Að eignast maka .. upp úr miðjum aldri.

Þegar við erum ung og verðum kærustupar þá er lífið þokkalega einfalt.  Það er bara þú og hann,  eða þú og hún,  svona eiginlega bara svoleiðis.

Svo gerist það svo oft,  því miður alllt of oft, að þetta par með einfalda lífið fer að flækja það því það kann ekki alveg að vinna saman eða lifa saman og endar sambandið þá oftar en ekki með skilnaði,  ef þau þá ekki hanga á óánægjunni einni saman  – nú eða af gömlum vana.

Annað hvort ætti fólk að leita sér hjálpar hvað sambandið varðar og finna sátt í sambandinu eða slíta því.  Svona hvorki né, er varla neitt til að hrópa húrra fyrir.

En hvert vorum við komin, jú, þegar flæða svona fyrrverandi út á „sambandsmarkaðinn“  þá eru þessir fyrrverandi oftar en ekki komin með börn – og fyrrverandi eiga fyrrverandi í misgóðu andlegu jafnvægi eða stuði til að láta fyrrverandi í friði.  Fókusinn er allt of oft stilltur á fyrrverandi,  hvað hún/hann er að gera,  o.s.frv.   Annað hvort er að vera eða ekki vera í sambandi, er það ekki?

Það er ekkert auðvelt að byrja í nýju sambandi,  en fólk tekur áhættuna því það er gott að elska og vera elskuð.  Snerta og vera snert.   En vegna þess að fólk kemur með farangur inn í sambönd vill farangurinn oft verða of þungur að dröslast með og þá verður að kunna að losa sig við þannig að það passi í ferðatöskuna.  „Hámarkvigt 20 kg“ .. eins og í flugvélunum!

Það þarf að sortera – svo vélin geti flogið! ..

Farangur getur þýtt ýmislegt,  eins og áður hefur komið fram; fyrrverandi – það er engin spurning að það má alveg losa sig við hann/hana,  börn eru líka farangur en það skilur enginn við börnin sín, eða ætti ekki að gera það þó sumir geri því miður.   Þau eru hluti farangurs sem verður að taka með í reikninginn og læra að púsla þeim inn í nýja sambandið.   Hljómar einfalt? – Það er það ekki og sérstaklega ekki þegar fyrrverandi hefur ítök og reynir að spilla fyrir.  Skil ekki að fólk hafi ekki meiri sjálfsvirðingu en að vera að böggast í fyrrverandi og nýja sambandinu? –   Eða jú ég skil það,  þetta eru særðar manneskjur sem oft hafa upplifað mikla höfnun og vanlíðanin er slík að þær vilja skemma fyrir – „Ef ég finn ekki hamingjuna má hann/hún ekki finna hana“ –

„Hann/hún á ekki gott skilið eftir það sem hann/hún gerði – og ég ætla að skemma fyrir“ …

En ojbara – af hverju ekki sleppa tökum á þessum „njóla“ sem fyrrverandi hlýtur að vera og fara að lifa í eigin lífi en ekki hans/hennar?

Snúið?

Svona vesen er allt of algengt – og ég hvet alla/r til að líta í eigin barm.

Fyrirsögnin er „Að eignast maka … upp úr miðjum aldri“ ..  það þarf ekkert að vera „miðjum“ aldri .. það er bara hvenær sem er.

Það getur verið um þrítugt – fertugt – fimmtugt og uppúr ..

Ég talaði við konu á sjötugsaldri og hún saknaði þess að eiga „partner“ –   þegar þú segir „ping“ – þá er einhver annar sem segir „pong“ ..  Það er koddahjal og knús og svona „hvernig var dagurinn hjá þér“  rabbið sem margir sakna.   Einhver sem deilir með þér lífinu,  þú kastar og það er einhver sem grípur,  kastar til baka og þú grípur.

Einhver sem nýtur með þér sólarlagsins. 

Það er ekki þannig að það sé alltaf skemmtilegra að eiga partner – sérstaklega ef þeir eru leiðinlegir 😉 .. eiga við drykkjuvandamál að stríða eða með einhver önnur vandræði þá dregur þessi partner, eða það sem fylgir honum úr þinni eigin lífsgleði.. þá sannast hið forkveðna að betra er autt rúm en illa skipað.

Það er dýrmætt að eiga góðan maka – sem mætir þér á miðri leið, þarf ekki að vera í samkeppni við þig,  þið styðjið hvort annað,  hafið kósý saman á köflóttum náttbuxum – og dekrið hvort annað til skiptis.  Undirstaða góðs sambands er að vera í góðu sambandi við sjálfa/n sig.  Það er gott að vera í góðu sambandi og njóta sólarlagsins.

Eigum við það ekki öll skilið?

556212_332315983512626_1540420215_n

Áhættan við að gráta er að virka of tilfinninganæm ..

Áhættan við að hlæja er að við lítum út eins og kjánar.  Áhættan við að gráta er að við virkum of tilfinninganæm. Áhættan við að tengjast öðrum er að blanda sér í málefni annarra.

Áhættan við að sýna tilfinningar er að opinbera sjálfa/n sig.   Áhættan við að opinbera drauma þína eða hugmyndir fyrir framan aðra er að tapa þeim.  Áhættan við að elska er að vera ekki elskuð á móti.

Með því að lifa tökum við áhættuna á því að deyja.  Með því að vona tökum við áhættuna á því að vonin bregðist.  En áhættu verður að taka.  Vegna þess að stærsta ógn lífsins er að taka enga áhættu.  Ef þú tekur enga áhættu og gerir ekkert, deyfir þú anda þinn.  Þú getur forðast sársauka og sorg, en þú getur ekki lært, fundið til, breyst, vaxið, elskað og lifað.

Hlekkjuð við viðhorf okkar, erum við þrælar. Þá höfum við gefið eftir frelsið.  Aðeins ef við tökum áhættuna erum við frjáls.

„Sú manneskja sem tekur enga áhættu, gerir ekkert, hefur ekkert, er ekkert, og verður ekkert.  Hún getur forðast þjáningu og sorg, en hún getur ekki lært og upplifað og breyst og vaxið og elskað og lifað.“

~Leo Buscaglia 1043988_548142515223054_926169340_n

Hið vandmeðfarna vald – að kunna á takkana hjá einhverjum …

Ef þú ýtir á start takkann á þvottavélinni,  fer þvottavélin í gang.  Nema að hún sé biluð!  Heilinn í minni þvottavél er eitthvað illa tengdur, hún fer í gang en stoppar oft í miðju prógrammi, og þá þarf að endurræsa.

En ekki ætlaði ég að fara að skrifa hér um þvottavélaprógramm.

Flest þekkjum við aðila sem hafa það vald yfir okkur að þeir þekkja á hvaða „takka“ á að ýta til að við förum í gang.  Þá er ég ekki að tala um „í gang“ á góðan máta,  heldur þegar kveikt er á þessu gamla prógrammi,  t.d. sektarkennd, skömm, vanlíðan, reiði o.s.frv.

„Takkafólkið“  verður eflaust alltaf til í lífi okkar, og  eina sem við getum gert er að gera okkar besta til að forðast umgengni við þetta fólk eða  að fá endurforritun,  þannig að þrátt fyrir að reynt sé að ýta á alla taka, verðum við ónæm eða aftengjum þræðina í þessa takka.

Oftar en ekki er fólkið í nærfjölskyldu,  þannig að við slítum okkur ekki svo létt frá því.  Stundum veit það ekki af valdi sínu og telur sig ekki hafa gert nokkurn skapaðan hlut.

Mamma kemur heim þreytt úr vinnunni og segir við barnið: „Þakka þér fyrir að taka úr uppþvottavélinni“ – (sem það gerði ekki) – en nú er kveikt á samviskubitstakkanum,  vatnið seytlar inn og tromlan fer í gang.   Nú gengur sektarkenndin og veltist um innra með barninu sem stóð sig ekki.

Langar mömmu til að barninu líði illa? –  Telur hún þetta vænlegt til árangurs, uppbyggilega aðferð við að kenna barninu að gera heimilisstörf?

Ég held ekki.

Þetta er bara gamla prógrammið hennar mömmu sem hún notar á barnið sitt. Eitthvað sem notað var á hana og hún notar áfram því hún kann ekki annað.

Við endurforritum með því að vakna til meðvitundar um það hvenær við erum að beita valdi,  hvenær við erum að ýta á takka sem eru óhollir öðrum.

Verum vakandi með valdið,  hvernig við notum það og hvernig við beitum.

Við viljum jú öll vera góð og ekki ala á vanlíðan hjá öðrum,  en yfirleitt er það nú þannig að eftir því sem við erum sjálf að glíma við meiri vanlíðan þess iðnari verðum við að dreifa henni yfir á aðra.

Verum góð  ❤

Fresh-Lotus-Flower

Neikvæð – jákvæð … fýla kemur ekki utan frá!

Einu sinni voru nokkrar konur í hópi að tala saman. Þ.m.t. Arnlaug og Geirlaug. Arnlaug kom með alls konar hugmyndir og var að tala um uppbyggilega hluti, en Geirlaug reif þá niður jafnóðum og sá hindranir í öllum hugmyndum Arnlaugar.

Arnlaug varð mjög pirruð og sagði við Geirlaugu: „Þú ert svo neikvæð“ – Geirlaug fór í vörn og mikla fýlu og ætlaði að rjúka út. –

Hvað gerist þegar að fólk (sem telur sig almennt jákvætt) umgengst neikvætt fólk? – Jú, neikvæða fólkið kallar fram neikvæðnina í öðrum, og e.t.v. efasemdir. Í stað þess að ásaka Geirlaugu um neikvæðni hefði verið rétt af Arnlaugu að nota „ég“ samskipti (sem meistari Hugó er þekktastur fyrir að kenna í samskiptum foreldra og barna)  og segja. „Ég finn til svo mikillar neikvæðni innan í mér í þessum samskiptum okkar.“ – Það er nefnilega þannig að neikvætt fólk kallar fram okkar neikvæðni og jákvætt fólk kallar fram okkar jákvæðni.

Við eigum þetta flest – ef ekki öll – innan í okkur,  neikvæðnina,  en bara spurning hvort við erum meðvituð um það og hvernig við „tæklum“ tilfinningarnar. Verum vakandi yfir því sem er að gerast.

Fýla kemur ekki utan frá, hún kemur innan frá. Þannig að ef við förum í fýlu þá er búið að kveikja á einhverju innan með okkur, sem við höfum ekki passað upp á eða kunnum ekki að gæta að.  E.t.v. eru það lærð viðbrögð sem þarf að aflæra. 

Meðvitundin er eins og slökkvitæki, þ.e.a.s. um leið og við áttum okkur á því að verið er að kveikja á eða ræsa neikvæðnitakkana þá er það okkar að sjá það og viðurkenna að það hafi tekist og bara hreinlega slökkva á þeim aftur. 😉 ..

Við verðum að athuga það að eflaust er ástæða þess að okkur langar svo mikið að breyta öðrum og hjálpa sú að okkur langar að öllum líði vel,  því að ef öðrum líður vel líður okkur vel.  Hitt er líka til að við viljum að aðrir finni til óhamingju,  en oftast er það vegna þess að þeir hafa með einu eða öðru móti sært okkur og við viljum að þeir finni sársauka okkar.

Við erum svo óendanlega mikið tengd.  Munum að við „græðum“ aldrei á óhamingju annarra,   og skiljum af hverju okkur líður eins og okkur líður.   Ef við erum í fýlu út í einhvern munum það líka að fýlan kemur ekki utan frá.

Við berum ábyrgð á okkar eigin líðan.

Já, já, þetta var morgunhugleiðingin.

Gott að átta sig á eigin ljósi. –

1045095_10151570470523141_187147723_nJákvæða fólk!

Við heppin að hafa jákvæðnineista líka og leyfum honum endilega að loga!

Alkóhólismi … Tortímandinn

„What is wrong in my life, that I must get drunk every night“ .. Johnny ..  sungu þeir í Fine Young Cannibals, – þessi spurning „What is wrong in my life“ – er grundvallarspurning.

Af hverju drekkur fólk? –

Stundum til að gera sér glaðan dag,  eins og kallað er,  en stundum til að deyfa, flýja og jafnvel hverfa.

Flýja hvað?

Sársauka?

Sannleikann?

Sannleikurinn getur stundum verið sár,  en hann frelsar.

Ef við förum ekki í gegnum sársaukann þá finnum við eflaust ekki sannleikann og því síður frelsið.

Alkóhólistinn getur verið grimmur við sína nánustu,  sagt vonda hluti vegna þess að orðin hans fæðast í sársauka.   Svo veit hann að hann mun leggja sársaukann í alkóhól og deyfa hann – en aðeins um stund – því svo kemur hann aftur og þá finnur hann aftur til.

Er ekki til önnur leið til að nálgast þessi sár?   Er ekki til önnur leið til að lifa lífinu heldur en að leggja sig í alkóhólbað?

Ég sé sorgina sem hann veldur,  sé tortíminguna,

Fjölskyldur hrynja eins og dóminó kubbar fyrir áhrif alkóhólisma,  því það er nóg að það sé einn sem er háður – allir sem þykir vænt um viðkomandi eru snertir á einn eða annan hátt.  Jafnvel þó þeir slíti sig frá alkóhólistanum,  það hefur áhriif að slíta sig frá ástvini.

Alkóhólistinn sem er annars dagfarsprúður breytist í skrímsli – breytist í aumingja – breytist í einhvern sem er sama um þig og sama um sjálfan sig.

Sama um lífið.

„Maðurinn minn er alkóhólisti og það vita það allir nema hann sjálfur“  ..

„Mér finnst vont þegar mamma drekkur,  því hún breytist, en ég þori ekki að segja henni það.“

„You have to see your pain to change“ .. (Sophie Chiche)

Þú verður að sjá sársauka þinn til að breyta – eða vilja breyta.
Af hverju ættir þú að vilja breyta ef þér finnst þú allt í lagi? –

Kemur einhverjum við hvað þú drekkur og hvernig?

Er ekki betra að hvíla í faðmi Tortímandans en faðmi fjölskyldu eða vina?

Er ekki í lagi að hrekja frá sér ástvini,  meðvitað eða ómeðvitað,  þegar þú veist að þú getur gripið í flöskuna,  flöskuna sem þú þekkir svo vel og er ekki með neitt vesen eða kjaftæði?

Alkóhólismi er Tortímandinn.

485819_203030436495113_521866948_n

Af hverju er í lagi að bera tilfinningar sínar á torg í dag en ekki áður?

Ég hlustaði á svo góðan fyrirlestur hjá Sigursteini Mássyni fyrir nokkrum árum, þegar hann var formaður Geðhjálpar.

Þá talaði hann um þessi gömlu gildi sem teljast að miklu leyti útrunnin í dag, eins og „að bera ekki tilfinningar sínar á torg.“

Fólk átti bara að hafa tilfinningar sínar heima hjá sér og helst bíta á jaxlinn og bera harm sinn í hljóði.

Reynslan hefur sýnt að það að bera harm sinn í hljóði þýðir ekki að harmurinn láti sig hverfa, eða að því fólki líði betur.  Reynslan er að harmurinn og tilfinningarnar sitja fastar og loka á svo margt.  E.t.v. á hjartað og það er vont að lifa með lokað hjarta.  Um það skrifaði ég greinina „Að koma út úr skrápnum“ –  því málið er að skrápurinn eða skjöldurinn sem er fyrir hjartanu verður þungur og oft óbærilegur (óberandi). –

Leyfum okkur því að bera tilfinningarnar á torg.  Deilum sorginni – deiling er eins og í stærðfræði hún gerir minna.

Sigursteinn Másson þekkti mikilvægi þess að hætta að halda á lofti frösum eins og að bera ekki tilfinningar sínar á torg,  það var vegna þess að það þýðir það sama og að bæla inni og bæling er vond og skaðleg heilsu, bæði andlegri og líkamlegri.  Við erum gerð fyrir flæði og útrás.  Það þarf líka hugrekki til „bera sig“  sýna sig nakinn tilfinningalega en við eigum ekki að þurfa að hafa neitt að fela.  Það er eitt af leyndarmálum lífshamingjunnar að hafa ekki leyndarmál.

Ef okkur hefur verið innprentað að bæla tilfinningar, finna þær ekki þegar þær koma er hættan sú að deyfa þær eða bæla –  en við finnum að við höfum þörf fyrir eitthvað en vitum ekki hvað.

 Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat. En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum. 

Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást – þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv. Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.

Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis. Einu sinni las ég grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.

Hugrekki – er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við. Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.

Við höfum sem betur fer þroskast og vitum betur núna.

253506_350874451667461_85735021_n

Eruð þið þrjú í sambandinu? –

Hvað myndir þú gera ef að karlinn þinn flytti konu inn á heimilið ykkar? –

Færi með hana út í bílskúr og léti vel að henni,  kæmi svo hálfmeðvitundarlaus í vímunni yfir að hafa verið með henni inn aftur? –

Hvað ef hann sæti með henni, héldi utan um hana og gældi við hana fyrir framan sjónvarpið í sófanum ykkar og virti þig ekki viðlits.  Ylti síðan útaf dauðþreyttur eftir samneytið við hana,  hún tæki af honum orku – svo hann gagnaðist þér ekki í rúminu? –   Vegna hennar væri hann fjarlægur.

Myndir þú ekki segja eitthvað?  Myndir þú ekki segja: „Nei takk þetta er mér ekki bjóðandi“ .. 

Myndir þú láta eins og ekkert væri og reyna að gera sem minnst úr þessu og umfram allt passa upp á að vinir og kunningjar vissu ekki af þessu „ástarsambandi“ sem færi fram inni á ykkar heimili. 

Á einu af námskeiðunum „Lausn eftir skilnað“ – var okkur bent á það að það væri í raun hægt að halda fram hjá með flösku.   Þá skiptum við bara út flöskunni og í staðinn kæmi kona/maður – eftir því sem við á.

Hvað ef þið eruð þrjú í sambandinu?  – Par eða hjón  og flaska – gengur það upp?  Ef að áfengi er farið að stjórna eða taka yfir líf annars aðilans, þá er það farið að verða ráðandi um hvernig sambandið er. 

Það er miklu auðveldara að sjá þetta sem manneskju,  við myndum aldrei leyfa neinni manneskju að hreiðra um sig sem þriðja hjólið í sambandið. 

Eða hvað?

Hvað er þér bjóðandi og hvað áttu skilið?  

Spurningar sem eru alltaf viðeigandi.

bjórkona

Markþjálfun með englum – „englaþerapía“ ..

Ég ætla að bjóða upp á nýja „þerapíu“ sem er reyndar engin þerapía heldur frekar nokkurs konar markþjálfun.

Þú dregur eitt af englaspilum „Doreen Virtue“ –  segjum til dæmis „Freedom“ og þú færð afhent blað með teikningu þar sem markmiðið er „Freedom“ – síðan skoðum við saman hindranirnar (innri og ytri)  að því að öðlast frelsið,  hvað þýðir frelsi fyrir þig og af hverju þarftu frelsi – og frá hverju?

doreen

Við skoðum aðferðirnar þínar – hvað þú þarft að gera til að vera frjáls.

Þetta er algjörlega óhefðbundið og ósannað og þú pantar tíma á eigin ábyrgð – en þrátt fyrir að ég segi þetta á undan trúi ég að þarna sé hægt að sjá ýmsar leiðir, og hef reyndar lært fullt af þeim – til að  átta sig á því hvað heldur aftur af þeim sem ekki ná markmiðum sínum,   ekki bara frelsinu, heldur svo mörgu öðru. – 😉

Þú færð teikningu með þér heim þar sem þú hefur markað leiðina – skoðað hindranirnar og væntanlega aukið trú þína á að markmiðin þin náist, þegar þú veist hvað heldur aftur af þér. 

Aðeins er um að ræða að taka lágmark 3 skipti, vegna þess að ákveðið aðhald liggur í því að þurfa að koma aftur og segja frá hvað er búið að gera og hvað ekki – ef svo er.

„Englaþerapían“  er 30 mínútur x 3 skipti á 2 vikna fresti.  

Kynningarverð kr. 12.000.-  

Vinsamlega panta hvort sem um hefðbundið viðtal er að ræða (60 mín) eða svona englapakki, –  í gegnum einkaviðtalskerfi Lausnarinnar:

Tengill hér:  http://www.lausnin.is/?page_id=2385

Fyrstu fimm sem panta tíma fá hugvekjudiskinn Ró 😉 í kaupbæti! ..

Ég trúi á mikilvægi þess að bæta samskiptin okkar …

Ég spyr stundum sjálfa mig af hverju lífið hefur leitt mig þangað sem ég er komin.  Það er næstum sama til hvaða starfs ég hef verið ráðin, ég enda einhvern veginn alltaf sem leiðbeinandi – diplómat – leitandi lausna til bætts samstarfs eða samskipta.

Þegar ég var barn dreymdi mig um að stöðva styrjaldir, – nú – fullorðin dreymir mig um að stöðva styrjaldir inni á heimilum og styrjaldir innra með okkur sjálfum.

„Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum“ – sagði Gandhi.

Ég fyllist eldmóði þegar ég hugsa þetta. Mig langar þetta einlæglega – þ.e.a.s. að vera breytingin þó stundum komi stórt bakslag í minn eigin heim.  Eitthvað hræðilega óvænt og óbærilegt – sem ég þó verð að bera og þegar upp er staðið gerir mig sterkari þó að sá styrkur sé dýru verði keyptur, mjög, mjög dýru.

Af hverju skrifa ég og af hverju starfa ég sem ráðgjafi og held námskeið – er leiðbeinandi og kennari?-

Vegna þess að ég trúi að heimurinn verði miklu betri ef við stöndum saman í stað þess að við séum sundruð.

Hversu mörgum líður ekki illa,  þjást vegna alls konar kvilla – nú eða vegna þess að þeir eiga ekki fyrir reikningum – hvað þá mat um mánaðamót? –  Sumir deyja úr hungri á meðan aðrir deyja vegna offitu.

Ég held þetta sé spurning um að taka betur höndum saman, – styðja betur við hvort annað, láta okkur náungann varða,  ekki ala á bjargarleysi – heldur að styðja, virkja og hvetja.  Hjálpa til sjálfsbjargar.

Vera saman en ekki sundur þegar bjátar á.

Meiri elska og minna stríð.  Það er löngu vitað.

Það er líka löngu vitað að það eru tvær hliðar á öllum málum.

Ef þú talar við tvær stríðandi fylkingar þá hefur hvor fylking sína söguna.  Hinn er „vondi kallinn“   Svoleiðis er það oftar en ekki í skilnaðarmálum.  Stundum er enginn vondur kall,  bara tveir aðilar sem eru í innra stríði og því kunna þeir ekki neitt og geta ekkert gefið nema stríð.

Af hverju geri ég það sem ég geri? – Af hverju skrifa ég?

Ég trúi að við getum gert lífið betra ef við erum betri við hvort annað.  Það er víst nóg af öðru sem við ráðum ekki við.

Minni á örnámskeiðið „Lausn eftir skilnað“ sem verður haldið 20. júní nk.  – sjá: http://www.lausnin.is  og á einkaviðtölin mín, hugleiðslur, hugvekjudiskinn RÓ –  og fyrirlestra t.d. fyrir fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir.

Af hverju að hlusta?

Ég trúi á meiri og óplægða möguleika til betra lífs sem liggja innra með ÞÉR. 

Hverju trúir þú? 

believe

Sjálfsræktar – og framkomunámskeið 11 – 13 ára Vesturland

SJÁLFSRÆKTAR- og FRAMKOMUNÁMSKEIÐ FYRIR BÖRN OG UNGLINGA

11 – 13 ára í Borgarfirði

Nemendur fá að læra um innra verðmætamat, mikilvægi þess að velja sér jákvæða andlega næringu, setja sér markmið,  skoða innri og ytri hindranir,  læra tjáningu og framkomu,  æfa spunaleikrit,  kynnast hugleiðslu og aðferðum til að losa um kvíða o.fl.

MARKMIÐ:

  • Aukið sjálfstraust
  • Aukin færni til ákvarðanatöku
  • Læra að setja markmið
  • Aukin hæfni í samskiptum
  • Að læra um mikilvægi þess að virða sjálfa sig og aðra
  • Að njóta lífsins

NÁMSLÝSING:

Nemendur eru virkjaðir í umræðum og tjáningu.  Kynntar eru mismunandi leiðir og aðferðir til að auka sjálfstraust og efla lífsgæði.

NÁMSAÐFERÐ:

Fyrirlestrar, umræður, lífsleikniverkefni- og leikir.

NÁMSEFNI:

Efni frá leiðbeinanda.

STAÐSETNING:  Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Borgarnesi

Tímabil fimmtudaga:   20. og  27. Júní 2013    kl. 13:00 – 16:00 

11 – 13 ára:  

 (20. og 27. júní)    – ath! átti upphaflega að vera 3 skipti en breytt í 2 skipti m/möguleika á framhaldi í ágúst.

9.900.-  krónur á nemanda  (innifalin námskeiðsgögn,  pappír, “draumabækur” o.fl. )

Leiðbeinandi er ykkar einlæg:  Jóhanna Magnúsdóttir,  guðfræðingur, ráðgjafi og fv. aðstoðarskólastjóri,  en ég kenndi m.a. Félagsfræði og áfanga í Tjáningu  í framhaldsskóla og hef góða reynslu af kennslu- og uppbyggingarstarfi með fólki á öllum aldri.

Fjöldi á námskeiði:  lágmark 10 – hámark 20

Skráning og nánari upplýsingar johanna@lausnin.is 

Aðeins hægt að greiða með peningum eða leggja inn á reikning 0303-26-189,  kt. 211161-7019.  Nánari greiðsluupplýsingar í tölvupósti við skráningu 😉

Umsagnir fyrrv. nemenda:

“Það vita auðvitað ekki margir hver Jóhanna er né hvers hún er verðug. Hinsvegar get ég ekki annað en sagt mína sögu af henni. Í þau tvö ár sem ég gekk í Menntaskólanum hraðbraut, þá var ein stoð og stytta í gegnum allt námið, það var hún Jóhanna. Hún hefur ótrúlega hæfileika er varða mannleg samskipti og hef ég sjaldan upplifað eins einlæga og indæla konu eins og hana.”  

Jökull Torfason

“Það er varla hægt að fara í skemmtilegra fag. Í tjáningu lærir maður að styrkja sjálfan sig og fara út fyrir þæginda ramman. Það gerir manni auðvitað ekkert nema gott. Við fórum í alls konar uppbyggilega leiki og það var mikið hlegið. Þetta byggði líka upp skemmtilegan anda og samstöðu. Í þessum góða hópi gafst manni tækifæri á að vera maður sjálfur og jafnvel sagt frá bestu og jafnvel verstu upplifunum í lífi okkar, stundum láku tár við bæði tilefnin. Margir sýndu ótrúlegan styrk og framför. Þessir tímar munu aldrei líða mér úr minni. Ekki bara það sem hafði áhrif á mann, líka það sem maður lærði og tók með sér út í lífið.“

Takk fyrir mig:)
Ragnhildur Sigurjónsdóttir Vatnsdal

 happy-kids