Skammgóður vermir …

…að missa piss í skóna. –

Það neitar því þó enginn að það hitar,  en eins og segir í titlinum – það dugar skammt.

Talandi um skó, þá er það líka skammgóður vermir að kaupa sér skó! –  Hversu fljótt verða skórnir bara hversdagslegir og við þurfum næsta par til að „gleðja“ okkur?

Það sem ég er að byggja upp hér er smá umræða um það sem kallað er ytri markmið,  en áhrif þeirra er svolítið eins og þessi skammgóði vermir, – það kemur alltaf „hvað næst?“ .. Markmið sem virka svo stórkostleg þegar við höfum ekki náð þeim – eins og að fá gott starf – verður hversdagslegt þegar við erum búin að venjast titlinum. Makinn sem virkaði eins og fjarlægur draumaprins/prinsessa áður verður svona eitthvað sjálfsagður, við kunnum sjaldnast að meta hann/hana eða finnst hann/hún bara alls ekkert endilega uppfylla væntingar um þetta „drauma.“   Við förum í sólarferðina og hún er „púff“ búin. –

Sólin var skammgóður vermir,  því svo er komið heim á hið kalda Frón á ný og við þurfum smá aðlögun  á eftir – eftir að hafa fengið nasaþefinn af hlýju, kvartbuxum, að borða undir berum himni o.s.frv. –

Hvað er þá það sem endist og er ekki svona skamm-eitthvað?

Það er það sem er raunverulegt,  raunveruleg eign, innri fjársjóður,  lífsfylling sem er ekki frá okkur tekin –  ekki með því að verða atvinnulaus, makalaus, peningalaus o.s.frv. –   Það eru þessi uppfylltu innri markmið, ást, friður og gleði sem eru þarna til staðar til langframa,  sama hvað gerist hið ytra.

Sjálfsástin sem hlýjar innan frá – og hægt er að rækta með því að tala fallega til þessarar sálar sem er þarna fyrir innan,  tala t.d. fallega við okkur þegar við horfum í spegil.  Horfa framhjá hinu ytra, horfa djúpt í augun okkar – alveg inn í sál og segja:

Mikið svakalega elska ég þig í dag,  og taka svo tveggja mínútna kyrrðarstund þar sem við síðan lokum augunum og skynjum með hjartanu ljósið innra með okkur,  og hitann sem það gefur.  Það er ljósið sem ekki slokknar,  eilíft ljós meira að segja.  Þó allt hverfi – hið ytra, er þetta allt sem þarf.

Þetta er það sem má kalla „dýrðarlíkaminn“ sem rís upp á hinstu stundu,  en það má líka kalla dýrðarlíkamann; sálina.

Já núna fór ég allt í einu í prédikunargírinn, en það bara gerist – ræð ekkert við þessa fingur á lyklaborðinu, – ég held að þetta hljóti að vera „dýrðarfingurnir“  🙂

Elskum friðinn – strjúkum „dýrðar-kviðinn“ ..

733833_10201743643821718_1138113304_n

Hvað gerist ef maki þinn „dansar“ ekki eftir þínu höfði?

Mikill samskiptaspekúlant var að falla frá, hann Hugó Þórisson – blessuð sé minning hans, – en ég sótti eitt sinn helgarnámskeið hjá honum og hlustaði a.m.k. 3svar á hann á fyrirlestrum. –

Það er ýmislegt sem situr eftir eins og ‘“Ég“ boðin,  að tala út frá sjálfum sér en ekki með ásökun,  og það að „Segja það sem maður meinar og meina það sem maður segir.“

Þó Hugó hafi aðallega gefið sig út sem ráðgjafi í samskiptum foreldra og barna þá gilda þessi samskiptaboð að sjálfsögðu milli fullorðins fólks.

Ferlið í samböndum vill of verða þannig að fólk kynnist með fyrirfram gefnar væntingar um hinn „fullkomna“ maka, og ætlar síðan hinum aðilanum alls konar hluti sem eru honum kannski alls ekkert eiginlegir.  Væntingar verða s.s. óuppfylltar og skapa óánægju og vonbrigði hjá þeim sem væntir og vonar og ætlast til.  Það versnar líka oft í því þegar annar aðilinn ætlast til að hinn hreinlega viti hvað hann eða hún er að hugsa og fer svo í gríðarlegt fýlu-eða gremjukast þegar hinn hegðar sér ekki skv. væntingum og tilætlun þess sem óskar.

Þá kemur inn þetta gullkorn að segja upphátt hvað við viljum, hvers við vonum og tala um þarfir okkar og langanir,  jafnvel framtíðarvonir og framtíðarsýn og sjá hvort þær smella saman. –

Það þýðir ekki að ætla maka sínum að sjá um okkar eigin hamingju, – eða taka ábyrgð á okkar hamingju, – svo ekki sé talað um ef við erum búin að ætla honum að vera öðru vísi en hann er, svo er hann bara alls ekkert þannig og fara þá að stjórnast með hann á þann hátt að breyta honum í eitthvað sem hann alls ekki er!!!..  og jú,  fara svo í megafýlu ef honum tekst ekki að vera það sem VIÐ viljum að hann sé. –

Flókið, pinku. – En þarna kemur inn stjórnsemin, og það að ef við hefjum samband á röngum forsendum,  þ.e.a.s. við ætlum okkur að breyta maka okkar til að „aðlaga“ hann að okkur þá er það nokkurn veginn dæmt til að mistakast.  Ef að einhver fæ ekki að vera sá sem hann raunverulega er finnur hann ekki hamingjuna sína og enn þá síður getum við ætlast til að viðkomandi geti gert okkur hamingjusöm.

Alltaf eru það sömu grunnlögmál sem virka, þ.e.a.s. í samskiptum,  við þurfum að vera sátt í eigin skinni til þess að eiga farsælt samband með öðru „skinni“  😉

Það á engin/n að orku-eða hamingjusjúga annan aðila til að fá hamingju og ekki eigum við heldur að þurfa að vera hamingjubrunnur fyrir aðra.  Það er hver og ein/n sinn eigin hamingjubrunnur. –

Um leið og við förum að ætlast til að uppspretta hamingju okkar liggi í annarri manneskju erum við að gefa frá okkur eigin mátt og vald – og fær hinni manneskjunni máttinn – gera hana að einhvers konar æðra mætti og jafnvel þannig að hún skyggi á okkar eigin æðra mátt.

Makinn verður þá einhvers konar „Guð“ í okkar lífi – og þegar makinn klikkar – fer ekki að OKKAR vilja,  þá missum við „trúna.“ –

Verum við sjálf – leyfum öðrum að vera þau sjálf – reynum ekki að breyta fólki – og látum ekki fólk breyta okkur.

Verum við sjálf og virkjum  okkar eigin uppsprettu gleði, gleði, gleði! 😉

to be yourself in a world that is constantly trying to make you something else is the greatest accomplishment copy

 

Að þroskast eftir skilnað ….

Reynsla mín af sorg – er sú að það er mjög erfitt að komast áfram ef við festumst í sorgarferlinu.  Sorg er yfirskrift yfir margar tilfinningar – og sorg er eitthvað sem við göngum í gegnum þegar eitthvað fer öðruvísi en við ætluðum.

Að festast í sorgarferli þýðir það t.d. að festast í reiði,  e.t.v. reiði út í maka vegna trúnaðarbrests.  Reiði út í maka fyrir að hafa brugðist,  – eða gremju hreinlega út í aðstæður,  svona átti þetta alls ekki að fara.

Það er ekkert nema eðlilegt að fara í gegnum sorgarferli,  en það er önnur sorg sem getur orðið meiri en hin eiginlega sorg eftir skilnað,  það er ef að enginn verði þroskinn,  en ég tel að ef að fólk lærir ekkert af þessu ferli og stöðvast í því eða flýi það þá komi ekki sá þroski sem okkur er ætlað að fá út úr ferlinu.

Sorg og þjáning er skóli – þungur skóli.

Diplóma þess skóla er sáttin,  og sáttinni náum við ekki nema að fara í gegnum tilfinningarnar, vð náum henni ekki í gegnum mat, áfengi, annað fólk – eða annan flótta eða bælingu tilfinninga.  Við verðum að taka þennan „bekk“ sjálf.

Margir skilja vegna þess að þeir telja sig ekki finna  hamingjuna í hjónabandinu –  en átta sig kannski ekki á því að í raun finna þeir ekki hamingjuna sem er innra með þeim sjálfum.

Í sjálfsrækt eftir skilnað er því nauðsynlegt og gagnlegt, að horfa inn á við – og fókusera á sjálfa/n sig.  Byggja sig upp, rækta og efla – virkja innri gleði, ást og frið.   Með því er líka verið að fyrirbyggja að farið sé í „sama“ sambandið aftur.

Það er ekkert á hverra færi að finna út úr þessu,  – en námskeiðin „Lausn eftir skilnað“ – byggja á því að viðurkenna sorgina eftir skilnað, gera sorgarferlið að þroskaferli og læra að setja fókusinn inn á við.  Ekki hanga á ásökun í garð makans,  jafnvel þótt hann hafi gerst brotlegur,  verið afskiptur eða tilfinningakaldur, –  ef fólk er skilið og ætlar að halda því til streitu þarf að taka fókusinn af fyrrverandi og setja hann heim á sjálfa/n sig. –

Enn er laust á námskeið sem hefst 5. október nk.  í Lausninni, námskeið fyrir konur í þetta sinn – og hægt að skrá sig ef smellt er HÉR   

Athugið að það eru engin tímamörk – hversu langt er liðið frá skilnaði,  þetta snýst ekki um tíma, heldur hvort að sátt sé náð eða ekki.  Stundum er fólk enn ósátt við sinn skilnað þó mörg ár séu liðin og er fast í gömlu fari.

Sáttin hefur þann töframátt að þá fyrst hefst nýr vöxtur.

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

 

 

 

Ég vil lifa og ég vil gleðjast …

Ég vil dvelja á stað þar sem umvefur mig hrein jákvæð orka, og ef ég hugsa það innar, þá vil ég VERA hrein jákvæð orka.

Ef ég er hrein jákvæð orka, tek ég ekki á móti neikvæðri orku,  hún nær engri tengingu og svona skoppar af mér eins og vatn ef ég væri smurð með olíu. –

Auðvitað íhuga ég lífið og auðvitað íhuga ég dauðann, eftir þjáningar þær sem ég er búin að fara í gegnum síðastliðið ár.  Dauðinn bankaði snemma á dyrnar hjá mér,  en það gerðist þegar pabbi lést 1969 og ég aðeins tæplega 7 ára gömul. –

Dauðinn er jafn sjálfsagður og lífið en voða lítið ræddur í raun.  Það mætti kannski ræða hann meira – ekki undir formerkjum þess að vera hrædd við dauðann,  eða óttast komu hans, heldur til að skilja hann og samþykkja að hann er einmitt hluti lífsins.

Okkur finnst það óréttlátt og hrikalega ósanngjarnt þegar ungt fólk deyr. Það er ósanngjarnt og ömurlegt einhvern veginn. Að ung börn fái ekki að lifa með móður – með föður,  sjái þau aldrei aftur í lifanda lífi.

Það má þó segja að það séu til aðrir vondir hlutir sem eru ekki beinlínis dauði,  en það er þegar foreldrar – lifandi foreldrar – hafna börnum sínum, eða börn foreldrum.   Hvers konar „dauði“ er það annars ekki?

Þegar skaðinn er skeður,  þegar dauðinn er hið raunverulega sem við verðum að horfast í augu við.  Þegar mamma, pabbi, dóttir, sonur, bróðir, systir, frænka, frændi, vinur, vinkona eru farin,  þá hvað?

„Minning þín er ljós í lífi okkar“  er algengasta áritun á legsteina í dag, það þekki ég því ég seldi legsteina í tæp tvö ár. –

Og minning minna nánustu sem farin eru úr þessari jarðvist er svo sannarlega ljós í lífi mínu.

Það er mikið að missa bæði dóttur og móður á sama ári.  Það hljómar eiginlega óbærilegt – og það er það,  en samt,  já samt kemst ég einhvern veginn áfram.

„When going through hell keep going“ –  heyrði ég um daginn.

Ég held áfram, vegna þess að ég fæ enn fleiri minningar og enn meira ljós til að styrkja mig.

Ég fæ ljós frá minningum hinna dánu,  og ég fæ ljós frá hinum lifandi. Aldrei hef ég fengið eins mikla elsku og væntumþykju eins og núna síðustu ár, og þið þarna úti eruð að styrkja mig í því að hreinsa út neikvæða orku og ég vil lifa og ég vil gleðjast og ég vil vera hrein jákvæð orka,  því lífið er orka og við sogum til okkar neikvætt og við sogum til okkar jákvætt.

Þegar fólk fer á fínustu skemmtistaðina þá eru sumir sem fá V.I.P. passa, en V.I.P. þýðir Very – Important – Person.

Í mínu lífi hafa verið mjög mikilvægar persónur, – og þær eru að sjálfsögðu í lífi okkar allra.  Nokkrar af mínum V.I.P. eru farnar og ég varð fúl, sár og reið að þær væru farnar, – þá stærsta stjarnan mín hún Eva Lind,  sem var tekin svona fram fyrir röðina og fór á undan.

Það gat engan órað fyrir því að svona skyldi fara, en það getur engan órað fyrir því að ungt fólk fari – börn á undan foreldrum sínum, en samt er það alltaf að gerast.  Ég er ekki eina móðirin sem hefur misst barnið sitt, – þó að á þeim tímapunkti sem það gerðist liði mér þannig.

En ég VIL lifa og ég vil gleðjast, ég vil njóta þess og þeirra sem eru í þessari jarðvist.  Ég vil vera þeim hrein jákvæð orka um leið og sjálfri mér.

Aðeins út frá styrkleika mínum og mínu ljósi get ég gefið styrk og get ég gefið ljós – og ég get vísað veginn eins og viti.   Ég dreg engan áfram, því engin/n vill vera dregin/n.  – Allir vilja geta gengið á eigin jákvæðu orku.

Í gærkvöldi setti ég kómískan status á facebook: „Ef ég fæ 10 like tek ég tappann úr rauðvínsflösku“ –  ég er, í þessum skrifuðu orðum,  komin með 105 „likes“ .. –  Þetta var skemmtilegur leikur og vissulega var tappinn tekinn úr – og svo kom systir yfir og hjálpaði til, en ég naut í raun mun betur þess að hlæja að öllum „like“ og vinarþelinu sem þeim fylgdu, heldur en áhrifa vínsins.

(ég tek það sérstaklega fram að ég er ekki að hvetja til drykkju áfengra drykkju, og held fast við það að vatnið sé drykkur drykkjanna).

En eníhú – svo ég fari nú að setja botn í þennan pistil –  þá poppaði ítrekað upp í höfuð mér setning úr bók bókanna, sem er   B.I.B.L.Í.A. –  en þessi orð eru úr bók hennar sem kallast  „Prédikarinn“ .. reyndar ætla ég að setja allan kaflann hér með því mér finnst hann passa vel við það sem ég er að skrifa:

„Öllu er afmörkuð stund

1Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
2Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
3að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
4að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
5að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
6að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
7að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
8að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
9Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
10Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. 11Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. 12Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. 13En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

ETUM – DREKKUM OG VERUM GLÖÐ,   ÞVÍ ÞAÐ ER GUÐS GJÖF.

(feitletranir eru mínar).

eat_drink_enjoy_960x433

Að leyfa hárinu að vaxa ..

Ég sat andspænis ungri frænku sem var að hefja sitt annað ár í skólagöngu.  Hún stynur stundarhátt „mig langar að vera með sítt hár þegar ég byrja í skólanum á morgun“ –  en hár hennar var í nokkurs konar Prins Valiant stíl klippt rétt fyrir neðan eyrun. –

Ég svaraði henni að líklegast yrði hún að bíða eitt ár með það, að byrja á nýju skólaári með sítt hár,  en nú skyldi hún bara leyfa hárinu að vaxa og sjá hvað gerðist.

Við vitum að hár þarf tíma til að vaxa, og við vitum að margir hlutir gerast nákvæmlega svona.  Þeir þurfa sinn tíma til að þróast og verða til. En við verðum líka að gefa þeim „séns“ til að vaxa og ekki alltaf klippa aftur þó við verðum óþolinmóð og síddin sé einhvers konar millisídd sem er hvorki fugl né fiskur.

Um leið og ákvörðun er tekin að leyfa einhverju að vaxa er niðurstaðan komin,  en hún kemur ekki á morgun. –

Þetta er svipað og með að ákveða að taka af sér kíló,  þau fara ekki af með barbabrellu, – eða að fara að spara peninga,  bankabókin er ekki orðin feit á morgun. –  En ef við erum ákveðin,  trúum á vöxinn eða framkvæmdina þá er ekkert sem stöðvar það,  nema e.t.v. ein góð manneskja sem við þekkjum mjög vel, og það erum við sjálf.

Leyfum góðum hlutum að gerast og leyfum lífinu aðeins að hafa hönd í bagga,  Það snýst um lögmál þess að leyfa, eða Law of allowance.  Gæti verið að þar kæmi líka lögmálið um að eiga skilið, – það er líka til.

Trúum á árangur,  og trúum líka á ævintýri. –

Whether-you-think-you-can-or-whether-you-think-you-cannot-you-are-right

Ekki láta neikvætt fólk hafa áhrif ..

Mörg meðferðin ráðleggur fólki að klippa á samskipti sín við það fólk sem við eigum erfitt með að umgangast.  Það er oft auðveldara sagt en gert, sérstaklega ef þetta fólk er fjölskylda.-

Ef við hugsum neikvæðni sem myrkur og jákvæðni sem ljós, þá er eðlisfræðin þannig að ljósið sigrar myrkrið.  Þú kveikir á kerti í dimmu herberig og herbergið er ekki dimmt lengur. –  Dimman getur ekki verið þar sem er ljós. Ef þú kveikir á fleiri kertum verður enn meira ljós.

Þegar við förum í sjálfsvinnu,  þá liggur sú sjálfsvinna m.a. í því að uppgötva ljósmagnið hið innra.  Allt hið innra er eins og óþornandi uppspretta, en stundum þarf bara að skrúfa frá henni.  Fólk sem tjáir sem með neikvæðni sér ekki ljósið,  og/eða kann ekki að skrúfa frá þessum krana. –  Það hefur þó möguleikann að skrúfa frá okkar neikvæða krana, þ.e.a.s. ef við erum ekki sjálf ákveðin í að hafa hann lokaðan.

Ef við gerum okkur grein fyrir þessu, að það er undir okkur komið hvernig við bregðumst við neikvæðni, – að kannski þurfum við aðeins að herða og styrkja okkar eigin neikvæða krana og skrúfa betur frá þeim jákvæða,  þá förum við líka að átta okkur á okkar eigin ábyrg á okkar líðan.

Ef okkur líður illa i kringum neikvætt fólk, – sem er fjölskylda eða vinir, þá gætum við hreinlega sagt þeim frá því að það sé þarna einhver neikvæðni hið innra með okkur sem kviknar þegar neikvæð umræða fer af stað,  hvort þau myndu vera svo elskuleg,  – að halda neikvæðni í lágmarki í kringum okkur þar sem við hefðum í raun ekki meiri styrk en raun bæri vitni!

Ef þetta fólk raunverulega elskar okkur eða þykir vænt um þá verður það við beiðninni, – en annars hefur það val og við höfum þá gefið þeim tækifæri sem það hefði annars ekki fengið,  þ.e.a.s að við færum að hætta að umgangast það án þess að segja okkar hug.

Kannski er þetta ein af aðferðunum við að setja fólki mörk, þ.e.a.s. – hvað við látum bjóða okkur og hvers konar viðhorf umlykja okkar tilveru.

Svo höldum áfram að kveikja ljós og vera ljós.

Þökkum ljósið hið innra og biðjum um styrk til að láta það flæða.  Ef einhverjum líður illa með það ljós,  verður sá hinn sami að forða sér, en við eigum ekki að þurfa að hlaupa burt með ljósið.

1170720_498620266895180_1106913787_n

Á ég að týna mér eða þér? – um ójafnvægi í samböndum 1. hluti

Þessi pistill heitir á frummálinu:

„The split-level relationship“  og er eftir Steve Hauptman

Hér eru tvær spurningar sem við glímum við ef við viljum vera í heilbrigðu sambandi.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það er hægt að glíma við þær.

En það er glíman sem skiptir máli.

Af hverju?

Vegna þess að hún framkallar grunnþarfir þess sem við höfum fram að færa í hvaða sambandi sem er.

Samband (connection) og frelsi. 

Samþykki annarrar persónu og að samþykkja sjálfa/n sig.

Heilan og raunverulegan maka,  og á sama tíma, heila/n og raunverulega/n þig.

Tvo raunverulega og heila einstaklinga.

Flestir sem höfundur þekkir eru sannfærðir um að ekki sé hægt að vera heil (þau sjálf) bæði á sama tíma.

Flestir eru úr fjölskyldum –  sem hafa alkóhólískt – eða ofbeldistengt mynstur eða eru á annan hátt vanvirkar – og hafa þar af leiðandi ekki haft möguleikann á að finna jafnvægið milli þess að vera í sambandi og vera frjáls.

Það sem þau lærðu var að hafa eitt þýddi að missa hitt.  Annað hvort var það samband eða frelsi.

Það að ávinna sér ást og samþykki foreldra, til dæmis, þýddi það að fórna mikilvægum hlutum í lífi þeirra sjálfra,  eins og frelsinu við að tjá sig frjálslega eða að sinna eigin þörfum.

Það er í fjölskyldunni sem við ólumst upp sem hvert okkar lærði sitt persónulega svar við þessum tveimur spurningum.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Og svarið sem við tileinkuðum okkur varð að mikilvægum (þó að mestu ómeðvituðu) hluta grunnviðhorfa okkar til lífsins og sambanda okkar,  það sem höfundur kallar – okkar Plan A.

Sumir taka ákvörðun, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að hafa MIG, og til fjandans með ÞIG“ – sálfræðingar kalla þetta hið sjálfhverfa svar (The narcissistic answer.)

Önnur ákveða, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að haf ÞIG, og til fjandans með MIG“ – sem er hið „margfræga“ meðvirka svar.

Þá segir hinn sjálfhverfi maki  „ÉG fyrst,“ og hinn meðvirki svarar, „Já, elskan.“

Og þessar tvær persónugerðir enda saman með ótrúlega reglulegu millibili.

Þegar fylgst er með samskiptum þessa pars,  kemur  á óvart hversu fyrirsjáanleg samskiptin eru.  Í öllum aðstæðum finnur sjálfhverfi einstaklingurinn einhverja leið til þess að segja: „Ég fyrst/ur,“ og hinn meðvirki svarar „Já, elskan.“  Það er eins og þessir aðilar hafi sest niður fyrir langa löngu og skrifað undir samning um að gera þetta svona.

Sem þeir að hluta til gerðu.

Það hvernig þau svöruðu þessum tveimur spurningum hér að ofan,  eru að stærstum hluta ástæðan fyrir að þau löðuðust hvort að öðru.

Höfundur segir að flest pör sem leita ráðgjafar hjá honum fylgi þessu mynstri – svo mörg að hann ákvað að gefa þessu parasambandi nafn.

Hann kallar það „split-level relationship“ –  við gætum kallað það „samband á aðskildu plani“ –  eins og að par búi í pallaraðhúsi og annar aðilinn sé alltaf skör neðar en hinn.

Þessi sambönd á aðskildu plani ganga um tíma, en brotna yfirleitt alltaf upp.  Á einhverjum tímapunkti áttar annað hvort annar aðilinn eða báðir að þeir eru ekki að fá það sem þeir þarfnast úr sambandinu.

Hin meðvirku taka yfirleitt eftir því fyrst. Þegar þessi maki er kvenkyns getur þetta leitt til þess sem höfundur kalla „The Walk-Away Wife“ – „Eiginkonan sem gengur burt.“ –  Ég mun skrifa sérstaklega um það síðar.

En hin sjálfhverfu hafa tilhneygingu til að vera óhamingjösum líka. Þau kvarta um einmanaleika,  skort á nánd við hinn meðvirka maka, eða skort á virðingu og umhyggju.  Þau geta upplifað óþolinmæði,  eirðarleysi, pirring, gremju.  Stundum neyta þau áfengis, eiturlyfja, ofnota mat, lifa í reiði eða halda framhjá, og líður svo illa með það.

Allt þetta á sér stað vegna þess að þessi sambönd á misjöfnu plani eru ófrávíkjanlega óheilbrigð.

Kunnugleg, vissulega.  Jafnvel þægileg, að því leyti að fólk veit hvað það hefur.  (Öryggistilfinningin).

En þessi sambönd eru ekki heilbrigð.  Þessi svör sem mynda ójafnvægi og samböndin á misjöfnu plani eru byggð á geta ekki uppfyllt tilfinningaþörf tveggja fullorðinna einstaklinga.  Og það endar með því að báðir aðilar upplifa sig svikin,  án þess að skilja hvers vegna.

Hvernig er batinn hjá svona pari?

Þá er hlutverkum víxlað.

Hinn meðvirki einstaklingur verður að þróa með sér hugrekki og æfa sig í að standa upp fyrir sjálfum sér.

Hinn sjálfhverfi  verður að þróa með sér samhug og æfa sig í að stíga niður,  æfa sig í að gefa í stað þess að heimta.

Auðvelt?  Nei.  Fyrir hvorugt þeirra er þetta auðvelt.

Aðeins nauðsynlegt til að vera á sama plani.  (Búa á sömu hæð).

Þýðing – Jóhanna Magnúsdóttir – http://www.johannamagnusdottir.com

„Á snældu skaltu stinga þig … „

Þyrnirós svaf í heila öld – en svo vakti prinsinn hana með kossi ..

Ég heyrði af manni, hér í Danmörku, – þar sem ég er stödd núna, sem stakk sig í fingurinn – ekki á snældu – heldur á þyrni.   Hann hugsaði ekki mikið um það en líkaminn gleymdi því ekki,  því að það fór að koma illt í puttann og hann bólgnaði og varð tvöfaldur ef ekki þrefaldur að stærð, – síðan fór hann að fá verk alveg upp í handlegg svo honum leist ekki á blikuna og fór til læknis.  Maðurinn var þá kominn með ígerð í fingurinn og blóðeitrun.   Skera þurfti í fingurinn til að ná út ýmsu sem þar var farið að grassera.  Maðurinn var frá vinnu í einhverjar vikur út af þessu.

Stundum verðum við fyrir svona andlegum stungum,  allt frá því sem við teljum ekki svo mikið upp í eitthvað sem er mjög mjög sárt þegar það gerist.  –

Í mörgum tilfellum fer eitthvað að grassera,  grafa um sig innra með okkur og hafa áhrif á sálarlífð.  Það er því miður ekki eins augljóst og ígerð eða blóðeitrun sem hægt er að mæla með tækjum og sést með berum augum.

Það sem fer að grafa innra með fólki eftir andlegar stungur er skömmin,  og hún er þá sambærileg við gröftinn sem þarf að hleypa út og við blóðeitrunina sem þarf að fá pensillín við.

SKömminni þarf að hleypa út,  öllum þessum hugsunum,  meðvituðum eða ómeðvituðum sem hafa áhrif á sálarlíf einstaklingsins.

Ex-pression er enska orðið fyrir tjáningu.  Það þarf að ná skömminni út og það er gert með því að tjá sig um atburðinn,  að deila sögu sinni.  Ekki sitja uppi með hana ein/n.

Ekki halda leyndarmál einhvers –  það er líka samfélagslegt góðverk að segja frá svo fleiri geti forðast brenninetlur og þyrna.  Líka fyrir annað fólk sem þarf hvatningu til að leita sér aðstoðar við að hreinsa út gröft og eitur.

Já – skömmin er eitur.

Við þurfum öll að vakna – ekki sofa Þyrnirósarsvefni og missa þannig af því að lifa lífinu.   Vakna til meðvitundar um að það að stinga sig eða vera stungin er ekki til að halda leyndu.   Því fyrr sem brugðist er við því betra.

Ef ekkert er að gert getur slíkt haft banvænar afleiðingar.

Við eigum ekki að þurfa að þegja yfir sögu okkar og hver við erum.  Það er þvingandi og setur okkur í fangelsi hugans.

Með nýjum hugsunum – pensillínii hugans –  frelsum við okkur úr ánauð þess atburðar sem kveikti upphaflega á skömminni.  Við hættum að láta eins og ekkert sé, hættum að fela og hreinsum hana út.

Kannski var það prins eins og rannsóknarprófessorinn Brené Brown sem hefur stúderað skömm og mátt berskjöldunar í yfir 12 ár,  sem vakti okkur til meðvitundar með kossi sínum.

Það er gott að það er til fólk sem hefur þessa ástríðu,  þessa ástríðu að skilja hvernig lífið virkar – hvernig við hugsum og hvað hugsanir okkar hafa mikið vald yfir lífi okkar.

Það að upplifa skömm er ein tegund trúar, trúarinnar að vera ekki nógu góð og stundum bara næstum ónýt. –

Frelsið felst í því að hætta að trúa að við séum óverðug ástar, óverðug þess að eiga góð tengsl við annað fólk – óverðug þess að yndislegur prins eða prinsessa komi inn í okkar líf.

Við getum þegið þennan koss lífsins og verðugleikans hvenær sem við viljum.  Við getum rofið álög nornarinnar þegar vð viljum,  eða hvað?

Jú, við getum það með þeirri trú að við eigum gott líf skilið.

Enn og aftur – þetta snýst allt um trú.

Hverju við trúum um okkur sjálf.

Hvað átt þú skilið?

coexist_with_respect_bumper_sticker-p128636613026383655en8ys_400

 

Það er ekki í boði ..

Getur verið að fólk haldi að lausn þeirra mála finnist í því að finna sökudólga fyrir því hvernig komið er fyrir því? –

Eftir því sem það bendir meira á ytri aðstæður og annað fólk tekur það minni og minni ábyrgð á eigin lífi og endar með að vera gjörsamlega valdalaust.

Af hverju að taka af sér valdið, sinn eigin mátt og megin? – Af hverju að stilla sér upp sem fórnarlambi og upplifa sig föst í aðstæðum í stað þess að spyrja; „Jæja hvað get ÉG gert, og hvaða leið er nú best út úr þessum aðstæðum?“ .. Væl – vol – kvart og kvein. Það er allt í lagi að gráta og syrgja, og það er meira að segja leiðin til að halda áfram, en að festast í slíkum aðstæðum er ekki lausn, ekki bati og ekki í boði – svo talað sé gott leikskólamál.

Þetta framansagt varð að einlægum „status“ hjá mér á facebook sem margir voru sammála og langar mig að halda þessu hér til haga.  Í framhaldi fékk ég spurninguna:

  • „Að leiðbeina þeim sem biðja um aðstoð út úr svona ógöngum er meira en að segja það. Svona hugsunarháttur getur hafa viðgengist hjá fjölskyldum síðan langa langa amma bjó með honum langa langa afa „dagdrykkjumanni“ Þetta er svo „eðlilegt“ ástand út frá óeðlilegum aðstæðum. Er þetta ekki eitthvað í okkur öllum?“
    Svarið mitt var á þessa leið:
  •  Þetta er spurningin um að sleppa – um að fyrirgefa – og frelsa sig þannig úr ánauð aðstæðna og fólks í staðinn fyrir að fara dýpra inn í aðstæður eða tengjast þeim/því sem særir okkur enn fastar. Það er rétt vegna þess að því meira sem við biðjum fólk um að sleppa tökunum, þess fastar heldur það.
    Óskin verður að koma innan frá – og allir verða að eiga sitt „aha“ moment. Engin/n verður þvingaður eða þvinguð til breytinga. EKki frekar en hægt er að segja fólki að trúa. Trúin og allt sem ER kemur innan frá, frá uppsprettunni – sem vill okkur vel og er hreinn kærleikur.
    Sá/sú sem VILL hlusta  heyrir og sá/sú sem VILL sjá sér, en það er spurning hvort að viljinn sé fyrir hendi, það eru þessar endalausu hindranir og þessi mikla mótstaða (resistance) sem við erum að glíma við. Jú við öll.
    1095045_563187810407763_647635916_n

Hvar eru handklæðin? …

Mín var á leið í sturtu (sem er nú varla „Breaking News“)  nema að í þetta sinn  fann ég ekki handklæði í þó vel skipulögðu heimili Henriks fyrrverandi tengdasonar á Skolevangen.  Ég leitaði í skápum og skúffum, en fann engin handklæðin,  en þó voru nokkur notuð sem héngu inni á baðherbergi (sem er lítið svona eins og tíðkast oft í eldri húsum í Danmörku).

„Skidt med det“ – „ég nota bara eitt af þeim, þau geta ekki verið svo eitruð“ ……hugsaði ég.

Svo var ég komin í sjóðandi heita og indæla sturtuna og fór að hugsa voðalega margt (eins og ég geri alltaf í sturtu)  ..sumt voða erfitt – en sumt bara gott og yndislegt.  En þar sem ég var hugsi,  leit ég upp og yfir sturtuhengið og sá þá glitta í handklæði! .. já,  andspænis sturtunni var hilla með hreinum handklæðum.

Ég brosti auðvitað með sjálfri mér  …

Við byrjum að leita – en finnum e.t.v. ekki á þeim stöðum sem við erum vön að finna,  eða höldum við eigum að finna.

Þá sættum við okkur bara við það sem er, notum það sem er fyrir hendi og pirrum okkur ekki.

Tökum okkur „time out“ undir vatni eða bara í ró og næði,  lítum upp og „voila“ –  lausnin er fyrir augunum á okkur!  🙂

Dásamlegt hvernig lífið færir okkur stundum svörin á silfurfati.

Svona virkar sáttin, – að sætta sig við það sem við höfum – því það er fyrst þá sem við náum að slaka nægjanlega á og gefa okkur rými til að taka á móti því sem er að koma,

Þurrkaði mér svo með hreinu og fersku handklæði og hef það reyndar vafið um hárið núna.

 

eckhart-tolle-quote