Þegar grunnurinn brestur og draumurinn deyr – „Lausn eftir skilnað“ .. örnámskeið.

Undanfarin tvö ár hef ég staðið fyrir námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ í samstarfi við aðra ráðgjafa Lausnarinnar. –

Það er stór pakki að fara á þetta námskeið,  heill laugardagur og svo eftirfylgnitímar og algengt er að fólk skrái sig á námskeið eða sýni áhuga en guggni á síðustu metrunum.  Til dæmis skráðu sig ellefu á síðasta námskeið en á endanum voru það fimm sem tóku þátt.

Við ræddum því hvað væri til ráða til að ná til sem flestra,  því það er vont að sitja uppi einn með sínar tilfinningar og e.t.v. líða eins og Palla sem var einn í heiminum.  Fólk sem ekki hefur skilið eða hefur átt annan aðdraganda að sínum skilnaði á erfitt með að setja sig í þín spor,  tekur það of nærri sér að hlusta á þig eða bara hreinlega leiðist það.  Kannski fer það í skotgrafahernað gagnvart maka þínum og eftir því ertu nú ekkert endilega að leita.

Bara að fá skilning og hlustun.  Viðurkenningu á sorginni,  því að vissulega hefst sorgarferli eftir skilnað og stundum er það hafið áður en eiginlegur skilnaður er nefndur því að oft finnur fólk á sér að skilnaður er hafinn þó enginn hafi nefnt hann á nafn.

En – nú ætla ég að prófa að skella upp einu „Örnámskeiði“ um skilnað og sorgarferli eftir skilnað, þar sem hægt er að mæta og hlusta á svör við algengum spurningum sem koma upp og heyra aðeins um viðhorf og leiðir í skilnaðarferli.  Kannski pinku „af hverju skilnaður“  spurningin komi líka fyrir – því það er vont að vita ekki hver raunveruleg ástæða skilnaðar er og af hverju par eða hjón gat ekki verið sátt saman.

Ég auglýsti eftir umsögn um námskeiðið  „Lausn eftir skilnað“  og fékk m.a. þessar:

„Mesta áfall í lífi mínu var að skilja. Mér fannst mér hafa mistekist, þetta var ekki ætlunin, ég var uppfull af sorg og skömm og föst þar. Ég hafði engar aðferðir og engin tæki til að vinna úr þessu áfalli. Á námskeiðinu Lausn eftir skilnað með Jóhönnu Magnúsdóttur kom léttirinn, því ég var ekki ein og til var leið til úrvinnslu. Lausn eftir skilnað er réttnefni námskeiðsins, það var mér ómetanlegt á leið minni til betra lífs.“

44 ára kona

„Í september 2012 stóð ég frammi fyrir þeirri ákvörðun að skilja við manninn minn eftir 14 ára samband.  Allt í einu var ég orðin einstæð þriggja barna móðir og fannst ég alein. Vinkona mín benti mér þá á Lausnina og þar fékk ég upplýsingar um að innan skamms hæfist námskeið fyrir konur sem stæðu í sömu sporum og ég. Ég var niðurbrotin og ringluð og fannst ég virkilega þurfa að byggja mig upp. Þess vegna ákvað ég að skrá mig á þetta námskeið og sé sko alls ekki eftir því. Leiðbeinandinn á námskeiðinu, miðlaði af sinni reynslu og hvatti okkur endalaust áfram. Hún fékk mig til þess að horfa öðruvísi á hlutina og gaf mér von um að það væri betra líf handan við hornið ég þyrfti bara að trúa því sjálf. Á námskeiðinu kynntist ég frábærum konum og eftir að námskeiðinu lauk héldum við sjálfar áfram að hittast og hittumst einu sinni í mánuði. Þetta veitir mér mikinn stuðning og það er gott að finna að maður stendur ekki einn. Mér finnst þetta námskeið hafa hjálpað mér mjög mikið á þessum erfiðu tímamótum í lífi mínu og ég stend tvímælalaust uppi sem sterkari kona. Ég hvet því alla sem eru að ganga í gegnum skilnað eða hafa gengið í gegnum skilnað að fara á þetta námskeið vegna þess að mun hjálpa ykkur að komast yfir þennan erfiða kafla í lífi ykkar.“

35 ára kona
 
Þetta er upplifun hjá svo mörgum „að vera alein“ – jafnvel þó þú eigir góða fjölskyldu og vini,  þá er það algengast setning sem ég heyri á námskeiðinu mínu:  „Gott að vita að ég er ekki ein“ – og þá er það tilfinningalega ein,  það er einhver sem speglar þig, skilur þig og tilfinningar þínar vegna þess að sú manneskja er að fara í gegnum það sama.
 
Námskeiðin hafa verið fókuseruð á konur,  en við höfum haldið eitt fyrir karla og þetta örnámskeið er opið fyrir bæði kyn.   Þar verður hægt,  fyrir þá aðila sem hafa áhuga á að fara á stóra námskeiðið  „Lausn eftir skilnað“  að skrá sig og haft verður samband þegar næstu námskeið verða sett upp.
 
Örnámskeiðið – „Lausn eftir skilnað“  verður haldið fimmtudag 20. júní nk.  kl. 19:30 – 22:30 
 
Síðumúla 13. 3. hæð   
 
Leiðbeinandi:   Jóhanna Magnúsdóttir,  ráðgjafi Lausnarinnar 
 
Verð:   5.500.-    (hægt að greiða m. korti)   
 
Greiða þarf fyrirfram vegna fjöldatakmarkana – en hámarksfjöldi er 25 manns. 
Námskeiðið hentar öllum þeim sem hafa ekki fundið sátt eftir skilnað, eru í skilnaðarferli og sitja uppi með spurningar,   hvort sem þau eru nýskilin eða langt er liðið.   Sumir hafa ekki fundið sátt þrátt fyrir að mörg ár eru liðin og eru e.t.v. enn reið við fyrrverandi maka.  Að sjálfsögðu geta aðstandendur skráð sig og stundum gott að fá skýringar á ferlinu og tilfinningum við skilnað svo hægt sé að veita betri stuðning.
 
SKRÁNING SMELLIÐ HÉR
 
Ath!  Möguleiki að halda svona námskeið úti á landi ef nægilegur fjöldi fæst (15 lágmark)  Hafið samband ef þið hafið aðstöðu! –
 
 
 

Hin sanna móðir …

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Ég datt aðeins inn í bíómyndina „The Help“ í gærkvöldi,  þar sem aðskilnaðarhyggja mismunandi kynþátta var m.a. tekin fyrir,  en það sem vakti helst athygli mína var barnfóstran sem var að hvetja litla stelpu til dáða,  segja henni hversu yndisleg hún væri og hvetja hana áfram á meðan móðir hennar var sýnd sem grimm og uppeldisaðferðir vægast sagt umdeildar.

Að sjálfsögðu var þetta eflaust „þeirra tíma uppeldi“ – að einhverju leyti,  þó að það mætti spyrja sig hvers vegna barnfóstran notaði það þá ekki líka? –

Dómur Salómons þar sem hann dæmir í máli kvennanna sem rífast um barnið hefur oft komið upp í huga minn. –  Salómon var talinn vitur og dómur hans réttlátur, en stundum hef ég (já litla ég) leyft mér að efast um viskuna á bak við þennan dóm.

Dómur Salómons:

  • „Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þinn sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“

Við erum ekki svo græn að vita ekki að það að vera líffræðilega móðir tryggi elskuna til barnsins.  Það er ekki langt um liðið að barn fannst í ruslafötu á Íslandi.

Sem betur fer er ég að tala hér um algjört undantekningatilfelli og það er hreinlega vont að skrifa svona setningu eins og er hér á undan.

Þó að mæður komi ekki börnunum sínum fyrir á þennan hátt,  þá reynast þær þeim þó oft ekki eins og ætla mætti að móðir myndi gera, eða við höldum að hún myndi gera.   Hin skilyrðislausa ást móður til barns er ekki fyrir hendi í einhverjum tilvikum.  Barnið þarf að þóknast móður og sýna fram á að það sé elskunnar virði.  Allt of oft kvarta, sérstaklega stelpur og konur langt fram á fullorðinsaldur að mæður geri lítið úr þeim, gagnrýni þær og þeim líður illa eftir að hafa verið í samneyti við móður sína.

Margþekkt dæmi eru þar sem mæður nota börn sín í deilum við feður þeirra.  Þær standast ekki freistinguna að „valda“ sig með barninu,  því það getur verið sterkasta tæki þeirra.

Hvar er móðurástin og umhyggjan fyrir barninu þá? –

Hvað myndi Salómon segja?

Hver er hin sanna móðiir?

Ég sit ekki hér og þykist saklaus.   Ég er sjálf sek um að hafa sagt hluti við börnin mín sem voru á eigingjörnum nótum og líka verið allt of upptekin af sjálfri mér kringum skilnaðinn við föður þeirra og ég sagði meira að segja vonda hluti um hann þó það væri akkúrat það sem ég ætlaði mér ekki.   Börnin eru nefnilega hluti af föður og hluti af móður og líta á sig sem slík.  Illt tal um móður – eða föður bitnar því á börnunum.

Ég er líka sek um samviskustjórnun,  enda það sem ég lærði.

„Ég er ekki reið, ég er bara leið“ ..  „Já, já, farðu bara ég verð bara ein heima“ eða eitthvað álíka. –   Samviskustjórnun felst í því að planta samviskubiti í börn.

Margt af því sem mæður gera og eflaust flest sem þær gera rangt er vegna vankunnáttu, eða vegna þess að þær nota það sem fyrir þeim var haft.

Allar mæður þurfa að líta í eigin barm,  – það er alltaf tækifæri til að breyta, til að vega og meta hvort að hegðun gagnvart barni er vegna elsku til barnsins eða vegna eigingirni.

Munum t.d. að meðvirkni er ekki góðmennska, eins og margoft er tuggið.   Stundum þrá mæður að fá elsku eða samþykki frá barninu sínu og fara að gera hluti fyrir það sem það á að geta gert sjálft og stuðlar að þroska þess.   Kannski verður barnið reitt út í mömmu þegar hún setur mörk,  en þannig virkar oft þessi óeigingjarna elska.

Að sjálfsögðu með þá trú í brjósti að barnið muni átta sig á því fyrr en síðar að það var með hag þess í brjósti sem móðirin sagði „Nei“ í það skiptið,  eða hvað það nú var sem hún gerði.

Börnin vaxa úr grasi og verða að lokum fullorðnir einstaklingar og þau eru ekkert illa gefin.  Þau átta sig á foreldrum sínum,   hvort sem um ræðir móður eða föður.  En margt af því sem hér er skrifað um mæður gildir að sjálfsögðu um föðurinn líka.

Sönn móðir veit að barnið hennar verður alltaf barnið hennar, – því börn eru nú flest þeirrar gerðar að þau elska mæður sínar skilyrðislaust.   Þó þau fjarlægist eða finnist mamma erfið eru einhver tengsl þarna á milli,  eflaust runnin frá því að vera í móðurlífi hennar sem er ekki hægt að slíta.

Hinn ósýnilegi naflastrengur. 

Hin sanna móðir þarf ekki að efast,  notar ekki barnið sitt í valdatafli í skilnaðarferli, heldur hefur það að markmiði að kljúfa ekki barnið heldur að halda því heilu.

Hin sanna móðir er því eins og barnfóstran í „The Help“  sú sem plantar eftirfarandi hjá barni sínu:

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Fagnaðarerindið í þessum pistli er að þessi orð hér að ofan gilda ekki einungis til barna,  heldur til mæðranna líka, – þeirra sem fengu ekki að heyra þessi orð í bernsku.  Til þess að við séum hæfar til að bera þetta áfram,  þurfum við að tileinka okkur þetta.  Ef við upplifum að við höfum ekki haft getu eða kunnáttu til að sinna börnunum okkar eins vel og við vildum, eða að halda þeim heilum,  þá er gott að vita að þegar við áttum okkur þá byrjum við frá þeim punkti.  Börnin verða alltaf börn og mæður (og feður) fyrirmyndir,  það hættir aldrei að mínu mati.

„Þú ert Góð“ – „Þú ert Gáfuð“ – „Þú ert Mikilvæg“ 

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Kynlífið varir allan sólarhringinn …

Kynlíf er hluti af lífinu,  kynlif er hluti af hjónabandi – eða sambandi.  Sr. Þórhallur Heimisson nefndi það einhvers staðar að það væri hornsteinninn í hjónabandinu, – en hann er búinn að halda ótalmörg para-og hjónanámskeið og ætti því að vita hvað hann syngur.

En hvað er ég að meina með þessari krassandi fyrirsögn? –  Er fólk að „gera það“ upp um alla veggi allan sólarhringinn? –  Nei, að sjálfsögðu ekki.

Alveg eins og par í sambandi þarf að eiga sameiginlega lífssýn og bera virðingu fyrir hvort öðru,  þarf það að vera í takt í kynlífi.  Annars er hætta á að annað hvort þeirra fari að leita út fyrir hjónabandið.

Það að eiga slæman dag, nagast í hvoru öðru, rífast – tala hvort annað niður eða hvað sem það er og ætla svo að eiga voða heitan ástarfund þegar í bólið kemur gengur ekki alltaf upp.  Í grein sem heitir „44 lexíur lífsins“  er talað um að kynlífið sé á milli eyrnanna.  Það er að segja að það sé mjög tengt því hvernig við hugsum.  Þegar búið er að fylla allt plássið milli eyrnanna með áhyggjum, rifrildi  og leiðindum, er varla mikið pláss eftir fyrir kynlífið,  fólk er slegið út kalt og þreytt. –

Að sjálfsögðu er þetta misjafnt,  en margir upplifa þessa tilfinningu að ekki sé bara hægt að breyta samskiptum um leið og komið er upp í rúm. –

Falleg samskipti pars, faðmlag,  væntumþykja, umhyggja, koss, … er allt sem er hluti af forleik af því sem koma skal.

Ef einhver er hissa að hann/hún hafi ekki áhuga, telji sig kynkalda/n er það kannski bara vegna þess að miklu fyrr um daginn,  kannski í rifrildinu yfir tómatsósunni var kaldi tónninn sleginn.  –

Sumir þrífast á „make-up-sex“  þ.e.a.s. setja allt í hávaðarifrildi og sættast svo, – það er engin einlægni í því eða væntumþykja og varla heilbrigði eða hvað?

Falleg og einlæg samskipti kallast á við gott og heilbrigt kynlíf.

556212_332315983512626_1540420215_n

Viltu trúlofast ……

…. sjálfri/sjálfum þér? ..

Þetta er vísun í hugmynd sem kviknaði hjá mér við undirbúning námskeiðisins “Lausn eftir skilnað” –  Ég trúi því nefnilega að ein af ástæðunum fyrir því að samband/hjónaband renni út í sandinn sé að við höfum aldrei trúlofast né gefist sjálfum okkur.   Það sé grunnforsenda góðs sambands,  að byrja á því að elska sjálfa/n sig,  virða og treysta. – 

Það er pinku merkilegt að við séum tilbúin að lýsa yfir ást, trausti og virðingu við aðra manneskju – e.t.v. fyrir augliti Guðs, en það er það sem gert er í kirkjunni, – en eiga mjög erfitt með að gefast okkur sjálfum. –

Í hjónavígslu spyr prestur brúðhjónin hvort þau vilji vera hvort öðru trú. –

Hvernig liti þetta út ef við værum að giftast eða gefast sjálfum okkur? –

Nú spyr ég þig:  Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga þig?  –  Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –

Til að taka þetta alla leið, – þá gætir þú dregið þér hring á hönd til vitnisburðar um ást og trúfesti þína við sjálfa/n þig. – ;-)

Þetta er ekki sjálfs-elska, þessi sem við köllum eigingirni,  þetta er hin raunverulega elska,  því að eftir því sem við náum að þykja vænna um okkur sjálf, – hafa meira sjálfstraust og sjálfsvirðingu verðum við færari um að gefa af okkur og elska, virða og treysta öðrum. –

Lélegt sjálfstraust og léleg sjálfsvirðing skapar óöryggi gagnvart okkur sjálfum OG gagnvart maka okkar eða þeim sem við erum í samskipti við og veikir því sambandið. –

Alveg eins og við viljum að maki okkar sé heilbrigður og hamingjsamur – vill hann að við séum heilbrigð og hamingjusöm.  Það er líka miklu auðveldara að óska öðrum hamingju þegar við erum sjálf hamingjusöm.

Þetta gildir líka um samskipti foreldra og barna.  Alveg eins og við viljum að börnin séu heilbrigð og hamingjusöm,  óska þau  einskis fremur foreldrum sínum til handa.  – Það er niðurstaða mín eftir að hafa tekið viðtöl við hóp unglinga hvers þau óskuðu sér. –  Bein tilvitnun í eina 15 ára stelpu, sem foreldrar sendu í viðtal til mín vegna þess að henni gekk illa í skóla og var vansæl.

“Ég vildi bara óska þess að mamma væri glaðari” –

En hvernig verðum við glöð og hamingjusöm? –  Ég er oft spurð um “tæki” til þess og það var bara á þessu ári sem ég komst að þessari merku niðurstöðu að hamingjan dregur vagninn en ekki vagninn hamingjuna.

– Þ.e.a.s. við verðum að koma okkur í “gírinn”  …byrjunin er að:

elska sig – virða sig – treysta sér – samþykkja sig – fyrirgefa sér og síðast en ekki síst,  þakka fyrir! – (okkur þykir stundum að við höfum ekki neitt til að þakka fyrir, aðstæður okkar séu ómögulegar,  “allt í volli” – en þá þurfum við að líta betur og veita því athygli sem er þakkarvert og ég lofa því að við getum alltaf fundið eitthvað og við byggjum svo ofan á það). –

En ég var að tala um tæki, – sjálf nota ég hugleiðslu og kenni, en tæki sem allir geta notað eru það sem við köllum “daglegar staðhæfingar” – og þær virka! –  Já,  auðvitað virka þær og þú veist það því þú ferð með þær daglega nú þegar!!!  Því miður eru þær oft neikvæðar.  – “Hvað þykist þú vera?” – “Þú ert nú meira fíflið” –  “Mikið er nú ömurlegt veður” – „Ég geri aldrei nógu vel“ – Ég er aldrei nógu _____“  “Ég er að þrauka lífið” – blablabla… alls konar neikvæðar staðhæfingar förum við með á hverjum degi, – kannski ekki alltaf upphátt,  en svona undir niðri.  Stundum förum við í vorkunnargírinn, “Alltaf er ég að gera allt fyrir alla og enginn að gera neitt fyrir mig” .. “Af hverju hringir enginn?”  “Af hverju er maðurinn minn svona leiðinlegur og gerir mig ekki hamingjusama?” ..

Ég ætla ekki að halda áfram. – En síðasta setningin skiptir máli, þ.e.a.s. þessi setning um að ætlast til að aðrir hvort sem það er maki eða vinir geri okkur hamingjusöm.  Enn og aftur komum við að því að við VERÐUM að byrja á okkur sjálfum. –  Hamingjan kemur innan frá – fyrst og fremst,  umhverfið hjálpar til,  það er óþarfi að neita því,  – en t.d. manneskja sem virðir sig og elskar, hún lætur ekki bjóða sér neitt bull og óvirðingu og setur mörk.

En nú er komið að jákvæðu staðhæfingunum,  staðhæfingunum til að geta farið að elska sig og virða. – Það þarf að endurforrita, – taka út það gamla sem hefur virkað til niðurrifs og e.t.v. einstaka vírusa sem hafa læðst inn á harða diskinn! –  Við þurfum að fara að tileinka okkur það sem við höfum lesið í öllum sjálfshjálparbókunum og smellum upp á vegginn okkar á Facebook.  Því að það er sama hvað við lesum mikið – ef við notum það ekki,  er það svipað og að mæta í líkamsræktarsal og horfa bara á tækin og vera svo þvílíkt stolt af okkur að mæta í ræktina.

– Hugrækt vinnur eins.

 (já frá þessum tímapunkti ef þú ert ekki þegar byrjuð/byrjaður,  getur þú valið að taka yfir hugsun þína og breyta henni frá neikvæðri yfir í jákvæða). –  Þú þarft að sortéra frá það sem er uppbyggilegt og það sem er niðurbrjótandi og setja það síðarnefnda í svartan plastpoka og fara með það í  Sorpu eða endurvinnsluna. – Tíminn er kominn til að endurbyggja sjálfa/n sig.

Endurtaktu jákvæðar staðhæfingar, aftur og aftur og gerðu þær að þínum sannleika. –  Dropinn holar steininn. –

Hættu viðnáminu, líka gagnvart öðrum – hættum að vera dómhörð í eigin garð og annarra.  Samhygð er mesti þroskinn. Samhugur með sjálfum sér og öðrum.  Það tekur svaka orku að vera sífellt neikvæður í eigin garð og annarra og það er svo mikil hindrun í því að vera hamingusöm og að elska okkur! –

Kannski ekki skrítið að mörgum finnist þau þreytt, úrvinda og tóm.  Það er svo mikil orka sem fer í það að elska okkur EKKI! ..

Nú er tíminn til að setja orkuna í það að elska og leyfa kærleikanum – ástinni –  að flæða. –

Við þurfum að vera þolinmóð,  þó þetta komi ekki eins og barbabrella.  Við erum búin að taka okkar tíma í að elska okkur ekki og því getur það tekið  tíma að snúa við ferlinu. –

Leyfum okkur að hugleiða jákvæðu staðhæfingarnar og upplifa þær. – En veitum því líka athygli þegar við förum að finna ástæður til að trúa þeim ekki. –  (Er þetta fíflalegt? Kjánalegt? Væmið?)

Er ekki allt í lagi að nota ný “meðul” ef að þau leiða til hamingju þinnar? –  Við megum ekki berja okkur niður þegar við förum að vinna að gleðinni, hamingjunni – elskunni í eigin garð. –

Hið náttúrulega og eðlilega er að elska sig. – Þannig vorum við sem börn, en það gerðist bara eitthvað á leiðinni.  Einhver sagði eitthvað sem varð til þess að við fórum að efast að við værum ekki elsku verð.  –  Stefnan er að komast í okkar eðlilega ástand. – Ástand þar sem við dæmum okkur ekki,  ekki frekar en barnið sem liggur í vöggunni og virðir fyrir sér fingur sinna.  – Það er ekki að dæma þá vonda eða góða,  bara að virða þá fyrir sér því þeir eru þarna. –

(Sjálfs)hatur og niðurbrot getur verið hið algenga þó það sé ónáttúrulegt  – en ástin  er hið eðlilega eða náttúrulega ástand.

Eftirfarandi eru svo staðhæfingar sem þarf að hafa yfir á hverjum degi til að koma sér í eðlilegt/náttúrulegt ástand. – (mæli með því að prenta  þessar staðhæfingar út og lesa þær upphátt fyrir sjálfa/n sig á hverjum morgni og helst kvöldi líka, en bara ef þú vilt!) .

1. Ég samþykki mig af fyllstu einlægni
2. Ég fyrirgef mér fyrir mistök mín og neikvæðar hugsanir í fortíð, nútíð og framtíð
3. Ég elska mig skilyrðislaust
4. Ég elska sál mína
5. Ég elska huga minn
6. Ég elska líkama minn
7. Ég samþykki að nota mistök mín og óhöpp sem dýrmæt tækifæri til að læra
8. Ég geri mitt besta og mitt besta er nógu gott
9. Ég á skilið að vera hamingjusöm/hamingjusamur
10. Ég á allt gott skilið
11.  Ég á skilið að elska sjálfa/n mig
12. Ég á skilið að þiggja ást frá öðrum
13. Ég er minn besti vinur/ mín besta vinkona
14.  Ég tek gagnrýni af æðruleysi og þakklæti
15. Ég er sjálfsörugg/ur og hef góða sjálfsvirðingu
16. Ég fagna því að vera einstök manneskja
17.  Ég geri það besta úr hverri stund og úr hverjum aðstæðum
18.  Ég treysti sjálfum/sjálfri mér
19.  Ég nýt þess að vera með sjálfum/sjálfri mér
20.  Ég tek ábyrgð á eigin líðan
21.  Ég er stolt/ur af sjálfri/sjálfum mér
22.  Ég er siguvegari
23.  Ég er stolt/ur af árangri  mínum í lífinu og líður vel með bæði það sem hefur gengið vel og illa.
24.  Ég er skemmtileg/ur og ég skemmti mér
25.  Ég er góð manneskja.

Hamingjan er lykilinn – og lykillinn er ekki einhvers staðar þarna úti eða í annarri manneskju,  – þú ert lykillinn. –

Þess vegna megum við ekki fókusera svona á að aðrir geri eitthvað fyrir okkar hamingju, – heldur taka ábyrgð á eigin hamingju og eigin lífi. –

“Success is not the key to happiness. Happiness is the key to success. If you love what you are doing, you will be successful.”
– Albert Schweitzer

Þessi pistill er blanda af eigin hugleiðingum og því sem ég hef pikkað upp af netinu,  listinn er t.d. fenginn að láni, með smá breytingum – en öll erum við í þessu saman, og hamingja mín er hamingja þín.  – Svo skínum fyrir hvert annað! –

Því spyr ég aftur:

–  Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –

Minni á nýtt námskeið sem byrjar 11. maí – „Lausn eftir skilnað“ fyrir konur –   sjá nánar http://www.lausnin.is

562085_364664146931546_146189222112374_996249_1945055447_n

Vanmátturinn í ofbeldinu …

Þeim sem líður vel, eru sátt, glöð, hamingjusöm, fullnægð – með sig og sitt,  hafa ENGA ástæðu til að beita ofbeldi.

Þeir sem leggja aðra í einelti, hljóta að vera tómir, leiðir, óöryggir – vegna þess að það að ráðast á eða leggjast á aðra manneskju fyllir upp i eitthvað sem þá vantar.

Dæmi eru til að þeir sem taka þátt í einelti geri það til að beina athyglina frá sjálfum sér svo að þeir verði sjálfir ekki lagðir í einelti.

Það þarf mikinn styrk, – sjálfsstyrk og sjálfsvirðingu til að beita EKKI ofbeldi eða geta sleppt því að gagnrýna eða setja út á annað fólk.

„Vá hvað þessi er feit“ ..  raunverulega er sagt „sjáðu hvað ég er mjó“ ….

Ef þú lemur aðra, hæðir eða níðir þá ertu ósátt/ur við sjálfa/n þig.

Sá sem er sterkastur beitir ekki ofbeldi,  hvorki líkamlegu né andlegu,  hvorki orða né þagnar.

Ofbeldi er í raun vanmáttur og ekkert okkar er algjörlega laust við að beita ofbeldi,  þó við áttum okkur ekkert endilega alltaf á því að við séum að gera það.

Hinar ljúfustu mæður beita ofbeldi – og traustustu feður beita ofbeldi,  yfirleitt vegna vankunnáttu í samskiptum eða eigin vanmáttar.

Ofbeldi er keðjuverkandi.  Pabbi er leiðinlegur við mömmu,  mamma við barnið.  Eða mamma við pabba,  pabbi við barnið.  Skiptir ekki alveg máli hvaða leið,  en þarna eru sömu lögmál og við ástina og kærleikann,  – ef að einhver veitir þér kærleika ertu líklegri til að veita honum áfram.

Þegar við upplifum skömm vegna einhvers,  okkur líður illa, við höfum leyft einhverjum að komast undir skinnið okkar og særa okkur, við upplifum okkur einskis virði, þá  kemur það oftar en ekki fram á kolröngum stöðum, – jafnvel gagnvart saklausum símasölumanni sem slysaðist til að hringja í númerið þitt þó það væri merkt með rauðu.

Þegar rætt er um ofbeldi (og í raun hvað sem er) er alltaf gott að í staðinn fyrir að horfa út fyrir og benda á alla sem eru ómögulegir og eru að beita ofbeldi og leggja í einelti,  að horfa inn á við og spyrja sig:

„Hvaða ofbeldi er ég að beita?“ …

Við verðum að sjá sársauka okkar til að gera breytingar,  viðurkenna þennan vanmátt.

Lausnin er að fara í gang með enn eitt námskeiðið „Lausn eftir skilnað“  – í þetta sinn fyrir konur,  en vonandi hægt að setja upp karlanámskeið með haustinu.

Þessi pistill yrði allt of langur ef ég færi út í að segja frá allri þeirri vanlíðan og öllum þeim vondu og sársaukafullu tilfinningum sem kvikna við skilnað,  hvort sem skilið var „í góðu“ eða illu. –  Vanlíðan leiðir oftar en ekki af sér hegðun sem við erum ekkert endilega stolt af,  hegðun gagnvart maka, og þá bitnar það á þeim sem síst skyldi – börnunum.

Ég leyfi mér að fullyrða að flestir foreldrar beiti börn sín ofbeldi einhvern tímann í skilnaðarferlinu. –  Ofbeldi með orðum í flestum tilfellum.

Reiðin,  jafnvel hatur gagnvart fyrrverandi er því ráðandi afl,  og allt gengur út á það að hann/eða hún megi ekki vera hamingjusamur eða söm,  ef þú ert það ekki.  Þá eru settar hindranir,  truflanir og alls konar töfrabrögð sett í gang.

Töfrabrögð  og truflanir sem oftar en ekki bitna á börnunum,   og auðvitað bitna þessir hlutir á þér sjálfri/sjálfum,  það eru auðvitað heldur ekki alltaf börn í spilinu,  því að reyna að særa eða meiða aðra eða gera þeim lífið erfitt verður manni sjálfum aldrei til framdráttar.

Sjálfsvirðing er lykilorð í þessu, – því það er gott að geta horft til baka eftir skilnað og hugsað;  „Mikið er ég fegin að ég fór ekki út í þennan slag,  eða niður á þennan „level“ ..

Nú er ég búin að skrifa þetta hér að ofan,  en minni þá um leið á það, enn og aftur að við erum mennsk, og særð manneskja hefur tilhneygingu til að særa aðrar manneskjur,  eins og sú sem er full af ást hefur tilhneygingu til að elska aðrar manneskjur.

Fyrirgefðu þér ef þú hefur misst þig, öskrað, sagt ósæmilega hluti sem voru þér ekki samboðnir,  –  en gerðu þér ljóst að það er ekki fyrr en að ásökunarleiknum „the blaming game“  lýkur og þú viðurkennir vanmátt þinn og veikleika að þú ferð að upplifa upprisu sálar þinnar og getur farið að finna fyrir bata í lífi þínu.

ELSKAÐU ÞIG  nógu mikið til að sleppa tökunum á því sem færir þér aðeins óhamingju.

Lifðu ÞÍNU lífi ekki annarra.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið „Lausn eftir skilnað“  á http://www.lausnin.is   – einnig minni ég á námskeiðið   „Í kjörþyngd með kærleika“   sem hefst 13. apríl nk. og vinnur í raun með sömu lögmál,   því að halda í fyrrverandi maka eða rangan maka er eins og að halda í mat sem er manni óhollur.

Ath.  Það að segja „Ég elska mig“ hefur ekkert með egóisma eða sjálfsupphafningu að gera, – aðeins það að viðurkenna að við erum okkar eigin elsku verð og það er forsenda fyrir því að geta  elskað aðra á jafningjagrundvelli.

Við erum hvorki meiri né minni en næsta manneskja og „samanburður er helvíti“ eins og Auður jógakennari komst svo skemmtilega að orði akkúrat þegar ég var í hópi liðugra kvenna og var með móral vegna, eigin stirðleika 😉 ..

Fókusinn minn var þá líka týndur,  ég átti ekkert að vera að pæla í hvað hinar gátu eða hvernig þær voru heldur bara að vinna í að styrkja minn líkama og innri konu,  það er víst trixið á svo mörgum stöðum.

Ef við erum tætt útum allt – með hugann í öllu hinu fólkinu þá komumst við seint heim til okkar sjálfra.

En þú veist að þú ert sá/sú sem á hægust heimatökin við að bjóða þér heim til þín sjálfs/sjálfrar.

Bolli til sölu

Framhjáhald er ekki orsök hjónaskilnaða …

Já, já, ég veit ég tek stórt upp í mig þarna.  Í raun ætti að standa þarna „grunn-orsök“ –  því framhjáhald er einhvers konar milliorsök ef svo mætti að orði komast. 

Framhjáhald er frekar afleiðing en orsök.

Ef einhver heldur framhjá maka sínum þá er augljóslega eitthvað að.  Það er eitthvað að samskiptum,  það er eitthvað að þeim sem leitar út fyrir samband eða hjónaband. 

Viðkomandi þarf að fá þarfir (fíknir stundum) uppfylltar sem hann eða hún fær ekki í sambandinu.  

Hverjum er um að kenna?

Getum við kennt makanum um framhjáhaldið? –  „Ég er ekki að fá það heima hjá mér svo ég verð að leita út á við“ .. ?   

Stundum er þetta bara spennufíkn – og þá enn og aftur er þetta afleiðing.

Af hverju þarf einhver að leita í spennu? –  Er ekki eitthvað sem þarf að skoða þar?

Ég skrifaði um þau hjónakornin Önnu og Tedda í greininni „Meðvirkni er ekki góðmennska:“

Eiginmaður Önnu, hann Teddi var ánægður með Önnu sína, enda hin þægilegasta eiginkona. En Teddi fann að eitthvað vantaði, í vinnunni var þessi frísklega kona sem veitti honum athygli, hafði blikkað hann og tekið eftir hvað hann var flottur,  en Anna hafði ekki haft orð á því í mörg ár, hvað þá veitt honum almennilega athygli í rúminu! -Hann fór þvi  að halda fram hjá Önnu,  þó að honum þætti ofurvænt um hana.

– Hann vildi ekki sjá Önnu særða og reyndi því í lengstu lög að segja henni ekki frá framhjáhaldinu og ætlaði sér það aldrei.   Það sem Anna vissi ekki myndi nú ekki særa hana. –  Anna komst að framhjáhaldinu þegar Teddi hafði verið kærulaus og skilið Facebook eftir opna. – Anna var særð,  en Teddi hélt dauðahaldi í það að minnka sársauka Önnu og sagði allt byggt á misskilningi.

Teddi þurfti tenginguna við Önnu og allt sem hún veitti honum,  hann vildi ekki missa hana.  Hann ætlaði bara að taka hliðarspor,  ekki neitt meira.

Ástæðan fyrir því að Teddi sagði Önnu ekki að hann væri óánægður í sambandinu var hræðsla við að missa Önnu, – missa tengingun sem hann þurfti á að halda.  Ástæðan var líka sú að hann vildi ekki þurfa að upplifa að sjá konu sína særða.  Það hefði hann reyndar átt að hugsa um fyrr. –

Við skulum segja að þau Anna og Teddi hafi skilið, og opinber ástæða gefin upp að Teddi hafi haldið framhjá Önnu,  en í raun var grunnorsökin miklu dýpri.  

Vankunnátta í samskiptum?    Léleg sjálfsmynd?   Ótti?  

Kannski allt þetta, en eins og ég leyfði mér að halda fram í fyrirsögn er framhjáld ekki orsök,  eða alls ekki grunnorsök.  

Ég er ekki að afsaka framhjáhald,  –  og langt í frá, – því það að halda fram hjá er viss tegund óheiðarleika – og óheiðarleiki er skapaður af því að hafa ekki hugrekki til að vera heiðarlegur.  

Hugrekki til að láta í ljós tilfinningar við maka sinn, af ótta við að jafnvel missa hann eða særa.  

525912_10150925020918460_1818531631_n

Maki eða dúkkuvagn …

Anna litla átti dúkkuvagn,  hann hafði legið óhreyfður í langan tíma uppi risi og þar fékk hann að rykfalla í friði. –  Hún var hætt að leika með hann.

Fríða kom í heimsókn með mömmu sinni,   til mömmu Önnu –  Anna og Fríða fóru upp í ris og Fríða sýndi dúkkuvagninum áhuga og spurði hvort hún mætti setja dúkkuna sína í vagninn og prófa að keyra um.   Anna sagði að það væri eiginlega ekki hægt þar sem hún væri akkúrat að fara að nota vagninn og ætlaði að fara út að viðra hann með dúkkuna sína. –

Þetta er ekkert óvenjuleg saga af börnum, – eitthvað dót hefur legið óhreyft en um leið og einhver annar sýnir því áhuga þá vill eigandinn fara að leika með það.

Lengi býr að fyrstu gerð, og eðli okkar og eiginleikar eru í raun eins og barna alla tíð.  Eða að miklu leyti eins og barna.

Stundum komum við fram við manneskjur eins og Anna lét með þennan dúkkuvagn.   Við „eigum“ þær og þær bara eru þarna –  við veitum þeim ekki athygli og þær eru til „afnota“ fyrir okkur þegar okkur dettur það í hug.

Ég er að leyfa mér að líkja þessu við t.d. hjónaband eða sambönd þar sem fólk er farið að taka hvort öðru sem sjálfsögðum „HLUT“  .. já hlut í staðinn fyrir sem manneskju af holdi og blóði.   Maðurinn bara „er“ til staðar,  eða konan.  Þau gera ýmislegt fyrir hvort annað og leggja ýmislegt til en allt er orðið sjálfsagt og lítið um virðingu,  athygli,  þakkir,  – gagnkvæm samskipti á jákvæðum nótum.

Hvað svo þegar kemur þriðji aðili inn í svona „dautt“ samband? –   Hvað ef að önnur kona veitir manninum athygli eða annar maður veitir konunni athygli.  –  Þetta er MINN! ..  Þetta er MÍN! …

Athygli er lykilorð í mannlegum samskiptum,  ég ítreka það líklegast aldrei nógu oft.  Tökum engu og engum sem sjálfsögðum „hlut“ ..   Þakklæti er annað lykilorð,   –  þökkum það sem við eigum og höfum,  og látum þau sem okkur eru kær vita hvað við erum þakklát fyrir þau,  og meinum það.

tumblr_lou3i3Q8z11qbwf39o1_500

 

Mamma – pabbi – barn ….

Ég lenti í skemmtilegum samræðum við tvo unga menn í gær.  Ég öðlast trú á mannkynið þegar ég rabba við ungt hugsandi fólk.   Annar maðurinn sagðist hafa lesið greinina,  þar sem minntist á að börn væru ekki peð í valdatafli foreldra,  eða þau mætti ekki nýta sem peð í valdatafli foreldra. –

Setningin er úr greininni „Draugagangur í sambandinu“ og hljómar svona:

„Börn eru EKKI peð á taflborði í skák – en stundum finnst manni eins og þau séu því miður notuð og völduð í einhvers konar valdatafli.“ 

Oft þegar verið er að takast á um börn verður mér hugsað til Salómonsdómsins,  þar sem dæmt var hver væri hin sanna móðir barnsins. –

Dómurinn er í Fyrrri konungabók í Biblíunni og sagan er eftirfarandi:

  • „Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þin sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“

Það er augljóst hvor konan er að hugsa um eigin hag í þessu tilfelli og það er augljóst hver hugsar um hag barnsins.

„Móðurástin brann í brjósti hennar“ …   segir í textanum og þess vegna er hún tilbúin tli að gefa barnið sitt svo það megi halda lífi. –   Þannig virkar óeigingjörn móðurást,  skilyrðislaus,  það þarf ekki að fá neitt í staðinn.

Fórnin er í raun algjör.

Auðvitað hefði það verið óréttlátt ef að hin konan hefði fengið barnið sem sitt og hin sanna móðir setið eftir tómhent,  en þó ætti hún lifandi barn en ekki dáið. –

Þetta er erfið saga og áleitin.   Hún er líka áleitin vegna þess að þessi mynd af móður er ekki endilega alltaf sönn.

Móðir er ekki bara móðir barns síns vegna,  heldur líka síns eigin vegna.  Móðir fær mikið út úr því að sinna barninu sínu og fá endurgoldna ást,  kærleika,  umhyggju – jafnvel aðdáun.  Það sama gildir um föður.

En hvernig verður barnið peð í valdatafli foreldra?

Þegar foreldrar skilja hefst oft þessi barátta um barnið,  og inn í það flækjast líka tilfinningamál foreldra.  Annað foreldrið,  ef ekki bæði,  eru yfirleitt í sárum og þurfa að koma ýmsum skilaboðum á milli til hins foreldrisins og því miður eru börnin notuð óspart til að bera þessi boð á milli.   Börnin eru flækt inn í tilfinningamál pabba og mömmu og upplifa sig oftar en ekki klofin.  „Hoggvin í tvennt“ ..   Það er þegar ósætti ríkir milli foreldra.

Í stað þess að halda barninu utan við deilur,  er það notað í valdataflinu,  bæði beint og óbeint með þeim áhrifum á barnið að það upplifir óvissu,  óhamingju og vandræðagang og telur að eina leiðin til að „bjarga málunum“  sé að pabbi og mamma verði aftur saman. –   Barnið fer að sjá í hillingum líf eins og í Disney bíómynd,  þar sem allir una sér sáttir saman,  mamma, pabbi, börn og bíll. –   Oft er líka annað foreldrið sem elur á þessari hugmynd barnsins,  –  það foreldrið sem er ósátt við aðskilnaðinn.

„Ef við værum saman væri þetta nú ekki svona slæmt“ ..

„Mamma þín vill mig ekki… ég vil hana“ …

„Pabbi þinn fór – ég get ekkert að þessu gert…“

Barnið fer í björgunargírinn og óskar þess af öllu hjarta að mamma og  pabbi byrji saman á ný,  svo að mamma eða pabbi hætti að vera leið.“  –

Hver heggur í hjarta barnsins? – Að eignast barn er mikil ábyrgð,  og ábyrgðin fellur seint úr gildi.  Allt samfélagið hefur ábyrgð gagnvart börnum.  Barn sem er beitt ofbeldi er á okkar ábyrgð,  líka andlegu ofbeldi.   Fátt er varnarlausara en barn sem er beitt ofbeldi af þeim sem það helst treystir,  eða á að treysta.   Barnið telur í fæstum tilfellum að það sé foreldrinu að kenna heldur því sjálfu.   Það eigi það skilið,  því eitthvað gerði það rangt.  Barnið situr því oft uppi með sektarkennd yfir samskiptum við foreldra.   (Að sjálfsögðu eiga þessi skrif við öll samskipti foreldra og barna,  ekki bara fráskilinna).

Allt peðinu að kenna? ..

Það er svo miklu, miklu auðveldara að horfa á alla hina og sjá hvað þeir eru að gera rangt,  en að líta í eigin barm,  skoða hvort að það er eitthvað sem ég hef sagt eða gert skaðar barnið mitt, –   ekki til að ala á minni eigin sektarkennd,  heldur til að læra af því,  getur verið býsna mikil áskorun.

Börnin þrá að foreldrar séu ekki óvinir.   Að foreldrar geti haft samskipti án þess að þurfa að setja út á hitt,  að barma sér hvað hitt er vont, leiðinlegt, ósanngjarnt o.s.frv.   En þau þurfa líka að fá að vita að það séu ekki bara tvær leiðir.   Saman eða sundur.

Samvinna og/eða samskipti foreldra eftir skilnað,  skiptir barnið ekki minna máli en samskiptin fyrir skilnað.

Stríð milli foreldra skilur oft eftir sig sviðna jörð og ég trúi ekki að nokkurt foreldri vilji barninu sínu það að vaxa upp af sviðinni jörð,  –   enn og aftur vaknar þessi spurning sem hver og ein/n þarf að spyrja sig: 

„Hvað skiptir raunverulega máli?“

Slíðrið sverðin

grafið stríðsaxir

látið orðin liggja

því enginn vill

að eftir liggi

sundurskorið

barn

divorce-lawyer

 

 

 

 

Ekki viss …

Það kom einu sinni til mín kona sem var ákveðin í því að skilja við manninn sinn,  hann var ómögulegur,  gaf henni aldrei viðurkenningu,  blóm né hrós o.s.frv. … þið þekkið væntanlega dæmið. –

Það sem ég ráðlagði konunni að hætta að stilla fókusinn á manninn og stilla hann inn á við.   Veita sjálfri sér viðurkenningu,  kaupa sér blóm,  nú eða kaupa blóm handa manninum og þakka sjálfri sér þegar hún væri búin að standa sig,  nú eða bara þakka hið góða í fari eiginmannsins og veita því athygli.  (Það sem þú veitir athygli vex).

Hún ákvað að „salta“ skilnaðinn um sex mánuði,   setti sér dag þar sem hún ákvað að endurskoða ákvörðun sína.   Hún gerði allt það sem henni var sett fyrir,  skrifaði „þakklætisdagbók“ – þar sem hún skráði niður 3 hluti daglega sem hún var þakklát fyrir.  TJÁÐI sig um tilfinningar sínar og felldi hlutverkagrímurnar.   Hún hugsaði vel um sig og líkama sinn,  sagði hvað hún vildi og hvers hún þarfnaðist,  lét manninn sinn líka vita (hann þurfti ekki að „fatta“ það eða vera hugsanalesari)  fór að elska sig í tætlur,   það liðu færri en sex mánuðir og konan kom björt og brosandi í viðtal:

„Ég er orðin ástfangin af manninum m´num aftur!“ ..

Auðvitað dugar ekkert að hlusta bara á ráðin eða lesa stafla af sjálfshjálparbókum.  Það er eins og að mæta í ræktina og horfa á tækin,  jú vita að þau eru til en ekki nota þau.   Það er hægt að plata einhverja jú, „ég var sko í ræktinni“ …  það er ekki lygi,  ekki frekar en „ég las bókina“ ..  en ef að tækin eru ekki notuð eru þau gagnslaus.

Lífið er eins og slönguspil,  „snakes and ladders“ .. það eru slöngur sem setja okkur niður og svo eru það stigar sem hífa okkur upp.  Ef við erum tapsár þá förum við í fýlu í hvert skipti sem við förum niður,  en ef við erum í þessu sem leik, sem ævintýri – þá,  þegar við hröpum niður,  dustum við af okkur rykið og höldum áfram.

Okkar er valið,  – eymd er vissulega einn valkosturinn.

En komum nú aftur að konunni sem vildi skilja,  hennar mál  hefðu getað farið á annan veg.  Hún hefði getað haldið áfram í sama fari og áður og lifað „unhappily ever after“ .. losað við sig manninn en setið uppi með sjálfa sig óbreytta (eða vonandi farið að vinna að breyttum farvegi eftir skilnað).   Í hennar tilviki breyttist viðhorf mannsins til hennar þegar hún fór að sjálf að bera virðingu fyrir eigin þörfum og löngunum,  tjáði sig heiðarlega og naut sín.   Það fer ekki alltaf svoleiðis.  Stundum virkar svona sjálfsvinna þannig að hinn aðilinn fer dýpra í sína skel,  er enn fastari í lokuðum ham sínum og þá myndi sá/sú sem hefur unnið heimavinnuna sína vera vissari hvað hann/hún vildi og hvað hann/hún léti bjóða sér.  Hann/hún væri búin að gera sitt,  og þyrfti að taka ákvörðun um eigið líf og spyrja – kannski að sex mánuðum liðnum:

„Hvað vil ég?“ …

Vegurinn liggur annað hvort saman eða í sundur,  en við losnum við óvissuna og kyrrstöðuna sem er vond.  Lífð er á hreyfingu.

Kynið í þessari frásögn skiptir ekki öllu máli,  þetta hefði alveg eins getað verið karlmaður sem væri að vinna sína „heimavinnu“  en ætti konu sem hann hefði ætlað að skilja við.  (Athugið að skilnaður er oft hafinn löngu áður en hinn eiginlegi skilnaður er yrtur upphátt).

Málið er að byrja hjá okkur sjálfum,  skoða hvað það er sem við erum að gera til að láta hjónaband eða samband ganga,  hvort að við erum heil eða heiðarleg í sambandinu,  hvort að við erum að leita í fíknir til að forðast tilfinningar,  fíkn þá í formi matar,  vinnu,  annarrar manneskju,  áfengis, lyfja o.s.frv…

Kannski erum við að flýja sjálf okkur en kennum makanum um? –

Við verðum að vera heil sjálf til að hafa sambandið heilt.  Þegar við erum orðin heil þá pössum við illa við brotna manneskju.

Það að vera eitt,  er ekki að að vera tveir hálfir,  heldur að vera tvö heil sem verða eitt.    Við verðum ekki eitt tré – heldur tvö HEIL sem tengjast.

"Standið saman, en ekki of nærri hvort öðru," segir spámaðurinn. "Því að það er bil á milli musterissúlnanna og eikin og kýprusviðurinn vaxa ekki hvort í annars skugga."

„Standið saman, en ekki of nærri hvort öðru,“ segir spámaðurinn. „Því að það er bil á milli musterissúlnanna og eikin og kýprusviðurinn vaxa ekki hvort í annars skugga.“
Gjöf gefin af skyldurækni eða til að þóknast eða geðjast dyntum þýðir ekki að þar sé aðdáun og ást að baki.
Þið eruð gjöf hvers annars,  hvernig þið komið fram, talið saman, virðið og elskið.
Ástin verður aldrei mæld í blómum, gulli né demöntum.  Veraldlegar gjafir eru bara bónus, og forsendur fyrir gjöfunum skipta öllu máli,  meira en gjöfin sjálf.
Ekki viljum við vera eins og blómið í Hryllingsbúðinni sem söng:
„Gef mér“ … og varð aldrei fullnægt …
Eftirfarandi videó er með betri gjöfum sem ég hef fengið.
TAKK 😉

„The Blame Game“ …

Í lífi og starfi hef ég tekið eftir því hvað skiptir okkur máli að finna sökudólga.  Það er þessi leit að einhverjum sem hægt er að kenna um.
„Það er þessum að kenna,  eða hinum að kenna.“

Það er spurning hvort að aðstæðurnar ráði yfir okkur eða við yfir aðstæðum.

Erum við aðeins fórnarlömb aðstæðna?  –  Tökum við ábyrgð á eigin lífi eða er líf okkar á ábyrgð annarra?

Það að ásaka aðra um hvernig komið er fyrir okkur er ákveðin flóttaleið frá ábyrgð.  Það er auðveldara að benda á aðra í stað þess að líta í eigin barm.   Ásökun er ekki uppbyggileg,  það hjálpar hvorki okkur sjálfum né nokkrum öðrum – það vinnur engin/n í „The Blame Game“  eða ásökunarleiknum.

Af hverju ekki? –

Ef við lítum á okkur sem fórnarlömb aðstæðna eða ákveðins fólks,  þá erum við búin að færa aðstæðum/fólkinu valdið yfir okkur.

Þetta virkar í báðar áttir, –  þ.e.a.s. við getum ásakað en við getum líka litið á utanaðkomandi sem gerendur í okkar gleði.  „Það er þessum aðstæðum/fólki að þakka að mér líður svona vel.

Eftir því sáttari sem við erum í eigin skinni,  eftir því sem við erum æðrulausari  þess minna látum við aðstæður eða fólk setja okkur út af laginu.

Ef ég er illa fyrirkölluð og einhver gagnrýnir mig,  er mun líklegra að ég ásaki þann sem gagnrýnir mig um líðan mína og óánægju.   En í raun er það ég sjálf sem þyrfti að skoða,  hvað það sé í mínu lífi eða innra með mér sem gerir það að verkum að ég er viðkvæm fyrir gagnrýninni.

Það er auðvelt að sjá þessa hegðun hjá börnum,  „hann sagði að ég væri leiðinleg“ .. og þá tekur barnið það að sjálfsögðu til sín,  og upplifir vanlíðan og trúir eflaust viðkomandi.

Ef þú kreistir appelsínu færðu út appelsínusafa.

Ef þú kreistir reiða manneskju þá kemur út reiði,  ef þú kreistir sátta manneskju kemur út sátt,   eða er þetta svona einfalt? …

Bara pæling.

Ef við tökum „The Blame Game“ og skoðum út frá skilnaði,  þá virkar það þannig að það þarf tvo aðila til að skilja.   Já, já, ég veit alveg að annar aðilinn gæti verið „drullusokkur“ – eða hafi brotið trúnað o.s.frv.-  og hinum finnst hann hafa gert allt rétt og sé fórnarlamb aðstæðna,  en í fæstum tilvikum er það þannig.   Skilnaður er yfirleitt útkoma úr sambandi sem er vanvirkt, meðvirkt, – það er sambandið sjálft sem er vont,  eða samskiptin eru vond og skemmandi.

Jafnvel þó við álítum að við höfum gert ALLT RÉTT, – þá sýna niðurstöðurnar annað.   Ef við neitum að horfast í augu við þetta gætum við lent í sama sambandinu aftur,  eða svipuðu.   Sá eða sú sem upplifir sig hafa gert ALLT RÉTT er iðulega meðvirk/ur og hefur í raun tekið þátt í að þróa sambandið í þá átt sem það fór.   Þetta er sárt,  en aðeins við að sjá meinið eða hvað vanmátturinn liggur og viðurkenna hann getum við breytt.

En svona í lokin,  höfum það í huga að ásökun er aldrei uppbyggileg, að sjálfsögðu þurfa allir að höndla sína ábyrgð,  og við erum mannleg.  Gefum ekki valdið yfir líðan okkar í hendur annarra,  hvorki til góðs né ills.

Við höfum val.  Val um að þroskast, val um að læra, val um að halda áfram .. en ásakanir eru ávísun á stöðnun.