Hamingjan er innri friður …

Vellíðan, hamingja, friður, sátt, ró, friður … allt gildishlaðin orð sem kannski hver getur skilgreint fyrir sig.

Hamingja er eflaust svolítið ofnotað orð, og þá líka af mér,  því að í raun erum við kannski ekki að ætlast til að vera blússandi hamingjusöm alla daga, bara ekki óhamingjusöm.  Eða með frið innra með okkur,  í órólegum heimi og órólegum ytri aðstæðum e.t.v. 

Í kringum mjög órólegt fólk sem á ekki SINN innri frið getur þú átt ÞINN innri frið. 

Það á ekki að þýða að við getum ekki slakað á og þegið okkar innri frið, nú eða hamingju.

Og ekkert „ef“ eða  „þegar“  … heldur NÚNA.

BJARTSÝNI eftir Kristján Hreinsson:

Yndi lífsins átt þú hér
undir þykkum hjúpi
og fágæt perla falin er
… í fögru hjartans djúpi.

Þegar opnast þessi skel
þjáning öll mun dvína
því lífsins unun ljómar vel
ef ljósið fær að skína.

Í hverri raun því ræður þú
að réttust leið sé valin,
já, hamingjan er hér og nú
í hjarta þínu falin.

 
419760_399582396722202_155458597801251_1749816_1666267657_n

Ást eða vorkunnsemi? …

Myndir þú vilja vera aðili í hjónabandi sem væri haldið gangandi vegna þess að maki þinn vorkenndi þér? – 
 
„Í blíðu og stríðu“ … eru orð sem klingja í eyrum,  en ég held að ef að bandið sem heldur hjónum saman sé band vorkunnsemi  sé það samband á röngum forsendum. –  
 
Það þarf hver og ein/n að gera upp við sig hvort að hann eða hún elskar maka sinn og sé þess vegna í sambandinu,  eða hvort að það er vegna þess að makinn eigi bágt eða sé of ósjálfstæður.  
 
Svo er ekki nóg með að maki þinn eigi bágt, heldur gætir þú verið farin/n að spila með og ýta undir þetta ósjálfstæði hans og taka af honum ábyrgð gagnvart umhverfinu.
 
Meðvirkir einstaklingar finna afsakanir  fyrir maka sinn.  Þeir gera þetta til að halda sambandinu góðu og láta það ganga og gera allt til að forðast það að verða yfirgefnir eða einir. 
 
Þeir munu ganga mjög langt í að „hjálpa“ þeim sem þeir telja sig „elska,“  þegar þeir í mörgum tilfellum eru að ruglast á ást og vorkunnsemi/meðaumkun ..
 
Pæling ..
 quote-it-s-a-mistake-to-confuse-pity-with-love-stanley-kubrick-105654
 
 

Þinn hinsti dagur … hugvekja

Hvað myndir þú gera ef þú vissir að í dag væri þinn hinsti dagur í þessu jarðlífi?

Þessi dagur 13. mars 2013 og þú ert eins og þú ert í dag?

Við hverja myndir þú tala,  með hverjum viltu vera?

Hvað áttu ósagt sem þú ert að geyma til betri tíma og vilt ekki skilja eftir?

Ég var að hlusta á fréttaskot þar sem fréttakonan sagði:

„Live each day as it was your last day“ ..

Það komu strax í mig efasemdir,  færi einhver í vinnuna ef hann eða hún vissi að það´væri síðasti dagurinn? –  Myndi viðkomandi fara á milli ættingja og kveðja og knúsa?    Eða hvað? …

Ég held ég hafi tekið þetta of bókstaflega.

Það er eflaust átt við það að gera það besta úr hverjum degi og kannski hafa þessar spurningar í huga sem ég hóf pistilinn á.

Svo er gott að setjast niður með sjálfri/sjálfum sér og sortéra það sem maður vill hafa í lífinu og hvað ekki.  –

Þetta er svolítið dramatískt – en bara raunhæft.

Ágætt að enda þessa morgunhugvekju með heimspeki  Pooh.  😉  og ég óska þér góðs dags.

images

Er sumt fólk eins og rjómatertur? …

Ef þú ert komin/n í hættulega yfirþyngd og læknirinn þinn er búinn að vara þig við rjómatertum en þú sækir samt í þær hvað segir það þér? …

Ef þú ert orðin/n veik/ur í lungum og læknirinn búinn að vara þig við reykingum en þú reykir samt hvað segir það þér?

Ef þú ert í sambandi með einstakling sem beitir þig ofbeldi, hvort sem er andlegu eða líkamlegu en sækir samt í viðkomandi einstakling hvað segir það þér?

Ertu stjórnandi í eigin lífi,  eða er það rjómatertan, sígarettan eða önnur manneskja?

Veistu hvað þú vilt og veistu hvað þú vilt ekki,  hvaðan kemur mótstaðan við að vera og gera það sem þú vilt?

Starf mitt í Lausninni hefur byggst m.a. á ofangreindum spurningum,  námskeiðin „Í kjörþyngd með kærleika“ –  „Lausn eftir skilnað“ – hópavinna og einstaklingsviðtöl.  

Af hverju geri ég ekki eins og ég vil? –  Kannski veit ég ekki hvað ég vil,  eða einhver annar er að segja mér hvað ég vil? ..

Einstaklingur með brotna eða jafnvel týnda sjálfsmynd veit ekki endilega hvað hann vill.

Við getum verið „misþroska“ hvað þetta varðar. 

Við getum tekið dæmi um flotta framakonu sem virkar sterk og sjálfsörugg í starfi,  en er í raun afskaplega lítil innra með sér,  er bara eins og lítil týnd stelpa.  

Aðferðin er m.a. að hin þroskaða kona mæti litlu stelpunni og leiði hana út úr þeim aðstæðum þar sem hún er föst,  þar sem hún er föst sem ósjálfstæð og stjórnlaus hvað eigin líf varðar.

Sjálfsvirðing – sjálfstraust – sjálfsást – sjálfsþakklæti – sjálfsfyrirgefning eru lykilorð í því að ná inn í sjálfið sitt. 

Athygli er annað lykilorð,  þ.e.a.s. að veita sjálfum/sjálfri sér athygli og spyrja sig spurninga  –

„Af hverju geri ég það sem ég geri,  þó það þjóni mér ekki“ .. 

Sumt getur þjónað í skamman tíma;

Marengstertan er góð – akkúrat meðan marengsinn er að bráðna í munninum.

Sígarettan er góð – akkúrat á meðan verið er að reykja hana (held ég).

(Rangur) maki getur veitt þér eitthvað sem þig vantar tímabundið.

En allt ofantalið má flokka undan „skammgóðan vermi“ – eins og að missa piss í skóna.   Fljótlega fer að kólna.

554686_407899162593882_1674255432_n

Framhjáhald er ekki orsök hjónaskilnaða …

Já, já, ég veit ég tek stórt upp í mig þarna.  Í raun ætti að standa þarna „grunn-orsök“ –  því framhjáhald er einhvers konar milliorsök ef svo mætti að orði komast. 

Framhjáhald er frekar afleiðing en orsök.

Ef einhver heldur framhjá maka sínum þá er augljóslega eitthvað að.  Það er eitthvað að samskiptum,  það er eitthvað að þeim sem leitar út fyrir samband eða hjónaband. 

Viðkomandi þarf að fá þarfir (fíknir stundum) uppfylltar sem hann eða hún fær ekki í sambandinu.  

Hverjum er um að kenna?

Getum við kennt makanum um framhjáhaldið? –  „Ég er ekki að fá það heima hjá mér svo ég verð að leita út á við“ .. ?   

Stundum er þetta bara spennufíkn – og þá enn og aftur er þetta afleiðing.

Af hverju þarf einhver að leita í spennu? –  Er ekki eitthvað sem þarf að skoða þar?

Ég skrifaði um þau hjónakornin Önnu og Tedda í greininni „Meðvirkni er ekki góðmennska:“

Eiginmaður Önnu, hann Teddi var ánægður með Önnu sína, enda hin þægilegasta eiginkona. En Teddi fann að eitthvað vantaði, í vinnunni var þessi frísklega kona sem veitti honum athygli, hafði blikkað hann og tekið eftir hvað hann var flottur,  en Anna hafði ekki haft orð á því í mörg ár, hvað þá veitt honum almennilega athygli í rúminu! -Hann fór þvi  að halda fram hjá Önnu,  þó að honum þætti ofurvænt um hana.

– Hann vildi ekki sjá Önnu særða og reyndi því í lengstu lög að segja henni ekki frá framhjáhaldinu og ætlaði sér það aldrei.   Það sem Anna vissi ekki myndi nú ekki særa hana. –  Anna komst að framhjáhaldinu þegar Teddi hafði verið kærulaus og skilið Facebook eftir opna. – Anna var særð,  en Teddi hélt dauðahaldi í það að minnka sársauka Önnu og sagði allt byggt á misskilningi.

Teddi þurfti tenginguna við Önnu og allt sem hún veitti honum,  hann vildi ekki missa hana.  Hann ætlaði bara að taka hliðarspor,  ekki neitt meira.

Ástæðan fyrir því að Teddi sagði Önnu ekki að hann væri óánægður í sambandinu var hræðsla við að missa Önnu, – missa tengingun sem hann þurfti á að halda.  Ástæðan var líka sú að hann vildi ekki þurfa að upplifa að sjá konu sína særða.  Það hefði hann reyndar átt að hugsa um fyrr. –

Við skulum segja að þau Anna og Teddi hafi skilið, og opinber ástæða gefin upp að Teddi hafi haldið framhjá Önnu,  en í raun var grunnorsökin miklu dýpri.  

Vankunnátta í samskiptum?    Léleg sjálfsmynd?   Ótti?  

Kannski allt þetta, en eins og ég leyfði mér að halda fram í fyrirsögn er framhjáld ekki orsök,  eða alls ekki grunnorsök.  

Ég er ekki að afsaka framhjáhald,  –  og langt í frá, – því það að halda fram hjá er viss tegund óheiðarleika – og óheiðarleiki er skapaður af því að hafa ekki hugrekki til að vera heiðarlegur.  

Hugrekki til að láta í ljós tilfinningar við maka sinn, af ótta við að jafnvel missa hann eða særa.  

525912_10150925020918460_1818531631_n

Ertu fastur/föst í fórnarlambshlutverkinu? …

“The primary cause of unhappiness is never the situation but your thoughts about it.”
Eckhart Tolle, A New Earth
(Grunnorsök óhamingju er aldrei ástandið,  heldur hugsanir þínar um það.)
 
———————————

„Að hvíla í ásökun þýðir að þú trúir að vandi þinn sé vegna einhvers sem einhver gerði þér, það gefur ofbeldismanninum valdið, og skilur þig, fórnarlambið – eftir valdalaust, án möguleika til að verjast eða að breytast. Þess vegna heldur það að ásaka þér föstum/fastri í sjúkleikanum og verður líklega til að þér versnar.“

En þetta er lausleg þýðing á þessum texta úr bókinni „Breaking Free, eftir Pia Mellody og Andrea Wells Miller.

„Blame means you believe you have the problem you have because of what somebody else did to you, this gives power to the offender, and renders you, the victim – powerless, without the ability to protect your self or change. Therefore blaming will keep you stuck in the disease and will probably make you worse.“Ef við viljum ná bata, eða bara fara að ná að finna innri frið,  þá þurfum við hreinlega að sleppa tökum á því fólki,  eða aðstæðum sem urðu til þess að við urðum fórnarlömb. 

Ekki leita út á við eftir ófriði til að ná innri friði ..   það gengur ekki upp.  

Það mikilvægasta er að safna sjálfum/sjálfri sér saman, læra að lifa í sátt við sjálfa/n sig.  Stilla fókusinn heim og inn í eigin kjarna.

Og svona rétt í restina – endum líka á speki Tolles sem hvetur okkur til að vera vakandi og vera okkar eigin áhorfendur. 

“What a liberation to realize that the “voice in my head” is not who I am. Who am I then? The one who sees that.”
Eckhart Tolle, A New Earth 
 
(Hvílíkt frelsi að átta mig á því að „röddin í höfðinu á mér“ er ekki sá/sú sem ég er.  Hver er ég þá?  Sá/sú sem sér það!“  😉
 
479969_212909205514142_2108425776_n

Sorg … afneitun – reiði – sátt

„I was told by my GP that grief goes through three main stages – disbelief, anger, then acceptance. I can go through all three in an hour, let alone a day“ ….

Ég las þessa setningu í grein þar sem ung ekkja var að lýsa sorgarferli sínu.

Sorgarferlið er ekki slétt og fellt,  ekki svona þetta númer 1 „tékk“ svo númer 2 „tékk“ svo númer 3 „tékk“ og svo framvegis,  heldur sveiflast maður fram og til baka,  og þetta eru aðeins „main stages“  eða aðalstigin,  þau eru auðvitað fleiri.

„Ertu búin að jafna þig?“ … er vond spurning að fá mánuði eftir dauðsfall, og líka tveimur mánuðum eftir.   Það er hæpið að „jafna sig“  eftir svo stuttan tíma,  í hvaða sorgarferli sem er,  og þetta er ekki svona bara eins og að fá flensu eða eitthvað álíka.

Reyndar verðum við aldrei söm og áður,  eftir að stórt skarð er hoggið sem dauðsfall náins vinar, vinkonu, maka, systkinis eða afkvæmis.

Við eigum betri daga og verri daga,  betri stundir og verri stundir,  betri mínútur og verri mínútur.   Þó að þessir betri dagar komi og maður nái jafnvel að hvíla í jafnvægi einhverja stund,  þá er undiralda sorgarinnar svo sterk og minnir á sig.

Lífið heldur áfram,  þó að manni langi stundum til að stöðva allar klukkur,  eins og segir í ljóði skáldsins Audens.

Það eru líka margir þröskuldar á sorgarferlinu,  sem þarf að yfirstíga.  Fyrst er það bara hreinlega að þurfa að hitta fólk, – aðrir þröskuldar eru t.d. að fara að stunda vinnu,  mæta á samkomur,  alls konar hátíðir,  afmæli,  páskar,  jólin  (úff)  í fyrsta skipti sem við gerum eitthvað eftir að sá eða sú sem okkur er kær hefur yfirgefið þetta jarðneska líf.

Ég er að fara að stíga yfir mjög erfiðan þröskuld nk. fimmtudag,  en þá er ég að fljúga í fyrsta skiptið til Danmerkur eftir dauðsfall dóttur minnar.   Síðast þegar ég kom var ég að fara beint á spítalann til hennar,  en það var 20. desember sl.  Þarsíðast þegar ég kom,  í lok nóvember 2012,  tók hún „surprise“  á móti mér á flugvellinum.  Við féllumst í faðma og grétum.

Nú er ég í fyrsta skiptið að koma og hún er ekki þar,  en ég er að heimsækja börnin hennar.   Tilfinningin er blendin,  tilhlökkun að sjá börnin er mjög mikil,  en tómleikinn verður mikill að hafa hana ekki þar líka, og ALLT minnir á það sem var og þá tíma sem við áttum saman í Hornslet,  heimabæ þeirra.

Ég er ekki að fara í fyrsta skiptið til Hornslet eftir dauðann,  svo sá þröskuldur er þegar yfirstiginn,  við Elisabeth Mai,  þriggja ára skottan, sem er lifandi eftirmynd mömmu sinnar,  fengum okkur göngutúr – þegar við fórum yfir lestarteinana varaði hún mig við og sagði að við yrðum að passa okkur að lestin keyrði ekki á okkur,  því þá yrðum við englar eins og mamma hennar.

Það var svo skrítið að hitta hana og Ísak Mána í fyrsta skiptið eftir á,  við lifum nefnilega í fólkinu í kringum okkur,  foreldrar lifa í börnum sínum og börn í foreldrum,  og við öll í hvert öðru,  því öll erum við eitt í raun.  Það er hægt að sjá börnin í frænkum og frændum líka og frænkur og frændur í börnum.    Ég horfði á litlu Elisabeth Mai og sá í raun mömmu hennar á hennar aldri, að sama skapi sagði hún: „Jeg savner dig amma, og svo byrjuðu tárin að trilla og hún sagði „Jeg savner min mor“..

afneitun – reiði – sátt

reiði – sátt – afneitun

sátt – afneitun – reiði

Kannski minnkar skammturinn af sorginni hægt og rólega,  ég held að það sé það sem gerist.  Ég er svo „menntuð“  í þessum fræðum að ég er meðvituð,  ég hreinlega get horft á sjálfa mig utan frá,  og ég veit svona u.þ.b. allt sem skiptir máli varðandi sátt og sorgarferli,  og sorgarferlið er vissulega þroskaferli þó þetta sé þroski sem ég hefði kosið að öðlast á allt annan máta.

Bikarinn er allt of beiskur og ég er bara mennsk.

Og hversu menntuð eða reynslurík sem við erum og kunnum mikið af aðferðum við að komast í jafnvægi,  þá sleppum við ekki við sorgina,  henni verður ekki ýtt til hliðar eða hlaupið frá henni,  því það er um leið flóttinn frá sjálfum sér.  Sorgin er núna hluti af sjálfri mér,  um leið og sáttin er hluti af sjálfri mér.

Við förum í gegnum þetta,  flýjum ekki eða förum framhjá.  Það eru þröskuldarnir sem við yfirstígum,  komumst lengra og lengra,  en bara á okkar tíma og okkar hraða og þegar við erum sjálf tilbúin.

En nei,  ég er ekki búin að jafna mig.

Í lok þessa pistils ætla ég að gera það sem ég geri á hverjum degi í huga mínum.   þakka fyrir veitta vináttu vinanna og samstarfsfólks,  þakka börnin mín Völu og Tobba,  þakka barnabörnin,  þakka fjölskylduna mína, systkini mín, þakka fyrir manninn minn,  Jón Friðrik – því að stuðningur hans og elska er mér ómetanleg í þessu sem öðru sem á móti okkur blæs,   og síðast en ekki síst að þakka Evu Lind fyrir allt það sem hún kenndi mér með lífi sínu og gerir enn.

Lifum af heilu hjarta.

WEBBizCardFront

Kvöldstund með nautn og núvitund …

Það er svo gaman að prófa eitthvað nýtt og læra af því um leið.

Það er líka gaman að starfa við eitthvað skemmtilegt.

Mér sýnist að eftirfarandi gæti verið það sem kallað er „Win-Win… vinna –  fyrir bæði mig sem leiðbeinanda/kennara og þátttakendur sem þiggjendur/nemendur. –

Leika og læra.

Það sem verður í boði:

Einn gestgjafi kallar á 6 – 10 aðila til að bjóða í mat m/meiru.

Dagskráin er eftirfarandi:

Kl.  18:00    Mæting – og kynning á þátttakendum og leiðbeinanda,  og leiðbeinandi kynnir sjálfa sig og hvað er í bígerð.

Kl.  18:30   „Hvað vil ég“ .. þátttakendur komast að eigin draumum og vilja.

Kl.  19:00   Borðhald m/fyrirlestri um núvitund og mataræði,  borðhaldið er bæði fyrirlestur og núvitundaræfing, – þar sem listin að njóta matar/lífsins er kynnt fyrir þátttakendum.  Aðalréttur gjarnan léttur réttur,  fiskréttur, kjúklingur eða salat.  Eftir mat er súkkulaðihugleiðsla.

Kl. 20:00   Heimferðarhugleiðsla og slökun,  sest niður í hring og leiðbeinandi leiðir í slökun og fer með hugvekju fyrir hópinn.

Markmið:  Að vekja til vitundar um mikilvægi þess að njóta!   Auk þess er stundinni ætlað að vera afslöppuð, ánægjuleg og laða fram gleði og sátt innra með þátttakendum!

Kynningarverð:

3.500.-   krónur pr.  þátttakanda.

Frítt fyrir gestgjafa,  sem útvegar þó mat og húsnæði.

Gestgjafi fær gjafapoka m hugleiðsludisknum Ró og ýmsu góðu til áminningar um það að njóta og lifa í sátt.

(Lágmark 5 (auk gestgjafa) – hámark 15)

Í boði á virkum dögum eða um helgar,  eftir samkomulagi og möguleiki að færa tímasetningar til.   Er sveigjanleg í samningum.

Hafið samband johanna.magnusdottir@gmail.com til að fá nánari upplýsingar eða panta.  Getur verið í boði á á landsbyggðinni ef samningar nást.

Ath!  Ekki er æskilegt að bera fram vín m/mat, fyrir eða eftir því þá er hætta á að eitthvað skerðist núvitundin!

Byrjar í mars.

p.s. ekki leiðinlegt 😉

Leiðbeinandi: Jóhanna Magnúsdóttir. johanna

Maki eða dúkkuvagn …

Anna litla átti dúkkuvagn,  hann hafði legið óhreyfður í langan tíma uppi risi og þar fékk hann að rykfalla í friði. –  Hún var hætt að leika með hann.

Fríða kom í heimsókn með mömmu sinni,   til mömmu Önnu –  Anna og Fríða fóru upp í ris og Fríða sýndi dúkkuvagninum áhuga og spurði hvort hún mætti setja dúkkuna sína í vagninn og prófa að keyra um.   Anna sagði að það væri eiginlega ekki hægt þar sem hún væri akkúrat að fara að nota vagninn og ætlaði að fara út að viðra hann með dúkkuna sína. –

Þetta er ekkert óvenjuleg saga af börnum, – eitthvað dót hefur legið óhreyft en um leið og einhver annar sýnir því áhuga þá vill eigandinn fara að leika með það.

Lengi býr að fyrstu gerð, og eðli okkar og eiginleikar eru í raun eins og barna alla tíð.  Eða að miklu leyti eins og barna.

Stundum komum við fram við manneskjur eins og Anna lét með þennan dúkkuvagn.   Við „eigum“ þær og þær bara eru þarna –  við veitum þeim ekki athygli og þær eru til „afnota“ fyrir okkur þegar okkur dettur það í hug.

Ég er að leyfa mér að líkja þessu við t.d. hjónaband eða sambönd þar sem fólk er farið að taka hvort öðru sem sjálfsögðum „HLUT“  .. já hlut í staðinn fyrir sem manneskju af holdi og blóði.   Maðurinn bara „er“ til staðar,  eða konan.  Þau gera ýmislegt fyrir hvort annað og leggja ýmislegt til en allt er orðið sjálfsagt og lítið um virðingu,  athygli,  þakkir,  – gagnkvæm samskipti á jákvæðum nótum.

Hvað svo þegar kemur þriðji aðili inn í svona „dautt“ samband? –   Hvað ef að önnur kona veitir manninum athygli eða annar maður veitir konunni athygli.  –  Þetta er MINN! ..  Þetta er MÍN! …

Athygli er lykilorð í mannlegum samskiptum,  ég ítreka það líklegast aldrei nógu oft.  Tökum engu og engum sem sjálfsögðum „hlut“ ..   Þakklæti er annað lykilorð,   –  þökkum það sem við eigum og höfum,  og látum þau sem okkur eru kær vita hvað við erum þakklát fyrir þau,  og meinum það.

tumblr_lou3i3Q8z11qbwf39o1_500

 

Ég elska mig, ég elska mig ekki, ég elska mig ….

Okkur þarf að þykja nógu vænt um okkur sjálf, elska okkur,  til að láta ekki fólk sem haldið er sjálfseyðingarhvöt draga okkur niður.  Ef mikið er af neikvæðu fólki í lífi okkar,  þurfum við að skoða hvaða leið við höfum verið að fylgja sem laðar svoleiðis fólk að okkur.

Getur verið að við séum ómeðvitað að næra eigin neikvæðni?

Þegar við breytumst, skiptum við um farveg – breytum við siðum og verðum öðruvísi,  breytast hinir líka og framkoma þeirra við okkur breytist, eða þá að þetta fólk lætur sig hverfa úr lífi okkar svo að það sé pláss fyrir það fólk sem kann að meta (hin nýju)  okkur.

Sama hvað gerist, sama hvernig heimurinn snýst, þá er það alltaf jákvætt að fara að þykja vænt um sjálfa/n sig og samþykkja sig.

Valentínusardagur hvað? …

Bolli til sölu