Það var ein óþolinmóð átta ára sem leyfði sér að grafa aðeins niðrí eitt blómakerið sem sendur hér fyrir framan Túngötuna á Hvanneyrinni góðu, sl. haust.
Við höfðum sett niður haustlauka og hún vildi kíkja hvort þeir væru ekki örugglega byrjaðir að vaxa.
Ég þekki líka þessa óþolinmæði, að vilja fara að grafa og kíkja hvað er að gerast.
Allt hefur sinn tíma segir prédikarinn. „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp, það sem gróðursett hefur verið hefur sinn tíma“. (Préd.3:1-2)
Við höfum látið laukana í friði og það fer að koma vor, fjórir toppar eru farnir að kíkja upp úr einu kerinu og nú vitum við að falleg blóm munu koma með vorinu, kannski fyrir páska!
Ef við hefðum ekki treyst því að laukarnir kæmu upp, án þess að við fylgdumst með því hefðum við bara grafið laukana alveg upp og alltaf verið að kíkja og þannig skemmt fyrir vexti þeirra – og þá væru engir laukar að gægjast upp úr moldinni núna.
Það getur verið erfitt að bíða, en verra að treysta því ekki að eitthvað gerist nema maður fari að grafa í moldinni og fylgjast með, eða jafnvel að toga laukana upp sjálfur, því þá er búið að skemma fyrir vextinum – og tímanum sjálfum.
Það er dimmt í moldinni, en hún nærir og þegar tíminn er kominn teygir laukurinn sig í ljósið og hann veit að ljósið er þarna.
Þetta þurfum við mennsku laukarnir að hafa í huga.
Núið er svolítið sleipt, og því erfitt að festa hendur á því.
Galdurinn er: „EKKI REYNA“ …
Um leið og við hættum að reyna, kemur Núið til okkar, það kemur ekki ef við fyllumst örvæntingu eða kappi við að elta það, því það liggur í hlutarins eðli að ef við erum að elta þá er það ekki „present“ heldur frjarlægt.
Að reyna gefur okkur útgönguleið, eins og orðið „kannski“ –
Ég ætla að reyna ….
Kannski ætla ég ….
Þar höfum við opnað fyrir möguleikann að gera það ekki.
Ég ætla ekki að reyna að vera til, heldur ætla ég að vera til.
Það er svo merkilegt að um leið og við hættum að reyna þá fara hlutirnir að gerast.
Ástæðan fyrir þessum pælingum hér að ofan er að ég hef fundið fyrir því að ég hef tapað þessari gjöf, kannski ekki að ástæðulausu þar sem grunninum hefur verið kippt undan í minni tilveru – sorgin gerir það, og sorginni fylgja allskonar tilfinningar sem skekja tilveruna enn meira. Pirringur, reiði, leiði, þreyta, magnleysi … þráðurinn er stuttur sem aldrei fyrr. Fólk er meira pirrandi en nokkru sinni fyrr! .. Merkilegt nokk!
Auglýsing í útvarpi þar sem Egill Ólafsson segir að ekki verði allir sextugir, stingur eins og hnífur í hjartastað.
Pirringurinn hefur ekkert með þetta fólk að gera. Það hefur ekkert með afmæli Egils Ólafssonar að gera, eða nokkurt sextugsafmæli. Það hefur með minn sannleika að gera, með mína hjartasorg að gera.
Ef þú kreystir appelsínu færðu út appelsínusafa.
En ég veit að besta gjöfin er að komast í Núið, komast í jafnvægi, jafnvægið sem riðlaðist þegar grunnurinn var hristur.
Það var í gær þegar ég var að keyra inn í Hvalfjarðargöngin og ég var að hugsa um þetta blessað Nú, sem mig langaði svo að eignast, og ég var að hugsa upp aðferðir, tækni o.fl. til að nálgast Núið að eldingunni laust niður í höfuðið á mér.
„Ekki reyna“ … og um leið og ég „heyrði“ þessi orð eða skynjaði þau, náði ég innri ró,
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.
„Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því …“ (Jóh 1:1-5, 14)
Jesús er fyrirmynd mennskunnar, manneskjunnar sem getur lifað í myrkri og manneskjunnar sem lifir í ljósi, manneskjunnar sem er ljós.
Ég vaknaði í morgun og sá snjóinn á trjánum, og sá allt lífið. Heimurinn er súrealískur núna, – ég trúi næstum því að ég rekist á ljón í garði nágrannans, mér finnst jafn „auðvelt“ að trúa því og það að dóttir mín sé látin. En ég verð að trúa því, því það er staðreynd. Ég vinn mig ekkert útúr því hjartasári með því að stytta mér leið í gegnum sorgina, með flótta frá henni.
En ég get valið að ganga leiðina í myrkri eða ég get valið að ganga hana í ljósi.
„Þótt ég fari um dauðans skugga dal, þá óttast ég ekkert illt því ÞÚ ert hjá mér“ …
Ég er ekki að lenda í fyrsta áfalli lífs míns, ég held ég hafi bara fengið dágóðan skammt, hélt reyndar að kvótinn væri kominn. En engin/n veit…
Aðdragandinn, átökin og áfallið við að missa dóttur mína og ganga í gegnum lokakafla lífs hennar með henni, dóttur sem var mér mjög nátengd er á ómælanlegum sársaukaskala og aðeins þeir sem þekkja sjálfir skilja.
Ég hef valið ljósið hingað til og ég ætla ekki að leyfa myrkrinu eða þeim öflum sem eru í þeim að ná mér. – Ég ætla að hæðast að þessum öflum, sem halda að þau geti náð mér og haldið mér niðri. Hæðast að skrímslunum í djúpinu sem reyna að toga, og hlæja að þeim þegar þau missa máttinn þegar ég fylli mig af ljósi, og vegna ljóssins ná þau ekki að festa klónum í mig, því þau þola ekki birtuna. –
Hí á ykkur, dirfist ekki! –
Ég ætla að halda áfram þó vegurinn verði hlykkjóttur, ég geri það ekki án Evu Lindar, því ég er nokkuð viss um að hvíslið: „Hugsaðu ljós“ kom frá henni. Við gerum þetta saman, hún er alltaf í mér, hún er af mínum líkama og verður alltaf dóttir mín, var og er.
Börnin mín; Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst eru líka ljós af mínu ljósi, og þau bera það sama með sér og Eva Lind, deildu sama móðurlífi og eiga margt sameiginlegt með henni.
Við munum vera hennar ljósberar, og börnin hennar Ísak Máni og Elisabeth að sjálfsögðu líka, og litla Eva Rós Þórarinsdóttir. Allir sem þekktu Evu, líka pabbi hennar, ömmur, afarnir sem eru farnir, fjölskyldur okkar, vinkonur og vinir hennar og okkar sem erum hérna megin slæðunnar. Og allir sem taka þátt í því að hugsa eins og hún óskaði að fólk hugsaði; með jákvæðni og gleði.
Ljós af ljósi.
Já, ég trúi að það séu dimm öfl og það séu ljósöfl. Við getum nært bæði, en VIÐ VELJUM.
Aldan er svo sterk, hún verður varla verri og hún hefði alveg getað kaffært okkur, en við erum vön öldunum í Flórída, við erum jaxlar, já meira að segja mamman er jaxl sem fer út í öldurnar. – Við hræddumst aldrei óveðrið.
Við erum inní þeim miðjum núna og þess vegna er erfitt að anda. En við ætlum að vinna, með Evu Lind, því ef einhver er á ströndinni að hvetja okkur áfram er það hún. Það er ekki í hennar anda að við leggjumst í eymd og volæði. Hún vissi að við myndum syrgja, var búin að segja það – og það má, enda ekkert okkar ofurmannlegt, – ekkert er mennskara en sorgin.
Upp, upp, mín sál .. já og inn með ljósið.
Hugsaðu ljós! ..
Gleymum ekki því sem Eva óskaði; að börnin hennar yrðu alin upp í jákvæðni og gleði. Við ættum öll að taka það til okkar, þó ekki með því að þagga niður í sorg okkar, – heldur að ganga í gegnum sorgina alltaf með hennar hugmyndafræði í hjarta, og með henni.
Þannig virðum við hana og minningu hennar.
Elsku, elsku, elsku Eva Lind, lífsins lind sem heldur áfram að gefa og lind sem aldrei þornar. –
Ég hlustaði á viðtal við Neale Donald Walsch – þann sem lenti í samræðum við Guð, – eða skrifaði bækurnar „Conversation with God“… en Walsch er einn af mörgum andlegum leiðtogum sem þurfti að „strippa“ sig af öllum veraldlegum gæðum til að ná kjarnanum í því sem skipti máli í lífinu.
Hann var á tímabili orðinn betlari og útigangsmaður.
Þegar sagt var við Walsch að hann hefði nú reynt tímana tvenna og ekki einu sinni átt fyrir grunnþörfum (basic needs) svaraði hann því til að í raun væri þörfin fyrir hið andlega grunnþörf. Auðvitað kemur þetta mörgum undarlega fyrir sjónir, – flestir líta á grunnþarfir sem mat, húsaskjól, það að losa sig við úrgang o.fl. eins og fram kemur í hinum fræga Maslow píramída.
Í píramídanum er kærleikur, vinátta, fjölskylda, ást …- ekki grunnþörf, þrátt fyrir að sungið sé:
„All you need is love“ .. „Love is all you need“ .. o.s.frv. …
Lissa Rankin, læknir telur að hið andlega sé líka grunnurinn að góðu lífi, hægt er að lesa hugmyndir hennar ef smellt er HÉR.
Sama hugmynd, eða svipuð, kemur fram í Biblíunni:
„Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, heldur sérhverju orði, sem fram gengur af Guðs munni“ (Matt 4, 4) ..
Hið andlega fæði er grunnur – og hin andlega hugsun er grunnur – að betra lífi. Ef við erum neikvæð, ef við tölum okkur niður, ef við erum dómhörð, nærumst á reiði, rifrildi og óróleika þá verðum við full af reiði, rifrildi og óróleika.
Við getum valið andlegt fæði alveg eins og við getum valið fasta fæðu, Hægt er að bera það saman að djúpsteiktur matur, kokteilsósa og candy floss fari illa í maga – eins þá fara illar hugsanir, blót, rógburður og ofbeldisefni illa í huga.
Ég tala nú ekki um ef menn kunna sér ekki magamál og borða yfir sig, þá gæti orðið óróleiki í maganum/huganum.
Er hægt að kaupa Ró? – er fyrirsögn þessa pistils. Það er ekki hægt að kaupa ró, en diskinn Ró er hægt að kaupa. Von mín er sú að þú eða þau sem eru að hlusta nái að finna SÍNA innri ró. Að það að hlusta dragi fram það sem þegar er innra með þeim.
Diskurinn er afrakstur viðtala, námskeiða, samskipta við fólk, fólk með tilfinningar – þar sem ég hef uppgötvað að við erum öll eða flest að hugsa um og eiga við svipaða hluti.
Sammannlega hluti.
Ég hef komist að því að flest okkar þrá ró, það þarf bara að ná henni fram, því auðvitað er hún innra með hverju og einu okkar, við opnum fyrir skynjunina.
Ró er komin í sölu í Kirkjuhúsinu Laugavegi, Ró er komin í sölu á Nuddstofu Margrétar, Borgarbraut 61 Borgarnesi, Ró er til sölu í Lausninni, Síðumúla 13 og hægt er að panta Ró beint hjá mér með að senda pöntun á johanna@lausnin.is
Þann 7. desember sl. kom út geisladiskur undir heitinu „Ró.“
Hugmyndina að nafninu átti sá hinn sami og hannaði Coverið, eða hulstrið en hann heitir Gulli Maggi og mér finnst hann algjör snillingur.
Diskurinn er byggður utan um æðruleysisbæn Reinholds Niebuhr;
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.
(Stundum er þarna notað vit og stundum viska, það skiptir ekki öllu máli. Á ensku er það wisdom.)
Þegar ég starfaði sem aðstoðarskólastjóri var ég með þessa bæn uppi á vegg við hlið mér og fannst gott að líta til hennar þegar ég var með erfið mál uppi á borði. – Það var þó ekki fyrr en ég fór í mikla sjálfsskoðun að ég fór að velta henni fyrir mér betur, hvað þýðir þetta allt saman? Hvað er eiginlega æðruleysi? Hvernig virkar sáttin? Hvernig kemur kjarkurinn fram? Hvernig öðlumst við viskuna?
Þó þessi bæn sé þulin á flestum – anonymus fundum (Coda, AA, Alanon, OA o.s.frv.) og Guð beðinn um aðstoð við að öðlast æðruleysi, sátt, kjark og vit, þá er það þannig að það er Guð eins og við upplifum hann/hana/það … kannski bara sem æðri mátt, kannski bara sem eitthvað æðra, kannski sem lífið sjálft. Hugtakið Guð er einstakt fyrir hverjum og einum.
Einhverjir hrökkva í kút þegar þeir heyra orðið „Guð“ en það er vegna þess að það er stundum notað um reiðan Guð og hefnigjarnan eins og fram kemur t.d. í Gamla testamentinu.
Æðri máttur/Guð fyrir mér er eitthvað afl sem er mér vissulega æðra, æðra að því leyti að það hefur t.d. mátt til að fyrirgefa, elska og virða skilyrðislaust allt líf.
Ég tek það fram á texta á hulstrinu að diskurinn sé landamæralaus hvað trú eða trúarbrögð varðar. Það skiptir ekki öllu máli „hverrar“ trúar við erum, en vissulega er hann byggður á trú, enda ég sjálf „trúhneygð“ ..
Diskurinn skiptist í 5 hluta, 1. Æðruleysi 2. Sátt 3. Kjarkur 4. Viska og 5. Ró.
Eins og fjórir fyrstu bera með sér er um að ræða „krufningu“ á æðruleysisbæninni og er hver um sig sjálfstæð blanda af hugleiðslu/slökun/hugvekju.
Ró er síðan lokahugleiðsla þar sem farið er í góða slökun og vissulega uppbyggileg hugleiðing með.
Ég hef trú á því að stress og áhyggjur sé einn aðalskaðvaldur mannlegrar tilveru, – og hugarró sé ein af undirstöðum farsældar og vellíðunar. Okkur á að líða vel og við ættum að sleppa betur tökum á ótta og elska meira.
Ég vona að diskurinn gagnist sem flestum, en ég gerði einn „heimatilbúinn“ áður þar sem börn allt niður í átta ára njóta þess að upplifa ró. Það er líka hægt að nota hann til að sofna við .. zzzzz
Munið að æfingin skapar meistarann og við lærum við endurtekningu. Þess vegna er ekki nóg að hlusta aðeins einu sinni, það er hægt að skipta disknum niður eftir dögum, taka 1 hluta hvern virkan dag vikunnar til dæmis.
Diskurinn er kominn í sölu í Kirkjuhúsinu Laugavegi og fer væntanlega á fleiri útsölustaði fljótlega .. ef þið eruð með hugmynd hvar á að selja, eða viljið taka í umboðssölu þá látið mig endilega vita.
Ég sendi að sjálfsögðu í póstkröfu hvert á land sem er, eða erlendis, hafið þá samband í johanna@lausnin.is
Þakka lesningu og óska öllum innri Ró og Friðar á þessu ári sem því sem koma skal, hvað sem á dynur hið ytra.
Flestir líta á jól og aðventu sem tíma gleði og fögnuðar, en sumir upplifa þennan tíma sem einn erfiðasta tíma ársins og hann getur aukið kvíða og streitu. Tilfinningar eru blendnar þegar verið er að undirbúa jólin – það getur, í sumum tilfellum verið eintóm eftirvænting en getur líka valdið kvíða, gremju og eftirsjá, allt eftir aðstæðum viðkomandi.
„Sátt og Ró fyrir jólin“ – er yfirskrift námskeiðs sem hefst miðvikudaginn 28. nóvember kl. 18:15 – 19:45 í Lausninni, Síðumúla 13, 3. hæð.
Námskeiðið er byggt upp á hugvekjum og hugleiðslu. Markmiðið er að upplifa frið hið innra – eða að fá sátt og ró í sálina.
OG
Endurvekja/minna á jólabarnið innra með sér.
Ferðalagið er frá „hátíðarblues“ og kvíða til hátíðaræðruleysis og eftivæntingar…
„Sátt og ró fyrir jólin”
Tími: Miðvikudaga kl. 18:15 – 19:45. 28.nóv. 5. og 12. des. þrjú skipti alls.
Staður: Lausnin, Reykjavík – Síðumúli 13, 3. hæð.
Verð: 9.000.-
Innifalinn í verði er hugleiðslu-og hugvekjudiskurinn: “Ró” þar sem hugleitt er út frá hugtökum æðruleysisbænarinnar.
Leiðbeinandi, Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur og ráðgjafi.
Skráning á vef Lausnarinnar www.lausnin.is (opnast væntanlega fyrir skráningu 15. nóvember.
Allir eiga sér drauma – mínir draumar ganga m.a. út á það að starfa við að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Ég held að lesendur séu búnir að fatta það að pistlarnir mínir eru skrifaðir út frá eigin pælingum um lífið og tilveruna, spurningum sem vakna innra með mér og þeir eru skrif mín auðvitað hluti af eigin sjálfshálp, en auðvitað er ég himinlifandi glöð þegar ég fæ að vita að eitthvað hefur hitt í mark, og styður þann sem les. 😉
Ég gerði hugleiðsludisk nýlega, – og brenndi heima og seldi. Og nú ætla ég að gerast „pró“ og gefa út disk með fjórum hugvekjum út frá æðruleysisbæninni, efnið verður út frá æðruleysi, sátt, kjark og visku og hverri hugvekju fylgir ein hugleiðsla út frá efninu. –
Diskurinn kemur væntanlega út í byrjun desember í síðasta lagi. Verðið verður eins og á venjulegum diskum, eflaust 2.499.- eða hvað það er nú sem svona kostar. – Ágætis jólagjöf vonandi.
Þau sem panta fyrirfram (fyrir 21. nóvember) fá diskinn á 1700.- krónur, – sendið mér bara tölvupóst johanna.magnusdottir@gmail.com – Ég mun taka niður nöfn og heimilisfang og diskurinn verður annað hvort sendur í pósti eða keyrður út.
Diskurinn er byggður upp eins og námskeið sem ég hef haldið, en væntanlega þekkja flestir æðruleysisbænina:
„Guð – gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.“
Þessi pistill er sá fjórði í röðinni um innihald Æðruleysisbænarinnar, sá fyrsti fjallaði um æðruleysið, annar um sáttina, þriðji um kjarkinn og nú er sá fjórði um vitið.
Nánar til tekið um vitið til að greina á milli, vitið til að þekkja það sem við getum breytt og þekkja það sem við getum ekki breytt.
Það fjallar því líka um það að sleppa tökum á því sem við getum EKKI breytt og fá kjark og innblástur í það að breyta því sem við höfum tök á að breyta.
Stutta útgáfan af þessum pistli er í mínum huga einfaldlega:
„VERÐI ÞINN VILJI“ ..
Við þekkjum það flest að langa til að breyta fólkinu í kringum okkur, maka okkar, börnum okkar, öðru fólki sem hegðar sér undarlega. Okkur langar til að stöðva ofbeldi og okkur langar til að fólk sé gott. –
Við þekkjum það líka að vilja öðru vísi aðstæður, viljum breyta um umhverfi, vinnu, skóla o.s.frv. –
Kona kom til mín og sagði; „Ég vildi óska þess að dóttir mín færi að hugsa betur um sig – og hlúa betur að sér“ …
Önnur kona sagði: „Hún móðir mín talar alltaf svo niður til mín, mér líður eins og ég sé ónýt á eftir“ …
Þessar tvær konur áttu það sameiginlegt að vera með lélegt sjálfstraust og litla sjálfsvirðingu.
Hvorug þeirra hlúði að sér, hugsaði vel um sig, talaði fallega til sín o.s.frv. –
Í lang flestum tilfellum snúast svona vandamál um mann sjálfan. Skrítið? já. –
„Ef þú vilt breyta heiminum, byrjaðu þá með sjálfum þér.“ ….
Hvað sem okkur langar mikið til að breyta fólkinu í kringum okkur, með því að taka það (helst upp á herðunum) og beina því á það sem við teljum þeirra „réttu braut“ þá virkar það sjaldnast og virkar alls ekki ef viðkomandi vill það ekki sjálfur. Viljinn til að breyta verður að koma frá aðilanum sjálfum. Auðvitað getum við reynt að tala við viðkomandi, en hann verður aldrei þvingaður til breytinga.
Hvað GETUM við gert?
Við getum t.d. valið okkur viðhorf
Við getum breytt okkur sjálfum
Það hefst allt með því að taka ákvörðun – en um leið og við tökum ákvörðun er breytingin hafin. Það er ákvörðun um að velja nýja leið og nýja leiðin leiðir okkur allt annað en sú gamla. Áskorunin er þó að halda sig við nýju leiðina, missa ekki trú á henni. Síðan er hægt að búa til ný „gatnamót“ eða krossgötur með nýjum ákvörðunum ef að það kemur upp. –
Á þessum gatnamótum spyrjum við okkur; „Hvað vil ég“ .. Ef við erum svo heppin að vita hvað við viljum, ef við trúum að við eigum allt gott skilið og setjum ekki hindranir í eigin farveg þá kemur hið góða til okkar, vegurinn blasir við.
Við ættum öll að kjósa okkur hamingjuveginn og óska þess að við séum sátt og glöð. – Kannski þurfum við ekkert að vera að setja fram nákvæmar óskir, eins og hvar nákvæmlega við erum stödd og með hverjum við erum? –
Er það ekki bara annar kafli, kaflinn um markmiðasetningu? – Þurfum við nokkuð að gleypa heiminn í einum munnbita?
Kannski er nóg að biðja sér farsældar, og biðja um skýra sýn á það sem er vilji okkar.
„Verði þinn vilji“ .. er lína í „Faðirvorinu“ ..
Ég hef þá trú að vilji æðri máttar sé góður vilji. (Æðri vilji getur verið Guð fyrir suma, orka lífsins fyrir aðra og allt þar á milli).
Kannski ef við sleppum aðeins tökunum, látum af stjórnseminni, hættum að taka fram fyrir hendurnar á Guði/Æðri mætti fara hlutirnir að ganga upp fyrir okkur? – Líka ef við hættum að gera annað fólk að „guði skoðana okkar“ – eins og ein góð kona sagði 😉 .. En með því erum við farin að gefa því eftir valdið sem við ættum í rauninni að treysta æðra mætti fyrir. –
„Verði ÞINN vilji minn vilji“ … heyrði ég einu sinni mann segja.
Hvað ef vitið eða viskan (wisdom) er frá einhvers konar æðra mætti komið? –
Hvað er verið að segja í Æðruleysisbæninni?
„Guð gefðu mér vit til að greina á milli þess sem ég get breytt og þess sem ég get ekki breytt, og gefðu mér kjark til að breyta þvi sem ég get“…
Vitið og kjarkurinn spilar saman, því að þegar við vitum er næsta skref að þora. Það þýðir að við þurfum að sleppa hinu gamla og taka upp hið nýja. Hætta að lifa samkvæmt „útrunnum“ hugmyndum eða hugsunum um okkur sjálf og taka upp nýjar hugsanir og viðhorf.
Til þess að gera það þarf að sleppa, enn og aftur, sleppa, sleppa og aftur sleppa, hætta að veita (innri) mótspyrnu.
Þegar við höfum sleppt þurfum við í framhaldi að fara að trúa og treysta, treysta því að góðir hlutir gerist. Líka fyrir okkur og sem eru okkur fyrir bestu. –
Það er gott að taka sér pásu, anda djúpt, setjast niður með spenntar greipar í auðmýkt og biðja:
„Já fussum svei, já, fussum svei … söng Soffía frænka yfir bústað ræningjanna“ … enda dauðsáu þeir eftir að hafa rænt henni og vildu ræna henni til baka! 😉
Soffía frænka virtist eiga erfitt með að slaka á, en undir niðri reyndist þó hin vænsta kona. Eitthvað hefur gert hana bitra og reiða, en auðvitað vitum við ekkert hvað það var, eða hvað?
Reiði er eðlileg tilfinning. Reiði kviknar yfirleitt þegar við upplifum eitthvað sem við teljum óréttlát. Eitthvað sem við erum gjörsamlega ósátt við.
Hver hefði ekki reiðst ef hann hefði sofnað heima hjá sér í hengirúminu og vaknað í ræningjabæli? – Auðvitað mátti Soffía frænka reiðast, enda brotið á henni. En reiði Soffíu frænku var ekki bara háð því, þetta virtist vera hennar fas og Kamilla litla var dauðhrædd við frænku sína.
Ég geri ráð fyrir að fólk þekki Kardimommubæinn! 😉 ..
Reiði er s.s. „viðeigandi“ á réttum stöðum, en að dvelja í reiði er skaðlegt og skaðar ekki síst þann sem er uppfullur af reiði. –
Það liggur líka í orðanna hljóðan „að vera uppfull af reiði“ – þá kemst varla mikið annað að, og það verður líka erfitt að hugsa skýrt.
Ég safnaði saman nokkrum tilvitnunum um reiði:
Að halda í reiði er eins og að grípa kolamola í þeim tilgangi að henda í einhvern; það er sá sem heldur á molanum sem brennir sig. Búdda –
Reiði er eins og sýra sem skaðar meira kerið sem inniheldur sýruna sem það er í heldur en hvað sem henni er hellt á. Mark Twain. – Talaðu þegar þú ert reið/ur og þú munt halda þá bestu ræðu sem þú munt nokkurn tímann sjá eftir. Ambrose Bierce. –
Reiði og óþolinmæði eru óvinir skilnings. Mahatma Gandhi. –
Reiðin er drápstól: hún drepur manninn sem er reiður, því að hver reiði skilur hann eftir minni en hann var áður – hún tekur eitthvað frá honum.
Louis L´ Amour. –
Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró. Ralph Waldo Emerson. –
Sá sem reitir þig til reiði er sá sem sigrar þig. Elizabeth Kenny. –
Reiði sem er viðhaldið, er iðulega skaðlegri en sárindin sem ollu henni.
Lucious Annaeus Seneca.
Maður ætti að gleyma reiði sinni áður en lagst er til hvílu. Mahatma Gandhi. –
Það sem byrjar með reiði endar í skömm. Benjamin Franklin. –
Svo er ágætt að enda þennan „reiðilestur“ á þessari mynd sem er alveg í anda greinar sem ég skrifaði undir heitnu „Afvopnaðu ofbeldismannin“ – og fjallar um það að gefa ekki fólki vald yfir okkur eða hugsunum okkar. –
Það er ótrúlegt frelsi að losna við reiðina og hluti af því að „vera heima hjá sér“ eða í höfðinu á sjálfum sér, er að sleppa tökum á reiðinni gagnvart öðru fólki.
Reiðin getur að sjálfsögðu beinst inn á við, við getum verið reið okkur sjálfum, ég held ég þurfi varla að skrifa um það hér hvílíkur skaðvaldur það er og hversu uppbyggilegt það eiginlega er? –
Ef við endurtökum það sem Ralph Waldo Emerson sagði:
Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró.
Brian Tracy sem er þekktur fyrir að kenna fólki hvernig það nær árangri í lífinu segir að hugarró sé undirstaða farsældar. Það hlýtur að þýða að því meiri hugarró, eða æðruleysi, getum við bara kallað það þess meiri farsæld og öfugt: Þess minni hugarró og þá lengri dvöl í reiði þess minni farsæld. –
Takmarkið er FRIÐUR, ytri friður og innri friður. –
Remez Sasson, skrifaði eftirfarandi:
„Reiðin blossar upp þegar við upplifum gremju, óhamingju eða særðar tilfinningar, eða þegar plönin okkar fara ekki eins og við ætluðum. Hún birtist líka þegar við mætum mótstöðu eða gagnrýni.“
Ath! Reiðin getur því verið einn angi af stjórnsemi, við fáum ekki það sem við viljum, hlutirnir eru ekki gerðir eins og við viljum eða ætluðum. Okkar plani var breytt og við verðum pirruð næstum eins og við séum að einhverju leyti einhverf (ég veit þetta er djúpt í árinni tekið) því það er verið að breyta einhverju sem við plönuðum eða ætluðum.
Við getum til dæmis reiðst afskaplega þegar við fáum ekki starfið sem við vorum búin að búast við að fá eða stefna á, við getum reiðst við alls konar missi, skilnað, atvinnumissi, því vissulega er þeim breytingum þvingað upp á okkur.
Reiðin er sjaldnast hjálpleg. Hún eyðir orkunni okkar, getur skaðað heilsuna, skemmt fyrir samböndum, og getur valdið því að við missum af tækifærum. Það að reiðast er að vinna gegn eigin farsæld!
Hlutir fara ekki alltaf eins og við plönuðum eða væntum. Fólk gerir ekki alltaf það sem þú ætlaðist til. Við getum ekki alltaf stjórnað.
Getur verið að Soffía frænka hafi verið stjórnsöm kona? 😉
Við getum svo sannarlega ekki alltaf stjórnað atburðarás eða fólki, en við getum stjórnað hvernig við bregðumst við – a.m.k. í mörgum tilfellum.
Guðni í Rope Yoga segir „Við getum brugðist við eða valið okkur viðbrögð“ .. Til þess þarf að sjálfsögðu aga og æðruleysi.
Það er ekkert vit í því að leyfa aðstæðum og fólki að toga í strengina okkar (enda við ekki strengjabrúður) og leyfa þessu fólki að stjórna huga okkar og tifinningum. Það er hægt að velja að láta ekki fólk hafa áhrif á skap okkar.
Sumt er þannig að ekki er hægt annað en að upplifa reiði, a.m.k. í skamma stund, en stundum erum við að láta smámuni og (smá)fólk fara í taugarnar á okkur. – Gera úlfalda úr mýflugu kannski og reiðast yfir hlutum sem okkur koma hreinlega ekki við.
Reiði eru neikvæð viðbrögð og ef við ætlum að stunda sjálfsrækt, gera okkur að betri manneskjum og vinna andlega vinnu þurfum við að forðast reiðina eins og mögulegt er.
Að læra hvernig við náum slökun og að róa órólegan huga, eignast hugarró, er ein besta leiðin til að yfirstíga reiðina, og allar neikvæðar tilfinningar. Hugarró hjálpar okkur ekki bara við að sigrast á reiðinni, heldur einnig á kvíða og neikvæðum hugsunarhætti.
Ég held ég hafi svarað, að hluta til, hvers vegna Soffía frænka var alltaf svona reið.
Soffía frænka var Ráðskona með stóru R. Auðvitað varð hún reið þegar að búið var að ráðskast með hana, taka hana fangna án hennar vitundar. En hún var sko fljót að jafna sig blessunin, og af hverju var það? – Jú, hún áttaði sig á því að hún gat STJÓRNAÐ ræningjunum.
Reiði Soffíu liggur því í óörygginu við að hafa ekki stjórn, en jafnar sig þegar hún fær að stjórna.
Mér finnst flest annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim ,,á” að finnast og hvernig þeim líður í ,,raun og veru”.
Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurð/ur.
Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem ég vil hafa áhrif á.
Ég nota kynferðislegt aðdráttarafl til að öðlast viðurkenningu.
Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í samskiptum við það.
Ég ætlast til þess að aðrir mæti þörfum mínum.
Ég nota þokka minn og persónutöfra, til þess að sannfæra aðra um að ég sé fær um að sýna ást og umhyggju.
Ég nota ásakanir og skammir til að notfæra mér tilfinningar annara.
Ég neita allri samvinnu, málamiðlun eða samkomulagi.
Ég beiti afskiptaleysi, vanmætti, valdi eða reiði til þess að hafa áhrif á útkomuna.
Ég nota hugtök úr bataferlinu til að reyna stjórna hegðun annara.
Ég þykist vera sammála öðrum til þess að fá það sem ég vil.
Það eru margar Soffíurnar í okkar samfélagi. Kannski birtast þær ekki alltaf sem reiðar, en vissulega stjórnsamar og reiðast vissulega þegar hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði.
Niðurstaða: Soffía frænka var meðvirk og hennar helsta atferlismynstur var stjórnsemi.
Getur verið að reiði sé í mörgum tilfellum stjórnsemi? – Að viðkomandi verði reiðir þegar að hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði og eins og þeir ætluðu að þeir færu? – Hvernig bregst barnið við þegar það fær ekki það sem það vill? – Stappar niður fótum og lætur öllum illum látum. Sum hafa lent í svona börnum í stórmörkuðum. Erum við ekki stundum eins og fullorðin börn í stórmarkaði lífsins, sem e.t.v. höfum ekki fengið þau mörk sem átti að setja okkur? – Kannski hefur foreldrið gefist upp, til að róa barnið og fundist áhorfendaskarinn óþægilegur? – hmmmm..
Þeir sem vilja öðlast hugarró geta haft samband og keypt hugleiðsludisk hjá mér, hafið samband við johanna.magnusdottir@gmail.com