Þetta snýst allt um trú …

Þegar ég skrifa trú, þá er ég ekki að tala um trú sem trúarbrögð,  en við erum svo fátæk í íslenskunni að trú er notað um faith, belief og religion,  kannski fleira.

Trúin sem ég er að tala um hér er hugmyndir eða sú trú sem við höfum um okkur sjálf, getu okkur og um hvernig við erum og hvað við gerum. –

1174682_501815599908980_883015767_n

Snýst um trú á sjálfan sig og trú á að lífið komi til móts við okkur.

Ótti – kvíði – stjórnsemi – óöryggi o.fl eru einkenni þess að skorta trú.

Við trúum ekki á okkar hæfileika, við trúum ekki að við eigum allt gott skilið, við trúum ekki að okkur geti gengið vel,  við trúum ekki að við finnum góðan maka, við trúum ekki á að við finnum starf sem er áhugavert, við trúum ekki að við eignumst draumahúsið o.s.frv. –  Svo er það hið innra, við trúum ekki að við náum heilsu, náum sátt, náum að finna frið o.s.frv. –

Við getum lesið alla „The Secret“ – og allar sjálfshjálparbækur,  en ef við trúum engu sem þar stendur þá gera þær ekkert gagn.

EInhvers staðar stendur að trúin flytji fjöll.

Þau sem hafa trú á markmiðum sínum ná frekar árangri,  þau sem leyfa sér að leggjast í hendi trúarinnar og efast ekki þau uppskera oftast samkvæmt því. –

Það er þessi BELIEF – TRÚ  – eða HUGMYNDAFRÆÐI um okkur sjálf sem skiptir máli. – Ekki hvað aðrir hugsa, og við megum ekki gera það heldur að okkar trú eða hugmyndum – heldur hvað við hugsum í okkar höfði, eða hverju við trúum.  Ef við trúum að við séum heppin erum við fókuseruð á heppni.  Ef við trúum að við séum óheppin þá sjáum við ekki einu sinn þó að það liggi þúsund kall á götunni,  því við erum svo viss um að við séum svo óheppin.

Þetta með trúna og óheppnina sannaði Darren Brown í mynd sem hann gerði um „The Lucky Dog“ –  þar sem hann (ásamt hjálparfólki) náði að sannfæra fólk um að ef það snerti styttu af hundi – sem var algjörlega valin af handahófi,  yrði það heppnara. Og það var reyndin.  Hægt er að sjá heimildarmynd um þetta á Youtube.

Svo það þarf bara að fara að trúa, eða skipta út trúnni.

Í staðinn fyrir að nota alls konar setningar eins og

„Ég ætla að reyna að gera það“

„Ég ætla kannski að gera það“

„Ég vona að ég geti það“

„Ég er ekki viss um að ég geti það“

þá segjum við einfaldlega:

„ÉG GET ÞAГ  .. og við trúum á okkar mátt og megin,  það sem okkur er gefið hið innra. – Losum okkur við það sem íþyngir eins og ótta, skömm og efa – og höldum áfram í góðri trú.

Það munu koma hlykkir á leiðina, – og stormar,  en trúin er lykilatriðið.   Ef við erum í vanda með það,  þá þurfum við að biðja fyrir okkur að öðlast meiri trú – og fá styrk við það.   Trú á kærleika, jákvæðni og gleði. –

Við getum líka þakkað fyrir hvað við erum heppin að svo mörgu leyti. –

Við höfum öll máttinn (og dýrðina),  en við þurfum að læra að nota hann.  Leita inn á við, – leita ekki langt yfir skammt.

Þessi pistill er grundvallandi fyrir því sem ég er að fara að kenna – núna á örnámskeiði kl. 18:00 -20:00 í dag í Lausninni,  Síðumúla 13, 3. hæð.   Sjá http://www.lausnin.is

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Nýlega birtist myndband á netinu af stelpu sem var að gefa tveimur mönnum munnmök, að einhverjum ástæðum var það eins og hún væri eini aðilinn í málinu,  „Hún var mynduð“  – en kom hvergi fram að þeir hafi verið myndaðir.  –  Það er að vísu aukaatriði í þessari færslu,  en þetta var sannleikur og einhverjir sem kallaðir voru „níðingar“  settu myndband af þessu á netið.

Var ekki bara verið að segja sannleikann?

Konan fékk taugaáfall og er á spítala.

Hverjum gerði það gagn að uppljóstra þessu og var þetta eitthvað sem kom öllum heiminum við?

Þarna komum við aftur að forsendum.

Ég tel að það hafi verið stúlkunni „hollt“ að vita að hegðun hennar hafði afleiðingar og að hún ber að sjálfsögðu ábyrgð á sinni hegðun.  En það er óþarfi að útvarpa eða sjónvarpa því á netinu,  svo sannarlega.  Og sumt sem gerist í fjölskyldum er mikilvægt að ræða innan þeirra, með fagaðilum og opinbera með þeim sem málið varðar og vinna úr því. –  En hvort það er ástæða til að fara með það á forsíðu DV,  það er alltaf önnur spurning. –

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n

Ég er nóg

Í bata  er best að lifa

og þegar ég kem auga á sársauka minn

tek ég ákvörðun um að breyta um farveg

kveð sárin sem urðu til við rangar hugsanir

vegna þess að ég hef lært að ég er verðmæt

grímulaus og allslaus fyrir Guði og mönnum

og ég á allt gott skilið, eins og við öll

ég reisi mér ekki tjaldbúðir í sorginni

ekki frekar en skömminni

sleppi íþyngjandi  lóðum höfnunar og hefndar

því ég hef frelsað sjálfa mig

og þá þarf ég ekki að spyrna frá botni

heldur  flýg af stað sem fis

inn í nýja og betri tíma

þar sem óttinn fær engu stjórnað

hugrekkið heldur mér á lofti

hjarta mitt er heilt og sátt

ég fyrirgef vegna mín

sleppi tökum á fortíð og fólki

og leyfi því að koma sem koma skal

set ekki upp hindranir og farartálma

og kvíði engu

heldur brosi breiðu brosi eftirvæntingar

við vissum ekki betur

kunnum ekki betur

kærleikurinn kemur og kyssir á bágtið

þakklætið þerrar tárin

Gleðin valhoppar í kringum mig

bíður spennt og segir í sífellu:

„komdu út að leika“  🙂

Mér er frjálst að elska

og þess meira sem ég elska

vex kærleikurinn til lífsins

ég kallaði áður „elskaðu mig!“

en nú þarf ég ekki að betla

bara elska

það er nóg

ég hef nóg

ég er nóg

quote

Að setja heilbrigð mörk …

Að setja sér eða öðrum mörk,  þýðir ekki að við séum að breyta öðru fólki.  Það að setja mörk er að ákvarða hversu mikið þú ert tilbúin/n að láta bjóða þér og síðan að koma þessum mörkum til skila með ákveðni og festu og halda þig við þau.
Ef þú átt erfitt með að setja mörk,  getur verið að þú sért farin/n að taka á þig ábyrgð á tilfinningum annarra og vandamál þeirra.  Líf þitt gæti orðið ein ringulreið og fullt af dramatík.  Þér finnst kannski erfitt að segja „nei“ vegna þess að þú hræðist höfnun.  Þú gætir verið annað hvort yfirmáta stjörnsöm/samur og ábyrgðarfull/ur,  eða afskiptalaus og háð/ur í  samskiptum þínum við aðra.   Þú hefur mikið langlundargeð gagnvart hegðun sem er ofbeldisfull í þinn garð. Þú fórnar gildum þínum til að þóknast eða geðjast einhverjum og/eða forðast átök.

Hjálpleg ráð vð að setja mörk:

Settu mörk jafnvel þó þér finnist þú eigingjörn/gjarn eða sek/ur.  Þú átt rétt á því að hugsa um sjálfa/n þig.
Byrjaðu á auðveldustu mörkunum/fólkinu
Settu þau skýrt fram og án tilfinninga og í eins fáum orðum og mögulegt er.
Ekki fara að afsaka þig eða réttlæta.
Aðrir MUNU reyna þig – þau sem eru vön að geta stjórnað þér eða manipulera með þig.  Stattu við þitt eða gakktu í burtu.
Fáðu aðra í lið með þér,  þau sem virða þín mörk.

Það tekur tíma að setja heilbrigð mörk.
EF þú hefur óheilbrigð mörk,  laðar þú að þér þau sem sjá sér leik að borði og fara að misnota sér það.  Farðu því að laða inn í líf þitt heilbrigðara fólk.

 

1170720_498620266895180_1106913787_n

Að koma nakin fram …

Hér er ég ekki að ræða líkamlega nekt, heldur hina andlegu.  En já, ég viðurkenni að ég ákvað að hafa titilinn svona því það vekur, af einhverjum ástæðum,  alltaf athygli blessuð nektin.

Við tölum um líkamlegt ofbeldi og við tölum um andlegt ofbeldi.  Í skólanum töluðum við kennarar oft um að nemendur væru andlega fjarverandi.

Það er nefnilega ekki alltaf það sama að vera á staðnum og að vera á staðnum,  en förum ekki lengra út í þá sálma.

Brené Brown flutti frægan fyrirlestur um „Power of Vulnerability“  eða mátt berskjöldunar eins og það hefur verið þýtt á ensku, – þið skrifið bara Power of Vulnerability – á Youtube eða Ted.com  ef þið viljið kíkja á hann og ef þið hafið ekki hlustað mæli ég sterklega með því.

Þarna er Brené að tala um máttinn sem fylgir því að hafa ekki leyndarmál, segja það sem manni býr í brjósti og lifa þannig í rauninni „nakin/n“  með sig og sitt líf – játa ófullkomleika sinn,  ótta sinn, vanmátt sinn o.s.frv.

EIns og lesendur pistlanna minna og þau sem hafa mætt á námskeið eða fyrirlestra hafa orðið vör við,  þá tala ég mjög mikið á persónulegum nótum og ber tilfinningar mínar hiklaust á torg.  Það er eitt af þessum einkennum berskjöldunar – og að játa kannski á sig eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir,  svo dæmi sé tekið.

Þetta er ekki bara máttugt og auðvelt – því stundum fylgja þessu „Vulnerability Hangovers“  eða berskjöldunartimburmenn.  –

Þeir felast í því að eitthvað prógram kikkar inn, sem segir: „Hvað varstu að gera manneskja“ –  „hugsar þú bara um sjálfa þig, hefur þetta ekki áhrif á aðra og bla, bla, bla“ .  eða þá hugsunin um að einhver notfæri sér það sem ég opinbera gegn mér.

En þessir timburmenn koma ekki oft, – ég fer varlega í „vínið“ ..

Ef ég hef óttaleysi sem grunn, þá óttast ég ekki að segja upphátt það sem mér býr í brjósti, – og ég veit líka að stundum virkar það sem leiðarljós fyrir annað fólk að gera það sama.

Það er því bara hressandi og felsandi að koma nakin fram!

21-the-world

Gleðin og sorgin eru systur

Að vera sterk í erfiðum aðstæðum þýðir ekki að við bítum bara á jaxlinn, setjum hausinn undir okkur, skellum í lás á tilfinningarnar og höldum áfram. – Svoleiðis virkar aldrei vel og endar að mínu mati oftar en ekki í vanlíðan og/eða veikindum.

Að vera sterk er að fara í gegnum sorgina þannig að við mætum henni, virðum hana og viðurkennum. Grátum þegar við þurfum að gráta, en um leið ætlum við ekki að dvelja í henni að eilífu vegna þess að við erum meðvituð um það að það hjálpar okkur ekki tli bata eða til að lifa við hlið hennar. –

Gleðin og sorgin eru systur – og hægt og varlega förum við að taka á móti gleðinni. Allt í æðruleysi og trausti.

Við afneitum ekki sorginni – en við afneitum ekki heldur gleðinni.

Við vitum af báðum systrum, og snúum okkur oftar og oftar að gleðinni og röbbum við hana á lífsleiðinni. Við sættum okkur við sorgina líka – afneitum henni ekki – því að þá erum við farin að lifa í blekkingu en ekki sannleika

Það er, enn og aftur, sannleikurinn sem frelsar.

„When you are at the your lowest point, you are open to the greatest change. Strength doesn’t come from what you can do, it comes from overcoming the things you thought you couldn’t do.“

1185179_423218941120300_1002824657_n

 

Hið innra verðmæti … ef aðeins…

Þegar ég fór að lesa um meðvirkni og læra, var einn af fyrstu lærdómunum að fara að elska sjálfa mig og meta skilyrðislaust.  Að sjálfsögðu kom annað fólk í framhaldi af því.

Án allra merkimiða, stöðu, stéttar, kyns, kynþáttar,  kynhneigðar,  útlits, fjölskyldu, maka o.s.frv. –

Í bókinni „Facing Codependence“ er talað um „Self-esteem“ og „Other-esteem“ – en við erum að mestu að byggja á þessu „Other“ dags daglega.

Sjálf-svirðing – sjálfs-traust  eða utanaðkomandi -virðing, utanaðkomandi- traust.

Hvað ég ég án titils – stöðu, stéttar,  atvinnu  o.s.frv. –

Hvað er ég ef ég stend eftir ein, nakin og allslaus?  Með ekkert utanaðkomandi?   Er ég einhvers virði?

„Að sjálfsögðu“  myndu margir segja,  en það eru samt önnur skilaboð sem samfélagið sendir oft og virðingin vill oft hanga á merkimiðunum – og ríkidæmið líka.  Við erum rík ef við eigum hús og bíl, fallegan maka og börn.

Hvað með þau sem eiga ekki neitt og ekki heldur börn.  Eru þau fátæk?

Konungsríki Guðs er innra með þér.  Það fæðast allir jafn ríkir og haldast allir jafn ríkir, allt sem kemur að utan er að láni,  eitthvað sem við höfum meðan við lifum þessari jarðvist,   meira að segja „hylkið“ okkar,  líkaminn er fenginn að láni.

Við erum sálir – og sálin er konungsríkið. 

733833_10201743643821718_1138113304_n

Í guðfræðideildinni las ég um mann sem hét Job. Sagan er frekar ljót í raun þar sem Guð og Djöfullinn eru að veðja sín á milli hvort að Job muni formæla Guði. .

Job var talinn réttlátur maður og Job gerði allt rétt,  Job átti fjölskyldu, hús, akur o.s.frv.  og taldi blessun sína vera m.a. þá að hann var trúrækinn.

En í stuttu máli þá missti Job allt sem verðmæti hans og hamingja byggðist á,  fjölskylduna, heimilið,  heilsuna  og meira að segja útlitið því hann var alsettur kaunum.

Job fór í gegnum alls konar ferli, með vinum sínum og með sjálfum sér,  en þessi var hans lokaniðurstaða:

„Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig.“ (Job 42.5)

Hann sá ekki Guð fyrr en allt var tekið burtu.

En þurfum við að missa allt til að sjá Guð? –

Nei,  við þurfum bara að líta í spegil – horfast í augu við sjálf okkur, djúpt, djúpt og þakka fyrir.  Horfa inn í sálina og sjá konungsríkið sem er þar.

Trúa. og sjá.

Skáldið Rumi er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég sá skilaboð á sivpuðum nótum frá honum,  bara núna í morgun.

I Lost Everything,
I Have Found Myself.

1002176_10151862634988185_1494377873_n

Þetta þýðir ekki að við getum ekki fundið okkur sjálf,  eða komið heim til okkar sjálfra – nema að missa allt hið ytra.  En til þess þarf skilning á að við erum ekki líkami, við erum ekki hið ytra.

Við erum sál.

Mjög verðmæt sál.

Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt að verðmæti okkar og ríkidæmi.

Líkami okkar þjónar sálinni og það er okkar að fara vel með þennan þjón,  tala fallega til hans og aldrei, aldrei kalla hann ljótan eða fara styggðaryrðum um hann.  Ekki fremur en við værum að tala við annað fólk.  „Sæl vinkona mín ertu með ljótuna í dag“?  – „Voðalega ertu eitthvað hrukkótt“? –  „Viðbjóðslegt þetta spik á þér“? – 

Hvernig líður okkur eftir svona tal ? –

Sjálfs-ást og virðing er lykill að farsæld – og síðasti lykillinn á kippunni er lykill þakklætis.  Þakklætis fyrir það sem við erum,  jafnvel þó það sé aðeins þessi sál og ekkert annað.

1098040_10151768472411211_208404344_n

Hugsanir eru trú –  „Thoughts are belief“ –  Hverju trúir þú um þig? –

Ef þú trúir ekki að þú sért yndisleg sál – með fullt af tilgangi – tilgangi sem er gleði – gleðina sem vex dag frá degi þegar við þökkum tilveru sálarinnar og við þökkum allt hið smáa,  eins og kom fram í pistlinum hér á undan.

Ef þú trúir ekki á þig og guðsríkið hið innra með þér – getur verið að þú þurfir að skipta  út hugsunum þínum um þig – að þú þurfir að skipta um trú? – 

Ef aðeins þú sæir verðmæti þitt og fegurð með augum þessa máttar – þessarar orku og uppsprettu alls,  sem sum okkar kalla Guð,  þá er óþarfi að missa nokkurn skapaðan og óskapaðan hlut úr lífinu – þá nærðu að sjá.

Takk fyrir að lesa verðmæta sál.

Já þú  ❤