„Þér að kenna“ …..

Hefur þú margt á samviskunni? –

Kannski ertu búin/n að læra það að skömm og sektarkennd eru erfiðar tilfinningar sem gera þig jafnvel veika/n? –

Þess vegna þarftu að sleppa tökunum og hætta að berja þig niður,  læra af því sem hægt er að læra af og halda áfram.

En nei,  kannski er einhver þarna úti sem hefur áhuga á að þú upplifir sektarkennd,  – einhver sem líður sjálfum/sjálfri illa og er ósátt/ur við að þú svífir gegnum lífið … eins og það sé staðreyndin 😉 ….

Er einhver svona „púki“ sendur inn í þitt líf til að sjá til þess að viðhalda vanlíðan þinni? –

Einhver sem stundar „The blame game“  eða viðheldur ásökunum í þinn garð? –

Við getum verið misnæmir móttakarar, mismunandi viðkvæm eða opin –  og við getum átt misjafna daga.

Nú reynir á að hætta að hlusta á púkann og minnka vald hans.  „Return to sender“ … verða næstu skilaboð.

blame

Ef þú gerir það ekki,  þá endar það með því að allt verður þér að kenna, hegðun annarra verður þér að kenna.

Heimurinn verður á herðum þér,  flóðbylgjur, jarðskjálftar,  tap íslenska handboltaliðsins … verður þér að kenna.

Fáðu þér frelsi og slökktu á móttakaranum!

Mamma – pabbi – barn ….

Ég lenti í skemmtilegum samræðum við tvo unga menn í gær.  Ég öðlast trú á mannkynið þegar ég rabba við ungt hugsandi fólk.   Annar maðurinn sagðist hafa lesið greinina,  þar sem minntist á að börn væru ekki peð í valdatafli foreldra,  eða þau mætti ekki nýta sem peð í valdatafli foreldra. –

Setningin er úr greininni „Draugagangur í sambandinu“ og hljómar svona:

„Börn eru EKKI peð á taflborði í skák – en stundum finnst manni eins og þau séu því miður notuð og völduð í einhvers konar valdatafli.“ 

Oft þegar verið er að takast á um börn verður mér hugsað til Salómonsdómsins,  þar sem dæmt var hver væri hin sanna móðir barnsins. –

Dómurinn er í Fyrrri konungabók í Biblíunni og sagan er eftirfarandi:

  • „Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þin sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“

Það er augljóst hvor konan er að hugsa um eigin hag í þessu tilfelli og það er augljóst hver hugsar um hag barnsins.

„Móðurástin brann í brjósti hennar“ …   segir í textanum og þess vegna er hún tilbúin tli að gefa barnið sitt svo það megi halda lífi. –   Þannig virkar óeigingjörn móðurást,  skilyrðislaus,  það þarf ekki að fá neitt í staðinn.

Fórnin er í raun algjör.

Auðvitað hefði það verið óréttlátt ef að hin konan hefði fengið barnið sem sitt og hin sanna móðir setið eftir tómhent,  en þó ætti hún lifandi barn en ekki dáið. –

Þetta er erfið saga og áleitin.   Hún er líka áleitin vegna þess að þessi mynd af móður er ekki endilega alltaf sönn.

Móðir er ekki bara móðir barns síns vegna,  heldur líka síns eigin vegna.  Móðir fær mikið út úr því að sinna barninu sínu og fá endurgoldna ást,  kærleika,  umhyggju – jafnvel aðdáun.  Það sama gildir um föður.

En hvernig verður barnið peð í valdatafli foreldra?

Þegar foreldrar skilja hefst oft þessi barátta um barnið,  og inn í það flækjast líka tilfinningamál foreldra.  Annað foreldrið,  ef ekki bæði,  eru yfirleitt í sárum og þurfa að koma ýmsum skilaboðum á milli til hins foreldrisins og því miður eru börnin notuð óspart til að bera þessi boð á milli.   Börnin eru flækt inn í tilfinningamál pabba og mömmu og upplifa sig oftar en ekki klofin.  „Hoggvin í tvennt“ ..   Það er þegar ósætti ríkir milli foreldra.

Í stað þess að halda barninu utan við deilur,  er það notað í valdataflinu,  bæði beint og óbeint með þeim áhrifum á barnið að það upplifir óvissu,  óhamingju og vandræðagang og telur að eina leiðin til að „bjarga málunum“  sé að pabbi og mamma verði aftur saman. –   Barnið fer að sjá í hillingum líf eins og í Disney bíómynd,  þar sem allir una sér sáttir saman,  mamma, pabbi, börn og bíll. –   Oft er líka annað foreldrið sem elur á þessari hugmynd barnsins,  –  það foreldrið sem er ósátt við aðskilnaðinn.

„Ef við værum saman væri þetta nú ekki svona slæmt“ ..

„Mamma þín vill mig ekki… ég vil hana“ …

„Pabbi þinn fór – ég get ekkert að þessu gert…“

Barnið fer í björgunargírinn og óskar þess af öllu hjarta að mamma og  pabbi byrji saman á ný,  svo að mamma eða pabbi hætti að vera leið.“  –

Hver heggur í hjarta barnsins? – Að eignast barn er mikil ábyrgð,  og ábyrgðin fellur seint úr gildi.  Allt samfélagið hefur ábyrgð gagnvart börnum.  Barn sem er beitt ofbeldi er á okkar ábyrgð,  líka andlegu ofbeldi.   Fátt er varnarlausara en barn sem er beitt ofbeldi af þeim sem það helst treystir,  eða á að treysta.   Barnið telur í fæstum tilfellum að það sé foreldrinu að kenna heldur því sjálfu.   Það eigi það skilið,  því eitthvað gerði það rangt.  Barnið situr því oft uppi með sektarkennd yfir samskiptum við foreldra.   (Að sjálfsögðu eiga þessi skrif við öll samskipti foreldra og barna,  ekki bara fráskilinna).

Allt peðinu að kenna? ..

Það er svo miklu, miklu auðveldara að horfa á alla hina og sjá hvað þeir eru að gera rangt,  en að líta í eigin barm,  skoða hvort að það er eitthvað sem ég hef sagt eða gert skaðar barnið mitt, –   ekki til að ala á minni eigin sektarkennd,  heldur til að læra af því,  getur verið býsna mikil áskorun.

Börnin þrá að foreldrar séu ekki óvinir.   Að foreldrar geti haft samskipti án þess að þurfa að setja út á hitt,  að barma sér hvað hitt er vont, leiðinlegt, ósanngjarnt o.s.frv.   En þau þurfa líka að fá að vita að það séu ekki bara tvær leiðir.   Saman eða sundur.

Samvinna og/eða samskipti foreldra eftir skilnað,  skiptir barnið ekki minna máli en samskiptin fyrir skilnað.

Stríð milli foreldra skilur oft eftir sig sviðna jörð og ég trúi ekki að nokkurt foreldri vilji barninu sínu það að vaxa upp af sviðinni jörð,  –   enn og aftur vaknar þessi spurning sem hver og ein/n þarf að spyrja sig: 

„Hvað skiptir raunverulega máli?“

Slíðrið sverðin

grafið stríðsaxir

látið orðin liggja

því enginn vill

að eftir liggi

sundurskorið

barn

divorce-lawyer

 

 

 

 

Ertu eins og mamma þín? …

Konur á öllum aldri koma í viðtal – konur á öllum aldri eru í vandræðum með samskiptin við mömmu sína. –

Mér finnst það áberandi.

Ef það er einhver sem pirrar dótturina er það mamma.  Einhver sem elur á samviskubiti hennar o.s.frv.

Auðvitað er það ekki að mamma sé í 100% starfi við ofangreint. Svo einfalt er það ekki.

Þessi mamma getur verið yndisleg inn á milli,  besta mamma í heimi og þær eru það flestar,  en svo kemur eitthvað þarna inn,  eitthvað sem mamman hefur lært,  e.t.v. frá sinni mömmu.   Leiðinda-athugasemd,  afskiptasemi,  stjórnsemi eða hvað sem það kallast.

Hér er ég ekkert að alhæfa um mömmu-dóttur samband,  en jú ég fullyrði að þetta er algengt,  þó á séu undantekningar.

Kona kemur og segir frá því hvernig móðir hennar hefur dregið úr sjálfstrausti hennar,   –  en svo er úrvinnslan og fara að horfa í eigin barm.

Stundum er þessi kona orðin móðir sín,  eða þessi veiki hluti móður sinnar.  Rödd mömmu er orðin hennar eigin rödd,  stundum gagnvart hennar eigin dóttur og gagnvart henni sjálfri.

Konan þarf ekki lengur neina mömmu til að kritisera sig,  hún er orðin fullfær um það sjálf.

Eina leiðin til að slíta þessa verkun og stundum keðjuverkun er að HÆTTA að brjóta sjálfa sig niður,  hætta að nota „Röddina“  í niðurbrot.

Kveðja þetta óöryggi og pakka því niður í kassa og senda það í forgangspósti til Timbuktu – og vonandi týnist það nú bara á pósthúsinu þar.   Því hvers á fólk á Timbuktu að gjalda að fá svona leiðindasendingu? –

Skilaboðin eru þessi,  ef þú ert ekki að meika mömmu þína og hennar „ábendingar“ – farðu að hlusta á sjálfa þig og vertu meðvituð um eigin „ábendingar“  í eigin garð og annarra.

Ertu kannski bara mamma þín? –

mom yelling

„Draugagangur í sambandinu“ ….

Ég var að hlusta á viðtal við stjúpföður sem notaði þetta orðalag: „draugagangur í sambandinu“ og ég held að flestir átti sig á við hvað hann átti.

Yfirleitt er draugagangur tengdur við látið fólk,  en þegar um er að ræða skilnað eða sambúðarslit,  er um að ræða lifandi fólk, eða þeirra áhrif innan nýs sambands.

Í sumum tilfellum gengur mjög vel að slíta á milli,  en í mörgum gengur það alls ekki.  Fólk sem hefur verið í sambúð eða hjónabandi í tugi ára er oft lengi að „slíta“ tifinningabönd og misjafnt hvað það er tilbúið að slíta.  Sumir eru tilbúnir og vilja halda áfram,  en aðrir geta alls ekki sleppt og nota þá ýmsar leiðir til að nálgast sinn/sína fyrrverandi.  Ef um börn er að ræða í sambandi þá þarf að sjálfsögðu að ræða praktísk mál hvað börnin varðar og jafnframt að muna að hafa velferð þeirra í fyrirrúmi.

Börn eru EKKI peð á taflborði í skák – en stundum finnst manni eins og þau séu því miður notuð og völduð í einhvers konar valdatafli.

Makinn sem er ósáttur beitir ýmsum brellum og brögðum (ærsladraugur?)  til að reyna að smjúga inn á milli í nýja sambandið og verður þá, ef nýja sambandið er ekki vel varið eða sterkt,  til vandræða.

Þessi „draugur“ gerir þetta stundum meðvitað en stundum ómeðvitað,   og áttar sig ekki á sinni stöðu.  Finnst hann enn eiga í sínum fyrrverandi og í raun sé hann/hún á pari við sig,  en ekki nýja makann.  –   Það er einhvers konar óraunsæi sem veldur,  og afneitun á aðstæðum.  Afneitun er líka stór þáttur í sorgarferli svo það er ekki skrítið,  en sorgarferli byggist á því að fara í gegnum það en ekki festast í ákveðnum fasa þess,  ekki bara afneitun heldur t.d. reiðin, höfnun, gremju o.s.frv. –

Annað orð sem ég heyrði í viðtalinu var orðið „Hollustuklemma“  eða „Loyalty conflict“ sem ég hef hingað til þýtt sem tryggðarklemma.  Þetta er klemma sem allir í blönduðum fjölskyldum geta lent í og er hún margskonar.

Barn getur lent í hollustuklemmu gagnvart móður/föður ef það líkar vel við stjúpforeldri.   Það þarf hins vegar að gera sér grein fyrir því að móðir og stjúpmóðir,  faðir og stjúpfaðir er aldrei það sama.  Líffræðilegir foreldrar eiga alltaf þennan þráð í börnum sínum sem virðist órjúfanlegur.

Fullorðinn getur líka lent í hollustuklemmu,  það er að segja gagnvart sínum eigin börnum annars vegar og stjúpbörnum hins vegar.

Svo er eitt dæmið klemman milli nýja makans og eigin barna,  ef myndast samkeppni um athyglina.   Allt verður þetta að vinnast í sátt og samlyndi og best að gera sér sem fyrst grein fyrir því að hér er um að ræða ólík samskiptamynstur.

Samskipti barns og foreldris eru önnur en pars og því ber að varast að stilla því upp á þann hátt að t.d. að það sé sjálfsagt mál að sonurinn nýti hlið eiginmannsins í hjónarúminu  þegar hann fer í burtu í viðskiptaferð,  en síðan verði hann að víkja þegar maðurinn kemur heim.   Þá myndast togstreita um pláss,  hvort sem um er að ræða stjúpson mannsins eða hans eigin son.

Hjónaherbergið á að vera griðarstaður fyrir parið,  þar ættu þau líka að vera í friði fyrir fyrrverandi mökum,  ekki bjóða þeim „á milli“  með því að ræða um þá,  vandamálin í kringum þá eða fortíðina með þeim.  Það er fullt af öðrum herbergjum til þess! 😉

Börnin eru að sjálfsögðu velkomin – svona til að skríða uppí á morgnana,  fer allt eftir aldri þeirra reyndar,   en allir eiga að eiga sitt rúm og sitt pláss.  Hlutverkin brenglast ef mamma/pabbi er farin að fylla upp í rými makans með barninu og barnið fær skrítin skilaboð og e.t.v.  einhverja ábyrgð gagnvart foreldrinu sem það kann ekki að höndla.  (Ath!  getur líka gerst eftir skilnað þegar foreldrar upplifa tómarúm).

En hvað um það, hollustuklemma eða önnur klemma,  á milli pars á ekki að vera fyrrverandi maki,  hlutverkin hafa riðlast.  Sambandið er nýtt og ferskt og yndislegt ef vel er að gáð.

Í þessu gildir:  „Two is a company, three is a crowd“ ..

Nú eruð þið par,  standið saman „for better or worse“ – og gleðin við það að komast í gegnum stormana saman verður mun meiri ef ekki er verið að dragnast með fortíðardraugana – auk þess sem gangan verður miklu léttari ef klippt er á slík bönd.

Setjið svo fókusinn á ykkur sjálf og vegferð ykkar,  hamingjusöm börn þrífast á heimili þar sem reglusemi og friður ræður ríkjum.

Við sjálf berum ábyrgð á eigin hamingju og erum þannig fyrirmyndir annarra,  hvort sem um er að ræða samband við maka, börn eða við okkur sjálf.

556212_332315983512626_1540420215_n

Sumt fólk …

  • Eftfirfarandi er endursögn frá síðu sem heitir „Spiritual Avakenings“ –  en það er margt sem við lærum þegar við höfum vaknað eða komið til meðvitundar.  Ég tel að þetta eigi við eineltisþola líka, – þeir sem eru lagðir í einelti hafa oft eiginleika sem sá sem ræðst að þeim öfundar þá af,  eða vildi að þeir hefðu. –
    Dæmi:  krakkar sem gengur vel í skóla,  skara framúr að einhverju leyti o.s.frv. – blíðir einstaklingar,  einstaklingar sem eru með opið hjarta o.s.frv.
    En þetta á ekki aðeins við á barnsaldri, þetta á við alla ævi og inn í fullorðinsárin.   Það er gott að rannsaka eigið skinn, kannski höfum við verið í hlutverki þess sem ráðist er að – en líka kannski verið í hlutverki árásarmannsins?  Einhvern tímann? –
    En pistillinn er eftirfarandi:
    „Sumt  fólk mun gera hluti, aðeins til að ergja þig, til að bregða fyrir þig fæti eða ná sér niðri á þér.  Vegna þess að þeim stafar ógn af mætti þínum og þeir vilja ná völdum yfir þér.  Ljósið laðar oft að sér árásarmenn – en ljósið fælir þá líka frá ef það velur að hafa sterk mörk.
    Það er mjög sjálfselskt að ráðast inn í friðhelgi annarrra og síðan álása þeim fyrir að vera of viðkvæmir.
    Sum Sjálf vaxa e.t.v. aldrei upp í hið hærra Sjálf, en það er þeirra vandi.  Ekki láta aðra ná þér niður – láttu það skoppa til baka þangað sem það á heima,  með því að viðhalda stöðugleika og hlutleysi,  vegna þess að þeirra eigin vekjari þarf að hringja. Ekki næra þá eða gefa þeim fullnægjuna við að særa þig. Til þess að enda stjórnartíð þeirra máttu ekki hlýða þeirra stjórn og ekki leyfa þeim að gera þig að fórnarlambi og ekki verða fórnarlamb.
    Þegar horfst er í augu við þetta, láttu það færa þér aukinn andans mátt, því það er á þeirri stundu sem þú ert minnt/ur á hið góða sem þú ert gerð/ur úr.  Það er engin ástæða til að sökkva sér í örvæntingu eða sársauka vegna þeirra sem ekki höndla kærleika, elsku og samúð sem heilagt ..
    Ef þú heldur þetta í heiðri,  munt þú njóta kostanna.  Þá muntu njóta þess að minna annað fólk á hversu fallegt lífið getur verið,
    þegar þú berð virðingu fyrir mikilvægustu eiginleikum lífsins.

Sjálfsræktar-og framkomunámskeið fyrir 11 – 13 ára Borgarnesi

Ég hef verið beðin um að setja um námskeið fyrir ungmenni 11 – 13 ára í Borgarnesi  og þykir mér gaman að geta verið við þeirri beiðni m.a. því lengi býr að fyrstu gerð og ég hefði svo sannarlega sjálf viljað hafa fengið meiri sjálfstyrkingu þegar ég var barn! –

Nemendur fá að læra um innra verðmætamat, mikilvægi þess að velja sér jákvæða andlega næringu, setja sér markmið,  skoða innri og ytri hindranir,  læra tjáningu og framkomu,  æfa spunaleikrit,  kynnast hugleiðslu og aðferðum til að losa um kvíða o.fl.

Markmið:  Að styrkja sjálfsmynd sína og sjálfsvirðingu,  opna fyrir tjáningu og eiga auðveldara með samskipti.

Námskeiðið verður mánudaga kl. 16:00 – 18:00  (húsnæðið er í fæðingu, en verður á einhverjum góðum stað í Borgarnesi (allir staðir góðir þar reyndar ;-))

Væntanlega verður námskeiðið betur kynnt í byrjun janúar.

Tími  5. – 26. febrúar 2013   (möguleiki á framhaldi í mars)

Kynningarverð:  12.000.-  krónur  

(innifalin námskeiðsgögn,  pappír, „draumabækur“ o.fl. )

(Upplögð jólagjöf – hægt að panta gjafabréf hjá johanna@lausnin.is)

Leiðbeinandi er ykkar einlæg:  Jóhanna Magnúsdóttir,  guðfræðingur, ráðgjafi og fv. aðstoðarskólastjóri,  en ég kenndi m.a. Félagsfræði og áfanga í Tjáningu  í framhaldsskóla og hef góða reynslu af kennslu- og uppbyggingarstarfi með nemendum.

Fjöldi á námskeiði:  10 – 20 nemendur

happy-kids

Kíkið endilega á þetta – ég hefði sjálf viljað fá svona þjálfun þegar ég var yngri, þá hefði ég kannski farið öruggari inn í lífið.  – Jákvæðni – hugrekki – styrkur – kærleikur – heiðarleiki – kurteisi – og margt meira í pakka fyrir 11 – 13 ára!

Ath! – ef að eftirspurn verður eftir námskeiði 12 – 15 ára þá væri möguleiki að hafa það á mánudögum  19:00 – 21:00  (ef áhugi er fyrir hendi sendið mér póst og ég safna á lista og læt vita hvort af verður).

Umsögn fv. nemenda:

„Jóhanna Magnúsdóttir,  klárlega góðhjartaðasta manneskja sem til er!“  Orri Páll 

„Það vita auðvitað ekki margir hver Jóhanna er né hvers hún er verðug. Hinsvegar get ég ekki annað en sagt mína sögu af henni. Í þau tvö ár sem ég gékk í Manntaskólanum hraðbraut, þá var ein stoð og stytta í gegnum allt námið, það var hún Jóhanna. Hún hefur ótrúlega hæfileika er varða mannleg samskipti og hef ég sjaldan upplifað eins einlæga og indæla konu eins og hana.“   Jökull Torfason

„Það er varla hægt að fara í skemmtilegra fag. Í tjáningu lærir maður að styrkja sjálfan sig og fara út fyrir þæginda ramman. Það gerir manni auðvitað ekkert nema gott. Við fórum í alls konar uppbyggilega leiki og það var mikið hlegið. Þetta byggði líka upp skemmtilegan anda og samstöðu. Í þessum góða hópi gafst manni tækifæri á að vera maður sjálfur og jafnvel sagt frá bestu og jafnvel verstu upplifunum í lífi okkar, stundum láku tár við bæði tilefnin. Margir sýndu ótrúlegan styrk og framför. Þessir tímar munu aldrei líða mér úr minni. Ekki bara það sem hafði áhrif á mann, líka það sem maður lærði og tók með sér út í lífið.“

Takk fyrir mig:)
Ragnhildur Sigurjónsdóttir Vatnsdal

—–

Minni svo á að ég er með handleiðsluhóp fyrir konur um meðvirkni, á fimmtudögum kl. 17:00 – 18:30 en hann byrjar um miðjan janúar.

Einkaviðtöl get ég boðið upp á um leið og skýrist með húsnæðið,  en það eru sálgæslu- og sjálfstyrkingarviðtöl í anda þess sem ég skrifa um hér á síðunni.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Sólin brennir ef þú færð of mikið af henni …

Ljóð um meðvirkni  –  sem ég leyfði mér að þýða yfir á íslensku (eins vel og ég kann),  því ég kolféll fyrir ljóðinu.

Ljóðið heitir:  „Comes the Dawn“ og er eftir Veronica Shorffstall.
Kannski hægt að kalla það sama nafni og annað ljóð sem margir þekkja,  eða:

Líður að dögun …

Skref fyrir skref lærir þú þessi lævísu skil
milli þess að halda í hendi og hefta sál,

og þú lærir að ást þýðir ekki undirgefni
og að félagsskapur þýðir ekki öryggi,

og þú ferð að skilja að kossar eru ekki samningar
og gjafir ekki loforð.

Og þú ferð að viðurkenna ósigra þína
með höfuðið hátt og augun opin,

þú lærir að byggja þér brautir
á deginum í dag vegna þess að grunnur morgundagsins

 

á deginum í dag vegna þess að grunnur morgundagsins
er of ótryggur fyrir plön,  og framtíðir hafa
tilhneygingu til að bregðast í miðju flugi.
Eftir nokkurn tíma lærir þú að jafnvel sólin
brennir ef þú færð of mikið af henni.
Því ræktar þú þinn eigin garð og skreytir
þína eigin sál í stað þess að bíða
eftir að einhver færi þér blóm.og þú lærir að þú hefur þol
að þú ert raunverulega sterk
og þú ert virkilega verðmæt
og þú lærir og lærir …. og þú lærir
þú lærir í hvert skipti sem þú kveður.
Orginal texti/ljóð:  smellið HÉR

„The Blame Game“ …

Í lífi og starfi hef ég tekið eftir því hvað skiptir okkur máli að finna sökudólga.  Það er þessi leit að einhverjum sem hægt er að kenna um.
„Það er þessum að kenna,  eða hinum að kenna.“

Það er spurning hvort að aðstæðurnar ráði yfir okkur eða við yfir aðstæðum.

Erum við aðeins fórnarlömb aðstæðna?  –  Tökum við ábyrgð á eigin lífi eða er líf okkar á ábyrgð annarra?

Það að ásaka aðra um hvernig komið er fyrir okkur er ákveðin flóttaleið frá ábyrgð.  Það er auðveldara að benda á aðra í stað þess að líta í eigin barm.   Ásökun er ekki uppbyggileg,  það hjálpar hvorki okkur sjálfum né nokkrum öðrum – það vinnur engin/n í „The Blame Game“  eða ásökunarleiknum.

Af hverju ekki? –

Ef við lítum á okkur sem fórnarlömb aðstæðna eða ákveðins fólks,  þá erum við búin að færa aðstæðum/fólkinu valdið yfir okkur.

Þetta virkar í báðar áttir, –  þ.e.a.s. við getum ásakað en við getum líka litið á utanaðkomandi sem gerendur í okkar gleði.  „Það er þessum aðstæðum/fólki að þakka að mér líður svona vel.

Eftir því sáttari sem við erum í eigin skinni,  eftir því sem við erum æðrulausari  þess minna látum við aðstæður eða fólk setja okkur út af laginu.

Ef ég er illa fyrirkölluð og einhver gagnrýnir mig,  er mun líklegra að ég ásaki þann sem gagnrýnir mig um líðan mína og óánægju.   En í raun er það ég sjálf sem þyrfti að skoða,  hvað það sé í mínu lífi eða innra með mér sem gerir það að verkum að ég er viðkvæm fyrir gagnrýninni.

Það er auðvelt að sjá þessa hegðun hjá börnum,  „hann sagði að ég væri leiðinleg“ .. og þá tekur barnið það að sjálfsögðu til sín,  og upplifir vanlíðan og trúir eflaust viðkomandi.

Ef þú kreistir appelsínu færðu út appelsínusafa.

Ef þú kreistir reiða manneskju þá kemur út reiði,  ef þú kreistir sátta manneskju kemur út sátt,   eða er þetta svona einfalt? …

Bara pæling.

Ef við tökum „The Blame Game“ og skoðum út frá skilnaði,  þá virkar það þannig að það þarf tvo aðila til að skilja.   Já, já, ég veit alveg að annar aðilinn gæti verið „drullusokkur“ – eða hafi brotið trúnað o.s.frv.-  og hinum finnst hann hafa gert allt rétt og sé fórnarlamb aðstæðna,  en í fæstum tilvikum er það þannig.   Skilnaður er yfirleitt útkoma úr sambandi sem er vanvirkt, meðvirkt, – það er sambandið sjálft sem er vont,  eða samskiptin eru vond og skemmandi.

Jafnvel þó við álítum að við höfum gert ALLT RÉTT, – þá sýna niðurstöðurnar annað.   Ef við neitum að horfast í augu við þetta gætum við lent í sama sambandinu aftur,  eða svipuðu.   Sá eða sú sem upplifir sig hafa gert ALLT RÉTT er iðulega meðvirk/ur og hefur í raun tekið þátt í að þróa sambandið í þá átt sem það fór.   Þetta er sárt,  en aðeins við að sjá meinið eða hvað vanmátturinn liggur og viðurkenna hann getum við breytt.

En svona í lokin,  höfum það í huga að ásökun er aldrei uppbyggileg, að sjálfsögðu þurfa allir að höndla sína ábyrgð,  og við erum mannleg.  Gefum ekki valdið yfir líðan okkar í hendur annarra,  hvorki til góðs né ills.

Við höfum val.  Val um að þroskast, val um að læra, val um að halda áfram .. en ásakanir eru ávísun á stöðnun.

Nýja hjólið …

Hann var að safna sér fyrir hjóli.  Hann gerði ýmis viðvik sem hann fékk greitt fyrir og aðalinnkoman fólst í launum fyrir blaðaútburð.  Reikningurinn var að ná tölunni sem hann vantaði:  „Fimmtíuogníuþúsundogáttahundruð“ – átti hjólið að kosta. –   Staðan á reikningnum var komin yfir fimmtíuþúsund þegar hann kom dasaður heim eftir blaðaútburðinn – en sýnin sem hann sá kom á óvart.

Draumahjólið var komið fyrir framan húsið,  og meira að segja með ýmsum aukaútbúnaði. –   Afi hans sem vissi að hann langaði í hjólið, og vissi reyndar að hann var að safna fyrir því – en fannst það hafa dregist á langinn,  hafði tekið sig til og keypt það fyrir hann.

Af hverju vildi afinn kaupa hjólið?

Var strákurinn ánægður? –

Hvers vegna ætti hann ekki að vera ánægður?

Þessi dæmisaga er svo lýsandi fyrir það hvernig við upplifum að vinna fyrir hlutunum sjálf, og þegar uppskerunni af erfiði okkar er spillt.

Þetta er eins og að vera í fjallgöngu og svo kemur einhver á fjallatrukki og býðst til að keyra þig upp á topp. –   Er það sami „sigur“ og að klifra upp á topp sjálfur?

Hvað með átök lífsins,  hvað um það þegar við erum að þroskast og læra,  hvað um það þegar við erum að heila okkur og fylla upp í skörðin.

Getur verið að einhver góðviljaður komi og spilli fyrir? –

Við verðum að gefa fólki tækifæri á að taka sjálfsábyrgð,  að uppskera árangur erfiðis síns,  að taka frumkvæði o.s.frv. –

Ef við tökum of oft fram fyrir hendurnar á fólki – tökum af því ábyrgð,  eða gerumst þroskaþjófar – eins og við köllum það í Lausninni,  getum við orsakað það og stuðlað að því að þetta fólk missi áhugann eða viljann til sjálfsbjargar.  –

Við getum verið til stuðnings og látið vita af okkur,  við getum hvatt áfram í fjallgöngunni – en við eigum ekki að slengja viðkomandi á bakið og bera hann upp.

Afinn hefði getað keypt lugt á hjólið eftir að strákurinn var búinn að kaupa það sjálfur,  eða bara gefið honum eitthvað annað – eins og tíma, athygli,  samveru,  eyru til að hlusta o.s.frv. –

Við getum verið náunganum ljós,  en vörumst að skyggja á hans eigin ljós þannig að hann fái ekki skinið. –

Hvaða ofbeldi hefur þú beitt? ……

Ha ég? ….

Þessa spurningu fékk ég einu sinni þegar ég fór á námskeið um ofbeldi.  Auðvitað er það þannig að þegar við förum á námskeið um ofbeldi, förum við uppfull af sjálfsréttlætingu og þeirri hugmyndafræði að læra um ofbeldi annarra.

En ég er þakklát fyrir að þarna var vísað inn á við.

Hvaða ofbeldi hefur þú beitt?

Við höfum nefnilega öll beitt ofbeldi, þó það sé eflaust í mörgum tilfellum alls ekki meðvitað eða sýnilegt.  En ekki er betri músin sem læðist en sú sem stekkur.

Þetta ofbeldi birtist í því hvernig við umgöngumst annað fólk,  með látbragði, stjórnun o.s.frv. –  Það gerist iðulega þegar við höfum verið misrétti beitt og höfum ekki svarað fyrir okkur,  þá látum við þá sem eru „neðar“ í goggunarröðinni finna fyrir því.

Það er því hætta á að óánægðir foreldrar láti gremju sína bitna á börnum sínum,  jafnvel þó þeir vilji það ekki,  kunna þeir ekki eða geta ekki betur.

„Vaknið“ er orð sem er margítrekað í Biblíunni.  Það er alltaf verið að hvetja fólk til að sjá.  Eckhart Tolle og fleiri spekingar segja að „Awareness“ sé málið eða það að vera með meðvitund.

Það að „vakna“ og vera með meðvitund er sami hluturinn.

Vakna og opna augun,  ekki bara fyrir hinu ytra, öðru fólki og heiminum,  heldur ekki síður hinu innra,  sjálfum okkur og heiminum sem við í raun erum.  Hver og ein/n er sinn eigin „míní-cosmos.“

Börnin í 3. og 4. bekk grunnskólans á Hvanneyri fengu fyrirlestur og umræðustund um einelti sl. fimmtudag á sérstökum degi sem var frátekinn sem dagur gegn einelti. –  Þessi börn eru eins og önnur börn, – þau eru að stríða, skilja útundan,  hvísla um hin, hlæja þegar einhver fer að detta o.s.frv. –   Þegar umræðan hófst var búið að kveikja á öllum geislabaugum og enginn kannaðist við að vera gerandi,  en flestir könnuðust við að vera þolendur.

Enginn gerandi en fullt af þolendum,  gengur það upp?

Við leysum ekki eineltisvandann né ofbeldisvandann fyrr en hvert og eitt okkar lítur í eigin barm og íhugar hvar hans eða hennar ofbeldi (þó það sé aðeins „míní-ofbeldi“)  liggur.

„Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“

Við gætum sagt að það sé vandlifað,  ekkert megi nú gera o.s.frv. – og auðvitað verðum við að styrkja báða enda.  Það er að segja að opna augun líka fyrir því að þegar aðrir ráðast að okkur,  eða beita ofbeldi er það þeirra eigin vandi,  þeirra vanlíðan og vanmáttur eða vankunnátta sem er verið að tjá.

Til að sjá það og skilja þarf þroska.

Ég held það sé okkur öllum hollt að íhuga þessa spurningu, „hvaða ofbeldi hef ÉG beitt?“ ..   og þá til að læra af því og bæta sig en ekki til að fara í sjálfsásökun. –

Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.  (Gandhi)