„Because the cosmos is also within us.“ (Carl Sagan)
„Be the Change you wan´t to see i the world“ – (Gandhi)
Vert þú breytingin sem þú vilt sjá í heiminum. –
Með því að sinna þér sem góður umhverfisverndarsinni, bjóða þér upp á góða andlega og líkamlega næringu, – huga vel að velferð þinni.
elska
virða
sættast
treysta
fyrirgefa
þakka
og lifa í meðvitund
Fegurðin lífsins liggur í því hvernig lifandi verur eru tengdar. Í tengingu við aðrar manneskjur og í tengingunni við náttúruna.
Fátt er því mikilvægara en að samskipti „heimanna“ séu góð, – því vond samskipti skapa ljótleikann.
Heimur sem er heilbrigður og í jafnvægi hefur ekki áhuga né þörf fyrir að meiða aðra. Sjálfsheilun er því forsenda okkar fyrir góðum samskiptum.
smá aukaefni og „bein útsending:“
Brosi nú í kampinn þar sem hjá mér liggur yndislegt líf, hundurinn Simbi sem kúrir hér við mjöðmina mína, og það er eins og hann viti að ég er að skrifa um hann því hann fór að sleikja á mér hendina, en það er ekkert sem hann stundar venjulega.
Þetta hljómar ekki ósvipað og „út úr skápnum“ – og þýðir ekkert ósvipað heldur. –
Allir setja upp skráp, þessi skrápur myndast eins og hrúður og þykknar með hverju áfalli.
Vandamálið er að þessi skrápur lokar ekki aðeins á vondar tilfinningar, heldur líka góðar tilfinningar. Þeir sem eru með þykkasta skrápinn, eru orðnir ófærir um að yrða eða virða tilfinningar sínar. –
Kannski ófærir um að elska eða taka á móti elsku?
Eftir því fleiri tilfinningum, vonbrigðum og sárindum yfirleitt við kyngjum eða tökum á móti án þess að virða þær, gráta yfir þeim, segja frá þeim eða leyfa okkur finna þær, þess þykkari, harðari OG þyngri verður skrápurinn.
Það liggur í hlutarins eðli. að það sem er þungt það iþyngir okkur, hamlar og stöðvar. –
Ef við erum með þykkan skráp, vegna ítrekað mislukkaðra sambanda, höfnunar, vantrausts, sorgar og sára þá heldur hann auðvitað aftur af okkur að taka skref inn í nýtt samband. –
Skrápurinn er eins og varnarskjöldur, – við látum hvorki sverð stinga, né ástarpílur amors hitta því að við erum í vörn.
Partur af því að lifa er að finna til. Vera viðkvæm. Vera ófullkomin. Vera auðsæranleg. –
Það sem ég er að segja hér, er í takt við það sem Brené Brown, rannsóknarprófessor er að tala um þegar hún ræðir „Power of Vulnerability“ ..
Vald berskjöldunar
Sigur þess að koma út úr skrápnum
Þau sem eru inní skrápnum erum við.
Það er hugrekki að stíga út úr skápnum, viðurkenna veikleika sína, viðurkenna tilfinningar sínar og jafnvel að ræða skömm sína, en eins og áður hefur komið fram þá hatar skömmin að láta tala um sig því þannig eyðist hún. –
Það eru nefnilega tilfinningarnar, þessar erfiðu sem hafa búið til skrápinn, – skömmin, samviskubitið, gremjan og allt eftir því, – tilfinningar sem við höfum upplifað en kannski ekki rætt við einn einasta mann.
Viljum við vera tilfinningalaus? – Dofin? – Er það ekki bara auðveldast?
Það væri voða gott ef það væri bara hægt að loka á vondu tilfinningarnar, – hægt að velja úr, en því miður er það ekki hægt því þær spila saman.
Við verðum að virða tilfinningarnar (sjá þær) ganga í gegnum þær, það er stysta og áhrifaríkasta leiðin, – ekki festast í þeim, ekki hafna þeim, því þannig búum við til þykkari skráp. – Þannig festumst við í sama farinu og komumst hvorki lönd né strönd. –
Það er ekki neikvætt að vera tilfinningavera – „E-motional“ vera hreyfanleg. Andstæða þess að vera hreyfanleg, er að vera föst, jafnvel frosin.
Hver kannast ekki við tilfinningakulda? –
Kannski er einhver tilfinningavera ólgandi inní skrápnum, en þorir ekki út?
Hvað veldur? –
Það er ekkert voðalega mörg ár síðan að Hörður Torfason hrökklaðist frá Íslandi vegna þess að hann kom út úr skápnum með sína kynverund, sem samkynhneigður einstaklingur. –
Kannski þarf brautryðjendur til að koma út úr skápnum með sína tilfinningaverund, sem tilfinningavera. – Kannski má gráta, líka fyrir framan aðra. Kannski má sýna tilfinningar? – Líka stóru og sterkbyggðu karlmennirnir sem líður illa inní sér?
Það má hlæja og það má gráta, það er okkar eðli.
Komum út úr skrápnum og förum að lifa lífinu af tilfinningu.
„Það er bara ekki ÉG að gráta fyrir framan fólk“ – hef ég sjálf sagt og heyrt marga aðra segja. Hver er það þá sem var að gráta, ef það var ekki ÉG? –
Var það ekki bara akkúrat ÉG?
Öld Vatnsberans er runnin upp, vatnið er tákn fyrir tilfinningar í ýmissi táknfræði, tárin okkar eru vatn. Þau spretta fram við tilfinningar, við grátum af gleði og við grátum af sorg.
Ef við byrgjum inni, þá er svo mikil hætta á að vanlíðanin brjótist út í ljótum orðum, gjörðum og jafnvel ofbeldi. Birtingarmyndin getur verið ofbeldi gagnvart okkur sjálfum eða gagnvart öðrum. Meðvirkni er t.d. í mörgum tilfellum sjálfspíslarhvöt sem myndast þegar eigin tilfinningar eða þarfir eru ekki virtar. – Ofbeldi gagnvart öðrum er aðferð særðu manneskjunnar í skrápnum við að kalla á hjálp. –
Brené Brown segir eftirfrandi, – og ég hef oft haft það eftir henni:
„Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar“ …
Hluti af sjálfsvirðingu er að virða tilfinningar sínar.
Við eigum að finna til, hvort sem það er til gleði eða sorgar. Ekki deyfa, flýja eða afneita tilfinningum okkar. – Það eru engin „short-cuts“ ..
Að lifa af heilu hjarta, að fella skjöldinn eða koma út úr skrápnum, er að hafa hugrekki til að sýna tilfinningar, hugrekki til að viðurkenna veikleika, hugrekki til að tjá sig um langanir sínar og drauma, hugrekki til að elska þrátt fyrir yfirvofandi sár eða höfnun, því þegar við elskum lifum við í yfirvofandi skugga þess að vera hafnað eða að missa ástina, – það er eins og lífið er, við lifum í skugga þess að einn daginn endi lífið, en við hættum ekki að lifa. –
Að elska er að lifa.
Að finna til er að vera til.
ég óttast ekki svikin loforð
vegna þess að ég held
að betra sé að elska og missa
en missa af því að elska
Er að endurvekja þennan pistil – en hann var upphaflega birtur í byrjun maí 2012.
Þessi pistill er skrifaður til þeirra sem hafa gengið í gegnum skilnað.
Ég er nú búin að hlusta á marga lýsa hvað þeir eru að upplifa eftir skilnað og eitt af því sem fólk er mjög upptekið af, er hvað fyrrverandi maki er að aðhafast. Svo ekki sé talað um ef að hann er kominn með nýjan maka.
Fókusinn getur í ákveðnum tilfellum orðið svo sterkur á líf fyrrverandi maka, að eigið líf fellur alveg í skuggann, og reyndar gleymist alveg.
Ef það sem fyrrverandi er að gera hefur ekki bein áhrif á þig, fjárhagslega eða ef það eru börn í spilinu og hegðunin snertir þau illa, þá kemur þér það ekkert við! ..
Annað hvort er fólk skilið eða ekki.
Situr þú heima og hugsar: „Hvað ætli hann sé að gera núna?“ – „Oh, nú er hann búinn að bjóða henni til Spánar“ – eða „Æ, er hún að fara með þessum gaur á skíði“ .. „Hún gerði þetta nú aldrei fyrir mig“ .. „Hvað ætli þau séu að gera núna?“ .. o.s.frv. –
Svo er það samviskubitsskilnaðurinn „Æ, ætli hún/hann bjargi sér“ – „Hvernig getur hún/hann reddað þessu?“ – „Rosalega er ég vond/ur að skilja við hann/hana, ég hefði kannski bara átt að þrauka þetta“ ..
Við verðum að gera ráð fyrir að hér sé um fullorðna einstaklinga að ræða, sem verða að læra að vera sjálfbjarga. Engin/n á að vera í hjónabandi gegn sínum vilja, bara af skyldurækni. Það er í raun óheiðarleiki, og gæti líka valdið því að viðkomandi færi að vera vondur við maka sinn, vegna eigin vanlíðunar. Það ætti að mínu mati alltaf að leita hjálpar, ráðgjafar eða að skoða orsakir þess að hjónaband er að trosna, áður en út í skilnað er farið, og endilega áður en út í einhver hliðarspor er farið. Það er mun dýrara að skilja en leita sér ráðgjafar, en þegar fólk hefur tekið ákvörðun og er jafnvel búið að taka skrefið, hjálpar það engum að lifa við samviskubit.
Ef þú ert með hugann, eða fókusinn á fyrrverandi maka, þá ertu ekki með hugann hjá sjálfum/sjálfri þér og þá ertu heldur ekki að vinna í þínu lífi, að koma því á flot á ný, heldur stödd/staddur víðs fjarri þér. – Jafnvel, í sumum tilfellum, að reyna að komast (meðvitað eða ómeðvitað) upp á milli þíns fyrrverandi og nýju konunnar/nýja karlsins. –
Þetta virkar auðvitað í báðar áttir, sá eða sú sem er komin/n í samband er stundum, samt sem áður, upptekin/n af sinni/sínum fyrrverandi eða er stjórnað af honum/henni og það er kannski ekki sérlega áhugavert fyrir nýja aðilann í lífi hans/hennar.
Því fyrr sem þú sættir þig við að þinn/þín fyrrverandi er farin/n að lifa sínu lífi, getur þú farið að lifa ÞÍNU lífi, og það skiptir ÖLLU máli. –
Athugaðu líka eitt; að ef að þið eigið börn saman, hlýtur þú að óska fyrrverandi maka hamingju, – vegna þess að börnin græða alltaf á að eiga hamingjusama foreldra.
Pabbi og mamma eiga kannski ekkert voðalega auðvelt með að vera glöð svona fyrst eftir skilnað, og jafnvel þó að sumir nái sér í annan félaga fljótlega eftir skilnað, þýðir það ekki að sárin séu ekki enn að gróa. –
Að óska öðrum velfarnaðar og hamingju, á aldrei að skaða okkar eigin hamingju. Ef að hamingja annarra skyggir á okkar hamingju, þá þurfum við að íhuga okkar gang. –
Allir eiga skilið að njóta farsældar.
Þó að par eða hjón skilji, þarf það ekki að þýða að þau séu vond, eða annar aðilinn vondur. Það getur þýtt að þau hafi ekki kunnað á samskiptin sín á milli. Hafi þroskast í sitt hvora áttina eða eitthvað álíka. Hafi e.t.v. ekki kunnað að veita hinu athygli, – og ekki kunnað að veita sjálfu sér athygli.
Kannski fær makinn meiri athygli eftir skilnað, en nokkru sinni í sjálfu hjónabandinu? – Hvað er það? Var ástin þá á eigingjörnum forsendum eða var hún skilyrðislaus? –
Hver og ein manneskja, hvort sem hún er fráskilin eða ekki, ber ábyrgð á sinni hamingju. Það getur vel verið að hún sé niðurbrotin, orðin lítil í sér eftir átök og árásir stjórnsams maka, – að hún komi viðkvæm og veik út úr brostnu hjónabandi, en þá er vinnan að gera sig heila/n. Ekki með því að standa í hefndaraðgerðum gegn fyrrverandi, eða vera með hugann hjá honum sí og æ, heldur með því að setja fókusinn á sjálfa/n sig. –
Fullt af fólki lagði leið sína í Bauhaus þegar það opnaði, – hvert erindi þessa fólks var kemur okkur nákvæmlega ekkert við. Við gætum eytt tíma okkar og orku í að dæma þetta fólk og pæla í erindi þeirra, en hvað hefur það upp á sig? – Kemur okkur eitthvað við hvað annað fólk er að gera á meðan það er ekki að beita ofbeldi eða fremja einhver hryðjuverk? –
Það sem skiptir aðal máli er ekki hvar hinir eru, eða hvað þeir eru að gera – heldur hvar við sjálf erum staðsett í okkar lífi. – Njótum þess að vera þar sem við erum, á okkar stað og í okkar tíma.
Skilnaður hefur mismunandi aðdraganda, hann getur komið okkur algjörlega í opna skjöldu, eða fólk hefur lengi verið að íhuga skilnað. Hann getur komið í friði, þ.e.a.s. hjón finna að sambandið er kulnað og þau treysta sér ekki til að blása lífi í það á ný, eða hann getur komið eins og stormveipur, algjört áfall fyrir annan aðilann. –
Aðdragandinn getur verið enginn eða langur, alveg eins og ef að um dauðsfall væri að ræða. Hvernig sem hann ber að höndum, fylgir honum sorg og sorgarferli, það þarf að fara í gegnum það ferli, væntanlega sárar tilfinningar eins og höfnun, reiði, doða, afneitun … en það er aðeins með því að fara í gegnum þessar tilfinningar sem við náum þroskanum. –
Sá sem er þroskaður fer líka að skilja það að dómharka eða hefnd virkar helst á þann sem hana ber í brjósti. – Það gerir hjartanu ekki gott. –
Það er því best að leyfa tilfinningunum að koma, fara í gegnum þær, kveðja þær og blessa, og um leið sinn fyrrverandi og fara svo að lifa SÍNU lífi. –
Eftirfarandi færsla er frásögn af því hvernig ég notaði myndlíkingu af fjallgöngu sem hálfgert markþjálfunartæki fyrir nemendur.
Fjallið sem um ræðir var kallað Hraðbrautarfjallið notaði ég það sem markþjálfunartæki í Menntaskólanum Hraðbraut þar sem ég var aðstoðarskólastjóri og var viðstödd sex útskriftir stúdenta þaðan. –
Nemendur voru þá að ganga á fjall og á toppnum var mark sem á stóð “STÚDENTSPRÓF”
Fjallið samanstóð af fimmtán hólum (lotum). Á milli þessara hóla voru lautir, en það var “hvíldarvika” þar sem nemendur áttu helst flestir að hvíla í, en sumir þurftu að nýta til að ná upp þeim sem voru búnir. Það er eins og við þekkjum á fjallgöngu.
Sumir eru alltaf á undan og hafa þá tækifæri til lengri hvíldar í stoppunum. –
Lotan eða hóllinn samanstóð því af 4 vikum námi, 1 viku lokaprófum, og 1 viku frí. Eins og áður sagði hvíldust sumir en aðrir þurftu að nota þessa viku til að taka upp 1 -3 próf. –
En einn hóll var kláraður í einu. –
Hólarnir voru eins og áður sagði 15 stykki. –
Ég teiknaði upp fjallið svo að hver og einn nemandi gæti staðsett sig og jafnvel merkt sig inn á slóðina. Hvar hann væri staddur. –
Gert X yfir þær hæðir sem voru búnar. Litið yfir farinn veg og séð að hann var e.t.v. kominn þó nokkuð langt.
–
Mitt hlutverk, námsráðgjafa, kennara og annars starfsfólks var að vera leiðsögumenn, eða þjálfarar. –
Ábyrgð göngunnar var á hendi nemenda (og foreldra þeirra sem voru yngri en 18 ára).
Allir þurftu að ganga sjálfir og bera ábyrgð á göngunni.
Eins og í fjallgöngu, þá þarf að huga að ýmsu.
Útbúnaði – miðað við veður og nesti.
Ekki dugði að fara t.d. í opnum strigaskóm í rigningu og roki.
Þegar hér er talað um nesti og viðbúnað, er m.a. talað um námsgögn og hið huglæga fóður sem kom frá kennurum.
Svo þurfti auðvitað að búa sig þannig að eitthvað gæti dunið á, stormar og óveður og þá – er spurning hvernig fólk er búið undir það.
Fólk sem gengur á fjall, þarf oft að vera búið að styrkja sig. Það stýrir ekki góðri lukku að ganga algjörlega óþjálfaður á fjall. –
Þess vegna skiptir máli að vera búin/n að styrkja sig líkamlega og andlega. Það gildir líka í skólagöngunni. –
Þeir sem höfðu sjálfstraust, sjálfsvirðingu og trú á sjálfum sér gengur yfirleitt betur. Og auðvitað þeir sem höfðu góða grunnþjálfun. –
Fjallganga er mjög góð líking fyrir skólagöngu, – og í raun lífsgönguna alla. –
Til að undirstrika þetta – bauð ég nemendum í fjallgöngu (alvöru) að hausti og vori. En þau fengu það metið sem íþróttatíma.
Ég þekkti ekkert orðið markþjálfun þegar ég var að kenna þessa hugmyndafræði til að ná markmiðinu “STÚDENTSPRÓF” en fór síðan í markþjálfunartíma til aðstoðarrektors HR, sem sagði að þetta flokkaðist nákvæmlega undir það. –
Í markþjálfun þá setur maður niður skýr markmið, helst mælanleg og tímasetur. –
Síðan þarf að skoða hindranir, innri og ytri, – og það má kalla t.d. veðrið hindranir, lofthræðslu, lélegan útbúnað, lélegt líkamlegt form, afsakanir o.s.frv.
Þá förum við að sjálfsögðu að skoða, hvað getum við lagfært og hvað þurfum við að gera ÁÐUR en lagt er í göngu.
Það er EKKER vit í að klífa Hvannadalsnjúk í engu formi.
Við byrjum á Helgafelli eða jafnvel bara í Elliðaárdalnum. – Byrjum skref fyrir skref. –
“Practice makes perfect” – eða Æfingin skapar meistarann. –
Svo þegar við erum klár t.d. í Esjuna, þá prófum við hana – og þegar við erum komin upp að Steini, eins og það er kallað – og höfum e.t.v. aldrei komist á toppinn, og ætlum að fara að gefast upp, þá er spurning hvor ekki verða að skrifa í gestabókina? … 😉
Þessi mynd er reyndar tekin á Keili. –
Einu sinni var ég búin að nota öll ráð sem ég hafði pokahorninu til að hvetja nemanda áfram, ekki gat ég borið hann á bakinu upp fjallið, enda honum enginn greiði gerður með því. –
Það voru endalausar afsakanir og þetta og hitt sem sem truflaði ..
Ég fór að skynja að þetta voru innri hindranir en ekki ytri og sagði því:
… „hættu nú þessu volæði, taktu ábyrgð og sparkaðu í rassinn á sjálfum þér“ … ég hálf skammaðist mín fyrir að vera svona gróf, en þarna var þolinmæðin á þrautum. – Daginn eftir kom hann til mín og sagði:
„Jóhanna, þetta var besta ráðið sem þú gast gefið mér.“ – og hann stóð sig eftir þetta og kláraði stúdentsprófið á tveimur árum. –
Við þekkjum eflaust flest orðtakið „Hugurinn ber þig hálfa leið“ og það er mikilvægt að hafa það í huga þegar við erum að vinna að einhverju takmarki eða til að ná árangri. –
Það sem er átt við með því að hugurinn beri eða færi okkur er að það að vera komin með takmarkið eða sýnina í hugann þá erum við komin af stað, en mikilvægt að gera sér grein fyrir að við erum aðeins komin HÁLFA leið. –
Það er s.s. ekki nóg að hugsa „happy thougts“ og telja að þannig náum við árangri, – þessar hugsanir hjálpa okkur við að koma okkur úr skrefunum, upp úr sófanum eða einhverju hjólfari sem við erum föst í, en ef við framkvæmum ekkert, ef við erum aðeins í anda en ekki líkama þá er ansi mikil hætta á að árangur náist ekki. –
Við þurfum að hafa 1. SÝN 2. TRÚ á sýnina 3. FRAMKVÆMD og að sjálfsögðu þurfum við að sjá hvert viðnámið er, innri og ytri hindranir. –
Gerum alls ekki lítið úr góðum hugsunum, – og hamingusömum, því að alveg eins og hugurinn getur borið okkur hálfa leið áfram, getur hann borið okkur hálfa leið aftur á bak! – Hugurinn eða hugsanir okkar geta verið innri hindranir, neikvæðar hugsanir í eigin garð. –
Stundum erum við búin að hugsa okkur hálfa leið áfram, og jafnvel framkvæma líka, en þá byrjar niðurrifið og þá hugsum við okkur til baka og líkaminn eltir. –
Þetta er svona klassískt t.d. þegar við byrjum á einhverju verkefni, eða förum í ræktina og svo byrjar e.t.v. einhver ytri hindrun sem verður að innri hindrun. –
Dæmi: Við byrjum í ræktinni, þvílíkt búin að standa okkur, förum reglulega 3-4 sinnum í viku. – Svo fáum við flensuna, og liggjum í 2 vikur. – Hvað þá? –
Er þá allt ónýtt eða tökum við upp þráðinn. – „Æ, ég nenni ekki aftur“ …. ferlega er ég óheppin/n – fá bara flensu – oh, ég sem var komin/n í svo góðan gír“ – og við förum að nota flensuna eða e.t.v. eitthvað annað sem afsökun og þá er innri hindrun, eða hugsanir búnar að taka yfir og við förum aftur í gamla farið, í sófann eða hvað sem við köllum það. –
Hugur og líkami verða að fylgjast að og byggja hvort annað upp. –
Við þekkjum alveg þessi gagnvirku áhrif.
Ef við nærum líkamann með hollustu hefur það jákvæð áhrif á hugann líka. Ef við nærum hugann með hollustu hefur það jákvæð áhrif á líkamann líka. –
Það er stórmál að gera stórvægilegar breytingar á lífi sínu, en alveg eins og að klífa stórt fjall tökum við það skref fyrir skref en ekki í einu stökki. –
Til að komast úr farinu og halda sig við það þarf m.a. að:
Losa sig við hugsanir sem eru neikvæðar og úreltar, t.d. eins og „hvað þykist þú vera“ – „þú ert nú meira fíflið“ – „Hvað ætli fólk haldi“ …
Vera raunsæ, skoða hvað við þurfum að gera til að ná árangri. T.d. ef við ætlum að hlaupa maraþon, hvernig undirbúum við okkur, hvaða tæki þurfum við o.s.frv. –
Þekkja veikleika okkar og viðurkenna, því að ef við sjáum þá ekki er vonlaust að breyta. – Og vera tilbúin að beita okkur smá aga til að breyta úr vondum siðum í góða, það sem oft er kallað lífstílsbreyting. –
Hætta að telja okkur trú um að við eigum ekki gott skilið, eða ef okkur fer að ganga vel að geta ekki glaðst yfir því vegna þess að öðrum gengur ekki eins vel. – Ekki fara að deyfa ljós okkar til að geðjast öðrum. Ef aðrir þola það ekki er það þeirra vanlíðan og svekkelsi við að ná ekki árangrinum sem þú ert að ná sem veldur að þeir reyna að draga þig niður með sér. –
„Ætlarðu að halda áfram í þessari vitleysu“ ..
„Heldurðu að þér takist þetta nokku?“ …
„Þú hefur nú reynt þetta áður!“ …
Stundum þarf hluti af lífstílsbreytingu hreinlega að vera það að sortéra fólkið sem við umöngumst, eða a.m.k. að setja því mörk.
Það gerum við með þessum margumtöluðu „ég“ boðum, það er að segja við tölum út frá eigin brjósti en förum ekki í ásökunargírinn. –
Dæmi:
Ég er að vinna í sjálfsuppbyggingu minni og það sem þú segir hjálpar ekki til við það, svo mér þætti voðalega vænt um að þú drægir ekki úr mér með neikvæðu tali um mín hjartans mál og það sem ég tel vera að gera mér gott. –
Því vissulega eru þetta mál hjartans, bæði líkamleg og andleg uppbygging. –
Ef að viðkomandi getur ekki tekið þessari ábendingu, þá er hann ekki beint vinveittur þér eða hvað? –
En leyfum huganum halda áfram að bera okkur hálfa leið, skrifum niður markmiðin okkar og sýn, höfum sjálf trú á henni – það er það sem við getum gert þó að aðrir í kringum okkur hafi það e.t.v. ekki, – og missum ekki fókus. –
Að sjálfsögðu er mikilvægt að gangan sé ánægjuleg og þess vegna er miklu betra að hugsa jákvæðar hugsanir alla leið, en að það sé bara ánægja þegar að takmarkinu er náð. – Það á bara að vera punkturinn yfir i – ið. –
Á hverri einustu sekúndu getum við breytt stefnu, við getum ákveðið að fara til hægri eða vinstri, afturábak eða áfram. –
Ef við förum afturábak þá erum við að fara í fortíðina og það hjálpar okkur auðvitað ekki að takmarki okkar, – ef takmarkið er til hægri förum við til hægri, ef það er til vinstri förum við þangað, og ef það er beint áfram förum við þangað. – Við förum alltaf rétt ef skrefið sem við tökum er skref í átt að því sem við erum að vinna að, eða viljum gera.
Ef takmarkið er heilbrigði í sál og líkama, sem hlýtur að vera takmark okkar allra, þá íhugum við hvort að skrefið sem við erum að taka sé skref í þá átt. –
Er það að fara út og anda að sér fríska loftinu skref í átt að heilbrigði? –
Eru það að fara út og anda að sér fríska loftinu í gegnum sígarettu skref í átt að heilbrigði? –
Aðalmálið er að fara þangað sem við viljum fara og ekki láta neitt stoppa okkur. Hvorki innri né ytri raddir.
og gleymum ekki
Að njóta og gera það sem við raunverulega viljum.
Höfum sýn, tökum eitt lítið skref að henni daglega, e.t.v. fleirri – og allt í einu erum við komin þangað. –
Hugurinn fyrst hálfa leið og svo fylgir líkaminn með, skref fyrir skref … alla leið. –
Ég er eins og litlu börnin, spyr alltaf „af hverju?“ ..
Ég held líka að til að uppræta einelti þurfi að spyrja af hverju. –
Af hverju leggur einhver einhvern í einelti? –
Vegna eigin óöryggis
Vegna ótta við útilokun frá hópnum ef hann tekur ekki þátt
Til þess að upphefja sjálfan sig
Vegna eigin sársauka
Betra „hann – en ég“ ..
Við hvern er að sakast og hver ber ábyrgðina á einelti? –
Er nóg að benda á þau börn sem beita einelti og segja: „Þarna er ástæðan?“ –
Eða er nóg að benda á skólann eða skólastjórnendur og segja „Þarna er ástæðan“ ..
Orsökin er dýpri, – þeir sem beita einelti eru líka hluti afleiðingar, ekki það að þau eigi ekki að taka ábyrgð, alveg eins og hver og ein manneskja þarf að taka ábyrgð á sinni tilveru. Við sem eldri erum þurfum þó að viðurkenna ábyrgð okkar á þeim sem eru ólögráða. Við þurfum að taka ábyrgð því að það erum við sem upplýsum, við sem kennum, við sem virkjum, erum fyrirmyndir o.s.frv.
Eineltismál eru ekki ný mál fyrir mér. Ég hef starfað í skólasamfélaginu, síðast í grunnskóla í Reykjavík, þar sem voru inni á milli mjög illa særðir nemendur vegna eineltis, skólinn var í einu orði sagt „Helvíti“ og skiptir þá engu máli um hvaða skóla er að ræða. Þau voru í sumum tilfellum að mæta í 2. eða 3. skólann. Oft var eineltið vegna þess að þau voru „öðruvísi“ – of feit, of mjó, of lítil, of stór, jafnvel vildu fara sínar leiðir, sköruðu fram úr o.s.frv. en það þolir samfélagið oft illa sem hefur tilhneygingu til að steypa alla í sama mótið, meðvitað eða ómeðvitað.
Einelti er ein birtingarmynd veiks samfélags. Við þurfum að skoða orsökina, til að koma í veg fyrir og skilja afleiðingarnar. Skoða hvaða fyrirmyndir eru í þjóðfélaginu (leiðtogar -fjölmiðlar- foreldrar-alþingi- yfirvöld) skoða hvernig við, sem eigum að teljast fullorðin, tölum saman á netmiðlum og við eldhúsborðið heima.
Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum?
Skoða hvaða andlega efni er verið að næra börnin með. Ég veit að sú skoðun leiðir ýmislegt óskemmtilegt í ljós. Eftir höfðinu dansa limirnir. Það þarf að verða viðsnúningur – algjör U beygja í okkar eigin framkomu við hvert annað og líti nú hver í eigin barm.
Þögn getur líka verið birtingarmynd ofbeldis, eða það að við samþykkjum ofbeldi annarra. Þegar þagað er yfir málum þegar við ættum að tala – og við höfum heldur betur orðið vör við það í okkar samfélagi.
„Um leið og sleppum tökum af alverstu óvinunum: skömm og ótta, sleppa þeir óvinir tökunum af okkur.“ (þetta í gæsalöppum er frá Neale Donald Walsch).
Orsakir eineltis eru m.a. veikar fyrirmyndir, lélegt sjálfsmat og lítil sjálfsvirðing (eða fölsk sjálfsvirðing sem felst í ytra verðmætamati), upphafning á kostnað annarra, ótti við að vera sá sem lagður er í einelti (betra að fylgja múgnum) o.s.frv.
Þessi pistill er m.a. tileinkaður Dagbjarti Heiðari Arnarsyni heitnum, systkinum, ástvinum hans öllum, – og síðast en ekki síst foreldrum hans sem röktu sögu hans frá fæðingu til dauða og sýndu einstakt æðruleysi og þroska í viðtali í Kastljósi á RÚV í kvöld. –
Foreldrar Dagbjarts Heiðars bentu réttilega á að gerendur í einelti þurfa ekki síður hjálp en þolendur. –
Einelti sprettur af vanlíðan, skömm, óöryggi, ótta. Það að kunna ekki að setja tilfinningar sínar í farveg. Það byrjar snemma og það er aldrei of oft ítrekað að börn læra það sem fyrir þeim er haft. Það þarf ekki að vera að þau eigi vonda foreldra, eða ætli sér að vera vond. Foreldrar kunna e.t.v. ekki betur og börnin þar af leiðandi ekki betur að tjá sig eða vera í samskiptum.
Það þyrmdi yfir mig að horfa á þátt þar sem ellefu ára barn tekur líf sitt. Ég spurði í upphafi „af hverju“ – en þegar ég horfði á þáttinn þá spurði ég mig „hvað get ég gert“ –
Ég veit að það þarf að kenna börnum (og fullorðnum) sjálfstraust og samkennd og fá þau til að tjá sig. – Í dag var ég að skoða styrki sem Reykjavíkurborg veitir til forvarna og ég skora á menntamálaráðuneyti að leggja nú grunn að því að setja sjálfstyrkingu, siðfræði og skapandi tjáningu inn í grunnskólann af fullum krafti, það á eftir að styrkja hinar hefðbundnu námsgreinar.
Greinum styrkleika barnanna þegar þau koma inn í skólann en byrjum ekki á að skanna veikleika.
Ég veit líka að það þarf að styrkja allt samfélagið, uppræta sýndarmennskuna, fella grímurnar – og sætta okkur við ófullkomleika okkar, – hætta dómhörku og fara að sýna samhug. – Virða tilfinninga barna og virða tilfinningar fullorðinna. – Ekki bæla, ekki fela sig bak við grímu. Ekki vera í hlutverki og vera gerfi.
Samþykkja hvert annað eins og við erum.
Við þurfum bara miklu, miklu meira af samkennd og kærleika og ítrekun á því að við erum öll eitt, það sem við gerum á hlut náungans gerum við á eigin hlut. –
Allt sem ég hef sagt hér að ofan felst svo að sjálfsögðu í þessu boðorði Jesú Krists, en svipað eða samskonar boðorð finnst í flestum trúarbrögðum:
„Ómeðvitaður heimur skapar börnum sínum sársauka, – þess fleiri sem komast til meðvitundar og hætta að viðhalda sársauka bernsku sinnar og yfirfæra hann þar að auki á næstu kynslóð, því minni verður sársauki heimsins. – Þannig slítum við keðjuna.“
Þennan texta setti ég á hjartaáliggjandi fésbókarstatus í gær og fékk „like-in“ hjá þeim sem skildu hann og voru sammála og fallega umsögn frá mætum manni og líka hjarta frá mætri konu. –
Stundum hittir eitthvað í mark sem við skrifum og segjum og stundum ekki. –
Þessi texti er skrifaður í einlægri ósk minni að við vöknum og förum að sjá eigin sársauka, förum að elska okkur nóg og virða til að leita okkur heilunar, tjá okkur um hann við einhvern eða einhverja sem við treystum og hætta þannig að lifa með hann og þannig varpa honum áfram á næstu kynslóð. –
Það er þegar okkur líður illa sem við segjum vonda og særandi hluti. Það er þegar við erum með grasserandi skömm innra með okkur sem við meiðum okkur og aðra. –
Ég er að vakna, hægt og rólega, og æfa mig að lifa „in presence“ – það er að vera viðstödd og vera áhorfandi að eigin tilfinningum. Hvað er að gerast þegar ég verð reið, er það fórnarlambsreiði = gremja, og af hverju bregst ég svona við? – Þegar við förum að sjá, vera meðvituð, getum við breytt. Eins og þota á flugi sem er komin út af sporinu, flugmaðurinn stillir hana þá af, og við erum flugmaðurinn en fljúgum ekki á Auto Pilot. –
Stundum er eitthvað utanaðkomandi sem setur okkur alveg út af sporinu, og við, í ófullkomleika okkar getum ekkert að því gert, heldur hrökkvum í gamla farið eftir því sem við erum prógrammeruð. – Þá fyrirgefum við okkur það, lærum af því og höldum áfram. Hlæjum kannski að því eftir á. Ég lenti sjálf í því sl. föstudag.
Ég fór til læknis út af verkjum fyrir brjósti, hann tók hjartalínurit sem sýndi að allt var í lagi og fór svo að hlusta mig og rak augun í örið á öxlinni á mér. – Hann spurði hvað þetta væri og ég sagði eins og var að þarna hefði verið skorið burt sortuæxli 2008. –
Þá sagði hann í beinu framhaldi „Þá er best að senda þig í blóðprufu“ … ( ég var bara nokkuð róleg) …en svo spurði hann, „er eitthvað framundan hjá þér í dag“? – „Eh, já, ég er að fara í jarðarför klukkan 13:00 í dag“ (klukkan var 11:50). „Það er best að þú farir fyrir hana, svo ég fái út úr þessu fyrir klukkan 16:00“ – (Ég var að missa kúlið..) .. Hvað hélt maðurinn? – ég vissi alveg hvað hann hélt, eða vildi útiloka a.m.k. – en þetta varð að algjörum úlfalda í hausnum á mér. – Hann klykkti svo út með því að hann myndi hringja og láta mig vita niðurstöðurnar. – Ég fór auðvitað að fyrirmælum læknisins, fór í blóðprufuna og náði jarðarförinni og fór svo upp í vinnu, en var með lítið annað en úlfaldann í hausnum. Klukkan varð fjögur og síminn hringdi, – ég hélt það væri læknirinn en það var sonurinn – sem ég næstum „hrinti“ úr símanum því ég væri að bíða eftir símtali frá lækni. – (Ég var s.s. leiðinleg við soninn, en það gerist yfirleitt ekki þannig að utanaðkomandi áhrif voru farin að segja til sín). Síminn hringdi EKKI og ég var ekki lengur með úlfaldann í hausnum, ég var úlfaldi. –
Ók heim á leið og þar sem ég ók upp í áttina að Túngötu frá Búllunni, man ekki hvað gatan heitir, þá stöðvaði bíll snögglega fyrir framan mig, algjörlega án viðvörunar“ – og þá kom það /&&%$/&&%$ helv…. andsk… erkifífl… og FLAAAAAAAAAUT …. – ég var brjáluð! …
Öll loforð um að blóta ekki náunganum voru horfin út um gluggann, allt „presence“ – öll viðveran og yfirvegunin rokin í burtu, og hin óullkomna og skíthrædda Jóhanna öskraði þarna úr sér lungun, – angistin og óttinn hafði tjáð sig ….
Ég sem hélt ég væri ekki hrædd við dauðann!
Hvar var nú: „Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt“ – ???
Þegar heim var komið beið sonurinn þar og ég útskýrði fyrir honum af hverju ég hafði verið svona uppspennt í símanum og hann skildi það. –
Læknirinn hringdi svo klukkan sjö með þær fréttir að blóðsýnin sýndu ekkert óeðlilegt, og léttirinn var mikill, líka í rödd hans. – Úlfaldinn hvarf, varð ekki einu sinni að mýflugu, hann bara hvarf og ég sá, auðvitað sá ég eftirá hvað hafði gerst.
Í huga mínum hafði ég tekið þetta alla leið, allt var búið – en símtalið var því eins og að fá fréttir um upprisu mína! (Já, það er hægt að gera grín að þessu eftirá ;-))
Það er svo margt sem hægt er að læra og nýta af svona reynslu. Enn og aftur þakka ég fyrir að vera heilbrigð, en það er voðalega mannlegt að líta á heilbrigði sem sjálfsagðan hlut og yfirleitt ekki fyrr en við höfum smakkað á veikindum að við vitum hvers virði heilbrigðið er. –
Það er okkar að lifa með og rækta alla þá möguleika sem við höfum sem heilbrigðar manneskjur. – Það er líka okkar að lifa með og rækta alla þá möguleika sem við höfum þegar við veikjumst. Ekki búa til innri hindranir eða ímyndaðar hindranir. – Sjá þær sem eru raunverulegar, sætta okkur við þær en ekki bæta við. –
Ég sjálf er „viðkvæmt blóm“ – en ég tel mig um leið afbragðs sterka, vegna þess að ég þori að viðurkenna það. – Viðurkenna að ég er reyndar mjög ófullkomin, – og ég gleðst yfir þessum ófullkomleika.
Vegna þess að í ófullkomleika mínum næ ég tengingu við mun fleira fólk en ef ég væri fullkomin, eða réttara sagt léti sem ég væri fullkomin (því engin mannleg vera er fullkomin – nema í áðurnefndum ófullkomleika) – Í gegnum sársauka minn, gegnum það sem ég hef gengið í gegnum um læri ég að skilja betur annað fólk.
Líka hrokann í því, því ég er hrokafull. Líka vonskuna í því því að ég er vond.
Ég á þetta allt til, en ég veit að þetta minnkar og minnkar eftir því sem ég geri mér grein fyrir orsökum þess, af hverju bregst ég svona við? –
Ég hitti einn nemanda minn fyrir utan bankann um daginn sem sagði: „Jóhanna – þú hefðir átt að verða forseti, því að við þurfum forseta sem skilur fólk“ – (Þetta var ljósgeisli inn í daginn og viðurkenni að ég hef alveg þörf fyrir svona jákvæðni í minn garð við og við). Ég veit reyndar að heimurinn er alls ekki tilbúinn til að taka við forseta sem er tilbúin/n að leggja tilfinningar sínar á borðið og játa sig ófullkominn, og hugmyndin um forsetaframboðið var meira táknræn en nokkuð annað, svona eftir á að hyggja. – Að sýna að ég þyrði að bjóða mig fram ófullkomin kona úr ófullkomri fjölskyldu. Með ófullkomna fortíð. –
Ég kann öll hlutverkin, get farið í hlutverk fínu frúarinnar og kann mig býsna vel. Ég get leikið býsna margt. –
En mig langar ekki að leika hlutverk, mig langar að vera ég og geri mér grein fyrir því að það er aðeins hluti af heiminum sem tekur mér eins og ég er. – Ég er sátt við það. – Hluti af heiminum tekur þér eins og þú ert og þú skalt líka vera sátt/ur við það.
Þarna úti er fullt af særðum börnum, við erum öll særð börn særðra barna. Ekki vegna þess að foreldarar okkar eða við sem foreldrar vildum vera vond eða særa, bara vegna þess að við kunnum ekki betur. –
Þegar við segjum við barnið okkar að það sé frekt, það sé latt o.s.frv. þá erum við að prógrammera það. – Orðin eru álög, eins og Sigga Kling segir, – þess vegna er betra að leggja góð álög á börnin en vond og segja við börnin í staðinn að vera góð og vera dugleg, – nota jákvæða uppbyggingu í stað neikvæðrar. –
Þannig er örlítið dæmi um meðvitaðan heim. –
Við megum því vita það að skítkast og niðurrif í annarra garð, kemur ekki úr glöðu eða sáttu hjarta – það kemur frá vanlíðan, líka þegar ég geri það. Þörf fyrir að meiða, vegna þess að við höfum einhvern tímann verið meidd. –
„Gættu að…. .. sungum við mörg í sunnudagaskólanum…
Gættu að þér litla eyra, hvað þú heyrir…
Gættu að þér litli munnur, hvað þú segir…
Gættu að þér litla hönd, hvað þú gerir…
Gættu að þér litli fótur, hvar þú stígur…
Ómeðvitaður heimur skapar börnum sínum sársauka, – þess fleiri sem komast til meðvitundar og hætta að viðhalda sársauka bernsku sinnar og yfirfæra hann þar að auki á næstu kynslóð, því minni verður sársauki heimsins.
– Þannig slítum við keðjuna ..
Gætum að okkur sjálfum og með því gætum við að náunga okkar. –
1. Speaking badly about someone else (regardless of whether or not we’re „right“)
(Að tala illa um aðra, hvort sem við höfum rétt fyrir okkur eða ekki, – ég vil bæta við hér að tala illa um okkur sjálf)
2. Lashing out in anger
(Að bregðast við með reiði, – við sjáum yfirleitt eftir því, gott að muna eftir stop merkinu eða að telja upp að 10)
3. Holding a grudge and choosing not to forgive
(Að viðhalda gremju og velja að fyrirgefa ekki, – ef við eigum erfitt með að fyrirgefa sjálf, er mitt ráð að biðja Guð/æðri mátt/hið heilaga að aðstoða mig við það)
4. Judging others
(Að dæma aðra, dómharka okkar færir okkur að öðrum en ekki að okkur sjálfum – augljóslega)
5. Excessive busyness that keeps us from feeling a sense of spiritual connection
(Vinnufíkn, við finnum allt til að gera til að flýja tilfinningar okkar, eða stunda andlega iðju eins og að hugleiða og þykjumst ekki hafa tíma, en gefum okkur aftur á móti e.t.v. tíma til að horfa á sjónvarpið marga tíma að kvöldi ;-).. „andleg tenging“ getur verið við fólk, við okkur sjálf og við „hið heilaga“ )
6. Cheating
(Að svindla – munum að taka okkur sjálf með inní pakkann – verum heiðarleg gagnvart sjálfum okkur og öðrum)
7. Betraying a confidence
(Að bregðast trúnaðartraust – svipað og númer 6. )
8. Failing to nurture your body as the temple that it is (smoking, overeating, not exercising, etc)
(Við bregðumst líkama okkar – stundum hryðjuverk á honum jafnvel, – en líkaminn er musteri okkar eins og við vitum – við gerum það með ýmsum hætti; með reykingum, ofáti, hreyfingarleysi o.s.frv)
9. Overindulging on mind-altering substances that distance you from the Divine (drugs, alcohol, etc.)
(Ofneysla efna sem breyta hugarástandi og fjarlægja okkur frá hinu heilaga (lyfjum, dópi, alkóhóli o.s.frv.)
10. Telling a little white lie to avoid conflict or get us out of trouble
(Segja hvítar lygar – til að forðast það að lenda í átökum eða koma okkur úr vandræðum, munum að sá sem er trúr í hinu minnsta er líka trúr í hinu stærsta, gott að hafa í huga þegar við erum að stinga vínberjum upp í okkur í búðinni og þannig stela frá kaupmanninum;-)) ..
I’m sure there are many more .. segir Dr. Lissa Rankin – en þetta er læknir sem ég er nýbúin að uppgötva og hún hefur svoooo margt mikilvægt að segja og hér er líka hægt að hlusta á hana:
Punktar úr fyrirlestrinum:
Lissa Rankin ítrekar hér mikilvægi þess að setja andann í forgang, – að líkaminn sé aðeins spegill þess hvernig við lifum lífinu.
Hvernig líður okkur þegar við erum í vondu sambandi, vinnu þar sem við erum ekki ánægð?
Hvað er í gangi þegar líkaminn gefst upp? –
Líkaminn hvíslar að okkur, en ef við hlustum ekki á líkamann fer hann að öskra.
Faraldurinn er stress og kvíði, – verkir, sársauki .. og læknirinn finnur stundum ekkert – en það er auðvitað fullt að.
Hvað ef að læknirinn finnur ekki greiningu, – engin pilla sem getur læknað.
Kannski þarf að fara að fella hlutverkagrímurnar?
Mömmugrímuna, læknisgrímuna, listamannsgrímuna …
Lissa gekk í gegnum storm erfiðleika – sem hún lýsir hér.
Þegar lífið hrynur, ferðu annað hvort að vaxa eða æxli fer að vaxa innra með þér.
Þá er tími til að hætta að gera það sem þú „átt að gera“ en ferð að gera það sem þig langar.
Fella grímurnar.
Hún og maður hennar stukku inn í nýtt líf
Það er hægt að hætta í starfinu sínu en ekki hætta við köllun sína
Lissa hafði (andlega) köllun til að vera læknir
Hún vildi samt ekki verða sami læknir og hún var –
Hún vildi enduruppgötva hvað það var sem hún elskaði við læknisfræðin og líka hvað hún hataði við það
Byrjaði að kenna ýmsu um sem hún telur upp í fyrirlestrinum.
En niðurstaðan var ekki að skoða afleiðingar heldur orsakir
Hún fór að hlusta meira á sjúklingana sína .. prófaði ýmislegt óhefðbundið en sá að það var svipuð aðferðafræði – svarið var fyrir utan sjúklingana en ekki innra með þeim.
En sjúklingarnar læknuðust af einum sjúkdómi – og fengu þá annan.
Þá fór hún að leita að rótinni; hvað er það sem raunverulega gerir líkamann veikan?
Eitthvað sem enginn kenndi henni í Læknanáminu
Allt skiptir máli, hreyfing, mataræði og að hitta lækninn sinn
En það sem raunverulega skiptir máli telur Lissa upp:
HEILBRIGÐ SAMBÖND
FARSÆLD Í VINNU
VERA ANDLEGA TENGD
HEILBRIGT KYNLÍF
EFNAHAGSLEG FARSÆLD
HEILBRIGT UMHVERFI
ANDLEGT HEILBRIGÐI
Þetta er verið að sanna, sanna í Harvard og virtum stofnunum
Hún fékk sjúkling sem gerir allt sem læknirinn segir henni, hún hleypur og borðar hollt o.s.frv.
Sjúklingurinn spurði: Hver er greiningin mín?
Lissa svaraði: Þú ert í hræðilegu hjónabandi, ert óánægð í vinnunni, ert ekki andlega tengd, þú ert enn ekki búin að losna við gremjuna frá æsku .. o.s.frv.
Hvað er þá mikilvægast?
Caring for the heart, soul, mind ..
Við þurfum að næra innra ljósið – ljósið sem veit alltaf hvað er rétt fyrir þig, innsæið þitt.
Þetta ljós er mikilvægara en nokkur læknir (segir Lissa)
Lissa skrifar um sjálfsheilun frá kjarna.
Ást, þakklæti og ánægja (pleasure) er límið sem heldur okkur saman ..
Hvað er úr jafnvægi í mínu lífi?
Hvernig getur þú opnað þig, verið heiðarlegri, um þarfir þínar, hver þú ert? ..
Lissa talar hér um myndband Brené Brown „The Power of Vulnerability“ en ég hef skriað mikið um Brené Brown ..
Skrifum upp á eigin lyfseðil – heilum frá kjarna …
HVAÐ ÞARFT þÚ – HVERJU ÞART ÞÚ AÐ BREYTA?
—-
Allt sem Lissa segir hér að ofan hef ég verið að taka inn, hægt og rólega, það tekur tíma og það þarf að viðhalda. Í raun er það eins og endurforritun, því að það er búið að setja svo margt annað inn og það sem hefur hlaðist inn er líka eins og hrúðurkarlar á sálinni, – sálinni sem þarf að fá að skína.
Hlustaðu á hjartað – Fylgdu hjarta þínu – Láttu hjartað ráða för –
Fimm ára strákur bjó í næsta húsi við mann, sem nýlega hafði misst konuna sína. Maðurinn var úti í garði og strákurinn sá að maðurinn var leiður, hann rölti yfir til hans og tók í hendina á honum og stóð hjá honum drykklanga stund. Mamma hans hafði staðið álengdar og spurði son sinn þegar hann kom til baka hvað hann hefði eiginlega sagt við manninn, en strákurinn svaraði; „Ekkert, ég var bara að hjálpa honum að gráta.“ –
Þessa sögu, eða líka sögu sá ég á netinu, – hvort hún er sönn eða ekki skiptir engu máli. –
Þessi saga lýsir samhygð. –
Margir lenda í klemmu með hvernig þeir eiga að nálgast þau sem eru í sorg. Stundum gengur óöryggið svo langt að við forðum okkur. Það er við engan að sakast, við viljum öll vel, en stundum kunnum við bara ekki betur.
Oftast er betra að segja minna en meira. – Og alls ekki fara að segja eigin reynslusögur, nema um þær sé spurt, þannig að það endi ekki með því að syrgjandinn upplifi að hann þurfi að fara að hugga okkur. – Þær geta vel dugað síðar, þegar að fer að líða á sorgarferli, en fyrst á eftir er fókusinn á þann sem er í sorg. –
Faðmlag er stundum alveg nóg og/eða samvera, – að drekka kaffibolla saman og leyfa syrgjandanum að ráða ferðinni. Kannski þarf hann að gráta, eða kannski bara að gleyma sér aðeins og tala um eitthvað allt annað.
Við sýnum best samhug með því að vera til staðar fyrir viðkomandi.
Í sumum tilfellum er líka notalegt að færa fólki mat, meðlæti, kökur – því að margir vilja oft heimsækja og í staðinn fyrir að fylla allt af blómum, er fallegt að bjóðast til að ljá hjálparhönd við að þjónusta eða elda fyrir syrgjendur. –
Þessir praktísku hlutir geta þvælst fyrir. –
Þessi saga í upphafi snerti mig og varð til þess að mig langaði að deila þessu, eflaust upplifa þetta ekki allir eins.
Litli strákurinn þurfti engin orð en fann það hjá sér að það að nærvera hans hjálpaði manninum að gráta. –
Börn eru þau sjálf, við þurfum bara að vera við sjálf. –
Blómin hafa vit á því að snúa sér að sólu. – Við höfum val, vilja og vit, en það er þetta með viljann og vitið sem er enn að bögglast fyrir mér og fleirum. –
Blóm er ekki alltaf að hugsa, – það bara snýr sér eðlislægt að sólu.
Ég hlustaði á Sirrý í morgunútvarpi Bylgjunnar í gær og talaði hún um manninn sem sat á naglanum. – Það er þessi fúli á móti sem lifir og hrærist í holræsinu, sá sem gagnrýnir allt og alla en kemur aldrei með lausnir. – Reiði maðurinn sem horfir ekki til sólar og situr á nagla. – (Við eigum þetta flest öll til).
Það hlýtur að vera sárt að sitja á nagla, og það þýðir auðvitað að allt eða flest sem maðurinn segir er sagt út frá sársauka. –
„Af hverju gerir ekki einhver eitthvað?“ Öskrar hann, en áttar sig ekki á því að hann er einhver. –
Við getum fordæmt sóðaskapinn í umhverfinu, en göngum kannski eins og algjörir slúbbertar um líkama okkar og sál. – Um heimilið eða bílinn. – Þetta byrjar alltaf heima og heima er þar sem hjarta okkar er.
Jákvæðni leiðir af sér jákvæðni
Neikvæðni leiðir af sér neikvæðni
Það er þessi ítrekun á bergmáli lifsins, „What goes around comes around“ –
Það er okkar að horfa til sólar, standa upp úr stólnum (ég tala nú ekki um ef að það er nagli í honum), okkar að reita arfann úr blómabeði lífs okkar, gefa blómunum rými, sá nýjum fræjum og leyfa svo sólinni, vindinum og rigningunni vinna sitt verk í friði (það er að sleppa tökunum og treysta). –