Hver er forsendan? …

Hvernig veit ég hvort það sem ég er að gera er sprottið af meðvirkni eða ekki? ..

Þú þarft að spyrja þig:  „Af hverju er ég að þessu?“  –  „Af hverju er ég í þessu sambandi?“  o.s.frv.   „Af hverju segi ég ekki nei, þegar mig langar að segja nei“? 

Ertu að gera eitthvað vegna þess að þú hefur meðvitað valið að gera það, eða er það vegna sektarkenndar eða þér finnst þér bera skylda til þess?   Hverjum skuldar þú og hvað skuldar þú?

Ertu að velja að gefa (gefa af þér)  án umhugsunar um það sem þú ert að gera?  Ertu að vonast eftir því að einhverjum líki við þig, elski þig eða geri eitthvað fyrir þig – ef þú gerir eitthvað fyrir hann eða hana?

Það er voðalega vont að gera hlutina á óttaforsendum.

Í ótta við það að vera ekki elskuð, vera ekki metin eða viðurkennd sem manneskjur.

Ef ég geri fólki greiða, þá vil ég gera það af heilum hug, ekki til þess að ég eigin eitthvað inni hjá þeim eða ég óski að ég sé samþykkt af þeim eða viðurkennd.  Að sama skapi vil ég helst ekki þiggja greiða séu þeir á þessum forsendum.

Það er líka vont að þiggja af þeim sem hefur sagt „Já“ en situr uppi með gremjuna og óánægjuna að hafa sagt það.  –

Gerum það sem við gerum, ekki til að fá þakkir, vera samþykkt, viðurkennd, elskuð o.s.frv. –  Við erum allrar elsku verð, eins og við erum.

Nánari lesning um þessi atriði eru t.d. í greinunum:

„Þú skuldar mér ekki neitt“ 

og

„Meðvirkni er ekki góðmennska“ 

Það eru nokkrir hlutir sem við þurfum að læra til að komast frá meðvirknihegðun.

1. Sjálfs-ást  (þeirri ást er best lýst með dæminu um súrefnisgrímunni á sig fyrst til að hjálpa barni).

2. Sjálfs-virðingu   (það að virða er að veita athygli, hættum að leita eftir athygli út á við og veitum sjálfum okkur athygli og viðurkenningu).  Þegar við virðum okkur fyrir okkur,  virðum við það sem við gerum fyrir okkur, við verðum okkar eigin áhorfendur.  Sjáum hvað við gerum og einmitt „af hverju“ – eða forsendur fyrir gjörðum okkar.

Þetta saman virkar þannig að ef við veitum okkur athygli, sjáum við hvort við gerum eitthvað út af elsku eða ótta. Ef við gerum eitthvað út frá ótta, óttanum við að missa eitthvað eða einhvern, þurfum við að endurskoða líf okkar og fara að pota aðeins meiri sjálfs-ást þarna inn.

Eitt lykilatriði við að vinna sig út úr meðvirknihegðun er að hætta öllum ásökunum – „blaming game“ – bæði í eigin garð og annarra.  Því þá sitjum við föst í fórnarlambshlutverki.   Sátt næst ekki með ásökunum eða dómhörku og það er aldrei fyrr en í sátt sem nýr vöxtur hefst.  

Hver er þá forsendan sem við þurfum að hafa í huga þegar við framkvæmum?

Það er að gera það í sátt við sjálfa/n sig – forsendan er sjálfs-ást og sjálfs-virðing.  Svo er hægt að byrja aftur á pistlinum til að lesa aftur um þessa tvo hluti og hvað þeir skipta miklu máli. 

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

Sama lögmál á bak við brottfall úr skóla og „brottfall“ úr hjónabandi?

Getur það verið? 

Einu sinni skildi fólk helst ekki.  Það tók ákvörðun um að fara í hjónaband og svo var það í hjónabandinu. –   „For better or worse“ – 

Það var stór ákvörðun og vegna tíðaranda – ákvörðun fyrir lífið. 

Í dag eru skilnaðir algengir, og þess vegna langar mig að velta upp þeirri hugmynd að fólk fari í hjónaband /samband með hálfum hug, með „útgönguleiðina“ í huga. –   

Það sé í raun ekki alveg ákveðið. 

Þegar við erum ekki ákveðin að láta eitthvað ganga, förum við jafnvel að horfa yfir öxlina á makanum,  skoða grasið sem er hinum megin við hæðina, – hugsunin fer í gang „ætli þessi gæti gert mig hamingjusamari?“ –  bla, bla, bla… 

Um leið og þessi hugsun er farin í gang,  þá er um leið farið að leita að ókostum hjá makanum,  safna þeim á fæl og velta sér upp úr þeim. –  Við förum (óafvitandi) að skemma hjónabandið. – 

Þökkum ekki það sem vel er gert – en verðum pirruð yfir því sem ekki er gert.  –  Búum til ósýnilegan óánægjulista.  

Gleymum svo alveg þarna í jöfnunni,  að það erum við sjálf sem gerum okkur hamingjusöm, glöð, ástfangin o.s.frv. –  

Erum e.t.v. með væntingar til maka sem við ættum að vera með til okkar sjálfra. – 

Öll okkar ógæfa verður makanum að kenna, öll okkar armæða og leiðindi. –  „Ef ég aðeins ætti betri maka“ .. hugsunin kemur upp, þá sko. – 

EKki er litið í eigin barm, ásakanir fara í gang – allt öðum að kenna. 

Ef vel gengur, – eitthvað blómstrar – er það þá makanum að þakka? 

Skoðum svo nemanda í skóla.  Skólinn er ekki fullkominn,  kennarinn ekki heldur, námsefnið ekki heldur,  en fullt af nemendum er að ná góðum árangri í bekknum. –  Nemandinn lendir í einhverri krísu, hefur ekki lært heima – og þá fer hann líka að leita að undankomuleið ábyrgðar.   Æ, lélegur kennar (og getur sagt foreldrum það) – lélegur skóli.   Nemandi finnur allt að og það vindur þannig upp á sig að hann verður fórnarlamb lélegs kerfis og skóla. 

Hvað með fólkið í hjónabandinu? –  Er það ekki fórnarlömb lélegs hjónabands,  hvað gerði það sjálft? –   

Við horfum oft fram hjá okkar eigin ábyrgð,  viljum að maki eða kennari taki ábyrgð á okkur.  – 

Ég er ekki að gera lítið úr því að til eru lélegir skólar og líka lélegir makar, –  en þegar fókusinn er á því hvað hinir geri – hvað kerfið er lélegt – hvað aðstæður eru erfiðar,  og hvort ekki sé betra að leita annað,  fara með sjálfan sig annað,  í annað umhverfi,  til annars maka,  að þá verði allt í lagi? 

Jú, stundum gengur það,  en það er undantekning en ekki regla.  Sama fólkið fer í sama hjónabandið aftur og aftur,  ekki sátt – ómögulegur maki! –   Sama fólkið fer á milli skóla, ekki sátt, ómögulegur skóli. 

Það er hægt að þroskast á milli skóla/maka,  og þá breytast hlutirnir.   Sumir makar kunna að setja mörk –  sumir skólar hafa starfsfólk sem aðstoða nemendur við að líta í eigin barm og vinna í þeirra eigin sjálfstrausti sem er oft undirstaða þess að þeir geti lært.  

Mikið að mjög vel greindum nemendum falla úr skóla,  því þeir nenna ekki að hafa fyrir því að lesa.  Finnst þeir jafnvel of gáfaðir, eða það er vesen að vakna á morgnana. – 

Hugarfarið skiptir öllu.  

Ef við gerum það besta úr aðstæðum, þá leitum við lausna í aðstæðum en ekki að hindrunum. –  

Við leitum ekki að sökudólgum. 

Ég held að fórnarlambsvæðing (aumingjavæðing?) sé eitt það hættulegasta sem við erum að glíma við. –  það að taka ábyrgð af fólki – og kenna því þannig að forðast að taka ábyrgð sjálft.

Það er vont að lifa í rými þar sem við erum aldrei viss um hvort við viljum vera eða ekki.  Það er betra að taka ákvörðun og halda henni,  gefa því tækifæri hvort sem það er skóli – hjónaband – vinnustaður.

A.m.k. ekki sitja kyrr á þessum stað í óánægjuskýi – og með hugann fjarri og sjálfa/n þig.  

Það er ekki bæði haldið og sleppt og það að vera staddur þar gerir okkur vansæl, vansæld elur á vansæld. – 

Hjónaband þar sem við erum sífellt að pæla að skilja er vont hjónaband.   Vertu eða vertu ekki. 

Hvor aðili þarf að vinna í sinni hamingju, styrkja sig og gleðja sig, – fylla á eigin hamingjubikar.  Það er hægt að gefa því x tíma og endurskoða svo stöðuna.   Eruð þið enn óánægð, hafa báðir aðilar unnið í sinni sjálfsheilun eða bara annar aðilinn.   Sá aðili sem er orðinn sáttur við sig hlýtur þá að vilja stíga út fyrir,  því að sá aðili lætur ekki bjóða sér þá andlegu depurð að vera með óánægðri manneskju. –    

Það er þetta „Should I stay or should I go“ –  að vera í vafa sem tætir upp og tærir. –  Best að leita annað – er eitthvað betra??.. 

Hvað ef að heima er best?  Hvað ef að hægt er að vinna úr því?

Hvað ef að skólinner ágætur – og nemandi þarf bara að leggja örlítið á sig – og kannski biðja um hjálp námsráðgjafa,  en algengt er að óánægðir nemendur eru ekki að leita sér hjálpar. 

Það er svo margt sem við gætum gert – en meðan við erum í fórnarlambspakkanum verðum við alveg gagnslaus. 

Eymd er valkostur.  

Hamingja er líka valkostur. 

Hvort vilt þú? 

(ekkert eeeennn…  það er sko þessum eða þessu að kenna – hamingan er heimatilbúin). 

 

Mynd_0640017

Uppskrift að betra lífi ..

1.  Ástundum þakklæti – því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs.

2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði,  og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði.

3. Veljum góða andlega næringu,  við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð andleg næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. –  Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. –

4. Forðumst að vera fórnarlömb,  klæðum okkur ekki í „fórnarlambsbolinn“ á morgnana heldur „sigurvegarabolinn“ –  berum höfuðið hátt.

5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum – gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd.  Eymd er valkostur.

6.  Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum „já takk“ að lífið komi til móts við okkur.  – Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið.  Þegar við vitum allt – t.d. hvernig við eigum að ná árangri – en við trúum ekki á eigin árangur.  Trúðu á þinn mátt og megin.

7.  Veitum athygli og virðum það góða,  okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur.  Að veita athygli er svipað og að virða,

8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða  þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum.  Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur.  Okkur skortir ekkert.  Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.

9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar – fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir,  útiveru,  fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.

10.  Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.

11. Verum heiðarleg og sönn,  gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu.  Tölum út frá hjartanu,  það þýðir að segja ég en ekki þú. „Mér líður svona þegar“ .. í stað þess að ásaka „Þú ert ..“

12.  Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar.  Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum.  Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.

13. Lítum okkur nær.  Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann.  Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.

14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu  – sem okkur líður illa í – hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós.  Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.

15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. – Ekki vera of stolt,  –

15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur,  virðum innri frið.

16. Elskum óvini okkar – óttann og skömmina, – „Kill them with kindness“ – það þýðir að við eyðum þeim með elsku.  Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. – Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum – og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? –   Stjórnsemi – það að treysta ekki er að óttast. „Faith or fear“ –   Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna.  Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja – og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.

Biðjum um æðruleysi – til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt – sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta.  Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. –  Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.

Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það – því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur – ekki fyrr. 

Lífskrafturinn er kærleikur,  allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska,  hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. –  Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu,  við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.

Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.

Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, – verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.

Lifum heil. og höfum trú.  

1185179_423218941120300_1002824657_n

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n

Einhver hundur …

Ég fór og verslaði í matinn sl. föstudag, fyrir „kertaljósakvöldverð“ sem ég var með í bígerð,  en ég hafði boðið nokkrum vinkonum – svona „blandi í poka.“  –

Vala mín var að fara í flug svo ég var að passa hann Simba hennar og hann var s.s. með mér í bílnum. Mér fannst ég orðin ansi sein, en ég átti von á dömunum um kl. 19:00 og fór að stressast.

Simbi  (sem er pinku spes hundur) var alveg að fara að gera mig stressaða – og ég ætlaði að fara að pirrast á vælinu í honum, snöggu geltinu og svo prumpaði hann í þokkabót.  En svo fór ég að hlæja – því ég fattaði að ég væri pirruð vegna þess að ég var sjálf stressuð en það hafði minnst með hann að gera.  Hann er alltaf eins.

Þegar ég kom heim úr verslunarleiðangrinum datt þetta ljóð upp úr mér:

Föstudagsljóð í skeytastíl 

Simbi prumpar í bílnum
geltir líka
elska hann samt
því ég er svo stútfull
af kærleika
eftir að ég uppgötvaði
hina jákvæðu orku lífsins
máttinn og dýrðina
 ❤ LOVE  ❤
Svo þó að einhver prumpi
og þó að einhver gelti
hundur, maður eða kona
elskaðu þau samt
því það hefur ekkert
með þig að gera

það er bara einhver hundur í þeim

🙂

484514_3816273879112_977230617_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mér þótti þetta svo fyndið,  svo ég bætti við athugasemd að „heimskur hlær að sjálfs síns fyndni“ – sem einhver fúll á móti hefur líklegast fundið upp – er það ekki bara?

En hvað um það, kertaljósakvöldverðurinn tókst afburða vel – við sátum,  snæddum, spjölluðum og sötruðum áfenga sem óáfenga drykki fram yfir miðnætti – og hvað eru mörg s í því?

1408_10151567350170382_294181684_n

En aftur hvað um það,  næst þegar fólk er að abbast upp á ykkur þá spyrjið það bara: „Er einhver hundur í þér?“ . 😉  ..

Svo fókusar kona bara á skemmtilega hluti og yndislegt fólk.

Já – gott að setja inn eitthvað svona létt líka!

 

Ótti og flótti frá sannleikanum og sjálfri mér…

Hún er verndandi og góð

kemur inn í lífi mitt fyrir fæðingu

Hún er vanmátturinn og dýrðin

sem skyggir á sjálfan Guð

Kennir mér að þykjast og þóknast

tipla á tánum og setur mig í hlutverk

þar sem ég er stillt og prúð,

sniðug og ábyrg

til að ég  fái athygli, elsku og þakklæti

viðurkenningu og samþykki

sem ég verð að vinna fyrir

því annars á ég það ekki skilið

Hún kennir mér að fela og ljúga

og til að halda leyndarmál

til að vernda heiður hússins

og fjölskyldunnar

Hún kennir mér að skammast mín

fyrir sjálfa mig

og lifa með sektarkennd

þar sem ég sveigi frá eigin gildum

og sannleikanum sjálfum

kennir mér að  óttast

það að segja frá sársauka mínum

að standa með sjálfri mér

því þá gæti ég misst …eitthvað og einhvern

og lífið verður einn allsherjar flótti

frá sannleikanum og sjálfri mér

og ég týni því verðmætasta

sem er ég sjálf

Hún er mín meðvirka móðir 

Hún er ég 

F52E17F2-694E-11E1-94CA-E6AE32D05ADD

Sjö reglur lífsins

1) Semdu frið við fortíðina
svo hún trufli ekki nútíðina

2) Hvað öðrum finnst um þig 
kemur þér ekki við

3) Tíminn læknar næstum allt
gefðu því tíma

4) Engin/n er við stjórn 
hvað þína hamingju varðar,  nema þú.

5) Ekki bera líf þitt saman við annarra 
og ekki dæma þau,  þú veist ekkert hvað liggur í þeirra ferðalagi

6)  Hættu að hugsa of mikið, 
það er allt í lagi að vita ekki öll svörin,  þau munu koma þegar þú átt síst      von á þeim.

7) Brostu
Öll vandamál heimsins eru ekki þín vandamál.

1157520_508813015865094_1698554319_n

Skilur mig einhver? – námskeið, „Lausn eftir skilnað“

Við höfum flest ef ekki öll óendanlega þörf fyrir að einhver skilji það sem við erum að ganga í gegnum.  Skilji sársauka okkar, reiði, og sérstaklega ef okkur þykir að á okkur sé brotið. – 

Það eru oft tilfinningar fólks eftir skilnað,  – mikil sorg, höfnunartilfinning, skömm, reiði, trúnaðarbrestur, einmanaleiki og svona má lengi telja. 

Ef síðan makinn nær sér í annan eða aðra, bætist í tilfinningaflóruna, afbrýðisemi, og kannski hefnigirni, –  „af hverju getur hann/hún verið hamingjusöm/samur en ekki ég“ .. 

Fyrrverandi á að skilja sársaukann, skilja vanlíðanina og ef hann/eða hún gerir það ekki fara stundum bréfasendingar í gang  –  á hinn og þennan. 

Sorgin er sannarlega til staðar, sársaukinn og allar þessar ofangreindu tilfinningar.   Og það sem makann vantar er skilningur. 

Ef makinn skilur ekki, eða vill ekki dragast inn í sársauka hins,  þá verður oft reiði og stjórnsemi ofan á og þá kemur þetta „þú átt að skilja mig – no matter what“  eða  „Ef ég er ekki glöð/glaður mátt þú ekki vera það heldur“ –   „Af hverju ertu glöð/glaður með þessum/þessari en ekki með mér?“ 

Einhvers staðar hér á blogginu er hægt að finna pistilinn „Er fókusinn á fyrrverandi“ –  sem fjallar um það að meðan fókusinn er á fyrrverandi maka, þeim sem þú ert skilin/n við og hans/hennar nýja maka og hans/hennar nýja lífi þá lifir þú ekki þínu lífi og ert ekki að byggja upp þína hamingju. 

„The Blaming Game“ er allsráðandi og það þýðir að viðkomandi er föst eða fastur í bakkgír.  „Stuck in Reverse“ eins og sungið er um hjá Cold-Play. 

When you try your best, but you don’t succeed
When you get what you want, but not what you need
When you feel so tired, but you can’t sleep
Stuck in reverse

And the tears come streaming down your face
When you lose something you can’t replace
When you love someone, but it goes to waste
Could it be worse?

Lights will guide you home
And ignite your bones
And I will try to fix you

And high up above or down below
When you’re too in love to let it go
But if you never try you’ll never know
Just what you’re worth

Á námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ förum við í gegnum alla tilfinningaflóruna – og skoðum leiðir að bata. Ég „fixa“ enga/n en bendi á „fix“ –  Við sleppum tökum á fyrrverandi eins og það er hægt,  og yfirleitt eru lágmarkssamskipti ráðlögð, og þá aðeins ef um börn er að ræða, til að fara yfir þeirra mál. 

Það er mikilvægt að hin fráskildu gleymi heldur ekki börnunum í stundum leiðindamálum sem upp koma á milli þeirra.  Börnin verða oft stærstu fórnarlömbin í skilnaðarmálum,  ekki vegna skilnaðarins sjálfs,  heldur vegna vondra samskipta foreldra eftir skilnað. 

En hvað skiptir stærstu máli? – Jú, að einhver skilji þig,  einhver geti sett sig í þín spor,  þú skoðir hvað gerðist og hvað gerðist ekki.  Takir þína ábyrgð á skilnaðinum því það þarf undantekingalaust tvo til að skilja.  Þar er ekki um að ræða tvo vonda eða illa aðila, heldur tvo aðila sem ekki kunnu betri samskipti sín á milli en það fór sem fór. 

Það getur vel verið að annar aðilinn hafi farið alveg eftir bókinni og gert allt „rétt“ en hinn ekki.  En sama hvernig það er –  við berum ábyrgð á eigin hamingju,  það er ekki hægt að sækja hana til makans í sambandinu og ekki heldur eftir að sambandinu lýkur.   Því fyrr sem við sleppum tökunum á þessum sem við erum skilin við því fyrr skapast pláss fyrir nýjan vöxt.  

Eins og við alla sorg og við öll vonbrigði þarf að viðurkenna þau og gráta þau, fara í gegnum tilfinningarnar og ræða þær – en ekki dvelja þar að eilífu, því þetta er eins og fenjasvæði.  Ef við stoppum of lengi erum við föst.  Ekki reisa hús í dimmu feninu.  Leyfum ljósinu að lýsa okkur heim,  „Lights will guide you home“ – 

Við erum í þessu námskeiði sem öðrum í Lausninni að koma heim til okkar sjálfra,  heila okkur,  læra að við þurfum ekki hamingju frá öðrum því hún er hið innra. 

Næsta námskeið,  Lausn eftir skilnað – fyrir konur,  er áætlað 21. september kl. 9:00 – 15:00 

Lausninni,  Síðumúla 13 

Eftirfylgni er í fjögur skipti – á fimmtudögum kl. 17:15 – 19:00

Leiðbeinandi:  Jóhanna Magnúsdóttir, ráðgjafi Lausnarinnar

Verð:  29.900.-   (hægt að skipta greiðslum).  

(Ath! þær sem komu á örnámskeið – Lausn eftir skilnað fá það gjald frádregið). 

Hámark 10 konur í hóp.  

Umsagnir um námskeiðið Lausn eftir skilnað.

 

skilnadur-500x248

 

 

„Í september 2012 stóð ég frammi fyrir þeirri ákvörðun að skilja við manninn minn eftir 14 ára samband.  Allt í einu var ég orðin einstæð þriggja barna móðir og fannst ég alein. Vinkona mín benti mér þá á Lausnina og þar fékk ég upplýsingar um að innan skamms hæfist námskeið fyrir konur sem stæðu í sömu sporum og ég. Ég var niðurbrotin og ringluð og fannst ég virkilega þurfa að byggja mig upp. Þess vegna ákvað ég að skrá mig á þetta námskeið og sé sko alls ekki eftir því. Leiðbeinandinn á námskeiðinu, miðlaði af sinni reynslu og hvatti okkur endalaust áfram. Hún fékk mig til þess að horfa öðruvísi á hlutina og gaf mér von um að það væri betra líf handan við hornið ég þyrfti bara að trúa því sjálf. Á námskeiðinu kynntist ég frábærum konum og eftir að námskeiðinu lauk héldum við sjálfar áfram að hittast og hittumst einu sinni í mánuði. Þetta veitir mér mikinn stuðning og það er gott að finna að maður stendur ekki einn. Mér finnst þetta námskeið hafa hjálpað mér mjög mikið á þessum erfiðu tímamótum í lífi mínu og ég stend tvímælalaust uppi sem sterkari kona. Ég hvet því alla sem eru að ganga í gegnum skilnað eða hafa gengið í gegnum skilnað að fara á þetta námskeið vegna þess að mun hjálpa ykkur að komast yfir þennan erfiða kafla í lífi ykkar.“

 35 ára kona
 
—————————————————————————————

„Mesta áfall í lífi mínu var að skilja. Mér fannst mér hafa mistekist, þetta var ekki ætlunin, ég var uppfull af sorg og skömm og föst þar. Ég hafði engar aðferðir og engin tæki til að vinna úr þessu áfalli. Á námskeiðinu Lausn eftir skilnað með Jóhönnu Magnúsdóttur kom léttirinn, því ég var ekki ein og til var leið til úrvinnslu. Lausn eftir skilnað er réttnefni námskeiðsins, það var mér ómetanlegt á leið minni til betra lífs.“

44 ára kona 

SKRÁNING OPNAR Á VEF LAUSNARINNAR Í NÆSTU VIKU. 

ath! – Þetta námskeið er ætlað konum,  en við höfum verið með námskeiðið fyrir karla og voru þeir mjög sáttir.  Ég skora á karla að hafa samband ef þeir hafa áhuga á svona námskeiði og ég mun setja upp námskeið! – 

Nánari upplýsingar hjá johanna@lausnin.is 

„Elskan mín, ástin mín ….skammastu þín“..

Þessi orð rifjuðust upp fyrir mér í morgun, – vegna þess að þetta er kjarninn í aðferðafræði margs ofbeldismannsins – og kvendisins.

Laða að sér viðkomandi með fallegu orðfæri og skjóta svo í návígi.

Svona tala lika margir í umræðunni um samkynhneigð.

„Ég elska samkynhneigða, margir eru vinir mínir, – en ojbara það sem þeir gera.  Það misbýður mér.“.

Andlegt ofbeldi er dauðans alvara.

Gay Pride gangan – sem útleggst Gleðigangan á Íslandi,  er ganga gengin í stolti yfir – sað fólk fái að vera það sem það er ..   og þar með talið: „Gay“  .. Gangan er ÝKT – það fer ekki á milli mála,  Ýkt í litum, áróðri og gleði fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Fólks sem er ekki „svona“  – heldur „hinsegin“ og  sem  þarf vonandi ekki lengur  að pæla í því hvort það leðir maka sinn, kyssir eða faðmar á almannafæri.

Það er ekki langt síðan að ég var með unga konu í viðtali sem var kvalin af skömm yfir að vera að koma út úr skápnum sem samkynhneigð.  Hún var í sambandi við aðra sem var enn inni í skápnum og gat ekki hugsað sér að mæta samfélaginu eða fjölskyldunni.

Samt hrópar fólk að öllu sé náð,  samkynhneigð hafi fengið sína jafngildu hjónavígslu viðurkennda og þá eigi það bara að vera heima hjá sér.  Púnktur.

Þrátt fyrir þessi lög eru enn prestar INNAN þjóðkirkju sem hafa samviskufrelsi til að vígja ekki samkynheigð pör.

Það eru komin ýmis lög sem eiga að tryggja jafnrétti kvenna og karla en er jafnrétti náð? –  Getum við lagt hendur í skaut og bara andað léttar?

Hvað með launamun?   Jafnfrétti er ekki náð og þar er víða pottur brotinn og takið eftir að það er líka gagnvart karlmönnum.  Jafnréttisbaráttan er ekki bara kvennabarátta.

Nei,  við viljum ekki að fólk þurfi að ganga um bæinn með hauspoka vegna kynhneigðar sinnar.

Ég sagði áðan að gangan væri ýkt – hún er ganga gleði og stolts,  sem er andstæðan við óhamingju og skömm.

Ég hef skrifað ófáa pistlana um áhrif skammar á fólk, það að skammast sín fyrir sjálfan sig er eins og að vera með krabbamein á sálinni.

Sjálfsvígshugsanir eru algengar hjá fólki sem lifir með skömm,  og ef ekki það þá er það oft farið að finna alls konar verki og einkenni,  – hvers kyns eða kynhneigðar sem það er.

Skömmin lækkar ánægjuvogina – og gleðin og hamingjan er skert.

Þessi pistill er m.a. ákall til þeirra sem ekki þola Gay Pride og hafa áhyggjur af upprennandi kynslóð að sú ganga muni skemma börnin, eins og fram hefur komið í umræðunni.  Ákall til þeirra sem eru enn að veifa viðvörunarflagginu gagnvart hommum, lesbíum, transgender o.s.frv.

EInn af fyrstu hommunum sem kom út úr skápnum á Íslandi flúði land.  Við höfum sannarlega komið langa leið – en göngunni er ekki lokið.

Börnin verða ekki samkynheigð við það að horfa á tvo karlmenn kyssast, ekki frekar en að verða gagnkynheigð yfir því að horfa á konu og karl kyssast. –

Fólk sem á erfitt með Gay Pride gönguna er oft fólk sem hefur alist upp við fordóma gagnvart því að vera hinsegin og er hreinlega ekki vant því og finnst það óþægilegt.

Er það vandamál hverra?

Ég styð Gay Pride – sem er andsvar við Gay-Shame, eða skömminni sem troðið hefur verið upp á fólk vegna kynhneigðar.

Skömmin er það sem skemmir – það að skammast sín fyrir sjálfa/n sig. 

Elskan mín,  ástin mín,  þú þarft ekki að skammast þín – þú ert elskuð/elskaður „all the way“ .. 

Já líka þú sem finnur til þegar að Gay Pride gengur fram hjá þér,  því kannski líður þér bara illa og þarft að skoða af hverju þér finnst þetta óþægilegt.  Prógrammið þitt er þannig,  þú hefur verið þannig alin/n upp – en þær tilfinningar eru ekki þú,  fordómar eru ekki meðfæddir.  Hvorki i eigin garð né annarra.

Kynhneigð er meðfædd.

Hörðustu gagnrýnendur eru oft þau sem enn eru inni í skápnum.

Virðum litrófið. 

Elskum meira og óttumst minna.

Rainbow_flag_and_blue_skies

„Ég get það“ – örnámskeið og kynning

Mánudaginn 9. september fer í gang sjálfstyrkingar-og framkomunámskeið með „dýpt“ –  námskeiðið er byggt á bók Louise Hay,  þar sem unnið er með staðfestingar og ber námskeiðið heiti bókarinnar „Ég get það“..

Við höfum ákveðið að setja upp stutt kynningarnámskeið fyrir þetta námskeið,  þar fá viðkomandi bókina „Ég get það“ – og hljóðdiskinn,  auk þess að fá góða innsýn inn í þessa aðferðafræði að bættu og betra lífi.

Verð á örnámskeiðinu er  5.500.-  bók innifalin.  Skráning fer fram á vef Lausnarinnar – bæði á þetta námskeið og stærra námskeiðið sem stendur yfir í 9. vikur eða til 4. nóvember.  – Æfingin skapar meistarann. –

Staðsetning er Síðumúli 13. Reykjavík  3. hæð.

Skráning fer í gang fljótlega og mun ég bæta við tengli hér, en hægt að láta mig vita af áhuga á að sækja þetta örnámskeið með að senda póst á johanna(hja)lausnin.is.

Örnámskeiðið er fimmtudagskvöldið 22. ágúst kl. 18:00 – 20:00,  þau sem síðan skrá sig á fullt námskeið  fá gjaldið fyrir örnámskeiðið frádregið frá heildargjaldi. (fá þó ekki aðra bók).

Hér er svo hægt að skoða/skrá sig á stóra námskeiðið

http://www.lausnin.is/?p=3576