„Ég get það“ … nýtt námskeið í sjálfsrækt ;-)

Vegna fjölda fyrirspurna hef ég ákveðið að vera með sjálfstyrkingar-og tjáningarnámskeið fyrir fullorðna.  (18 ára og eldri).

Námskeiðið er æfing í framkomu, tjáningu um leið og því að nota jákvæðar staðfestingar. –

Ég mun nota bók Louise L. Hay

„ÉG GET ÞAÐ – HVERNIG ER HÆGT AÐ NOTA STAÐFESTINGAR TIL AÐ BREYTA LÍFI SÍNU“     

sem kennslubók, auk þess nota ég eigið efni.

Hvar?  Lausnin, Síðumúla 13, 3 hæð. 

Hvenær?  9. september – 4. nóvember  

Klukkan hvað?  –   17:00 – 19:00  

Hversu oft? 9 skipti x 2 klukkustundur

Hvað verður gert?  Fyrirlestur, æfingar, verkefni, tjáning æfð, framkoma, spuni o.fl.

Hver leiðbeinir?  Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur og ráðgjafi Lausnarinnar

Hvað kostar?  Námskeiðið kostar 39.900.-  Námsgögn innifalin.

Dagskrá:

1. vika 9. september –   Kynning Máttur staðfestinga

2. vika 16. september –   Heilsa  (1. kafli) 

3. vika 23. september –   Fyrirgefning (2.kafli)

4. vika  30. september – Velmegun (3. kafli) 

5. vika  7. október – Sköpunargáfa  (4. kafli)

6. vika  14. október – Ástir og sambönd (5. kafli) 

7. vika  21. október – Starfsframi (6. kafli)

8. vika 28. október –   Kvíðalaust líf (7.kafli)

9. vika 4. nóvember – Sjálfsvirðing (8. kafli) 

Louise L. Hay er einn vinsælasti fyrirlesari og lífsráðgjafi í Bandaríkjunum . Louise L. Hay hefur hjálpað fólki um allan heim að bæta lífsgildi sín og viðhorf með því að nota mátt jákvæðra staðfestinga.

Úr bókinni:

„Sumir segja að staðfestingar virki ekki, sem er staðfesting í sjálfu sér,  þegar þeir meina í raun að þeir kunni ekki að nota þær á réttan hátt. Þeir segja ef til vill: „Efnahagur minn fer síbatandi,“  en hugsa samtímis: „Úff, þetta er heimskulegt, ég veit þetta mun aldrei virka.“ 

Hvor staðfestingin haldið þið að verði ofan á?  Sú neikvæða auðvitað vegna þess að hún er hluti af gamalli vanabundinni hugsun um lífið.“ 


„Ef við viljum bæta lífsgildi okkar og viðhorf þurfum við að þjálfa hugann og vera jákvæðari í tali. Staðfestingar eru lykillinn. Þær eru byrjunin á leið okkar til breytingar.“ – 
                                                              – Louise L. Hay

Markmið námskeiðsins er að aflæra gamla vanabundna hugsun, og læra nýja hugsun.

Markmiðið er „Jákvæðari og ánægðari þú og sterk trú á eigin getu.  Trúin á það að eiga allt gott skilið og mega skína. –

Skráning fer fram á vef Lausnarinnar http://www.lausnin.is  en opnað verður fyrir skráningu á næstu dögum. –  Sendið mér tölvupóst johanna@lausnin.is ef þið hafið áhuga á að vera með,   og ég læt vita þegar búið er að opna skráninguna.

Af hverju skammast ég mín? …

Getur verið að þú hafir lent í einhverju sem þú segir ekki frá – ekki sálu?

Af hverju segir þú ekki frá því?

Gerði einhver eitthvað á þinn hlut? – Finnst þér að þú hafir kannski leyft það? – Samþykkt það að einhverju leyti? – Boðið upp á það? –

Ofbeldi er aldrei ásættanleg.

Það getur vel verið að þú hafir ekki kunnað mörkin, hvað þá ef þú varst barn.  Það getur vel verið að þú hafir ekki þorað að segja neitt og jafnvel sem fullorðin, en það var samt gengið yfir þig.

Það er vont þegar farið er inn fyrir okkar mörk og við frjósum, getum ekkert sagt, eða þegar við höfum hreinlega ekki kraft hvorki andlegan né líkamlegan til að berjast gegn því.

Við eigum samt sem áður ekki að sitja uppi með skömmina.

Hlutir gerast, vondir hlutir þegar fólk kann ekki eðlileg samskipti.  Það eru særð börn að meiða særð börn.  Við erum öll særð börn særðra barna.  Þar sem ofbeldi kemur við sögu er yfirleitt undirliggjandi sársauki.

Ekki skammast þín, því skömmin skyggir á sálina þína.  Hún fær ekki að skína eins og hún á að gera.

Ekki hafa leyndamálið ein/n  – deildu því hvort sem þú ert gerandi eða þolandi, þó það sé ekki með nema einum aðila sem þú treystir,  til að byrja með.   Það er fyrsta skrefið í eigin frelsun, úr þessu fangelsi skammarinnar.

Skömmin þrífst á leyndinni sem umlykur hana – um leið og við tjáum okkur um hana minnkar hún. Við þurfum að minna okkur á að við erum jafn veik og leyndarmálin okkar segja til um.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem verður fyrir áföllum í lífinu (sérstaklega þeir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi) og deila ekki reynslu sinni – eiga á hættu að leyndin geti orsakað meiri skaða en áfallið sjálft. Við höfum oft orðið vitni af því hvernig fólk talar um að þungu fargi er af því létt við það að tala um erfiða atburði.  (Brené Brown/Anna Lóa).
Það mikilvægasta í heimi hér er að vita að við erum ekki ein,  og það er alltaf einhver sem elskar þig.
Við viljum halda andliti,  við viljum ekki fella grímuna. Viljum að allir haldi að það sé allt í lagi þegar það er ekki í lagi.  Það er eins og að sópa undir mottuna og láta eins og ekkert sé þar.   Hversu miklu er hægt að koma undir eina mottu?
Er ekki betra að sópa því fram,  eða koma ruslinu þangað sem það á heima?
Þegar gengið er gegn lífsgildum okkar og prinsipum og við gefum eftir, aftur og aftur,  þá brotnum við hægt og rólega niður,  við förum að skammast okkar.
Skömmin getur birst á svo marga vegu.
Einhver talar endalaust niður til þín,  og ÞÚ skammast þín.
Af hverju?
Kannski vegna þess að þú kannt ekki að svara til baka, eða ert farin/n að trúa því að þetta „niðurtal“ sé satt.   Já, þú telur að þú eigir það bara skilið.   Hver ert þú svo sem?
Þú trúir því kannski því einhvers staðar lærðir þú að trúa því.  Trúa því að þú værir ekkert svo verðmæt/ur eða mikilvæg/ur.
Einhvers staðar á lífsleiðinni og yfirleitt í bernsku byrjum við að fá svona ranghugmyndir um þessa annars dýrmætu perlu sem hvert og eitt okkar er.
Hvernig á perlan að skína ef að hún er ötuð tjöru?
Tjöruna hreinsum við með því að tala um hana,  því eins og skömmin hatar hún að láta tala um sig því með því minnkar hún.
Þú ert perla og þú átt að skína.

Þessi yfirþyrmandi tilfinning að vilja ekki vera hérna lengur …

„Hérna“ .. þýðir lifandi á þessari jörðu.

Ef þú hefur upplifað það einhvern tímann að vilja flýta fyrir, vonast eftir slysi, óskað eftir að eitthvað gerðist svo þú fengir bara „short cut“ á þetta allt saman – þá ertu ekki ein/n.

Þegar bjátar á, þegar okkur leiðist, þegar við finnum engan tilgang – þá verður þessi tilfinning oft sú sem er á toppnum.

Af fenginni reynslu veit ég að það sem vantar er innri friður.  Það er svo skrítið að innri og ytri friður hafa áhrif á hvorn annan.  Áhyggjur af fjármálum hafa áhrif,  áhyggjur af fólki, – að vera fjarri fólki, að hafa engan til að knúsa – eða einhver vill knúsa mann of mikið kannski?

Það vantar eitthvað jafnvægi,  yfirvegun, ró.

Eins og söngkonan sagði einhvern tímann þá er líkaminn verkfærið.

Okkur vantar því ekki verkfæri – heldur vantar okkur að nota verkfærið.

Verkfærið til að fá innri ró.

Tjá okkur, sjá okkur og hlusta ..

Veita athygli því sem við einu sinni var bara á óskalista og eigum í dag? – Er eitthvað svoleiðis í lífinu okkar?

Tónlist getur spilað stóra rullu í lífinu, hún gerir það í mínu og textarnir gera það.

Í morgun var ég sorgmædd þegar ég keyrði frá Keflavík og var búin að skila af mér barnabörnunum.  Ég veit samt að þau eru í góðum höndum hjá föður sínum og kærastan hans virðist vera þeim kær líka.  Þegar ég horfi á það frá óeigingjörnu sjónarhorni þá er ég ofboðslega ánægð með það.

Í útvarpinu kom svo fallegt lag að það var eins og mér væri gefin sprauta og mér líður ennþá eins og ég sé í vímu 😉 ..  notalegri vímu sáttar og fullvissu um að allt sé eins og það á að vera.

Gerum okkar besta með það sem við höfum,  „hérna“ – ekki sitja ein uppi með vanlíðan og hugsanir,  tjáum okkur við þau sem við treystum.

Það skritna er að þegar við erum búin að segja eitthvað upphátt þá verður það yfirleitt minna þungbært.  Það er þó best að segja það einhverjum sem er ekki of tilfinningalega tengdur því að hann gæti tekið byrðina þína á sig,  – ráðgjafar, sálfræðingar og fólk sem gefur sig út fyrir að vera andlegir leiðbeinendur,  já ekki gleyma prestunum og djáknunum,  er fólkið sem er gott að opna sig við og létta á hjarta sínu.

Alls konar samtök eins og Alanon, coda, AA, þar sem fólk talar og hlustar gera kraftaverk fyrir svo marga.   Þar er samhygðin svo mikil.

Samhygð – samhugur er það sem er svo gott að finna.

Já, ég sagði það – við erum aldrei ein.

Það er eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að vita í þessum heimi þegar við erum með yfirþyrmandi tilfinningar – og sérstaklega í þeim dúr að vilja bara ekkert vera hérna lengur.

Það er alltaf einhver sem elskar þig,  ástæðan fyrir að ég skrifa þennan pistil er að ég finn að það eru svo margir sem glíma við sársauka og halda að þeir séu einir …  en nei, nei þú ert ekki ein/n ..  leyfðu traustinu á að betri tíð sé að birtast innra með þér verða stærra og meira en tilfinningunni að tíðin sé að þyngjast.

75985_466203706726737_155458597801251_1954778_1509319669_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Segir þú „já takk“ við ógeðisdrykk? …

Við eigum mörg erfitt með að segja „Nei takk“  og segjum stundum „Já takk“ þegar við meinum Nei.  Já, því miður er það þannig.

Við borðum matinn hennar ömmu því við viljum ekki særa tilfinningar hennar, jafnvel þó hann sé ótrúlega vondur. – Eða hvað?

Hér ætla ég þó ekki að ræða samskipti við ömmur, heldur á milli para eða hjóna.

Oft býður makinn upp á hegðun sem þér mislíkar.  Oft, eða stundum skulum  við segja. –

Því oftar sem þú segir „já takk“ – ekki upphátt endilega en þó í huganum við einhverju sem þér mislíkar, þvi´meira mislíkar þér við sjálfa/n þig.  Þetta er keðjuverkandi og þú verður allta lélegri og lélegri í að segja nei takk og ferð að taka við ýmsu sem þú átt í raun ekkert að taka á móti.

Hvað ef að maki þinn blandaði nú drykk fyrir þig,  edik, lýsi, súrmjólk og engifer skulum við segja og rétti þér hann og byði þér, eða jafnvel ætlaðist til að þú drykkir.  Hvert væri svarið? –   myndi það vera „já takk?“   eða „nei takk?“    Það þarf nú varla að spyrja að því.

Í þessu tilfelli væri nú varla um það að ræða að þú værir að sýna kurteisi eða vernda tilfinningar,  þú værir kannski að gera þetta til að halda friðinn,  makinn yrði til friðs ef þú bara drykkir drykkinn sem hann blandaði fyrir þig.

Stundum er ákveðin framkoma eins og ógeðisdrykkur,  þér líður a.m.k. eins og eftir að hafa drukkið slíkan.  Þá er að átta sig, virða sig nógu mikils til að segja „Nei takk, þetta er mér nú ekki bjóðandi.“

Kannski eru bragðlaukarnir orðnir dofnir? – Erfitt að skynja eða átta sig á hvað er ógeð og hvað er bara gott.  Er ekki lýsi hollt?  Er ekki engifer hollt?  Drekka ekki sumir edik til að grennast?  Súrmjólk, það þarf nú enginn að kvarta undan henni, eða kannski er hún full súr?

Kannski veistu bara ekkert í þinn haus og ekki viss hvað þér er bjóðandi og hvað ekki? –

Stundum erum við búin að venjast einhverju sem er vont.

Stundum þurfum við að leita ráða og biðja aðra um að smakka, ef að bragðlaukarnir eru orðnir dofnir af ógeðisdrykknum.  Þá er gott að fá lánaða dómgreind,  eða hitta einhvern sem er tilbúin/n að segja þér sitt álit.   Ekki einhvern sem tiplar á tánum í kringum ykkur parið og þorir ekki að skipta sér af,  heldur einhvern ómeðvirkan sem er tilbúin/n að segja hlutina hreint út.

Þá þarf líka að koma heiðarlega fram, heiðarlega við sjálfa/n sig og heiðarlega við þann sem um ræðir.

Það þarf yfirleitt tvo til að klúðra sambandi – það er sjaldnast bara einn sem ekki kann á samskiptin.  Einn getur ýtt undir ókosti annars, að sjálfsögðu óvart og vegna kunnáttuleysis.

Hluti af því að stöðva slikt ferli er að átta sig á hvað manni er bjóðandi, hluti af því er að segja „Nei takk“ .. og sjá svo hvað gerist! …

„Ég er vinnufíkill, hvað á ég að gera?“ ..sagði maðurinn ..

Vinnufíkn er ein af þeim fíknum sem við stundum tilkynnum að við höfum – og erum bara þokkalega stolt af því.   Jú,  það þýðir að við erum dugleg og öflum jafnvel vel.  Við erum ekki hangandi uppí sófa eða að mæla göturnar. –  Það er dyggð að vinna „und arbeit macht frei“  eins og stendur einhvers staðar á kannski ekki svo góðum stað.

Það eru sannleikskorn í flestu, eins og að vinnan frelsi.  Við þurfum að vinna til að alfa tekna til að hafa frelsti til að gera ýmsa hluti eins og að ferðast,  frelsi til að eiga þak yfir höfuðið og annað slíkt.  Frelsti til að geta leyft okkur ýmisllegt sem annars væri ekki hægt.

En í þessu gildir hinn gullni meðalvegur, – það er t.d. óþarfi að vinna svo mikið að við höfum  efni á að fylla bílskúra eða geymslur af ónauðsynlegum hlutum sem kannski virka spennandi um stundarsakir.   Eða eiga 50 pör af skóm sem við aldrei náum að nýta.  Vinna svo mikið að hægt sé að kaupa allt fyrir börnin sem auglýst er – nýjasta dót sem fylgir nýjustu bíómyndinni – eða nýjasta forrit í tölvuna.

Það sem oft vill gleymast er forgangsröðin.   Hvað skiptir þig raunverulega máli?

Hvað skiptir börnin þín raunverulega máli – eða hvað skiptir makann þig raunverulega máli?

Er það ekki tíminn þinn – er það ekki miklu frekar samvera með þér, en að þú sért stansllaust fjarverandi að „meika það?“ –   og hvað er verið að meika?

Besta setning sem svona varðar er:

„Hvað gagnast það manninum að eignast heiminn en glata sálu sinni“ ..

Ef að vinnan er orðin flótti – flótti frá heimili – flótti frá samskiptum við fjölskyldu – flótti frá sjálfum sér jafnvel þá er hún orðin fíkn.

Ef þú ert komin/n með samviskubit yfir því að vera að vinna,  þá er það slæmt mál,  því þá getur vinnan varla verið að veita þér gleði.  Hvað sem við erum að gera, við eigum að njóta þess.

Bókin „Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn“  fjallar um mann sem gleymdi sér í vinnu og vaknaði upp of seint.   Hann glataði tækifærinu á að umgangast fjölskyldu sína.  Þessi bók er reyndar miklu miklu meira.

Fjölskyldan – maki – börn,  nú eða stórfjölskylda og vinir er eitthvað sem aldrei skyoli taka sem sjálfsögðum hlut.  Enda ekki hlutir.

Fólk er eins og blóm – og samskipti við fólk er eins og blóm,  það þarf að vökva samskiptin,  vissulega misjafnlega mikið.

Gjafir,  stórar gjafir koma aldrei í stað samveru og tíma.

Mér var sögð sagan af stráknum sem spurði pabba sinn hvað hann fengi á tímann í vinnunni sinni. –  Pabbinn svaraði  ca.  3.800.- krónur.

Viku seinna kom stráksi aftur til pabba með lófann fullan af peningum sem hann hafði safnað,  með 3.800.- krónur nákvæmlega og spurði:  „Pabbi má ég kaupa hjá þér einn tíma?“ –

Hvað er þörf og hvað er nauðsyn?

Það má ekki gera lítið úr vinnusemi og dugnaði og við þurfum ölll salt í grautinn. Við þurfum húsaskjól, farartæki, möguleika á einhverjum kósýheitum,  en íhugum vandlega hvort verið sé að vinna fyrir ónauðsynjum og þá hvort að sá tími fari til spillis.

Hver og einn þarf að átta sig á því þegar komið er yfir strikið,  þegar vinnustaðurinn er orðinn „skálkaskjól“ fyrir að fara ekki heim – og þá felst afneitunin oft í því að þú verðir að vinna fyrir heimilinu og sért að draga björg í bú.

Eflaust ertu bara að vinna fyrir skilnaðinum þínum,  því það er rándýrt að skilja bæði andlega og veraldlega.

Stundum er það þannig að sá sem er í burtu löngu stundum í vinnu reynir að bæta fjölskyldunni það upp með dýrum gjöfum.   Svo er fjölskyldan aldrei nógu þakklát og sá vinnusami skilur ekkert í því og allir sitja uppi óánægðir.

Stóra spurningin er:  „Hvað skiptir þig raunverulega máli?“ –

Ekki láta hluti – og það að eignast þá verða að stóra málinu í lífi þínu.  Jú, kannski ef þú gerir það í samvinnu við fjölskyldunna,  þið t.d. eruð saman að byggja húsið ykkar og hafið gaman af því.  En allt sem sundrar fjölskyldum eða pörum þarf að skoða með gagnrýnum gleraugum.

Stóru spurningunum þarf að svara:

Af hverju er ég að vinna svona mikið og er það nauðsynlegt? –

Þarf ég að sanna eitthvað?

Þarf ég viðurkenningu vegna verka minna,  hvað ef ég vinn minna – er ég þá nógu „merkileg/ur?“ ..

Hvað er verið að kaupa?

Hvernig er staðan á geymslunni – bílskúrnum – háaloftinu – fataskápunum.

Hvað vantar – raunverulega?

601106_10150952639181740_36069728_n

Markþjálfun með englum – „englaþerapía“ ..

Ég ætla að bjóða upp á nýja „þerapíu“ sem er reyndar engin þerapía heldur frekar nokkurs konar markþjálfun.

Þú dregur eitt af englaspilum „Doreen Virtue“ –  segjum til dæmis „Freedom“ og þú færð afhent blað með teikningu þar sem markmiðið er „Freedom“ – síðan skoðum við saman hindranirnar (innri og ytri)  að því að öðlast frelsið,  hvað þýðir frelsi fyrir þig og af hverju þarftu frelsi – og frá hverju?

doreen

Við skoðum aðferðirnar þínar – hvað þú þarft að gera til að vera frjáls.

Þetta er algjörlega óhefðbundið og ósannað og þú pantar tíma á eigin ábyrgð – en þrátt fyrir að ég segi þetta á undan trúi ég að þarna sé hægt að sjá ýmsar leiðir, og hef reyndar lært fullt af þeim – til að  átta sig á því hvað heldur aftur af þeim sem ekki ná markmiðum sínum,   ekki bara frelsinu, heldur svo mörgu öðru. – 😉

Þú færð teikningu með þér heim þar sem þú hefur markað leiðina – skoðað hindranirnar og væntanlega aukið trú þína á að markmiðin þin náist, þegar þú veist hvað heldur aftur af þér. 

Aðeins er um að ræða að taka lágmark 3 skipti, vegna þess að ákveðið aðhald liggur í því að þurfa að koma aftur og segja frá hvað er búið að gera og hvað ekki – ef svo er.

„Englaþerapían“  er 30 mínútur x 3 skipti á 2 vikna fresti.  

Kynningarverð kr. 12.000.-  

Vinsamlega panta hvort sem um hefðbundið viðtal er að ræða (60 mín) eða svona englapakki, –  í gegnum einkaviðtalskerfi Lausnarinnar:

Tengill hér:  http://www.lausnin.is/?page_id=2385

Fyrstu fimm sem panta tíma fá hugvekjudiskinn Ró 😉 í kaupbæti! ..

Hin sanna móðir …

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Ég datt aðeins inn í bíómyndina „The Help“ í gærkvöldi,  þar sem aðskilnaðarhyggja mismunandi kynþátta var m.a. tekin fyrir,  en það sem vakti helst athygli mína var barnfóstran sem var að hvetja litla stelpu til dáða,  segja henni hversu yndisleg hún væri og hvetja hana áfram á meðan móðir hennar var sýnd sem grimm og uppeldisaðferðir vægast sagt umdeildar.

Að sjálfsögðu var þetta eflaust „þeirra tíma uppeldi“ – að einhverju leyti,  þó að það mætti spyrja sig hvers vegna barnfóstran notaði það þá ekki líka? –

Dómur Salómons þar sem hann dæmir í máli kvennanna sem rífast um barnið hefur oft komið upp í huga minn. –  Salómon var talinn vitur og dómur hans réttlátur, en stundum hef ég (já litla ég) leyft mér að efast um viskuna á bak við þennan dóm.

Dómur Salómons:

  • „Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þinn sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“

Við erum ekki svo græn að vita ekki að það að vera líffræðilega móðir tryggi elskuna til barnsins.  Það er ekki langt um liðið að barn fannst í ruslafötu á Íslandi.

Sem betur fer er ég að tala hér um algjört undantekningatilfelli og það er hreinlega vont að skrifa svona setningu eins og er hér á undan.

Þó að mæður komi ekki börnunum sínum fyrir á þennan hátt,  þá reynast þær þeim þó oft ekki eins og ætla mætti að móðir myndi gera, eða við höldum að hún myndi gera.   Hin skilyrðislausa ást móður til barns er ekki fyrir hendi í einhverjum tilvikum.  Barnið þarf að þóknast móður og sýna fram á að það sé elskunnar virði.  Allt of oft kvarta, sérstaklega stelpur og konur langt fram á fullorðinsaldur að mæður geri lítið úr þeim, gagnrýni þær og þeim líður illa eftir að hafa verið í samneyti við móður sína.

Margþekkt dæmi eru þar sem mæður nota börn sín í deilum við feður þeirra.  Þær standast ekki freistinguna að „valda“ sig með barninu,  því það getur verið sterkasta tæki þeirra.

Hvar er móðurástin og umhyggjan fyrir barninu þá? –

Hvað myndi Salómon segja?

Hver er hin sanna móðiir?

Ég sit ekki hér og þykist saklaus.   Ég er sjálf sek um að hafa sagt hluti við börnin mín sem voru á eigingjörnum nótum og líka verið allt of upptekin af sjálfri mér kringum skilnaðinn við föður þeirra og ég sagði meira að segja vonda hluti um hann þó það væri akkúrat það sem ég ætlaði mér ekki.   Börnin eru nefnilega hluti af föður og hluti af móður og líta á sig sem slík.  Illt tal um móður – eða föður bitnar því á börnunum.

Ég er líka sek um samviskustjórnun,  enda það sem ég lærði.

„Ég er ekki reið, ég er bara leið“ ..  „Já, já, farðu bara ég verð bara ein heima“ eða eitthvað álíka. –   Samviskustjórnun felst í því að planta samviskubiti í börn.

Margt af því sem mæður gera og eflaust flest sem þær gera rangt er vegna vankunnáttu, eða vegna þess að þær nota það sem fyrir þeim var haft.

Allar mæður þurfa að líta í eigin barm,  – það er alltaf tækifæri til að breyta, til að vega og meta hvort að hegðun gagnvart barni er vegna elsku til barnsins eða vegna eigingirni.

Munum t.d. að meðvirkni er ekki góðmennska, eins og margoft er tuggið.   Stundum þrá mæður að fá elsku eða samþykki frá barninu sínu og fara að gera hluti fyrir það sem það á að geta gert sjálft og stuðlar að þroska þess.   Kannski verður barnið reitt út í mömmu þegar hún setur mörk,  en þannig virkar oft þessi óeigingjarna elska.

Að sjálfsögðu með þá trú í brjósti að barnið muni átta sig á því fyrr en síðar að það var með hag þess í brjósti sem móðirin sagði „Nei“ í það skiptið,  eða hvað það nú var sem hún gerði.

Börnin vaxa úr grasi og verða að lokum fullorðnir einstaklingar og þau eru ekkert illa gefin.  Þau átta sig á foreldrum sínum,   hvort sem um ræðir móður eða föður.  En margt af því sem hér er skrifað um mæður gildir að sjálfsögðu um föðurinn líka.

Sönn móðir veit að barnið hennar verður alltaf barnið hennar, – því börn eru nú flest þeirrar gerðar að þau elska mæður sínar skilyrðislaust.   Þó þau fjarlægist eða finnist mamma erfið eru einhver tengsl þarna á milli,  eflaust runnin frá því að vera í móðurlífi hennar sem er ekki hægt að slíta.

Hinn ósýnilegi naflastrengur. 

Hin sanna móðir þarf ekki að efast,  notar ekki barnið sitt í valdatafli í skilnaðarferli, heldur hefur það að markmiði að kljúfa ekki barnið heldur að halda því heilu.

Hin sanna móðir er því eins og barnfóstran í „The Help“  sú sem plantar eftirfarandi hjá barni sínu:

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Fagnaðarerindið í þessum pistli er að þessi orð hér að ofan gilda ekki einungis til barna,  heldur til mæðranna líka, – þeirra sem fengu ekki að heyra þessi orð í bernsku.  Til þess að við séum hæfar til að bera þetta áfram,  þurfum við að tileinka okkur þetta.  Ef við upplifum að við höfum ekki haft getu eða kunnáttu til að sinna börnunum okkar eins vel og við vildum, eða að halda þeim heilum,  þá er gott að vita að þegar við áttum okkur þá byrjum við frá þeim punkti.  Börnin verða alltaf börn og mæður (og feður) fyrirmyndir,  það hættir aldrei að mínu mati.

„Þú ert Góð“ – „Þú ert Gáfuð“ – „Þú ert Mikilvæg“ 

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Viltu trúlofast ……

…. sjálfri/sjálfum þér? ..

Þetta er vísun í hugmynd sem kviknaði hjá mér við undirbúning námskeiðisins “Lausn eftir skilnað” –  Ég trúi því nefnilega að ein af ástæðunum fyrir því að samband/hjónaband renni út í sandinn sé að við höfum aldrei trúlofast né gefist sjálfum okkur.   Það sé grunnforsenda góðs sambands,  að byrja á því að elska sjálfa/n sig,  virða og treysta. – 

Það er pinku merkilegt að við séum tilbúin að lýsa yfir ást, trausti og virðingu við aðra manneskju – e.t.v. fyrir augliti Guðs, en það er það sem gert er í kirkjunni, – en eiga mjög erfitt með að gefast okkur sjálfum. –

Í hjónavígslu spyr prestur brúðhjónin hvort þau vilji vera hvort öðru trú. –

Hvernig liti þetta út ef við værum að giftast eða gefast sjálfum okkur? –

Nú spyr ég þig:  Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga þig?  –  Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –

Til að taka þetta alla leið, – þá gætir þú dregið þér hring á hönd til vitnisburðar um ást og trúfesti þína við sjálfa/n þig. – ;-)

Þetta er ekki sjálfs-elska, þessi sem við köllum eigingirni,  þetta er hin raunverulega elska,  því að eftir því sem við náum að þykja vænna um okkur sjálf, – hafa meira sjálfstraust og sjálfsvirðingu verðum við færari um að gefa af okkur og elska, virða og treysta öðrum. –

Lélegt sjálfstraust og léleg sjálfsvirðing skapar óöryggi gagnvart okkur sjálfum OG gagnvart maka okkar eða þeim sem við erum í samskipti við og veikir því sambandið. –

Alveg eins og við viljum að maki okkar sé heilbrigður og hamingjsamur – vill hann að við séum heilbrigð og hamingjusöm.  Það er líka miklu auðveldara að óska öðrum hamingju þegar við erum sjálf hamingjusöm.

Þetta gildir líka um samskipti foreldra og barna.  Alveg eins og við viljum að börnin séu heilbrigð og hamingjusöm,  óska þau  einskis fremur foreldrum sínum til handa.  – Það er niðurstaða mín eftir að hafa tekið viðtöl við hóp unglinga hvers þau óskuðu sér. –  Bein tilvitnun í eina 15 ára stelpu, sem foreldrar sendu í viðtal til mín vegna þess að henni gekk illa í skóla og var vansæl.

“Ég vildi bara óska þess að mamma væri glaðari” –

En hvernig verðum við glöð og hamingjusöm? –  Ég er oft spurð um “tæki” til þess og það var bara á þessu ári sem ég komst að þessari merku niðurstöðu að hamingjan dregur vagninn en ekki vagninn hamingjuna.

– Þ.e.a.s. við verðum að koma okkur í “gírinn”  …byrjunin er að:

elska sig – virða sig – treysta sér – samþykkja sig – fyrirgefa sér og síðast en ekki síst,  þakka fyrir! – (okkur þykir stundum að við höfum ekki neitt til að þakka fyrir, aðstæður okkar séu ómögulegar,  “allt í volli” – en þá þurfum við að líta betur og veita því athygli sem er þakkarvert og ég lofa því að við getum alltaf fundið eitthvað og við byggjum svo ofan á það). –

En ég var að tala um tæki, – sjálf nota ég hugleiðslu og kenni, en tæki sem allir geta notað eru það sem við köllum “daglegar staðhæfingar” – og þær virka! –  Já,  auðvitað virka þær og þú veist það því þú ferð með þær daglega nú þegar!!!  Því miður eru þær oft neikvæðar.  – “Hvað þykist þú vera?” – “Þú ert nú meira fíflið” –  “Mikið er nú ömurlegt veður” – „Ég geri aldrei nógu vel“ – Ég er aldrei nógu _____“  “Ég er að þrauka lífið” – blablabla… alls konar neikvæðar staðhæfingar förum við með á hverjum degi, – kannski ekki alltaf upphátt,  en svona undir niðri.  Stundum förum við í vorkunnargírinn, “Alltaf er ég að gera allt fyrir alla og enginn að gera neitt fyrir mig” .. “Af hverju hringir enginn?”  “Af hverju er maðurinn minn svona leiðinlegur og gerir mig ekki hamingjusama?” ..

Ég ætla ekki að halda áfram. – En síðasta setningin skiptir máli, þ.e.a.s. þessi setning um að ætlast til að aðrir hvort sem það er maki eða vinir geri okkur hamingjusöm.  Enn og aftur komum við að því að við VERÐUM að byrja á okkur sjálfum. –  Hamingjan kemur innan frá – fyrst og fremst,  umhverfið hjálpar til,  það er óþarfi að neita því,  – en t.d. manneskja sem virðir sig og elskar, hún lætur ekki bjóða sér neitt bull og óvirðingu og setur mörk.

En nú er komið að jákvæðu staðhæfingunum,  staðhæfingunum til að geta farið að elska sig og virða. – Það þarf að endurforrita, – taka út það gamla sem hefur virkað til niðurrifs og e.t.v. einstaka vírusa sem hafa læðst inn á harða diskinn! –  Við þurfum að fara að tileinka okkur það sem við höfum lesið í öllum sjálfshjálparbókunum og smellum upp á vegginn okkar á Facebook.  Því að það er sama hvað við lesum mikið – ef við notum það ekki,  er það svipað og að mæta í líkamsræktarsal og horfa bara á tækin og vera svo þvílíkt stolt af okkur að mæta í ræktina.

– Hugrækt vinnur eins.

 (já frá þessum tímapunkti ef þú ert ekki þegar byrjuð/byrjaður,  getur þú valið að taka yfir hugsun þína og breyta henni frá neikvæðri yfir í jákvæða). –  Þú þarft að sortéra frá það sem er uppbyggilegt og það sem er niðurbrjótandi og setja það síðarnefnda í svartan plastpoka og fara með það í  Sorpu eða endurvinnsluna. – Tíminn er kominn til að endurbyggja sjálfa/n sig.

Endurtaktu jákvæðar staðhæfingar, aftur og aftur og gerðu þær að þínum sannleika. –  Dropinn holar steininn. –

Hættu viðnáminu, líka gagnvart öðrum – hættum að vera dómhörð í eigin garð og annarra.  Samhygð er mesti þroskinn. Samhugur með sjálfum sér og öðrum.  Það tekur svaka orku að vera sífellt neikvæður í eigin garð og annarra og það er svo mikil hindrun í því að vera hamingusöm og að elska okkur! –

Kannski ekki skrítið að mörgum finnist þau þreytt, úrvinda og tóm.  Það er svo mikil orka sem fer í það að elska okkur EKKI! ..

Nú er tíminn til að setja orkuna í það að elska og leyfa kærleikanum – ástinni –  að flæða. –

Við þurfum að vera þolinmóð,  þó þetta komi ekki eins og barbabrella.  Við erum búin að taka okkar tíma í að elska okkur ekki og því getur það tekið  tíma að snúa við ferlinu. –

Leyfum okkur að hugleiða jákvæðu staðhæfingarnar og upplifa þær. – En veitum því líka athygli þegar við förum að finna ástæður til að trúa þeim ekki. –  (Er þetta fíflalegt? Kjánalegt? Væmið?)

Er ekki allt í lagi að nota ný “meðul” ef að þau leiða til hamingju þinnar? –  Við megum ekki berja okkur niður þegar við förum að vinna að gleðinni, hamingjunni – elskunni í eigin garð. –

Hið náttúrulega og eðlilega er að elska sig. – Þannig vorum við sem börn, en það gerðist bara eitthvað á leiðinni.  Einhver sagði eitthvað sem varð til þess að við fórum að efast að við værum ekki elsku verð.  –  Stefnan er að komast í okkar eðlilega ástand. – Ástand þar sem við dæmum okkur ekki,  ekki frekar en barnið sem liggur í vöggunni og virðir fyrir sér fingur sinna.  – Það er ekki að dæma þá vonda eða góða,  bara að virða þá fyrir sér því þeir eru þarna. –

(Sjálfs)hatur og niðurbrot getur verið hið algenga þó það sé ónáttúrulegt  – en ástin  er hið eðlilega eða náttúrulega ástand.

Eftirfarandi eru svo staðhæfingar sem þarf að hafa yfir á hverjum degi til að koma sér í eðlilegt/náttúrulegt ástand. – (mæli með því að prenta  þessar staðhæfingar út og lesa þær upphátt fyrir sjálfa/n sig á hverjum morgni og helst kvöldi líka, en bara ef þú vilt!) .

1. Ég samþykki mig af fyllstu einlægni
2. Ég fyrirgef mér fyrir mistök mín og neikvæðar hugsanir í fortíð, nútíð og framtíð
3. Ég elska mig skilyrðislaust
4. Ég elska sál mína
5. Ég elska huga minn
6. Ég elska líkama minn
7. Ég samþykki að nota mistök mín og óhöpp sem dýrmæt tækifæri til að læra
8. Ég geri mitt besta og mitt besta er nógu gott
9. Ég á skilið að vera hamingjusöm/hamingjusamur
10. Ég á allt gott skilið
11.  Ég á skilið að elska sjálfa/n mig
12. Ég á skilið að þiggja ást frá öðrum
13. Ég er minn besti vinur/ mín besta vinkona
14.  Ég tek gagnrýni af æðruleysi og þakklæti
15. Ég er sjálfsörugg/ur og hef góða sjálfsvirðingu
16. Ég fagna því að vera einstök manneskja
17.  Ég geri það besta úr hverri stund og úr hverjum aðstæðum
18.  Ég treysti sjálfum/sjálfri mér
19.  Ég nýt þess að vera með sjálfum/sjálfri mér
20.  Ég tek ábyrgð á eigin líðan
21.  Ég er stolt/ur af sjálfri/sjálfum mér
22.  Ég er siguvegari
23.  Ég er stolt/ur af árangri  mínum í lífinu og líður vel með bæði það sem hefur gengið vel og illa.
24.  Ég er skemmtileg/ur og ég skemmti mér
25.  Ég er góð manneskja.

Hamingjan er lykilinn – og lykillinn er ekki einhvers staðar þarna úti eða í annarri manneskju,  – þú ert lykillinn. –

Þess vegna megum við ekki fókusera svona á að aðrir geri eitthvað fyrir okkar hamingju, – heldur taka ábyrgð á eigin hamingju og eigin lífi. –

“Success is not the key to happiness. Happiness is the key to success. If you love what you are doing, you will be successful.”
– Albert Schweitzer

Þessi pistill er blanda af eigin hugleiðingum og því sem ég hef pikkað upp af netinu,  listinn er t.d. fenginn að láni, með smá breytingum – en öll erum við í þessu saman, og hamingja mín er hamingja þín.  – Svo skínum fyrir hvert annað! –

Því spyr ég aftur:

–  Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –

Minni á nýtt námskeið sem byrjar 11. maí – „Lausn eftir skilnað“ fyrir konur –   sjá nánar http://www.lausnin.is

562085_364664146931546_146189222112374_996249_1945055447_n

Þrír konfektkassar borðaðir í meðvitundarleysi …

Í fríhöfninni var tilboð á konfekti, þrír fyrir einn og ég taldi það upplagt að kaupa þrjá kassa og ég gæti gefið þá í jólagjafir.

Ég lá í mjúka græna sófanum mínum og horfði á einhverja Disney föstudagsmynd og vorkenndi mér að vera ein,  ég var einmana og taldi að allir aðrir væru að hafa það kósý heima, pör sætu hönd í hönd o.s.frv. – heilinn virkar bara stundum þannig.

Ég átti a.m.k. svolítið bágt (að eigin mati).

Ég gekk eins og í leiðslu inn í eldhús og skimaði eftir einhverju sætu að borða,  ég passaði mig að kaupa ekki kex eða sælgæti því að ég vissi að það færi bara ofan í mig, síðan á rass, maga og læri  og ég yrði óánægð með mig.  Svo var víst talað um að sykur væri eitur og heilinn færi í þoku við þetta,  eða eitthvað svoleiðis.

En hvað um það,  þegar svo kom að því að  ég ætlaði að grípa í konfektkassana þrjá fyrir jólin voru þeir allir tómir uppí skáp.

Ég hafði sem sagt „læðst“ í einn þeirra – ákveðið að fórna honum,  „ég átti það svo skilið“ en einhvern veginn enduðu þeir allir tómir.

Á námskeiði haustið 2010 sá ég fyrst bókina „Women, Food and God“ – og svo hoppaði hún í fangið á mér einhverju síðar.  Þar segir Geneen Roth frá reynslu sinni,  hvernig m.a. hún fyllir í tómu tilfinningapokana með mat,  hvernig hún reyndi m.a. „svarta kúrinn“ til að grennast en hann var „sígarettur, kók og kaffi“ og það tókst – jú hún varð grönn, en auðvitað hvorki heilbrigð né hamingjusöm,  en hún var að leita eftir báðu.   Hún segir frá „Röddinni“  sem glymur inní okkur sem segir að við séum aldrei nógu góð,  hver við þykjumst vera og þar fram eftir götunum.  Hún segir frá ferðalaginu frá okkur og mikilvægi þess að lifa „í okkur sjálfum“.. sem er í anda þess að það að þekkja Guð er að þekkja sjálfa sig.   Hún segir auðvitað margt, margt fleira – og hvernig hún,  með því að ná sátt við sjálfa sig og búa til nýja vana „habit“  sem fólst í því m.a. að borða m. meðvitund náði hún því að vera í sinni „náttúrulegu“ þyngd,  auk þess að hún hætti að vega sig og meta skv. útliti og tölum á vigt.

Þegar ég lokaði þessari bók var eins og ég hefði verið frelsuð,  – frelsuð frá kúrum, frelsuð frá því að skoða hamingju mína út frá tölum á vigt,  og það var dásamlegt.

Ég var mjög grönn sem barn og unglingur,  of grönn og þurfti aldrei að hafa áhyggjur af mataræði, helst að ég reyndi að bæta á mig ef eitthvað var.

Ég man í rauninni ekkert hvenær ég fór að fitna,  ég eignaðist barn 19 ára gömul og kom í þröngu buxunum mínum heim af fæðingardeildinni svo ekki var það þá.

Ég bætti einhverju á mig milli tvítugs og þrítugs – var alltaf grönn en þar byrjaði ég að upplifa það að vera „feit“ – og ekki nógu „flott“ ..  það byrjaði einhver ósátt,  ekki nógu grannt mitti,  ég vildi vera „fullkomin.“ ..

Það voru ytri aðstæður,  erfiðleikar í sambandi, og kannski bara einhver ófullnægja í sjálfri mér sem olli því að ég fór að hugga mig með mat.  Mér þótti alltaf gott að borða en var alltaf, já ég meina alltaf að tala um megrun og að grenna mig.

Ég byrjaði ung að fara í  kúra og „átak“ og þau hafa verið svo mörg sl. 30 ár  (eða þar til ég frelsaðist)  að ég hef ekki tölu á þeim.   Ég las alls konar ráð,  ég tók losandi til að léttast og var meira að segja ánægð ef ég fékk ælupest því þá léttist ég.   Ég náði þó aldrei að fara út í anorexíu eða búlemíu þó að ég hafi verið á jaðrinum.

Ég var haldin þeirri hugmynd að verðmæti mitt fælist í því hvernig ég liti út.   Hversu grönn ég væri.

Þegar ég var unglingur sagði vinkona mín við mig að hún vildi hafa útlit annarrar vinkonu okkar og persónuleikann minn.   Ég móðgaðist.  – Já,  ég var niðurbrotin.  Ég gat ekki verið ánægð með hrósið.  Það sem ég heyrði bara „Þú ert ekki falleg“…  Sjálfstraustið,  hjá þó þessari ungu konu með sterka persónuleikann var ekki meira en það.

Ég var í jójó – megrun í tuga ára.  Það rokkaði upp og niður um einhver kíló.   Geneen Roth segir frá því að hún hafi misst hundruði kílóa í gegnum æfina,  það hef ég líka gert.  Það vita flestir sem hafa reynt megranir – að þegar aftur bætist á bætist meira við en þegar leiðangur hófst,  og þá líður manni eins og að falla í prófi,  eins og fallista.

Síðan ég las „Women, Food and God“  hef ég bætt heilmiklu lesefni og fróðleik  við,  því að sú hugmyndafræði dugar ekki ein og sér.   Ég hef lesið mikið og kynnt mér í sambandi við meðvirkni,  í sambandi við skömm og berskjöldun,  o.fl. o.fl.

Ég hef beint orkunni í að skoða orsakir þess að ég borða þegar ég vil ekki borða.  Hlustað á tilfinningarnar og skilið hvar ég lærði að hugga mig með mat.  Það lærum við að vísu flest í uppeldinu,  það er þessi oral huggun sem kannski byrjar með snuði,  sumir sjúga sígarettur og vindla,  aðrir setja stútinn í munninn og svo er það maturinn eða sælgætið.

Það er bæði þessi huggun og svo hjá sumum er það „fixið“ – því auðvitað líður manni öðruvísi í líkamanum þegar efni eru sett í hann.

Það er skammgóður vermir að missa piss í skóna,  og þessi „huggun“ er álíka því að svo fer pissið að lykta og gerir manni vont.

Ég vildi miðla reynslu minni og uppgötvunum frá Geneen Roth,  og tengja það við grunnmódelið um meðvirkni,  en þá er það líka spurningin „Af hverju?“

„Af hverju geri ég ekki það sem ég vil gera?“ ..

Ég fann gífurlega góðan fyrirlestur frá frönskum sálfræðingi sem heitir Sophie Chiche sem fjallar um nákvæmlega þetta.   Hún talar um „svarthol“ sem við lendum ofan í,  á miðri leið og við snúum við, gefumst upp.

Hún segir að það sem stoppi okkur sé m.a. að við gerum annað fólk að „Guði skoðana okkar“ –  Við teljum okkur ekki eiga skilið að ná árangri (röddin) –  o.fl.

En það sem hún vekur einnig athygli á er „You have to see your pain to change“.. þ.e.a.s. þú verður að sjá sársauka þinn til að breyta.

Sophie missti tugi kílóa og var spurð hvað hún hefði eiginlega gert,  hún svaraði „ég gerði ekkert,  ég bara breytti tilveru minni“ –  eða „I shifted my state of Being“ ..

Hún segir líka frá því að hún hafi verið alin upp við að vera boðið „Nutella“ þegar henni leið illa.

Ég þekki þetta af eigin raun – að borða ofan í tilfinningarnar mínar,  þetta hömluleysi og að verða ekki södd, hversu mikið sem ég borða.   Að gleypa í mig og gleyma að ég hafi verið að borða og njóta þannig ekki matarins.  Að aka í hamborgarabúllu og kaupa hamborgara og franskar þegar ég mætti óréttlæti og deyfði mig þannig með mat í staðinn fyrir að upplifa tilfinningar sem ég þurfti í raun að upplifa.

Ef ég færi eftir leiðarljósum Geneen Roth,  þá myndi ég auðvitað ekki gera það því að eitt af hennar sjö leiðarljósum eða nýjum siðum er að borða alltaf við borð.

Hún og Paul McKenna hafa líka þá sameiginlegu reglu að njóta matarins.  Það að njóta þýðir ekki át eins og þegar við liggjum afvelta á aðfangadagskvöld,  heldur að borða með vitund,  ekki í meðvitundarleysi.   Finna ilminn,  borða hægt,  skynja matinn og já .. njóta.

Hvernig við borðum er í raun ein birtingarmynd af því hvernig við lifum.  Við getum „gleypt“ í okkur heiminn án þess að njóta eða taka eftir því sem við erum að gera. –

Við getum keyrt hringveginn án þess að virða fyrir okkur fjöllin og sólarlagið.  Við erum jú búin að fara hringinn,  en hvað stendur eftir? –

Það er margt í mörgu og líka þessum fræðum.

Ég segi að allir þurfi að taka ákvörðun,  ef þú ætlar að fá þér marengskökusneið ekki borða hana með samviskubiti.

Ekki hugsa við hvern munnbita „ég á ekki að vera að þessu“ –  því þá hleður þú ekki bara á mjaðmirnar, rassinn eða lærinn – heldur hleður þú skömm inn á þig yfir því að ráða ekki við þig,  þú ert farin/n að gera það sem þú vilt ekki gera.

Skömminn er þung að bera og oft þyngri en nokkur kíló.

En til að fara að stytta mál mitt.

Við borðum ekki öll yfir okkur eða of mikið af sömu ástæðum,  en matur og tilfinningar er mjög tengt.   Sumir verða fíklar í mat – og spurningin er þá hvort hún er einungis líffræðilegs eðlis eða líka félagsleg eða andleg? –   Ég held að í mörgum tilfellum sé það bæði.

Ég veit það að þegar ég er í jafnvægi – og lifi í æðruleysi hef ég minni þörf fyrir hið ytra.  Ég er fullnægð,  hef nóg og er nóg.  Ég nýt þess að borða og hætti þegar ég er ekki svöng lengur.   Eftir því sem mér líður betur með mig,  er sáttari við mig og elska mig meira og geri hlutina af því ÉG vil það ekki vegna þess að til þess er ætlast af mér,  eða til að fylla inn í staðla.

Ég hvet líka til þess að fara út að ganga á réttum forsendum, ekki vegna þess að ég Á að fara út eða VERÐ að fara út,  heldur vegna þess að ég elska mig svo mikið og langar að gera mér gott og fá ferskt loft og NJÓTA útiveru. –  Auðvitað þurfum við stundum svolítinn aga til að byrja nýja siði,  að breyta úr gömlum vana yfir í nýjan vana,  en yndislegt ef sá nýi gerir okkur gott.

Markmiðið mitt með námskeiðunum mínum: er m.a.  „heilsa óháð holdarfari“ (Anna Ragna)   og „sjálfstraust óháð llíkamsþyngd“  (Sigga Lund)  .. að fara að njóta matar (lífsins)  (Geneen Roth og Paul McKenna)  Sjá hvað veldur þér sársauka (Sophie Chiche og meðvirknimódelið)  Hreinsa út skömm (Brené Brown).

Hamingjustuðullinn skal upp 😉 ..  hamingjusamari þú:  þarft minna af hinu ytra og lifir í sátt og öðlast innró ró og lífsfyllingu og þarft því ekki lengur að fylla á „tómið“ þegar það er ekki tómt lengur.  Það er fullt af lífi, gleði, ró, ást og trausti .. til þín. 

Námskeiðið „Í kjörþyngd með kærleika“  varð til upp úr þessu öllu saman, –  þar tengi ég saman menntun mína,  þekkingu á meðvirkni og eigin lífsreynslu.   Ég létti engan, ég breyti engum,  það er í höndum þeirra sem taka þátt og stundum er þetta námskeið aðeins fyrsta skrefið að breyttu hugarfari,  sumar hafa náð hugmyndafræðinni og haldið áfram – og ég hef fengið meldingar eins og að þær hafi náð „draumavigtinni“  eða þarna hafi þær áttað sig á því hvað þær raunverulega vildu.  Þetta byggist á þátttakandanum að opna fyrir og vera tilbúin að henda af sér gömlu hugsununum – þessum útrunnu eins og „ég get ekki“ – „ég á ekki allt gott skilið“  „mér mistekst“  o.s.frv. –   Í þessari vinnu eins og allri vinnu þar sem við erum að breyta þurfum við að aflæra og læra upp á nýtt.   Ýta á delete og setja inn nýjan hugbúnað.   Eða eins og Sophie Chiche sagði „I shifted my state of being“ ..

Besta leiðin við að ýta á „delete“ er að tjá sig um tilfinningar sínar,  fá útrás og ekki bæla inni eitt né neitt.  Það er gert í trúnaði og kærleika.

Við verðum líka að vera raunsæ og þekkja okkur, – ef við VITUM að einn súkkulaðimoli veldur því að það verða margir á eftir,  þá verðum við að skera súkkulaði út af okkar lista.  Því sá matur sem við getum engan veginn borðað með meðvitund verður að fara út af okkar matseðli,  alveg eins og áfengissjúklingur tekur alkóhól út af sínum lista.

Nýtt námskeið „Í kjörþyngd með kærleika“  er að hefjast á laugardag kl. 13:00 sjá http://www.lausnin.is  og enn er hægt að skrá sig.

„Mæli með þessu námskeiði. Það gerði mér ótrúlega gott og er stór varða á lífsleið minni :)“ Ólöf María Brynjarsdóttir.

Kannski er svona námskeið aldrei annað en varða á lífsleið,  en hvað er betra en varða þegar maður er svolítið áttavilltur?  Munum líka að fíkn er flótti, hvað ertu að flýja?

Meira lesefni þessu tengt – http://www.elskamig.wordpress.com

21-the-world

Þykir þér vænt um heiminn? –  Hvað viltu gera til að vernda hann? – Myndir þú hella eiturefnum í jörðina? –  Ertu umhverfisverndarsinni? –   Hvað ef að þú værir heimurinn,  myndir þú hugsa betur um þig?

Þú ert heimurinn. 

Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.

Vanmátturinn í ofbeldinu …

Þeim sem líður vel, eru sátt, glöð, hamingjusöm, fullnægð – með sig og sitt,  hafa ENGA ástæðu til að beita ofbeldi.

Þeir sem leggja aðra í einelti, hljóta að vera tómir, leiðir, óöryggir – vegna þess að það að ráðast á eða leggjast á aðra manneskju fyllir upp i eitthvað sem þá vantar.

Dæmi eru til að þeir sem taka þátt í einelti geri það til að beina athyglina frá sjálfum sér svo að þeir verði sjálfir ekki lagðir í einelti.

Það þarf mikinn styrk, – sjálfsstyrk og sjálfsvirðingu til að beita EKKI ofbeldi eða geta sleppt því að gagnrýna eða setja út á annað fólk.

„Vá hvað þessi er feit“ ..  raunverulega er sagt „sjáðu hvað ég er mjó“ ….

Ef þú lemur aðra, hæðir eða níðir þá ertu ósátt/ur við sjálfa/n þig.

Sá sem er sterkastur beitir ekki ofbeldi,  hvorki líkamlegu né andlegu,  hvorki orða né þagnar.

Ofbeldi er í raun vanmáttur og ekkert okkar er algjörlega laust við að beita ofbeldi,  þó við áttum okkur ekkert endilega alltaf á því að við séum að gera það.

Hinar ljúfustu mæður beita ofbeldi – og traustustu feður beita ofbeldi,  yfirleitt vegna vankunnáttu í samskiptum eða eigin vanmáttar.

Ofbeldi er keðjuverkandi.  Pabbi er leiðinlegur við mömmu,  mamma við barnið.  Eða mamma við pabba,  pabbi við barnið.  Skiptir ekki alveg máli hvaða leið,  en þarna eru sömu lögmál og við ástina og kærleikann,  – ef að einhver veitir þér kærleika ertu líklegri til að veita honum áfram.

Þegar við upplifum skömm vegna einhvers,  okkur líður illa, við höfum leyft einhverjum að komast undir skinnið okkar og særa okkur, við upplifum okkur einskis virði, þá  kemur það oftar en ekki fram á kolröngum stöðum, – jafnvel gagnvart saklausum símasölumanni sem slysaðist til að hringja í númerið þitt þó það væri merkt með rauðu.

Þegar rætt er um ofbeldi (og í raun hvað sem er) er alltaf gott að í staðinn fyrir að horfa út fyrir og benda á alla sem eru ómögulegir og eru að beita ofbeldi og leggja í einelti,  að horfa inn á við og spyrja sig:

„Hvaða ofbeldi er ég að beita?“ …

Við verðum að sjá sársauka okkar til að gera breytingar,  viðurkenna þennan vanmátt.

Lausnin er að fara í gang með enn eitt námskeiðið „Lausn eftir skilnað“  – í þetta sinn fyrir konur,  en vonandi hægt að setja upp karlanámskeið með haustinu.

Þessi pistill yrði allt of langur ef ég færi út í að segja frá allri þeirri vanlíðan og öllum þeim vondu og sársaukafullu tilfinningum sem kvikna við skilnað,  hvort sem skilið var „í góðu“ eða illu. –  Vanlíðan leiðir oftar en ekki af sér hegðun sem við erum ekkert endilega stolt af,  hegðun gagnvart maka, og þá bitnar það á þeim sem síst skyldi – börnunum.

Ég leyfi mér að fullyrða að flestir foreldrar beiti börn sín ofbeldi einhvern tímann í skilnaðarferlinu. –  Ofbeldi með orðum í flestum tilfellum.

Reiðin,  jafnvel hatur gagnvart fyrrverandi er því ráðandi afl,  og allt gengur út á það að hann/eða hún megi ekki vera hamingjusamur eða söm,  ef þú ert það ekki.  Þá eru settar hindranir,  truflanir og alls konar töfrabrögð sett í gang.

Töfrabrögð  og truflanir sem oftar en ekki bitna á börnunum,   og auðvitað bitna þessir hlutir á þér sjálfri/sjálfum,  það eru auðvitað heldur ekki alltaf börn í spilinu,  því að reyna að særa eða meiða aðra eða gera þeim lífið erfitt verður manni sjálfum aldrei til framdráttar.

Sjálfsvirðing er lykilorð í þessu, – því það er gott að geta horft til baka eftir skilnað og hugsað;  „Mikið er ég fegin að ég fór ekki út í þennan slag,  eða niður á þennan „level“ ..

Nú er ég búin að skrifa þetta hér að ofan,  en minni þá um leið á það, enn og aftur að við erum mennsk, og særð manneskja hefur tilhneygingu til að særa aðrar manneskjur,  eins og sú sem er full af ást hefur tilhneygingu til að elska aðrar manneskjur.

Fyrirgefðu þér ef þú hefur misst þig, öskrað, sagt ósæmilega hluti sem voru þér ekki samboðnir,  –  en gerðu þér ljóst að það er ekki fyrr en að ásökunarleiknum „the blaming game“  lýkur og þú viðurkennir vanmátt þinn og veikleika að þú ferð að upplifa upprisu sálar þinnar og getur farið að finna fyrir bata í lífi þínu.

ELSKAÐU ÞIG  nógu mikið til að sleppa tökunum á því sem færir þér aðeins óhamingju.

Lifðu ÞÍNU lífi ekki annarra.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið „Lausn eftir skilnað“  á http://www.lausnin.is   – einnig minni ég á námskeiðið   „Í kjörþyngd með kærleika“   sem hefst 13. apríl nk. og vinnur í raun með sömu lögmál,   því að halda í fyrrverandi maka eða rangan maka er eins og að halda í mat sem er manni óhollur.

Ath.  Það að segja „Ég elska mig“ hefur ekkert með egóisma eða sjálfsupphafningu að gera, – aðeins það að viðurkenna að við erum okkar eigin elsku verð og það er forsenda fyrir því að geta  elskað aðra á jafningjagrundvelli.

Við erum hvorki meiri né minni en næsta manneskja og „samanburður er helvíti“ eins og Auður jógakennari komst svo skemmtilega að orði akkúrat þegar ég var í hópi liðugra kvenna og var með móral vegna, eigin stirðleika 😉 ..

Fókusinn minn var þá líka týndur,  ég átti ekkert að vera að pæla í hvað hinar gátu eða hvernig þær voru heldur bara að vinna í að styrkja minn líkama og innri konu,  það er víst trixið á svo mörgum stöðum.

Ef við erum tætt útum allt – með hugann í öllu hinu fólkinu þá komumst við seint heim til okkar sjálfra.

En þú veist að þú ert sá/sú sem á hægust heimatökin við að bjóða þér heim til þín sjálfs/sjálfrar.

Bolli til sölu