Hópur fyrir þig? …

Mig langar að brydda upp á svolitlu nýju, – þetta er eflaust til annars staðar líka,  en í starfi mínu sem leiðtogi í hópavinnu,  þar sem ca. 5 – 10 aðilar deila með sér tilfinningum, upplifunum, sigrum og sorgum,  kemur alltaf á einhverjum tímapunkti þessi setning:

„Gott að finna að ég er ekki ein/n“ ..    og þá í merkingunni,  að við séum ekki þau einu sem erum að ganga í gegnum ákveðna hluti, við erum kannski bara með sömu vandamál, sömu hugsanir, tilfinningar og fullt af öðru fólki.

Í hópavinnu speglum við okkur í náunganum þannig að við lærum líka um okkur sjálf.

Í gærkvöldi var ég með örnámskeið um meðvirkni og bauð upp á hópavinnu einu sinni í viku í framhaldi.  Tvær konur komu langt að og treystu sér ekki til að keyra.  Sjálf þarf ég að keyra til Reykjavíkur frá Hvanneyri til að mæta og leiða hópa og námskeið. –   Þá fékk ég þá hugmynd að búa til nethópa og minnka ferðalögin,  þó að alltaf sé best að hittast „Live“ og svona hópahittingur á neti gæti vissulega endað í slíku, t.d. góðu helgarnámskeiði.  En málið er að búa til hópa á Facebook,  leynihópa,  sem þýðir að aðeins þeir sem eru í hópnum sjá hvað þar fer fram og vita af tilvist hans.

Hugmynd er ekkert merkileg án framkvæmdar,  svo nú verður farið af stað 😉 ..

Þetta virkar þannig að þeir sem eru í hópnum geta sett inn spurningar, reynslusögur og rabbað saman,   en ég er leiðbeinandi, og mun leitast við að svara eða koma með leiðsögn (ef svara er þörf) öllu innan sólarhrings frá fyrirspurn, læt vita ef það tefst.   Ég get sett inn pistla sem varða það efni sem verið er að ræða o.s.frv.

Ef þú vilt koma í svona hóp, með mig sem leiðbeinanda  þá borgar þú 1000.- krónur á mánuði  leggur inn á reikning 0303-26-189  kt. 211161-7019  sendir þú mér póst á johanna.magnusdottir@gmail.com um að þú sért búin/n að greiða og í hvaða grúppu þú vilt koma og ég set þig inn.

p.s. þú þarft að „adda“ mér á Facebook 😉

Hópur  1.   30 ára og eldri

Hópur 2.  18 – 30  ára

Hópur 3.   Skilnaður (karlar)

Hópur 4.  Skilnaður (konur)

Grúppa 5.  Tilfinningar og offita

Í þessum grúppum er hægt að ræða allt milli himins og jarðar, sem tengist manneskjunni,  andleg líðan, líkamleg líðan, kvíði, stress, óhamingja, félagsfælni, geð og   Þetta er tilraun til að finna úrræði og gæti tengt fólk saman.

Sendu mér líka póst ef þú sérð hugmynd að grúppu! 😉

Ath!  Í hópunum gilda sömu reglur og við værum að hittast.  Þ.e.a.s. trúnaður og heiðarleiki um það sem talað er.   Þegar þú ert komin/n í grúppu setur þú inn kveðju og segir í nokkrum línum eftir hverju þú leitar og hvað þú ert almennt það sem þú ert að glíma við.  Þú getur líka sent mér það ítarlegra prívat. 

Vonandi komumst við saman að kjarnanum!

 

 

 

 

 

Þið megið gjarnan dreifa þessu fyrir mig – ef þið þekkið einhvern sem gæti þurft á úrræði að halda. –  Þetta á vafalaust eftir að þróast.

Ég á facebook:  http://www.facebook.com/johanna.magnusdottir

Verum hamingjusamari: 10 hlutir sem við ættum að fjarlægja úr lífi okkar

Be Happier: 10 Things to Stop Doing Right Now“ –  endursögn á pistli Jeff Hadens.

(Ath!  þetta er ekki bein þýðing,  heldur endursögn og ég bæti líka við frá eigin brjósti ;-))

„Stundum skiptir meira máli fyrir hamingju okkar hvað við gerum ekki en það sem við gerum.“

sad and happy smiley face cupcakes

„Hamingjan, hvort sem um ræðir í viðskiptum eða einkalífi byggist oft á því að draga frá en ekki það að bæta við.

Íhugaðu, til dæmis, hvað gerist þegar við hættum að gera eftirfarandi hluti:

1. Hættu að kenna öðrum um – finna sökudólga.

Fólk gerir mistök.  Starfsmenn mæta ekki alltaf væntingum þínum.   Byrgjar koma of seint með vörurnar.

Það skapar vandamál og við kennum þeim um vandamálið.

En hvað ef þú lítur í eigin barm og skoðar hvar þinn hlutur liggur í ferlinu?  Kannski þjálfaðir þú ekki starfsmanninn þinn nógu vel eða gafst nógu skýr skilaboð?  Kannski ertu að skipta við rangan birgja eða pantaðir of seint?“

Tökum þetta yfir á persónulegt svið,  t.d. um samskipti milli hjóna eða sambýlisfólks,  maki þinn kemur oft seint heim,  hann uppfyllir ekki væntingar þínar eins og þú hefðir óskað þér,   hann stundar sínar íþróttir en þú kemst aldrei í þínar o.s.frv.  –  Í staðinn fyrir að hefja ásakanir eða kenna honum um þína vansæld,  hvað getur þú gert? –  Gefið skýrari skilaboð um hvað þú vilt? –  Sett skýrari mörk þannig að hann upplifi afleiðingar af því t.d. að mæta of seint?    Hvernig á maki þinn að vita hvað þú vilt ef þú segir það ekki?

„Það að taka ábyrgðina þegar hlutirnir ganga ekki upp í stað þess að kenna öðrum um er ekki  sjálfspíslarháttur (masókismi)  heldur ætti það að gefa okkur tækifæri til að setja fókusinn á að gera hlutina betur eða sjá fyrir hvernig hægt er að gera þá á gáfulegri máta.

Þegar við verðum klárari, verðum við líka ánægðari.

2. Hættu að sækjast eftir viðurkenningu.

Engum líkar betur við ÞIG vegna fatanna þinni, bílsins, eignanna, titilsins eða vegna þess sem þú hefur áorkað.  Það eru allt „hlutir“  Það getur verið að fólki líki það sem þú hefur gert eða hlutirinir þínir – en það þýðir ekki að því líki við ÞIG.

Vissulega gæti það virst svo á yfirborðinu. Samband byggt á yfirborðsmennsku – er ekki byggt á góðum grunni og því ekki raunverulegt samband.“

Samband byggt á hlutum og því sem við gerum er samband byggt á sandi en ekki bjargi.

Raunverulegt (ekta) samband gerir þig hamingjusamari, og raunverulegt eða ekta samband verður til þegar þú hættir að reyna að ganga í augun á hinum aðilanum til að fá viðurkenningu og byrjar að reyna að vera þú sjálf/ur.“   (Hér myndi ég bara taka út orðið „reyna“ – verum bara við sjálf ;-)) .

3.  Hættu að vera háð fólki, stöðum o.s.frv.

Þegar við erum hrædd eða óörugg,  þegar við höldum fast í það sem við þekkjum,  jafnvel þegar við vitum að það er ekki sérstaklega gott fyrir okkur.

Fjarlægð við ótta og óöryggi skapar ekki hamingju: Það er bara fjarlægð við ótta og óöryggi.

Að halda í það sem við teljum okkur  þarfnast  gerir okkur ekki hamingjusamari;  að sleppa tökunum svo við höfum frjálsar hendur til að  teygja okkur í það sem við viljum gerir það.

Við verðum að sleppa hinu óæskilega til að hafa lausa hendi fyrir hið æskilega.

Jafnvel þó okkur takist ekki að eignast það sem við viljum, mun framkvæmdin við að reyna að gera það láta okkur líða betur.

(„Ekki gera ekki neitt“)

4. Hættu að skipta þér af.  (Vera beturvitrungur)

Að skipta sér af er ekki bara dónalegt.  Þegar þú truflar einhvern eða gefur óumbeðin ráð, ertu í rauninni að segja, „Ég er ekki að hlusta á þig til að ég geti skilið þig,  heldur „Ég er að hlusta á þig svo ég geti ákveðið hvað ég geti ákveðið hvað ÉG ætla að segja.“

Langar þig til að fólki líki við þig? – Hlustaðu þá á það sem það er að segja.  Veittu spurningum þeirra athygli.   Spyrðu spurninga svo þú skiljir hvað það það segir.

Það mun virða þig fyrir það og þú munt njóta þess hvernig það lætur þér líða.

5. Hættu að kvarta og kveina.

Orð þín hafa mátt, sérstaklega yfir þér.  Að kvarta eða kveina yfir vandamálum þínum lætur þér líða enn verr.  Ekki betur.

Ef eitthvað er að, ekki eyða tímanum í að kvarta. Settu orkuna í það að gera ástandið betra.  Þú verður að stoppa einhvern tímann, nema að þú viljir kvarta til eilífðar.  Hvers vegna að eyða tímanum.  Lagaðu það núna.

Ekki tala um það sem er EKKI í lagi.  Talaðu um hvernig þú munt gera hlutina betri,  jafnvel í samræðum við sjálfa/n þig.

Gerðu það sama við vini og vandamenn.  Ekki aðeins vera öxlin sem þeir gráta á.

Vinir ýta ekki undir kveinstafi vina, vinir hjálpa til að gera lífið betra.

(Ath! hér er ekki verið að tala um að byrgja inni vanlíðan, endilega losa um það sem er að angra þig,  en það er nóg að gera það einu sinni og gera það þá VEL, hágrenja yfir því,  en ekki kvarta og kveina endalaust yfir sama hlutnum og gera ekkert í því,  það fá allir nóg af þér og ekki síst þú sjálf/ur)!

6. Hættu að stjórna.

Já,  þú ert stjórinn.  Ert risinn í iðnaðinum.  Já,  þú ert litla skottið sem vaggar stórum hundi.   Samt sem áður, er það þannig að það eina sem þú raunverulega stjórnar ert þú sjálf/ur.  Ef þú upplifir að þú sért að reyna á fullu að stjórna eða stýra öðru fólki, hefur þú ákveðið að þú, þín markmið, þínir draumar, eða jafnvel þínar skoðanir séu mikilvægari en þeirra.

Fyrir utan það, að stjórnsemi er alltaf skammtímalausn, því hún þarfnast oft krafts, eða ótta, eða yfirvalds, eða einhverja tegund af þrýstingi – ekkert af þessu lætur þér líða vel með sjálfa/n þig.

Gangtu samferða þeim sem vilja ganga með þér.  Þeir vinna betur, skemmta sér betur og skapa betri viðskipti og betri persónuleg sambönd.

Allir verða hamingjusamari.

(Ath! Stjórnsemi er lúmskt „tæki“ hún getur litið út sem góðmennska í þinn garð,  einhver gefur þér eitthvað en þú veist að viðkomandi þarf að fá launað,  stjórnun getur verið í formi samviskustjórnunar, vorkunnarstjórnunar, valdstjórnunar o.fl.

Dæmi um samviskustjórnun: „Ég trúi ekki að þú svona yndisleg manneskja ætlir ekki að gera þetta fyrir mig“…(Það sem verið er að segja:  „Ef þú gerir ekki það sem ég bið um ertu vond“)

eða þú segir við barnið þitt með vandlætingartóni:

„Takk fyrir að taka úr uppþvottavélinni“ .. en það gerði það ekki, – þú stingur það með „samviskupílum“ þannig að því líði illa og þannig stjórnar þú líðan þess.  Allir tapa í svona samskiptum.

Dæmi um vorkunnarstjórnun: „Mér líður svo illa – pabbi þinn/mamma þín er svo vond/ur við mig“..   (Það sem verið er að segja; „ég er svo góð/ur stattu með mér en ekki honum).

 

7. Hættu að gagnrýna.

Já, já, þú hefur meiri menntun.  Já, já, þú hefur meiri reynslu.  Já, já, þú hefur klifrað fleiri fjöll og ferðast víðar og drepið fleiri dreka!

Það gerir þig ekki gáfaðri, betri eða með betra innsæi.

Það gerir þig bara þig: einstaka/n,  ósambærilega/n o.s.frv., en þegar upp er staðið, ert það alltaf þú.

Einstaka/n, eins og allir aðrir eru, eins og starfsfólkið þitt er,  vinir, maki o.s.frv.

Just like everyone else–including your employees.

Allir eru öðruvísi;  ekki betri eða verri, aðeins öðruvísi. Virðum fjölbreytileikann í stað þess að horfa í það sem vantar upp á og þú munt sjá fólk, og þig sjálfa/n í betra ljósi.

8.  Hættu að prédika.

Gagnrýnin á systur.  Hún heitir Prédikun.  Þær eiga sömu móður sem heitir:  Dómharka.

Þess hærra sem þú ríst og áorkar í lífinu,  þess líklegri ertu til að halda að þú vitir allt – og að þú segir fólki frá öllu sem þú veist.

Ef þú talar meira af yfirborði en einlægni, heyrir fólk en hlustar ekki.  Fátt skilur þig eftir sorgmæddari og lætur þér líða ver.

9. Hættu að dvelja í fortíð.

Fortíðin er verðmæt.  Lærðu af mistökum þínum.  Lærðu af mistökum annarra.

Slepptu síðan.

Auðveldara að segja en að gera?  Það fer eftir stefnu þinni.  Þegar eitthvað slæmt gerist fyrir þig,  sjáðu það sem tækifæri til að læra eitthvað sem þú vissir ekki áður.  Þegar einhver annar gerir mistök, sjáðu það sem tækifæri til að sýna góðmennsku, fyrirgefningu og skilning.

Fortíðin er bara þjálfun; hún skilgreinir þig ekki.  Hugsaðu um hvað það var sem klikkaði, en aðeins með þeim forsendum að þú tryggir, að næst kunnir þú og fólkið í kringum þig að hlutirnir fari rétt fram.

(Það er mikilvægt að viðurkenna fortíð, viðurkenna ef það eru sár þar, fara í skoðunarferð um hana en ekki reisa sér hús í fenjasvæði fortíðar).

10. Hættu að óttast.

Við erum öll hrædd:  við það sem gæti gerst eða gæti ekki gerst, við það sem við getum ekki breytt, eða það sem við munum ekki geta gert, eða við það hvernig aðrir gætu séð okkur.

Það er því betra að hika,  bíða eftir að rétta stundin renni upp, til að ákveða þurfum við að hugsa örlítið lengur eða gera fleiri athuganir eða að kanna fleiri möguleika.

Á meðan, líða dagar, vikur, mánuðir, og jafnvel heilu árin líða fram hjá okkur.

Það gera draumar okkar líka.

Ekki láta ótta þinn halda aftur af þér.  Hvað sem þú varst að skipuleggja, hvað sem þú varst að ímynda þér,  hvað sem þú varst að láta þig dreyma um, byrjað á því í dag.

Ef þú vilt byrja á einhverju viðskiptatækifæri,  taktu fyrsta skrefið. Ef þú vilt breyta um starf,  taktu fyrsta skrefið. Ef þú vilt breyta eða gera eitthvað nýtt, taktu fyrsta skrefið.

Leggðu ótta þinn til hliðar og byrjaðu.  Gerðu eitthvað.  Gerðu hvað sem er.

Annars, er dagurinn farinn.  Þegar morgundagurinn er risinn, er dagurinn í dag týndur að eilífu.

Dagurinn í dag er þín dýrmætasta eign,  þinn eigin dagur,  og er það sem þú ættir helst að óttast að eyða.

Við þetta má bæta að hugurinn flytur okkur hálfa leið, og breytt hugarfar er alltaf fyrsta skrefið að breytingum.  Ekki fara í panik að við séum ekki að „gera eitthvað“ –  byrjum á að stilla stefnuna – og stóra skrefið er e.t.v. að fara að tileinka okkur eitthvað af þessum punktum hér að ofan.

En umfram allt:

Lifum heil og njótum dagsins.

Þú skilur ekki við barnið þitt! …

Ein af ástæðum þess að mikilvægt er að vakna af blundi eða réttara sagt martröð meðvirkninnar er að margir hafa upplifað það að vera komnir út úr vondu sambandi eða hjónabandi,  og eru þar af leiðandi frjálsir frá makanum sem þeir töldu ástæðu allrar vanlíðunarinnar og sitja uppi með barn eða börn sem þeir upplifa  eins og framlengingu eða eftirlíkingu af fyrrverandi maka!

Hvað gerir þú þá?

Þú skilur væntanlega ekki við barnið eða unglinginn?

Hvað ef maki þinn hefur verið krítískur, gert lítið úr þér, verið stjórnsamur, spilað á tilfinningar þínar – ýtt á alla viðkvæmustu takkana eða togað í „réttu“ strengina og  þú brugðist við, þar af leiðandi,  eins og strengjabrúða? –

Þú ert nú skilin/n við makann,  en hvað ef barnið þitt eða unglingur hefur lært þessa hegðun af makanum og notar hana áfram á þig? –

Er það ekki ástæða til að líta í eigin barm og breyta eigin viðmóti og viðbrögðum.  Styrkja sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna? –

Sjálfsvirðing og sjálfstraust er grundvallandi fyrir virðingu og trausti frá öðrum aðila.  Sá sem byrjar að ganga á þér, eða yfir þín mörk (sem kannski eru engin)  gengur eins langt og hann kemst.  Það liggur í mannlegu eðli að reyna að komast eins langt og við komumst upp með.

Reyndar í dýrslegu eðli líka,  þekkjum við sem höfum alið upp hunda 😉

Sá eða sú sem verður að setja mörk og segja stopp ert þú.

Hingað og ekki lengra.

Með því að setja barni sínu mörk, ertu að virða þín mörk og um leið að kenna því framkomu gagnvart þér.  Þú ert að gera ykkur báðum greiða.

Ef að barn fær að komast upp með stjórnun gagnvart foreldri, heldur það áfram að ástunda sömu hegðun gagnvart félögum og e.t.v  maka í framtíðinni.  Það finnur sér „fórnarlamb“ sem passar.  Einhvern sem fyllir í brotna sjálfsmynd þess,  einhvern annan meðvirkan og e.t.v. líkan foreldrinu.

Ástæðan fyrir því að margir foreldrar „leyfa“ barni/unglingi að komast upp með skemmandi hegðun og/eða stjórnsemi getur verið vegna þess að

a) foreldrið er að reyna að halda í „ást“ barnsins síns.  Barnið gæti jafnvel lokað á foreldrið ef það segir „hingað og ekki lengra“ – en þegar upp er staðið þá er það mesti kærleikurinn og mesta hugrekki að þora að setja barni sínu mörk.  Að segja „Nei“ þegar þarf að segja nei.

b) foreldrið gæti verið að kaupa sér frið,  það er stundum auðveldara að vera eftirlátssamur og „góður“  leyfa frekar en segja nei, eins og áður sagði,  vegna þess að ef það er gert er friðurinn keyptur,  en það er svo sannarlega skammgóður vermir,  eða aðeins stundarfriður,  því auðvitað er,  eins og áður sagði, gengið á lagið.

Barn á ekki að læra að meta „góðmennsku“ foreldris eftir hversu oft það segir já eða gefur fleiri gjafir.   Raunverulegur kærleikur liggur að sjálfsögðu ekki í því að kaupa sem flestar gjafir eða að segja alltaf já.

Ég hef heyrt börn segja: „Pabbi er svo góður hann segir alltaf já“ – eða „Mamma er svo vond hún leyfir mér ekki að fara út á kvöldin“ –  „Mamma er svo góð,  hún er alltaf að kaupa eitthvað handa mér“.. „Pabbi er svo vondur, hann bannar mér að vera í tölvunni“.. Skiptir ekki máli hvort að notað er mamma eða pabbi þarna – það mætti skipta því út.

Það er vissulega vandlifað í þessum heimi og stundum setjum við e.t.v. of stíf mörk, – en ég held að of víð mörk eða „lin“ mörk séu mun algengari.   Börn sem alast upp við slíkt,  geta átt í erfiðleikum félagslega því að þau koma út sem frek og stjórnsöm (leiðinleg)  og önnur börn fara að forðast þau. –

Ég man eftir atriði í bíómynd þar sem Hugh Grant lék mann sem kom í heimsókn til hjóna sem dýrkuðu son sinn,  sonurinn kom og frussaði á Grant og hjónin hlógu og spurðu hann hvort honum þætti hann ekki „adorable?“ ..

Það er miklu auðveldara að sjá galla í uppeldi annarra en hjá sjálfum sér.
Einhvern tímann las ég skilgreiningu á orðinu „óþekktarormar“ – en það var „börn nágrannanna.“  😉 ..

Við erum viðkvæm þegar kemur að því að aðrir setji út á eða dæmi uppeldið okkar,  en við þurfum öll að líta í eigin barm, bæði hvað það varðar og annað.  –  Hvernig er raunverulegur kærleikur í garð barnanna? –

Í meðvirkninámskeiðum Lausnarinnar tölum við um „Þroskaþjófa“  en það er fólk sem ofdekrar börnin sín og tekur af þeim ábyrgð sem er við þeirra hæfi. –  Ein lýsti þessu þannig að hún upplifði sig sem barn sem væri löngu farið að ganga sjálft,  en það væri eins og mamma héldi enn í hendur hennar og héldi svo fast að hún kæmist ekki áfram. – Héldi í raun aftur af henni.

Það er ekki fallegt að stela,  ekki heldur þroska.  Málið er að það er að sjálfsögðu ekki viljandi,  heldur vegna vankunnáttu eða af misskildri góðmennsku foreldris.  Meðvirkni er ekki góðmennska,  en það er einn algengasti misskilningunn, eins og lesa má um í samnefndri grein minni.  Við höldum s.s. að við séum að vera góð en erum í raun að ala upp eða hegða okkur út frá röngum forsendum eins og fram hefur komið hér að ofan.

Við erum hrædd við að vera ekki elskuð.  Að fá ekki ást barnanna okkar og missa tengsl við þau. 

Ef við viljum ekki ala upp meðvirkan einstakling,  eða bara illa upp alinn ef við sleppum orðinu meðvirkni sem sumir eiga erfitt með,  þurfum við að læra að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og setja mörk.

Engin/n vill skilja við barnið sitt ..

Að gefnu tilefni,  þá langar mig að taka það fram að mörg börn og unglingar upplifa að annað foreldri þeirra skilji við þau við skilnaðinn og aðskilnaður eykst oft enn meira ef að pabbi eða mamma byrjar nýtt samband og hefur nýtt líf með nýjum maka og fókusinn fer alveg á hann/hana og hennar/hennar fjölskyldu ef viðkomandi á t.d. á börn fyrir.  Nú eða nýja barnið ef að börn bætast við.

Ábyrgðin liggur að sjálfsögðu alltaf hjá foreldrinu en ekki nýja makanum, en alltaf er sama ástæðan fyrir því að við hegðum okkur vanvirkt eða meðvirkt,  óttinn við að vera ekki elskuð ef við gerum ekki eins og við teljum að aðrir vilji eða aðrir „heimta“ af okkur og við þorum ekki annað en að gera það. Þetta er umfjöllunarefni út af fyrir sig og er efni í aðra grein.

Enn og aftur segi ég að enginn vilji skilja við barnið sitt, en sumir gera það – en ég tel það sé alltaf af vankunnáttu og/eða óöryggi í samskiptum en ekki af hreinum og klárum vilja.

Lærum og lifum lífinu lifandi. 

Af hverju er Soffía frænka alltaf svona reið? …..

„Já fussum svei, já, fussum svei … söng Soffía frænka yfir bústað ræningjanna“ … enda dauðsáu þeir eftir að hafa rænt henni og vildu ræna henni til baka! 😉

Soffía frænka virtist eiga erfitt með að slaka á, en undir niðri reyndist þó hin vænsta kona.  Eitthvað hefur gert hana bitra og reiða, en auðvitað vitum við ekkert hvað það var,  eða hvað?

Reiði er eðlileg tilfinning.  Reiði kviknar yfirleitt þegar við upplifum eitthvað sem við teljum óréttlát.  Eitthvað sem við erum gjörsamlega ósátt við.

Hver hefði ekki reiðst ef hann hefði sofnað heima hjá sér í hengirúminu og vaknað í ræningjabæli? –  Auðvitað mátti Soffía frænka reiðast, enda brotið á henni.  En reiði Soffíu frænku var ekki bara háð því,  þetta virtist vera hennar fas og Kamilla litla var dauðhrædd við frænku sína.

Ég geri ráð fyrir að fólk þekki Kardimommubæinn! 😉 ..

Reiði er s.s. „viðeigandi“ á réttum stöðum,  en að dvelja í reiði er skaðlegt og skaðar ekki síst þann sem er uppfullur af reiði. –

Það liggur líka í orðanna hljóðan „að vera uppfull af reiði“ – þá kemst varla mikið annað að,  og það verður líka erfitt að hugsa skýrt.

Ég safnaði saman nokkrum tilvitnunum um reiði:

Að halda í reiði er eins og að grípa kolamola í þeim tilgangi að henda í einhvern;  það er sá sem heldur á molanum sem brennir sig.  Búdda     –
Reiði er eins og sýra sem skaðar meira kerið sem inniheldur sýruna sem það er í heldur en hvað sem henni er hellt á.  Mark Twain.   –     Talaðu þegar þú ert reið/ur og þú munt halda þá bestu ræðu sem þú munt nokkurn tímann sjá eftir.   Ambrose Bierce.    
Reiði og óþolinmæði eru óvinir skilnings.  Mahatma Gandhi.    –
Reiðin er drápstól:  hún drepur manninn sem er reiður,  því að hver reiði skilur hann eftir minni en hann var áður – hún tekur eitthvað frá honum.
Louis L´ Amour.     –

Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró. Ralph Waldo Emerson.   –

 
Sá sem reitir þig til reiði er sá sem sigrar þig.  Elizabeth Kenny.     –
Reiði sem er viðhaldið,  er iðulega skaðlegri en sárindin sem ollu henni.
Lucious Annaeus Seneca.
 
Maður ætti að gleyma reiði sinni áður en lagst er til hvílu.  Mahatma Gandhi.    –

 
Það sem byrjar með reiði endar í skömm.  Benjamin Franklin.     –
Svo er ágætt að enda þennan „reiðilestur“  á þessari mynd sem er alveg í anda greinar sem ég skrifaði undir heitnu „Afvopnaðu ofbeldismannin“ – og fjallar um það að gefa ekki fólki vald yfir okkur eða hugsunum okkar. –
Það er ótrúlegt frelsi að losna við reiðina og hluti af því að „vera heima hjá sér“ eða í höfðinu á sjálfum sér,   er að sleppa tökum á reiðinni gagnvart öðru fólki.
Reiðin getur að sjálfsögðu beinst inn á við,  við getum verið reið okkur sjálfum,  ég held ég þurfi varla að skrifa um það hér hvílíkur skaðvaldur það er og hversu uppbyggilegt það eiginlega er? –
Ef við endurtökum það sem Ralph Waldo Emerson sagði:
Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró.
Brian Tracy sem er þekktur fyrir að kenna fólki hvernig það nær árangri í lífinu segir að hugarró sé undirstaða farsældar.  Það hlýtur að þýða að því meiri hugarró,  eða æðruleysi,  getum við bara kallað það þess meiri farsæld og öfugt:  Þess minni hugarró og þá lengri dvöl í reiði þess minni farsæld. –
Takmarkið er FRIÐUR,  ytri friður og innri friður. –
Remez Sasson,  skrifaði eftirfarandi:
„Reiðin blossar upp þegar við upplifum gremju, óhamingju eða særðar tilfinningar,  eða þegar plönin okkar fara ekki eins og við ætluðum.  Hún birtist líka þegar við mætum mótstöðu eða gagnrýni.“ 
Ath!  Reiðin getur  því verið einn angi af stjórnsemi,  við fáum ekki það sem við viljum, hlutirnir eru ekki gerðir eins og við viljum eða ætluðum.  Okkar plani var breytt og við verðum pirruð næstum eins og við séum að einhverju leyti einhverf (ég veit þetta er djúpt í árinni tekið) því það er verið að breyta einhverju sem við plönuðum eða ætluðum.
Við getum til dæmis reiðst afskaplega þegar við fáum ekki starfið sem við vorum búin að búast við að fá eða stefna á,  við getum reiðst við alls konar missi, skilnað, atvinnumissi,  því vissulega er þeim breytingum þvingað upp á okkur.
Reiðin er sjaldnast hjálpleg.  Hún eyðir orkunni okkar, getur skaðað heilsuna,  skemmt fyrir samböndum, og getur valdið því að við missum af tækifærum.  Það að reiðast er að vinna gegn eigin farsæld!

Hlutir fara ekki alltaf eins og við plönuðum eða væntum. Fólk gerir ekki alltaf það sem þú ætlaðist til.  Við getum ekki alltaf stjórnað.

Getur verið að Soffía frænka hafi verið stjórnsöm kona? 😉

Við getum svo sannarlega ekki alltaf stjórnað atburðarás eða fólki, en við getum stjórnað hvernig við bregðumst við – a.m.k. í mörgum tilfellum.

Guðni í Rope Yoga segir „Við getum brugðist við eða valið okkur viðbrögð“ .. Til þess þarf að sjálfsögðu aga og æðruleysi.

Það er ekkert vit í því að leyfa aðstæðum og fólki að toga í strengina okkar (enda við ekki strengjabrúður) og leyfa þessu fólki að stjórna huga okkar og tifinningum.   Það er hægt að velja að láta ekki fólk hafa áhrif á skap okkar.

Sumt er þannig að ekki er hægt annað en að upplifa reiði, a.m.k. í skamma stund,  en stundum erum við að láta smámuni og (smá)fólk fara í taugarnar á okkur.  – Gera úlfalda úr mýflugu kannski og reiðast yfir hlutum sem okkur koma hreinlega ekki við.

Reiði eru neikvæð viðbrögð og ef við ætlum að stunda sjálfsrækt,  gera okkur að betri manneskjum og vinna andlega vinnu þurfum við að forðast reiðina eins og mögulegt er.

Að læra hvernig við náum slökun og að róa órólegan huga,  eignast hugarró,  er ein besta leiðin til að yfirstíga reiðina,  og allar neikvæðar tilfinningar.  Hugarró hjálpar okkur ekki bara við að sigrast á reiðinni, heldur einnig á kvíða og neikvæðum hugsunarhætti.

Ég held ég hafi svarað, að hluta til,  hvers vegna Soffía frænka var alltaf svona reið.

Soffía frænka var Ráðskona með stóru R.   Auðvitað varð hún reið þegar að búið var að ráðskast með hana,  taka hana fangna án hennar vitundar.   En hún var sko fljót að jafna sig blessunin,  og af hverju var það? –  Jú,  hún áttaði sig á því að hún gat STJÓRNAÐ ræningjunum.

Reiði Soffíu liggur því í óörygginu við að hafa ekki stjórn, en jafnar sig þegar hún fær að stjórna.

Atferlismynstur og einkenni meðvirkni skv. síðunni http://www.coda.is

Stjórnsemi

  • Mér finnst flest annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
  • Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim ,,á” að finnast og hvernig þeim líður í ,,raun og veru”.
  • Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
  • Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurð/ur.
  • Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem ég vil hafa áhrif á.
  • Ég nota kynferðislegt aðdráttarafl til að öðlast viðurkenningu.
  • Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í samskiptum við það.
  • Ég ætlast til þess að aðrir mæti þörfum mínum.
  • Ég nota þokka minn og persónutöfra, til þess að sannfæra aðra um að ég sé fær um að sýna ást og umhyggju.
  • Ég nota ásakanir og skammir til að notfæra mér tilfinningar annara.
  • Ég neita allri samvinnu, málamiðlun eða samkomulagi.
  • Ég beiti afskiptaleysi, vanmætti, valdi eða reiði til þess að hafa áhrif á útkomuna.
  • Ég nota hugtök úr bataferlinu til að reyna stjórna hegðun annara.
  • Ég þykist vera sammála öðrum til þess að fá það sem ég vil.

Það eru margar Soffíurnar í okkar samfélagi.  Kannski birtast þær ekki alltaf sem reiðar,  en vissulega stjórnsamar og reiðast vissulega þegar hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði.

Niðurstaða:  Soffía frænka var meðvirk og hennar helsta atferlismynstur var stjórnsemi.

Sjá meira hér:  http://coda.is/um-coda/einkenni/

Og meira til íhugunar:

Getur verið að reiði sé í mörgum tilfellum stjórnsemi? –  Að viðkomandi verði reiðir þegar að hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði og eins og þeir ætluðu að þeir færu? –  Hvernig bregst barnið við þegar það fær ekki það sem það vill? –  Stappar niður fótum og lætur öllum illum látum.  Sum hafa lent í svona börnum í stórmörkuðum.  Erum við ekki stundum eins og fullorðin börn í stórmarkaði lífsins,  sem e.t.v. höfum ekki fengið þau mörk sem átti að setja okkur? –  Kannski hefur foreldrið gefist upp,  til að róa barnið og fundist áhorfendaskarinn óþægilegur? –  hmmmm..

Þeir sem vilja öðlast hugarró geta haft samband og keypt  hugleiðsludisk hjá mér,  hafið samband við johanna.magnusdottir@gmail.com

Er einnig með einkaviðtöl, námskeið o.fl. hjá Lausninni,  sjá http://www.lausnin.is

LOVE ALL – SERVE ALL

Kjark til að breyta því sem ég get breytt …

 

Guð – gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.“

Reinhold Niebuhr Carnegie

Eitt af því sem fólk í sjálfsrækt eða sjálfsvinnu er að glíma við er að koma sér úr því sem kallað er „skaðlegar aðstæður.“

Það þarf kjark til að koma sér úr skaðlegum aðstæðum,  sérstaklega þegar að við erum orðin „samdauna“ þeim og finnst við í sumum tilfellum bara eiga þær skilið! –   Kannski ekki meðvitað en vissulega ómeðvitað.  Sjálfsmatið,  hið innra verðmætamat er þá ekki hærra en það að við gefum fólki leyfi til að ráðskast með okkur og jafnvel henda okkur fram og til baka tilfinningalega eins og við værum tuskubrúður. –

Við segjum ekki stop.  Þegar við erum í þannig aðstæðum sem geta verið mjög flóknar,  flóknar á þann hátt að við erum farin að vorkenna þeim sem kemur illa fram við okkur,  afsaka gjörðir hans/hennar með því að viðkomandi sé ekki sjálfrátt  o.s.frv.  erum við oft farin að taka þennan einstakling og tilfinningar hans  fram yfir okkar eigin tilfinningar,  fram yfir okkar eigin þarfir og fram yfir okkar eigin langanir.

Við geðjumst, þóknumst, gerum allt til að halda friðinn og gera rétt,  en það merkilega er að viðkomandi verður bara ýktari í neikvæðri hegðun sinni gagnvart okkur.

Af hverju?

Jú,  af því að við erum ekki verðug,  eða upplifum okkur ekki verðugri en það að við eigum þetta bara skilið.  Og ef við berum ekki virðingu fyrir okkur af hverju ættu aðrir að gera það?   Þetta skilja flestir ef ekki allir sem hafa lært eitthvað um meðvirkni.  Hvernig við ýtum undir slæma siði eða hegðun hjá öðrum með því að halda öllu góðu,  eða reyna það.  Þóknast og gefa afslátt af eigin þörfum til að geðjast hinum.

Auðvitað er hér um kunnáttuleysi og vanmátt í samskiptum að ræða.

Það er ágætt að muna þessa kjarnyrtu setningu:

„Elska skalt þú náungann EINS OG sjálfan þig“ ..

en ekki

„Elska skalt þú náungann MEIRA EN sjálfan þig“ ..  (og við mætti bæta að elska náungann þýðir ekki að bjóða honum að styðja undir fíknir hans og ósiði – nú eða bara veikleika og það að taka sjálfsábyrgðina af honum,  ábyrgð sem hann á að bera sem fullorðin manneskja).

Okkur langar öllum að vera góð,  fá viðurkenningu og vera elskuð,  en við eigum ekki að þurfa að geðjast, þóknast eða kaupa okkur þessa elsku.  Við erum NÓG sem manneskjur.

Það að vera fædd á þessari jörð er nóg til að verðskulda elsku.

Það er kjarkur að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart aðstæðum,  viðurkenna að við hreinlega kunnum ekki á þessar aðstæður sem við erum komin í,  oft mjög svo skaðlegar aðstæður.

Það er ekki fyrr en við sjáum aðstæður,  skiljum af hverju þær eru svona að við getum viðurkennt þær og þó það hljómi þversagnarkennt,  það er ekki fyrr en við sættumst við aðstæður að við getum farið að breyta.
Að sættast við aðstæður þýðir þá hér að viðurkenna þær og viðurkenna að við viljum breyta.   Stundum þarf til þess hjálp,  og alltaf þarf til þess kjark.

Aðstæður sem varað hafa lengi er eitthvað sem við þekkjum,  jafnvel þó þær séu vondar upplifum við eitthvað öruggt við þær.   Þetta er eitt af því skrítna í sálfræðinni,  en margþekkt.

Af hverju snýr ofbeldisþoli iðulega aftur heim til ofbeldismanns? –  Kannski eru þar aðstæður sem eru þekktar.

Tveir fuglar voru lokaðir inní búri.  Í búrinu var matur og öryggi en ekkert frelsi.   Þeir sungu á hverjum degi um frelsið og hvað þeir þráðu að fljúga.   Dag einn kom hendi og opnaði búrið og sagði „Gjörið svo vel þið eruð frjálsir“ ..   Annar fuglinn flaug samstundis út en hinn færði sig innar í búrið. –

Stundum er þörfin fyrir öryggið yfirsterkari þörfinni fyrir frelsi.   Þessi dæmisaga nær bara utan um muninn á öryggi og frelsinu,  en þarna mætti bæta við að á hverjum degi hefði eigandinn danglað hressilega í þá. –

Samt hefði annar fuglinn kosið að halda sig heima. –

Það þarf kjark til að breyta því sem við getum breytt og spurningin er líka,  „Hvað get ég?“ –   eða  „Þori ég, get ég vil ég?“ …

Við þurfum kjark, getu og vilja – allt í sama pakkanum.

Ef við viljum en hvorki getum né þorum gerist ekki neitt.

Ef við getum en viljum hvorki né þorum gerist ekki neitt.

Það þarf heilan pistil til að útskýra það af hverju við viljum en gerum ekki.  En þar er það sem gamla forritið kemur sterkt inn,  meðvirknin m.a. sem byrjar að þróast í bernsku,  meðvirkni sem verður til sem eðlileg varnarviðbrögð við einhverju óeðlilegu.   Það þarf ekki að vera neitt stórvægilegt,  það er frekar eins og dropinn sem holar steininn.  Eitthvað sem gerist inni á heimili,  kunnáttuleysi eða getuleysi foreldris í samskiptum,  tilfinningaflótti á heimili,  yfirborðsmennska,  feluleikur,  alkóhólismi,  veikindi af öðrum toga,  foreldrar sem eru fyrirmyndir sem sjálfir hafa lágt sjálfsmat og tala því út frá sársauka sínum og hafa vond samskipti af þeim orsökum. –

Við þurfum að sjá og viðurkenna sársaukann til að breyta,  við þurfum að trúa því að við séum þess virði að eiga allt gott skilið og byggja upp eigið verðmætamat og sjálfsvirðingu.

Það þarf kjark til að elska sig, virða sig, treysta sér, samþykkja sig og FYRIRGEFA sér og fyrirgefa um leið öðrum.

Engin/n hefur lifað lífi þar sem hann/hún hefur ekki gert mistök.  Stundum stór mistök.

Hræðslan við að breyta liggur oft í því að við erum hrædd við að gera mistök.

Við skulum ekki færa okkur innar í búrið bara vegna ótta við óvissu eða ótta við að gera mistök.  Þá erum við komin með ný trúarbrögð sem heita „Trúin á óttann“ ..

Ef við erum ekki viss hvort við erum að gera rétt,  þá förum við í næstu línu æðruleysisbænarinnar og biðjum æðri mátt/Guð um leiðsögn og biðjum um vitið eða viskuna til að greina á milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki breytt.

„Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt – því þú ert með mér“ ..  segir í Davíðssálmi 23.

Þegar við tökum óttann út úr jöfnunni.  Óttann við að fara út í eitthvað nýtt og óþekkt,  óttann við að gera mistök,  hvar stöndum við þá? –

Við stöndum ekki ein, aldrei ein – því við stöndum eftir með Guð/æðri mátt,  við stöndum eftir með kjarkinn til að breyta og við stöndum eftir með sannleikann,  sannleikann sem gerir okkur frjáls.

Það þarf kjark til að sleppa tökum á óttanum,  það þarf kjark til að sleppa tökunum á skömminni við að mistakast.  Ótti og skömm eru óvinir okkar,  og það þarf þor, getu og vilja til að sleppa af þessum óvinum tökunum.

Það þarf kjark til að horfast í augu við sannleikann.

En sannleikurinn gerir okkur frjáls svo…

… Trúum – Treystum – Sleppum …. 

 

Munum að allt tal um að vera föst,  eða í skaðlegum aðstæðum,  getur ekki síst verið vegna þess að við erum föst í vírgirðingu eigin hugsana, föst með fólk, staði og aðstæður í kollinum okkar,  sem við þurfum að sleppa. –  Kannski þurfum við ekkert að fara eitt né neitt.  Oft erum við stödd akkúrat þar sem við eigum að vera,  en þurfum aðeins að breyta okkar innri rödd, viðmiðum, sjónarhorni og sjálfstali. –

Fangelsið getur verið innra með okkur sjálfum.

Sleppa er því lykilorðið.

Sjáðu þig fyrir þér þar sem þú ert með krepptan hnefann og rígheldur í það sem heldur aftur af þér, neikvæðar hugsanir og vantraust í eigin garð.

Slepptu, fljúgðu og finndu hvað frelsið er yndislegt.

Af hverju meðvirkni? …

Orðið virkni eða að vera virkur er venjulega talið ágætt eitt og sér.  Það er auðvitað eitthvað til sem heitir of-virkur og van-virkur.   Öll þurfum við að vera virk, bara ekkert of eða van, það er meðalhófið sem er gulls ígildi. –

Ég ætla ekkert að ræða mikið meira hér um hvað meðvirkni er, – en það eru ýmsar skilgreiningar á henni og einkennum hennar sem má lesa á netinu. –

En af hverju verður til meðvirkni? –

Ég segi að grunnrót meðvirkni sé ótti.   Ótti við að missa.  Óttinn við að vera hafnað. Ótti við að vera ekki elskuð,  ótti við að tilheyra ekki ákveðnu mengi eða einhverri einingu,  hvort sem er um tvo aðila eða fleiri.

Við erum oft tilbúin að ganga mjög langt í þeim tilgangi að halda í þau sem við viljum vera með og umgangast. –
Við höfum þörf fyrir viðurkenningu, virðingu,  samþykki og athygli annarra.

Eftir því meira sem við viðurkennum okkur sjálf,  virðum, samþykkjum og veitum sjálfum okkur athygli,  minnkar þörfin fyrir að þetta komi að utan í samræmi við það. –

Þessi sjálfsvirðing hefur ekkert með „hið ytra“ að gera.  Hún þarf að koma að innan.  Ef þú ert forstjóri og missir vinnuna og verður atvinnulaus á það ekki að hagga innra verðmætamati. –  Sama hvað við störfum, hver efnahagur okkar er o.s.frv.  verðmæti okkar sem mannvera sem erum sköpuð hér á jörðu á ekki að minnka við það. –  Þetta eru ekki endilega skilaboðin sem fjöldinn allur sendir okkur eða hvað? –

Í glugganum í eldhúsinu hjá mér er planta,  hún var skrælnuð – það hafði gleymst að vökva hana.  Ég klippti hana niður og vökvaði og talaði fallega til hennar.  Já, talaði til hennar, og fékk reyndar líka hjálp frá ungri stúlku við það og við fengum að sjá fljótlega að plantan tók við sér og heldur betur,  því að hún fór að blómstra.

Plantan hefur ekki þetta viðnám sem við fólkið höfum.   Hún er bara planta og byrjar ekki með mótbárur sé talað fallega til hennar.  Hún segir ekki:

„Uss, ég á þetta nú ekkert skilið,  ég er bara ómerkileg planta,  af hverju ætti ég að blómstra?“ .. o.s.frv.? .. 

Plantan fær vatn, ummönnun, athygli og nýtur þess. –

Ég trúi því að okkar gamla forrit sé þannig gert að þegar við fáum hrós, eða talað er fallega til okkar, eigum við oft erfitt með að „kaupa það“

–  „Já, já, ég er dugleg/ur – „not“ ..   þessi veit nú ekki hvað ég get stundum verið ómöguleg/ur!!.. – ég á þetta ekkert skilið!“ .. 

Ef plantan hefði þessa „rödd“  inní sér þá efast ég um að hún myndi blómstra.

En hvernig tengist nú meðvirknin inn í þetta allt saman? –  Einhver innri rödd sem telur okkur e.t.v. trú um að við eigum ekki allt gott skilið?

Getur verið að í undirmeðvitundinn dvelji hugmyndafræði sem hindri framgang okkar í lífinu? –  Hvar skyldi þessi hugmyndafræði hafa fæðst?

Vitum við hvað við ættum að gera en virðumst ekki geta gert það?  Upplifum við sama mynstrið ár eftir ár?

„Like everyone else you were born into bondage. Into a prison
      that you cannot taste or see or touch. A prison for your mind.“
Morpheus – „The Matrix“

Sem mannverur erum við fædd allsnakin og varnarlaus,  og við erum forrituð til að læra að komast af.  Það eru góðu fréttirnar!

Vondu fréttirnar eru að við erum líka forrituð, á fyrstu árunum,  til að efast ekki um það sem við lærum af fullorðna fólkinu í kringum okkur.  Við förum ekki að efast eða draga í vafa réttmæti þess sem okkur er kennt fyrr en u.þ.b. sex ára gömul í fyrsta lagi.   (Wes Hopper)

Það þýðir að margt af því sem við lærum er bara alls ekkert endilega það besta fyrir okkur og kannski algjört rugl.  Ekki aðeins vegna þess að foreldrar, kennarar eða aðrir höfðu rangt fyrir sér,  þó oft hafi það verið, heldur vegna þess að hin reynslulitlu við, mistúlkuðum í sumum tilfellum það sem við sáum og heyrðum.

(Dæmi:  börn sem taka á sig ábyrgðina á skilnaði foreldra)

Börn fara að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður,  þau fara að vilja gera allt gott, allir eiga að vera „vinir“ – og taka ábyrgð á ýmsan máta.  Láta lítið fyrir sér fara, leika trúð, fá neikvæða athygli o.s.frv.

Alla veganna er það þannig að lengi býr að fyrstu gerð og þarna á fyrstu árunum myndum við grunninn fyrir hygmyndafræði okkar,  um okkur sjálf og hver við erum.  Við lærum þarna hvernig við eigum að sjá okkur sjálf og heiminn í kringum okkur.   Þarna er í sumum tilfellum skapað þetta fangelsi hugans sem talað er um í tilvitnunni.  „A prison for your mind“   – Einar Már rithöfundur skrifaði einmitt bókina „Rimlar hugans“ – sem er sama táknið að sjálfsögðu.

Sjálfsmyndin er fyrst sköpuð þarna, á fyrstu árunum.  Viðhorf okkar,  sýn á heiminn og annað fólk.  Viðhorf okkar til okkar sjálfra.  Hvort sem þetta viðhorf er sanngjarnt eða ekki er það forritað þarna.  Þetta viðhorf setur okkur í ákveðinn farveg sem getur verið erfitt að komast upp úr.

Það er þó ekki ómögulegt.  Fyrsta skrefið væri að átta sig á því að eitthvað er bara alls ekki rétt,  það er bara lygi hreint út sagt.  Það er t.d. lygi að við séum ekki verðmæt og eigum ekki allt gott skilið.  Margir ljúga því að sér daglega.

Við þurfum að skilja að við berum ábyrgð á eigin hamingju og það er ábyrgð hverrar fullorðinnar manneskju að viðhalda henni.

Við þurfum að saga rimlana – fara út úr fangelsi hugans.

Hver eru hin algengu viðhorf  í þinni fjölskyldu? –  Um fólk, um peninga, varðandi vinnu og hvað „fólk í fjölskyldunni þinni gerir“ ..og gerir ekki? –  Það er möguleiki að margt af því sé bara ekkert satt.

„Engin/n í okkar fjölskyldu hegðar sér svona“ .. gæti ættmóðirin sagt eftir að einhver hefur gert eitthvað sem henni líkar ekki. –

Ekki láta annað fólk skrifa þína lífssögu eða gera kvikmynd lífs þíns.  Spyrðu þig út í hugmyndafræði þína, og út í trú þína,  er þetta satt fyrir þér eða er þetta bara satt af því einhver sagði þér það einu sinni, fyrir langa löngu?“ .

Skrifaðu handritið að þínu lífi, eins og þú vilt hafa það!

Hvað gæti gerst? –  Einhver væri ósáttur við að þú gerðir eitthvað nýtt, eða fylgdir hjarta þínu, og hvað þýddi það? –  Að viðkomandi – kannski maki,  vildi þig ekki lengur? –  Elskar hann þig þá raunverulega?    Hvað með foreldra?   Hvað ef að unglingurinn kemur út úr skápnum og neitar að hafa e.t.v. fordómafullar skoðanir gagnvart samkynhneigð,  hann veit að þau viðhorf sem honum voru kennd ganga ekki upp? –  Missir hann tengsl við foreldra sína.  Já, það gæti verið – stundum er það þannig.

Það er því ótti við að vera ekki elskaður,  ótti við höfnun,  ótti við að missa tengingu sem stýrir því að ekki er hægt að vera maður sjálfur.   Þetta dæmi um samkynhneigð er gott,  en það er í raun dæmi fyrir svo margt. –  Margir óttast að velja námsbrautir sem þá langar að velja,  vegna þess að þá eru foreldrar ekki sáttir. –  Sumir velja sér maka frekar eftir „tékklista“ fjölskyldunnar heldur en að láta tilfinningar fyrir aðilanum ráða. –   Auðvitað er það byggt á ótta.

Stundum þora foreldrar ekki að segja NEI við börnin sín, – stundum er það reyndar vegna þess að foreldrarnir eru þreyttir og/eða hafa gefist upp og eru að kaupa sér frið,  en í öðrum tilfellum er það þannig að þeir óttast að ef þeir segi nei hefni barnið sín með einum eða öðrum hætti.   Þetta gæti t.d. átt við í tilfellum þar sem um er að ræða skilnaðarbörn,  ef að pabbi segir Nei – það má ekki, þá vil ég bara vera  hjá mömmu eða öfugt.   Þarna er líka um ákveðna stjórnun að ræða af barnsins hálfu,  án þess að fara nánar út i það í þessum pistli.

Það þurfa allir að finna eigin innri rödd, stunda sjálfstyrkingu en ekki sjálfskyrkingu eða sjálfspíslarhætti, – ekki láta stjórnast af því sem var forritað einu sinni og ekki viðhalda því sjálf. –  Það eiga allir elsku skilið.

Ekki stjórnast af ótta heldur KÆRLEIKA.

Leyfum okkur að elska án skilyrða – líka okkur sjálf.  Setjum ekki hindranir fyrir andardrátt lífsins,  ekki búa til stíflur í árfarvegi hugsunarinnar.

Ekki setja upp ósýnilega rimla – eða fangelsisveggi – komum út og finnum það sem fylgir frelsinu að vera við sjálf. –

Leyfum okkur að anda,  flæða – lifa og VERA.


 

Einkaráðgjöf og sálgæsla – Vesturland

Þar sem ég er flutt á Hvanneyri hef ég tækifæri til að bjóða upp á einkaviðtöl og sálgæslu fyrir fólk á „Stór-Hvanneyrarsvæðinu.“

Er sjálfstætt starfandi guðfræðingur (með embættispróf í guðfræði) auk þess með kennsluréttindi í framhaldsskóla, fjöldan allan af námskeiðum m.a. úr endurmenntun Háskólans í Reykjavík  og hef verið undanfarin tvö ár með námskeið, fyrirlestra, hugleiðslur, hópfundi og einkaviðtöl undir hatti Lausnarinnar sem eru grasrótarsamtök um sjálfsrækt og vinna aðallega með meðvirknimódelið. –  Sjá www.lausnin.is

(Ath! ég er með viðtalstíma í Lausninni, Síðumúla 13,  Reykjavík á fimmtudögum

Annars verð ég með aðstöðu heima til að byrja með, á Túngötu 20a Hvanneyri.  

Hægt er að panta tíma johanna@lausnin.is   eða í síma 895-6119, vegna alls konar vanlíðunar, kvíða, skilnaðar, hjónabands-sambúðarörðugleika, missi, sorgar,  lélegrar sjálfsmyndar,  samskiptaörðugleika  eða bara almennrar sjálfstyrkingar og til að átta sig á hvað það er sem heldur hamingjustuðli þínum niðri og þá hvað er hægt að gera í því!   (Ég tala um hamingjustuðul sálarinnar, svipað og talað er um þyngdarstuðul líkamans).   

Gjald fyrir einkaviðtal er 8000.-  krónur (60 mín)

Er einnig að fara að kenna á námskeiðum hjá Símenntun Vesturlands,  m.a. um meðvirkni,  hugleiðslu og sjálfstyrkingu – fylgist endilega með þar:  www.simenntun.is   

Lykilorð eru heiðarleiki – hugrekki  – kærleikur 

Hægt er að lesa meira um mig hér á síðunni, og pistla sem ég hef skrifað sem fjalla flestir um efnið sem ég er að vinna með, og eru byggðir að miklu leyti á reynslu minni af því að ræða við og hlusta á fólk.  Við erum öll eins og við erum flest að glíma við svipuð vandamál,  sem verða yfirleitt minni þegar við förum að deila þeim með öðrum, sitjum ekki ein uppi með þau, og áttum okkur á því að við erum ekki ein. –

EINKAVIÐTÖL – KENNSLA – NÁMSKEIÐ – FYRIRLESTRAR

Hafið samband: johanna@lausnin.is  eða s. 895-6119 

„Forða oss frá illu“…

VIRTU ÞIG NÆGILEGA
TIL ÞESS
AÐ GANGA BURT
FRÁ ÞVÍ SEM EKKI
GAGNAST
ÞÉR LENGUR,
LÆTUR ÞIG VAXA
EÐA VEITIR ÞÉR HAMINGJU
.

Þegar við förum með „faðirvorið“ og segjum „forða oss frá illu“ – þá gætum við verið að biðja um hjálp til að forða okkur úr skaðlegum aðstæðum,  kannski þurfum við að gera meira af því að biðja um þá hjálp? –

Margir spyrja sig eftir á:

„Af hverju fór ég eða gerði ekkert fyrr“ –

„Hvað var eiginlega að mér?“

Það er ekkert að þér,  þú trúir bara að það sé eitthvað að þér því  það var bara búið að innprenta í þig að þú ættir e.t.v. ekki betra skilið, ættir skömmina, ættir að þrauka, halda friðinn o.s.frv.

Nú, ef það er búið að innprenta svoleiðis hugsun, þá þarftu hjálp við að „útprenta“ hana.

Það er sjálfsvirðingin sem ber skaða þegar að við förum að lifa lífi annarra, þóknast, geðjast eða hylma yfir á eigin kostnað. –

Fullorðnir einstaklingar eiga að bera ábyrgð á sjálfum sér. Ef einhver „lætur“ þér líða illa þarftu að skoða hvað ÞÚ getur gert í því og hvort þú átt að samþykkja það eða ekki.  Ef við getum ekki borið ábyrgðina þurfum við að spyrja okkur „af hverju ekki?“ – getur verið að við séum enn með viðbrögð barnsins, unglingsins og þá raddirnar sem innprentuðu í okkur að við ættum það vonda skilið sem yfir okkur gengi? –

Um leið og þú játar að þú eigir allt gott skilið, eða játar viljann til að eiga allt gott skilið hefur þú tekið fyrsta skrefið í að forða þér frá illu.

Vittu til,  það er alltaf einhver sem elskar þig.

Aldrei nógu dugleg, aldrei nógu góð og aldrei nógu mjó? …

Ég var að kenna á námskeiði nýlega og setti upp á töflu:

Við erum aldrei nógu _________________________

og bað þau sem þar voru að fylla í eyðuna, kasta fram sem upp á vantaði, það komu fleiri orð,  en ég held að þetta séu þau algengustu.

Eflaust er það síðasta – „aldrei nógu mjó“ algengara hjá konum en þó eru karlmenn þar líka  og við þekkjum hvað gerist þegar að það að vera aldrei nógu mjó fer yfir strikið; – þá breytist það í sjúkdóminn anorexíu.

Að sama skapi,  þegar við erum aldrei nógu góð eða dugleg, getum við farið yfir í sjúklegt ástand, við göngum fram af okkur í dugnaði – förum langt yfir strikið alveg eins og anorexíusjúklingar, – og enn og aftur það sama í góðmennskunni.

Í öllum tilfellum erum við orðin sjúk.

Svona hættuleg er fullkomnunaráráttan.

Fullkomnunarárátta lærist af samfélagi sem gerir kröfur sem eru sjúkar.

Ég hef verið í öllum þessum hlutverkum,  ekki nógu góð, ekki nógu dugleg og ekki nógu mjó.  Það veldur því að ég var aldrei nógu sátt, og því aldrei hamingjusöm. –

Ef ég var góð og að sinna einhverjum,  var ég kannski að berja mig fyrir að vera ekki að sinna eða vera góð við einhvern eða einhverja aðra.

Ef ég var dugleg að vinna, en ekki dugleg að þrífa heima var ég ekki nógu dugleg, punktur.   Eða öfugt.

Ef ég var komin í „rétta“ þyngd gat ég samt fundið einhverja „vansköpun“ of þykkir ökklar,  ekki sá „súperkroppur“  sem ég ætlaði mér að vera.

Þrátt fyrir allt ofangreint,  geri ég mér grein fyrir því að ég var mjög dugleg, mjög góð og með eðlilegt og heilbrigt vaxtarlag.   En ég var ekki nóg.

Orsökin kom úr uppeldi og orsökin kom úr umhverfi.

Svo fór ég ásamt fv. manni mínum að ala upp börn, en hann var líka með sömu einkenni, að vera ekki nóg, þó við sýndum þau á mismunandi hátt. –  Lélegt sjálfsmat getur bæði komið út í vanmáttarkennd, að finnast við ómerkileg og óverðug og líka í ákveðnum hroka gagnvart öðrum,  en það er hrokagríman til að aðrir sjái ekki að hvað við erum „í raun“  ómöguleg.  (Það er það sem okkur finnst, eða höldum um okkur).

Börnin læra að þau séu ekki nóg, ekki nógu mjó, ekki nógu dugleg og ekki nógu góð,  og færa það yfir á börnin sín sem ef ekkert er að gert.

Það er því okkar sem „vöknum“ að rjúfa keðjuna.

Það sem ég er að lýsa hér að ofan er auðvitað það sem ég er að vinna með dags daglega.  Ég er „sérfræðingur“  í sjálfri  mér og mínum bata og það er þess vegna sem ég á auðvelt með að sjá og nema annað fólk og hvar það er statt.

Við erum þarna flest,  þ.e.a.s. að vera ekki nóg.  Við þurfum að vakna til meðvitundar um það hvað er að,  af hverju við getum ekki verið ánægð,  og þegar meðvitund er náð og við förum að hætta að gera óraunhæfar kröfur til okkar sjálfra,  vera okkar bestu vinir og lifa í meðvitund erum við komin á réttan veg. –  Veg hamingjunnar.   Vegur hamingjunnar liggur í því að upplifa sig í að vera nóg,  skilyrðislaus hamingja sem hefur ekkert að gera með útlit, dugnað eða hversu mikið af góðverkum við vinnum. –

Þessi ofangreindi pistill varð til í morgungöngunni þar sem ég rölti hér hringinn, Holtsgata, Bræðraborgarstígur, Sólvallagata, Vesturvallagata og svo aftur Holtsgata.  – Ég geng hann með glaðan voffaling þegar ég er að passa hann fyrir dóttur mína. –

Yfirþyrmandi þakklæti fyllti huga minn,  í morgunkyrrðinni.  Ekki bara þakklæti, heldur líka ást, – því núna þegar ég hef lært svona mikið á sjálfa mig og lært að ég má elska sjálfa mig,  get ég fyrst farið að elska í raun og veru.  Ekki á forsendum óttans að einhverjum líki ekki við mig,  að ég sé ekki nóg. –

Við lærum það sem fyrir okkur er haft,  en það er algjörlega óþarfi að dæma foreldra okkar eða þá sem kenndu,  líka heiminn því að heimurinn kann ekkert á þetta frekar en við. –  Ekki kunni ég á þetta heldur.

Við erum særð börn særðra barna, sárin koma hægt og bítandi.

Eina sem við getum raunverulega gert er að láta af dómhörku og óraunhæfum og ómanneskjulegum væntingum í eigin garð og annarra. –  Þær væntingar verða aldrei upp fylltar og því enda þær alltaf í vonbrigðum.

Gleðjumst yfir og þökkum fyrir það sem er,  og fögnum því að vera nóg,  ekki þegar og ekki ef,  heldur núna. –  Við erum öll elsku verð, skilyrðislausrar elsku, ekkert „ef“ og ekkert „þegar“   við erum elskuð núna,  og hvers vegna ekki af okkur sjálfum? –   Vegna þess að ég er ekki nógu ____________________?

Ég hef lýst æðra mætti/Guði  sem mætti sem elskar okkur skilyrðislaust og sem fyrirgefur skilyrðislaust.  Ástæðan fyrir því að margir leita þangað er til að fá hjálp við að elska sig og virða,  er að æðra mætti er ekkert ómögulegt.  Í því liggur almættið, í hinu skilyrðislausa.

Ég trúi að við séum sköpuð í mynd þessa almættis og ef svo er þá ættum við að hafa möguleikann á að elska skilyrðislaust og fyrirgefa. – Við höfum bara villst af leið.

Fagnaðarerindið er að við erum nóg, við erum sama mannveran og áhyggjulausa barnið sem var í öruggu móðurlífi,  fékk næringu frá móður, upplifði öryggi móðurlífs og var umvafið kyrrð legvatnsins.

Guð/æðri máttur/cosmos/vortex – eða hvað sem við viljum kalla það er móðurlífið okkar, kyrrðin, öryggið, næringin, elskan og allt sem er gott og verndandi.

Þegar við eru stödd þar erum við í sátt og vellíðan.

Eftir því sem við getum dvalið þar lengur og oftar,   þess betra verður líf okkar og það er líf í bata.  Það þarf að aflæra það sem afvegaleiddi og læra það sem kemur okkur til baka, og til eru aðferðir við að komast þangað,  vegna þess að við svo sannarlega erum týnd í heimi sem afvegaleiðir og gefur röng skilaboð. – Þær aðferðir þekkja margir sem hugleiðslu, yoga, tengingu við náttúru o.fl.  Það getur engin/n gengið þá leið fyrir okkur, en öll höfum við möguleika á þeirri göngu ef við viljum,  okkar er valið.

 

Nánd, knús og kynlíf ..

Á námskeiðum Lausnarinnar um „Lausn eftir skilnað“ koma alltaf upp sömu spurningarnar og pælingar um kynlíf. – Sem betur fer er fólk nógu einlægt til að ræða það, því að námskeið þar sem fólk getur ekki verið heiðarlegt og einlægt að spyrja um það sem liggur þeim á hjarta gerir lítið gagn.

Flest fólk hefur þörf fyrir kynlíf, – jafnvel í sorgarferli. –  Stundum bara nánd, snertingu og knús frá gagnstæðu kyni, nú eða sama kyni ef um samkynhneigða er að ræða.   En um leið er það í fæstum tilvikum tilbúið og ekki í stakk búið til að hefja samband.  – Hvað á þá að gera? –

Kynlífið er að sjálfsögðu meira en bara samfarir,  kynlíf er einmitt snerting, nánd og knús – og svo margt, margt meira. –

Í Coda bókinni  þar sem talað er um meðvirkni er sagt að eitt einkenni meðvirkni sé að sætta sig við kynlíf þegar að þú vilt ást. –

Nú flækist málið!

Ég held að þarna verði að mætast tveir aðilar sem eru svipað staddir, – sem eru tilbúnir í kynlíf nú eða knús,  án þess að fara í allan pakkann – eða a.m.k. ekki strax  – en kannski með þeim formerkjum að þessir tveir einstaklingar séu ekki að stunda kynlíf með öðrum einstaklingum líka – eða hvað? –

Verst að þetta er ekki allta svona einfalt,  kannski byrjar þetta svona, en hvað ef vakna tilfinningar hjá öðrum aðilanum en ekki hinum? –  Er hægt að stunda kynlíf saman í langan tíma án ástar? – Það hlýtur a.m.k. að koma einhvers konar væntumþykja.  Þá gæti hin/n meðvirki/meðvirka farið að sætta sig við kynlífið til að halda í elskhugann.   Það væri auðvitað óheiðarlegt og hann væri ekki að virða tilfinningar sínar.

Það mikilvæga er nefnilega að báðir aðilar komi hreint fram, – láti vita hvað þeir vilja, langar og þurfa, og á hvaða forsendum.

Eru forsendur beggja samræmanlegar? –

Hættan við að byrja of brátt í sambandi aftur,   er að fólk sé hreinlega ekki búið að ná áttum og ekki búið að ganga í gegnum sorgarferlið og ætli jafnvel að fresta því eða taka „short cut“  með því að finna sér annan maka of fljótt. – („Short cut“ er þarna að stytta sér leið og hefur ekkert með „shortara“ að gera! 😉 )

E.t.v. er hægt að vinna þetta samhliða, ef fólk fer hægt í sakirnar og gefur hvort öðru tilfinningalegt rými og frelsi.

Margir leita að aðila til að eiga kynlíf með, – en vilja ekki fara í allan fjölskyldu- og ættarmótapakkann svona í sömu vikunni..

Sambönd verða að fá sinn tíma til að þroskast og þróast og við flýtum þeim ekki,  þá er alltaf hætta á að eitthvað bresti.

Sambönd verða að byggja á gagnkvæmni, ekki ótta annars aðilans við að missa hinn,  og alls ekki á lygi.

Ég hlustaði einu sinni á konu sem sagði: „Ég hitti þennan mann, ég var ekki alveg tilbúin en ég var svo hrædd um að ég væri að missa af tækifærinu ef hann væri sá rétti“ …   Ef maðurinn er virkilega sá eini rétti þá gefur hann henni sinn tíma og er þolinmóður og öfugt.   Ef það er til eitthvað sem heitir „Mr. Right“ eða „Mrs. Right“ – fyrir okkur,  þá er þessi aðili hinn rétti og ekkert breytir því. –

Við getum oft ætlað er að vera vitur og gera allt faglega,   „I can´t help falling in love with you“ .. syngur hjartaknúsarinn Julio – og  stundum er bara við ekkert ráðið, – en þá er að vinna úr þeim aðstæðum líka. – Taka það á æðruleysinu eins og annað! ..

Reyndar er hverjum manni hollt að verða ástfanginn af sjálfum sér, og það má líka hlusta á Julio með það í huga, – að komast ekki hjá því að verða ástfanginn af sjálfum sér!  …   Það er auðvitað besti grunnurinn fyrir ást á öðrum einstakling. –

„Love is not something we give or get: it is something that we nurture and grow, a connection that can only be cultivated between two people when it exists within each one of them – we can only love others as much as we love ourselves“ (Brené Brown, PhD).

Jæja, pistill um kynlíf og knús breyttist í pistil um ást .. svona vill þetta fara! ..

Hér er karokee útgáfa svo hægt er að syngja með: