„Hvað þykist þú geta?“ ….

Þessi spurning er smá stuðandi, er það ekki? ..

„Ég get það“ – er nýtt námskeið sem ég hannaði úr reynslu/þekkingar/menntunarkörfu minni með djúpum áhrifum frá Louise L. Hay.

„Ég get það“ – er góð staðfesting .. og gott að hafa hana sterka, sérstaklega þegar úrtöluraddir segja „Þú getur það ekki“ – og enn verra er þegar úrtöluröddinn kemur úr eigin huga.

Það er áhugavert að hugsa hvort að þú talar við þig í 1. eða 2. persónu.

Hvort heyrir þú frekar hljóma í höfði þínu, svona þegar þú ætlar þér eitthvað stórt eða breyta til,  „hver þykist þú vera?“  eða „hver þykist ég vera?“  –  „Hvað þykist þú geta?“ eða „Hvað þykist ég geta?“

Af hverju ætli sumir heyri „þú“ –  jú, kannski vegna þess að einhver „velviljaður“ eða „velviljuð“ hefur komið því inn í kollinn þinn – eflaust með þínu leyfi.  Einhver önnur persóna en þú,  en það er óþarfi að álása þessari annari persónu,  því að persónan sem viðheldur þessu ert þú,  en því er hægt að breyta.

Þegar við erum börn erum við voðalega varnarlaus, við erum þó frjáls lengi vel og pælum ekki mikið í því hvað aðrir eru að hugsa eða segja.

Tökum dæmi um tveggja ára barn sem heyrir tónlist, það fer að dilla sér og er svo farið að dansa úti á miðju gólfi.  Barnið nýtur sín og nýtur  tónlistarinnar.  Það er varla að hugsa: „ætli einhver sé að horfa á magann á mér, hann er nú svolitið útstæður“ –  eða „er ég með asnalegar hreyfingar“ – eða „ætli einhver sé nú að dást að mér“ –  en svo gerist það að við förum að vera vegin og metin, og vera viðkvæm fyrir áliti og skoðunum annarra.  Þá annað hvort hættum við að njóta þess að dansa – eða við dönsum bara ef við erum flinkir dansarar með samþykktar hreyfingar.

Já, að minnsta kosti fyrir framan aðra.

Þetta er bara eitt dæmi af mörgum,  en frelsið er þegar við förum að hætta að vera svona upptekin af því hvað öðrum finnst.  Þegar við dönsum, tölum, leikum og lifum án þess að vera með stanslausar áhyggjur af áliti annarra.

„ÉG GET ÞAГ   –  er námskeið fyrir alla/r sem vilja frelsi tl að vera þeir sjálfir – þær sjálfar  (best að nota bæði kynin).

Þegar við erum að koma fram er líka grundvallarregla að vera við sjálf og ekki fara í hlutverk eða setja upp grímu,  – nema við séum hreinlega i leikriti.

Ég ætla að leiðbeina á þessu námskeiði,  en ég hef reynslu af því að kenna tjáningu í framhaldsskóla – reynslu af því að kenna á fjölmörgum sjálfsræktarnámskeiðum hjá Lausninni.

Námskeiðið verður því “ framkomunámskeið með dýpt.“  😉

Hægt er að skrá sig á síðu Lausnarinnar:

http://www.lausnin.is

http://www.lausnin.is/?p=3576

Aldrei og seint að bjarga barni frá neikvæðu hugsanaferli! ..

„Ég get það“ … nýtt námskeið í sjálfsrækt ;-)

Vegna fjölda fyrirspurna hef ég ákveðið að vera með sjálfstyrkingar-og tjáningarnámskeið fyrir fullorðna.  (18 ára og eldri).

Námskeiðið er æfing í framkomu, tjáningu um leið og því að nota jákvæðar staðfestingar. –

Ég mun nota bók Louise L. Hay

„ÉG GET ÞAÐ – HVERNIG ER HÆGT AÐ NOTA STAÐFESTINGAR TIL AÐ BREYTA LÍFI SÍNU“     

sem kennslubók, auk þess nota ég eigið efni.

Hvar?  Lausnin, Síðumúla 13, 3 hæð. 

Hvenær?  9. september – 4. nóvember  

Klukkan hvað?  –   17:00 – 19:00  

Hversu oft? 9 skipti x 2 klukkustundur

Hvað verður gert?  Fyrirlestur, æfingar, verkefni, tjáning æfð, framkoma, spuni o.fl.

Hver leiðbeinir?  Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur og ráðgjafi Lausnarinnar

Hvað kostar?  Námskeiðið kostar 39.900.-  Námsgögn innifalin.

Dagskrá:

1. vika 9. september –   Kynning Máttur staðfestinga

2. vika 16. september –   Heilsa  (1. kafli) 

3. vika 23. september –   Fyrirgefning (2.kafli)

4. vika  30. september – Velmegun (3. kafli) 

5. vika  7. október – Sköpunargáfa  (4. kafli)

6. vika  14. október – Ástir og sambönd (5. kafli) 

7. vika  21. október – Starfsframi (6. kafli)

8. vika 28. október –   Kvíðalaust líf (7.kafli)

9. vika 4. nóvember – Sjálfsvirðing (8. kafli) 

Louise L. Hay er einn vinsælasti fyrirlesari og lífsráðgjafi í Bandaríkjunum . Louise L. Hay hefur hjálpað fólki um allan heim að bæta lífsgildi sín og viðhorf með því að nota mátt jákvæðra staðfestinga.

Úr bókinni:

„Sumir segja að staðfestingar virki ekki, sem er staðfesting í sjálfu sér,  þegar þeir meina í raun að þeir kunni ekki að nota þær á réttan hátt. Þeir segja ef til vill: „Efnahagur minn fer síbatandi,“  en hugsa samtímis: „Úff, þetta er heimskulegt, ég veit þetta mun aldrei virka.“ 

Hvor staðfestingin haldið þið að verði ofan á?  Sú neikvæða auðvitað vegna þess að hún er hluti af gamalli vanabundinni hugsun um lífið.“ 


„Ef við viljum bæta lífsgildi okkar og viðhorf þurfum við að þjálfa hugann og vera jákvæðari í tali. Staðfestingar eru lykillinn. Þær eru byrjunin á leið okkar til breytingar.“ – 
                                                              – Louise L. Hay

Markmið námskeiðsins er að aflæra gamla vanabundna hugsun, og læra nýja hugsun.

Markmiðið er „Jákvæðari og ánægðari þú og sterk trú á eigin getu.  Trúin á það að eiga allt gott skilið og mega skína. –

Skráning fer fram á vef Lausnarinnar http://www.lausnin.is  en opnað verður fyrir skráningu á næstu dögum. –  Sendið mér tölvupóst johanna@lausnin.is ef þið hafið áhuga á að vera með,   og ég læt vita þegar búið er að opna skráninguna.

Gleði, gleði, gleði ….

Þau sem hafa verið í sunnudagaskólanum (og kannski fleiri) munu örugglega syngja þennan status,  en það er einmitt með okkar eigin bakgrunni og reynslu sem við lesum allt og tökum inn það sem við skynjum. –

Við lesum nefnilega með okkar eigin innblæstri og anda en ekki þess sem skrifar.

Ef einhver sem er þarna úti þolir mig ekki, les hann/hún með svolítið samanklemmdum  huga allt sem ég skrifa á meðan aðrir lesa með opnum hug.

Þetta gildir ekkert bara um mig og mín skrif – þetta gildir líka t.d. um Biblíuna,  – ef vantrúarmaður les Biblíuna leitar hann uppi eitthvað til að setja út á,  en trúaður leitar eftir því sem er gott og uppbyggilegt.  (Nema að þarna sé um að ræða rannsóknarvinnu og verið sé að lesa á öðrum forsendum en að leita að einhverju mannbætandi, – þá er auðvitað sjálfsagt að gagnrýna (jákvæð/neikvæð gagnrýni hvort sem er).

En hvað um það „Gleði, gleði, gleði,  var yfirskriftin,  – ég týni mér stundum í eigin pistlum!

Mig langaði að deila þeirri speki sem ég fékk að heyra einu sinni á námskeiði sem ég sótti hjá Endurmenntun Háskóla Reykjavíkur.

Þar kom einn af kennurunum, man ekki hver það var,  með spurningu til okkar um hvað það væri sem fólk þyrfti helst á að halda til að ná árangri í námi/starfi/íþróttum/listum o.s.frv.

Einhver hafði tekið það að sér að „yfirheyra“ afreksfólk – hvert á sínu sviði, námsmenn, listamenn, íþróttafólk,  viðskiptajöfra o.s.frv. –  Við sem vorum í náminu vorum beðin um að nefna hvað við héldum að væri sem fólkið nefndi sem samnefnara til að ná árangri.

Orðin sem flugu voru „Þrautseigja“ – „Skipulag“ – „Fókus“ .. og ýmislegt í þeim dúr,  en kennarinn upplýsti að samnefnarinn sem fólkið nefndi væri „GLEÐI“ ..

Gleði eða Hamingjuvegurinn er eitthvað sem við getum alltaf valið,  það er ekki eins og það komi ekki hindranir á þann veg eins og á aðra vegi,  en spurning hvað nær að feykja okkur burtu.  Við getum þurft að leita skjóls um stund eða þurft að fara „vetrarveg“ ef fennir á leiðinni,  en muna eftir að það er alltaf hægt að koma inn á brautina aftur.

Það er ekki flókið að velja veg Gleðinnar,  það er bara ein ákvörðun og hún er ákvörðun þess sem hana tekur, það velur hver fyrir sig. –

Ég hef tekið þá ákvörðun að velja Gleði,  kemur þú með?  😉 

Happiness-is-the-Way

Æi .. þetta átti ekki að fara svona :-/ .. (auglýsing um næsta námskeið „Lausn eftir skilnað“)

Lífið er eins og á – og stundum koma óvæntar flúðir, fossar í ánna – eitthvað sem erfitt er að undirbúa sig undir.

Jú, við getum græjað okkur svo við lendum í sem minnstu hnjaski en við sleppum ekki við að sigla ánna.

Stundum óskum við þess að geta séð ánna fyrir, þá förum við til spákonu eða einhvers sem við trúum að sjái okkar framtíð – okkar á.

Áin er þarna, en hún er eflaust misbreið og kannski hægt að sigla hana á misjafnan máta – fara hægra megin eða vinstra megin, en henni stjórnum við ekki.

Stundum hvolfir bátnum og þá súpum við hveljur, – réttum af bátinn og skríðum aftur uppí.  Kannski höfum við steytt á steini og erum sár eftir, við erum köld og hrakin og stundum berum við sár – og ör eftir.  En áfram siglir báturinn.

Við erum með samferðafólk í bátnum, – fjölskyldu, vini, stundum maka.

Eins og ég sagði – er margt óvænt sem getur komið uppá, ekki endilega bara í ánni.  Samferðafólkið getur ákveðið að skipta um bát. Maki þinn sér að annar bátur er áhugaverðari en ykkar og hann svissar yfir. –  Æ, þetta átti ekki að fara svona.   Kannski er hann búinn að pæla lengi í að hann sé óánægður í ykkar báti,  og verst er þegar hann læðist að nóttu til yfir í annan bát og þú ert algjörlega grandalaus þegar að einn daginn segist hann bara vera ánægðari í einhverjum öðrum báti! ..

Trúnaðarbrestur – höfnun – skömm – reiði – gremja .. 

Hvað er í gangi?

Æ, þetta átti ekki að fara svona!

Hvað getur þú gert í þínum báti? –

Jú, þú þarft auðvitað að jafna þig eftir uppgötvunina,  hvort sem hún kom hægt og hljóðlega eða eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Þetta var ekki planið,  en úr því svona fór þá er ekki að mæna yfir á hinn bátinn, bátinn sem maki (nú fyrrverandi maki) þinn fór yfir í – heldur halda fókusnum á þínum báti.  Þú getur fengið hjálp við að róa, við að stýra – í flúðunum,  en því fyrr sem þú sleppir tökunum á þeim sem vill ekki vera með þér í bátnum og hættir að reyna að senda til hans línu sem hann neitar að grípa í – og hefur engan áhuga á,  því betra,  því þá getur þú haldið áfram.

Nýtt námskeið:  „Lausn eftir skilnað“  verður haldið í Lausninni http://www.lausnin.is Síðumúla 13, 3. hæð  Laugardaginn 7. september nk.  9:00 -15:00 og síðan 4 tímar í eftirfylgni,  mánudaga kl. 17:15 – 18:45.

Ekki er farið að skrá á námskeiðið en ef þú hefur áhuga á að fá tilkynningu um skráningu sendu þá póst á johanna@lausnin.is

Námskeiðsgjald verður 31.900.-  (hægt að skipta greiðslu).

Að sama skapi er í boði námskeið  „Lausn eftir skilnað“ fyrir karlmenn – og þegar nógu margir (lágmark 8) hafa komið á lista verður send út tilkynning hvenær það verður.  Það hefur gefið góða raun. –

Aðal leiðbeinandi er ykkar einlæg – Jóhanna Magnúsdóttir!..

Fyrirgefning og foreldrar ..

Mér hefur ekki reynst erfitt að fyrirgefa í gegnum árin, þó að örli stundum í langrækni sporðdrekans í mér.

Það sem særir mig allra mest í framkomu fólks er þegar hún bitnar á þeim sem minna mega sín, þegar hún bitnar á börnum sem eru varnarlaus og stundum erum við að ræða hér framkomu foreldra við börn.

Foreldrar hafa svo mikið vald og svo lengi fram eftir aldri trúum við að mamma og pabbi séu óskeikul. Því vigta öll brot foreldris gegn barni margfalt á við það sem aðrir gera á hlut þess. Það hefur meiri áhrif og virkar oft sem „forritun“ til framtíðar.

Tilfinningar eins og höfnun og skömm ná oft að festa rætur hjá ungum börnum og fullorðið fólk er að glíma við þetta allt lífið í gegn og tekur þær með sér í sambönd, í hjónabandið og e.t.v. í samskipti í vinnu.

Óöryggið og vanlíðan er stundum „home-made“

Því miður.

En hvað gerum við í þessu?

Ef þú ert foreldri þá er að líta í eigin barm,  skoða hvort að eitthvað af þínum orðum, verkum, hegðun er niðurbrjótandi,  hvort að þú mögulega stundir ofbeldi í stað uppeldis.  Hvað segir barnið þitt? –  Hlustar þú á það?

Ef þú færð samviskubit af þessum lestri þá dokaðu við.  Samviskubit er hvorki gott þér né öðrum.  Það sem við gerum þegar við uppgötvum vankunnáttu, misktök eða að við vorum bara að nota sömu „uppeldis“ aðferðir og foreldrarnir,  stundum án þess að vilja það og við höfðum jafnvel lofað okkur að gera það aldrei,  er að við förum að gera öðru vís héðan í frá.  Við getum ekki breytt fortíð.

Fyrirgefningin er því til okkar sjálfra sem foreldra,  við fyrirgefum okkur vegna þess að við kunnum ekki betur eða vissum ekki betur, en þegar við vitum betur og sjáum hvað er rétt og hvað er rangt er tækifæri komið til að breyta.  Ekki halda áfram því sem byggir ekki upp, ekki halda áfram meðvirkni með barni á þann hátt að þú takir frá því þroska þess eða ofdekrir.  Það er ofbeldi líka og skemmir samskiptahæfni barns til framtíðar og hæfni til sjálfsbjargar.

Ef þú áttar þig á því að foreldrar þínir hafi ekki alltaf kunnað, hafi sagt og/eða gert hluti sem valda því að í dag ertu óörugg manneskja, týnd, upplifir oft höfnun – eða sektarkennd,  svona til að nefna dæmi,  þýðir það ekki að þú elskir ekki foreldra þína, ekkert öðruvísi en að þú elskar börnin þín.  Þú þarft bara að sjá og viðurkenna ef það var eitthvað sem var vont og særandi og tók þig úr náttúrulegum farvegi barnssálarinn sem er alltaf frjáls og þarf ekki að aðlaga sig og tipla á tánum eftir dyntum mishæfra foreldra.

Þegar við skoðum fortíð er það ekki til að dæma heldur til að skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru, af hverju við erum eins og við erum og af hverju við bregðumst við eins og við gerum.  Við þurfum að „grafa“ svolítið til að geta breyst.  Það þurfa ekki að hafa verið nein áfölll, fjölskyldan getur hafa verið nokkuð „normal“ svona útávið.  En í fæstum fjölskyldum hefur allt verið fullkomið og óaðfinnanlegt.

Við erum ekki að dæma, aðeins skilja.

Svo það þarf líka að fyrirgefa foreldrum ef þeir hafa sýnt einhverja vankunnáttu – vegna þess að þeir notuðu það sem fyrir þeim var haft.

Það sem við gerum með að læra og breyta öðruvísi er að rjúfa keðjuverkun.

Margir eiga oft í mesta strögglinu við að fyrirgefa sjálfum sér.  Það er vegna þess að einhvers staðar (eflaust í bernsku og svo er því stundum viðhaldið af vankunnandi maka, af fjölskyldu,  eða af samfélaginu í heild) að þeir séu ekkert endilega fyrirgefningarinnar virði? –

En hvað sagði ég í upphafi pistilsins?

„Það sem særir mig allra mest í framkomu fólks er þegar hún bitnar á þeim sem minna mega sín, þegar hún bitnar á börnum sem eru varnarlaus og stundum erum við að ræða hér framkomu foreldra við börn.“

Einhvers staðar þarna innra með þér er barn sem þarfnast fyrirgefningar þinnar,  ekki láta þína eigin framkomu bitna á þessu barni, því í raun er það varnarlaust gagnvart þessum fullorðna aðila sem þú ert orðin/n.

Láttu þér umhugað um barnið innra með þér – og hættu að brjóta það niður.

Fyrirgefning er lykill og friðurinn fæst með fyrirgefningunni.

Auðmýkt, heiðarleiki og einlægni er síðan undirstaðan sem síðan er byggt á.

1012212_10151602313439247_1396616360_n

Þessi yfirþyrmandi tilfinning að vilja ekki vera hérna lengur …

„Hérna“ .. þýðir lifandi á þessari jörðu.

Ef þú hefur upplifað það einhvern tímann að vilja flýta fyrir, vonast eftir slysi, óskað eftir að eitthvað gerðist svo þú fengir bara „short cut“ á þetta allt saman – þá ertu ekki ein/n.

Þegar bjátar á, þegar okkur leiðist, þegar við finnum engan tilgang – þá verður þessi tilfinning oft sú sem er á toppnum.

Af fenginni reynslu veit ég að það sem vantar er innri friður.  Það er svo skrítið að innri og ytri friður hafa áhrif á hvorn annan.  Áhyggjur af fjármálum hafa áhrif,  áhyggjur af fólki, – að vera fjarri fólki, að hafa engan til að knúsa – eða einhver vill knúsa mann of mikið kannski?

Það vantar eitthvað jafnvægi,  yfirvegun, ró.

Eins og söngkonan sagði einhvern tímann þá er líkaminn verkfærið.

Okkur vantar því ekki verkfæri – heldur vantar okkur að nota verkfærið.

Verkfærið til að fá innri ró.

Tjá okkur, sjá okkur og hlusta ..

Veita athygli því sem við einu sinni var bara á óskalista og eigum í dag? – Er eitthvað svoleiðis í lífinu okkar?

Tónlist getur spilað stóra rullu í lífinu, hún gerir það í mínu og textarnir gera það.

Í morgun var ég sorgmædd þegar ég keyrði frá Keflavík og var búin að skila af mér barnabörnunum.  Ég veit samt að þau eru í góðum höndum hjá föður sínum og kærastan hans virðist vera þeim kær líka.  Þegar ég horfi á það frá óeigingjörnu sjónarhorni þá er ég ofboðslega ánægð með það.

Í útvarpinu kom svo fallegt lag að það var eins og mér væri gefin sprauta og mér líður ennþá eins og ég sé í vímu 😉 ..  notalegri vímu sáttar og fullvissu um að allt sé eins og það á að vera.

Gerum okkar besta með það sem við höfum,  „hérna“ – ekki sitja ein uppi með vanlíðan og hugsanir,  tjáum okkur við þau sem við treystum.

Það skritna er að þegar við erum búin að segja eitthvað upphátt þá verður það yfirleitt minna þungbært.  Það er þó best að segja það einhverjum sem er ekki of tilfinningalega tengdur því að hann gæti tekið byrðina þína á sig,  – ráðgjafar, sálfræðingar og fólk sem gefur sig út fyrir að vera andlegir leiðbeinendur,  já ekki gleyma prestunum og djáknunum,  er fólkið sem er gott að opna sig við og létta á hjarta sínu.

Alls konar samtök eins og Alanon, coda, AA, þar sem fólk talar og hlustar gera kraftaverk fyrir svo marga.   Þar er samhygðin svo mikil.

Samhygð – samhugur er það sem er svo gott að finna.

Já, ég sagði það – við erum aldrei ein.

Það er eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að vita í þessum heimi þegar við erum með yfirþyrmandi tilfinningar – og sérstaklega í þeim dúr að vilja bara ekkert vera hérna lengur.

Það er alltaf einhver sem elskar þig,  ástæðan fyrir að ég skrifa þennan pistil er að ég finn að það eru svo margir sem glíma við sársauka og halda að þeir séu einir …  en nei, nei þú ert ekki ein/n ..  leyfðu traustinu á að betri tíð sé að birtast innra með þér verða stærra og meira en tilfinningunni að tíðin sé að þyngjast.

75985_466203706726737_155458597801251_1954778_1509319669_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

12 skref að sjálfsrækt …

1014093_549281085109778_432690481_n

 

1.  Ef þú hefur á tilfinningunni að það sé rangt, ekki framkvæma það 

2. Segðu nákvæmlega það sem þú meinar

3. Ekki fara í þóknunarhlutverkið. 

4. Treystu á eigið innsæi. 

5.  Aldrei tala illa um sjálfa/n þig. 

6.  Aldrei gefast upp á draumum þínum 

7.  Aldrei vera hrædd/ur við að segja „Nei“ 

8.  Aldrei vera hrædd/ur við að segja „Já“ 

9.  Vertu góð/ur við sjálfa/n þig 

10. Slepptu tökunum á því sem þú getur ekki stjórnað

11. Haltu þig frá drama og neikvæðni

12. Elskaðu ❤

Ég held reyndar að það sem er skráð hér sem 12 sé rúsínan í pylsuendanum,  það að elska sé grunnurinn að þessu öllu, elska sjálfan sig, elska aðra, elska lífið.

Við höfum val hvernig við förum í gegnum lífið – þó að lífið mæti okkur með alls konar uppákomum,   þá er eins og stendur einhvers staðar, ein versta fötlun mannlegrar tilveru er það að hafa neikvætt viðhorf. 

Listum upp það og veitum athygli því sem við höfum og því sem við erum þakklát fyriir – „count our blessings“ – en ekki liggja í listunum yfir það sem okkur vantar eða skortir.

Það sem við veitum athygli vex – og því er besta sjálfsræktin að veita sjálfum/sjálfri sér jákvæða athygli og vaxa og þroskast þannig.