Ertu fangi ástar (haturs?) eða í fangi ástar? …

Eftirfarandi er (gróf)  þýðing mín á pistli sem ég held reyndar að sé tekinn beint frá Eckhart Tolle. –  Þarna er m.a. farið inn á lausnina frá meðvirkni, hvorki meira né minna,  og þarna eru líka afskaplega mikilvæg skilaboð til okkar allra. –  Að lifa í meðvitund, að veita sjálfum okkur athygli og hugsunum okkar. –  Skynja ástina innra með okkur, gleðina og friðinn og láta hvorki utanaðkomandi né innri hávaða trufla það. –

En hér er pistillinn. –

Ástar/haturssambönd

Án þess að komast og þangað til að þú kemst í meðvitað viðveruástand,  verða öll sambönd, og sérstaklega náin sambönd, verulega gölluð og að lokum vanvirk.  Þau geta litið út fyrir að vera fullkomin um tíma, eins og þegar þú ert „ástfangin/n“  en óhjákvæmilega verður þessi sýnilega fullkomnun trufluð þegar að rifrildi, árekstrar, óánægja og andlegt eða jafnvel líkamlegt ofbeldi fer að eiga sér stað í auknum mæli.

Það virðist vera svo að flest „ástarsambönd“  verði ástar/haturssambönd fyrr en varir.  Ástin getur þá snúist í alvarlega árás,  upplifun fjarlægðar eða algjöra uppgjöf á ástúð  eins og að slökkt sé á rofa.  Þetta er talið eðlilegt.

Í samböndum upplifum við bæði „ást“ og andhverfu ástar – árás, tilfinningaofbeldi o.s.frv. – þá er líklegt að við séum að rugla saman egó sambandi og þörfinni fyrir að líma/festa sig við einhvern við ást. –  Þú getur ekki elskað maka þinn eina stundina og svo ráðist á hann hina.  Sönn ást hefur enga aðra hlið. –  Ef „ást“ þín hefur andstæðu  þá er hún ekki ást heldur sterk þörf sjálfsins fyrir heilli og dýpri skilning á sjálfinu, þörf sem hin persónan mætir tímabundið.   Það er það sem kemur í staðinn fyrir hjálpræði sjálfsins og í stuttan tíma upplifum við það sem hjálpræði. –

En það kemur að því að maki þinn hegðar sér á þann hátt að hann mætir ekki væntingum þínum eða þörfum,  eða réttara sagt væntingum sjálfsins.  Tilfinningar ótta, sársauka og skorts sem eru inngrónar í meðvitund sjálfsins,  en höfðu verið bældar í „´ástarsambandinu“  koma aftur upp á yfirborðið. –

Alveg eins og í öllum fíknum,  ertu hátt uppi þegar fíkniefnið er til staðar, en óhjákvæmilega kemur sá tími að lyfið virkar ekki lengur fyrir þig.

Þegar þessar sársaukafullu tilfinningar koma aftur,  finnur þú jafnvel enn sterkar fyrir þeim en áður,  og það sem verra er,  að þú sérð núna maka þinn sem orsök þessara tilfinninga.  Það þýðir að þú sendir þær út og ræðst á hann með öllu því ofbeldi sem sársauki þinn veldur þér.

Þessi sársauki getur kveikt upp sársauka maka þíns, og hann ræðst á þig til baka.  Á þessu stigi er sjálfið meðvitað að vona að þessi árás eða þessar tilraunir við stjórnun verði nægileg refsing til að minnka áhuga maka þíns á því að breyta hegðun sinni, svo að sjálfið geti notað árásirnar aftur til að dylja eða bæla sársauka þinn. –

Allar fíknir kvikna vegna ómeðvitaðrar afneitunar á að horfast í augu við og fara í gegnum eigin sársauka.  Allar fíknir byrja með sársauka og enda með sársauka.  Hverju sem þú ert háð/ur – alkóhóli – mat – löglegum eða ólöglegum fíkniefnum eða manneskju – ertu að nota eitthvað eða einhvern til að hylja sársauka þinn. –

Þess vegna – þegar bleika skýið er farið framhjá –  er svona mikil óhamingja,  svo mikill sársauki í nánum samböndum. –   Þau draga fram sársauka og óhamingju sem er fyrir í þér.  Allar fíknir gera það.  Allar fíknir ná stað þar sem þær virka ekki fyrir þig lengur,  og þá finnur þú enn meiri sársauka.

Þetta er ein af ástæðum þess að flestir eru að reyna að sleppa frá núinu – frá stundinni sem er núna – og eru að leita að hjálpræði í framtíðinni. –  Hið fyrsta sem það gæti mætt ef fókus athygli þeirra er settur á Núið er þeirra eigin sársauki og það er það sem það óttast.  Ef það aðeins vissi hversu auðvelt það er að ná mættinum í Núinu,  mættinum af viðverunni sem eyðir fortíðinni og sársauka hennar,  raunveruleikinn sem eyðir blekkingunni. –

Ef við aðeins vissum hversu nálægt við erum okkar eigin raunveruleika, hversu nálægt Guði. –

Að forðast sambönd er tilraun til að að forðast sársauka og er því ekki svarið. – Sársaukinn er þarna hvort sem er.  Þrjú misheppnuð sambönd á jafn mörgum árum eru líklegri til að þvinga þig inn í að vakna til meðvitundar heldur en þrjú ár á eyðieyju eða lokuð inni í herberginu þínu.  En þú gætir fært ákafa viðveru inn í einmanaleika þinn,  sem gæti líka virkað. –

Frá þarfasambandi  til upplýsts sambands. 

Hvort sem við búum ein eða með maka,  er lykilinn að vera meðvituð og auka enn á vitund okkar með því að beina athyglinni enn dýpra í Núið.

Til þess að ástin blómstri,  þarf ljós tilvistar þinnar að vera nógu sterkt til að þú látir ekki hugsuðinn í þér eða sársaukalíkama þinn taka yfir og og ruglir þeim ekki saman við hver þú ert.

Að þekkja  sjálfa/n sig sem Veruna á bak við hugsuðinn, kyrrðina á bak við hinn andlega hávaða,  ástina og gleðina undir sársaukanum,  er hjálpræðið, heilunin, upplýsingin.

Að aftengja sig sársaukalíkamanum er að færa meðvitund inn í sársaukann og með því stökkbreyta honum.  Að aftengja sig hugsun er að vera hinn þögli áhorfandi hugsana þinna og hegðunar, sérstaklega hins endurtekna mynsturs huga þíns og hlutverkanna sem sjálfið leikur.

Ef þú hættir að bæta á „selfness“  missir hugurinn þennan áráttueiginleika,  sem er í grunninn áráttan til að DÆMA, og um leið að afneita því sem er,  sem skapar átök, drama og nýjan sársauka.  Staðreyndin er sú að á þeirri stundu sem þú hættir að dæma,  með því að sættast við það sem er, hver þú ert,  ertu frjáls frá huganum.  þá hefur þú skapað rými fyrir ást, fyrir gleði og fyrir frið.

Fyrst hættir þú að dæma sjálfa/n þig, og síðan maka þinn.  Besta hvatningin til breytinga í sambandi er að samþykkja maka sinn algjörlega eins og hann er,  án þess að þurfa að dæma hann eða breyta honum á nokkurn hátt.

Það færir þig nú þegar úr viðjum egósins.  Allri hugarleikfimi og vanabindandi „límingu“ við makann er þá lokið.  Það eru engin fórnarlömb og engir gerendur lengur,  engin/n ásakandi og engin/n ásökuð/ásakaður.

ÞETTA ERU LÍKA ENDALOK ALLRAR MEÐVIRKNI,  að dragast inn í ómeðvitað hegðunarmynstur annarrar persónu og þannig að ýta undir að það haldi áfram.

Þá munuð þið annað hvort skilja –  í kærleika – eða færast SAMAN dýpra inn í Núið,  inn í Verundina.  Getur þetta verið svona einfalt? –  Já það er svona einfalt.  (segir Tolle)

Ást er tilveruástand.  „State of Being“ –  Ást þín er ekki fyrir utan; hún er djúpt innra með þér.  Þú getur aldrei tapað henni, og hún getur ekki yfirgefið þig.  Hún er ekki háð öðrum líkama,  einhverju ytra formi.

Í kyrrð meðvitundar þinnar,  getur þú fundið hinn formlausa og tímalausa veruleika eins og hið óyrta lif  (andann?) sem kveikir í þínu líkamlega formi.  Þú getur þá fundið fyrir þessu sama lífi djúpt innra með öllum öðrum manneskjum og öllum verum.  Þú horfir á bak við slæðu forms og aðskilnaðar.  Þetta er upplifun einingarinnar.   Þetta er ást.

Jafnvel þó að einhverjar glætur séu möguleikar, getur ástin ekki blómstrað nema þú sért endanlega laus við að skilgreina þig í gegnum hugann og að meðvitund þín verði nógu sterk til að eyða sársaukalíkamanum –  eða þú getir a.m.k. verið meðvituð/meðvitaður sem áhorfandi.  Þá getur sársaukalíkaminn ekki yfirtekið þig og með því farið að eyða ástinni.  Eða vera eyðileggjandi fyrir ástina. –

Smellið hér til að lesa Orginalinn

Og hér er tengill á Eckhart Tolle sjálfan þar sem hann les þennan texta upp úr bók sinni „The Power of Now“ –

(Ath! þeir sem kannast ekki við hugtakið „sársaukalíkami“  þá er það líkaminn sem laðar að sér vonda hluti sem þú undir niðri veist að koma bara til með að auka á vansæld þína. –   Offitusjúklingur leitar í það sem fitar hann,  sá sem er að reyna að hætta að reykja fær sér sígarettu,   sá sem þarf að byggja sig upp andlega leitar eftir vandamálum og leiðindafréttum og „nærist“ þannig – nærir sársaukalíkama sinn.  –   Þekkir þú einhvern sem hegðar sér svona? –

Það að koma sér úr skaðlegum aðstæðum,  getur bæði verið líkamlegt og huglægt.  Að sjálfsögðu lætur enginn bjóða sér árásir annarra eða ofbeldi, – og því er sjálfsagt að koma sér þaðan.  En meginatriði er að komast úr skaðlegum aðstæðum sjálfs sín,  þegar við erum okkar eigin verstu skaðvaldar. –   Fylgjumst með hvað við gerum,  verum okkar eigin áhorfendur,  sjáum,  viðurkennum og lærum.

En með samhug en ekki dómhörku. –

Tómarúmið er fullt af ást, gleði og friði ..

Ég er búin að eiga bókina „Mátturinn í núinu“ í mörg ár.  Reyndar á ég hana í ensku útgáfunni „The Power of Now.“

Fyrst þegar ég las hana skildi ég smá, en samt mmmm… ekki nóg.

Í eirðarleysi mínu í gærkvöldi, dustaði ég rykið af henni og tók með mér upp í (tóma) rúmið og  þurfti ekki að lesa lengi til að skilja að allt það sem ég er að vinna við liggur í þessari bók, og því skildi ég hana mjög vel. –

En hún opnaði enn meira fyrir mér, þetta er bók sem ekki á að lesa bara einu sinni. –   Alla veganna ekki ég. –

Ég upplifði í raun það sem Eckhart Tolle var að segja.  Upplifði fjársjóðinn innra með mér. –   Fann fyrir friðnum, ástinni og gleðinni í núinu. –

Og það hoppar þarna og skoppar enn eins og lítil stelpa í gulum sumarkjól.

Tóma-rúmið sem mér hefur verið tíðrætt um.  Tóma stundin sem við reynum oft að fylla,  tómu tilfinningapokarnir eru ekki tómir. –

Tóma rúmið er fullt af friði, ást og gleði. –

Ég gat ekki séð það, og kannski þú ekki heldur,  vegna þess að hugsanir yfirskyggja það og trufla. –

Friður, ást og gleði er dýpra en tilfinningar.  Tilfinningar geta truflað, Eckhart Tolle segir þær vera truflun, – disturbance. –

Friður, ást og gleði er til staðar,  en það þarf að sjá þessa þrenningu, veita henni athygli. –  Ekki þrengja svo að henni með hugsunum að hún verði pinku pinku lítil. –

Í upphafi bókarinnar segir Tolle söguna af betlaranum við þjóðveginn, sem sat á kassa og betlaði peninga til að lifa. –

Maður nokkur gengur þar hjá og spyr betlarann hvað sé í kassanum. Betlarinn segist ekki vita það,  en maðurinn bendir honum á að kíkja. Til allrar furðu sér betlarinn að kassinn er fullur af gulli. –

Það er dásamleg tilfinning að fara að sjá gullið innra með sér, sjá og upplifa frið, ást og gleði innra með sér.  Að tómarúmið sé alls ekki tómt. –

„Gleðin er besta víman.“  og er grunnurinn að því að ná yfirhöndinni yfir annarri vímu, vímu sem kemur að utan.

Þegar ég finn þessa tilfinningu, einhvers konar „Enlightenment“ eða uppljómun,  þá langar mig svo að deila henni með fleirum og það er það sem ég þrái að kenna og gera að mínu ævistarfi, hvort sem það er innan kirkju eða bara í heimskirkjunni.

Ég veit þó að mín uppljómun verður aldrei annarra,  en kannski innblástur.  Það sem ég les hjá Eckhart Tolle, hef ég lesið og lært hjá mörgum öðrum, les það líka í Biblíunni, les það í náttúrunni,  úr ljóðum, úr samveru með fólki, börnum, gamalmennum og allt þar á milli.  þetta er allt sami grautur, misjafnlega borinn fram. –  Stundum hversdagslegur, stundum með möndlum, stundum með rjóma.  –  Enda skrifaði ég pistil á sínum tíma undir heitinu. „Lífið er hafragrautur“ –  og lagði áherslu á það að við nytum þess að borða hann, ilmsins, bragðsins o.s.frv. – og því má bæta við að borða (lifa) með og af ást, gleði og friði.

Verði okkur að góðu. –

 

Hvenær velur fólk það að skilja? – Fyrirlestur um aðdraganda skilnaðar, orsök og afleiðingar, sorgina sem situr eftir þrátt fyrir það að við veljum að skilja. –

Á hvaða tímapunkti er ákvörðunin tekin,  væri kannski nærri lagi að spyrja. –

Er hún kannski tekin áður en sambandið hefst? 

Er hún kannski tekin þegar fyrsti trúnaðarbresturinn verður?

Er hún kannski tekin þegar þú uppgötvar að heiðarleikinn er ekki til staðar?

Er hún kannski tekin þegar hugrekkið skortir til að tjá sig um líðan sína, langanir, þarfir og væntingar til makans og farið er að leita annað?

Er hún kannski tekin þegar þú tjáir þig við makann,  eða reynir það og hann gerir lítið úr tilfinningum þínum? –

Þessar spurningar vekja örugglega upp aðrar spurningar, sérstaklega sú fyrsta, –  hvernig getum við verið búin að taka ákvörðun um eitthvað áður en við hefjum það? –  Auðvitað er sú ákvörðun ekki meðvituð, – en það getur verið eitthvað sem við höfum lært eða tileinkað okkur úr æsku og tökum því með okkur sem farangur inn í samband,  sem verður til þess að sambandið brestur.  En endilega mæta á svæðið ef það eru spurningar, en ekki sitja uppi með þær. –  

Fyrirlestur um aðdraganda skilnaðar,  orsök og afleiðingar,  sorgina sem situr eftir þrátt fyrir að vera e.t.v. sá/sú sem tók endanlega ákvörðun um skilnað. –  

Lausnin hefur haldið námskeiðið Lausn eftir skilnað, fyrir konur,  í nokkur skipti og er með slík á dagskrá áfram. –   Nú hefur bæst við „Lausn eftir skilnað, fyrir karla“ –  En við veljum að hafa þetta aðgreint. –

Fyrirlesturinn verður þó fyrir alla,  og líka þau sem ekki eru fráskilin en eru e.t.v. að íhuga skilnað eða vilja bara vita meira um skilnað og orsakir hans og afleiðingar.  Kannski forða skilnaði? –

Dagsetning:  þriðjudagskvöldið 17. apríl kl. 20:30 – 22:00  (Ath! breyttur tími)

Staður:   Lausnin,  Síðumúla 13, 3. hæð

Verð:   2000.-  krónur    (vinsamlega greiðið fyrirfram v/takmarkaðs fjölda – vinsamlega leggið inn á reikning 0303-26-189  kt. 211161-7019)

(Greiðslan gildir sem afsláttur ef fólk vill skrá sig á námskeið, „Lausn eftir skilnað“  síðar hjá Lausninni). –

Sendið skráningu á netfangið johanna@lausnin.is  (og staðfestingu á greiðslu)

Ert þú til í að hlýða kalli vorsins, leggja hönd á plóg og rækta nýjan skóg?

Ert þú til í að brosa til sólar taka þér plóg í hönd og rækta nýjan skóg? 

Ég hef yfirleitt notað líkinguna af því að vera í farvegi og skipta um farveg, en fæ þessa skemmtilegu líkingu lánaða hjá vini mínum – að breyta um skóg. –

Kannski erum við að púla í röngum skógi?-

Það hafa margir verið að spyrja um „tæki“ til að breyta hugsunarhætti eða siðum. – Það er fólkið sem yfirleitt er búið að sjá að breytinga er þörf, finnur að það er komið í rangan farveg, hvort sem er andlega eða líkamlega. –

Marga langar í tilbreytingu, – en orðið skiptist í tvö orð til-breyting og felur í sér hreyfingu.  Lífið er orka og lífið er hreyfing. –

Stundum er nóg að þessi hreyfing sé aðeins að breyta um viðhorf.  Hugsa út fyrir kassann, fara út fyrir þægindarammann eða fara upp á nýjan (sjónar)hól. –

Þetta er nú alveg helling 😉

Við getum hugsað okkur að við séum að íhuga draumana okkar, – sjáum fyrir okkur sýnina,  trúum á hana,  en ekki nóg því við sitjum alltaf kyrr.   Það gengur ekki alveg upp.  Við verðum að hætta að horfa upp í stofuloftið, – standa upp úr sófanum, e.t.v. bara nokkur skref og horfa upp í himinn, anda djúpt og fylla lungun af fersku lofti. –  Þá erum við tilbúin í slaginn. –

Á sama hátt þurfum við að fylla huga okkar af ferskum hugsunum.  Leyfa hinum stöðnuðu og jafnvel að skoða dagsetningar á sumum þeirra, hvort þær séu ekki komnar langt yfir síðasta neysludag og þv´verða þær að víkja.

Útrunnar hugsanir geta verið stórhættulegar! 

 

 

 

Vertu til er vorið kallar á þig,
vertu til að leggja hönd á plóg.
Komdu út því að sólskinið vill sjá þig
sveifla haka’, og rækta nýjan skóg.

Ert þú til í að hlýða kalli vorsins,  leggja hönd á plóg og rækta nýjan skóg?

Gagnkvæm ást, traust og VIRÐING í hjónabandi ..

Ég skrifaði pistil nýlega um mikilvægi því að „giftast“ eða gefast sjálfum sér. –   Með því undirliggjandi sem þarf til að hjónaband virki. –  Ég held það fari varla á milli mála að þar þarf að ríkja ást – virðing og traust. –  

Mikilvægi sjálfsvirðingar – sjálfstraust og að elska sjálfa/n sig verður seint dregið í efa. Þ.e.a.s. að þykja vænt um sjálfa/n sig en ekki í hefðbundinni merkingu eða eigingirni. –

Í framhaldi af því segjum við oft að við verðum að elska okkur sjálf, virða og treysta til að aðrir geri það.  Sú staðhæfing er góð og gild eins langt og hún nær. –

En lífið er svo skemmtilega (leiðinlega?)  flókið – og það er staðreynd að margir eiga í erfiðleikum með að elska sig, virða og treysta og það þýðir ekki að við megum ekki eða eigum ekki að elska, virða og treysta þeim sem eru í vandræðum með það. –

Við getum nefnilega elskað, treyst og virt án skilyrða. – Þ.e.a.s. við getum fókuserað á að allar manneskjur séu elsku, virðingar og trausts verðar. –  Ef þær eru brotnar er erfitt fyrir þær að byggja upp elsku, virðingu og traust án utanaðkomandi aðstoðar. –

„Ég fór að trúa að ég gæti þetta af því að þú trúðir á mig!“ –  

Þetta er raunveruleg setning úr bréfi nemanda til námsráðgjafa.

Þó að umhverfið, eða í þessu tilfelli námsráðgjafinn,  hafi áhrif,  er það í raun alltaf nemandinn sem þarf að taka ákvörðun eða velja að hlusta á ráðgjafann,  að samþykkja það sem hann segir og gera það að sínu.  Þ.e. að fara að hafa trú eða traust á sjálfum sér eða getu sinni. 

Margir hafa heyrt söguna um froskana sem voru að keppast um að klifra upp í mastrið. – 

Hópur af froskum lagði af stað,  en niðri var hópur sem kallaði, „þetta er ekki hægt“ – „Þetta tekst aldrei“  .. o.s.frv. –  einn af öðrum gafst upp þar til einn froskur varð eftir og kláraði alla leið á toppinn. –   Af hverju gafst hann ekki upp? –

Froskurinn var heyrnalaus. –

Það mætti líka snúa þessari sögu við, þar sem liðið á jörðinni væri að hvetja áfram og kalla hvatningar.  Hvað hefði gerst þá? –

Hvernig tengist hjónaband með undirliggjandi ást, trausti og virðingu inn í þetta froskadæmi? –

Jú, við hjónavígslu lofar parið hvort öðru gagnkvæmri virðingu, ást og trausti. –

Gagnkvæmnin felur í sér að gefa og þiggja virðingu, ást og traust.

Á sama hátt og hver manneskja þarf að rækta sjálfa sig og það er eflaust grunnforsendan (eins og að elska sjálfa sig, virða og treysta) þá þurfa tveir aðilar að rækta hvern annan, og – hjónabandið þarf að rækta. –

Þarna fer oft ýmislegt að fara úrskeiðis. –  Af hverju rakna hjónabönd upp? –

Það er þegar jafnvægið klikkar. –  Þræðirnir ná ekki að spinnast saman eða liturinn fer að leka úr öðrum yfir í hinn. –  Hjónabandið er úr tveimur heilum þráðum, sem þurfa að haldast heilir og vefja saman eitt sterkt band. –

Í upphafi getur pari liðið eins og algjört jafnvægi ríki,  – það er þegar ástin er allsráðandi og eins og sagt er þá getur ástin blindað,  þessi ástríðufulla ást, – ekki þessi sem varir, þessi sem er meira eins og djúp væntumþykja. –

Þegar fólk fer að upplifa mannlegu hliðarnar, – þá fara hlutir sem voru jafnvel krúttlegir áður að fara í taugarnar á hinum. –

Við getum tekið dæmi af konu sem er lengi að gera sig klára, og er af þeim orsökum alltaf of sein.  Í tilhugalífinu þótti manninum hennar þetta krúttlegt, að hún tæki langan tíma að undirbúa sig fyrir hann og bara fyndið að mæta of seint í matarboð eða í leikhúsið.   Seinna þegar þau eru gift, er þetta að hans mati einn af hennar stærstu ókostum og farið að taka mjög á taugarnar,  og orðinn orsakavaldur margra uppákoma og rifrilda.

Seinlæti og það að koma of seint eða láta bíða eftir sér er í raun óvirðing við tíma annarra.  Sá aðili sem lætur bíða eftir sér er því að sýna bæði maka og öðrum „þolendum“ óvirðingu. –   Óstundvísi er oft ávani eða lærð hegðun sem þarf að aflæra.  En til þess þarf viljann til þess. –

Kona sem er búin að segja manni sínum að henni finnist dásamlegt að hann færi henni blóm við og við, – og hann færir henni aldrei blóm,  er að óvirða langanir konunnar með að hlusta ekki á hana. –

Við verðum að yrða óskir okkar, langanir og þrár – og makinn á móti að virða þessar óskir, langanir og þrár (að sjálfsögðu á meðan það gengur ekki á virðingu makans). –

Þessar dæmisögur eru bara brotabrot og virka kannski einfaldar, en geta í raun verið upphafið að óánægjuferli. – 

Þó að við eigum ekki að þrífast á viðurkenningum né hrósi, blómum eða hegðun annarra,  þá komumst við ekki hjá því að slíkt hefur áhrif.  Við þurfum ekki að láta eins og að við séum ónæm fyrir hrósi eða viðurkenningu,  það er líka gott í hófi, eins og súkkulaði eða rauðvín er gott í hófi 😉

  –  Við þurfum að sýna tillitssemi og virðingu, – við erum tilfinningaverur og það er nú þannig að t.d. samlífið sem endar í rúminu á kvöldin hefst oft að morgni. – 

Náin og falleg samskipti yfir daginn byggja upp áhugann fyrir kvöldið – á meðan vond samskipti og óvirðing brýtur niður áhugann. –  Merkilegt þegar sumir halda að það sé hægt að vera leiðinleg/ur við maka sinn og fjarlæg/ur allan daginn jafnvel gera lítið úr – og svo eigi allt að „gerast“ um kvöldið.

Auðvitað eru undantekningar – en þær eru ekki reglan. –

Hjón deila næstum öllu með hvort öðru, lífi sínu og tilfinningum.  Það er mjög mikilvægt að virða tilfinningar hvers annars, annars er ekki hægt að tjá sig um þær og þær safnast bara upp í hnút. –

Að sjálfsögðu þarf fólk að komast að samkomulagi, hvað er eðlilegt og hvað ekki og hafa sameiginlegar reglur og gildi fyrir heimilið, og þá ekki síst þegar börn eru í spilinu. –

Æ oftar heyri ég af körlum í hjónabandi sem vilja skoða klámsíður á netinu, – konan biður þá um að hætta, en ekki hættir maðurinn og unglingar á heimilinu komast jafnvel í efnið.  – Þetta er raunveruleikinn. –

Ef að hjón eru ekki fær um að virða langanir, þrár, væntingar eða skoðanir hvers annars,  þá fer að fjara undan. – 

Hvað þá að virða hvort annað bara sem manneskjur. –

Mörg hjón stunda það, annað hvort bæði eða annað að gera lítið úr hinu og ýta oft á viðkvæmustu takkana, og það geta þau vegna þess að þau þekkjast svo vel. –

Sá aðili sem gerir þetta,  notar það að hæðast að maka sínum, jafnvel fyrir framan annað fólk er yfirleitt sjálfur í vanlíðan.  Þetta er því keðjuverkandi. –

Ég þekki þetta af eigin raun, – bæði að vera gert lítið úr og að gera lítið úr. –  

Þetta kallast gagnkvæm óvirðing. –

Gagnkvæm óvirðing kemur þegar báðir aðilar eru brotnir, líður illa og stundum þarf bara einn að byrja og svo hefst vítahringurinn. –

Hjónabandið er því,  eins og fyrirtæki,  ekki sterkara en veikari hlekkurinn eða aðilinn. –

Fólk getur viljað vel, upplifir jafnvel væntumþykju – en kann ekki samskipti. – Kann ekki umgengi og skilur ekki hvað er eiginlega í gangi. –

Af hverju vill hún/hann ekki elskast með mér í kvöld? –

Af hverju er hún/hann í fýlu? –

Af hverju er hann/hún farin/n að leita í aðrar áttir?

Við verðum að spyrja af hverju,  en ekki bara að ráðast á afleiðingarnar. –

Ef hjón vilja bæta samband sitt,  þarf að:

Virða sig, virða maka sinn, virða hjónaband sitt, virða mörk sín o.s.frv. –

Það þarf að taka tillit til eigin langana og þarfa og yrða þær,  ekki bara vona að makinn fatti,  því að það er ekkert víst að hann hafi alist upp í þannig umhverfi.   Á móti þarf sá sem tekur við að hlusta á langanir og þarfir og virða þær. –

Ekki gera lítið úr,  ekki hæðast að.   Ef fólk er ekki sammála þá verður að komast að samkomulagi eða niðurstöðu.

Stundum er það þannig að forsendurnar fyrir hjónabandinu eða sambandinu voru alltaf rangar og því er erfitt að bjarga,  stundum hefur annar aðilinn beitt það miklum rangindum eða ofbeldi að því er erfitt að bjarga og þeim sem beittur var ofbeldinu bjóðandi að halda áfram. –

En þegar BÁÐIR aðilar sjá möguleika á því, og langar til að byggja upp gagnkvæmt traust, virðingu og  elsku, þá ber að hafa það í huga að:

Það er dýrara og oft mun sársaukafyllra að skilja en að leita sér hjálpar eða fá ráðgjöf.

Þrátt fyrir ofan sagt, er forsendan alltaf að elska sig, virða og treysta.  Því sá sem gerir það lætur ekki bjóða sér óvirðingu, yrðir tilfinningar sínar langanir og þarfir, setur eðlileg mörk í samskiptum og lítur ekki á sig sem stærri eða minni en aðrar manneskjur, heldur jafningja. – 

Jafnframt:  Það er sagt að við getum ekki breytt fólki og það er satt svo langt sem það nær. – Við breytum ekki fólki,  það breytir sjálfu sér. – Þegar við segjum við einhvern að við treystum viðkomandi getur hann valið sjálfur hvort hann trúir því eða ekki.  Við ákveðum það ekki fyrir hann. –  

Við getum haft áhrif á fólk með því að breyta okkur, framkomu okkar, viðmóti og hvernig við umgöngumst það. 

Við getum haft áhrif með því að vera fyrirmyndir,  fyrirmyndir í elsku, virðingu og trausti. –   Bæði á sjálfum okkur og öðrum. –

Þetta er búið að vera átakamikið umræðuefni, – set hér í restina trailerinn úr „Steiktir grænir tómatar“ – þar sem frúin var óánægð með sjálfa sig og ónærð í hjónabandinu og var farin að leita huggunar í  konfektkassa og eiginmaðurinn í íþróttunum í sjónvarpinu. –  Hún var að reyna að fá athygli hans, m.a. á tragikómískan hátt með að vefja sig inn í sellófan,  en í raun var það endurnýjað sjálfstraust hennar í gegnum samtöl við fullorðna konu sem vakti athygli og áhuga eiginmannsins. –

Þú getur valið hvort þér þykir þetta trúverðugt.

Að lokum,  það er aldrei uppbyggilegt að fara í ásökunargír hvorki gagnvart sjálfum sér eða maka, – miklu betra að setja sig í þann gír að vilja sýna sjálfum sér skilning, skilja maka sinn og skilja sjálfa/n sig.     

Lokaspurning:

Hvað átt þú skilið og hvað ætlar þú að gera í því?

Framhald um meðvirkni og góðmennsku ..

Þessi pistill, er í raun framhald af fyrri pistli, sem ég birti undir heitinu „Meðvirkni er ekki góðmennska“ – og má lesa hér á undan þessum.  Þessi er þó sjálfstæður. –

Ef að gjörðir okkar snérust aðeins um mig, eða aðeins um þig, þá væri þetta ekkert voðalega erfitt. –  Stundum eru dæmin miklu flóknari, og oftast – því að þegar við förum að tjá okkur um sögu OKKAR, erum við ekki ein í heiminum, heldur er fullt af fólki þarna í kring.  „Hvað ef ég segi frá þessu, er ég að rjúfa leyndarmál ekki bara mitt, heldur hinna og hvernig verða viðbrögðin?“ – Verð ég bara einhvers konar hornreka í eigin fjölskyldu? –

Orð hafa áhrif, og það er því nauðsynlegt að biðja aðstoðar Guðs/æðri máttar,  eins og gert er í æðruleysisbæninni,  þar sem við biðjum um hjálp um sátt við það sem er og við getum ekki breytt,  hugrekki til að breyta því sem við getum breytt og vit eða visku til að greina þar  á milli. –

Það er e.t.v. fyrsta skrefið, en svo að leita sér hjálpar ekki bara æðri máttar, heldur mannlegs máttar,  en til þess eru sálfræðingar, geðlæknar, prestar og auðvitað við starfsfólk Lausnarinnar,  sem erum búin að kafa djúpt í orsakir meðvirkni,  okkar eigin og annarra. –  Þeir eru þó reyndari samstarfsfélagar mínir,  enda ég frekar nýgræðingur á svæðinu. –  (Skoh, byrja ég: „I´m not good, and not worthy“ 😉 .. )

Ég er þó ekki nýgræðingur í að vera meðvirk!

Meðvirkni er svoooo smitandi,  eða afleiðingar hennar.  Ég ætla að halda áfram að segja frá sýndarveruleikakonunni henni Önnu.    Eins og fram hefur komið var maður Önnu bæði búinn að halda framhjá henni og svo átti hann við drykkjuvandamál að stríða, – var með öðrum orðum virkur alkóhólisti og hún virkur meðvirkill. –

Anna var búin að kyngja gremju sinni, – fletta upp í „gullkornakistunni“  – Já, já, sá vægir er vitið hefur meira, – hún ætlaði ekki að halda til streitu neinum  leiðindum gagnvart Tedda. –  Fyrirgefa honum bara sem sannkristin manneskja, – ekki vera að ýfa upp meiri öldur,  enda var Teddi í þokkalegu jafnvægi þessa vikuna, –  fyrir utan þarna þegar hann kom heim drukkinn í leigubílnum um nóttina og hafði týnt veskinu sínu,  svo hún þurfti að koma út, „svona getur nú komið fyrir besta fólk“! ..      Svona var sjálfssefjunartal Önnu, en inní henni var kvika, – kvika gremju og reiði,  kvika skammar fyrir að standa ekki með sjálfri sér,  kvika sem hún fann að stækkaði í maganum hennar. –

Anna hafði haldið því leyndu fyrir fjölskyldunni hvernig Teddi hafði komið fram við hana.  Ekki bara til að hlífa honum, – Ekki bara til að hlífa öðrum fjölskyldumeðlimum .. hmmm? – Hvað meina ég með þessu? –

Hún var að hlífa sjálfri sér,  því hún skammaðist sín innst inni fyrir að hafa leyft honum að komast upp með allt sem á hafði gengið í gegnum árin.  Þegar hann henti út í brjálæðiskastinu og ölæðinu  um miðja nótt á náttfötunum. –  Þegar hann reif  í blússuna hennar og hún rifnaði – þegar hann var að ásaka hana um að vera of glyðrulega klædd. –   Þegar dóttir þeirra hafði séð blússuna sagðist hún hafa krækt henni í krók útí gróðurhúsi og blússan rifnað. –   Hún var að ljúga fyrir pabbann,  fyrir sjálfa sig til að fela skömm sem hún taldi sína og var að „hlífa“ dótturinni svo hún vissi ekki hvernig pabbi hennar kom fram við hana. –

En allt þetta og meira til hafði haft niðurbrjótandi áhrif á Önnu,  hún var farin að skammast sín fyrir tilveru sína, – og þurfti því enn meira á að halda að hún fengi utanaðkomandi klapp á bakið og að heyra að hún væri nógu góð. – Vítahringurinn versnar og vernsar. –

En Anna mætti í vinnunna, – hún var skólaritari í grunnskóla og hún var venjulega hress og kát og setti jafnvel upp sparibrosið, – henni leið oftast  vel í vinnunni, en hún fann að kvikan var orðin henni næstum ofviða. –  Hún hvæsti þá á nemanda sem kom of seint, – gekk um og skammaðist og reifst. –  Það voru allir sem voru farnir að finna fyrir vanlíðan Önnu og sumir kölluðu hana herforingjann, þegar hún fór yfir strikið í skapofsanum. –  Dóttirin sem hún hafði verið að hlífa heima fann líka fyrir vanlíðan mömmu sinnar. – Því að auðvitað fann hún spennuna,  en skildi engan veginn hvað var þar á bakvið.

Engar tilfinningar ræddar og það ruglaði auðvitað tilfinningaástandi dótturinnar.  Af hverju var sagt að allt væri í lagi þegar ekki var allt í lagi? – jú það var einu sinni þegar að ekki var hægt að fela,  dóttirin hafði séð ástandið.  Þá ræddu þau um að halda þessu fyrir sig, innan fjölskyldunnar,  og halda síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist.

En það hafði „í skorist“  og skoran fór ekki í burtu. –  Þarna var dóttirin búin að fá „kennslustund“ í því að halda leyndarmál, jafnvel eitthvað sem hún hefði þurft að ræða,  en virti heiður hússins, þ.e.a.s. fjölskyldunnar, sem var þó bara gerviheiður. –

Anna ber ekki virðingu fyrir eigin tilfinningum,  hún virðir ekki sín mörk, henni finnst aðrir merkilegri en hún sjálf, en á vissum stöðum verður hún alvitur og best og er því æðri öðrum,  en Anna er óhamingjusöm,  því að kvikan og skömmin vex innra með henni. –

Hvað getur Anna gert? –

Hvar á hún að fá hjálp? –

Hvað ef þessi kvika væri krabbamein? –  Myndi Anna bara hunsa hana? –

Eflaust ekki.

Þegar kvikan er orðin svona sterk,  hraunið utan um sálina farið að skyggja á útgeislunina og þá um leið lífsneistann,  þá er auðvitað lífs-nauðsynlegt að leita sér hjálpar. –

Það þarf fyrst og fremst að segja frá.  Þó ekki sé sagt öllum heiminum,  þá þeim sem kemur þetta við og það hefur áhrif á. –  Svo er hægt að leita til trúnaðarmanneskju sem hefur vit á meðvirkni. –

Enginn á að sitja einn með leyndarmál eða skömm. –  Það er alltaf einhver þarna úti sem gæti hlustað án þess að dæma.  Það er mjög mikilvægt að hlustandinn sé fær um það.  Hversu hrikalegt sem málið hljómar og er,  þá er það svo skrítið að við það að deila með öðrum þá léttir á. –

Margir halda að þeir séu að missa vitið  þegar þeim er farið að líða svona illa út af meðvirkninni,  og það vantar oft ekki að t.d. maki haldi því að viðkomandi að hinn aðilinn sé í raun bara geggjaður! ..

Það er alveg rétt að sá meðvirki verður týndur,  týnir spegilmynd sinni.  Sér í speglinum flesta aðra en sjálfa sig og jafnvel löngu farna forfeður og mæður, – en kannski sér hann engan í speglinum.  Bara tóm. –

Það er mikilvægt að hér komi fram að bæði Teddi og Anna eru meðvirk. – Og sambandið er aldrei heilbrigðara en veikari aðilinn er.  Í raun eins og fyrirtæki er jafn sterkt og veikasti hlekkurinn.  –  Hjónaband þeirra er svokallað þarfasamband,  þar sem þau eru háð (codependent)  hvoru öðru. –  Teddi er voða fegin að Anna er svona opin og skemmtileg og sér um samskiptin við aðra, hann er það bara þegar hann er í glasi, – en í raun er hann hrikalega lokaður og feiminn,  enda sjálfur með þannig „forritun“ frá bernsku.

Hann var barnið sem kom heim með 9.5 í einkunn úr smíðakennslunni, og þegar hann var 12 ára kom hann heim með þennan flotta skjöld sem hann hafði smíðað.   Pabbi hans hafði litið á skjöldinn og sá á einum stað að vantaði að pússa betur, og sagði – „já, ég skil af hverju þú fékkst ekki 10“ .. og ekki orð um það meir! – (Börnum var ekki hrósað, því þau gætu orðið of montin) – Pabbi Tedda var jafnframt þessi harða týpa sem „beit á jaxlinn“ – og „vældi ekki eins og kerling.“ – Mamma hans var aftur á móti róleg týpa sem stjórnaði umhverfinu með píslarvotta hegðun og  samviskustjórnun. –

Teddi gerði aldrei neitt nógu vel,  að eigin mati – hann hélt s.s. við mati föður síns,  og þráði eins og Anna að fá hrós, viðurkenningu, athygli á réttum forsendum, þó hann skildi það kannski ekki sjálfur.  Honum leið ekki skár en Önnu og lét það bitna óspart á henni. –   Hann ræddi ekki tilfinningar sínar, „bar ekki sín vandamál á torg“ –  Hann var ekki að leita sér hjálpar eða ræða við einhvern „Gvöð“ –  heldur drakk hann úr flösku. –

Anna leitaði aftur á móti í súkkulaðið,  sem flóttaleið þegar kvikan gerði vart við sig, –  hún gat ekki gengið í gegnum tilfinningarnar, hún fór frekar að baka eða borða. –  Það var ekki í boði að ræða neitt. –

Óyrtar tilfinningar,  ósögð orð, upphlaðin skömm og sektarkennd,  hausinn fullur af súrum og útrunnum skilaboðum frá bernsku sem er viðhaldið af innri rödd sem er ekki lengur þín eigin. –

„You have to see your pain to change“  sagði sálfræðingurinn Sophie Chiche þegar hún var að segja frá leið sinni að komast frá A til B í lífinu og þar sem hún lenti alltaf í svartholi. –

Við þurfum að þekkja einkennin og virða þau til að breyta.

Við höfum notað þessar útrunnu hugsanir um okkur sjálf allt of lengi:  „Hver þykist þú vera“ – „Þú ert ekki verðug/ur“  „Þú ert algjör lúser“ –  „Þú átt ekkert gott skilið“ – „Þú gerir aldrei nógu vel“ … og svo framvegis og svo framvegis. –

Ástæðan fyrir því að ég hef verið að prédika fyrir fólki að tala jákvætt við sjálft sig,  koma með jákvæðar staðhæfingar,  er vegna þess að það er sem móteitur við þessari neikvæðu útrunnu rödd. –

Fólki finnst væmið, skrítið og óeðlilegt að tala fallega um sig, og jú, því finnst það ekki eiga það skilið! –  Hringir þetta einhverjum bjöllum? –

Ef við höfum hatað okkur næstum allt okkar líf, hafnað okkur, óvirt og vantreyst,  þá er viðsnúningur aldrei of seinn.   NÚNA er punkturinn að snúa við tannhjóli neikvæðninnar,  – tala fallega í eigin garð, líka um líkamann okkar,  aldrei hata neinn part af okkur. –  Heldur sættast við hann. –  Öll eitruðu spjótin í eigin garð virka sem eitur. –  Öll eitruðu spjótin í garð annarra virka líka sem eitur á okkur,  vegna þess að þau eru eins og bjúgverpill,  – það er karmað, það er bergmál lífsins.  – Ef við tölum illa um aðra, erum við að tala illa um okkur sjálf,  því að við erum þegar upp er staðið ÖLL EITT mannkyn. –

Öll vorum við saklaus börn, – það gerðist eitthvað á leiðinni, – og skyggja eitthvað á perluna okkar,   sálina okkar.   Okkur batnar ekki við að kenna öðrum um,  okkur batnar ekki við að óska öðrum óhamingju.  Okkar hamingja bætist ekki við það,  það er amk ekki raunveruleg hamingja að sjá aðra engjast um.  Það er hefndarþorstinn sem ræður. –

Drykkurinn sem svalar þeim þorsta er ekki hollur. –

Þegar við komumst svo út úr hausnum á öðrum,  og náum að dvelja í sjálfum okkur, – virða, elska og treysta,  fara að veita sjálfum okkur athygli. –  Þá erum við komin á ágætan stað. –

Leiðin er að tjá sig,  nota fallegt tungumál, velja sér vini og holla andlega næringu (líka í fjölmiðlum)  virða sín mörk,  samþykkja sig sem ófullkomna manneskju og fyrirgefa sér það af einlægni,  – líka þegar við gerum mistök,  ekki dæma, ekki fyllast sektarkennd því það startar vítahringnum aftur. –

Við þurfum að komast upp úr gamla farveginum, – breyta viðhorfum okkar til sjálfra okkar og tilverunnar.  Æfa okkur í hamingjunni. –

Sophie Chiche, sálfræðingurinn franski,  sem ég minntist á hér fyrr,  var spurð hvernig hún hefði farið að því að losa sig við 40 kíló,  – en hún svaraði að bragði  „I didn´t DO anything I shifted my state of BEING“ –    Hún breytti tilveru sinni en GERÐI ekki neitt, – að sama skapi er hægt að losna við andleg 40 kíló sem hvíla eins og hraunið á sálinni,  – offita hugans, eða í sumum tilfellum þegar við glímum við of mikla stjórnsemi og erum með of strangar reglur gagnvart okkur sjálfum: anorexía hugans. –

Hugleiðsla er leið inn á við,  náttúran er leið til að kynnast okkur sjálfum,  að einfalda líf sitt og sortéra er ein aðferð. –

Hér ætla ég að staðnæmast í dag, en munum það að við megum vera og eigum að vera ófullkomin, engin/n mannleg vera getur verið fullkomin – nema hin fullkomna útgáfa af sjálfum sér.

Við eigum ekki að þurfa að óttast að gera mistök, – eflaust kæmumst við upp með það að gera aldrei mistök ef við gerðum aldrei neitt, eða tækjum okkur aldrei neitt fyrir hendur, tækjum aldrei áhættu. –  En það er uppskrift af leiðindum. –

Núna er tíminn okkar allra til að njóta lífsins, við skulum verja tíma okkar vel. – Meðalhófið er best, – að komast í sátt og jafnvægi er best. –  Of eða Van eru hættumörkin, –  ef það er eðlilegt að sveiflast pinku þegar við förum að breyta.  Foreldrar sem aldrei hafa fengið hrós eða elsku,  eiga það stundum til að ofvernda börnin sín, ofhrósa, ofelska,  en þessi „ofelska“  Ofelska er ekki raunveruleg elska,  það er elska á röngum forsendum. –  E.t.v. hræðsla við að missa börnin,  hræðsla við að þau lendi í því sama og við,  en við verðum að leyfa þeim að fljúga úr hreiðrinu, – því að þeim eru gefnir vængir til að fljúga. – Ef við stöðvum þau, gætum við eins vel vængstíft þau. –

Eigum góðan dag og njótum hans sem við, í elsku til okkar sjálfra og í elsku til annarra. –  Einlægri elsku.

Biðjum fyrir OKKUR

Lífið er okkar, himininn, jörðin, vatnið er okkar og  við erum himinn, jörð og vatn

Við erum öll tengd líffræðilega, við erum öll tengd jörðinni efnafræðilega

Við erum öll eitt, eitt með hvert öðru og eitt með jörðu og himni

Eitt með Guði

Uppsprettan er óendanleg

Gefum henni frelsi til að flæða

Hið ytra og hið innra

Leyfum lífsins orku  að flæða um okkur

Heila, lækna og frelsa

Upplifum gleðina og hugrekkið í hversdeginum

Tökum í hendur okkar sjálfra og segjum “Takk”

Öndum djúpt, hugsum fallegar hugsanir, drekkum meira vatn og lifum:

HAMINGJUSÖM

Hægt er að skoða meira um meðvirkni og aðferðir á http://www.coda.is  og http://www.lausnin.is  en þar starfa ég. –

Allir út úr skápnum sem tilfinningaverur „Vertu þú sjálfur – farðu alla leið“ ….

Seinni hluti fyrirsagnar er m.a.  vísun í upphafið á lagi sem kom í kollinn á mér í morgun …“Vertu þú sjálfur – farðu alla leið“ ….

Það eru margir í sjálfsleit, – og hreinlega að læra að vera þeir sjálfir. –

Því ef við erum ekki við sjálf hljótum við að vera einhver önnur, ekki satt? – Kannski erum við bara mamma eða pabbi? – Eða vinir okkar? –  Kannski erum við að troða okkur í piparkökumót sem passar okkur ekki? –

Það eru ýmis ljón á veginum, –

  • Hvernig veistu hvenær þú ert þú sjálf eða sjálfur? –
  • Hvað gerist þegar þú ferð að vera þú sjálf eða sjálfur?
  • Hvernig tekur samfélagið á móti þessari nýju/sönnu útgáfu af þér sjálfri/sjálfum? – skiptir það þig máli ef þú ert hin sanna eða hinn sanni þú?

„Sannleikurinn gerir þig frjálsa/n“ …

Brené Brown,  sem er rannsóknarprófessor og fyrirlesari  hefur skoðað mannlega hegðun og mannleg samskipti,  og tekið óteljandi viðtöl þar að lútandi, segir að það sé alltaf betra að geta tjáð sig um sögu sína, söguna um það hver þú ert en að flýja frá henni eða afneita. –

Við þekkjum flest frásögur fólks af því að koma út úr skápnum sem samkynhneigð/ur – sem er jú það sama og fella hlutverkagrímu, – halda leyndarmál um sjálfan sig.  Ef þetta leyndarmál er haldið, er það oft vegna þess að viðkomandi þorir ekki að horfast í augu við samfélagið og upplifa viðbrögð þess. –  Samfélagið,  þá bæði sína nánustu og þeirra sem fjær standa. –

Einu sinni var það þannig á Íslandi að fólk þurfti að flýja land vegna dómhörku í garð samkynhneigðra. En tímarnir hafa breyst og mennirnir (samfélagið) með. –

En hvað eru margir inní skápnum,  með grímu, með leyndarmál sem þau væru ekki með,  ef að samfélagið væri ekki eins dómhart? –  Hversu marga gæti samfélagið frelsað ef það væri umburðalyndara og sýndi meiri samhug? –

Það að vera maður sjálfur,  – þýðir ekki að við hættum að taka tillit til annarra, vera náunganum náungi o.s.frv. –  Auðvitað stefnum við alltaf inn á hinn gullna meðalveg sem er um leið hinn öfgalausi vegur sannleikans. –

Mér finnst allta gott að vitna í Carlos Castenada:

“A path is only a path, and there is no affront, to oneself or to others, in dropping it if that is what your heart tells you . . . Look at every path closely and deliberately. Try it as many times as you think necessary. Then ask yourself alone, one question . . . Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn’t it is of no use.”

Ef það er kærleikur í því sem við erum að gera,  hefur það gildi, annars ekki.  –

Þessi kærleikur gildir út á við, en líka inn á við. –

Hann gildir þannig að þú samþykkir þig og verðir ekki þinn versti óvinur og/eða dómari. –

Hvernig notum við þessa grímu í daglegu lífi, þannig að við samþykkjum okkur ekki? –

dæmi:

Anna og Gulla eru samstarfskonur og eru að rökræða.   Anna segir eitthvað særandi við Gullu,  Gulla lætur eins og ekkert sé, en segir bara að þetta komi ekki Önnu ekkert við, og snýr sér svo við,  því ekki vill hún að Anna sjái tárin sem eru að spretta fram, – og gengur svo inn á skrifstofu. –

Hvað er raunverulega í gangi þarna?

  • Gulla vill ekki leyfa Önnu sjá hvað hún er viðkvæm og hvað orð Önnu hafa sært hana. –
  • Gulla er með grímu,  skjöld eða  inní skápnum – því hún skammast sín fyrir viðkvæmni sína.   Hún vill að Anna haldi að hún sé „sterk“ ..
  • Gulla er ekki heiðarleg við Önnu því að Anna veit kannski ekki að orðin sem hún notar eru særandi.
  • Gulla er í raun óttaslegin,  en hugrekkið felst í því að ganga í gegnum þá tilfinningu en ekki flýja hana, –  láta vita hvernig okkur líður og samþykkja viðkvæmni sína en ekki afneita,  en hún er partur af okkur sjálfum. –
  • Ef að Anna hefur sagt viljandi eitthvað til að særa Gullu, þarf hún að sjá afleiðingarnar, – til að hún læri af því, og því væri það í hennar hag – kannski myndi hún ekki nota þessi leiðinda komment aftur,  þegar Gulla segði henni hreint út og frá eigin brjósti – út frá sjálfri sér en ekki með ásökun,  hvernig hún upplifði framkomu hennar. –
  • Ef að Anna gerði lítið úr viðkvæmni Gullu eða gerði grín að því,  er það hún sem er dómhörð en ekki Gulla,  sem er heiðarleg og er hún sjálf. –

Þessi samskipti gætu verið milli hjóna, para, foreldris og barns.   Heiðarleiki í samskiptum,  að segja frá því hvernig okkur líður,  fá fólk til að segja sér hvað er að, ef það er farið að skella hurðum eða herpa saman varirnar,  eða gefa þér „The silent treatment“ og þú veist ekkert af hverju. –

Við sem tökum á móti tilfinningum annarra, hvort sem við gerum það sem vinnufélagar, systur, bræður, foreldrar, ömmur eða afar megum ekki gera lítið úr tilfinningum annarra.  Þá erum við að dæma þær út frá okkar forsendum og gera lítið úr.  Sérstaklega á þetta við gagnvart börnum. –  Jafnvel þótt við séum ekki sammála,  þá verðum við að prófa að máta okkur í þeirra spor, – við þurfum ekki að samþykkja að þau hafi rétt, heldur aðeins að virða. – Það eru alltaf orsakir á bak við tilfinningar. –   Kannski eru viðbrögðin það sem við köllum „óeðlileg“ – en hvað liggur þá á bak við það? –  Aldrei niðurlægja eða gera lítið úr. –

Það er hugrekki að tala saman.  Spyrja,  „hvað er að?“ – jafnvel þó þú vitir að svarið geti verið óþægilegt og þá sérstaklega fyrir þig. –

En þannig ertu þú sjálfur,  þannig ertu þú sjálf og ferð alla leið. –

Upphafsspurningarnar voru m.a. : „Hvernig vitum við hvort að við erum við sjálf?“ –

Leiðin er frá hausnum á öðrum, yfir í okkar höfuð og þaðan niður í hjarta. –

Paulo Coelho rithöfundur,  skrifaði að ef við kynnum tvö orð á öllum tungumálum, myndum við aldrei týnast hvar sem við værum í heiminum.

Þessi orð eru „Hjálp“ og „Takk“ …

Það er ekki veikleikamerki að biðja um hjálp, heldur hugrekki og styrkur, –  það sýnir þorið að sýna hver þú ert:  „Manneskja sem biður um hjálp“ .. og auðvitað þökkum við fyrir veitta hjálp,  og þakklætið er besta bænin því að þakklæti laðar að sér þakklæti. –

Fyrsta skrefið í að biðja um hjálp, er að viðurkenna fyrir sjálfum/sjálfri sér að þurfa hjálp. – Það er hluti þess sem fólk kallar „letting go“ – eða sleppa takinu.

Það er ágæt byrjun, að byrja að biðja alheiminn/Guð/æðri mátt/lífið um hjálp,  það er ótrúlega oft sem það er fyrsta skrefið í bata og frelsi. –

Biðja um hjálp við að koma fram eins og þú ert, viðkvæm, ófullkomin manneskjan: þú – en um leið svo dásamlega sönn og heiðarleg. –  Hætt að þykjast, vera með grímu og halda leyndarmál sem halda þér niðri og hefta þig frá því að lifa lífinu lifandi vera.

Að vera til. –

Að vera til,  er að finna til. –  Að finna til er að upplifa tilfinningar sínar. –  Ef við bælum þær, flýjum, deyfum afneitum, erum við að sýnast en ekki vera. –

Við þurfum því öll að koma út úr skápnum sem tilfinningaverur, bæði karlar og konur. –

Samfélagið þarf bara að taka sig saman í andlitinu og samþykkja lífið og fólkið eins og það er. –  Það er ekki endilega auðveldasti vegurinn að feta, að ganga veg sannleikans,  en það er vegurinn til frelsis. –

Hvaða veg velur þú? ….

Ath. – Er með einkaviðtöl, fyrirlestra, hugleiðslur, námskeið og hóptíma hjá Lausninni  http://www.lausnin.is  og hægt er að hafa samband í síma 617-3337  eða johanna@lausnin.is til að fá nánari upplýsingar. –

„Ég er hamingjusamur og mér líður svo vel“ …

Ég skrapp í Arion banka við Hlemm til að sækja mér peninga, en það er partur af „nýja lífinu“ að nota peninga en ekki kreditkort. –  En það er nú ekki það sem þessi pistill fjallar um. –

Ég ætlaði s.s. að nota peningana til að versla m.a. heilsukökur að hætti Jóa Fel inní  Hagkaup,  sem ég nýlega hafði smakkað, en skipti um skoðun þegar ég sá að Yggdrasill var beint á móti bankanum og ég hlyti nú að fá eitthvað heilsusamlegt með kaffinu þar inni. –

Ég fann þar kúrbítsköku sem framleidd var í Sólheimum í Grímsnesi, svo það gat nú varla verið betra,  gekk að kassanum en fyrir framan mig stóð kona fyrir og sonur hennar ungur, kannski svona 10-11 ára gamall.   Allt í einu sagði hann hátt og snjallt úr eins manns hljóði:

„Ég er hamingjusamur og mér líður svo vel“ ….

Það fór einhver ánægjubylgja um mig,  ég leit á mömmuna sem brosti til stráksins síns og svo til mín. –  Afgreiðslukonan brosti fyrst til mömmunnar og svo þegar kom að mér,  brostum við ennþá báðar og ég leit á enn aðra konu sem stóð til hliðar við búðarborðið og við brostum hver við annarri.  –

Ég er enn með þessa vellíðunartilfinningu í maganum eftir þessa skemmtilegu upplifun í búðinni. –

Gott að leyfa sér að njóta stundarinnar, – hvað svo sem var að gerast í gær get ég sagt hvernig mér líður akkúrat núna:

„Ég er hamingjusöm og mér líður svo vel! …

Ef þú smellir HÉR getur þú lesið grein sem heitir Hamingjuforskotið

„Þetta er mér ekki bjóðandi“ ….

Karlkyns kennari gengur að kvenkyns samkennara sínum og fer að nudda á henni axlirnar,  hún frýs, rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, líður ógeðslega illa og vonar að hann hætti sem fyrst, en…. hún segir ekkert.  Hún jafnvel kvartar ekki til yfirmanna.

Þetta gerist og það er ekki einsdæmi.  Stundum er þetta kennari og nemandi. Og vissulega er hægt að víxla kynjunum þarna líka, þótt eitt sé algengara en hitt. –  Jú, stundum er kvartað en ekki alltaf.

Það vakna margar spurningar.

Í þessu  dæmi sem ég set upp í upphafi. Af hverju leyfir karlinn sér þetta?   – Kannski finnst honum hann bara „næs?“ –  en þetta snýst í raun ekki hvað honum finnst. –  Þetta snýst um upplifun og tilfinningar konunnar. – En á móti er spurt af hverju virðir hún ekki sín mörk og sínar tilfinningar? –  Af hverju segir hún ekki neitt? –

Hana vantar sjálfstraust, hana vantar sjálfsvirðingu og ef til vill að elska sig nógu mikið til að segja upphátt  „Þetta er mér ekki bjóðandi“ – eða bara „Nei takk, sama og þegið ég vil þetta ekki.“ – eða eitthvað í þeim dúr. –

Ef hún segir aldrei neitt, – þá er mjög líklegt að karlinn haldi að henni þyki þetta bara „næs“ eins og hann upphaflega hélt.  Nú kannski hefur hann áhuga fyrir þessari konu og gengur á lagið? –  (Auðvitað vond nálgun, en kannski kann hann ekki aðra leið). –

Ég er með þessari umfjöllun ekki að varpa ábyrgðinni á kynferðisáreitni á þolandann og langt í frá.

Aðeins að vekja athygli á mikilvægi þess að virða tilfinningar sínar, þora að tjá sig, þora að tala upphátt. –  Til þess þarf hugrekki – það þarf nefnilega hugrekki að játa að manni finnist eitthvað óþægilegt, að við séum ekki bara naglar sem sé sama þó að ókunnar hendur fari að nudda á okkur axlirnar.  Við erum kannski hræddar við að vera álitnar teprur eða of viðkvæmar. – En þá erum við heldur ekki að virða það sem við erum.

Styrkleikinn liggur í að viðurkenna viðkvæmnina, að viðurkenna að okkur finnst eitthvað óþægilegt og segja það upphátt. – Ekki láta bjóða sér upp á það sem okkur finnst vont og óþægilegt – og það er ekkert til að skammast sín fyrir að segja „Nei takk“ ekki frekar en að segja „nei takk“  við hákarli eða lifur eða hverju því sem okkur finnst bragðvont. –  Ef við virtum nú ekki bragðlaukana okkar, og myndum pína okkur til að borða það sem hinir réttu að okkur,  einungis til að geðjast þeim, láta ekki vita að okkur þætti þetta vont, myndi okkur ekki þykja við klikk? –   Svona göngum við á okkur sjálf og sjálfsvirðingu okkar, og við förum að safna skömm. – Eins og ég hef skrifað um annars staðar er skömmin krabbamein sálarinnar og hún lagast helst við að tjá sig um hana, eða það sem veldur henni,  sé talað.  Tjáningin er því líka lækning þar. –  Skömmin er svo vond tilfinning að hún lætur okkur skammast okkar fyrir okkur sjálf, það er í grófum dráttum munur á sektarkennd og skömm.  Sektarkennd = ég skammast mín fyrir það sem ég gerði.  Skömm = ég skammast mín fyrir það sem ég er.

Því miður elur samfélagið á þessari skömm þegar það gefur ákveðin skilaboð um hvernig við eigum að vera og hvernig ekki. „Við eigum að vera sterk og ekki bera tilfinningar á torg.“  „Bíta á jaxlinn“  o.s.frv. –

Það er enginn að tala um að við eigum að standa vælandi niðrá torgi, en við eigum að geta talað um tilfinningar okkar alltaf þegar við þurfum á því að halda.  Þegar okkur er mál.    Annars verðum við veik, vond o.s.frv. og það skapast vítahringur.  –

Við þurfum að hjálpa börnunum okkar að virða sínar tilfinningar, þekkja inn á þær og leyfa þeim að tala.  Ekki gera lítið úr þeirra tilfinningum,  þær eru sannar. –  Ekki segja „þér finnst þetta ekki vont“ – þegar barnið segir „mér finnst þetta vont“ …   Þá kennum við því að virða ekki tilfinningar sínar og það fer að efast.

Konan í upphafi sögunnar lærði það í bernsku að virða ekki sínar tilfinningar, það væri jafnvel hallærislegt eða sýndi að hún væri of viðkvæm.

Virðum okkar mörk – svo aðrir virði þau líka. –

Elskum okkur, virðum okkur og treystum okkur svo aðrir geti elskað okkur, virt og treyst. –  

Það er ekki bara eitthvað sem er sniðugt að gera, eða góð hugmynd að prófa að reyna að elska sig,  það er nauðsynlegt fyrir farsæld og hamingju hverrar manneskju að gefa ekki afslátt af sjálfri sér,  þ.e.a.s. af tilfinningum sínum, virðingu eða trausti. –

Allt sem ég fjalla um hér að ofan, gildir fyrir karlmenn sem konur, – að virða tilfinningar sínar. –  Gildir líka í öðrum samskiptum þar sem á okkur er gengið, – að setja okkar mörk og yrða þau upphátt við þá sem í kringum eru. –

Þú átt alla þína elsku skilið – leyfðu þér að trúa því! –

Blái Ópallinn söng „Stattu upp fyrir sjálfum þér“ –  það er nákvæmlega sem við þurfum að gera, – og standa svo með sjálfum okkur og virða. –

4 mínúturnar hans Doctor Phil. …

Ég  bý svo vel að eiga systur sem býr í sama húsi og ég, þ.e.a.s. ég bý á fyrstu hæð og hún þriðju. –  Ég skýst stundum á flónnelinu eða velúrnum (náttbuxunum eða heimabuxunum)  upp í morgunkaffi til hennar.  Það er ekkert smá notó.  Hún er með Doctor Phil, en ég ekki. – Þ.e.a.s. hún er með Skjá einn.  Um daginn settist ég niður með indælan kaffibolla og með Doctor Phil. – Stundum er þetta voðalegt amerískt drama, enda maðurinn amerískur og drama er mikið í henni Ameríku! 😉

En eitt ráð sem hann var að gefa sambúðarfólki sem ég held að sé gott að hafa í huga, – fyrir alla sem er í sambúð, hjónabandi eða bara í sambýli við annað fólk,  á hvaða nótum sem það er. –

Ráðið er eftirfarandi:

Gefðu þér fjórar mínútur (þú þarft ekki að liggja á klukkunni eða setja upp tímaglas, heldur er þetta auðvitað „sirkabát“l)  þegar þú kemur heim (eða tekur á móti einhverjum sem er að koma heim) til að veita sambýlisfólki, börnum og/eða maka jákvæða athygli, – rabba um góða hluti, gefa knús eða hvað sem þið eruð vön að gera, heilsa a.m.k. almennilega upp á hvert annað ÁÐUR en farið er að röfla yfir draslinu í ganginum, ræða hvað vinnan var ómöguleg,  rukkuninni vegna stöðumælagjaldsins sem þú tókst með þér úr póstkassanum – o.s.frv.  Það er að segja ef þú þarft eitthvað að kvarta. –  Ekki byrja innkomuna á neikvæðni, – því að ef þú byrjar á jákvæðu nótunum leggur það línurnar fyrir framhaldinu. –

Sumir koma heim og byrja strax að kritisera, – „af hverju er ekki búið að taka úr uppþvottavélinni“ – „Hver var að fá sér brauð hér, það er brauðmylsna út um allt“ – blablajólakaka.   Þetta er ekki manneskja sem þeir sem fyrir eru á heimilinu hlakkar mjög mikið til að fá heim, – og getur valdið streitu,  hvernig skapi skyldi nú pabbi, mamma, maðurinn minn, konan mín vera í þegar hún/hann kemur heim? …

Þú vilt varla vera persónan sem hinir eru á nálum yfir? –

Ýkt mynd af svona „óþægilegri“ manneskju er eiginmaðurinn í myndinni  „Sleeping with the Enemy“  sem tékkaði hvort að allar dósir snéru rétt í matarskápnum og hvort að handklæðin væru jafnsíð á slánni. –  Já, ýkt, – en ef það er aðili inni á heimilinu sem er sífellt dæmandi aðra heimilismenn þá fara heimilismenn ósjálfrátt að upplifa þennan aðila sem „óvininn.“    Það er ekki þægilegt að búa með óvininum.  –  Sambúð á að vera stresslaus og góð,  við eigum hvorki að þurfa að vera á nálum né í óöryggi að vera sífellt gagnrýnd því að við annað hvort gerum ekki nógu vel eða erum ekki nógu fullkomin. –

En byrjum smátt,  fjórar mínútur –  og kannski verða þessar fjórar mínútur að fjórum stundum? – Kannski er eitthvað af því sem þurfti að kvarta yfir ekki þess virði og gefur ekkert vitamín inn í samband eða í fjölskylduna.  Kannski er miklu auðveldara að ræða t.d. umgengni á uppbyggilegum nótum, eftir jákvæðar fjórar mínútur. –

Verst að systir mín er í vinnunni núna, – annars myndi ég vera á leið upp til hennar,  mér finnst svo notalegt að drekka kaffi í samneyti á morgnana, – okkur er ekkert ætlað að vera ein eða hvað? –  Hvað sagði Guð; „Eigi er það gott að maðurinn sé einn“ –  (2M 2.18) .. og þá auðvitað konan ekki heldur eða hvað? –

Salt og pipar,  Ying og Yang .. og allt það. –

Reyndar tók dóttir mín (sú eldri) sig einu sinni til og auglýsti (án þess að spyrja mig)  á einkamálasíðu og skrifaði m.a.:   (já þetta er satt) –

„Óska eftir manni til að drekka kaffi með mömmu minni á morgnana“! ..

En ég á s.s. uppátækjasama dóttur og þetta er önnur saga og segi kannski betur frá því síðar.

Eigum góðan dag og vonandi getur einhver nýtt sér þessa 4 mínútna aðferðafræði Doctor Phil. –

Takk fyrir að lesa. –

p.s. bara svo það sé á hreinu þá er þetta ekki auglýsing eftir manni. – „I have my resources“ .. 😉