Af hverju er í lagi að bera tilfinningar sínar á torg í dag en ekki áður?

Ég hlustaði á svo góðan fyrirlestur hjá Sigursteini Mássyni fyrir nokkrum árum, þegar hann var formaður Geðhjálpar.

Þá talaði hann um þessi gömlu gildi sem teljast að miklu leyti útrunnin í dag, eins og „að bera ekki tilfinningar sínar á torg.“

Fólk átti bara að hafa tilfinningar sínar heima hjá sér og helst bíta á jaxlinn og bera harm sinn í hljóði.

Reynslan hefur sýnt að það að bera harm sinn í hljóði þýðir ekki að harmurinn láti sig hverfa, eða að því fólki líði betur.  Reynslan er að harmurinn og tilfinningarnar sitja fastar og loka á svo margt.  E.t.v. á hjartað og það er vont að lifa með lokað hjarta.  Um það skrifaði ég greinina „Að koma út úr skrápnum“ –  því málið er að skrápurinn eða skjöldurinn sem er fyrir hjartanu verður þungur og oft óbærilegur (óberandi). –

Leyfum okkur því að bera tilfinningarnar á torg.  Deilum sorginni – deiling er eins og í stærðfræði hún gerir minna.

Sigursteinn Másson þekkti mikilvægi þess að hætta að halda á lofti frösum eins og að bera ekki tilfinningar sínar á torg,  það var vegna þess að það þýðir það sama og að bæla inni og bæling er vond og skaðleg heilsu, bæði andlegri og líkamlegri.  Við erum gerð fyrir flæði og útrás.  Það þarf líka hugrekki til „bera sig“  sýna sig nakinn tilfinningalega en við eigum ekki að þurfa að hafa neitt að fela.  Það er eitt af leyndarmálum lífshamingjunnar að hafa ekki leyndarmál.

Ef okkur hefur verið innprentað að bæla tilfinningar, finna þær ekki þegar þær koma er hættan sú að deyfa þær eða bæla –  en við finnum að við höfum þörf fyrir eitthvað en vitum ekki hvað.

 Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat. En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum. 

Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást – þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv. Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.

Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis. Einu sinni las ég grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.

Hugrekki – er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við. Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.

Við höfum sem betur fer þroskast og vitum betur núna.

253506_350874451667461_85735021_n

Markþjálfun með englum – „englaþerapía“ ..

Ég ætla að bjóða upp á nýja „þerapíu“ sem er reyndar engin þerapía heldur frekar nokkurs konar markþjálfun.

Þú dregur eitt af englaspilum „Doreen Virtue“ –  segjum til dæmis „Freedom“ og þú færð afhent blað með teikningu þar sem markmiðið er „Freedom“ – síðan skoðum við saman hindranirnar (innri og ytri)  að því að öðlast frelsið,  hvað þýðir frelsi fyrir þig og af hverju þarftu frelsi – og frá hverju?

doreen

Við skoðum aðferðirnar þínar – hvað þú þarft að gera til að vera frjáls.

Þetta er algjörlega óhefðbundið og ósannað og þú pantar tíma á eigin ábyrgð – en þrátt fyrir að ég segi þetta á undan trúi ég að þarna sé hægt að sjá ýmsar leiðir, og hef reyndar lært fullt af þeim – til að  átta sig á því hvað heldur aftur af þeim sem ekki ná markmiðum sínum,   ekki bara frelsinu, heldur svo mörgu öðru. – 😉

Þú færð teikningu með þér heim þar sem þú hefur markað leiðina – skoðað hindranirnar og væntanlega aukið trú þína á að markmiðin þin náist, þegar þú veist hvað heldur aftur af þér. 

Aðeins er um að ræða að taka lágmark 3 skipti, vegna þess að ákveðið aðhald liggur í því að þurfa að koma aftur og segja frá hvað er búið að gera og hvað ekki – ef svo er.

„Englaþerapían“  er 30 mínútur x 3 skipti á 2 vikna fresti.  

Kynningarverð kr. 12.000.-  

Vinsamlega panta hvort sem um hefðbundið viðtal er að ræða (60 mín) eða svona englapakki, –  í gegnum einkaviðtalskerfi Lausnarinnar:

Tengill hér:  http://www.lausnin.is/?page_id=2385

Fyrstu fimm sem panta tíma fá hugvekjudiskinn Ró 😉 í kaupbæti! ..

Að votta samúð og samhryggjast hefur sinn stað og tíma.

Það er erfitt að halda áfram eftir dauðsfall náins ættingja. Helst viljum við bara vera „stikkfrí“ og laus við að takast á við lífið á eftir,  verðum jafnvel félagsfælin,  en lífið heldur áfram hvað sem raular og tautar.

Við mætum á mannamót, förum í vinnuna og tíminn líður og þó við gleymum aldrei þeim sem farinn er,  þá viljum við síður vera minnt á dauðsfallið í vinnunni eða t.d. á árshátíðinni eða hvar sem það er.

Sumir eru þannig að þeir vilja fara að ræða, spyrja „hvað gerðist eiginlega?“  – votta samúð og samhryggjast – vegna þess að þeir hafa ekki séð ættingjana síðan dauðsfallið var.  Stundum eru liðnar margar vikur eða mánuðir.

Þetta er erfitt, þegar við syrgjendur erum að reyna að standa okkur, hætta að tárast allan daginn eða bara hreinlega stinga höfðinu uppúr vatninu til að anda, eins og manni finnst það stundum.

Þetta geta þeir ekki vitað sem ekki hafa reynt,  en vilja að sjálfsögðu vel, en ef þið eruð að vinna með einhverjum sem er að feta sig út í lífið aftur eftir dauðsfall náins ástvinar,  þá er t.d. vinnustaður voða erfiður í svona umræður,  líka skemmtistaður, afmælisveisla, bíóhús eða hvað sem er.

Það er skiljanlegt að fólk vilji sýna samúð eða samhryggjast,  en þá, í umhverfi sem ég lýsi hér að ofan,  er betra að taka bara utan um – eða gefa einlægt augnatillit eða bros – það er nóg.

TAKK index

Hin sanna móðir …

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Ég datt aðeins inn í bíómyndina „The Help“ í gærkvöldi,  þar sem aðskilnaðarhyggja mismunandi kynþátta var m.a. tekin fyrir,  en það sem vakti helst athygli mína var barnfóstran sem var að hvetja litla stelpu til dáða,  segja henni hversu yndisleg hún væri og hvetja hana áfram á meðan móðir hennar var sýnd sem grimm og uppeldisaðferðir vægast sagt umdeildar.

Að sjálfsögðu var þetta eflaust „þeirra tíma uppeldi“ – að einhverju leyti,  þó að það mætti spyrja sig hvers vegna barnfóstran notaði það þá ekki líka? –

Dómur Salómons þar sem hann dæmir í máli kvennanna sem rífast um barnið hefur oft komið upp í huga minn. –  Salómon var talinn vitur og dómur hans réttlátur, en stundum hef ég (já litla ég) leyft mér að efast um viskuna á bak við þennan dóm.

Dómur Salómons:

  • „Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þinn sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“

Við erum ekki svo græn að vita ekki að það að vera líffræðilega móðir tryggi elskuna til barnsins.  Það er ekki langt um liðið að barn fannst í ruslafötu á Íslandi.

Sem betur fer er ég að tala hér um algjört undantekningatilfelli og það er hreinlega vont að skrifa svona setningu eins og er hér á undan.

Þó að mæður komi ekki börnunum sínum fyrir á þennan hátt,  þá reynast þær þeim þó oft ekki eins og ætla mætti að móðir myndi gera, eða við höldum að hún myndi gera.   Hin skilyrðislausa ást móður til barns er ekki fyrir hendi í einhverjum tilvikum.  Barnið þarf að þóknast móður og sýna fram á að það sé elskunnar virði.  Allt of oft kvarta, sérstaklega stelpur og konur langt fram á fullorðinsaldur að mæður geri lítið úr þeim, gagnrýni þær og þeim líður illa eftir að hafa verið í samneyti við móður sína.

Margþekkt dæmi eru þar sem mæður nota börn sín í deilum við feður þeirra.  Þær standast ekki freistinguna að „valda“ sig með barninu,  því það getur verið sterkasta tæki þeirra.

Hvar er móðurástin og umhyggjan fyrir barninu þá? –

Hvað myndi Salómon segja?

Hver er hin sanna móðiir?

Ég sit ekki hér og þykist saklaus.   Ég er sjálf sek um að hafa sagt hluti við börnin mín sem voru á eigingjörnum nótum og líka verið allt of upptekin af sjálfri mér kringum skilnaðinn við föður þeirra og ég sagði meira að segja vonda hluti um hann þó það væri akkúrat það sem ég ætlaði mér ekki.   Börnin eru nefnilega hluti af föður og hluti af móður og líta á sig sem slík.  Illt tal um móður – eða föður bitnar því á börnunum.

Ég er líka sek um samviskustjórnun,  enda það sem ég lærði.

„Ég er ekki reið, ég er bara leið“ ..  „Já, já, farðu bara ég verð bara ein heima“ eða eitthvað álíka. –   Samviskustjórnun felst í því að planta samviskubiti í börn.

Margt af því sem mæður gera og eflaust flest sem þær gera rangt er vegna vankunnáttu, eða vegna þess að þær nota það sem fyrir þeim var haft.

Allar mæður þurfa að líta í eigin barm,  – það er alltaf tækifæri til að breyta, til að vega og meta hvort að hegðun gagnvart barni er vegna elsku til barnsins eða vegna eigingirni.

Munum t.d. að meðvirkni er ekki góðmennska, eins og margoft er tuggið.   Stundum þrá mæður að fá elsku eða samþykki frá barninu sínu og fara að gera hluti fyrir það sem það á að geta gert sjálft og stuðlar að þroska þess.   Kannski verður barnið reitt út í mömmu þegar hún setur mörk,  en þannig virkar oft þessi óeigingjarna elska.

Að sjálfsögðu með þá trú í brjósti að barnið muni átta sig á því fyrr en síðar að það var með hag þess í brjósti sem móðirin sagði „Nei“ í það skiptið,  eða hvað það nú var sem hún gerði.

Börnin vaxa úr grasi og verða að lokum fullorðnir einstaklingar og þau eru ekkert illa gefin.  Þau átta sig á foreldrum sínum,   hvort sem um ræðir móður eða föður.  En margt af því sem hér er skrifað um mæður gildir að sjálfsögðu um föðurinn líka.

Sönn móðir veit að barnið hennar verður alltaf barnið hennar, – því börn eru nú flest þeirrar gerðar að þau elska mæður sínar skilyrðislaust.   Þó þau fjarlægist eða finnist mamma erfið eru einhver tengsl þarna á milli,  eflaust runnin frá því að vera í móðurlífi hennar sem er ekki hægt að slíta.

Hinn ósýnilegi naflastrengur. 

Hin sanna móðir þarf ekki að efast,  notar ekki barnið sitt í valdatafli í skilnaðarferli, heldur hefur það að markmiði að kljúfa ekki barnið heldur að halda því heilu.

Hin sanna móðir er því eins og barnfóstran í „The Help“  sú sem plantar eftirfarandi hjá barni sínu:

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Fagnaðarerindið í þessum pistli er að þessi orð hér að ofan gilda ekki einungis til barna,  heldur til mæðranna líka, – þeirra sem fengu ekki að heyra þessi orð í bernsku.  Til þess að við séum hæfar til að bera þetta áfram,  þurfum við að tileinka okkur þetta.  Ef við upplifum að við höfum ekki haft getu eða kunnáttu til að sinna börnunum okkar eins vel og við vildum, eða að halda þeim heilum,  þá er gott að vita að þegar við áttum okkur þá byrjum við frá þeim punkti.  Börnin verða alltaf börn og mæður (og feður) fyrirmyndir,  það hættir aldrei að mínu mati.

„Þú ert Góð“ – „Þú ert Gáfuð“ – „Þú ert Mikilvæg“ 

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Fjórir mánuðir …

Það fyrsta sem yfir móður kemur sem missir er að hana langar að fylgja á eftir.  Ég get ekki alhæft fyrir allar mæður,  en tala fyrir mig sem móður.

Ég sagði prestinum mínum frá þessari hugsun og hún sagði að það væru algeng fyrstu viðbrögð.   Ég viðurkenni líka alveg að það sem gerir lífið bærilegt er sú trú að við komum til með að sameinast á ný, einhvers staðar, einhvern tímann aftur.

Í dag eru liðnir fjórir mánuðir síðan að dóttir mín var úrskurðuð látin,  eftir gífurlega erfiðan aðdraganda.  Dauðinn kom ekki bara á einu augabragði,  heldur tók yfir líf hennar smátt og smátt á nokkrum vikum.

Við sem eftir erum og syrgjum hana lifum þetta einhvern veginn af,  þó oft sé mjög þung aldan.

Ég hef unnið í því með sjálfa mig að „rísa yfir“ dauðann.   Þ.e.a.s. njóta þeirra sem eru lifandi og þess sem lífið hefur að bjóða.  Ég á jú yndislega að,  fjölskyldu og vini,  dásamleg hugsandi og þroskuð börn og falleg og dugleg barnabörn.

Það hefur ekki alltaf verið rými fyrir sorgina,  fólk,  atburðir, og lífið sjálft togar í,  stundum af ótrúlegu tillitlsleysi en við það verður ekki ráðið.

Æðruleysisbænin minnir mig á að ég get breytt ýmsu,  en af því ég veit hversu svakalega erfitt getur verið að breyta sjálfri mér og hugsunum mínum,  læt ég mig ekki dreyma um að breyta öðru fólki eða hvernig það hugsar eða hagar sínum málum. –   Það velur hver fyrir sig og fólk situr uppi með sjálft sig og gjörðir sínar.

Mín innri barátta hefur falist í því að velja kærleikann og trúna fram yfir reiði eða ótta.  Sjá elskuna innra með mér en forðast hatur og gremju.

Það reynir mjög á,  vegna þess að þó ég vilji trúa að góðir hlutir gerist,  sem vissulega gerast,  þá gerast líka vondir hlutir og erfiðir.   Þeim verðum við að taka á móti,  – ráðum þeim ekki – taka á móti þeim,  líka af æðruleysi.

Þær hörmungarfréttir bárust okkur sl. laugardag að bróðir mannsins míns hefði kvatt þessa jarðvist.

Það er of stutt á milli í einni fjölskyldu,  án þess að ég hafi um það fleiri orð hér.

Þrátt fyrir djúpa sorg og þetta stóra áfall sem hefur nú dunið á,  þá eru líka góðir hlutir að gerast.

Lítið hús,  heimili í Vesturbænum,  er í pípunum – og þá hef ég möguleika að safna saman þeim sem finnst of langt að keyra hingað á Hvanneyri í heimsókn. –   Þá er stutt fyrir börnin mín og börnin bóndans að koma í sunnudagslæri eða grill í sumarsólinni.

Ég veit fátt yndislegra en sameinaða fjölskyldu.

Henrik kemur til Íslands í byrjun júlí með barnabörnin og verða þau tvær vikur,  og ég er búin að taka frá yndislegu Lindarbrekku í viku.  Ég kíkti þangað uppeftir um páskana,  opnaði handahófskennt eina af gestabókunum og þar var ljóð eftir Evu Lind, – tilviljun?

Ég trúi ekki á tilviljanir – og kannski þarf ég ekki að bíða eftir sameiningunni,  kannski eru hin látnu með okkur,  þó sú birtingarmynd sé öðruvísi en við þekkjum.

Fjórir mánuðir eru ekki langur tími,  en samt eilífð.  Margir þröskuldar yfirstignir,  og margir enn óyfirstignir,  en með hjálp engla,  bæði mennskra og guðlegra er allt hægt.

Bóndi minn stendur í ströngu núna á erlendri grund og treysti ég því að englarnir séu hans verndarar á göngunni  ❤

Við göngum aldrei ein. 

heart-hands

Játning – og rauður kjóll …

Ég sé svo oft að fólk er að játa ýmislegt – hvernig því hefur liðið, hvernig það hefur hugsað og oft höldum við að við séum þau einu í heiminum sem hugsum eða framkvæmum eitthvað sem í daglegu tali er talið „kjánalegt“ .. eða kannski svolítið „heimskulegt?“ ..  

Sumir játa aldrei þeir horfi á Júróvisjón – en hafa samt lúmskt gaman af, þó ekki sé nema stemmingunni sem myndast í kringum það.

Játningin mín felst í fatakaupum þetta árið.

Síðasta ár var ég svo blönk og um leið svo óþurfandi fyrir fatnað að ég keypti mér ekki snitti á sjálfa mig.  Ekki skó og ekki föt, – jú, sokkabuxur minnir mig að ég hafi keypt.  Held ég sé örugglega ekki að fara með rangt mál.

En hvað um það – ég sagði frá því hér í pistlunum mínum hvernig dótturdóttir mín þriggja ára valdi rauða úlpu á ömmu sína í janúar og amma hafði gott af því að vera i rauðu. 

Sú stutta hafði áður spurt: „amma kan du godt lide sort?“ ..  enda var ég svartklædd frá toppi til táar.

Fyrsti kjóll ársins var þó svartur –  keyptur á Kastrupflugvelli, en það var kjóllinn sem ég notaði í útför dóttur minnar.  – Hann smellpassaði og ég átti akkúrat mátulega margar danskar krónur fyrir honum í veskinu mínu, upp á aur! ..

En nú kemur játningin. 

Ég keypti mér hárauðan,  næstum neonrauðan kjól í vikunni, – og ætla að nota hann í kvöld í Borgarnesi – þar sem ég flyt fyrirlestur á vegum Símenntunar Vesturlands um „Betra líf“  en það er sá sami og ég er búin að flytja í Búðardal og á Grundarfirði. –  Að vísu verður hann aldrei alveg „sá sami“  því að áheyrendur móta líka hvernig fyrirlesturinn verður.  Það er sameiginlegur andi sem myndast milli mín og áheyrenda og/eða þátttakenda.

Kjóllinn verður s.s. frumsýndur! .. og með „Betra Líf“ Páls Óskars í bakgrunni. – 

Innblásturinn af því að kaupa kjólinn var myndin „Love is all you need“ en það var ein af „yndlingsfilmer“ hjá Evu minni sem fór að sjá hana tvisvar í bíó og þar var leikkonan Susanne Bier í þessum fallega rauða kjól, að vísu mun dekkri en mínum.  Þar leikur hún konu sem hefur misst hárið og annað brjóstið eftir krabbameinsmeðferð og þó að minn missir sé ekki sýnilegur utan á mér,  þá er það svolítið svoleiðis að missa barnið sitt.

En eins og ég hef margítrekað ætla ég ekki að hætta að njóta lífsins, eða þess sem er í boði.  Árið mitt verður „Rautt“  en ekki „Svart“ ..

Ég er ekki hrædd við það sem koma skal og ég fer inn í 2013 sterkari en nokkurn tímann. – 

Þeir sem þekkja til skíðamennsku í ölpunum vita að brekkurnar eru merktar bláar – rauðar og svartar.   Svartar eru þær erfiðustu og bröttustu.

Til að fara svartar brekkur þarf að hafa líkamlegan styrk, tækni og ekki síst andlegan styrk.   Þó að líkamlegi styrkurinn og tæknin séu til staðar – þá er vonlaust að fara logandi hrædd/ur í brekkuna.   Sumir taka þá bara skíðin af sér og skríða niður eða snúa við.

Ég fer svörtu brekkuna í rauða kjólnum! .. 😉

Hugrekki er það sem ég tileinka mér núna,  – já, já – það eru alls konar andleg áföll að koma,  erfiðleikar koma,  en vonandi er ég og mín fjölskylda búin með skammtinn í bili – „come what may“ .. 

Ég tek á móti því í rauða kjólnum,  en rautt er litur heilags anda og ég leyfi honum að hjálpa mér við að brjótast undan þungri og stundum kæfandi skel sorgarinnar. heart-of-stone-default

 

 

 

 

 

 

Þrír konfektkassar borðaðir í meðvitundarleysi …

Í fríhöfninni var tilboð á konfekti, þrír fyrir einn og ég taldi það upplagt að kaupa þrjá kassa og ég gæti gefið þá í jólagjafir.

Ég lá í mjúka græna sófanum mínum og horfði á einhverja Disney föstudagsmynd og vorkenndi mér að vera ein,  ég var einmana og taldi að allir aðrir væru að hafa það kósý heima, pör sætu hönd í hönd o.s.frv. – heilinn virkar bara stundum þannig.

Ég átti a.m.k. svolítið bágt (að eigin mati).

Ég gekk eins og í leiðslu inn í eldhús og skimaði eftir einhverju sætu að borða,  ég passaði mig að kaupa ekki kex eða sælgæti því að ég vissi að það færi bara ofan í mig, síðan á rass, maga og læri  og ég yrði óánægð með mig.  Svo var víst talað um að sykur væri eitur og heilinn færi í þoku við þetta,  eða eitthvað svoleiðis.

En hvað um það,  þegar svo kom að því að  ég ætlaði að grípa í konfektkassana þrjá fyrir jólin voru þeir allir tómir uppí skáp.

Ég hafði sem sagt „læðst“ í einn þeirra – ákveðið að fórna honum,  „ég átti það svo skilið“ en einhvern veginn enduðu þeir allir tómir.

Á námskeiði haustið 2010 sá ég fyrst bókina „Women, Food and God“ – og svo hoppaði hún í fangið á mér einhverju síðar.  Þar segir Geneen Roth frá reynslu sinni,  hvernig m.a. hún fyllir í tómu tilfinningapokana með mat,  hvernig hún reyndi m.a. „svarta kúrinn“ til að grennast en hann var „sígarettur, kók og kaffi“ og það tókst – jú hún varð grönn, en auðvitað hvorki heilbrigð né hamingjusöm,  en hún var að leita eftir báðu.   Hún segir frá „Röddinni“  sem glymur inní okkur sem segir að við séum aldrei nógu góð,  hver við þykjumst vera og þar fram eftir götunum.  Hún segir frá ferðalaginu frá okkur og mikilvægi þess að lifa „í okkur sjálfum“.. sem er í anda þess að það að þekkja Guð er að þekkja sjálfa sig.   Hún segir auðvitað margt, margt fleira – og hvernig hún,  með því að ná sátt við sjálfa sig og búa til nýja vana „habit“  sem fólst í því m.a. að borða m. meðvitund náði hún því að vera í sinni „náttúrulegu“ þyngd,  auk þess að hún hætti að vega sig og meta skv. útliti og tölum á vigt.

Þegar ég lokaði þessari bók var eins og ég hefði verið frelsuð,  – frelsuð frá kúrum, frelsuð frá því að skoða hamingju mína út frá tölum á vigt,  og það var dásamlegt.

Ég var mjög grönn sem barn og unglingur,  of grönn og þurfti aldrei að hafa áhyggjur af mataræði, helst að ég reyndi að bæta á mig ef eitthvað var.

Ég man í rauninni ekkert hvenær ég fór að fitna,  ég eignaðist barn 19 ára gömul og kom í þröngu buxunum mínum heim af fæðingardeildinni svo ekki var það þá.

Ég bætti einhverju á mig milli tvítugs og þrítugs – var alltaf grönn en þar byrjaði ég að upplifa það að vera „feit“ – og ekki nógu „flott“ ..  það byrjaði einhver ósátt,  ekki nógu grannt mitti,  ég vildi vera „fullkomin.“ ..

Það voru ytri aðstæður,  erfiðleikar í sambandi, og kannski bara einhver ófullnægja í sjálfri mér sem olli því að ég fór að hugga mig með mat.  Mér þótti alltaf gott að borða en var alltaf, já ég meina alltaf að tala um megrun og að grenna mig.

Ég byrjaði ung að fara í  kúra og „átak“ og þau hafa verið svo mörg sl. 30 ár  (eða þar til ég frelsaðist)  að ég hef ekki tölu á þeim.   Ég las alls konar ráð,  ég tók losandi til að léttast og var meira að segja ánægð ef ég fékk ælupest því þá léttist ég.   Ég náði þó aldrei að fara út í anorexíu eða búlemíu þó að ég hafi verið á jaðrinum.

Ég var haldin þeirri hugmynd að verðmæti mitt fælist í því hvernig ég liti út.   Hversu grönn ég væri.

Þegar ég var unglingur sagði vinkona mín við mig að hún vildi hafa útlit annarrar vinkonu okkar og persónuleikann minn.   Ég móðgaðist.  – Já,  ég var niðurbrotin.  Ég gat ekki verið ánægð með hrósið.  Það sem ég heyrði bara „Þú ert ekki falleg“…  Sjálfstraustið,  hjá þó þessari ungu konu með sterka persónuleikann var ekki meira en það.

Ég var í jójó – megrun í tuga ára.  Það rokkaði upp og niður um einhver kíló.   Geneen Roth segir frá því að hún hafi misst hundruði kílóa í gegnum æfina,  það hef ég líka gert.  Það vita flestir sem hafa reynt megranir – að þegar aftur bætist á bætist meira við en þegar leiðangur hófst,  og þá líður manni eins og að falla í prófi,  eins og fallista.

Síðan ég las „Women, Food and God“  hef ég bætt heilmiklu lesefni og fróðleik  við,  því að sú hugmyndafræði dugar ekki ein og sér.   Ég hef lesið mikið og kynnt mér í sambandi við meðvirkni,  í sambandi við skömm og berskjöldun,  o.fl. o.fl.

Ég hef beint orkunni í að skoða orsakir þess að ég borða þegar ég vil ekki borða.  Hlustað á tilfinningarnar og skilið hvar ég lærði að hugga mig með mat.  Það lærum við að vísu flest í uppeldinu,  það er þessi oral huggun sem kannski byrjar með snuði,  sumir sjúga sígarettur og vindla,  aðrir setja stútinn í munninn og svo er það maturinn eða sælgætið.

Það er bæði þessi huggun og svo hjá sumum er það „fixið“ – því auðvitað líður manni öðruvísi í líkamanum þegar efni eru sett í hann.

Það er skammgóður vermir að missa piss í skóna,  og þessi „huggun“ er álíka því að svo fer pissið að lykta og gerir manni vont.

Ég vildi miðla reynslu minni og uppgötvunum frá Geneen Roth,  og tengja það við grunnmódelið um meðvirkni,  en þá er það líka spurningin „Af hverju?“

„Af hverju geri ég ekki það sem ég vil gera?“ ..

Ég fann gífurlega góðan fyrirlestur frá frönskum sálfræðingi sem heitir Sophie Chiche sem fjallar um nákvæmlega þetta.   Hún talar um „svarthol“ sem við lendum ofan í,  á miðri leið og við snúum við, gefumst upp.

Hún segir að það sem stoppi okkur sé m.a. að við gerum annað fólk að „Guði skoðana okkar“ –  Við teljum okkur ekki eiga skilið að ná árangri (röddin) –  o.fl.

En það sem hún vekur einnig athygli á er „You have to see your pain to change“.. þ.e.a.s. þú verður að sjá sársauka þinn til að breyta.

Sophie missti tugi kílóa og var spurð hvað hún hefði eiginlega gert,  hún svaraði „ég gerði ekkert,  ég bara breytti tilveru minni“ –  eða „I shifted my state of Being“ ..

Hún segir líka frá því að hún hafi verið alin upp við að vera boðið „Nutella“ þegar henni leið illa.

Ég þekki þetta af eigin raun – að borða ofan í tilfinningarnar mínar,  þetta hömluleysi og að verða ekki södd, hversu mikið sem ég borða.   Að gleypa í mig og gleyma að ég hafi verið að borða og njóta þannig ekki matarins.  Að aka í hamborgarabúllu og kaupa hamborgara og franskar þegar ég mætti óréttlæti og deyfði mig þannig með mat í staðinn fyrir að upplifa tilfinningar sem ég þurfti í raun að upplifa.

Ef ég færi eftir leiðarljósum Geneen Roth,  þá myndi ég auðvitað ekki gera það því að eitt af hennar sjö leiðarljósum eða nýjum siðum er að borða alltaf við borð.

Hún og Paul McKenna hafa líka þá sameiginlegu reglu að njóta matarins.  Það að njóta þýðir ekki át eins og þegar við liggjum afvelta á aðfangadagskvöld,  heldur að borða með vitund,  ekki í meðvitundarleysi.   Finna ilminn,  borða hægt,  skynja matinn og já .. njóta.

Hvernig við borðum er í raun ein birtingarmynd af því hvernig við lifum.  Við getum „gleypt“ í okkur heiminn án þess að njóta eða taka eftir því sem við erum að gera. –

Við getum keyrt hringveginn án þess að virða fyrir okkur fjöllin og sólarlagið.  Við erum jú búin að fara hringinn,  en hvað stendur eftir? –

Það er margt í mörgu og líka þessum fræðum.

Ég segi að allir þurfi að taka ákvörðun,  ef þú ætlar að fá þér marengskökusneið ekki borða hana með samviskubiti.

Ekki hugsa við hvern munnbita „ég á ekki að vera að þessu“ –  því þá hleður þú ekki bara á mjaðmirnar, rassinn eða lærinn – heldur hleður þú skömm inn á þig yfir því að ráða ekki við þig,  þú ert farin/n að gera það sem þú vilt ekki gera.

Skömminn er þung að bera og oft þyngri en nokkur kíló.

En til að fara að stytta mál mitt.

Við borðum ekki öll yfir okkur eða of mikið af sömu ástæðum,  en matur og tilfinningar er mjög tengt.   Sumir verða fíklar í mat – og spurningin er þá hvort hún er einungis líffræðilegs eðlis eða líka félagsleg eða andleg? –   Ég held að í mörgum tilfellum sé það bæði.

Ég veit það að þegar ég er í jafnvægi – og lifi í æðruleysi hef ég minni þörf fyrir hið ytra.  Ég er fullnægð,  hef nóg og er nóg.  Ég nýt þess að borða og hætti þegar ég er ekki svöng lengur.   Eftir því sem mér líður betur með mig,  er sáttari við mig og elska mig meira og geri hlutina af því ÉG vil það ekki vegna þess að til þess er ætlast af mér,  eða til að fylla inn í staðla.

Ég hvet líka til þess að fara út að ganga á réttum forsendum, ekki vegna þess að ég Á að fara út eða VERÐ að fara út,  heldur vegna þess að ég elska mig svo mikið og langar að gera mér gott og fá ferskt loft og NJÓTA útiveru. –  Auðvitað þurfum við stundum svolítinn aga til að byrja nýja siði,  að breyta úr gömlum vana yfir í nýjan vana,  en yndislegt ef sá nýi gerir okkur gott.

Markmiðið mitt með námskeiðunum mínum: er m.a.  „heilsa óháð holdarfari“ (Anna Ragna)   og „sjálfstraust óháð llíkamsþyngd“  (Sigga Lund)  .. að fara að njóta matar (lífsins)  (Geneen Roth og Paul McKenna)  Sjá hvað veldur þér sársauka (Sophie Chiche og meðvirknimódelið)  Hreinsa út skömm (Brené Brown).

Hamingjustuðullinn skal upp 😉 ..  hamingjusamari þú:  þarft minna af hinu ytra og lifir í sátt og öðlast innró ró og lífsfyllingu og þarft því ekki lengur að fylla á „tómið“ þegar það er ekki tómt lengur.  Það er fullt af lífi, gleði, ró, ást og trausti .. til þín. 

Námskeiðið „Í kjörþyngd með kærleika“  varð til upp úr þessu öllu saman, –  þar tengi ég saman menntun mína,  þekkingu á meðvirkni og eigin lífsreynslu.   Ég létti engan, ég breyti engum,  það er í höndum þeirra sem taka þátt og stundum er þetta námskeið aðeins fyrsta skrefið að breyttu hugarfari,  sumar hafa náð hugmyndafræðinni og haldið áfram – og ég hef fengið meldingar eins og að þær hafi náð „draumavigtinni“  eða þarna hafi þær áttað sig á því hvað þær raunverulega vildu.  Þetta byggist á þátttakandanum að opna fyrir og vera tilbúin að henda af sér gömlu hugsununum – þessum útrunnu eins og „ég get ekki“ – „ég á ekki allt gott skilið“  „mér mistekst“  o.s.frv. –   Í þessari vinnu eins og allri vinnu þar sem við erum að breyta þurfum við að aflæra og læra upp á nýtt.   Ýta á delete og setja inn nýjan hugbúnað.   Eða eins og Sophie Chiche sagði „I shifted my state of being“ ..

Besta leiðin við að ýta á „delete“ er að tjá sig um tilfinningar sínar,  fá útrás og ekki bæla inni eitt né neitt.  Það er gert í trúnaði og kærleika.

Við verðum líka að vera raunsæ og þekkja okkur, – ef við VITUM að einn súkkulaðimoli veldur því að það verða margir á eftir,  þá verðum við að skera súkkulaði út af okkar lista.  Því sá matur sem við getum engan veginn borðað með meðvitund verður að fara út af okkar matseðli,  alveg eins og áfengissjúklingur tekur alkóhól út af sínum lista.

Nýtt námskeið „Í kjörþyngd með kærleika“  er að hefjast á laugardag kl. 13:00 sjá http://www.lausnin.is  og enn er hægt að skrá sig.

„Mæli með þessu námskeiði. Það gerði mér ótrúlega gott og er stór varða á lífsleið minni :)“ Ólöf María Brynjarsdóttir.

Kannski er svona námskeið aldrei annað en varða á lífsleið,  en hvað er betra en varða þegar maður er svolítið áttavilltur?  Munum líka að fíkn er flótti, hvað ertu að flýja?

Meira lesefni þessu tengt – http://www.elskamig.wordpress.com

21-the-world

Þykir þér vænt um heiminn? –  Hvað viltu gera til að vernda hann? – Myndir þú hella eiturefnum í jörðina? –  Ertu umhverfisverndarsinni? –   Hvað ef að þú værir heimurinn,  myndir þú hugsa betur um þig?

Þú ert heimurinn. 

Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.

Sársauki og ofát …

Ég átti von á barnabarninu mínu í heimsókn, – bjallan hringdi og feðginin voru mætt á svæðið. 

Eva Rós var að koma í pössun og var vön ömmu Jógu, – en í þetta skiptið fór hún að gráta þegar pabbi fór –  því hún var svo nýkomin til hans frá mömmu sinni og fannst þetta skrítið allt og óskiljanlegt.  

Fyrsta hugsun mín? ….

„Hvað get ég gefið henni að borða?“ .. og ætlaði að fara að labba með henni inn í eldhús til að sefa grátinn. 

En sem betur fer var ég „vöknuð“  og áttaði mig alveg á því að hún var ekkert svöng,  hún þurfti bara að fá að gráta smá, fá svo knús og það að amma fullvissaði hana um að pabbi kæmi fljótt aftur – enda virkaði sá pakki alveg ágætlega og fljótlega var hún farin að leika. 

Það þurfti ekki smáköku eða svala sem huggun.

Þegar við finnum til, erum leið eða bara „tóm“ – þá er tilhneygingin að teygja sig í eitthað til að fylla í tómið.  Tómarúmið hið innra sem verður þó seint fyllt með mat eða drykk.

Og þess vegna verðum við ekki södd.

Ég hef verið að bjóða upp á námskeið fyrir konur – ekki komin með karlana ennþá – þar sem farið er í orsakir þess að borðað er þegar við erum ekki svöng. –

Í hefðbundnu aðhaldi, kúrum, átaki eða hvað við viljum kalla það,  er yfirleitt verið að vinna við afleiðingar.  Afleiðingar sem eru umframþyngd. 

Námskeiðið mitt hefur þá nálgun að skoða orsakir eða rætur. 

Ef við vinnum einungis í afleiðingum er það eins og að reita arfa af blómabeði, hann vex aftur.   Það þarf að kafa dýpra, – skoða „Af hverju?“

Sophie Chiche sálfræðingur segir m.a. „You have to see your pain to change“ .. eða „þú þarft að sjá sársauka þinn til að breytast“ .. viðurkenna vandann og átta þig á  honum.  

Markmiðið er s.s. að breyta sjónarhorninu á tilverunni,  upplifa verðmæti sitt án hins ytra og átta sig á því að hamingjan helst ekki í hendur við það að vera mjó/r, hvað þá sjálfstraustið eins og mjög svo oft er hamrað á.

Margar tágrannar manneskjur eru með lélegt sjálfstraust og alls ekki hamingjusamar.

Það er því ekki samasem merki þarna á milli,  en stundum dugar það að ná árangri með kílóin til að fólk upplifi sig sem „sigurvegara“ og þá í einstaka,  ég ítreka einstaka tilfelli nær viðkomandi að hækka sinn hamingjustuðul um leið og þyngdarstuðullinn lækkar.

Málið er að kúrar og átak virka því miður oftast öfugt,  þ.e.a.s. þú nærð mjög líklega tímabundnum „árangri“ hvað kílóin varðar en svo fara þau að hrannast upp aftur og e.t.v. fleiri og þá er stutt í vanlíðan og líða eins og þú sért misheppnuð! .. 

Það þarf því að aftengja vigtina við hamingjustuðulinn!

Ég henti minni vigt fyrir löngu síðan – og það var heilmikil frelsun.

Oft er sársaukaveggur að sannleikanum – en þegar í gegnum hann er komið bíður frelsið. 

Næsta námskeið „Í kjörþyngd með kærleika“  verður haldið laugardag 13. apríl nk.  og í framhaldi eru eftirfylgnihópar  – sem eru nauðsynlegir til að fara í sjálfsskoðun,  orsakir hafa afleiðingar.   Hvað orsakar?  – 

Niðurstaðan í flestum tilfellum er að sú eða sá sem fer að skoða sig er í raun ekki að stunda kærleika í eigin garð og stundar jafnvel hryðjuverk, hvort sem er á líkama eða sál.  

Ath! .. Það að sýna sér kærleika er EKKI að ala sig á mat til að fylla í tómarúm.

Hvað með þig,  þarftu meira að borða (drekka, spila, vinna ..o.s.frv.) eða að umvefja þig kærleika og gefa þér knús?  

Skráning á námskeið er á  www.lausnin.is

403674_246031245475929_123071417771913_546442_1898489367_n

Sjálfstraust og líkamsþyngd .. hugsað upphátt – er sjálfstraust háð tísku?

Fyrirlesturinn sem Sigga Lund stóð fyrir á dögunum hefur varla farið fram hjá mörgum, en hann bar yfirskriftina „Sjálfstraust óháð líkamsþyngd“ og er byggt á þeim grundvelli að „sjálfið“ sem sjálfstraustið ætti að byggjast á ætti ekki að byggjast á holdarfari.

Það ætti að byggjast á okkur sjálfum, –  af hverju ætti mitt sjálf að vera sterkara þegar ég er með minna utan á mér en meira.

Þetta er víst ekki alveg svona einfalt,  meira af brjóstum meira sjálfstraust,  samt eru brjóst fituvefur að mestu er það ekki?

Sjálfstraustið er því þegar að fitan er á réttum stöðum! ..  eða hvað?

Á móti þessu kemur að samfélagið býr sér til ákveðna „fegurðarstaðla“ –  þeir eru misjafnir eftir stöðum og tíma og fylgja tísku.  Einu sinni voru rúbenskar búttaðar konur í tísku.   Einu sinni þótti fínt að vera skjannahvít.  Þá hljóta konurnar sem voru örlítið búttaðar og skjannahvítar að hafa verið með mest sjálfstraustið.  Því þær voru í tísku!

Smá hugarmatur – eða „food for thought“ ..

Svo er það þannig að ekkert í útlitinu sem endist að eilífu, tja nema í formaldehýði.  Ef sjálfstraust byggist á sléttri húð – minnkar þá sjálfstraust með hverri hrukku? –

Ég held við verðum að hætta að leita svona út á við eftir sjálfstrausti,  bæði út á við hvað varðar útlit og líka út á við hvað varðar viðurkenningu annarra.

Viðurkenningin þarf að koma innan frá. Sjá hlekk til að sjá næsta námskeið: „Í kjörþyngd með kærleika“ sem hefst 13. apríl nk.  en þær konur sem mæta á námskeiðið komast fljótlega að því að kjörþyngdin sem þarf að vinna í fyrst og fremst er hin andlega kjörþyngd – og tölum við því ekki um þyngdarstuðul, heldur um hamingjustuðul.  –

smellið á hlekkinn hér fyrir neðan:

http://www.lausnin.is/?p=3360

rubens-the-three-graces-1639

 

 

 

„Að læra að þora og geta, vera jákvæður og bjartsýnn“ …

Þegar þú ert smiður þá sérðu það sem þú ert búinn að byggja.  Þú sérð afrakstur verka þinna.

Ég vinn við að „smíða“ eða byggja (upp) fólk.

Það er ekki alltaf auðvelt að sjá árangur,  en ég verð að viðurkenna að hjartað mitt hoppar af gleði þegar að ég sé að mér hefur tekist að vekja í fólkinu löngun til að hjálpa sér sjálft.   Það er trixið.  Ekki að hjálpa fólki þannig að ég beri það yfir lækinn,  heldur að það finni leið yfir lækinn.

Ég fæ stundum smá bréf – eða skilaboð frá fólki,  eða það segir mér sjálft þegar það finnur mun á sér,  eða breytingu hvernig það tæklar líf sitt.  Stundum fæ ég skemmtileg komment hér fyrir neðan pistlana,  að eitthvað sem ég skrifaði hjálpaði.

Þessi endurgjöf gefur mér byr undir báða vængi (reyndar er ég vængjalaus en tek svona til orða) – til að halda áfram.

Það er ekkert auðvelt – og langt í frá að halda áfram eftir það mótlæti sem ég hef orðið fyrir sl. mánuði.  En það hafa komið svo mörg gullkorn,  og ég hef fengið svo mikinn stuðning frá fólki,  að ég er orðin 100% viss um mikilvægti þess að halda áfram.

Fólk er fyrir fólk. 

Í gær fór ég til sérfræðings, hann hlýtur að vera mjög klár því það kostaði 23 þúsund krónur að fá að vita að ekki væri til lækning við „munnóeirðinni“ (Burning mouth syndrome)  og best að taka bara eitthvað róandi lyf (valíum)  til að róa ofvirku taugarnar sem valda því að ég fæ brennandi sviða í munninn.  (Já margt skrítið í kýrhausnum!)  En eflaust hefur erfiður eða „grimmur“ eins og sjúkrahúspresturinn orðaði það svo réttilega,  aðdragandi að dauða Evu Lindar minnar – og svo það sem á eftir fylgdi startað þessum sjúkdómi,   en hann er á andlegu nótunum.

Ég hugsaði hins vegar að ef að sjúkdómurinn byrjar vegna andlegs álags,  þá vil ég laga hann með andlegri vinnu.   Það hlýtur að vera lógískt.  Hreyfing, yoga, slökun, hugleiðsla, jákvæðni – og svo auðvitað að halda áfram að kenna og leiðbeina – og lifa í ljósinu.   Ég hef trú á því.

Missi aldrei trú. 

Fyrir áramót var ég að leiðbeina fjórum fötluðum einstaklingum á vegum Símenntunar Vesturlands,  – ég var efins um að ég gæti haldið því áfram eftir allt álagið og áfallið,  en því var haldið opnu fram á síðustu stundu og ég tók djúpt andann og fór að kenna á ný.

Auðvitað tóku nemendurnir mér opnum örmum og höfðu ekki gleymt broskallinum sem við teiknuðum á töfluna,  en ég hef sagt frá honum áður.

Í fyrradag var svo lokatíminn okkar saman og við útbjuggum minnisspil úr námsefninu okkar.

  • Kærleikslestin ..  
  • Perlurnar
  • Bergmálsfjallið
  • Þori-get-vil

o.s.frv.

Erfitt að gleyma – ef búið er að gera minnisspil,  og svo spiluðum við í lokatímanum.

Þann 6. mars sl. birtist viðtal í Skessuhorni við þessa fjóra nemendur,  og Helgu Björk sem hefur haldið utan um námsbrautina með glæsibrag.

Þar las ég þetta:

„En hefur námið breytt miklu fyrir hann“ .. en þar er verið að taka viðtal við Arnar Pálma,  einn af fjórmenningunum og hann svarar:

„Já, ég myndi segja það,  til dæmis lífsleiknin,  að læra að þora og geta,  vera jákvæður og bjartsýnn.  Þetta drífur mann áfram og margt af því sem ég læri hérna getur nýst mér.“ ..

Þetta viðtal,  ásamt fleiru yndislegu sem upp kom í þessari samveru okkar, er örugglega á við það sem smiðurinn sér þegar hann virðir fyrir sér velheppnað handverk eða hús.  Eða á við 10 valíumtöflur (hef þó ekki prófað þær ennþá). –

Kærleikslestin – sem ég punkta hér að ofan sem eitt af námsefninu, er að hluta til hugmynd frá Brian Tracy,  en hann sýndi hvernig maður kæmist áfram í lífinu,  svona eins og lest – ef þú segðir

„I like my self, I like my self, I like my self“ … og  svo bætti hann við  „I can do it, I can do it, I can do it“ .. Lestin færist áfram.

Einfaldar lexíur en svo sannar.   Jákvætt sjálfstal sem byggir upp.

Þakklætið trompar mótlætið. 

 

308192_177514862373237_1750021977_n