er það einkenni þeirra sem eru með ýmsar greiningar,  eins og ADHD sem þola illa breytingar og hvað þá illa undirbúnar eða óvæntar. – Heimurinn fer á hvolf.

Við þurfum reyndar ekkert að vera með neinar greiningar til að pirra okkur á breytingum sem eru illa undirbúnar eða við upplifum okkur í óhag.

Lífið er breytingum háð og lífið er flæði. –

Breyting er komið af „braut“ – og við flæðum eftir þessari braut breytinga.  Það gerist yfirleitt hægt,  umhverfið breytist, við eldumst, fólkið í kringum okkur breytist og eldist,  sumir deyja og aðrir koma í staðinn,  eins og segir í ljóðinu Hótel Jörð. –

„Lifið er undarlegt ferðalag“ –

Ef við höngum of lengi á sama punktinum, förum við oft að verða óróleg eða fer að leiðast. –

Þá þurfum við að þora að  stokka spilin og sjá hvað við fáum á hendi.  Stundum fáum við góð spil til að spila úr og stundum slæm.  Kannski hendum við því sem við fáum og tökum „mannann“ –  (manninn er aukabunki í spili sem heitir Manni, ef einhver þekkir það ekki).   E.t.v. er manninn betri og e.t.v. verri.  En við sitjum uppi með að spila úr spilunum og gera það besta sem við getum úr þvi. –
 
Svo þegar það spil er búið fáum við aðra gjöf og spilum úr henni. -Svo virðist sem heimurinn sé að breytast hraðar og hraðar.  Heimurinn sem ég ólst upp í var miklu hægari og einfaldari að mörgu leyti.
 
Afþreyingar eru miklu fleiri í dag, fleiri rásir útvarps og sjónvarps og fleiri fjölmiðlar yfir höfuð.  Vegalengdir hafa styst,  firðir brúaðir og göng grafin undir sjó og gegnum fjöll. –  Mataræðið frá soðnum fiski með kartöflum og hamsa yfir í kjúkling, sætar kartöflur og hvítlaukssósu. –
 
Fulllt, fullt af breytingum og á ógnarhraða eiginlega. -Við getum spornað við breytingum, – en að einhverju leyti er betra að fara með flæðinu „go with the flow“ – að sjálsögðu með vitund en ekki í meðvitundaleysi og að sjálfsögðu með athygli en ekki tómlæti.  Bæði í eigin garð og í garð náungans. –
 
Leyfum breytingunum að þroska okkur.  Breytingarnar eru skóli og flest erum við að fara í gegnum margar háskólagráður í þessum lífsins skóla á okkar lífstíð,  með það sem að hendi ber. -Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og sagt að heimurinn sé ekki að breytast, – sem betur fer er mikil vitundarvakning í gangi, – kannski vegna þess að margir vondir hlutir hafa ýtt okkur til að hugsa okkar gang.  Hafa ýtt við þroskaferli heimsins til að fara að sýna meiri samhug og vináttu í garð hvers annars,  í stað samkeppni og dómhörku.
 
Við getum ekki veitt hinu óumbreytanlega viðnám,  það skapar aðeins spennu í okkur sjálfum. –  Viðnám við veðri og viðnám við því sem er skapar vandræði. –
„Accept what is“ segir Tolle og það er það sem hann meinar.   En um leið og við samþykkjum það sem er,  höfum við valið um viðhorf.
 
Ég heyrði góða dæmisögu í gær,  um val- eða ákvörðunarkvíða.
 
Maður var staddur á veitingahúsi,  það var svo margt á matseðlinum sem hann langaði í að hann gat ekki valið.  Hann ákvað því að velja ekki neitt. –   Hann gæti verið að missa af góðum fiski dagsins ef hann veldi Tortillurnar,  eða missa af kjúklingi í Pestó ef hann veldi humarpizzuna. –   Hvað ef að það sem hann veldi væri ekki svo gott? –
 
Ef þessi maður veldi aldrei neitt af matseðli vegna þess að hann óttaðist að hann væri  a) að missa af öðru betra  eða b) veldi vondan rétt,  myndi hann auðvitað deyja úr hungri, –  gefandi okkur að hans eina uppspretta fæðu væri af þessum matseðli (en það má í dæmisögum). –
 
Það sama á við um lífið okkar.  Ef við veljum ekki,  eða veljum að velja ekki,  hvað sitjum við uppi með? –  Leiðindi?  Andlega vannæringu? –
 
Stundum erum við komin á það stig að vera illa vannærð andlega og þá tekur heimurinn sig til og velur fyrir okkur. – Við völdum ekki,  en heimurinn velur að bjóða okkur upp á eitthvað.   Kannski er það uppáhaldsrétturinn en svo getur það verið það sem við hefðum ALDREI valið sjálf,  einhver matur sem okkur finnst ferlega vondur,  jafnvel ógeðisdrykkur.
 
Við erum ekki alltaf tilbún að taka á móti því sem að höndum ber,  hvað þá ef það eru ein vandræðin ofan á önnur? –
 
Þegar við förum í „Why me Lord?“ gírinn.  –
 
Ættum við að spyrja  „Why not somebody else Lord?“ –  slepptu mér.
 
Við spyrjum eflaust sjaldnar  „Why me Lord – why am I so lucky to be born where there is plenty of food, clean water, health care etc… “ –
 
 
Af hverju spyrjum við ekki að því? –
 
Eric Hoffer  skrifaði,
 
 
„Á tímum breytinga eru það þeir sem læra sem erfa jörðina.“
 
 
Sársaukinn er svaðalegur kennari,  það þekkja þeir sem hafa þurft að fara í gegnum hann,  og það þurfum við flest. –
 
Við vitum líka að það fólk sem hefur gengið í gegnum hvað mest – sem hefur ekki flúið sársaukann,  ekki flúið „musteri viskunnar“ ..
 
Musteri viskunnar er gífurleg blanda sorgar og gleði og meira að segja ótta.  Þau hugrökku ganga inn í óttann,  jafnvel þó þau séu hrædd,  hann varir þá skemur  því að það sem við óttumst kemur þá í ljós,  og þegar það er komið í ljós verður það ekki eins óttalegt  (því það er komið í ljós). –
 
Að sama skapi er eina aðferðafræðin að eiga við sorg að ganga í gegnum hana,  ganga í gegnum höfnunardyrnar, reiðidyrnar,  pirringsdyrnar, einmanaleikadyrnar  og hvað sem þær heita,  því að einnig á bak við þær dyr er léttara andrúmsloft. –
 
Ef við veljum að ganga ekki í gegnum þær,  stöndum við fyrir utan en sitjum uppi með allan pakkann, –  við komumst ekki yfir tilfinningarnar öðru vísi en að fara í gegnum þær og leyfa þeim að koma. –
 
Við getum deyft þær og við getum flúið þær.
 
Flóttaleiðirnar eru margar og við köllum þær oft fíknir. –
 
Fíknir eru til að forðast það að horfast í augu við okkur sjálf,  að upplifa okkur sjálf og finna til. –  Fíkn í mat, vinnu, kynlíf, sjónvarp, tölvu eða hvað sem er. –
 
„Súkkulaði er hollt í hófi“ – var fyrirsögn sem nýlega var í blöðunum.
 
Margir lásu bara:  „Súkkulaði er hollt“ –   og mig minnir að rauðvínsglasið eina sem átti að drekka á hverjum degi hafi fengið svipaða meðferð.
 
Flóttaleiðin verður því –  „Rauðvín er hollt“  – „Súkkulaði er hollt“ … en sama hvað er,  það er allt gott í hófi ( undantekningin er auðvitað eitur, eða það sem er eins og eitur fyrir líkama okkar hvers og eins).    Ef við getum ekki umgengist það í hófi þurfum við að skoða hvað er að í lífi okkar,  hvaða tilfinningadyr við erum að forðast. –

Kannski það að svara ekki eigin þörfum, löngunum? – Kannski það að hafa ekki hugrekkið eða þorið að lifa ástríðu sína.  Skrifa bókina? – Stofna sitt eigið? – eða bara hugrekkið við að segja skoðun sína upphátt? 

 Hugrekkið við að leyfa sér að skína og lifa af heilu hjarta? –

   ,,Vísa mér veg þinn Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta …… ”   Sl. 86:11

Það tók Brené Brown rannsóknarprófessor mörg ár og mikla menntun,  viðtöl við tugi ef ekki hundruði manna og kvenna til að komast að því að þeir sem lifðu heilbrigðustu lífi í sátt og samlyndi við sjálfa sig væru það sem hún kallar „The Whole hearted People“ – Fólk sem lifir af heilu hjarta. –  

—-

Stundum sitjum við uppi með upplifunina af tómarúmi, – þegar við veljum ekkert af matseðlinum sem lífið hefur að bjóða upp á.  Eða við þorum ekki að þiggja það sem er í boði.- 

Þá teygjum við okkur oft í flöskuna, matinn, annað fólk eða hvað sem það er sem við verðum háð til að fylla í tómið,  sem þó aldrei fyllist, því það er ekki það sem gefur okkur þá lífsfyllingu sem við leitumst eftir. –

Fyrst þurfum við að fylla „tómið“ sem ekki er tómt að vísu – en það eru „gleðifréttirnar“ – af okkar eigin gleði, ást og friði. –  Þá erum við tilbúin í hvað sem er, og að mæta hverju og hverjum sem er. –

Við getum séð ljósið núna, ef við opnum fyrir það. – Fyllum okkur svo af því og leyfum því að skína innra með okkur þannig að við finnum fyrir því sem er nú þegar innra með okkur; rými sem er fullt af friði, ást og gleði. –
 
Þannig förum við meðvituð í gegnum lífið – þannig erum við vakandi. –
 

Ekki standa í skugga annarra þegar það er þitt eigið ljós sem lýsir þér.  Ekki gera annað fólk að þínum æðra mætti og skyggja þannig á þinn æðri mátt. –

Gefðu þér tækifæri á að skína.

Ert þú til í að hlýða kalli vorsins, leggja hönd á plóg og rækta nýjan skóg?

Ert þú til í að brosa til sólar taka þér plóg í hönd og rækta nýjan skóg? 

Ég hef yfirleitt notað líkinguna af því að vera í farvegi og skipta um farveg, en fæ þessa skemmtilegu líkingu lánaða hjá vini mínum – að breyta um skóg. –

Kannski erum við að púla í röngum skógi?-

Það hafa margir verið að spyrja um „tæki“ til að breyta hugsunarhætti eða siðum. – Það er fólkið sem yfirleitt er búið að sjá að breytinga er þörf, finnur að það er komið í rangan farveg, hvort sem er andlega eða líkamlega. –

Marga langar í tilbreytingu, – en orðið skiptist í tvö orð til-breyting og felur í sér hreyfingu.  Lífið er orka og lífið er hreyfing. –

Stundum er nóg að þessi hreyfing sé aðeins að breyta um viðhorf.  Hugsa út fyrir kassann, fara út fyrir þægindarammann eða fara upp á nýjan (sjónar)hól. –

Þetta er nú alveg helling 😉

Við getum hugsað okkur að við séum að íhuga draumana okkar, – sjáum fyrir okkur sýnina,  trúum á hana,  en ekki nóg því við sitjum alltaf kyrr.   Það gengur ekki alveg upp.  Við verðum að hætta að horfa upp í stofuloftið, – standa upp úr sófanum, e.t.v. bara nokkur skref og horfa upp í himinn, anda djúpt og fylla lungun af fersku lofti. –  Þá erum við tilbúin í slaginn. –

Á sama hátt þurfum við að fylla huga okkar af ferskum hugsunum.  Leyfa hinum stöðnuðu og jafnvel að skoða dagsetningar á sumum þeirra, hvort þær séu ekki komnar langt yfir síðasta neysludag og þv´verða þær að víkja.

Útrunnar hugsanir geta verið stórhættulegar! 

 

 

 

Vertu til er vorið kallar á þig,
vertu til að leggja hönd á plóg.
Komdu út því að sólskinið vill sjá þig
sveifla haka’, og rækta nýjan skóg.

Ert þú til í að hlýða kalli vorsins,  leggja hönd á plóg og rækta nýjan skóg?

Hvernig borðar maður fíl? ..

Human affairs usually work best when
we do what we say we are going to do.
We empower ourselves and others
when we follow through on our word.“
          Alan Cohen

Lárus fékk hringingu og var beðinn um að greiða reikning sem hann skuldaði.  Hann svaraði um hæl að það skyldi hann gera, og fór jafnframt að afsaka sig að hann hefði bara steingleymt því.-   Hann vissi þó eins og var að hann ætti ekki peninga fyrir þessum reikningi,  en það var auðveldasta leiðin að segja þeim sem hringdi og til að losna við hann úr símanum, að hann myndi borga strax.  Hann treysti sér ekki til að koma hreint fram og upplýsa um raunverulega stöðu sína, að hann væri bara skítblankur.   Hann vissi sem var að hann var að kaupa sér frest, kannski myndi rukkarinn gefast upp,  eða ekki hringja fyrr en eftir næstu mánaðamót. – 

Hvað segir í auglýsingunni „Ekki gera ekki neitt“ ..

Hversu oft segjumst við ætla að gera eitthvað en gerum það ekki? 

Hversu oft ákveðum við að hætta einhverju en hættum því ekki?

Hversu margar ákvarðanir ganga ekki upp hjá okkur?

Kannski sögðumst við ætla að  reyna að klára eitthvað og það í heyranda hljóði. – Svo dregst það og við vonum að hinir bara gleymi því. –   Við höfðum að vísu dyrnar opnar með því að segja „reyna“ –  Það er flóttaleiðin okkar.

—————————————————–

Svona getum við umgengist aðra, þ.e.a.s. komið með yfirlýsingar að við ætlum að gera eitthvað,  en gera það ekki,  við komum svona fram við aðra og það sem er ekki skárra, við okkur sjálf.  

Við ætluðum e.t.v.  að halda okkur á meðalveginum, lifa með tilgangi, byrja á þessu og hinu og klára þetta og hitt.   Breyta siðum,  hugleiða í 15 mínútur á morgnana, hætta að horfa svona mikið á sjónvarpið,  ekki fara með tölvuna í rúmið, hreyfa okkur meira,   vera minna á facebook o.s.frv.

Síðan gerum við það EKKI.  Og þá förum við að fá samviskubit, og líður illa með það,  en við breytum því ekki heldur;  okkur líður bara illa!

Hvernig getum við brotið upp þennan (vanlíðunar)vítahring, þar sem samviskubitið bítur okkur í rassinn yfir að hlutirnir ganga ekki upp hjá okkur,  við eiginlega svíkjum okkur sjálf? –

Við viljum vera heil, en í staðinn fyrir að byggja okkur upp þá brjótum við okkur niður með því að standa ekki við eigin ákvarðanir. –

Kannski þurfum við að velja betur það sem við ákveðum að gera, hafa það raunhæft og geta sagt sannleikann, bæði við aðra og okkur sjálf,  við því sem þú veist að þú kemur ekki til með að gera,   Lárus varð að sýna það hugrekki að játa það fyrir rukkaranum að hann ætti ekki fyrir reikningnum, nú og kannski fá að semja um að borga eitthvað örlítið inná. –

Ekki setja of miklar klyfjar á okkur, og væntingar þannig og þurfa svo að viðurkenna einn daginn að það gekk ekki upp, eða það var ekki innistæða fyrir yfirlýsingunum. –  Væntingar geta verið ávísun á vonbrigði séu þær ekki uppfylltar.

Við þurfum að lifa af heilindum.

Ef við lofum upp í ermina á okkur, fer það að plaga okkur, og því er best að lofa sem fæstu,  en standa við það fáa sem við lofum eða ákveðum. –

Ekki ætla sér um of,  eins og að fara á fullt í ræktinni og byrja fimm sinnum í viku og springa svo á limminu og fara í vanlíðan aftur.  –

Eitt skref í einu,  eitt sannfærandi skref,  og svo annað sem þú getur staðið við og veitir þér vellíðan og þannig fjölgar skrefunum því að vellíðanin kemur okkur áfram. –

Þetta þýðir ekki að við getum ekki látið okkur dreyma,  að við getum ekki búið til framtíðarsýn til að trúa á,  en aðalmálið er að taka eitt skref í einu. –

Ef að Lárus skuldar  10.000.-   en frestar því alltaf mánuð fyrir mánuð, – og saxar ekkert á skuldar hann enn 50.000.-  (segjum að það séu ekki vextir þarna)   En ef hann borgar 1000.-  krónur  á mánuði hefur hann lokið við að greiða þetta á 10 mánuðum,  nú ef hann borgar enn minna, 500 krónur á mánuði hefur hann lokið þessu eftir 20 mánuði. –  

Góðu fréttirnar:  Hann klárar að borga! –

Þetta sama gildir um verkefnin okkar,  ekki ætla okkur það mikið að það verði yfirþyrmandi og við gefumst upp. – Og þannig verða EKKERT úr verki. – 

Byrjum smátt.  

Það er oft sem ég nenni alls ekki í göngutúr, vegna þess að göngutúrinn í mínum huga er eiginlega alltaf klukkutími lágmark.  Svo hef ég ákveðið að fara bara út og ganga í 5-10 mínútur og þá fer mér oft að líða svo vel að teygist úr göngutúrnum jafnvel upp í klukkutíma eða meira! 😉  

Ég man eftir sjálfri mér í guðfræðideildinni þar sem grískunámið reyndist mér erfitt,  enda var þetta þungur og stór áfangi. –

Ég stundi upp við kennarann að þetta væri svo mikið og eiginlega óyfirstíganlegt, en hann svaraði sposkur á svip: 

Jóhanna mín,  hvernig borðar maður fíl? –  Við tökum bara einn bita í einu. –  

Ég kláraði mitt fimm ára embættispróf í guðfræði í febrúar 2003 og þar voru 10 einingar í grísku,  sem jú höfðust með seiglunni. –

Þetta þýðir ekki að við getum ekki látið okkur dreyma,  eða haft sýn. –    En það er ekki nóg að hafa sýn og hugsa „happy thoughts“ –   hugurinn flytur okkur hálfa leið,  en framkvæmdin restina. –  Skref fyrir skref,  og við verðum að trúa á sýnina.   Ég leyfi mér jafnframt að trúa að í hvert skipti sem ég stíg eitt skref,  komi heimurinn/Guð/æðri máttur til móts við mig og styðji mig næsta.   

Því verður best lýst með gönguferðinni sem ég sagði frá áðan.  Það er mitt að taka fyrsta skrefið,  koma mér út undir bert loft. –  Við getum setið inni og horft upp í stofuloftið og látið okkur dreyma, en komumst fljótlega að því að loftið er hindrun,  en pælið í því að við þurfum ekki að taka mörg skref til að komast út,  horfa upp í himininn þar sem engin takmörk liggja. –

Hamingjan liggur í hverju skrefi – hversu smátt sem það er,  liggur í andartakinu og því að virða fyrir sér himininn. –

Ofangreint fjallar um það að ná árangri, ná persónulegum markmiðum og lifa sýn sína. – Forsendan er þó alltaf að hamingjan er vegurinn,  en ekki hamingjan „þegar“ – „ef“  o.s.frv. – Það er hægt að lesa um það t.d. í greininni hamingjuforskotið.  Smellið HÉR.

„Þetta er mér ekki bjóðandi“ ….

Karlkyns kennari gengur að kvenkyns samkennara sínum og fer að nudda á henni axlirnar,  hún frýs, rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, líður ógeðslega illa og vonar að hann hætti sem fyrst, en…. hún segir ekkert.  Hún jafnvel kvartar ekki til yfirmanna.

Þetta gerist og það er ekki einsdæmi.  Stundum er þetta kennari og nemandi. Og vissulega er hægt að víxla kynjunum þarna líka, þótt eitt sé algengara en hitt. –  Jú, stundum er kvartað en ekki alltaf.

Það vakna margar spurningar.

Í þessu  dæmi sem ég set upp í upphafi. Af hverju leyfir karlinn sér þetta?   – Kannski finnst honum hann bara „næs?“ –  en þetta snýst í raun ekki hvað honum finnst. –  Þetta snýst um upplifun og tilfinningar konunnar. – En á móti er spurt af hverju virðir hún ekki sín mörk og sínar tilfinningar? –  Af hverju segir hún ekki neitt? –

Hana vantar sjálfstraust, hana vantar sjálfsvirðingu og ef til vill að elska sig nógu mikið til að segja upphátt  „Þetta er mér ekki bjóðandi“ – eða bara „Nei takk, sama og þegið ég vil þetta ekki.“ – eða eitthvað í þeim dúr. –

Ef hún segir aldrei neitt, – þá er mjög líklegt að karlinn haldi að henni þyki þetta bara „næs“ eins og hann upphaflega hélt.  Nú kannski hefur hann áhuga fyrir þessari konu og gengur á lagið? –  (Auðvitað vond nálgun, en kannski kann hann ekki aðra leið). –

Ég er með þessari umfjöllun ekki að varpa ábyrgðinni á kynferðisáreitni á þolandann og langt í frá.

Aðeins að vekja athygli á mikilvægi þess að virða tilfinningar sínar, þora að tjá sig, þora að tala upphátt. –  Til þess þarf hugrekki – það þarf nefnilega hugrekki að játa að manni finnist eitthvað óþægilegt, að við séum ekki bara naglar sem sé sama þó að ókunnar hendur fari að nudda á okkur axlirnar.  Við erum kannski hræddar við að vera álitnar teprur eða of viðkvæmar. – En þá erum við heldur ekki að virða það sem við erum.

Styrkleikinn liggur í að viðurkenna viðkvæmnina, að viðurkenna að okkur finnst eitthvað óþægilegt og segja það upphátt. – Ekki láta bjóða sér upp á það sem okkur finnst vont og óþægilegt – og það er ekkert til að skammast sín fyrir að segja „Nei takk“ ekki frekar en að segja „nei takk“  við hákarli eða lifur eða hverju því sem okkur finnst bragðvont. –  Ef við virtum nú ekki bragðlaukana okkar, og myndum pína okkur til að borða það sem hinir réttu að okkur,  einungis til að geðjast þeim, láta ekki vita að okkur þætti þetta vont, myndi okkur ekki þykja við klikk? –   Svona göngum við á okkur sjálf og sjálfsvirðingu okkar, og við förum að safna skömm. – Eins og ég hef skrifað um annars staðar er skömmin krabbamein sálarinnar og hún lagast helst við að tjá sig um hana, eða það sem veldur henni,  sé talað.  Tjáningin er því líka lækning þar. –  Skömmin er svo vond tilfinning að hún lætur okkur skammast okkar fyrir okkur sjálf, það er í grófum dráttum munur á sektarkennd og skömm.  Sektarkennd = ég skammast mín fyrir það sem ég gerði.  Skömm = ég skammast mín fyrir það sem ég er.

Því miður elur samfélagið á þessari skömm þegar það gefur ákveðin skilaboð um hvernig við eigum að vera og hvernig ekki. „Við eigum að vera sterk og ekki bera tilfinningar á torg.“  „Bíta á jaxlinn“  o.s.frv. –

Það er enginn að tala um að við eigum að standa vælandi niðrá torgi, en við eigum að geta talað um tilfinningar okkar alltaf þegar við þurfum á því að halda.  Þegar okkur er mál.    Annars verðum við veik, vond o.s.frv. og það skapast vítahringur.  –

Við þurfum að hjálpa börnunum okkar að virða sínar tilfinningar, þekkja inn á þær og leyfa þeim að tala.  Ekki gera lítið úr þeirra tilfinningum,  þær eru sannar. –  Ekki segja „þér finnst þetta ekki vont“ – þegar barnið segir „mér finnst þetta vont“ …   Þá kennum við því að virða ekki tilfinningar sínar og það fer að efast.

Konan í upphafi sögunnar lærði það í bernsku að virða ekki sínar tilfinningar, það væri jafnvel hallærislegt eða sýndi að hún væri of viðkvæm.

Virðum okkar mörk – svo aðrir virði þau líka. –

Elskum okkur, virðum okkur og treystum okkur svo aðrir geti elskað okkur, virt og treyst. –  

Það er ekki bara eitthvað sem er sniðugt að gera, eða góð hugmynd að prófa að reyna að elska sig,  það er nauðsynlegt fyrir farsæld og hamingju hverrar manneskju að gefa ekki afslátt af sjálfri sér,  þ.e.a.s. af tilfinningum sínum, virðingu eða trausti. –

Allt sem ég fjalla um hér að ofan, gildir fyrir karlmenn sem konur, – að virða tilfinningar sínar. –  Gildir líka í öðrum samskiptum þar sem á okkur er gengið, – að setja okkar mörk og yrða þau upphátt við þá sem í kringum eru. –

Þú átt alla þína elsku skilið – leyfðu þér að trúa því! –

Blái Ópallinn söng „Stattu upp fyrir sjálfum þér“ –  það er nákvæmlega sem við þurfum að gera, – og standa svo með sjálfum okkur og virða. –

Lífsteppið ..

„In many oral traditions, wisdom is represented by a temple, with two columns at its entrance: Fear and Desire. When a man stands at this entrance, he looks at the column of Fear and thinks: “my God, what will I find further ahead?” Then he looks at the column of Desire and thinks: “my God, I’m so accustomed to that which I have, I wish to continue living as I have always lived.” And he remains still; this is what we call tedium.“ Paulo Coelho
Gróf þýðing – velkomið að koma með betri: –
Í margri söguhefðinni, er viskunni líkt við musteri, með tveimur súlum við innganginn: – Ótta og Löngun. – Þegar að einhver stendur við innganginn, lítur hann á súlu Óttans og hugsar: „Guð, hvað finn ég þarna lengra inni?“ – Síðan lítur hann á súlu Löngunar og hugsar: „Guð, ég er svo vanur því sem ég hef, ég vel að lifa eins og ég hef alltaf lifað.“  Hann heldur því kyrru fyrir; þetta er það sem við köllum leiðindi. –
Það er sorglegt ef við látum óttasúluna verða ráðandi. – Við þurfum líka að skoða af hverju óttumst við? – Hvað getur gerst – og hvað er það versta?  –
Það eru voða margir sem fylgja ekki draumum sínum, virða ekki þrár og langanir af ótta við mistök, að þeir velji rangt og að það gangi ekki upp það sem við ætluðum að láta ganga upp. –  Sá ótti tengist oft, hvað aðrir halda um okkur, við skömmumst okkar, búin að fara í nám aftur og aftur, eða í samband aftur og aftur og það gengur ekki upp.  – En auðvitað þurfum við að prófa til að vita. –
Sumir eru mjög brenndir eftir sambönd og lýsa því yfir að ætla aldrei aftur í samband, og það er vegna þess að þeir eru hræddir við að lenda í því sama aftur. –  Það sem við þurfum að gera er að vinna í okkur sjálfum,  það er sambandið við okkur sjálf sem skiptir öllu máli og þegar við förum að geta borið virðingu fyrir okkur og treyst okkur, þá fylgir yfirleitt virðing á móti og traust. –
Það má spyrja sig hvort sé verra, vonbrigði eða eftirsjá?
Ef við upplifum vonbrigði, þá höfum við a.m.k. prófað og sannreynt.
Ef við upplifum eftirsjá, að hafa ekki dveljum við oft í því að horfa til baka og hugsum „oh ef ég hefði“ .. – Það er auðvitað ekki rétta leiðin, við verðum að fyrirgefa okkur ef við gerðum ekki,  því eftirsjá er vondur staður að búa á. –
Enginn vill leiðinlegt líf. – Þegar nemendur voru að koma til mín og íhuga hvað þeir vildu læra í háskóla og voru ekki vissir, hvatti ég þau til að prófa, því að nám er aldrei eyðsla á tíma. – Þó að við klárum ekki viðkomandi nám, þá höfum við a.m.k. prófað og það verður oft bara trappa að því næsta eða bútur í bútasaumsteppið okkar. –  Það sama gildir um blessuð samböndin.   Það er vont að þora ekki í samband, og lifa í hræðslu við að eitthvað gæti mögulega farið úrskeiðis. –
Þess vegna þurfum við að vera svolítið hugrökk og láta eftir löngunum okkar til að vita hvað bíður inn í musteri viskunnar. – Því að það sem þar gerist verður auðvitað alltaf lærdómur,  stundum erfiður og ef það er ekki það sem hentar okkur,  þá höfum við a.m.k. lært af því. –
Viljum við eiga litlaust og einfalt líf – fullt af öryggi þar sem við hreyfum okkur ekki spönn frá rassi. Erum örugg í sófanum, eða viljum við eiga skrautlegt líf.
Sum reynsla kemur til okkar án þess að við biðjum um hana, henni er bara „dembt“ á okkur og við höfum ekki val. –  Önnur reynsla er sú sem við getum valið, sú leið sem er inn í musterið þar sem við fylgjum löngunum okkar. –
„Faith or Fear“ – eða Trú eða Ótta“  –  Það er gott að hafa trúna með eða traustið í farteskinu þegar við höldum af stað í átt að draumum og löngunum. –  Ég hef yfirleitt litið á elskuna sem andstæðu óttans, – og skrifaði grein þar sem ég talaði um að næra elskuna og svelta óttann. –  Það má alveg eins næra trúna/traustið og svelta óttann. –
Við komumst ekki framhjá óttanum, – við nálgumst hann með því að horfast í augu við hann og fara í gegnum hann. – Við segjum: „Þetta var erfið lífsreynsla að fara í gegnum“ – við förum semsagt í gegnum reynsluna og í gegnum lífið, en ekki framhjá því,  eða bíðum við dyrnar og látum okkur leiðast.  Nú eða hlaupa í burtu og gera allt annað, en það er flóttinn frá lífinu og tilfinningunum og kallast í daglegu tali: fíkn. –
Allt sem við gerum verður eins og bútur í bútasaumsteppinu okkar, það má kalla það „Lífsteppið“ – og þessi teppi geta litið út á mismunandi hátt. –  Sum eru komin hingað til að fara í gegnum lífið létt – og þá verður reynslan eins og úr leikskóla, segir Louise L. Hay, sem hefur reynt mikið. – Ef við fáum stóran pakka að glíma við, erum við eins og í háskóla. – Við útskrifumst þá úr þessu lífi með e.t.v. fimm háskólagráður eða meira. –
Mér finnst gott að líta á þetta svona, – ég deili lífsskoðunum Louise L. Hay og fleiri sem hugsa þetta svona. – Ég virði þá sem hugsa öðru vísi. –  Það léttir mér að takast á við sársaukann sem ég hef upplifað,  léttir mér líka að fella varnir  og leyfa mér að vera berskjölduð og grímulaus.
Það er vandlifað, en ég er þakklát því að ég veit að mitt lífsteppi verður mjög skrautlegt, og er reyndar orðið mjög skrautlegt,  bæði vegna þeirra erfiðu verkefna sem ég hef fengið í lífinu (og skemmtilegu)  og vegna þeirra sem ég hef valið og ákvarðana sem ég hef þorað að taka. –
Sagt „já“ á réttum stöðum og „nei“ á réttum (og oft röngum ;-)).
Skelli hér videóinu hennar Brené Brown með um „The Power of vulnerability“ –

Samtal um sjálfs-traust – I hluti

Þessi skrif eru mínar eigin hugleiðingar í bland við hugleiðingar úr bókinni „Self-Confidence“ eftir Paul McGee,  en hann talar þar um hvað þarf oft lítið til að breyta miklu. – Tekur sem dæmi gerið í brauðbaksturinn,  eða stefnubreytinguna á áttavitanum þegar til lengri tíma er litið.

Flest ef ekki öll viljum við geta treyst öðrum, en ekki síður okkur sjálfum. –

Svo hvað er sjálfstraust? – Hafa trú/traust á sjálfum/sjálfri sér –

Í „glóyrðabók“ Guðna Gunnarssonar,  segir hann:

Treysta: að styrkja, að trúa og  Trúa: að treysta sig, að styrkja sig

Sjálfstyrking og sjálfstraust vinna því saman og við þurfum að vinna með trúna og traustið á hverjum degi, – vinna í því að styrkja sig. –

Paul McGee (höfundur „the SUMO guy“ – (Shut up and move on) segir að sjálfstraust sé X-faktor lífsins okkar. Góðu fréttirnar eru, að oft þarf ekki nema litla breytingu til að auka sjálfstraustið til muna.

Ég er ekki að tala um annarra traust, sem er það sem kemur að utan, heldur sjálfs-traust sem kemur innan frá.

Við þurfum ekki að vera veik til að batna. Við höfum öll gott af því að styrkja sjáflstraust okkar.

Sjálfstraust tengist hugrekki. – Ef okkur er boðið verkefni eða vinna og við förum að draga úr okkur, þ.e.a.s. úrtöluröddin fer að yfirgnæfa þurfum við að styrkja hvatningaröddina. – Það er til að við þorum! –

Kannski höfum við einhvern tímann fengið tækifæri upp í hendurnar og okkur langað að segja JÁ,  en ekki þorað því vegna skorts á trausti á okkur sjálfum!

Lykiliin er að hafa traust á á getu okkur og hæfileikum, jafnvel þó að við hefðum ekki kunnað starfið,  við hefðum e.t.v. og eflaust getað lært það!

Að auka sjálfstraustið gerir lífið ekkert endilega auðveldara, við höldum áfram að gera mistök og mæta mótstöðu, en það eykur gæði lífsgöngu okkar. –

Sjálfstraust þýðir ekki að við verðum Súperman eða Wonder-woman, – við höldum áfram að vera takmörkuð við hæfileika okkar en munurinn er sá að við treystum þá sem eru fyrir. –  Ef við getum sungið þá þorum við að syngja.  Við höfum öll hæfileika (þeir eru kallaðir talentur (talents)  í Biblíunni) til að ávaxta. –

Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann, – en dæmi um fólk sem gerir það ekki og hefur ekki raunveruleikaskyn er t.d. það fólk sem mætir í söngprufur fyrir raunveruleikaþætti algjörlega laglaust. –

Þó ég hafi ágætt sjálfstraust þá veit ég að ég mun ekki vinna stórsigra á óperusviðinu eða sem ballerína 😉 ..

Aftur á móti, hef ég ágæta hæfileika til að skrifa og ég gæti með góðu sjálfstrausti, trú á sjálfa mig, ræktað þá hæfileika. –

Ég get að sjálfsögðu farið að dansa lika, þó ég geri mér engar grillur um að vinna sigra í ballettheiminum!

Sjálfstraust og hæfileikar verða að fara saman. –

Hæfileikar eru stundum kallaðar náðargáfur, – gjafir sem okkur eru gefnar.  Það er í raun synd að nýta aldrei þessar gjafir eða fela þær.  Þær eru partur af okkur og eina sem við þurfum að gera er að nota þær. –

Ef að hæfileikarnir eru múrsteinar, er sjálfstraustið steypan á milli þeirra, – og það þarf bæði til að ná árangir og njóta velfarnaðar.  Sjálfstraustið hjálpar okkur við að byggja. –

Pælum í því að við erum bara býsna sjálfsörugg í mörgu.  „Practice makes perfect“ –  Flestir geta lært hluti eins og að aka bíl, til að byrja með erum við klaufsk, drepum e.t.v. á bílnum og skiptum vitlaust um gír, en svo er það einn daginn þannig að aksturinn er orðinn næstum sjálfráður.   Hvað ef að við hefðum aldrei trúað á getu okkar til að keyra bíl? –

Sjálfstraust er ekki andstæða við auðmýkt.  Sá sem er auðmjúkur hefur einmitt einmitt gott sjálfstraust.  Það þarf t.d. oft hugrekki til að biðjast fyrirgefningar. –  Að viðurkenna mistök sín er hugrekki.

Það er þó fín lina á milli hroka og sjálfstrausts, og þegar að við getum ekki viðurkennt mistök okkar – erum við komin yfir hana – (komin hrokamegin við línuna). –

Auðmýkt er ekki það að láta valta yfir sig, leggjast eins og dyramotta fyrir fótum fólks.  Auðmýkt er að taka heilbrigt tillit til sjálfs sín, auðmýkt er að vita það að það er allt í lagi að gera mistök og viðurkenna þau.  Auðmýkt er að játa það að það er í lagi að vera ófullkomin og ekki hægt að vera fullkomin. –

Sá sem aldrei gerir neitt – gerir heldur aldrei mistök 😉

Það er sjálfstraust að gera sér grein fyrir og játa veikleika sína og að við getum ekki verið sterk á öllum sviðum. –

E.t.v. er auðmýktin fólgin í því að viðurkenna að á ákveðnum sviðum lífsins þurfum við að þiggja hjálp frá öðrum. –

Auðmýktin er andstæða hroka en ekki andstæða sjálfstrausts.-

Það er hollt að staldra við, líta í eigin barm og spyrja sig hvort að við treystum okkur til að biðja um hjálp, treystum okkur til að viðurkenna þegar við höfum gert mistök. Ég er ekki að tala um að taka byrðar heimsins á okkar herðar, eða taka á okkur sök að ósekju. – Bara þegar t.d. við uppgötvum að við höfum kannski farið offari í dómum okkar gagnvart einhverju fólki,  kannski í bræði? –

Það er svo gott að doka við, hugsa aðeins áður en við leggjum af stað í ferðalag, en ekki leggja af stað í reiði eða gremju, – það er vondur byrjunarreitur. –

„Að efast um gjörðir sínar er allt í lagi á meðan að efinn er vinur okkar en verður ekki yfirvaldið. -“

Læt þetta duga í bili – sem fyrsta hluta.  En annar hluti verður um „Hver braut niður sjálfstraustið þitt?“ – Þar verður m.a. farið í bernskuhlutann og meðvirknina. –

MEÐ FÓKUS Á HAMINGJUNNI

Við þurfum

1) Sýn

2) Fókus á sýnina

3) Trú á sýnina

4) Að vita hvað byrgir sýn

5) Hverju getum við breytt og hverju ekki?

– Ef sýnin er eins og mark, þar sem skráð er stórum stöfum: „HAMINGJA“ – hvaða tæki, næringu viðhorf, fólk o.s.frv. kemur þér að þessu markmiði – og hvað hindrar þig? –  Ath! .. Markið er ekki í fjarska,  heldur innra með okkur,  þess vegna er leiðin inn á við, en ekki út á við. –  (þessa formúlu getum við notað við svo margt, – settu það sem þig langar á markið. –

Annars er hamingja eins og stóra mengið sem inniheldur allt:

Heilsu, fjölskyldu, vini, heimili, efnahag, samfélag ….

Er að púsla saman hamingjunámskeiði þar sem hver og ein/n fer í gegnum þessa þætti –  fylgist með 😉 …

Ef þið viljið skrá ykkur og fá sendan póst þegar það byrjar, sendið mér póst á johanna@lausnin.is

„Frá sýn til raunveruleika“ … velgengni í námi

Jóhanna Magnúsdóttir heiti ég og er sjálfstætt starfandi ráðgjafi hjá grasrótarsamtökunum Lausninni. –  Ég er Cand. theol að mennt,  það er að segja með embættispróf í guðfræði og með kennaramenntun á framhaldsskólastigi. Ég starfaði jafnframt sem aðstoðarskólastjóri hjá Menntaskólanum Hraðbraut í fimm ár.

Styrkleiki minn í því starfi, sem og í öðru hefur m.a. legið í því að vera nemendum fyrirmynd og hvatning. Að virkja, vekja og hvetja – eins og þjálfarar myndu segja: “að peppa fólk áfram.”   Og  vera því nokkurs konar andlegur þjálfari.

Mín staðfasta trú varðandi menntun er að vel þarf að hyggja að grunninum, og þá hvað varðar sjálfstyrkingu einstaklingsins.  Börn eru  eðlislægt mjög misjöfn, sum fæðast sterk, önnur eru viðkvæmari, en það er hægt að brjóta niður, en sem betur fer líka  hægt að byggja upp!

„Whether you think that you can, or that you can’t, you are usually right.“  Henry Ford

Að hafa trú á sjálfum sér –  er því grundvallandi í námi, eða í raun hverju sem við tökum okkur fyrir hendur. – Börn eða fullorðin börn!   Hugurinn flytur okkur hálfa leið, en aðeins hálfa og þar kemur að framkvæmdinni, takmarkinu og fókusnum. En trúin á okkur sjálf og velgengni okkar er ekki úr lausu lofti gripin, og við þekkjum það eflaust flest að hafa verið vantrúuð á eigin árangur eða frama.

Ég býð upp á fyrirlestur, t.d. fyrir foreldrafélög, sem kallast “Frá Sýn til raunveruleika”  en hann fjallar m.a. um það að byrja á því að skapa með því að sjá fyrir sér og missa í raun ekki fókus á sýninni.  Ef svo gerist, að kunna þá tökin á því að ná honum aftur, en gefast ekki upp.  Þá skiptir fallið ekki aðal máli, heldur hvernig staðið er upp á ný.

Þetta dæmi notaði ég við nemendur mína í framhaldsskólanum, og margir kláruðu stúdentspróf með þessa grafísku mynd af fjalli í huga – þar sem á toppnum var markið sem á stóð “stúdent”..

Til að sýnin virðist ekki of fjarlæg, eru búin til millimarkmið, og að sjálfsögðu er “stúdent”  ekki lokatakmark í lífinu,  og í sumum tilfellum er haldið á nýjan hól eða fjall, og haldið áfram.

Á þessari leið á ekki að vera leiðinlegt.  Menntavegurinn er ekki, eða á ekki að vera píslarganga, og því þarf að skoða “nesti” – “tæki” og fleira sem auðvelda undirbúning og gönguna upp.

Þar koma kennarar, starfsfólk skóla,  félagar, foreldrar, forráðamenn og aðrir sem barnið, unglingurinn umgengst auðvitað sterkt inn í myndina.  Hverjir eru hvetjandi og hverjir letjandi.  Hvað virkar og hvað virkar ekki? –

Hvaða þarfir og óskir hefur barnið mitt?

Er það að bera þá ábyrgð sem það þarf að bera sjálft, of mikla eða of litla ábyrgð? –

Nú ætla ég ekki að hafa þennan pistil lengri, en býð upp á ca. klukkutíma fyrirlestur auk fyrirspurna.  –  Verð á fyrirlestri er 45.000.-  Kem út á land, ef því verður við komið 😉

Virðingarfyllst,

Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur, kennari og ráðgjafi

www.lausnin.is

johanna@lausnin.is

s.6173337 eða 8956119

Síðumúli 13

105 Reykjavík